29.8.2007 | 22:25
"Rasistagrýlan"
Það er ekki lengra en 3-4 mánuðir síðan að umræðan um "rasisma" á Íslandi var í algleymingi. Enginn mátti ræða opinskátt um málefni útlendinga, rétt þeirra og fjölda í landinu, án þess að viðkomandi var ýmist stimplaður kynþáttahatari eða frjálslyndur. Sitt sýndist hverjum um það hvort væri verra. Kosningar í nánd og brýnt að vængstífa frjálslynda sem gerðu það að baráttumáli sínu að opna umæðuna, rétta hlut útlendinga í landinu, tryggja þeim viðunandi laun, heilbrigðisþjónustu og önnur réttindi sem þykja sjálfsög í lýðræðisríki.
Frjálslyndir bentu jafnframt á að flæði þeirra inn í landið væri orðið of mikið, á of skömmum tíma, til að hægt væri að undirbúa jarðveginn og standa vel að móttöku erlends vinnuafls til landsins. Þróunin væri of hröð og undirbúningur enginn. Tungumálakennslu væri ábótavant og brögð væru á því að erlendir starfsmenn væru skráðir löglega og þeim borguð lág laun. Frjálslyndir bentu einnig á að húsnæðismálum margra væri abótavant og svo lengi má telja.
Í stuttu máli þá varð fjandinn laus í samfélagsumræðunni. Þessar áhyggjur og ábendingar frjálslynda þóttu benda eindregið til kynþáttahaturs og tóku flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar undir þá skoðun enda kosningar í nánd. Enginn vildi láta kenna sig við "rasisma", skárra væri það. Menn tóku því undir með æsingamönnum og þögðu þunnu hljóði þegar inntir eftir fyrri afstöðu til málanna.
En hvað er komið í ljós? Það þurfti alvarlegt slys um helgina til að varpa ljósi á þær staðreyndir sem allir stjórnmálaflokkarnir voru meðvitaðir um en flestir þögðu yfir. Hér tíðkast sem sé ólöglegur innflutningur á erlendu vinnuafli, svo einfalt er það. Þannig hefur það trúlega verið um alllangt skeið. Vinnuafl sem er ótryggt, nýtur engra réttinda og algjörlega komið upp á sína innflytendur, á lúsarlaunum. Loksins er sannleikurinn sem allir vissu, kominn upp á borðið. En umfjöllun fjölmiðla er hvorki í takt við alvarleika málsins né þeirrar umræðu sem átti sér stað í vor. Hverju skyldi það sæta? Hvernig verður tekið á málum á næstu vikum? Það verður fróðlegt að sjá.
Ég vona svo sannarlega að fjölmiðlar taki við sér og stundi nákvæma rannsóknarvinnu. Einhver umfjöllun um aðbúnað útlendinga átti sér stað sl.vetur og kom þá í ljós að erlendum verkamönnum var hrúgað saman í hálfköruð iðnaðarhúsnæði og þurftu að greiða fyrir það dýrum dómum. Ég er ansi hrædd um að margt ljótt komi upp á yfirborðið þegar betur er að gáð og mér segir svo hugur að Íslendingar verði ekki stoltir af þeim aðbúnaði og kjörum sem erlendu vinnuafli er boðið upp á í dag.
Nú er að sjá hvernig nýja ríkisstjórnin tekur á málum. Það er við ramman reip að draga þegar kemur að atvinnurekendum. Stefna sjálfstæðismanna hefur lengi verið ljós í þessum efnum og er óbreytt. Stefna Samfylkingarinnar hefur verið æði óljós í þessum málaflokki. Þó ég hafi töllatrú á Jóhönnu, er ég hrædd um að stefnuleysið og sundurleitnin í flokknum muni verða henni til trafala. Nú er að bíða og sjá til. Gefa mönnum tækifæri. Í málum sem þessum ættu allir flokkar að sameinast undir merkjum lýðræðis og tryggja öllum jafnan rétt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.8.2007 | 23:20
Dýraland
Hef ekki haft undan síðustu sólahringana, undirbúningur fyrir kennsluna sem sat á hakanum síðustu vikuna. Hef setið 10-12 klst. á dag í tölvunni við undirbúninginn. Annars frábært að vera komin í mitt umhverfi, hreinlega dýrka það að kenna. Ekki það að mér líður eins í hjúkruninni, ég gæti ekki gert upp á milli. Enda ætla ég mér að stunda hvorutveggja og jafnvel meira, hver veit?
Önnur verkefni hafa svo sem bæst á mína; nú er ég ein með 3 tíkur, þ.a tvær sem ekki geta verið saman án þess að til blóðugra slagsmála komi. Þau mál reyndar í vinnslu, eitthvað er að angra Lady Diönu, aldursforsetan sem stjórnar heimilinu með harðri hendi. Bíð eftir tíma á Dýraspítalanum þar sem framundan er allsherjartékk í svæfingu. Framhaldið ræðst náttúrlega af niðurstöðum. Ungabarnið á heimilinu;Perla, er greinilega þrælsýkt í hálsi hægra megin og svo virðist sem aðgerð og penecillin sé ekki að virka sem skyldi. Trúlega aðgerð þar framundan, enn og aftur. Ekki er þjónustan gefin á þeim bænum frekar en með okkur mannfólkið og ekki niðurgreidd með neinum hætti. Hika samt ekki við að gera allt sem hægt er til að koma þeim báðum til heilsu.
Það jákvæða við það að vera ein í "Dýralandi" er það að nú verður mín að standa sig og hreyfa tíkurnar og þar með sjálfa mig. Auðvitað eftir kúnstarinnar reglum, ekki dugir að fara með þær allar saman og ekki sama hverjar fara í hverja ferð. Á meðan eitt hollið fer, grenjar hitt hástöfum þannig að tekur undir. Bíð eftir því að fá kvörtun frá nágrönnum. Ótrúlega sátt á meðan svo er ekki Í öllu falli verður mín að fara að hreyfa sig og taka á því. Kominn tími til! Skondin sjón ábyggilega; að sjá tíkurnar draga mig áfram, móða og másandi. Hef trú á því að þolið komi fljótt með þessu framhaldi
Hvað sem öðru líður þá er ég að drukkna úr verkefnum þessa dagana, hef ekki tíma til að vera einmanna og láta mér leiðast. Sakna auðvitað krakkana, ekki síst þegar um hægist en svo ofboðslega sátt við það sem þau eru að gera að ég gef það ekki að sýta og væla. Skárra væri það nú!
Hlusta meira á útvarp núna þegar ég er komin í langkeyrsluna í vinnu,.. Hef þungar áhyggjur af afdrifum Íbúðalánasjóðs. Núverandi ráðherra búinn að skipa starfshóp sem á að fjalla um úrræði fyrir þá verst settu og þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð; þ.e. unga fólkið. Það fylgdi hins vegar ekki sögunni hvernig málum yrði háttað gagnvart meðal Jóninum og Gunnu. Mér segi svo hugur að þessi nefndarskipan sé fyrsta skrefið til að leggja Íbúðarlánasjóð niður en eftir standi úrræði fyrir þá verst settu. Aðrir verði að sækja sitt í bankana á "ránsvöxtum". Vona innilega að mér skjátlist núna í þetta skiltið
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 23:22
Ein í kotinu
Þá er Katan farin, komin til Köben þar sem hún gistir hjá Degi, bekkjarbróður sínum í nótt. Ótrúlega tómlegt í húsinu, meira að segja tíkurnar í lægð. Á morgun flýgur hún til Búdapest og tekur þaðan bíl til Debrecen sem tekur 2 klst. Á þriðjudag byrjar skólinn hjá henni og hefst með 2 vikna námi í ungversku. Hún rúllar því upp, stelpan.
Allt er búið að vera á fleygiferð síðustu dagana. Við mæðgur staðið í stóræðum og tiltektum. Skvísan var nefnilega með kveðjupartý fyrir vini sína á föstudagskvöld. Var "grand" á því, grill og guðaveigar í ótakmörkuðu magni. Mikið fjör og mikið gaman, krakkarnir fóru á kostum, sungu, spiluðu á gítar og ég veit ekki hvað og hvað. Ótrúlega gaman og þeir allir til fyrirmyndar. Frábær hópur.
Það var því lítið um svefn hjá okkur mæðgum síðustu sólahringana. Lögðum af stað upp á völl upp úr kl. 04 í nótt þannig að ég fór að sofa upp úr kl.08 í morgun. Hef eiginlega verið að ná mér á strik fram á kvöld og rétt að koma til núna, svona rétt fyrir nóttina. Vorum með gesti um helgina; Hafsteinn bróðir og dóttir hans voru hjá okkur. Ekki var gestrisinni fyrir að fara hjá okkur er ég hrædd um, orkan fór í annað. Vona að ég geti bætt þeim þetta upp síðar.
Ég er ofboðslega sátt við ákvörðun Katrínar að drífa sig út, veit að hún á eftir að standa sig vel. Auðvitað mun ég sakna krakkanna en þegar allt gengur vel og þau að gera það sem þau hafa stefnt að, er tilfinningin öðruvísi. Hún mun ugglaust upplifa heimþrá og söknuð, ekki síst gagnvart vinum sínum en það kemur alltaf maður í manns stað og það mun örugglega fjölga í vinahópnum. Hún er "svoddan" stuðbolti, skísan og þau reyndar bæði. Aðalatriðið er að hún gefi þessu tíma og helli sér út í laugina, óhrædd enda vel synd og fiðruð
Ég mun hins vegar vera dugleg að heimsækja krakkana og "skipta mér af" eins og ungamömmu sæmir en þó allt í hófi og í samráði við þau Haffinn á fullu í póflestri fyrir erfðafræði en hann tekur próf í henni í vikunni. Vona að það gangi allt vel.
Fram undan hjá mér er nóg að gera, meira en nóg, verð trúlega í vandræðum með að ljúka öllum verkum innan tilskilins tímaramma en ætla mér að vera bjartsýn. Allt skal þetta hafast. Mér mun alla vega ekki leiðast á næstunni, hef hreinlega ekki tíma til þess.
26.8.2007 | 01:52
Áhrif alvarlegra veikinda
Það að greinast með alvarlegan sjúkdóm er mikið áfall fyrir hvern þann sem í slíku lendir sem og ættingja hans. Hjá flestum hefst baráttan gegn sjúkdómnum nánast samstundis, lífsviljinn rekur menn af stað og allt lagt í sölurnar til að sigra baráttuna. Krabbameinssjúkir hika ekki við að undirgangast erfiðar aðgerðir svo ekki sé minnst á lyfjameðferð sem er ekkert annað en eitur í líkaman sem ræðst ekki einungis á sjúkar frumur, heldur og einnig heilbrigðar. Afleiðingarnar eru skelfilegar, ógleði, uppköst, þreyta, slappleiki, lystarleysi, megrun, svimi, blóðleysi, aukin blæðinga- og sýkingarhætta og ég veit ekki hvað og hvað. Menn hika hins vegar ekki við að leggja þessi ósköp á sig, allt er lagt í sölurnar til að komast yfir sjúkdóminn.
Afleiðingarnar eru hins vegar ekki einungis líkamlega. Félagsleg færni minnkar, menn hafa hreinlega ekki heilsu og þrek til að vera jafnvirkir, öll orkan fer í að berjast við vágestinn og aukaverkanir lyfjanna. Margir þeirra sem veikjast af krabbameini verða óvinnufærir, a.m.k. tímabundið. Sumir eru heppnir og halda sínum launum, aðrir ekki og verða að láta sér duga hungurlús frá TR sem enginn getur lifað af. Sumir eru stöndugir fjárhaglslega og geta mætt tekjuskerðingu á meðan aðrir eru skuldugir og þurfa að greiða afborganir lána o.fl. Sem sé hinn meðal Jón.
Í öllu falli minnka yfirleitt tekjurnar og möguleikar til aukavinnu þurrkast út. Þar á ofan bætist við kostnaður vegna veikindanna per se. Það er nefnilega einungis fyrir vel stæða Íslendinga að veikjast alvarlega án þess að fjármálin hrynji. Þrátt fyrir niðurgreiðslu og afsláttarkort sem hver og einn fær þegar hann hefur greitt 18 þús. kr. fyrir tiltekna heilbrigðisþjónustu, þarf sjúklingurinn alltaf að greiða ákveðinn hluta af lækniskostnaði og rannsóknum. Í mörgum tilfellum þarf hann að greiða fyrir lyf þó krabbameins- og verkjalyf séu greidd af TR. Þeir sem búa á landsbyggðinni þurfa að leggja út fyrir öllum ferðakostnaði sem og kostnaði vegna gistingu þegar það á við en fá einhvern hluta endurgreiddan eftir dúk og disk. Í flestum tilfellum verða maki eða börn að fylgja viðkomandi í meðferðir af ýmsu tagi sem þýðir aukinn kostnaður og hugsanlega tekjutap fyrir nánustu ættingja.
Óski sjúklingurinn eftir sálfræði- eða hjúkrunarþjónustu verður hann að greiða hana sjálfur að fullu, slík þjónusta er ekki greidd niður. Þeir sem þurfa að fara í endurhæfingu, greiða alltaf tiltekinn hluta af þeirri þjónustu sem er dýr. Á meðan lyfjameðferð stendur eða þegar sjúkdómurinn er virkur er matarlystin lítil, ef þá nokkur og allt gert til að finna "óskafæði" hvers og eins. Það eitt er kostnaðarsamt þannig að verðið á innkaupakörfunni hækkar ískyggilega ef menn leggja sig fram við að koma einhverju ofan í sig. Þeir sem ekki eru það heppnir að eiga góða "altmulig menn" sem gera við alla hluti eftir þörfum, þurfa að kaupa vinnu iðnaðarmanna á meðan þeir sjálfir eru óvígir og svona lengi mætti telja upp kostnaðarliðina.
Fyrir meðal Jóninn og Gunnuna þýða alvarleg veikindi eins og krabbamein, fjárhagslegir erfiðleikar. Þegar fram í sækir fer að bera á greiðsluerfiðleikum hjá mörgum, afborganir dragast aftur úr, yfirdráttarheimildin hækkar og vaxtakostnaður rýkur upp úr öllu valdi. Blessaður vítahringurinn fer á fullt og allt í óefni. Nú, þeir sem ekki njóta launagreiðslna í veikindum sínum, fara hreinlega á hausinn fyrr en síðar.
Það er nefnilega bláköld staðreynd að fjármála- og lánastofnanir hafa almennt ekki mikla þolinmæði gagnvart viðskiptavinum sínum þegar alvarleg veikindi bera að. Menn verða að borga sínar skuldir, ekkert múður og auðvitað verða allir að greiða sínar skuldir, um það er ekki deilt. En fjandinn hafi það, bankar og aðrar lánastofnanir gætu hæglega komið til móts við viðskiptavini sína með einhverjum sveigjanleika og skuldbreytingum til að gera mönnum lífið auðveldara. Hagnaður þessara stofnana er það mikill að ætla mætti að hægt væri að sveigja eitthvað til, viðskiptavinurinn greiðir háa vexti fyrir skuldbreytingar og lengingu lána þannig að stofnanirnar tapa engu en viðskiptavinurinn fær kannski meira svigrúm til að standa í sinni baráttu upp á líf og dauða. Það er nefnilega miklu meira en nóg að standa í því að berjast fyrir lífi sínu, svo baráttan við lánastofnanir bætist ekki við.
Íbúðalánasjóður er eina lánastofnunin sem hefur það í stefnu sinni að koma til móts við einstaklinga í þreningum. Bankarnir vilja sjóðinn út enda hagnaðarvonin meiri þegar hann er farinn. Sjúklingar missa örugglega hraðar húsnæði sitt en ella. Skyldu sveitarfélögin þá vera reiðubúin að tryggja þeim húsnæði eins og þeim ber?? Ég tel að fæst þeirra séu í stakk búin til þess. Það að LÍN skuli ekki taka tillit til alvarlegra veikinda og tekjuskerðingar finnst mér grafalvarlegt mál, lögreglumál eins og Einar Bárðar myndi kalla það. LÍN fellir niður námslán ef lántaki deyr en það er ekki hægt að taka tillit til viðkomandi á meðan hann er að berjast og það með tekjuskerðingu ofan á allt annað álag. Ótrúlegt!
Í öllu falli hafa veikindi eins og krabbamein alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhag þess sem veikist. Oft er um að ræða margra mánaða veikinda- og endurhæfingaferli, sumir ná aldrei fyrri starfsorku og því upp á náðir TR og örorkumats komnir. Öll vitum við að enginn lifir á þeim greiðslum einum saman. Fjárhagsleg áhrif verða margföld ef sjúklingurinn er eina fyrirvinnan á sínu heimili, það gefur auga leið. Ekkert má út af bera, allur aukakostnaður sem hlýst af lífsbaráttunni verður óyfirstíganlegur og enginn "munaður" kemur til greina, þ.m.t. óhefðbundnar leiðir til lækninga sem sjúklingurinn verður að greiða að fullu sjálfur.
Það er mín skoðun og reynsla að þegar einstaklingur veikist af alvarlegum og lífshótandi sjúkdómi, beinist öll athyglin að honum sem slíkum og þeim hefðbundnu meðferðarúrræðum. Gerð er sú krafa að sjúklingurinn fari í gegnum allar hefðbundin meðferðarúrræði, hversu erfið sem þau kunna að vera. Hins vegar gleymist all oft að menn hugsi út í aðrar afleiðingar veikindinna, t.d félagslega einangrun og fjárhagsörðugleikana sem oft verða til þess að sjúklingurinn og fjölskyldan verður að fara úr eigin húsnæði, selja allt sem telst til eigna og ganga í gegnum erfiðar breytingar í ofanálag við áfallið og meðferðina sem fylgir sjúkdómnum og baráttunni við að halda lífi. Krabbameini og öðrum alvarlegum sjúkdómum fylgir alltaf tekjulækkun/-missir í einhverjum mæli og kostaðarauki. Vissulega væri ástandið avarlegra ef stéttafélaga nyti ekki við en það er engu að síður alvarlegt og getur haft afdrífaríkar afleiðingar í för með sér fyrir sjúklinginn og fjölskyldu hans.
Mér er það með öllu óskiljanlegt af hverju ekki er til einhver sjóður sem sjúklingar geta leitað í ef í harðbakkan slær. Mér er það einnig með öllu óskiljanlegt af hverju bankar og aðrar lánastofnanir geta ekki sýnt sveigjanleika og boðið fram úrræði þegar þess er þörf, ekki síst gagnvart viðskiptavinum sínum sem eiga eignir eða hafa aðra tryggingu. Þá er ég ekki að tala um vaxtalaus úrræði. Í flestum tilfellum myndi einhver tímabundin hliðrun og sveigjanleiki nægja til þess að fólk lenti ekki í slæmum málum og þyrfti ekki að selja ofan af sér eða aðrar eigur sínar. Í öllu falli ætti kerfið að sjá til þess að sjúklingar fengju ráðgjöf og aðstoð í fjármálum þegar veikindi steðja að og að þeir önnuðust samningagerð fyrir sína skjólstæðinga. Félagsráðgjöf spítalanna er ekki nógu kröftug til að sinna því hlutverki, ráðgjöfin snýst fyrst og fremst um réttindi manna hjá TR og um aðengi opinberri þjónustu.
Sem betur fer bregðast Íslendingar flestir vel við þegar beiðni um stuðning berst frá vinum og vandamönnum þeirra sem eru að kljást við erfið veikindi. Með þeim stuðningi hefur ýmsum vandamálum verið útrýmt eða dregið úr þeim í það minnsta. Í mörgum tilfellum hefur slíkur stuðningur gert sjúklingum kleift að sinna baráttunni gegn sjúkdómnum og jafnvel leita annarra meðferðarúrræða en þeirra hefðbundnu hér á Fróni og það er frábært. Í sumum tilfellum hefur stuðningur orðið til þess að sjúklingurinn á ofan í sig og á og enn öðrum tilfellum hefur hann komið í veg fyrir gjaldþrot sjúklingsins.
Ég vona að fólk taki vel við sér við beiðni vina og vandamanna Gíslínu sem ég fjallaði lítilega um í síðustu færslu. Eins og hún segir hreinskilningslega sjálf þá er hún hvorki rík né fátæk en það eitt að bæta við kostnaði vegna óhefðbundins meðferðarúrræðis, ofan á allan annan kostnað og tekjutap, getur reynst mönnum ofviða. Ég var því stolt af landanum þegar ég las á heimasíðu hennar að viðbrögð hafi verið góð fram til þessa og vona ég svo sannarlega að þau verði það áfram. Okkur munar ekki um að sleppa einni bíóferð eða djammhelgi. Stuðningur getur gert gæfumuninn í baráttunni gegn þeim fjanda sem krabbamein er.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.8.2007 | 21:38
Baráttukonur
Eins og tölfræðin sýnir eru ótal Íslendingar sem greinast með krabbamein árlega. Þeir eru á mismunandi aldri og sjúkdómurinn misskæður eftir tegund, staðsetningu og dreifingu. Horfurnar eru því misgóðar/daprar skv. tölfræðinni. En hún segir ekki allt.
Sumir hafa leyft öðrum að fylgjast með gangi mála á blogginu og kemur það sér oft vel, ekki síst ættingjum og vinum. Sá sem er að berjast við þennan vágest hefur oft á tíðum hvorki þrek né tíma til að vera í sambandi við alla til að leyfa þeim að fylgjast með og þá er bloggið mjög hentugt. Það sem mér finnst einnig jákvætt er að með blogginu, t.d. hjá Ástu Lovísu, Hildi Sif, Lóu og mörgum fleiri, hefur umræðan um krabbamein opnast og síður feimnismál en áður.
Ein af þeim hetjum sem hefur bloggað um sjúkdómsgang sinn er Gíslína Erlendsdóttir sem ólst upp í Miklahotshreppi á Snæfellsnesinu, einungis 46 ára að aldri. Kjarnorkukona þar á ferð sem er að kljást við ólæknandi krabbamein í gallvegi. Eins við má búast af slíkri kjarnokukonu, gefst hún ekki upp heldur berst áfram eins og ljónynja og hefur vakið aðdáun mína. Ég leyfi mér því að setja slóð hennar á forsíðuna mína og hvet alla til að kíkja í heimsókn til hennar. Frábær penni með skemmtilegan og stundum "eitraðan" húmor
Gíslína er óhrædd við að fara ótroðnar slóðir til að öðlast bata og er ég þess fullviss að afstaða hennar á eftir að fleyta henni langt í baráttunni þannig að hún standi uppi sem sigurvegari. Ættingjar og vinir hennar hafa tekið af henni skarið og blásið til sóknar til að styrkja Gíslínu til að hitta Manning í Englandi. Er sjónum beint að fyrirtækjum og einstaklingum í þeim efnum. Bið ég sem flesta að styrkja hana til fararinnar. Krabbameinssjúklingar eru tekjulitilir/-lausir, það þekki ég vel, þannig að þeir eiga fullt í fangi með að halda dampi. Sumum tekst það ekki og er ég ein þeirra þannig að ég þekki slíkar aðstæður allt of vel.
SLóðin hennar Gíslínu er : http://www.blog.central.is/gislina
Einnig er hægt að fara inn á slóðina hennar undir flipanum :Baráttukonur
Vona ég að hún fyrirgefi mér famhleypnina.
Ef einhver þekkir einhvern sem hefur lifað af lungnakrabbamein á lokastigi, sem ég veit að hefur gerst, bið ég hinn sama að setja sig í samband við Þórdísi Tinnu. Reynsla annarra myndi koma henni vel núna.
Slóðin hennar er : http://thordistinna.blog.is/blog/thordistinna/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2007 | 21:54
Tíminn flýgur
Heldur á uppleið, hitinn lægri í dag og starfsorkan meiri en í gær. Var raunar sæmileg í morgun þegar ég fór upp á Skaga en daprari þegar leið á daginn eins og búast mátti við. Náði í hvorugan Sigurðinn í dag, skilaboð bíða beggja og ég bíð eftir þeim. Annar hvor þeirra hringir, fyrr en síðar.
Við mæðgur búnar að vera afspyrnu framtakssamar í dag (aðallega dóttirin) og ýmsu hrundið í framkvæmd sem hefur setið á hakanum. Tók svolítið á en Katan eiturhörð á að ljúka ákveðnum verkum áður en hún fer út. Ekki spillir undirbúningur fyrir kveðjuteiti fyrir vinina fyrir framtaksseminni og ég nýt svo sannarlega góðs af
Tíminn flýgur á ógnarhraða og milljón hlutir sem eftir er að framkvæma á öllum vígstöðvum. Vona að pestarskömmin láti undan svo ég geti hleypt meiri hörku í mig. Allt þokast þetta í rétta átt á meðan hjólin hringsnúast á hraða ljóssins.
Mér líður ótrúlega vel að vera komin í mitt starf, saknaði þess mikið síðastliðinn vetur. Notaleg tilfinning að hafa einhver raunhæf og mælanleg markmið á hverjum degi sem standast þar að auki
Næstu 3-4 vikur verða annasamar, ekkert annað að gera en að taka því og horfa mín uppáhalds, stuttu skref. Fílinn torga ég ekki í einu lagi frekar en aðrir. Allt hefst þetta með jákvæðu hugarfari og stífri hugsun um hluta af "æðruleysisbæninni", þ.e "að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt". Ég geri mitt besta, meira er ekki hægt að gera.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2007 | 21:48
Ekki nógu gott
Úff, ég sem hélt að mér væri að skána! Hiti, hósti og aftur hósti í dag. Svaf út í það endalausa meira og minna í allan dag, ýmist skítkalt eða funheitt og sveitt, oj..... Rifjar upp leiðinda minningar. Virðist alltaf slá niður ef ég fer út. Nú er það Siggi Bö á morgun, ef ég næ ekki í hann reyni ég að ná í Sigurð nafna hans lungnalækni. 3 vikur eru alveg nægur prófsteinn. Þetta gengur allt tént ekki svona, í þetta skiptið þarf eitthvað meira að koma til en þrjóskan og að harka af sér. Sýklalyfin gagnslaus. Á ég að trúa því að inflúensan sé mætt á svæðið??? Ég trúi því ekki en óneitanlega minnir þessi krankleiki mig á hana
Hafsteinn kvaddi mig í nótt, ég man ekkert eftir því, umlaði eitthvað óljóst, er mér sagt. Var búin að vakna á klst. fresti til rúmlega 3 og þá greinilega steinsofnað eftir það. Þegar það gerist er óhætt að setja mig í hjólbörur og keyra mig út, ég rumska ekki við það. Það er eins gott að við hittumst fljótlega eins og planað er. Mér skilst að haustin í Búdapest séu æðisleg. Var að heyra í prinsinum, komin á leiðarenda, heill á húfi. 30°C hiti og mikill raki. Mig langar núna............
Náði að undirbúa það helsta fyrir kennsluna, svona rétt í tæka tíð. Ballið byrjar á morgun og kemur sér vel að fyrsta vikan verður stutt. Hellings undirbúningsvinna eftir sem ég lýk væntanlega á næstu dögum og þá er hægt að anda léttar.
Spennandi tímar framundan og miklar breytingar. Sumar kærkomnar og ánægjulegar á meðan aðrar eru súrari og erfiðari að kyngja. Veit að söknuðurinn verður mikill þegar báðir krakkarnir eru farnir en það jákvæða við þetta allt er að þau eru að gera það sem þau hafa stefnt lengi að. Það gerir fjarveru þeirra mun bærilegri en ella auk þess sem þau eru orðin vel fiðruð. En auðvitað verð ég lítil í mér til að byrja með, annað væri ekki eðlilegt.
Ennþá óvissa um stefnumörkun í ákveðnum málum, bíð afar spennt eftir viðbrögðum við atvinnuumsókn minni, allt mjög "duló". Í öllu falli verðu kúvending á sumum sviðum, bíð með að tjá mig um það þar til málin skýrast. Heima er best
Hef verið fremur óvirk í að fylgjast með pólitíkinni heima, ekkert að græða á heimasíðu sveitarfélagsins enda lítið um fréttir, fundir fáir og fundargerðir loðnar eða hreinlega lítt upplýsandi. Þarf að taka mig á þeim efnum, álagið fer að minnka þannig að svigrúmið verður meira. Vona að menn átti sig á hæfisreglunni og kynni sér hana í botn. Í öllu falli ættu að verða einhverjar breytingar á sveitarstjórninni í ljósi nýjustu stöðuveitingarinnar í sveitarfélaginu.
Mér fannst reyndar svolítið skondið að hnjóta um umræðuvef heimasíðu Dalabyggðar en þar sendir maður í atvinnuleit póst á alla íbúa og spyr hvort ekki sé tekið vel á móti öllum í Dölunum. Sá maður hafði búið þar á árum áður en vonaðist til að geta snúið aftur. Þessi fyrirspurn birtist á vefnum þann 14. ágúst og enginn búinn að svara honum í gær. Auðvitað er tekið vel á móti öllum sem í Dalina vilja koma, skárra væri það nú
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2007 | 23:20
Annir og batnandi heilsa
Held, svei mér, að heilsan sé að skána. Fór í vinnu í morgun, frábært að hitta samstarfsfólkið sem tók mjög vel á móti mér. Síðan tók við nákvæmisvinna sem fólst í undirbúningi fyrir fjölskyldumyndatöku. Í fyrsta skiptið "ever", dreif litla famelían sig í myndatöku og gekk á ýmsu. Frábær ljósmyndari hann Arnold og konan hans, sem annaðist förðunina, ekki síðri.
Hef alltaf verið "myndavélafælin", fór síðast í myndatöku þegar ég kláraði stúdentinn og síðan eru liðin mörg ár. Krakkarnir eiga enga mynd af múttu sinni og fáar myndir til af okkur saman. Arnold og frú fóru á kostum, andrúmsloftið aflsappað en samt mikill húmor, mikið hlegið og skíkt. Þetta var meiriháttar lífsreynsla, segi ég nú bara. Okkur krökkunum leið eins og við hefðum alltaf þekkt þau hjónin. Mæli hiklaust með Arnold og set veflóðina hér með, hvet alla, ekki síst foreldra ungra barna, til að skoða listaverkin hans.
Búið að vera fjör í kotinu í kvöld, Gunni Brynjólfur og famelía hans komu í kveðjugrill til Haffa, skemmtileg og notaleg stund. En, úffff, Haffinn að fljúga út eldsnemma í fyrramálið. Sælan búin í bili. Væsir þó ekki um drenginn á leiðinni út til Köben, flýgur á Saga-Class en þann lúxus fékk hann fyrir frammistöðuna á heimleið í sumar þegar hann brást við neyðartilviki sem kom upp um borð í vél Ielandair.
Ekki laust við tárvot augu, mér finnst alltaf erfitt að kveðja þau bæði, er hálf fegin að þurfa ekki að fara með honum upp á völl í þetta skiptið, Í þetta skiptið verður hann samferða öðrum. Brotna alltaf niður þegar ég horfi á eftir honum. Skána lítt í þeim efnum. Enn eru nokkrir dagar í að Katan fari, flýgur út á sunnudagsmorgun, fyrir allar aldir.
Haffinn búinn að pakka og kominn tími á "quality time" með krökkunum. Það verður lítið um svefn í nótt.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2007 | 22:07
"Upp" risin
Það hafðist í dag að komast í föt og á fætur, að vísu í áföngum en allt hafðist þetta með þolinmæðinni. Mætti galvösk í afmæliskaffi til Kidda bróður sem tók á móti okkur, glerfínn og svakalega unglegur. Hvernig fer hann að þessu?? Heilbrigt líferni spilar þar inn í veit ég, en vá......hvað hann lítur vel út, þau hjónin reyndar bæði. Ég stefni á "extreme makover" fyrir mitt hálfrar aldar afmæli í haust. Annars frábært að hitta stórfjölskylduna en hefði viljað sjá fleiri.
Er sem sé upprisin en vantar enn talsvert á að ég sé orðin góð, úthaldið skammarlega lítið í dag enda skriðið beint upp í sófa þegar heim var komið. Ég gat hins vegar stjórnað liðinu, Haffinn mátti sjálfur setja í þvottavélina og undirbúa brottför sína til Ungverjalands í býtið á þriðjudagsmorgun. Ég bæti honum þetta upp á morgun, verð dugleg
Ekki laust við að það sé kominn smá herpingur í magan vegna brottfarar hans en veit að ég hitti hann fljótlega aftur. Katan að fara á sunnudagsmorgun, eldsnemma líka. Það verður sett upp loftbrú á milli Búdapest og Íslands í vetur enda nóg um að vera.
Er smá spæld yfir því að hafa þurft að eyða þessum fáu frídögum mínum í þessa pest, handónýt til alls og við sem ætluðum að geta svo margt. M.a að skeppa á Þingvöll, fara heim, kíkja í ber og ég veit ekki hvað og hvað. Það verður að bíða betri tíma. Höfum reyndar átt "quality time" saman, hvert og eitt kúrandi í sitthvorum sófanum með teppi og notalegheit.
Úff, ekki laust við að þessi pest hafi minnt mig illþyrmilega á nýafstaðin veikindi og lyfjameðferð, hóstinn búinn að vera skelfilegur. Ekki sælar minningar þar á ferð, skil eiginlega ekki hvernig við, sem höfum fengið krabbamein og þurft meðferð, komumst heil út úr þeirri vegferð. Auðvitað er maður reiðubúinn til að leggja slíkt á sig og meira en það í baráttunni við þennan skratta en ég er þess fullviss að enginn sem ekki hefur gengið í gegnum þetta ferli, veit hvað það er erfitt og skelfilegt tímabil í raun. Á ég þá ekki einungis við líkamleg einkenni og aukaverkanir heldur og einnig andlegu líðanina, óvissuna, áfallið, og eftirköst þess. Pollýönnu hlutverkið og allt það. Þrátt fyrir áratuga reynslu í hjúkrun, gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu erfitt þetta væri, taldi mig þekkja ferlið og líðanina út í gegn. Þar skjátlaðist mér en á móti kemur það að ég er reynslunni ríkari, sterkari einstaklingur og laus við árann.
Nú fer mín snemma í háttinn, fyrsti vinnudagurinn í skólanum á morgun, allt að bresta á. Þarf að finna mér starf sem ég get sinnt samhliða kennslunni enda launin ekki nægileg til að reka heimili sem eina fyrirvinnan. Hef ákveðið á láta enn reyna á atvinnumöguleika mína í heimabyggð, bíð spennt eftir niðurstöðum um það hvort menntun og reynsla hafi vægi þegar kemur að vali á umsækjendum og mati á hæfni. Nýtt fólk við stjórnvölinn sem boðaði breytta og bjarta tíma og lýðræði þar sem jafnræðis gætir. Sturlungaöld á að vera liðin hjá og stríðsöxin grafin. Spennandi tímar framundan á krossgötunum og gaman að vera til
Veikindin | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.8.2007 | 15:58
Ótímabær pest
Lítt betri af "pestinni", hósta og gelti áfram. Uppköst meira og minna í alla nótt enda seint skipt um legustellingar í dag sem fólust í að fara úr rúmi yfir í minn hjartfólgna sófa. Hef þá alla vega sjónvarpið til að glápa á stað veggjanna eða sólarinnar sem virkilega er fúlt. Að geta ekki nýtt þennan sólríka dag, skömmu áður en Haffinn fer út, er einfaldlega fúlt.
Það er huggun harmi gegn að krakkarnir eru ekki of borubrattir sjálfir eftir útstáelsi framundir morgun, það dregur aðeins úr móralnum.
Skil reyndar ekki í slíkri pest á þessum árstíma, ef ég visssi ekki betur, teldi ég infúensuna komna. Búin að lofa sjálfri mér því að fara á Læknavaktina ef ég verð ekki betri á morgun. Stórafmæli hjá Kristni bróður á morgun, eins gott að fara hysja upp um sig og batna. En núna er það sófinn áfram og að reyna að koma einhverju niður (ojjjjjjjj) Fátt annað í stöðunni.
Veikindin | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)