Afmæli

Elsku mamma mín hefði orðið 52 ára í dag.  Ekki eru nema átta mánuðir síðan við kvöddum hana í faðmi okkar. 

 

Mamma var mín helsta hetja í lífinu. Ég skil ekki hvernig hún fór að því að vakna á degi hverjum, vera heimsins besta mamma og lifa lífinu eftir allt sem hún gekk í gegnum.  Persónulegar árásir í vinnu, einkalífinu og i pólitík tóku mjög á hana og okkur fjölskylduna en hún lét þó ei bugast og varð enn sterkari og ákveðnari en áður.   Fráfall Guðjóns, mannsins hennar, fór mjög illa með hana enda mjög óvænt og átakanlegt.  Eins og venjulega stóð hún þó bein í baki í gegnum þá erfiðleika sem fylgdu andláti hans og bloggaði hún mikið í gegnum sorgina.  Það má segja að bloggið hafi verið ákveðin hjálp í vinnslu sorgarinnar og eignaðist hún marga góða vini í gegnum það.  Þegar veikindin hrjáðu hana sótti hún styrk í kveðjurnar á blogginu og því voru þær ómetanlegar fyrir hana sem og okkur börnin.  Ég vil geta þess að Þórdís Tinna, bloggvinkona hennar heitin, hvílir einungis 4 leiðum fyrir neðan mömmu.  Áttu þær í sérstöku en yndislegu samandi.   En þessir erfiðleikar sem ég nefni  eru þó einungis dropi í djúpu hafi.   

 

Mamma synti á móti straumi allt sitt líf og var án efa fædd undir óheillastjörnu. Það má segja að þessi þrautarganga í gegnum lífið hafi mótað hana, gert hana eins frábæra og yndislega og hún var.    Hún var einstaklega frábær hjúkrunarfræðingur og ekki síðri kennari.  Náði hún að kenna mér margt faglegt sem ég mun búa við alla ævi.  Hún kom starfsfólki 11 E sífellt á óvart, neitaði að gefast upp og sýndi þvílíka þrautseigju.   Ótruleg hetja og mín helsta og besta fyrirmynd í lífinu.  Hún var mín mamma, besta vinkona, systir, frænka og undir það síðasta litla barnið mitt.  Í veikindunum hennar tengdumst við órjúfanlegum böndum.  Á Krít sofnuðum við hönd í hönd og höfðum aldrei sofið jafnvel. Við höfðum ,,sleep over” á deildinni og dekruðum við hvor aðra.   Ég sef nú með kápuna við hlið mér og finn enn mömmulykt. Enn stend ég mig að því að fara hringja í þig enda er þetta enn svo óraunverulegt.  Ég þrái ekkert heitar en að knúsa þig og kyssa.  Mig vantar svo mömmu mína, okkur Haffa vantar múttu okkar.  Þú varst tekin frá okkur alltof snemma. Við höfum reynt að aðlagast lífinu án þín en það hefur gengið brösulega en við munum þó halda áfram að reyna því það hefði þú gert.   Ég treysti því að amma knúsi þig og skáli við þig í dag með ABBA á fóninum því það verður allavega gert hér í Engjaselinu.  Skál.

Til hamingju með daginn elsku mamma,

 

Love you 2 elsku besta mamma mín. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þetta var yndislegt og ljúft

Ég hef oft hugsað til ykkar og sárlega vantað fréttir af ykkur eftir lát mömmu ykkar.  Fóruð þið aftur út, eða hélduð þið námi ykkar áfram hérna heima?

Mamma ykkar var einstök og mér þótti afskaplega vænt um hana, þótt við höfum sennilega aldrei hist augliti til auglitis en hún var svo "lifandi" penni að manni fannst maður þekkja hana.  Alla vega kynntist maður ást hennar og væntingum til ykkar barnanna hennar 

Vona að allt gangi ykkur í hag.  Guð blessi minningu Guðrúnar Jónu

Sigrún Jónsdóttir, 6.10.2009 kl. 22:34

2 Smámynd: Ragnheiður

Elskuleg vinkonan mín, mikið hræðilega sakna ég hennar og pistlanna hennar. Hún gekk sífellt með vindinn í fangið, þessi stórbrotna kona.

Ég hef líka oft hugsað til ykkar Haffa, hvernig þið hafið það og hvernig gangi. Þið voruð henni svo mikill drifkraftur að unun var að lesa.

Ástarkveðjur í tilefni þessa ljúfsára dags, dagsins hennar, hetjunnar okkar.

Ragnheiður , 6.10.2009 kl. 23:58

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Guðrún Jóna gaf ótrúlega mikið af sér hérna á blogginu líka. 

Hlýjar kveðjur til ykkar systkina og annarra í fjölskyldunni. 

Anna Einarsdóttir, 6.10.2009 kl. 23:59

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Elsku Kata mín og Haffi minn....

Mamma ykkar var einstök sál og einstök kona með stórt hjartaog ást hennar til ykkar var falleg og stór og stolt var hún af börnunum sínum og það var svo ljúft að lesa hennar góðu pistla.hvort sem það var um börnin hennar,pólitík,vinnuna eða bara hvað sem var...hún var góður penni og falleg sál :O)

Að missa móður er sárt,svo sárt að manni verkjar í allan skrokkin og sálin er svo dofin að maður gleymir stað og stundenn eitt veit ég að með tímanum þá verður sorginn minni og um leið falleg minning.....falleg minning um Mömmu sem allt gat og var best í heimi.....

Og ég vil óska ykkur alls hins besta elsku systkin og bið Guð að veita ykkur hjálp í sorginni og einnig styrk til að taka hvern dag fyrir sig.Ég er alveg viss um að Mamma ykkar sé ekki langt undan og örugglega strýkur hún um vanga ykkar til að þið finnið að þið eruð ekki ein...það er ég svo sannarlega viss um...

Guð blessi ykkur elskurnar mínar og gangi ykkur allt í haginn....

Ástarkveðja Linda

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 7.10.2009 kl. 10:48

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Gott að lesa þetta Kata mín. Við mamma þín eigum sama afmælisdag!  Hún var slíkur forkur að hún á fáa sína líka.

Kær kveðja

Hólmdís Hjartardóttir, 8.10.2009 kl. 12:16

6 Smámynd: Sigrún Óskars

Fallega skrifað hjá þér Kata.

Gaman væri að vita aðeins af ykkur - maður fylgdist með ykkur í gegnum bloggið hennar mömmu þinnar. Hvað eruð þið komin langt í læknisfræðinni?

Bestu kveður og gangi þér allt í haginn

Sigrún Óskars, 8.10.2009 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband