Yfirmáta rólegt

Það hefur verið ansi rólegt yfir minni litlu famelíu sem spókar sig nú í sólinni. Nánast engir Íslendingar í nánasta umhverfi og hitinn fer upp í 35°C á daginn (a.m.k.!) þannig að driftinn er lítil. Daglegt líf snýst um að þola við á sólbekknum, úða í sig vökva og brjóta heilann um það allan daginn hvað við ætlum að borða í kvöldmat og hvar. Lífið snýst því um fátt annað en sólbrúnku, sólbruna, vökva og næringu.  Vissulega laumast áhyggjur og ýmsar hugsanir að mér þegar ég ligg á sólbekknum. 'Ýmiss mál sem bíða úrlausna og nokkur óvissa er um hvernig fari sækja á hugan en ég var ákveðin að reyna að skilja þau eftir heima þennan stutta tíma sem ég yrði fjarri. Það  hefur að mestu leyti gengið eftir.

Þar sem lífið snýst um mat og aftur mat, get ég stært mig af því að vera farin að borða aftur, reyndar eins og fugl sem kroppar í matinn er stöðugar, daglegar framfarir. Svipað og gerðist þegar ég fór út eftir lyfjameðferðina og andlát Guðjóns. Hitinn virðist gera kraftaverk.  Er talsvert úthaldsmeiri nú en fyrir viku síðan, geng lengri vegaleiðir án þess að þurfa að hafa súrefniskút í eftirdragi og blæs minna úr nös.Verkjaköstum hefur fækkað, sjaldan fleiri en 1-2 á sólahring. Ég náði sögulegum árangri þegar mér tókst að liggja út af á sólbekknum og síðar í rúmi en það hef ég ekki getað gert síðan í byrjun nóvember.  Gríðaleg framför þar, að mínu mati og algjör lúxus!

Eins og við var að búast lenti mín í smá óhappi í gær. Var reyndar farin að undrast yfir því að hafa sloppið ótrúlega vel þessa vikuna. Óhöppin voru reyndar tvö hvert af öðru spaugilegra. Hafði safnað í mig kjarki til að vaða út í sjóinn þegar ég hnaut í eins konar holu í sandinum og hringsnérist með stæl í einhverja hringi og síðan á bólakaf. Lenti að sjálfsögðu á hægra hnénu, mér til skelfingar. Slapp ótrúlega vel, víravirkið í hnénu hélt og ég jafnaði mig fljótt. Mér skilst að í þessum hringsnúning mínum hafi ég sýnt einstæða og áður óþekkta€ listræna hæfileika sem vöktu ómælda athygli strandverja. Stolt mitt var hins vegar sært og beið hnekki.

Í seinna óhappinu komu fleiri að málum, leigubílstjori keyrði yfir mig, rétt si sona!  Litla fameilían var á leið í dinner og hafði pantað leigubíl til að komast á leiðarenda. Þegar ég var búin að koma öðrum fætinum og afturendanum upp í bílinn,  ákvað bílstjórinn að leggja af stað. Hægri fótur enn fyrir utan. Það þarf ekki að spyrja hvernig fór, hann ók yfir hæl og rist. Þrátt fyrir hávær öskur frá minni, hugðist maðurinn halda áfram. Gaf sig á endanum og sá hvers kyns var. Ég held ég hafi sjaldan séð eins hræddan mann áður.  Krossaði sig bak og fyrir, hljóp marga hringi í kringum bílinn, signdi og kallaði hástöfum; ,,hospital, hospital".  Það þarf ekki að koma neinum á óvart þegar ég afþakkaði það góða boð hið snarasta heldur snéri mér að því að reyna að meta áverkan. Steig í fótinn og þar sem það gekk, héldum við okkar striki. Þegar við komum á áfangastða  aftók bílstjórinn með öllu greiðslu fyrir túrinn og virtist manna sælastur þegar hann losnaði við okkur úr bílnum. Hélt dinnerinn út en nóttin var erfið og gekk illa að stíga í fótinn sem var orðinn fjórfaldur. Gamalkunnug upplifun. Er búin að vera ágæt í dag þannig að ég slapp furðuvel. Bíð þó eftir þriðja slysinu.  Allt er þegar þrennt er, stendur einhvers staðar. 

Annars hefur litla famelían það gott, við höfum verið yfirmáta róleg, ekkert ferðast um heldur haldið okkur við sundaluagabarminn eða ströndina og notið samvista hvort við annað. Mér hefur gengið bölvanlega að fá krakkana til að kíkja á næturlífið, finnst ótækt að ungt fólk skulu ekki njóta þess í ræmur að skemmta sér. Þau hafa kosið að dunda sér með þeirri gömlu og farið snemma í koju. Heilsufarið hefur farið batnandi á allan hátt, minni verkir, aukin næringarinntekt og úthald og lengri nætursvefn. Liðverkirí lágmarki í hitanum. Andlega líðanin mun betri og ég full bjartsýni á köflum til að takast á við erfið verkefni og vandamál þegar heim er komið.

Við stefnum áfram á rólegheit, Hafinn ætlar reyndar að hreyfa sig aðeins um svæðið á meðan Katan ,,passar" þá  gömlu  W00t   Hún tekur ekki annað í mál og er þrjóskari  en ....... Við ætlum að halda áfram að njóta þessara samverustunda og hafa gaman af. Það er löngu orðið tímabært að huga að Pina Colada og öðru ,,gleðlyfi" og með óbreyttu áframhaldi verður það sú gamla sem dansar Zorba uppi á borðum.  Í öllu falli er litla famelían lánsöm að fá þetta tækifæri.


Í sól og sumaryl

Er komin út í sól og sumaryl skv. læknisráði. Við Katan flugum út sl. miðvikudag og komust á áfangastað heilar á höldnu eftir 10 tíma ferðalag með öllu. Ég verð að viðurkenna að frúin var ansi þrekuð þegar þangað var komin en er öll að koma til. Hafsteinn lauk prófum á þriðjudag og kom á svæðið á fimmtudagsmörgun eftir langt nætuferðalag.

Höfum það mjög rólegt og notarlegt, erum staðráðin í því að hafa það þannig.  Áreitið nánast ekkert ef undanskyldnar eru byggingaframkvæmdir í umhverfinu. Get varla sagt að ég hafi kveikt á tölvu fyrr en nú og þá rétt til að kíkja á fréttir.

Það er eins og við manninn mælt að þegar ég er komin í hitan, snarminnka öll hvimleið einkenni og vanlíðan. Er óneitanlega betri af verkjum.  Við stefnum að því að njóta hverrar mínútu í rólegheitum, engar skoðunarferðir eða annað brölt fyrirhugað. Hef svo sem ekki verið neinn sérstakur félagsskapur fyrir krakkana, sérstaklega á kvöldin en þarf að ýta krökkunum út á næturlífið. Sumarið fór fyrir lítið þegar kom að áætlunum og samverustundum þannig að nú verður það bætt upp áður en skólinn hefst hjá þeim á fullu.

Hitti minn lækni sl. þriðjudag sem var ekki of kátur með ástandið. Mig undrar það svo sem ekki eftir allt sem á undan er gengið. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki tvítug lengur þannig að það tekur tíma að jafna sig eftir sýkingar o.þ.h. Hef alla trú á því að ég muni koma til á næstu dögum. Fer síðan í tékk aftur eftir heimkomu og vonandi í framhaldi af því; í vinnu!

Sem sagt; rólegt á vígstöðvunum, en áhyggjufull yfir innbrotahrinu í Seljahverfinu. Vona að við sleppum, ekki það að það sé mikið af verðmætum hlutum á heimilinu en nóg af persónulegum eigum sem maður heldur upp á. Kötturin varla mikill ,,varðhundur" í sér en sem betur fer er hússins gætt.


Allt að koma

Ég leyfi mér að vona að heilsufarið sé á uppleið, hægt og bítandi þannig að það styttist í að frúin komist til vinnu. Á svolítið í land ennþá, eðlilega en líðanin mun betri og verkjaköstin færri. Verkjateymi LSH er greinilega að vinna kraftaverk. Öll nýju lyfin virðast vera að virka, eina neikvæða við þau eru kostnaðurinn sem ætlar að ganga frá manni. 

Ég hitti minn sérfræðing á morgun þar sem farið verður yfir stöðuna. Hef enga ástæðu til að ætla annað en að ástandið sé á réttri leið, þó ég hefði viljað sjá hlutina gerast hraðar. Er reyndar búin að ákveða að þetta sé síðasti veikindapakkinn.

Það styttist í að Katan fari út.  Haffinn búinn að vera í prófum og gengið vel, klárar vonandi síðasta prófið í fyrramálið. Er þá formlega kominn á 4. árið. Meiningin er síðan að litla famelían fari saman í stutt frí, svo fremi sem ég fæ fararleyfi.  Hef ekki trú á öðru. Þrái ekkert heitara en annað umhverfi, sól og hita.

Blendnar tilfinningar fylgja brotttför krakkanna, bæði gleði og tilhlökkun yfir því að byrja í náminu á ný og síðan svolítil sorg vegna brottfararinnar, eðlilega. Það tekur alltaf smá tíma að aðlagast því að vera fjarri að heiman og svo hitt að vera einn. Viðbrigðin alltaf nokkur en mesta furða hversu fljótt maður aðlagast, ekki síst þegar maður hefur nóg fyrir stafni. Það mun verða nóg að gera hjá okur öllum, á því er enginn vafi.

Ekki laust við smá spenning vegna morgundagsins enda tilhlökkun að vita hvenær ég má fara vinna. Menn hafa talað um miðjan sept. vonandi gengur það eftir. Get ekki beðið, satt best að segja.  Framundan námið í vetur, dett ekki út þó ég hafi ekki komist upp á Bifröst í sumarskólan. Verð að taka þau námskeið síðar. Huggun að vita að ég er ekki sú eina sem þannig er háttað um. 

Haustið leggst ágætlega í mig, minn uppáhaldstími.  Breytingar verða á mínum högum sem ég vona að verði til góðs. Ýmiss mál sem hafa setið á hakanum eru komin í góðan farveg, vona ég þannig að kannski sé ég fram á að þeim ljúki þegar líður á haustið.  Ástandið ætti þá að verða stabilla og minni óvissa framundan svo ekki sé minnst á áhyggjur og kvíða. Það verður ljúft þegar allt er komið í eðlilegt ástand. Margt hefur valdið því að þessi mál hafi dregist á langinn sem hefur verið íþyngjandi, vægast sagt en meira um það seinna.

Kannski ég upplifi það á haustmánuðum hvernig það er að lifa ,,eðlilegu" lífiTounge

 


Ehm,hm,hm......

Svo virðist sem formaðurinn telji sig vera í sterkri stöðu til að hafa áhrif á landsmálin, svo ekki sé minnst á efnahagskreppuna. Hefur skrifð heil ósköp um ágæti síns flokks og lagt fram hverja tillöguna á fætur annarri fyrir alþjóð.

Hyggst nú fara einn um landið og boða ný tíðindi. Það vekur athygli mína að fundarstaðir verða þó einungis fimm og allir staðsettir í landbúnaðarhéruðum. Þar kreppir reyndar skóinn svo um munar. Það mætti halda að Framsókn væri í  ríkisstjórnog að kosningar væru í náns.  En hvar eru félagar hans úr forystu flokksins? Af hverju ætli þeir sitji heima?

Skyldi þessi fundaherferð vera byrjunin á því sem koma skal, þ.e undirbúningur fyrir samstarf með Sjálfstæðismönnum á ný? Guðni var farinn að prédika um málefni Reykjavíkurborgar nokkru áður en Sjálfstæðismenn og Framóknarmenn gengu í eina sæng fyrir skömmu.

Það skyldi þá aldrei vera að það sé að slitna upp úr stjórnarsamstarfi ríkisstjórnarflokkana? Eða ætli Guðni sé illa haldinn af óskhyggju og áráttu? Fæ sennilega ekki bein svör við þeim vangaveltum mínum, tíminn mun leiða þetta í ljósWhistling

Kannski virkar strategía flokksformannsins. Verst að komast ekki á einn fund eða svo .........


Raunhæfur möguleiki

Lengi hafa menn rætt um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga og hafa málefni fatlaðra og aldraðra borið þar hæst á góma. Margt mælir með flutningi þessara málaflokka, ekki síst nálægð við einstaklingana.

Oftar en ekki hef ég samt á tilfiningunni, þegar slíkir möguleikar eru ræddir, að miðað sé við stærri sveitarfélögin  sem hugsanlega hafa bolmag til að ráðast í verkefni sem þessi. Flest sveitarfélög landsins eiga fullt í fangi með að sinna þeim málaflokkum sem þau hafa undir höndum og mörg þeirra ná ekki að sinna lögbundinni þjónustu sem skyldi. Flutningur grunnskólanna til sveitarfélagana hefur reynst mörgum erfiður biti og margir haldið því fram að nokkuð vanti upp á fjármagn til að halda úti grunnskólum, ekki síst í litlum sveitarfélögum. 

Ég sé ekki fyrir mér að sveitarfélög með færri íbúa en 1000 verði fær um að sinna þjónustu við fatlaða og aldraða.  Vegur þar þyngst að sveitarfélögin munu ekki hafa nægilegt fjármagn til rekstursins og það sem meira er, þau munu varla hafa nægilega marga fagmenntaða starfsmenn til að sinna þeim störfum sem rekstrinum fylgir. Það hefur sýnt sig með rekstur öldrunarheimila að fagfólk er af skornum skammti, ekki síst úti á landsbyggðinni. Hjúkrunarheimilin eru að veita mjög mismunandi þjónustu í dag, þrátt fyrir að daggjöld miði við tiltekna þjónustu. Sömu vandamál eru uppi á borðum með þjónustu við fatlaða, skortur er á fagmenntuðu starfsfólki og fjármagn til reksturs málaflokksins talið of naumt skammtað.

Það er því tómt mál að tala um flutning á þessum málaflokkum til sveitarfélaganna nema að tryggt verði nægilegt fjármagn og fagmenntað starfsfólk. Lítil sveitarfélög hafa enga möguleika á því að auka tekjustofna sína það mikið að þau standi undir rekstrinum og reynslan með grunnskólana hefur sýnt fram á að ríkið hefur ekki tryggt nægilegt fjármagn til reksturs þeirra.

Ríkisstjórnarflokkarnir tala nú um sameiningu sveitarfélaga sem er skiljanlegt svo sem. Of mörg sveitarfélög eru það fámenn til að geta fjármagnað  lögbundna þjónustu eins og þeim er háttað í dag. Menn hafa hingað til forðast þá stefnu að þvinga sveitarfélög til sameininga en þau hafa mörg hver verið treg til þess. Getur það verið að samgöngumálaráðherra sé að boeinkavlða breyttar áherslur núna og undirbúa þvinganir í sameiningarmálum? Það kæmi mér ekki á óvart.

Mér virðist Þingvallarstjórnin ætli að koma ýmsum málum í gegn á methraða, s.s. einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og sameiningu sveitarfélaga. Lýðræði verður trúlega ekki efst í hugum þeirra heldur hagur fjárfesta og fjármálafyrirtækja. Það hefur þegar sýnt til að ríkisstjórnin er reiðubúin til að teygja sig býsna lagnt til að aðstoða fyrirtæki í þrengingum en fátt eitt er lagt til málanna þegar kemur að einstaklingum. Á meðan þeir lenda í gjaldþrotum, verður fyrirtækjum bjargað.

Þingvallastjórnin mun sennilega hafa það í gegn að rústa landbúnaðinum líkt og sjávarútvegsbyggðunum án þess að hafa mikið fyrir því. Það heyrist varla í sveitarstjórnamönnum, menn virðast sáttir við byggða- og atvinnumálaþróun ríkisstjórnarinnar. Ætli það sama gildi ekki um sameiningu sveitarfélaganna sem þarf svo sem ekki að vera neikvæð en slíkar ákvarðanir ætti að taka af þeim sjálfum, ekki ríkisstjórninni.

 


mbl.is Nýr veruleiki sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungar ásakanir

Ólafur F, fyrrum borgarstjóri er með þungar ásakanir á hendur Sjálfstæðismönnum. Ég get að mörgu leyti skilið og fallist á þær. Valhallarmenn notuðu Ólaf eins og hverja aðra tusku til að sprengja þáverandi meirihluta upp. Hef alla trú á   því að Sjálfstæðismenn hafi hugsað sér að tjalda til einnar nætur í þessu samstarfi strax í upphafi. Voru ákveðnir í að nota tíman, þyrla upp moldviðri, róta upp jarðveginum og gera hann móttæilegri fyrir enn annan meirihlutann og þá með Framsóknarmönnum. 

En þó Sjálfstæðismenn séu oft á tíðum klókir og svífast í raun einskins til að koma sínum árum vel fyrir borð eru þeir ekki einu leikendurnir á sviðinu. Ólafur F. tók þátt í farsanum og seldi sig ódýrt.  Gaf skít í baklandið sitt og treysti á vináttu og hlýhug fyrrum flokksbræðra sinna sem höfðu áður fórnað honum grimmt, án þess að hiksta.  Gamlir fjendur féllust í faðma, lögðu til hliðar gamlar væringar og persónuleg særindi.   Gulrótin  fyrir Ólaf var borgarstjórastóllinn í 1 ár, einhverjar milljónir í að viðhalda ímynd friðaðra húsa og að setja flugvallarmálin í saltpækil um hríð. Á móti fengu Sjáfstæðismenn dýrmætan tíma til að hressa upp á ímynd sína, sameinast um nýtt borgarstjóraefni og stíga í vænginn vð Framóknarmenn á bak við tjöldin.

Eins og vera ber í góðri ,,strategiu", leið  hins vegar ekki langur tími þar til kurr og óánægjuraddir fóru að berast úr herbúðum Sjálfstæðismanna sem vilja flugvöllinn í burt og hressa upp á ímynd Reykjavíkurborgar með nútímalegri byggingum. Óánægjan magnaðist og hafði tilætluð áhrif á kjósendur sem fóru að ókyrrast. Ólafur haggaðist ekki, vitnaði í loforð og drengskaparheit Vilhjálms og Kjartans. Hélt ótrauður áfram að fullvissa kjósendur um að samstarfið væri í himnalagi. Virtist okkuð einráður í störfum sínum, t.d. í ráðningamálum sem reyndist kjörið bitbein fyrir Sjálfstæðismen  sem þögðu þó þunnu hljóði á borgarstjórnarfundum og samþykktu ráðningar Ólafs, eins og við mátti búast. Þögðu þar til þeim hentaði að koma á ókyrrð og leiðindi. 

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Sjálfstæðismenn fara illa með félaga sinn og ugglaust ekki það síðasta ef Ólafur heldur áfram í pólítíkinni.  Mér finnst það eiginlega ekki síður slæmt en vinnubrögð Sjálfstæðismanna sem eru ekki ný af nálinni. Ólafur F er sjálfur reynslubolti í pólitík og ætti að hafa lært af reynslunni. Hann kaus engu að síður að ganga til samstarfs við þann flokk sem ítrkekað hefur svikið hann sem og kjósendur hans sem hann sækir umboð sitt til.  Ég veit eiginlega ekki hvort er verra; skítlegt eðli sem öllum er kunnugt um eða það að gera sömu mistökin ítrekað.  Í báðum tilvikum snýst þetta um eigin hagsmuni og metnað í pólitíkinni, kjósendur og íbúar borgarinnar skipta engu máli. Þangað sækja þó stjórnmálamenn umboð og vald sitt. 

Hvað segir þetta okkur? Fyrir mér er þetta einfalt; kjósendur hafa ,,gullfiskaminni" þegar kemur að pólitík og kosningum. Margir kjósendur telja sig skuldbundna til að sýna ,,sínum flokk" hollustu sem nær út yfir gröf og dauða, jafnvel þó sá flokkur hafi misboðið trausti þeirra, oftar en einu sinni eða tvisvar. Þetta segir mér líka að hugsanlega vilja kjósendur atburðarrás sem þessa, valdaplott og óhreinlyndi. Mönnum virðist alla vega ekki brugðið við hverja hallarbyltinguna á fætur annari. Það sýnir sig þegar talið er upp úr kjörkössum á 4 ára fresti. Ábyrgð kjósenda er því all nokkur.

Mér hefur virst sem enginn og þá meina ég enginn kjörinn fulltrúi hafi sýnt áhuga á því að fylgja eftir kosningaloforðum og hagsmunamálum Reykvíkinga eftir. Allir virðast hafa dottið ofan í þann pytt að reyna að skara eld að sinni köku og sinna persónulegum hagsmunamálum. Enda allt í lagi, þeir hafa komist upp með það kjörtímabil eftir kjörtímabil. Það er ekkert öðruvísi núna. Sumir kjósa að láta á sér bera en aðrir læðast líkt og músin. 

Ólafur F. gerir ítrekað sömu mistökin með Sjálfstæðismönnum sem hafa þó hætt hann og spottað, gert lítið úr honum.  Í raun beitt hvaða ráðum sem er til að gera hann ótrúverðuglegan. Hann hefur tekið þátt í því sjálfur í undir því yfirskyni að  heiðarleiki og traust ríkti  í samningum þeirra á milli. Ábyrgð hans gagnvart kjósendum er því all nokkur. Honum er þó engin vorkunn. Sterkur stjórnmálamaður lærir af mistökunum og sýnir meiri klókindi.

Það er sama hversu marga  hringi ég fer með þann farsa sem hefur einkennt borgarstjórnarmálin þetta kjörtímabil, niðurstaðan er alltaf sú sama. Enginn af kjörnum fulltrúm borgarstjórnar Reykjavíkur hefur sýnt að hann sé starfi sínu vaxinn og skiptir þá engu máli hvoru megin borðs þeir hafa verið og eru. Allir hafa tekið þátt í pólitísku plotti og hallarbyltingum og staðið í þeirri trú að þeir séu klókari en hinir. Öllum hefur mistekist þar sem upp hefur komist um þá alla og slóðin liggur eftir hvern og einn. Engin nógu klókur, einungis misbláeygðir. 

Niðurstaðan eftir hverja hringferðina á fætur annari er alltaf sú sama; það á að skipta út öllum kjörnum fulltrúum Reykjavíkurborgar í næstu kosningum. Enginn núverandi borgarfulltrúi hefur sýnt að hann sé þess traust verður sem hafa borgarbúar sýnt með atkvæði sínu.

Oft hef ég haft skoðanir á embættismannakerfi hins opinbera go ekki alltaf sátt við það vald sem embættismenn hafa. Í fyrsta skipti hef ég samúð með opinberum starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Starfsskilyrðin hljóta að vera hrikaleg, menn vita aldrei hvað morgundagurinn felur í sér og hverjir verða við völd í næstu viku. 

Það segir sig sjálft að kostnaðurinn við eilíf meirihluta- og borgarstjóraskipti er gríðalegur. Kjósendur hafa ekkert um það að segja fyrr en í næstu kosningum - en þá er hætt við að minnið bresti. Ég get ekki sagt að ég sé stolt af því að teljast til kjósenda Reykjavíkurborgar eins og pólitíkinni er háttað hér í dag. Prísa mig sæla yfir því að mitt atkvæði fór í annað sveitarfélag fyrir 2 árum þannig að ábyrgð mín er nákvæmlega engin. Ég tók ekki þátt í þessari hringavitleysu.W00t

Það verður erfitt að sannfæra mig eftir tæp 2 ár, fari svo að ég verði búsett í höfuðborginni. En hvað sem mínum vangaveltum líður varðandi Óalf F. og aðra borgarfulltrúa þá á enginn maður skilið þá útreið sem Ólafur F. hefur fengið meðal ,,félaga sinna", borgarbúa og ekki síst fjölmiðlamanna sem hafa oft verið það rætnir að maður getur ekki stillt sig um að velta fyrir sér fyrir hverja þeir skrifa sinn boðskap. Þeir geta vart talist hlutlausir í fréttaflutning sínum um þennan eina mann.Ég get því verið sammála fráfarandi borgarstjóra um það að þetta er einelti í sinni grófustu mynd.


mbl.is Svik, lygi og pólitísk slátrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vikan senn á enda

Ég einfaldlega skil ekki hversu vikan er fljót að líða, síðasta helgi ný liðin og framundan sú næsta. Ég bjó mig undir það að  tíminn myndi sniglast á áfram í veikindastússi mínu enda fátt eitt við að vera. En það er öðru nær, tíminn flýgur þrátt fyrir aðgerðarleysi og skort á hlutverkum.

Ekki það að það væsi um mig, er ekki að gera neitt af viti. Verkjaköstin heldur færri ef eitthvað er og ég almennt betri inn á milli þeirra. Finnst úthaldið vera smátt og smátt að koma, hef jafnvel upplifað ástandið betra en í marga, marga mánuði að sumu leyti. Daglegt líf snýst um verkjastillingu og einfaldari  heimilisstörf. Mér þykir náttúrlega mikið til þess koma þegar mér tekst að moppa stofugólfið eða setja í eina vél eða svo. Verð aðvitað sveitt og másandi við hverja viðleitni en þeim mun ánægðari með afraksturinn. Einkennilegt hvað veikindi breyta forgangsröðuninni hjá manni.

Ég get þó ekki leynt því að mér hundleiðist þetta ástand og eilíf veikindi. Hef verið að kljást við þessi veikindi, meira og minna síðan um miðjan nóvember í fyrra eða í 9 mánuði. Mér finnst komið nóg. Á það til að ergja mig á því að hafa ekki fengið rétta greiningu í vetur og þar með rétta meðferð mun fyrr og áður en allt fór í óefni. Get hins vegar ekki breytt því sem liðið er þannig að það hefur lítið upp á sig að dvelja um of við slíkar hugsanir sem óhjákvæmlega eru neikvæðar.Það væri hræsni að halda því fram að ég sætti mig við orðinn  hlut og tæki þessu öllu með jafnaðargeði. Ég á mína slæmu stundir líkt og aðrir.  Þær eru þó færri en þær góðu þannig að ég kemst yfir þetta allt saman.

Það sem fer verst í mig er sú staðreynd að vera ekki vinnufær. Það að geta ekki sinnt sínum daglegu störfum og pligt er eins og  kippa undan mér fótunum. Tilverugrundvöllurinn raskast heldur betur og er ég ekkert öðruvísi en aðrir í þeim efnum. Þetta er ekki eins og að fá flensu sem leggur mann í rúmið í einhverja daga. Veikindi hjá mér virðast eilífðarverkefni sem aldrei virðist ætla að taka á enda. Þegar einu lýkur, tekur annað við.  Þannig er ógjörningur að plana fram í tíman, hvað þá að treysta á mann sem starfskraft. Það þoli ég illa.  Þegar starfsþrekið er ekkert, skapast of mikið svigrúm til neikvæðra hugsanna, erfiðra minninga og pirrings yfir eigin bjargleysi. Allt er í hægagír og smásigrarnir svo litlir að maður myndi ekki taka eftir þeim undir venjulegum kringumstæðum.

Ég hef þá trú að ástandið sé á réttri leið en veit að það mun taka einhvern tíma til að endurheimta fyrra úthald sem var kannski ekki til að hrópa húrra yfir en dugði mér ágætlega. Flesta daga finn ég að ég sé á uppleið, suma dagana finn ég bakslag en það er þó allt eðililegt.  Þá verð í pirruð, svo einfalt er það.

Haffinn að taka próf í fyrramálið, vonandi gengur honum vel. Ef ekki, er  alltaf möguleiki á því að taka það aftur en kostar mun meira álag þegar að því kæmi. Ég hef alla trú á því að hann hafi þetta drengurinn en heppni spilar þar mjög ríkt inn í.  Katan flýgur út um miðja næstu viku þannig að sumarsælunni er að ljúka hér í Engjaselinu. Búið að vera góður tími fyrir utan bév.. veikindin sem hafa heldur betur sett strik í reikninginn hjá okkur öllum.

Vonandi styttist í að ég megi fara að vinna, reikna með því eftir 2-3 vikur ef fer sem fram horfir. Skýrist vonandi í næstu viku. Verð þeirri stundu fegnust þegar að því kemur. Fóturinn er að verða eins góður og hægt er að hugsa sér, býst ég við. Þarf greinilega að vera með spelku til frambúðar enda hnjáliðurinn skrollandi laus og því auðvelt að lenda í einhverju hnjaski. Verð að sætta mig við það þar til annað kemur í ljós. Gerfiliður inni í myndinni en örugglega ekki á næstunni þar sem ég get vel skrölt á fætinum eins og hann er. Biðlistar langir og forgangsröðun ræður eðlilega för undir þeim kringumstæðum. Auk þessa er ég ,,of ung" til að lenda ofarlega á listanum. Ég er fyllilega sátt við það,myndi ekki með nokkru móti nenna að standa í aðgerð og tilheyrandi bataferli strax. Því lengur sem sú bið verður og því lengur sem ástand mitt bið, því betra að bíða eftir þeim process. Get ekki hugsað mér að íhuga það ferli á næstu mánuðum og árum, hvað þá meir. Ég mun hökta á þessum lið eins lengi og stætt er.

Er búin að panta sól þessa helgina, sýnist þó veðurspár boða annað, þ.e rigningu. Var búin að panta Kötuna til að aðstoða mig við að ljúka að bera á sólpall og skjólveggi áður en hún fer út. Ekki mikið eftir en alltaf betra að hafa annan með sér í slík verk. Kvíði þó engu þessa helgina, hún mun líða ógnahratt líkt og aðrar þetta sumarið, þrátt fyrir blóðleiðinlega sjónvarpsdagskrá á öllum stöðvum. Það verður kominn mánudagur áður en ég næ að sú mér við og skiptir þá engu máli hvort mér hafi leiðst eður ei.W00t

 

 

 

 


Liðsauki

Það kemur mér ekki á óvart að nú sé Ólafur F reiðubúinn til að ganga í FF. Er í raun fulltrúi Íslandshreyfingarinnar í borgarstjórn ásamt Margréti Sverrisdóttur en bæði voru búin að lýsa ,,frati" á fyrrum félaga sína í Frjálslynda flokknum. Virka bæði hálf munaðarlaus enda engar fréttir úr herbúðum Íslandshreyfingarinnar svo vikum og mánuðum skiptir. Er hreyfingin enn til, spyr ég?

Mér finnst þetta útspil Ólafs fljótfærnislegt og vanhugsað.  Ber keim af einhverri örvæntingu. Ugglaust er stuðningur við hann innan Íslandshreyfingarinnar lítill enda upp á kant við varaformanninn og sennilega er bakland innan Íslandshreyfingarinnar Ólafs hverfandi. Hefur þó notið fylgis sumra innan FF, t.d. formanns ungra Frjálslyndra, framkvæmdastjóra flokksins, vinar hans Sigurjóns Þórðarsonar o.fl.

Guðjón Arnar breiðir út sinn stóra faðm og býður hinn týnda sauð velkominn. Það má vera hið besta mál en einhvern veginn hef ég ekki þá trú að Ólafur muni ganga í takt við forystuna, til þess er hann of sjálfsæður og í raun einstrengislegur í sínu pólitíska starfi.  Margrét  Sverrisdóttir vill ganga svo langt að halda því fram að raunveruleg ástæða þess að Ólafur vilji snúa til baka líkt og villuráfandi sauður, sé skortur á fjármagni  og blankheit. Trúlega er eitthvað til í því.

 Mér sýnist hann ætli að beina kröftum sínum að því að upplýsa hvernig raunverulegt samstarf við Sjálfstæðismenn hafi verið, sér frá hans sjónarhóli. Það verður fróðlegt að fylgjast með þeirri umræðu og hvað þessir aðilar hafa til málanna að leggja. Hygg að það gæti orðið lífleg umræða. 

Sérframboð Ólafs hefði verið trúverðuglegra í mínum huga, a.m.k. á þessu stigi máls. Ljóst er að ekki eru allir innan FF sáttir við ,,heimkomuna", sbr. afstaða Jóns Magnússonar sem ekki hyggst slátra alikálfi af því tilefni.  Ólafur virðist vera einfari og starfa best sem slíkur með þröngan hóp fylgismanna að baki sér sem hann treystir en þeir eru ekki margir. Hann virðist njóta sín best við þær kringumstæður þar sem hann fer með völdin, valddreifing virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá honum.  Hann ræður för og leggur mikla áherslu á traust og trúverðugleika. Virðist fylginn sér en afar viðkvæmur fyrir gagnrýni og athugasemdum sem er mikill galli hjá þeim sem telur sig vera leiðtoga. Í mínum huga er Ólafur F. ekki þessi týpíski karismatíski leiðtogi sem fylgjendur hópa sig á bak við, hef frekar trú á því að hann handvelji sína fylgjendur sem hann treystir. Þeim sem reynast ekki traustsins verðir, er einfaldlega kastað fyrir borð. 

Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni á næstunni, bæði hvað varðar málefni borgastjórnar Reykjavíkur og Frjálslynda flokksins. Þar eiga menn á brattan að sækja. Borgarbúar búnir að fá upp í kok og landsmenn allri orðnir ringlaðir á stöðu FF, bæði hvað varðar innviði flokksins og ytri ramma.  Hugsanlega eru ákveðin sóknarfæri framundan í stöðunni fyrir flokkinn sem skiptir höfuðmáli að greina og nýta hið snarasta. 


mbl.is Ólafur F. til liðs við Frjálslynda flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun

Ég tel að Marsibil hafi tekið hárrétta ákvörðun um að segja sig úr Framsóknarflokkum þar sem hún treysti sér ekki til að styðja oddvita sinn í borgarstjórn. Hún hefði hins vegar átt að ganga skrefinu lengra og segja alfarið af sér störfum í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún sótti umboð sitt til kjósenda Framsóknarflokksins, náði kjöri sem varaborgarfulltrúi í skjóli flokksins enda fulltrúi hans í kosningunum.

Það að ætla sér að sitja áfram eftir að hafa sagt skilið við sinn flokk og oddvita og það til að starfa  með minnihlutanum eða Tjarnakvartettinum er með öllu siðlaust. Marsibil tekur sér það ákvörðunarvald, líkt og Margrétt Sverris forðum daga, að sitja áfram án þess að hafa umboð eða traust kjósenda til þess. Við slíkar kringumstæður þarf vart að spyrja  fyrir hvern þessir fulltrúar ætli að sitja í borgarstjórn. Áframhaldandi seta byggist fyrst og fremst  þeim tilgangi að þjóna eigin hagsmunum, ekki íbúanna. Svo einfalt er það.  

Lögin heimila þessa glufu, er ekki löngu orðið tímabært að stoppa upp í götin???


mbl.is Marsibil segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rólegt á vígstöðvunum

Enn eitt laugardagskvöldið runnið upp, finnst það síðasta vera nýliðið. Er alltaf jafn undrandi á því hversu hratt vikan líður, þrátt fyrir aumingjaskap og volæði heima fyrir. Það er ekki svo að maður sé að drukkna í álagi og verkefnum eða því um líku sem veldur því að tíminn æði áfram. Hann gerir það samt engu að síður.

Þetta kvöldið fór í fegðurarblund, við eldhúsborðið.  Hafði gert heiðarlega tilraun til að kíkja á námsefni en entist greinilega ekki mjög lengi við það.  Sjónvarpsdagskráin lítt spennandi þannig að þessi kostur virtist vænlegastur. Leiddist ekki mikið en man hve augnlokin  þyngdust við lesturinn.Sleeping

Frumburðinn situr við prófestur úti í Debrecen í 38°C hita. Lætur vel af sér en auðvitað tekur á að komast í gírinn aftur. Heimasætan er að fá sér snúning á öldurhúsum borgarinnar, hress og kát að vanda. Allt í lukkunnar standi hjá þeim báðum. Þau hafa staðið sig ótrúlega í gegnum veikindin mín vel þessar síðustu vikur og ótrúlegustu uppákomur, orðin býsna sjóuð, satt best að segja. 

Heilsan hefur verið smátt og smátt að skríða saman, úthaldið að aukast og verkjaköstum að fækka. Komin á ótal tegundir lyfja sem m.a. eiga að slá á taugaverki og ,,draugaverki". Fæ einnig undralyf við gigt.  Þau virðast vera að skila tilætluðum árangri þannig að minni orka fer í verkjaköstin, þvílíkur munur en kostar sitt! Er búin að fara x 2 til sérfræðingsins í verkjameðferð og fá blokkdeyfingar, sú seinni bar greinilega árangur. Maginn smátt og smátt að koma til, er farin að finna til svengdar af og til en það hefur ekki gerst í marga mánuði. Þarf þó að passa mig að borða líkt og fuglinn, kroppa lítilega í matinn og hætta tímanlega til að fá ekki verki. Er smátt og smátt að læra inn á þetta. Nætusvefninn er smám saman að lengjast, er komin upp í 4 tíma samfelldan svefn á góðri nóttu. Þvílíkur munur!W00t Er farin að vera meira á rólinu, aðeins kíkt út fyrir en ekki farin  að keyra neitt að ráði ennþá, hyggst breyta því snarlega í næstu viku enda fátt eitt eins hamlandi og að vera örðum háð með allar bjargir, urr......

Fór í sneiðmynd af brjóstholi og kvið í gær og á von á niðurstöðum á mánudag. Þá verður væntanlega úr því skorið í hverju misræmi á milli rannsóknaniðurstaða er fólgið. Er ekki á þeim buxunum að sjúkdómurinn hafi tekið sig upp aftur en auðvitað veit ég það ekki. Mér finnst það einhvern veginn ekki en geri mér grein fyrir því að afneitun og aðrar væntingar geta spilað inn í þá tilfinningu mína. Ekkert annað en að gera en að hinkra og sjá til, taka því sem höndum ber þegar að því kemur. 

Systursonur minn liggur á sjúkrahúsi vestur á Ísafirði eftir að hafa lent í bílveltu með félögum sínum, sveigðu bílinn undan kríum. Ótrúleg mildi að ekki fór ver, strákarnir 3 meiddust allir en engin alvarlega eða lífshættulega. Systursonur minn fór þó einna verst út úr slysinu var grunaður um mjaðmagrindarbrot auk þess sem hann fékk blæðingar í kviðarholið. Gat farið miklu ver þannig að drengirnir voru heppnir. Sendi þeim öllum baráttukveðjur.

Það er því fremur tíðindalaust af okkar vígstöðvunm, erum líkt og aðrir borgarbúar, að jafna okkur á því pólitíska klúðri sem dynur yfir borgarbúa á nokkurra vikna og mánaða fresti. Ég held að ég reyni ekki að spá í framhaldið í þetta skiptið, það segir sig eiginlega sjálft. Málin þróast eins og farsi í skáldsögu en ansi er ég hrædd um að aðalleikararnir séu að syngja sitt síðasta á þessum vettvang. Er ekki of bjartsýn fyrir hönd Ólafs F. sem ætlar að hella sér út í kosningaundirbúning og  hyggst bjóða fram eftir 2 ár með það markmið að ná góðum árangir og tryggja að hans rödd og málefni fái hljómgrunn meðal borgarbúa. Er reyndar svartsýn fyrir hönd allra þeirra 15 kjörinna fulltrúa semeiga sæti í borgarstjórn, tel að allir hafi látið eigin hagsmunamál hafa forgang og gleymt því að þeir voru kjörnir af íbúum og eru fulltrúar þeirra. Er enginn þeirra undanskilin þó vissulega hafi þeir verið misgrófir. 

Það má því margt breytast næstu 2 árin til að borgarbúar hafi eitthvert val þegar kemur að framboðslistum. Ætli Ómar Ragnars og Margrét Sverris fái ekki bullandi hljómgrunn á þessum síðustu og verstu tímum, þó Stuðmaðurinn gæti dregið þau nokkuð niður. Ég veit ekki hversu spennandi það verður að fylgjast með borgarpólitíkinni fram að næstu kosningum. Ég myndi ekki kippa mér upp við enn önnur meirihlutaskiptin þó mér virðist sem Óskari og Hönnu Birnu sé full alvara þetta skiptið. Það sem mun reynast þeim fjötur um fót er samstöðuleysi, valdabarátta og innri ágreiningur innan þeirra eigin raða sem aldrei kann góðri lukku að stýra.  Segir það ekki allt sem segja þarf.........   Þó er aldrei að vita, mönnum hefur hingað til tekist að viðhalda spennunni og koma okkur á sífellt á óvart, gjarnan meira en síðast. Er það ekki þannig í öllum krassandi spennusögum ........Hvað skyldi morgundagurinn bera í skauti sér....Whistling

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband