Sólarglenna

Það fór ekki fram hjá mér að sólin lét aðeins sjá sér og vindar lægðu þó ekki væri logninu að fara. Svo fór sem ég vissi, ég svaf bév.. fýluna að mestu úr mér. Vaknaði í öllu falli öllu bjartsýnni en upp á síðkastið.

Mætti galvösk upp á 11-E í morgun og drifin upp í rúm með det samme. Hafði misskilið tímasetninguna þannig að mín var of sein fyrir. Átti að fá þessa fínu ,,kæruleysispsrautu" fyrir sýnatökuna en ekki reyndist nægur tími. Það var því skjálfandi hrísla sem lá undir sængini á leiðini á Röntgen. Fann öllu allt til foráttu, (í hljóði Note Bene) legustellingunum, kuldanum í herberginu og bókstaflega öllu sem ég gat hugsað upp á staðnum. Starfsfólkið annað hvort varð ekki vart við það eða lét á engu bera (trúlegra) og mín sett á magan fyrir herlegheitin. Var nú aldeilis ekki á þeim buxunum, hef ekki legið á maganum í fleiri mánuði en viti menn það gekk. Var eins og argasta óhemja þegar kom að deyfingunni en þorði ekki að láta það uppi svona upphátt alla vega.

Sérfræðingurinn var algjör snillingur og fljótur að deyfa. Síðan tók við dúllerí og bið eftir því að deyfingin verkaði og ég alveg ákveðin í að þetta yrði allt óbærilegt og miklu meira. Við yrðum öruggleg að hætta við, hugsaði ég með mér. Óhemjusakapurinn og nálarfóbían í algleymingi. Í stuttu máli fékk ég spennufall; ég varð nánast ekkert vör við sýnatökuna þó á langinn drægist! Doktorinn gat hamast eins og hann vildi, ég æmti ekki. Náði þessu fínu sýnum, sneiðmyndartæki var notað til að hitta örugglega á réttan stað þannig að greiningin ætti að vera leikur einn og örugg þegar kemur að henni. Mér skilst að það líði a.m.k. 5 virkir dagar þangað til niðurstaða liggur fyrir.  Reikna með niðurstöðum um miðja næstu viku.

Þetta voru sem sé öll ósköpin, búin að dauðskammast mín í allan dag. Er ótrúleg óhemja þaegar kemur að nálastundum sem ná lengra en í vöðva. Fóbían algjör. Lét svo fara vel um mig næstu klst. á eftir eða þar til blæðingarhætta var liðin hjá. Hins vegar fór svo mikil orka í stressið að ég er búin að vera óendanlega þreytt seinni partinn.  Léttirinn er hins vegar það mikill að mér finnst ég loksins fær í allan sjó. Biðtíminn hefur tekið á og farið mikið í skapið á mér. 

Ég finn það ekki síst núna þegar þessi sýnataka er að baki, hvað hún hefur legið eins og mara á mér og hamlað mér hressilega.Trúlega aukið á öll einkenni sem plaga mig. Stóð í þeirri meiningu framan af að ástungan yrði gerð í létri svæfingu en auðvitað mátti ég segja mér annað. Ég átti að vita betur. Ég var hræddari við ástunguna sjálfa en niðurstöðurnar. Ég er ekkert fædd í gær og veit alveg hverjar þær gætu orðið. Einhvern veginn er ég samt ekkert að æsa mig yfir þeim. Ef eitthvað miður kemur út úr þeim, tekur maður á því eins og hverju öðru (skít-)verki.  Ég neita því ekki að óneitanlegra yrði allt einfaldara ef ekkert finnst við frumuskoðun. Það verður bara að koma í ljós. Sýti helst glataðan tíma, hefði viljað vera búin að ljúka þessu af fyrir löngu, ligg ekki á því. Rannsóknarpakkanum ætti að vera lokið í bili, fæ tíma í magspeglun þann 7. okt. og hef engar áhyggjur af henni.

Fann eirði mér að byrja á verkefnum í kvöld, hef ekki verið í standi til að sinna þeim af einhverju viti upp á síðkastið. Er á eftir í skilum en vona að hægt verði að taka tillit til aðstæðna. Hlakka til að kljást við þau á næstunni. Krosslegg svo fingur um að næstu skref mín liggi í átt að vinnu, get ekki beðið eftir því að lífið komist í eðlilegan farveg. Eitt er víst að ég hef ekki efni á því að vera veik öllu lengur, hvorki í andlegum skilningi þess orðs né veraldlegum. Nú er kominn tími á að ég verði afkukluð. Ekki seinna að vænna.W00t

Ég stefni að því að bretta upp ermar á morgun og vera í góðu skapi.  Vona að veðrið verði sæmilegt.

 


Haustlægðirnar

Mikið skelfing er ég orðin þreytt á eilífu roki, rigningu og leiðindum í veðrinu. Ekki hægt að hafa opna glugga án þess að það hrikti  í kofanum. Tíkurnar á orginu út í það endalausa enda stöðugt að vakta þá gömlu og húsið. Ef ég vissi ekki betur, teldi ég að draugagangur væri hér. Svo mikið gengur á, á köflum.  Ég held að við séum allar komnar með ,,inniveru syndrome" sem einkennist af fúlu skapi og almennum leiðindum.

Magspegluninni var frestað í dag. Þegar ég hafði beðið fram yfir hádegi var ljóst að doktorinn var kallaður á skrðstofu og óvíst um hvenær yrði laus aftur.  Því var ekkert annað að gera en að skríða heim og fara aftur á biðlistan. Get ekki sagt að ég hafi glaðst mikið yfir því.

Er einhvernvegin búin að vera handónýt það restina af deginum, ekki í stuði til að gera nokkurn skapaðan hlut.  Mér finnst biðlundin horfin og úthaldið farið. Hef aldrei þolað óvissu vel, komið mér reyndar á óvart síðustu vikur hvað ég hef látið mig hafa í þeim efnum en nú er það búð'. Búin að halda ró minni ótrúlega þó, miðað við fyrri reynslu í þeim efnum. En nú er einhvern veginn komið nóg, ég get ekki hugsað mér að vera svona deginum lengur. Vil hrista þessi bév... veikindi af mér og urra mig áfram í gegnum lífið. Búin að fá nóg af verkjum, slappleika og sleni. Tipla á tánum með hvað ég get borðað, láta mig hafa óþægindin og kyngja velgjunni.  Óteljandi vandamál hrannast upp með hverjum deginum sem líður sem er óþolandi að geta ekki ráðist í. Kannski ekki svo flókin í eðli sínu en verða það þegar getan er skert og manni er kippt út af atvinnumarkaðinum. 

Leyni því ekki að ég kvíði morgundeginum. Læt eins og smákrakki út af væntanlegri sýnatöku sem verður örugglega ekki neitt, neitt þegar á hólminn er komið en úff! Tilhugsunin er hrikaleg akkúrat núna. Veit að mín bíður viku til tíu daga bið til viðbótar í óvissu, hef ekki hugmynd hvernig ég höndla þá bið. Þolinmæðin svo gjörsamlega á þrotum, finnst ég ekki geta meir. 

Ef ég þekki sjálfa mig rétt, verða þessar hugsanir að baki á morgun og ég tekst á við það sem framundan er. Heilbrigðiskerfið er það seinvirkt að mér finnst að það ætti að beita dagsektum þegar fólk lendir í endalausri bið.  Kannski lausnin sé eftir allt saman einkavæðing og þar með samkeppni.   Ef kerfið væri að virka eðlilega væri ég komin með niðustöður fyrir mörgum vikum síðan og farin að kljást við þekkt vandamál í stað óvissunnar og einkenni hennar. Ég geri mér grein fyrir því að flestir innan kerfisins gera sitt besta en hafa takmörkuð úrræði úr að moða. Það strandar á pólitískum vilja, að mínu mati.

Nóg af þeim vangaveltum, ekkert annað en að koma sér í koju með mitt fúla skap.  Sofa það úr mér. Geri ráð fyrir áframhaldandi haustlægðum með tilheyrandi þannig að ég læt mig ekki dreyma um breytingar þar, einungis breytingar á því syndromi sem er að angra mig og ferfætlingana hér. Á morgun kemur nýr dagur......

 

 

 

 


Á rólinu

Ósköp tíðindalítð héðan af vígstöðvunum. Hef hangið í því að vera rólfær síðustu vikuna, sef eins og mér sé greitt fyrir það í yfirvinnu. Næ illa að sofa á næturnar vegna verkjanna sem þó eru heldur skárri eftir að ég fór að taka allra handa lyfjakokteila til að draga úr þeim.  Er allan daginn að fá mér kríu, ..leggja mig aðeins" klukkutíma hér og klukkutíma þar. Hef reyndar ekkert fyrir því, sest í stól eða í sófan og BANG! Fékk einverjar bév... magapest um helgina og vissi lítið af mér en er öll að koma til.

Mér hefur fundist tíminn fljótur að líða í sumar og haust, þrátt fyrir því að vera heima yfir engu nema sjálfri mér og tíkunm. Síðustu 2 vikurnar hafa þó varla mjakast áfram sem tengist trúlega þeirri staðreynd að ég er orðin ansi þreytt á því að bíða og bíða eftir því að fá botn í mín mál. Unnið er að því í rólegheitunum, allt tekur óratíma. Fer í magspeglun í fyrramálið til að tékka hvort sárið sé ekki gróið. Hef engar áhyggjur af spegluninni, hef ekki tölu yfir það hversu oft ég hef farið þannig ég kvíði engu þar. Hún tekur fljótt af.

Hef meiri áhyggjur af miðvikudeginum en þá er fyrirhuguð ástunga á brjóstholi til að ná sýni frá þeim stað sem einhverjar breytingar virðast vera að láta kræla á sér. Er bókstaflega ,,terrified" með mína nálarfóbíu að fara í ástunguna vakandi. Fannst það þó skárri kostur en berkjuspeglun, mér til sælla minninga haustið 2006. Auðvitað á ég ekki að láta svona en ég þoli ekki nálar, er eins og ósamvinnuýður krakki í þeim efnum. Ég reikna með að ástungan verði gerð í deyfingu, gæfi mikið fyrir létta svæfingu þar, takk fyrir. Mér skilst ég þurfi síðan að liggja eitthvað eftir ástunguna áður en ég fæ að fara heim. Ætli niðurstöðu sé nokkuð að vænta fyrr en eftir viku til tíu daga. Enn meiri bið sem sé en að henni lokinni ætti ég að vita hvað ég er að kljást við. Mér finnst allt þetta hafa verið á hraða sigilsins. Hefði ekki trúað þessu fyrirfram nema að þetta var nákvæmlega eins og fyrir 2 árum. Þá tók greingaferlið rúmar 8 vikur.

Það hefur verið fátt annað í stöðunni en að bíða og bíða, halda geðheilsunni og bölva í hljóði. Sætta sig við ástandið eins og það er. Mér hefur reynst það fjan... töff, vil drífa hlutina af strax, ekki seinna en í gær, þar sem því er komið við. Hef ekki verið það brött að geta haft eitthvað af viti fyrir stafni en held mig alltaf við það markmið að komast út í búð daglega, rétt til að viðra mig og búa mér til erindi út fyrir hússins dyr. Úthaldið býður ekki upp á heimsóknir, verslunarferðir o.s.frv.  Veðrið og kuldinn hafa gert þar strik í reikninginn. Vonandi fer það að skána. Ég skil nú gamla fólkið sem hugsar mikið um veðrið og virðist ekki tala um margt annað. Veðrið hefur nefnilega ekki einungis áhrif á sálartetrið heldur og einnig líkamlega líðan.  ,,Gigtin" versnar svo sannarlega þegar kalt er í veðri o.s.frv.  Ég fann mikin mun á mér úti á Krít í þeim efnum. Mjög notalegt, satt best að segja.

Í öllu falli vona ég að biðtíminn framundan verði styttri en sá sem liðinn er. Þetta er svooooo   drepleiðinlegtCrying  Við eigum gott heilbrigðiskerfi en einhvern veginn virkar það á hraða snigilsins. Ugglaust margar skýringar á því en engu að síður óásættanlegt. 

Reyni að einbeita mér að innanhúss vandræðum og gaurangi hjá ónefndum stjórnmálaflokkunum til að stytta næstu bið. Af nógu er að taka í þeim efnum Tounge

 


Afmæliskveðja

Litla systir mín, sem þó er nokkur stærri en ég, á afmæli í dag. Innilegar hamingjuóskir með daginn. Mér tekst vonandi að koma þér á óvart með allt mitt gullfiskaminni, rétt náði þér fyrir miðnætti!Tounge

Nú hefst undirbúningurinn af fullri alvöru fyrir stóra daginn að ári liðnu!

kata_gunn_spyrill.jpg


Ekki laus enn

Er ekki nógu sátt eftir daginn. Hitti minn spesialist í morgun sem fór yfir rannsóknirnar. Virðist  skv. niðurstöðum þó ennþá heil í kollinum og beinaskannið í lagi fyrir utan ummerki ótal rifbeinsbrota og inngrips eftir brjóstholsaðgerðina. Staðan á þeim beinum gefur ærið tilefni til verkjanna í brjóstkassanum enda fjölmargar taugar- og taugaendar sem liggja um svæðið til beina og vöðva í skralli. Verð að búa við það ástand ævilangt en menn eru að prófa sig áfram með meðferð á þeim verkjum sem gengur skítsæmilega. Ekki er að sjá neitt óeðlilegt við sneiðmyndina af kvið en sú sem var tekin af brjóstholinu var ekki eins jákvæð. Einhverjar breytingar eru á svæðinu á milli vi. lunga og þess hægra sem var fjarlægt. Gæti verið örvefur og bólguviðbrögð sem er auðvitað kærkomin skýring en gallinn við hana er sá að þessar breytingar hafa ,,breyst" á milli sneiðmynda sem nemur um ca. 4 mm. Allt annað hreint og fínt.

Miðað við ástand síðustu vikna, þ..e megurð, úthaldsleysi og slappleika er ekki stætt á öðru en að taka þetta alvarlega og kanna betur. Það þarf því að ráðast í sýnatöku (mér til skelfingar) til að kanna hvað sé á ferðinni þarna. Er ekki yfir mig kát yfir þessum fréttum þó ég sé vissulega sammála því að skoða þetta betur. Annað væri kæruleysi. En þetta þýðir enn frekari tafir og bið.

Er farin að þrá að komast í vinnu og þoli ekki þetta veikindastúss öllu lengur.  Sýnatakan sem slík þarf ekki að taka neitt óskapar tíma en tefur mig og alls ekki það sem mig langaði að heyra. Er því í ,,fýlu" í dag enda sé ég fram á enn frekari tafir, bið og fja... óvissu. Þessar niðurstöður verða teknar fyrir nk. föstudag á ,,allsherjarfundi"(teymisfundi) lækna LSH þar sem ávkeðið verður hvaða aðferð skuli beitt við sýnatökuna og síðan tekur einhvern tíma að komast að í hana. Allir eru farnir að þekkja álagið á LSH. 

Þar á eftir tekur við bið eftir niðurstöðum um þær frumutegundir sem er að finna  í sýninu sem getur tekið allt að 10-14 daga. Þá fyrst liggur Stóri dómur fyrir og  hægt að ákvarða hvað eigi að gera í stöðunni; fylgjast með áfram eða ráðast í að gera eitthvað (skemmtilegt). Mér til sællar minningar tók greiningaferlið hjá mér 8 vikur fyrir tæpum 2 árum, get ekki hugsað mér annað eins til enda. Ég bókstaflega fæ hroll.

Mér dettur þó ekki í hug að mála vegginn svartan og skríða skælandi undir sæng að svo stöddu. Ekki tilefni til þess en ég er pirruð, það get ég fúslega viðurkennt.  Allur vafi kemur að stað ákveðnu hugsanaferli, allt fer á flug og ímyndunaraflið fer á kreik. Þarf reyndar ekki mikið til að kveikja á því.  Er búin að vera á vælinu núna meira og minna síðan í nóvember í fyrra með mína verki og aðra vanlíðan en tíminn sem tekur að komast til botns í málum virðist óendanlegur. Ekki bætti sumarið úr skák né síðast uppákoma. Urrrrrrrrr..   hvað þetta er fúlt.

Get þó ekkert annað gert en að taka þessum fréttum. Mig munar svo sem ekki mikið um enn eitt (skít-)verkið enn eða súran bitan. Ég og litla famelían erum orðin ýmsu vön í þeim efnum. Því er ekkert annað en að þrauka áfram um stund og láta reyna á biðlundina. Verst að þetta hefur áhrif á fleiri en mig, krökkunum eðlilega ekkert rótt úti og löngu orðið tímabært að snúa aftur til vinnu.

Við höldum okkar striki sem sé og ég held áfram að vinna í að styrkjast og hressast. Tiktúrurnar í kringum fæðuinntekt stjarnfræðilegar og einstakar, satt best að segja og eftir því eftirminnilegar. Er þó að koma hægt og bítandi. Veðrið má aðeins ganga niður svo mér takist að skrönglast í göngutúrana, pallapúlið innanhús dugar ekki til að koma mér í form. Meira þarf til og það skal hafast.


Guðjón Arnar næstur

Mínar spár um innri mál Frjálslyndra flokksins sl. haust virðast vera að ganga eftir. Með innkomu Jóns Magnússonar í flokkinn á sínum tíma og þeim átökum sem fylgdu í kjölfarið mátti öllum vera ljóst hvert stefndi. Fyrsta skrefið var að víkja Magréti Sverrisdóttur úr flokknum með því að strípa af henni allar fjaðrir enda hún hindrun fyrir Bakkabræðurna Jón M, Magnús Þór og Sigurjón Þórðar. Forðmaðurinn virtist annað hvort ekki hafa séð í gegnum þessa leikfléttu eða borið gæfu til að afstýra þeirri sundrung sem varð  meðal flokksmanna og lét berast með. Ásteitingsefnið var ekki síst málefni innflytjenda en Margréti fannst málflutningur Bakkabræðra bera keim af útlendingahatri. Fjölmargir fylgdu henni í þeim skoðunum og nokkuð fækkaði í flokknum. Síðan hafa verið 2 stríðandi fylkingar innan hans varðandi innflytjendamálin; annars vegar þeir sem fylgja yfirlýstri stefnu Frjálslyndra flokksins og hins vegar þeir sem hafa fylgt róttækum Bakkabræðrum að máli og ber þar hæst að nefna hinn hjáróma formann ungra FF, Viðars Guðjohnson. 

Nú beinast spjótin að Kristni H en sem starfandi þinglokksmaður hefur hann fylgt yfirlýstri stefnu FF og í samráði við formann flokksins og reynt að draga heldur úr öfgafullum  málflutningi Bakkbræðra. Hafa þeir oftar en einu sinni froðuflett yfir þeirri bíræfni þingflokksformannsins.  Fyrir nokkrum vikum fór Sigurjóni Þóðrarsyni að berast opinberar stuðnings yirflýsingar héðan og þaðan og hann hvattur til að fara gegn sitjandi formanni á næsta landsfundi. Formaður ungra FF hefur farið þar fremstur í flokki, Magnús Þó og Jón M hafa ,,verið hlésmegin" í þeirri umræðu svona útavið.  Sigurjón hefur tekið ,,hólinu" eins og kettling sem er strokið og skorast auðvitað ekki undir áskorun sem þessari. Jón M hins vegar nýlega kosinn formaður félags FF í Reykjavík enda löngu ljóst að hann ætlar sér frekari landvinnunga innan FF. Hann virðist hafa stuðning til þess, miðað við yfirlýsingu miðstjórnar nú á dögunum.

Atburðarrás síðustu vikna hefur ekki verið flókin flétta og mynstrið auðlesanlegt. Allt frá komu Jóns M. inn í flokkinn hefur borið á pirring og sundurleysi. Ekki bætti úr skák þegar félagarnir Magús og Sigurjón duttu af þingi en aðrir komust inn og/eða héldu sínum þingsætum. Áttu erfitt með að sætta sig við að Kristinn færi inn í þeirra kjördæmi en ekki þeir. Það duldist engum. Sigrujón taldi víst að Kristinn hefði komið í veg fyrir að hann fengi framkvæmdarstjórastöðu inan flokksins ef að illa færi í kosningunum. Magnús fær að fljóta með, a.m.k. ennþá. Hann þykir nokkuð ör og fljótfær þannig að það spurning hvernig gengur að beisla ,,orku" hans.  Viðar reynist ágætis málpípa fyrir Bakkabræður enda heyrist hátt í þeim unga manni þó innihaldið sé fremur rýrt.

Allar götur síðan hefur mátt lesa í spilin þá strategíu að koma Guðjóni Arnari frá og þar með Kristni H og það með að beina athyglinni að Kristni til að byrja með til að slá ryki í augu flokksmanna.  Ekki gátu menn setið endalaust á sér og beðið eftir að þau meðlöl verkuðu enda virðast sumir sjá Sigurjón Þórðar í hyllingum sem formann og Jón Magnússon sem næstráðanda. Jón M ætlar sér örugglega frekari landvinninga síðar. Þar sem meintar ávirðingar sem beindust að Kristni virtust ekki hagga formanninum hafa tjöldin verið dregin frá og spjótin í síauknum mæli að berast að formanninum sjálfum.

Formaðurinn hefur reynt að stýra skútunni og  sætta þessi ólíku öfl innan flokksins sem slást um það hvort að fylgja eigi eftir stefnu hans eða að hygla undir persónulegum metnaði og valdaþörf einstakra flokksmanna og þingmanna. Grétar Mar virðist styðja sinn formann, a.m.k. ennþá en fróðlegt verður að sjá hvað verður í þeim efnum. Ekki er að sjá að viðleitni formannsins sé að skila árangri því óðum stefnir í enn aðra hallabyltinguna. Síðast var Margréti fórnað og hennar stuðningsmönnum, nú er formaðurinn sjálfur ásamt Kristni á gapastokk Bakkabræðra.

Gangi strategía Bakkabræðra eftir verður harla lítið eftir af Frjálslynda flokknum á næstu misserum. Bakkabræður hafa fælt ótal manns frá flokknum vegna öfgakenndra skoðana sinna. Kannski hafa þeir aflað nýs fylgis vegna þeirra, það má vel vera en alla vega mælist það fylgi ekki ekki. Jón M mun ekki hleypa Ólafi F inn í borgarstjórnarkosningarnar eftir tæp 2 þannig að hann er væntanlega úti. Þekki ekki alveg nógu vel til að sjá hvern Jón M ætlar sem arftaka hans þar á þeim vettvangi. Kannski hann vilji sitja þar sjálfur eða koma Magnúsi Þór þar inn þar sem hæpið er að hann fái eitthvert fylgi meðal Vestlendinga eftir árangur sinn í kjördæminu síðustu misserin.  Ég hygg að pólitísku starfi hans sé lokið á þeim vettvangi.

Hvað sem öðru líður tel ég víst að með óbreyttu áframhaldi mun annað hvort Frjálslyndi flokkurinn í sinni upprunalegu mynd hafa þurrkast út  í næstu alþingiskosningum og nýr flokkur tekin við sem gæti borið nafnið ;Öfgasinnaðir frjálslyndir harðlínumenn" eða að núverandi formanni og forystumönnum  flokksins hafi tekist að tukta sína menn og hreinsa ærlega til innan herbúðar þannig að flokkurinn standi undir því nafni að vera frjálslyndur flokkur.

Bakkabræðrum liggur augljóslega á í sínum landvinningum þannig að ekki virðist rými fyrir upprunalega stefnu flokksins. Skil eiginlega ekki í þeim að vera bara ekki búnir að kljúfa sig út, í nýjum flokki væru þeir alvaldir þar sem þeirra stefna myndi blómstra og allur sá stuðningsskari sem þeir eiga innan FF gætu flygst í kringum þá líkt og jólatré. Það yrði fróðlegt að sjá hversu fjölmenn sú hirð yrði og hvað fylgið myndið mælast hjá þeim flokki.

Össur Skarphéðinsson sér ástæðu til að blogga um öfgamenn FF og er það vel. Finnst mér hann komast vel að orði eins og oft áður og hittir naglan á höfuðið. Ég læt það hins vegar liggja á milli mála hvort að Kristinn H eigi heima innan Samfylkingarinnar enda ekki mitt að svara því. Boðið er hins vegar höfðinglegt.

Hvað sem mínum vangaveltum líður, má öllum vera það ljóst að Bakkbræður ætla sér gegn sitjandi formanni og koma honum frá, þrátt fyrir hjáróma yfirlýsingu Jón M. um annað. Allir vita betur. Þeim munar ekkert um að ryðja nokkrum súlum og sleggjum um koll í leiðinni. Það er svo annað mál hvort þeir hafi burði til þess. Whistling

 

mbl.is Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skínandi í gegn

Þá geislar og lýsir af frúnni, hægt að sjá í gegnum mig, vænti ég. Geislavirk með afbrigðum, tók 2ja daga pakka á einum degi sem er bara fínt, gott að vera búin. Allt gekk skv. áætlun.

Einn skásti dagurinn um nokkurt skeið, hef þó verið á róli og rölti, tókst meira að segja að moppa stofugólfið hjá mér í fyrsta sinn í all langan tíma. Tíkurnar hafa fengið meiri athygli en oft áður, blessaðar. Ræð þó illa við göngutúrana, er völt eins og drukkin hefðarfrú sem stundar dagdrykkju þessa dagana, leita til hægri sem er náttúrlega ósættanlegt.  Tel mig frekar vinstri sinnaða.....Arkaði í búðina og keypti mér haframjöl og rjóma, nú skal tekið á því! Get ekki með nokkru móti borðað það sem mér hefur fundist gott, s.s. salöt, samlokur, koktailsósu, steikur o.fl. Einfaldleikinn í fyrirrúmi á þessum bæ og hollustan auðvitað!

Lyf og rannsóknir  kostaði mig um 45 þús krónur og er ég komin með aflsáttarkort.  Mér reiknast til að kostnaður vegna rannsókna og lyfja sé kominn yfir 400 þús. krónur það sem af er af þessu  ári. Ekki bólar á því að nýju lyfjalögin hafi tekið gildi enn. Þess bera að geta að þetta er þó einungis minn hluti af kostnaðinum, ríkið tekur annan kostnað á sig sem er umtalsvert hærri en hér um ræðir. Verð þó að viðurkenna að þetta kemur við budduna. Ætti kannski að setja söfnunarbauk á tröppurnar hjá mérTounge

Í öllu falli er ekkert grín fyrir fólk að vera veikt í dag, það má segja að veikindi sé einungis fyrir forréttindahópa og hálaunafólk. Ég get rétt imyndað mér hvernig láglaunafólk fer út úr málum, ég býst við að teljast til eins konar ,,miðstéttar" launalega séð en höndla þennan kostnað illa engu að síður.

Næsta skref er síðan á miðvikdag, allar klukkur í húsinu stilltar til að minna mig á Stóra dóm. Vona að hinn nýji ,,ferskleiki" minn haldist á morgun þannig að ég geti haft nóg fyrir stafni. Kannski það sópi og gusti af frúnni? Hver veit? Allt getur gerstW00t

 alarm_clock_203_203x152.jpg

 

 

 

 

 

 

Kannski mér leyfist að láta mig dreyma um frekari sigra og landvinninga eftir viðtalið á miðvikudag. Þangað til ýti ég slíkum draumum frá mér og  einbeiti mér að grámyglulegum hversdagsleikanum. Fer ekki að koma tími fyrir haustlaukana - hvernig er það?

Framundan enn skertari kjör að sögn forsætisráðherra. Hvað gera veiku smáfuglarnir sem komast af, þá?  Farfulgarnir eru óðum á förum úr landi.  Sumir eru orðnir það tæpir að þurfa að stela sokkum og nærfatnaði fyrir einhverja þúsundkalla. Dómskerfið setur það ekki fyrir sig að taka slík ,,léttvæg" dómsmál fyrir sem ugglaust mætti ljúka með einfaldari hætti (og þannig spara sko)

Ekki hefur ráðherra eða ríkisstjórn hans komið með tillögur að úrræðum fram að þessu fyrir utan meiri sparnað okkar einstaklinganna.  Hugsanlega er ráðherran að boða breyttar áherslur í þeim efnum.  Hver myndi ekki fagna því??  Aldrei að útiloka neittTounge

Brakandi fjör í Breiðholtinu hjá Villa næstu daga, það er kannski málið að skella sér á þá.  Alla vega virðist vera logn í herbúðum innan borgarinnar þessa dagana og er það vel, svo fremi sem það boði ekki logn á undan storminum. Ekki það að við séum ekki sjóuð......Whistling


Fylgikvillar

Er smám saman að koma mér niður á jörðina eftir fríið. Ferðalagið tók sinn toll, á því er enginn vafi enda ekki af miklu að taka.  Hef þjáðst af óstjórnlegum kulda frá heimkomu, verið svo kalt að föðurland og 2-3 peysur hafa ekki dugað til þegar verst lætur. Hef skolfið eins og hrísla en ekki frá því að mér sé farið að hlýna enda orðin býsna þjálfuð í aðlögun.

Það styttist til tíðinda hjá vandræðagemsanum, rannsóknir allan daginn á morgun og niðurstöður á miðvikudag. Er löngu búin að týna tölu yfir þau skipti sem ég hef þurft í röntgen, sneiðmyndir og skann á þessu ári enda kannski farin að beita eins konar varnaraðgerðum í þeim efnum. Það veldur sjokki að rifja þetta upp og halda þessu til haga. Að mínu mati hefðu niðurstöður átt að liggja fyrir strax um síðustu mánaðarmót þegar ég lá inni á LSH. Sumarfrí, langar og stirðar boðleiðir og margt fleira innanhúss aftraði því þó. Kerfið er seinvirkt með eindæmum og augljóst að ekki er verið að horfa í fórnarkostnað sjúklingins þegar kemur að skilvirkninni. Það virðist ekki þykja tiltökumál að einstaklingar missi úr vinnu vikum saman vegna seinvirks kerfis, skorts á samráði og innbyrðis togstreitu á milli deilda. 

Mér hefur oft verið hugsað til öryrkja síðustu 2 árin eftir að ég greindist. Sjálf hef ég þurft að vera frá vinnu mánuðum saman og aðlagast breyttu hlutverki eða öllu hlutverkaleysi án þess svo sem að fá einhverja aðstoð eða stuðning við það. Flestir geta ímyndað sér áhrif þess að vera kippt af vinnumarkaðinum og settur í rúmið eða Lazy-boy stólinn heima. Sektarkennd, eirðarleysi, óvissa fylgir og maður missir fótanna í ákveðnum skilningi. Hættir að vera mikilvægur og/eða hluti af vinnustaðnum, hlutverk manns hverfur a.m.k. tímabundið. Vissulega koma inn önnur hlutverk enda ,,full time job" að vera sjúklingur og í meðferð. Þau hlutverk koma þó aldrei í staðinn fyrir þau fyrri. Sum þeirra eru erfiðari en önnur og ber þá fjármálin þar hæst sem fara öll í skrall af eðlilegum ástæðum og er efni í heila bók.

Eftir að hafa verið kippt út úr mínu starfshlutverki trekk í trekk til langs tíma hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mér myndi ganga mjög illa að aðlagast því að verða óvinnufær með öllu og þurfa að vera upp á ríkið komið. Á ég þá ekki við fjárhagslegu hliðina sem þýddi vissulega algjört hrun heldur andlega og félagslegu hliðina. Það að geta ekki sinnt því starfi sem ég hef valið mér og verið gjaldgeng á vinnumarkaði myndi fara með mig, það veit ég fyrir víst. Öryrkjar hafa hins vegar yfirleitt ekkert val í þessum efnum og þurfa að sætta sig við orðin hlut án þess að geta haft áhrif á gang mála. Mér virðist sem flestir þeirra nái að sætta sig við breytingarnar, eftir mislangan tíma, og sýna þann kjark og dug að aðlagast breyttu lífsformi og hlutverki. Ég get því ekki annað en dáðst að þeim einstaklingum sem ná þeim árangri en jafnframt sýnt þeim sem það ekki gera, skilning og aðdáun.

Þunglyndi er algengur fylgifiskur veikinda sem hafa varanleg áhrif á viðkomandi sem bætist síðan ofan á alla aðra erfiðleika og mótlæti.Ég veit núna eftir reynslu síðustu 2 ára að ég myndi ekki standa mig vel í breyttu hlutverki sem öryrki og myndi eiga í miklum erfiðleikum við að fóta mig í breyttu hlutverki. Það geta ekki verið margir, þegar upp er staðið, sem sætta sig við það að verða öryrkjar þó gagnrýni margra í þjóðfélaginu bendi til annars.  Er þá gjarnan horft til fjölskyldna þar sem 3. og 4. kynslóðin er að koma fram sem öryrkjar. Sá hópur er örugglega í miklum minnihluta og á sér ýmsar skýringar. Stimpillinn einn og sér dugar ekk í mínum huga.

Ég hef löngum horft til haustsins með breytingar á mínum högum í huga. Það hefur tekið mig góða stund að átta mig á því hvert ég vil stefna við þau kaflaskil sem ég hef staðið frammi fyrir síðasta árið. Ég ákvað að taka mér góðan tíma enda ekki beint á tvítugsaldrinum. Hef átt virkilega erfitt með að sjá mig í breyttu hlutverki og/eða starfi og það hefur ekki verið þrautalaust að átta sig á því hvar ég vil búa. Höfuðborgarsvæðið hefur ekki fallið í kramið hjá frúnni, er orðin of mikil landsbyggðatútta. Engu að síður var ég farin að leita fyrir mér og skoða málin af fullri alvöru þegar ég lenti í fótbrotinu. Varð þá að setja allt á bið enda fer engin að segja upp starfi sínu eða færa sig um set í veikindaleyfi. Sú bið hefur heldur betur dregist á langinn, eitt hefur tekið við af öðru.  Ekkert lát hefur virst á þeirri þróun og enn er allt sett á ,,hold". 

Síða 1. apríl hef ég að mestu leyti verið fjarverandi í mínu starfi og verið heima 24/, mánuð eftir mánuð. Var þó lansöm að geta lokið ýmsum af mínum skyldustörfum með góðra manna hjálp.  Hrútleiðinlegt hlutskipti sem hefur auk þess sett allar áætlanir, drauma og væntingar úr skorðum. Verið pikkföst, hvorki komist aftur á bak né áfram og stundum upplifað ástandið eins og að vera í kviksyndi. Fyrir hvert skref áfram hafa 2 verið aftur á bak og stundum rúmlega það. Sú tilfinning að vera atvinnurekendum erfitt tilfelli og kostnaðarsamt, ekki einu sinni heldur aftur og aftur hefur farið verst í mig. Auðvitað hefur mér hundleiðst heima yfir engu nema sjálfri mér og tíkunum en það hefur verið smámál samanborið við frammistöðu mína gagnvart atvinnurekendum mínum. Veikindi starfsmanna hafa auðvitað áhrif á samstarfsmenn, starfsemina sem slíka og skapa ávkeðinn stjórnunarvanda. Það er ekki auðvelt að skapa þær aðstæður ítrekað.Slíkur starfsmaður er ekki eftirsóttur.

Síðustu mánuðurinir hafa því verið fjandi töff, ég ligg ekki á því. Það stoðar ekkert að vorkenna sér en vissulega bognar maður á stundum. Ég vil, líkt og flestir, standa mína pligt og njóta þess að stunda þá vinnu sem ég hef valið mér. Hafa tilgang og hlutverk, bæði sem móðir, húsmóðir og starfsmaður. Ég er því orðin nokkuð pirruð yfir þeim seinagangi í heilbrigðiskerfinu sem ég hef mátt þola síðustu máuðina. Þó ég hafi verið það lánsöm að detta ekki niður í dýpsta pytt þunglyndis þá hefur mér ekkert liðið vel. Margir mánuðir hafa farið til spillis frá því í vetur en strax þá var ég ,,vangreind" og rangt greind þegar kom að krankleika og líðan. Fékk vissulega þá greiningu að vera með magasár en engin vandamál leyst þannig að þau hurfu ekkert við þá greiningu. Eins og heilbrigðiskerfið er sett upp í dag er sérhæfingin það mikil að athyglinni er beint á það tiltekna svlði líkamans sem er sjúkt hverju sinni,  í stað þess að horfa á vandamálin í heild og tryggja samráð á milli sviða og þar með lækningu á ,,öllum pakkanum". Enginn tekur lengur á heildarmyndinni þegar kemur að veikindum einstaklinga. Heilsugæslan virðist einnig bregðast í því hlutverki að samræma meðferðarúrræðin og vea eins konar tengiliður á milli sjúklings og kerfisins.

Brotinu í vetur fylgdi m.a. lyfjameðferð sem var eitur í magan en menn spáðu lítt í það. Bæklunarlæknar eru lítið að ,,fara inn á svið" lyflækna og öfugt þannig að vítahringur myndaðist sem lauk með sprungnu magasári núna síðla sumars með tilheyrandi sýkingum og veikindum. Enn og aftur var lítt samráð haft á milli sviða, ég versnandi af verkjum sem hafa fylgt mér eftir brjóstholsaðgerðina. Magasárið og sýkingarnar meðhöndlaðar og síðan bang! Útskrift og önnur vandamál enn til staðar, ómeðhöndluð. Komst reyndar að því fyrir tilviljun að einhverjar breytingar voru á lungnamynd sem þyrfti að skoða um leið og ég útskrifaðist. Ekki mátti nýta legu mína á LSH til að vinna það mál upp þó ástæða þætti brýn.  Ó nei og sei sei, það mátti bíða!  Minn sérfræðingur í sumarfríi en fékk með herkjum tíma hjá staðgengli sem í raun gat ekkert gert fyrr en menn kæmu úr sumarfríum sínum sem var nú í september. Mig skal ekki undra þó eitthvað sé um ótímabær dauðsföll þegar kerfið virkar með þessum hætti.

Ég er svo sem enn lifandi en hefði gjarnan þegið að vera komin með greiningu á ástandinu fyrir 4 vikum síðan í síðasta lagi. Auðvitað hefði það átt að liggja fyrir um síðustu áramót, mars eða í byrjun júní en nei, mönnum kom ástand mitt, fyrir utan krabbamein og brot á hnjálið og legg, ekkert við. Því fór sem fór.

Pirrings og reiði út í heilbrigðiskerfið er farið að gæta hjá mér. Mér finnst sem síðustu mánðum hafi verið stolið af mér í bókstaflegri merkingu svo ekki sé minnst á öll veikindin, verkina og aðara vanlíðan sem hefði mátt meðhöndla með viðeigandi hætti mun fyrr. Hver dagur, vika og mánuður eru mér dýrmæt því ég veit ekkert fremur en aðrir hvað ég fæ langan tíma hér í þessari jarðvist. Ég vil því njóta þess að vera lifandi hér og geta tekið þátt í atvinnu- og þjóðlífinu af fremsta megni. Auðvitað er ekki hægt að lækna allt og ekki kemst maður samstundis að alls staðar enda er ég ekki eini veiki einstaklingurinn hér á landi. Mér finnst hins vegar ég eigi fullan rétt á því að fá greiningu og viðeigandi meðhöndlun eins fljótt og auðið er. Uppbygging kerfisins, boðleiðir og samskiptavandar á milli sviða eiga ekki að hamla því ferli né stuðla að  frekari framþróun sjúkdóms hverju sinni.

Mér finnst bæði ég og krakkarnir hafi verið snuðuð um þetta sumar. Það leið án þess að fá fulla bót á meinum og einkenndist af miklum verkjum, úthaldsleysi, lystarleysi og almennri vanlíðan. Við náðum fáum markmiðum okkar, urðum að einbeita okkur að einum degi í einu og komast í gegnum hann. Ferðin út gerði mér gott, hitinn virtist draga úr ýmsum einkennum, úthaldið jókst og ég gat meira notið mín en áður. Það finn ég ekki síst eftir að heim er komið, kuldinn hefur sitt að segja þegar kemur að líðaninni.

Allt tekur á enda segir máltækið og vona ég að það eigi við nú eftir morgundaginn. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, mun ég fagna þeim. Það er gríðalega erfitt að upplifa erfiða líðan og verki án þess að vita um ástæðuna. Hið óþekkta veldur alltaf kvíða og óvissu,ég viðurkenni það fúslega að hvorutveggja háir mér nú. Á hverju á ég von nk. miðvikudag? Hver verður framtíðin og hvað verður til úrræða? Verður hægt að finna úrlausn yfir höfuð? Þetta eru spurningarnar sem klingja stöðugt í höfðinu, ég er engin undantekning. Við viljum, jú, flest lifa sem lengst og eiga möguleika á að láta markmið og drauma rætast. Við eru fæst tilbúin að lúta í lægra valdi fyrir sjúkdómum eða slysum en fáum oft ekkert við það ráðið. Ég og mín fjölskylda er ekkert frábrugðum öðrum að því leytinu til. Við viljum fá tækifæri til að lifa lífinu og ná settum markmiðum. Öllum er ljóst að allt líf á sér upphaf og endir en fæstir eru reiðubúnir til að sætta sig við það sem okkur finnst ótímabær fráföll. Ég get einungis ímyndað mér hvernig foreldrum sem missa börn sín á unga aldri líður. Flestir sætta sig betur við dauðan þegar hann ber að garði þegar háum aldri er náð. Maðurinn er þó ótrúlega aðlögunarhæfur þar sem sumir ná að sætta sig við ,,ótímabær"veikindi sem valda fötlun af einhverju tagi eða dauða en slík aðlögun tekur tíma.  Þann tíma fá ekki allir.

Vonandi fer óvissu okkar hér í minnil litlu famelíu að ljúka þannig að hægt verði að vita við hvað við erum að kljást og hvað sé til úrræða. Baráttan gengur betur þegar óvinurinn er sýnilegur.  Þrátt fyrir yfirþyrmandi leiða og pirring á ástandinu er ég þess fullviss að þegar öll spil eru komun upp á borð fær maður kraft á ný til að takst á við næsta verkefni, hversu ,,skítlegt" það verður. Það er engin uppgjöf hér á bæ, einungis þreyta, leiði og pirringur. Er ekki sagt að öll él stytti upp um síðir? Orðið tímabært að beisla pirringin og reiðina í það sem framundan er. Morgundagurinn er stíft bókaður og verður strembinn Whistling


Klukk, klukk

Ég var klukkuð af bloggvinkonum mínum; Sigrúnu Jóns og Sigrúnu Óskars og verð hér með við þeirri áskorun. EKki endilega létt verk og kom á óvart, komst að ýmsu um sjálfa mig sem mætti lagaWhistling

Hér kemur niðurstaðan:

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

Fiskvinnsla

Kokkur á sjó 

Hjúkrun

Kennsla

Ætti kannski að nýta menntunina í viðskiptafræðum, trúlega hagkvæmara eða hvað??

Fjórar kvikmyndir sem ég held upp á:

Gaukshreiðrið

Pearl Harbor

Titanic

Braveheart

 Vá hvað ég er dramtísk!

dramaticskies.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Garðabær

Vestmannaeyjar

Húsavík

Búðardalur   

bu_ardalur_2.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Hm, ég hef ekki enn búið á Austfjörðum.........

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Bolungarvík

Akureyri

Kanarí

Krít

Þarf að endurskoða sumarleyfi og önnur frí, áratugir síðan ég hef heimsótt staði innanlands

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

www.hi.is

www.kristinn.is

www.hjukrun.is

www.bifrost.is

workaholicoffice.jpg

 

 

 

Á bólakafi í vinnu og námi, þarf að poppa þetta eitthvað upp

 

 

Fjórar bækur sem ég les oft:

Mannauðsstjórnun. (Human Resource Management) eftir Torrington, Hall og Taylor)

Stjórnun og stefnumótun.   (Corporate Strategy) (Lynch, R. (2006).

Secret - Leyndarmálið

Móti hækkandi sól. Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Vá, rosalega er þetta þurrpumpulegt, Snýst allt um vinnu og nám.  Úff!!! Nörd?

nord.jpg

 

 

 

 

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna:

Hjá ungunum í Debrecen í Ungverjalandi

haffi_og_kata_2_669674.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Í minni fyrrum heimabyggð

Vestmannaeyjum

Í  vinnunni

Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka

Katan.blog.is

Katagunn.blog.is

Lindalinnet.blog.is

Husmodirin.blog.is

Gangi ykkur vel............................Tounge

 i_got_you_669681.gif

 

 

 

 


Home sweet home

Lent á klakanum og skriðin inn í kofa eftir 24 klst. vöku. Að sjálfsögðu seinkun á vélinni sem dróst úr því að vera 1 klst. upp í 5-6 klst., er of ryðguð til að muna það. Efni í heila færslu að velta fyrir sér framkomu við farþega og rétt þeirra í aðstæðum sem þessum, skilst að fyritækið sem annast flug fyrir ÚRval/Utsýn og Plúsferðir sé komið í greiðluþrot með tilheyrandi afleiðinum. Fátt á gera í stöðunni annað en að kyngja þeim hundsbita en ég mun seint kyngja því að þurfa að sætta mig við algjöran skort á upplýsingaflæði til farþega, illan aðbúnað, matarleysi og erfiðar aðstæður klukkutímum saman. Ekki hósti, stuna né andvarp frá farastjórum sem voru stútungskerlingar á mínu reki og þar yfir, einungis þögn, vandræðaleg bros, flótti og feluleikur.

Farþegahópurinn var margbreytilegur og margur hefur  átt erfitt  síðusta hálfa sólahringinn. Nokkuð stór hópur þroskaheftra var meðal farþega, einhverfur drengur, nokkrir rígfullorðnir í hjólastólum, urmull af litlum börnum með foreldrum sínum og síðan öll flóran sem endurspeglar okkur mannfólkið. Svo má náttúrlega ekki gleyma ,,Brazelíunni", henni mér, með tilheyrandi sérþörfum og dyntum.

Vélin sem fengin var í snarhasti í gegnum Iceland Express er trúlega á mínum aldri, merkt Italy/Polsk. Maður hafði á tilfinningunni að ýmsir hlutar hennar hengu saman af gömlum vana, alls staðar hökti í henni, brak og brestir á ólíklegustu stöðum. Sætin upp á ,,gamla mátan", erfitt að halla þeim og hönnuð fyrir einstaklinga í kjörþyngd. Þeir sem ekki uppfylltu það skilyrði urðu að láta sér duga að ,,sitja á gírstönginni", alveg eins og í den.   Flugið minnti í stumáli á ökuferðir um Kambana forðum daga þegar bifreiðar óku um ,,þvottabretti" á 20-30 km. hraða. Allt hristist og skalf og ,,vegurinnn" ansi holóttur. Einhverjir supu hveljur á leiðinni, þ.á.m. ég.

Það sem mér fannst kannski verst við flugið var sú staðreynd að ekki var til nægur matur til að bjóða farþegum til kaups. Öll höfðum við beðið á flugvellinum á Krít í fleiri klukkutíma sem taldi einn kaffi- og samlokubar með vafasömu áleggi. Þessi eini staður þjónustaði alla farþega til og frá eyjunni. Kaffið mátti skera með hníf og gaffli, farþegum ráðlagt að fara ekki alla leið í gegnum öryggishliðið fyrr en rétt fyrir brottför sem var á óræðum tíma (sem ekkert okkar vissi hver yrði) enda ekkert við að vera þegar komið var að hliðunum, að undanskyldum enn minni kaffi- og samlokubar og fremur óálitlegum sætum úr harðplasti af einhverri gerð. Menn voru því orðnir ansi langeygir eftir hressingu þegar út í vél var komið og eftir enn aðra töfina, í þetta sinn í klukkustund til viðbótar.

Flugfreyjan upplýsti pöpulinn að því miður væri ekki nóg til af mat til að bjóða til sölu í samræmi við góða þjónustu flugfélagsins. Freyjan vonaðist til þess að sem flestir svæfu á leiðinni, það myndi draga úr óþægindum. Varð mér nóg um að heyra þessa tilkynningu og ekki skánaði skapið mitt þegar mér varð á að horfa upp á einn farastjóran og ektamann hennar (by the way; bæði yfir kjörþyngd), panta tvöfaldan skammt af pizzum og samlokum, vitandi að fyrir aftan þau var full vél af fólki, ekki síst öldruðum, fötluðum og börnum og að ekki yrði nóg fyrir alla. Þau voru eins og ég, heppin að fá að sitja framarlega í vélinni en þar var mínum sérþörfum mætt.  Ég missti alla vega lystina og snéri mér að svefni hinna réttlátu af fremsta megni.

Í heildina var ferðin yndisleg, var passlega löng, var búin að fá nóg af hitanum síðustu 2 dagana sem varla fór undir 35°C.  Held að ég hafi hreinlega fengið sólsting á laugardaginn  með tilheyrandi......Whistling.  Ekki var mikið um ferðalög né skoðunarferðir, ég var að mestu leyti á sama blettinum en krakkarnir meira hreyfanlegir. Þeir voru skelfilega treg á að kanna næturlífið, hafðist reyndar einu sinni alla ferðina. Frúin var fjarri góðu gamni en mér var það mikils virði að þau skylda drífa sig og anda aðeins. Ég átti marga góða daga þar sem mér leið vel en einnig nokkra vonda daga sem voru töff. Ég komst í gegnum þá en kýs að gleyma þeim. Verst var að finna að mín líðan hafði áhrif á krakkana, eðlilega.

Haffinn og Katan komin til Debrecen, fluttu í nýtt, glæsilegt húsnæði á meðan dvöl þeirra stóð á Krít sem er mjög rúmgott. Ég hugsa mér gott til glóðarinnar í náinni framtíð. Allt gekk að óskum hjá þeim og við Heiða komnar í okkar kot um hánótt.   Mér tókst að koma óbrotin á áfangastað og í heilu lagi. Bitin hér og þar af árasagjörnum fiskum og pöddum, en ekkertalvarlegt. Tókst meira að segja að ná mér í lit þannig að ,,Skipasundargráminn" er minna áberandi en ella.

Framundan alvara lífsins, enn og aftur. Enn er leitað svara, menn ættu loksins að vera komnir úr sumafríum og mér lofað að rannsóknum verði keyrðar i gegn með hraði. Ligg ekki á því að vera ósátt við framgang mála fram til þessa, fleiri mánuðir sem hafa farið í veikindi af ýmsum toga sem hafa kippt mér út úr atvinnulífinu og gert mér lífið virkilega leitt. Úr því verður bætt á næstu dögum og botn fenginn í allt þetta bév.... bras! Er komin með upp í kok af krankleika og heilbrigðiskerfinu. Kannski það standi til bóta eftir samþykkt frumvarpsins í dag - eða hvað??

En vá!  Hvað það er gott að vera komin heim, jafnvlel þó eitthvað hafi farist fyrir með tæmingu á ísskápnum W00t Sef á því í nótt Tounge

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband