Ekki laus enn

Er ekki nógu sátt eftir daginn. Hitti minn spesialist í morgun sem fór yfir rannsóknirnar. Virðist  skv. niðurstöðum þó ennþá heil í kollinum og beinaskannið í lagi fyrir utan ummerki ótal rifbeinsbrota og inngrips eftir brjóstholsaðgerðina. Staðan á þeim beinum gefur ærið tilefni til verkjanna í brjóstkassanum enda fjölmargar taugar- og taugaendar sem liggja um svæðið til beina og vöðva í skralli. Verð að búa við það ástand ævilangt en menn eru að prófa sig áfram með meðferð á þeim verkjum sem gengur skítsæmilega. Ekki er að sjá neitt óeðlilegt við sneiðmyndina af kvið en sú sem var tekin af brjóstholinu var ekki eins jákvæð. Einhverjar breytingar eru á svæðinu á milli vi. lunga og þess hægra sem var fjarlægt. Gæti verið örvefur og bólguviðbrögð sem er auðvitað kærkomin skýring en gallinn við hana er sá að þessar breytingar hafa ,,breyst" á milli sneiðmynda sem nemur um ca. 4 mm. Allt annað hreint og fínt.

Miðað við ástand síðustu vikna, þ..e megurð, úthaldsleysi og slappleika er ekki stætt á öðru en að taka þetta alvarlega og kanna betur. Það þarf því að ráðast í sýnatöku (mér til skelfingar) til að kanna hvað sé á ferðinni þarna. Er ekki yfir mig kát yfir þessum fréttum þó ég sé vissulega sammála því að skoða þetta betur. Annað væri kæruleysi. En þetta þýðir enn frekari tafir og bið.

Er farin að þrá að komast í vinnu og þoli ekki þetta veikindastúss öllu lengur.  Sýnatakan sem slík þarf ekki að taka neitt óskapar tíma en tefur mig og alls ekki það sem mig langaði að heyra. Er því í ,,fýlu" í dag enda sé ég fram á enn frekari tafir, bið og fja... óvissu. Þessar niðurstöður verða teknar fyrir nk. föstudag á ,,allsherjarfundi"(teymisfundi) lækna LSH þar sem ávkeðið verður hvaða aðferð skuli beitt við sýnatökuna og síðan tekur einhvern tíma að komast að í hana. Allir eru farnir að þekkja álagið á LSH. 

Þar á eftir tekur við bið eftir niðurstöðum um þær frumutegundir sem er að finna  í sýninu sem getur tekið allt að 10-14 daga. Þá fyrst liggur Stóri dómur fyrir og  hægt að ákvarða hvað eigi að gera í stöðunni; fylgjast með áfram eða ráðast í að gera eitthvað (skemmtilegt). Mér til sællar minningar tók greiningaferlið hjá mér 8 vikur fyrir tæpum 2 árum, get ekki hugsað mér annað eins til enda. Ég bókstaflega fæ hroll.

Mér dettur þó ekki í hug að mála vegginn svartan og skríða skælandi undir sæng að svo stöddu. Ekki tilefni til þess en ég er pirruð, það get ég fúslega viðurkennt.  Allur vafi kemur að stað ákveðnu hugsanaferli, allt fer á flug og ímyndunaraflið fer á kreik. Þarf reyndar ekki mikið til að kveikja á því.  Er búin að vera á vælinu núna meira og minna síðan í nóvember í fyrra með mína verki og aðra vanlíðan en tíminn sem tekur að komast til botns í málum virðist óendanlegur. Ekki bætti sumarið úr skák né síðast uppákoma. Urrrrrrrrr..   hvað þetta er fúlt.

Get þó ekkert annað gert en að taka þessum fréttum. Mig munar svo sem ekki mikið um enn eitt (skít-)verkið enn eða súran bitan. Ég og litla famelían erum orðin ýmsu vön í þeim efnum. Því er ekkert annað en að þrauka áfram um stund og láta reyna á biðlundina. Verst að þetta hefur áhrif á fleiri en mig, krökkunum eðlilega ekkert rótt úti og löngu orðið tímabært að snúa aftur til vinnu.

Við höldum okkar striki sem sé og ég held áfram að vinna í að styrkjast og hressast. Tiktúrurnar í kringum fæðuinntekt stjarnfræðilegar og einstakar, satt best að segja og eftir því eftirminnilegar. Er þó að koma hægt og bítandi. Veðrið má aðeins ganga niður svo mér takist að skrönglast í göngutúrana, pallapúlið innanhús dugar ekki til að koma mér í form. Meira þarf til og það skal hafast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Elsku kerlingin mín taktu frí frá vinnu áfram............heilsan gengur fyrir öllu.

Vonum að niðurdtöður verði góðar.  Lestu bloggið sem ég benti þér á.

Hólmdís Hjartardóttir, 17.9.2008 kl. 23:48

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

niðurstöður

Hólmdís Hjartardóttir, 17.9.2008 kl. 23:48

3 Smámynd: Ragnheiður

Elsku vina mín, ég mun vona það besta áfram og hugsa hlýlega til þín og auðvitað krakkanna þinna.

Ragnheiður , 18.9.2008 kl. 18:52

4 Smámynd: Sigrún Óskars

Segi eins og hinar bloggvinkonur okkar - hugsaðu vel um þig og taktu bara frí áfram. Ég veit að það er erfitt en heilsan er fyrir öllu.  Ég vona líka það besta og sendið þér góðar hugsanir og kærleika

Sigrún Óskars, 18.9.2008 kl. 19:43

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sendi þér hlýjar hugsanir

Sigrún Jónsdóttir, 18.9.2008 kl. 20:13

6 identicon

Sæl Guðrún.  Ég hef ekki skrifað áður en dætur okkar eru vinkonur og því hef ég fylgst með þínum hremmingum.

Ég óska þér bata og alls hins besta,

kveðja Unnur (mamma Gyðu Lindar ).

Unnur (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 01:01

7 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir hlýjar kveður, þær ylja virkilega þegar á móti blæs.Þetta er fremur töff tímabil núna. Þakka þér Unnur fyrir innlitið og kveðjurnar. Vona að þið hafið það sem best.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 19.9.2008 kl. 06:03

8 identicon

Sæl og bless.

Allar mínar bestu óskir til þín.

I. 

Ingibjörg Þ. (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 11:34

9 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Gangi þér allt í haginn Guðrún.

Gunnar Skúli Ármannsson, 19.9.2008 kl. 18:31

10 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Georg Eiður Arnarson, 20.9.2008 kl. 00:13

11 Smámynd: Ingveldur Theodórsdóttir

Vonandi gengur allt vel hjá þér GUðrún mín , þú ert í mínum bænum ..

Ingveldur Theodórsdóttir, 22.9.2008 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband