Hvað er Dalamennska?

Það er alveg augljóst að með því að blogga, berskjaldar maður sig gagnvart umheiminum. Maður liggur vel við höggi og eitthvað hefur blogg mitt farið fyrir brjóstið á einhverjum ef marka má færslu í athugasemdardálki mínum. Ég get eiginlega ekki orða bundist og skil ekki hvað viðkomandi er að fara eða ýja að. Eftirfarandi ritar þjónustufulltrúi viðskiptabanka míns:

"Er þá ekki bara rétt að ætla Guðrún Jóna að sá sem var ráðinn hafi verið betur treyst til að halda á fjármálum viðkomandi stofnunar.

Annars er ekki mín meining að standa í skriflegu skítkasti hvorki við þig né aðra. Mér sýnist þó á öllu að þú gangir fulllangt í þínum fullyrðingum, af því sem ég hef séð.  Þú gerir lítið úr fólki sökum ætternis og telur það ekki standa fyrir neinu vegna þess hverra manna það er. Megnið af því sem ég les hér á þessu bloggi er sjálfsvorkunn og almenn niðurrifsstarfssemi út í allt og alla og því tel ég þetta blogg ekki þess vert að lesa meira af því."

Guðrún Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 16:13

 

 

Svo mörg voru orð kjörins fulltrúa okkar til sveitarstjórnar á síðasta ári.   Ekki veit ég hvað þjónustufulltrúanum frá Sólheimum gengur til eða meinar með þessum orðum sínum en augljóslega er honum mikið niðri fyrir.

 Skítkastið stendur ekki á sér, í öllu falli. Hvað sem rekur hann í stóryrðin er svo annað mál. Ég hlýt að kalla eftir nánari skýringum.

Pólitíkin er vond tík eins og ég hef áður nefnt og augljóslega er algjör viðsnúningur hjá fyrrum framsóknarkonunni, eða hvað? Öðru vísi mér áður brá, get ekki annað sagt.

Það hafa fleiri berskjaldað sig nú en ég með mínu bloggi og skoðunum á samtímanum, og stjórnsýslunni. Trúverðugleiki Whistling

Það má vera að ég sé uppfull af sjálfsvorkunn; ég tel mig reyndar hafa stefnt í á átt að  vinna mig út úr erfiðri stöðu og sársaukafullri reynslu á minn hátt og að sjálfsögðu eru til einstaklingar sem sjá það versta í þeirri viðleitni. Tímar hafa vissulega verið erfiðir ég hef minn hátt á því að vinna mig út úr þeim og sitt sýnist hverjum í þeim efnum, eins og gengur. En er það ekki einu sinni svo að "margur heldur mig sig"?  En það er nú einu sinni svo að ég hef hvorki þurft sjálfsvorkunn né vorkunn annarra, er heldur lítið fyrir slíkt.

 

Ég sé ekki ástæðu til að svara öðru skítkasti af hálfu þjónustufulltrúans sem hlýtur að fara að komast í öruggt sæti sveitarstjórnar, svona miðað við afföll listans og sameinaða krafta. Þetta fer allt að koma hjá þér nafna, og þá breytir þú heiminum enda löngu kominn tími til.  Þinn tími mun koma og þú þarft ekki heimsókna á mína síðu til þess. Vegni þér ævinlega sem best.Wink 

Gagnrýni er góðra gjalda verð og nauðsynleg. Hún þarf hins vegar að vera byggð á rökum til að vera trúverðugleg.  Er þetta raunveruleg eða innflutt Dalamennska? 

 

 

 


Umræður jákvæðar

Mér finnst alltaf gott ef umræður skapast um mál og menn. Þær skapa grundvöll fyrir skoðanaskipti og mismunandi sjónarmið.  Ekki er verra ef leiðréttingar koma fram þegar farið er með rangt mál. Mér finnst bloggið vera góður kostur fyrir okkur sem einstaklinga með skoðanir og annað sem okkur liggur á hjarta. Sá sem bloggar ber einn ábyrgð á sínum skrifum og þannig á það að vera.

En það er ekki þar með sagt að hægt sé að setja allt sem manni dettur í hug á bloggið og gæta verður velsæmis. Hvernig menn skilgreina velsæmi er svo auðvitað allt annar handleggur og skiptar skoðanir á því hugtaki.

Mér sýnist ég hafa nartað í einhverja viðvæma strengi með síðustu færslu minni. Ég lít svo á að ég geti tjáð mig um málefni líðandi stundar, komið með gagnrýni þegar hún á við o.s.frv. Mér þykir hins vegar leitt að hafa farið með rangt mál varðandi menntun veghefilsstjórans, þessa ágæta manns  og hef beðið velvirðingar á því í atugasemdadálknum.  Ekki var meiningin að gera lítið úr menntun hans eða annarra, ég vissi einfaldega ekki betur og nú er þeirri leiðréttingu komið á framfæri.

Það breytir hins vegar ekki skoðun minni á pólitískum og/eða vina-/ættingjaráðningum almennt séð. Þær eiga sér stað alls staðar í þjóðfélaginu en í mismiklu mæli og eru misgrófar. Mýmörg dæmi sanna það og eru þau dæmi sem ég tiltek í síðustu færslu, einungis örfá dæmi um slíkar ráðningar. Mér hefur ekki borist gagnrýni vegna þeirra.  Ég get sagt það með góðri samvisku að töluvert skortir á siðferði og fagmennsku í flestum þeirra.

Ég hef kosið að ræða hispurslaust um þau mál sem brenna á mér hverju sinni á þessum vettvangi enda oft komið fram hjá mér að lífsýn mín hefur breyst töluvert eftir erfiða og sársaukafulla reynslu síðustu ára. Reynslu sem ég gat ekki séð fyrir en aðrir gerðu án þess að gera mér viðvart. Veikindin og makamissir síðustu mánuði hafa skerpt enn á þeirri lífsýn minni.

Ég ber hag míns sveitarfélags mikið fyrir brjósti og verð seint þreytt á því að fylgjast með gangi mála á þeim vettvangi enda er mér það frjálst.  Virðing fyrir hagsmunum sveitarfélagsins, íbúum þess og framþróun er því miður af skornum skammti af hálfu núverandi sveitarstjórn og fer sú hagsmunapólitík sem þar er rekin, ákaflega fyrir brjóstið á mér, líkt og fleirum. Hún hefur nefnilega eflst og versnað síðustu 18 mánuðina og þótti slæm fyrir. Þeir sem gagnrýndu stjórnsýslu og stjórnarhætti hæst fyrir þann tíma, taka fullan þátt í hagsmunapólitíkinni dag. Mér finnst það miður og gerir þá lítt trúverðuga. Einræði er alltaf slæmt.

Ég sé sem sé, enga ástæðu til að læðast með veggjum með skoðanir mínar. Lífið er stutt, á það hef ég verið rækilega minnt. Við búum við skoðana- og tjáskiptafrelsi og eigum að nýta okkur það. Það vill svo til að pólitíkin er eitt af mínum áhugamálum og bíð ég spennt eftir komandi þingi. Fraundan er gúrkutíð í þeim efnum.

Er öll að koma til eftir iðrakveisuna sem var hundleiðinleg og hvimleið en ekkert alvarlegt á ferðinni. Ég þarf greinilega einhvern aðlögunartíma gagnvart starfinu, verið hálf utan við mig, farið vikuvillt og hvað eina en nú er það tíma- og verkefnastjórnunin sem tekur völdin. Verð skipulögð fram í fingurgóma. Fer vonandi að sjá fyrir endann á öllu vafstri og aukaálagi og léttir að vera búin að taka einhverjar ákvarðanir. Pinch

 

 

 


Helgin á enda

Þá er þessi laaaanga helgi farin að styttast í annan endan. Ekki það að verkefnin hafa verið ærin en minna um framkæmdargetuna þessa helgina. Í stuttu máli náði ég ekki að framkvæma neitt af ætlunarverkum mínum sökum hvimleiðrar iðrakveisu og hita. Legið eins og klessa, hríðskjálfandi undir teppi og sæng megnið af helginni enda hefur hún verið lengi að líða. Það kom sér vel að sjónvarpsdagskráin var með skásta móti þessa dagana. Lét mig meira að segja það að horfa á einhverja heimildarmynd um risaeðlur á laugardagskvöldi og hafði lúmsk gaman af. Þá er reyndar fokið í flest skjól.

Er reyndar kjaftstopp yfir öllu pestafargani sem tröllríður landanum þessa dagana og vikurnar, mér finnst þessi árstími ekki passa fyrir slíka leiðindagesti. En get ekkert gert annað en að láta þá yfir mig ganga. Í öllu falli hefur mér tekist að forðast það að smita aðra af þessari pestarskömm; ekki hitt lifandi hræðu síðan á fimmtudag.

Ég er svo sem kjaftstopp yfir fleiri málum en pestum þessa dagana. Stautaði mig í gegnum 6-8 síður í Mbl. um Grímseyjarferjunna. Ítarleg umfjöllun þar á ferð og engin vafi hver ber ábyrgð á þessu klúðri öllu. Ekki er það skipaverkfræðingurinn. 'Eg get ekki annað en velt því fyrir mér hvaða bakgrunn þeir þingmenn hafa sem við höfum kosið til að stjórna landinu.  Kennir þar ýmissa grasa í menntun og fyrri starfsreynslu. Fráfarandi samgöngumálaráðherra er reyndar byggingatækniverkfræðingur sem gefur honum nokkuð forskot á aðra í þessum málaflokk. Ef litið er á núverandi samgöngumálaráðherra þá er hann menntaður íþróttakennari og hefur m.a. starfað sem verslunarstjóri í raftækjaverslun og síðar verslunareigandi. Báðir þessir ráðherrar hafa reynslu af sveitarstjórnarmálum og sá fyrr verið þingmaður um nokkurt hríð. En hvað varðar sérþekkingu þeirra á málaflokknum; samgöngumálum, fer lítið fyrir henni sem slíkri og þeir því háðir starfsmönnum ráðuneytanna í þeim efnum.

En þegar litið er til starfsmanna ráðuneytanna þá eiga sér yfirleitt stað breytingar á starfsmannahaldi á 4 ára fresti; þ.e þegar nýjir flokkar taka við stjórnartaumunum. Það vita það allir sem vilja, að skipan í embættin er að öllu jöfnu pólitísk og ríkjandi stjórnmálaflokkar keppast við að koma sínum mönnum að í ráðuneytin og önnur mikilvæg störf. Oftar en ekki hefur menntun, þekking og reynsla lítið með þær mannaráðningar að gera. Þær eru pólitískar og tilgangur slíkra mannaráðninga er auðvitað að hafa alla þræði í hendi sér og bakland á réttum stöðum.

Það sama sjáum við á sveitarstjórnarstiginu. Þeir aðilar sem eru við völd hamast við að koma sínu fólki að; vinum, samherjum og vandamönnum í þær stöður sem eitthvað mega sín. Stöður skólastjóra, bæjarstjóra, framkvæmdarstjóra og annarra stórnenda í fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélöganna eru pólitískar.  Dæmi um slíkar ráðningar finnast víða; Í Bolungarvík er skólstjóri grunnskólans menntaður sem tónlistaskólakennari, bæjarstjórinn sem telst til vina skólastjórans er þroskaþjálfari að mennt og aldrei komið nálægt sveitarstjórnarmálum. Fjölskyldu skólastjórans hefur allst staðar verið komið fyrir í hinum ýmsu störfum sveitarfélagsins enda orðin allsráðandi þar á bæ með alla þræði í hendi sér.

Í minni heimabyggð er það sama uppi á teningnum.  Ráðning skólastjórans var af pólitískum toga sem og útibússtjóra bankans, ráðing yfirmanns vegagerðarinnar einnig og löng hefð er fyrir því að sýslumaðurinn sé sjálfstæðismaður sem fellur vel að norminu. Ráðning sveitarstjórans var auðvitað pólitísk. Í aðrar stjórnunarstöður í stofnunum og fyrirtækjum sveitarfélagsins hafa ráðandi sveitarstjórnarmenn handvalið inn einstaklinga til starfans og virðist þá menntun og reynsla viðkomandi á málaflokknum ekki hafa neitt með ráðninguna að gera.  Handvalið byggir þá ýmist á pólitískum tengslum eða tengslum við vini og vandamenn og í einstöku tilfellum eru "þæglilegir" einstaklingar sem láta vel að stjórn ráðnir til starfans, ekki síst þegar fátt er um fína drætti.  Hæfi umsækjenda vegur ekkert í þessum málum.

Nýjasta ráðning í mínu sveitarfélagi er ráðning framkvæmdarstjóra dvalar- og hjúkrunarheimilis fyrir geðfatlaða.  Sá sem varð fyrir valinu er veghefilsstjóri, mætur maður sem flestum líkar vel við. Hann er auk þess af réttum ættum en sá galli er á ráðningunni er að hann hefur haldlitla menntun að baki sér til starfans, kominn með diploma nám í viðskiptafræði að ég held og enga reynslu af rekstri, hvað þá umhverfi geðfatlaðra.  Í mínum augum hafa ráðmenn gengið lengra í þessum málum en nokkur lét sig dreyma um og eru flestir ýmsu vanir í þeim efnum. Gengið var fram hjá umsækjanda með MBA gráðu í viðskiptum, reyndar eina umsækjandanum sem hafði lokið háskólagráðu,  framhaldsnám í stjórnun og rekstri í heilbirgðisþjónustu og áratuga reynslu í heilbrigðsigeiranum og stjórnun. Auk þess að vera heimamaður, gjörþekktir umsækjandinn viðkomandi starfsumhverfi.  Ekki það að þessi ákvörðun kom ekkert á óvart, umræddur umsækjandi fær ekki atvinnu í sveitarfélaginu á meðan ráðandi sveitarstjórnarmenn og óbreyttur kíkuskapur eru við völd. Menn eru hins vegar orðnir mun ósvífnari í ákvörðunum sínum og telja sig geta ráðið öllu, gagnrýnislaust. Fagleg sjónarmið ráða engu, allt snýst um handval og pólitík.  Mér leikur hins vegar forvitni á að vita hver rökstuðningur fyrir ráðningunni verður. Í öllu falli réðu hagsmunir skjólstæðinga viðkomandi stofnunar ekki för, það tekur veghefislstjóra all nokkurn tíma að komast inn í starfsumhverfið og lagaramma starfseminnar og skiptir þá engu máli hversu "góður strákur" hann er.

En þetta er ekkert nýtt fyrir okkur sem búum úti á landsbyggðinni þar sem siðlausar ákvarðanir og brot á stjórnsýslulögum er daglegt brauð. Auðvitað gerist það sama í hinum opinbera geira og þar sem pólitík kemur nærri en menn þurfa að virða lagaramman og siðferði í þeim efnum í ríkara mæli en þekkist í litlu samfélögunum. Stéttarfélög og aðrir hagsmunaðilar koma þar að málum. Í sveitinni leyfist allt í krafti meirihlutans og það sárgrætilega við það er að íbúarnir sem eru hundóánægðir heima við eldhúsborðið, treysta sér ekki til að koma með gagnrýni enda löng hefð fyrir því að útskúfa þá úr samfélaginu sem leyfa sér slíkt, þannig að mönnum hefur lærst að þegja til að halda sínu. Minnihlutinn þegir þunnu hljóði til að "tryggja frið" í samfélaginu, forðast að fá þann stimpil að hann sé með átök. Hann virðist hins vegar blindur á þá staðreynd sem allir vita; það logar allt af óánægju og kurri, ástandið er sýnu verra en nokkurn tíma áður og var slæmt þá.

Hvað varðar samgöngumálaráðherrana þá er svo sem ekki hægt að krefjast þess að þeir séu sérfræðingar á sínum svið en þá kröfu verður að gera til ráðuneytisstjóra og annarra opinberra starfsmanna hinna ýmsu ríkisstofnana. Það ber að hafa að leiðarjósi við mannaráðningar og ráðherrar geta ekki firrt sig ábyrgð sinna starfsmanna. Það er einfaldlega ekki hægt. Að benda á aðkeyptan skipaverkrfræðing sem sökudólg, líkt og núverandi samgöngumálaráðherra er hneyksli út af fyrir sig. Hann hefur glatað öllum trúverðugleika og sannarlega sýnt það opinberlega að hann er ekki starfi sínu vaxinn.

Skyldi það vera tilviljun ein sem ræður því að í báðum þeim sveitarfélögum sem hér hafa verið nefnd, eru það sjálfstæðismenn eða angar þeirra sem halda um stjórnvölinn? Stórt er spurt. Whistling


Áfram lumbra

Svo fór sem mig grunaði, pest enn og aftur. Engin ósköp en nóg til að kyrrsetja mig heima í dag með fötuna um hálsinn. Merkilegt hvað mikið er af vírus- og umgangspestum í gangi og ekki nema september.  Það verða blómafræflarnir og vítamínin til að byggja upp mótstöðuna áður en hin eiginlega gúrkutíð í flensum hefst. 

Ég hef fengið mikið af góðum ráðum undanfarið, ekki síst út af vangaveltum mínum um krossgöturnar og hvert skuli stefna.  Allt orð að sönnu. Auðvitað á maður að taka ákvarðanir sem snúast um eigin vellíðan og hagsmuni, ekki annarra.  Þrjóska á heldur ekki að ráða för. Engu að síður er málið þannig vaxið að uppgjör við fortíðina er óumflýjanlegt, á því uppgjöri byggist framtíðin.  Það er ekki hægt að halda áfram né strika neitt út fyrr en málin hafa verið gerð upp, a.m.k. innra með manni.  Þá fyrst verður maður sáttur.

Ég hef lengi látið reyna á mannkosti og heiðarleika manna. Hef verið óþreytandi að gefa "mönnum sjens" til að bæta sig. Það verður að vísu alltaf erfiðara eftir því sem tækifærin verða fleiri og enginn árangur. Enn erfiðara er það þegar menn ganga út fyrir öll velsæmismörk í því eina skyni að bregða fyrir mann fæti og fella mann eða í stuttu máli að gera manni lífið óbærilegt.  Þrátt fyrir allan mannkærleika hlýtur að koma að því að maður fær nóg og leyfir mönnum að bragða á eigin ólyfjan.  Hvernig má annað vera?

Mér hefur verið tíðrætt um vald og misbeitingu valds. Eitthvað sem samfélagið ætti aldrei að láta yfir sig ganga. En það er svo einkennilegt með okkur mannfólkið, við kokgleypum loforðum um bót og betrun þrátt fyrir síendurtekin brot á þeim loforðum.  Þegar misbeiting valds hefur það vítæk áhrif á líf einstaklings að viðkomandi er króaður út í horn af "hýenum" og á sér ekki viðreisnarvon er ástandið orðið alvarlegt.  Þegar menn eru sviptir öllu, ærunni og lífsskilyrðum er ekkert eftir, nema kannski baráttuviljinn

Kjörnir fulltrúar hafa skyldur gagnvart kjósendum sínum og samfélagi. Þeim ber að hafa velferð íbúanna og samfélagsins fyrir brjósti, forgangurinn á að vera algjör og eigin hagsmunir alltaf að víkja. En þegar kjörnir fulltrúar eru farnir að misbeita valdi sínu með þeim hætti að eigin hagsmunir og vina og vandamanna ráða för er illt í efni.  Í mínu byggðalagi hefur slík misbeiting valds viðgengist í áraraðir. Menn bundu vonir um breytta stjórnarhætti með nýjum mönnum og ferskum vindum en láðist að gefa því gaum að úlfur í sauðagæru var meðal þessa "nýja " hóps. Sá hinn sami hafði svo sem sýnt sitt rétta andlit áður, bæði í opinberum hlutverkum sínum sem og í einkalífi. Engu að síður er hann valdamesti maðurinn á svæðinu og hefur alla þræði í hendi sér. Hans æðsta hlutverk virðist vera fólgið í því að viðhalda fyrri stjórnarháttum og stunda EINRÆÐI. Vandaðir stjórnsýsluhættir finnast ekki uppi á því borði og sem betur fer hafa menn í auknum mæli gert athugasemdir þ.a.l. en hann kemst engu að síður upp með sína iðjan. Fagurgalinn blekkir, a.m.k. um tíma en ekki endalaust, mig grunar að fallið gæti orðið hátt og harkalegt.

Það má með sönnu segja að þegar kemur að ákvörðun um eigið líf og velferð, sé réttast að leita þangað sem fer best um mann. Breytingar krefjast hins vegar alltaf uppgjörs og maður er alltaf að læra af reynslunni í gegnum allt lífið. Valdbeiting og vanvirðing á lýðræði fer hins vegar alltaf illa fyrir brjóstið á mér og sumir segja að "þangað leiti klárinn þar sem hann er kvaldastur".   Það má satt vera í mínu tilfelli.  Ég breyti hins vegar ekki heiminum ein en ég get hins vegar sagt sannleikan eins og hann er, reiðilaust. Það er löngu tímabært að hann komi fram.W00t

Þá fyrst get ég haldið áfram, sátt við sjálfa mig og æðri máttarvöld.

 

 

 

 


Lumbra og þyngsli

Ekki laust við þreytu og einhverja "lumbru" síðustu 2 dagana. Vantar greinilega upp á úthaldið þó það sé vissulega margfalt á við úthaldið í síðasta mánuði.  Ekkert alvarlegt þó.Wink

Sjálfsagt spilar inn í allar þær breytingar sem hafa dunið á og munu gera á næstu vikum. Það er nefnilega ótrúlega erfitt að taka ákvarðanir sem umturna lífi manns, fyrri stefnu og áherslum.  Staðreyndin er hins vegar sú að þegar maður verður fyrir því höggi að greinast með krabbamein og ganga í gegnum alla þá erfiðleika sem því fylgir, breytast áherslurnar í lífinu.  Eftir að hafa staðið frammi fyrir því að lifa jafnvel ekki sjúkdóminn af, breytist lífssýnin svo um munar. Hversdaglegt amstur og lífsgæðakapphlaup skiptir ekki lengur máli. Æi, ég veit ekki; forgangsröðunin gjörbreytist  og jafnvel dægurþrasið í stjórnmálum verður litlaust og leiðinlegt enda alltaf sama tuggan. Þá er reyndar fokið í flest skjól hjá minni þegar mér er farið að leiðast stjórnmálaþrasið.W00t

Ég hef þráfaldlega spurt mig síðustu vikur, eftir að ég fékk þær fréttir að ég ætti góðar líkur á fullum bata, hvað það er sem ég vil í því lífi sem mér er ætlað í þessari jarðvist. Búin að gera mér grein fyrir því að áframhaldandi jarðvist er nefnilega ekkert sjálfsagt mál. Hvernig vil ég lifa mínu lífi?  Mér hefur ekki verið það sársaukalaust að kryfja þá spurningu til mergjar. Líf mitt hefur tekið gríðalegum breytingum; ég búin að greinast, Guðjón látinn og krakkarnir flognir úr hreiðrinu.  Fjárhagsleg áhrif veikindanna og fráfalls Guðjóns eru gríðaleg og augljóst að eitthvað hefur látið undan. Ég hef svo sem ekki dregið dul á það að hvorki kerfið, viðskiptabankinn eða aðrir hafa ekki sýnt þessum erfiðleikum skilning, þolinmæði eða sveigjanleika. Sú erfiða reynsla hefur bæst ofan á veikindin, sorgina, söknuðinn og einmannaleikann. Hneisan, skömmin, höfnunin og vanmátturinn hafa bæst ofan á allt annað, þrátt fyrir að reyna mitt besta.

Gott og vel, ég er ekki sú eina sem upplifi slíkar hörmungar og ekki sú síðasta þannig að mér dettur ekki í hug að vorkenna mér.  En ég vil koma mér út úr þessum erfiðu aðstæðum og það get ég þó það sé ekki auðvelt né sársaukalaust. Spurningin hefur hins vegar verið sú; hvert vil ég stefna, hvaða valkosti á ég að velja?  Svarið hefur vafist fyrir mér og legið hefur við hálgerðri tilvistarkreppu, svei mér þá.

Valkostirnir eru hins vegar skýrir; vil ég halda áfram að heyja vonlitla baráttu um tilvistarrétt, mannréttindi, lýðræði, búsetu- og atvinnuskilyrði og val í þeim efnum eða vil ég snúa við blaðinu og beina kröftum mínum þangað sem þeir eru metnir og sóst eftir þeim?  Vil ég vera neikvæðu umhverfi sem einkennist af valdabaráttu, klíkumyndunum og ofsóknum gegn þeim sem ekki falla í kramið og þar sem menn eru klofnir í herðar niður fyrir það eitt að hafa skoðanir? Verða einhvern tíman einhverjar breytingar á núverandi samfélagi?  Eða sækist ég eftir öðrum lífsskilyrðum?Hver er fórnarkostnaðurinn við óbreytt ástand og hver er hann við breytingar?

Þessum spurningum hefur ekki verið auðvelt að svara, margar hliðar á þeim öllum svo ekki sé minnst á lýðræðislegt val. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að fórnarkostnaður síðustu 6 ára hefur verið mikill og óbætanlegur fyrir mig og mína og hef ég upplifað hina ótrúlegustu reynslu sem fæstir vildu upplifa, hef ég trú á. Mér er oft hugsað til þeirra sem hafa mótað og stýrt því ferli öllu saman. Hvernig skyldi þeim líða innra með sér svona almennt? Ekki það að siðblinda er vandamál margra og það mál fljótafgreitt; þeir sjá ekkert athugavert við sjálfa sig en það er ekki vandamál allra hlutaðeigandi.Hvernig skyldu hinum þöglu þátttakendum líða?  Ég fæ sjálfsagt seint svar við þessum spurningum mínum og vangaveltum.

Sem betur fer hef ég val, það er ekki hægt að segja um alla. Fyrir það er ég auðvitað þakklát. Það sem háir mér þessar vikurnar er einfaldega "Vogin" í mér, ég þarf alltaf að velta öllum möguleikum fyrir mér frá öllum hliðum áður en ég tek ákvörðun.  Oftast er ég reyndar fljót að því en í þetta skiptið sit ég enn föst á krossgötunum þó ljósið sé löngu orðið grænt. Tilfinningar, vinátta og væntumþykja gagnvart fólki spilar sterkt inni í og óútskýrð þörf fyrir það að leggja mitt að mörkum til að bæta samfélagið og ástandið. Skynsemin ræður ekki alltaf för í þegar kemur að slíkum tilfinningum og ótrúlegt hvað maður er tilbúinn að láta yfir sig ganga til að tryggja réttlæti og sýna tryggð.  En slíkt verður auðvitað að virka í báðar áttir.Whistling

Í öllu falli stend ég frammi fyrir því að miklar breytingar hafa átt sér stað í mínu lífi. Flestar breytingar leiða eitthvað jákvætt í för með sér og tek ég þeim fagnandi, aðrar ekki og sumar eru einfaldlega óhjákvæmilegar. Ég verð að taka ákvarðanir í samræmi við þessar breytingar og breyttar áherslur verða hafðar að leiðarljósi.  Velferð mín og barnanna er það sem skiptir mestu máli og það að vera sátt við eigin ákvarðanir. Mér mun seint hugnast að láta aðra stjórna þar för og þeir sem mig þekkja, vita að ég læt seint deigan síga. Valið verður mitt, hver svo sem stefnan verður í náinni framtíð.  Uppgjör tekur hins vegar alltaf á.Pinch


Þar kom að því

Þó ég hafi misst af fréttum kvöldsins hef ég haft fregnir af því að þarft verk var unnið. Þórdís Tinna ku hafa verið í viðtali og ætla ég rétt að vona að umfjöllunin hafi verið skammarleg meðferð og útkoma þeirra sem berjast við langvarandi og/eða illkynja sjúkdóma. Í öllu falli hef ég fregnað að hún hafi staðið sig vel og það er frábært.

Staðreyndin er nefnilega sú að öll veikindi setja strik í reikninginn hjá okkur. Misalvarleg. Þegar þau eru farin að hafa áhrif á fólk fjárhagslega er fátt um fína drætti. Það sem meira er, það má ekki tala upphátt um þau áhrif.  Fólk skríður með veggjum, einfaldlega af því að áhrifin eru neikvæð og það sem meira er; fæstir vilja vita af þeim.  Það er líka svo ofboðslega erfitt að skulda og standa ekki við sínar skuldbindingar.

Íslendingar eru þekktir fyrir neyslusamfélag og stór hluti þjóðarinnar fjárfestir í samræmi við áætlaðar tekjur. Bankarnir gera einfaldlega ráð fyrir því miðað við gylliboðin.  Öll reiknum við fastlega með að halda okkar tekjum og ef við missum vinnuna; þá fáum við aðra. Fæstir huga reyndar að þeim möguleika að missa vinnuna yfir höfuð. En hvað gerist ef við veikjumst? Afleiðingarnar eru misjafnar í fyrstu, fer eftir því í hvaða stéttarfélagi við erum í þeim efnum. Sum okkar halda launum til lengri tíma, önnur til skemmri tíma. Í öllu falli tekjuskerðing þegar til lengri tíma er litið og hvað gerist þá?

Jú, ósköp einfaldlega safnast upp vanskilin, bankarnir, Íbúðarlánasjóður, leigutakinn, rafmagnið, hitinn, síminn og hvað það er hjá hverju og einum; allt lendir í vanskilum. Vextirnir hrannast upp og í svæsnum tilfellum gjaldfellir bankinn allt, hreinlega lokar og hirðir allt. Það eru ekki allir heppnir með viðskiptabankan sinn.

Í ofanálag bætist við kostnaður vegna læknismeðferðar, lyfja, rannsókna og styttri innlagna; ÞRÁTT FYRIR AFLSÁTTARKORTIN!  Svo ekki sé minnst á landsbyggðartútturnar sem þurfa að greiða fyrir gistingu ef þær eru svo ólánssamar að eiga ekki aumingjagóða ættingja eða vini sem skjóta yfir þá skjólshúsi.

Skömmin er ólýsanleg og vanmátturinn alger. Að standa ekki í skilum við skuldbindingar er hræðilegt, að geta ekki veitt börnum sínum það sem þau þurfa er enn hræðilegra. Að vera ekki gildur þjóðfélagsþegn og skila sínu til baka til samfélagsins er óbærilegt. Að þurfa að þiggja bætur er skref sem flestir eiga erfitt með að taka. Láta sig hafa það á meðan baráttan stendur hæst og kraftarnir þurfa að beinast að þeirri baráttu.  Lenda svo í kerfinu og þurfa að berjast um hæl og hnakka til að sækja um það sem er "lögbundinn réttur" allra Íslendinga, bætur sem enginn getur lifað af með, þrátt fyrir allar skattagreiðslurnar í gegnum tíðina.  Svo ekki sé minnst á aldraða.

Og hvað er til ráða? Fátt eitt annað en að láta þetta yfir sig ganga, reyna að klóra í bakkann og það sem öllum finnst sjálfsagt; að bera sig vel! Vera duglegur!

Staðreyndin er nefnilega sú að þegar fólk greinist með alvarlega og lífshótandi sjúkdóma þá er það krafa samtímans að standa sig. Láta yfir sig ganga erfiðar meðferðir, endurhæfingu og allt sem því fylgir. Umfram allt að berjast fyrir sínu lífi; alveg sama hvað það kostar. Þú verður! Og það brosandi á vör.  Missa aldrei kjarkinn!  Láta aldrei deigan síga.  Allt fyrir lifsneistan.  Auðvitað eru flestir, ef ekki allir sem greinast með slíka sjúkdóma á sama  máli. Baráttan snýst um að berjast fyrir lífi sínu, engin spurning!

Það sem gleymist hins vegar oft í hugsun þjóðarsálarinnar og vina og vandamanna; það er miklu meira en ærið starf að klást við þá staðreynd að vera kippt út úr atvinnulífinu, að vera að heyja sinn lífróður, berjast við veikindi og aukaverkanir. Sá hinn sami þarf að kljást við aðra erfiðleika á sama tíma; fjárhaglegar breytingar og örðugleika, smánarlegar bætur og lítillækkun þegar kemur að skuldaskilum vegna tekjulækkunar/leysis. Og ekki síst það að vera kippt út úr daglegu lífi, félagslegum samskiptum og svo lengi má telja.

Hver hafa svo skilaboðin verið að öllu jöfnu? Jú þau eru einfadlega þessi: Stattu þig!

Í öllu falli hefur umræðan fremur verið sjúkdómamiðuð, fjárhagsleg áhrif þess að vera kippt út af vinnumarkaðnum eru ekki rædd. Aðgengi þeirra að vinnumarkaðnum sem hafa greinst með alvarlegan sjúkdóm þegar ástand leyfir, er skert ef ekki með öllu útilokað.  Ég fagna því mjög að umræðan skuli opnast um þessi mál. Krabbameinsveikir og aðrir sem veikjast af langvinnum og eða alvarlegum sjúkdómum eiga við fleiri vandamál að stríða en veikindin þó menn virðist forðast þá umræðu. Staða þeirra gagnvart bótum og ríki eru til háborinnar skammar og ekki mönnum bjóðandi, svo ekki sé minnst á það niðurlægjandi ferli að sækja um rétt sinn. Flestir upplifa það sama þegar það ferli hefst; þú þarft að berjast fyrir þínum rétti og tilfinningin er sú að um ölmusu er að ræða.

Vonandi breytir opinská umræða þessum málum til bóta, fyrir alla hagsmunahópa í þjóðfélaginu. Til hamingju Þórdís Tinna og Gísína.  Markmiði ykkar er náð; þ.e. að ná athygli ráðamanna og þjóðarinnar og opna umræðuna. Nú er bara að halda áfram!

 


Náði í skottið á mér

Loksins tókst mér að ná í skottið á mér. Það tók á, ég langt á eftir og meira álag en ég gerði mér grein fyrir. Nú ætti allt að vera komið í þokkalegan gír, þar til ég byrja á næstu törn sem ég á að vera löngu byrjuð á.  Svona verða næstu 2-3 vikur hjá mér. Tímaramminn svakalegur og ég verð að forgangsraða.  Sumt verður undan að láta, það geri ég mér grein fyrir. Einhver græðir á því, er ég hrædd um.

Í öllu falli þokkalega ánægð með afrakstur helgarinnar, hefði viljað koma meiru í verk og vera annars staðar en við sumt er ekki ráðið.

Krakkarnir býsna ánægð úti, Kötu gengur vel að aðlagast nýju umhverfi. Haffi stóðst erfðafræðina í fyrstu lotu og kominn í vikufrí.  Hvað er hægt að biðja um meira? Við tíkurnar "plummum" okkur áætlega, ég mætti vera duglegri en allt stendur til bóta.Whistling

Næsta skref er að koma Lady Diönu undir læknishendur og fá að vita stöðu mála með hana, blessaða. Slaufa fer væntanlega til Keflavíkur í þessari viku þar sem fer betur um hana, þessa elsku. Þvílík kelurófa sem hún er. Ég hef ekki átt upp á pallborðið hjá henni á meðan Katan er heima en nú eru aðstæður breyttar, heldur betur. Svakalega á ég eftir að sakna hennar. Perlan er "issue" út af fyrir sig, því miður skín í gegn að hún er blönduð og það "grunsamleg" blanda. En falleg er hún, blessunin. Ég keypti hins vegar köttinn í sekknum þar.

Í öllu falli er ný vika framundan með ótal, ögrandi verkefnum. Kannski ég fái einhverjar fréttir í ofanálag?  Aldrei að vita.  Wink Langur dagur á morgun og mín farin að sofa. "Puncteruð" í orðsins fyllstu merkinguSick

 

 


Illt í efni

Mér þykir illt í efni þegar menn taka eigur annarra ófjrálsri hendi án þess að blikna eða blána.  Ekki síst þegar um er að ræða einstaklinga sem eru nátengdir og skyldir eigandanum sem gerir verknaðinn ljótari í mínum augum en ella.  Það verður seint hægt að segja að Guðjón hafi ekki þurft að hafa fyrir sínu, hann þurfti þess alla tíð.  Þegar menn sverta minningu látins manns með þessum hætti er fátt þeim til málsbóta.  Ekkert, satt best að segja.

Nú liggur sem sé fyrir að tilteknir menn hafa sótt sér heyvinnslutæki, verkfæri og önnur tól í leyfisleysi heim að Seljalandi.  Ekki einungis farið inn á landareign okkar í óleyfi heldur og tekið eignir ófjrálsri hendi.  Slungnir ábyggilega og telja sig hafa falið slóðina en svo gott er það ekki fyrir þá.  En nú skil ég betur en nokkurn tíman fyrr, hvað Guðjón átti við að etja og sem fór illa með hann.  Ég mun seint fara niður á plan þessa "slegts" og læðast í skjóli nætur svo ekki sé minnst á kjaftaganginn, meiðyrðin og lygarnar.  Eins og ég hef alltaf sagt þá kemur sannleikurinn alltaf í ljós. Þeir einstaklingar sem haga sér með þessum hætti eru siðblindir og algjörlega óverjandi. Ég mun ekki þaga yfir þessum verknaði en hinkra með nafnabirtingar þar til sekt er sönnuð.

Ég get alveg játað það að mér er brugðið yfir þessum atburðum.  Það sem mér þykir verst við þennan þjófnað er vanvirðing gagnvart eigum og minnngu látins manns og það af hálfu einstaklinga sem töldu hann til vina sinna og ættingja.  Verknaðurinn á hins vegar ekki að koma mér á óvart og  lýsir best grunuðum einstaklingum og segir allt sem segja þarf. 

Eins er dauði annars brauð
út um haf og völlu.
Þarna leiðir sauður sauð
sé ég það á öllu
.
                                Höfundur: Einar Sveinn Frímann, f.1883 - d.1948
En eins og einhverjum varð á orði þá er skítlegt eðli ekki glæpur, þjófnaður er það hins vegar.  Tekið verður á málum í samræmi við það. Það þarf meira til ef tilgangurinn á að vera að slá mig út af borðinu, enda þrautþjálfuð í slíkum tilraunum manna síðustu árin. Við skulum spyrja að leikslokum.
Er annars óðum að ná tökum á breyttu hlutverki, búið að vera mjög sérstakt að hafa ekki krakkana hjá mér.  Annríkið vegna vinnunnar er búið að vera mikið síðustu tvær vikurnar en nú sé ég fram á að ástandið verði stöðugra. Framundan hins vegar ný og krefjandi verkefni þar sem ég kem til með að vera í kapphlaupi við tímann.

Breytingarnar eru og verða óneitanlega miklar því er ekki að neita og sumar auðveldari en aðrar eins og gengur í lífi allra. Ég einblíni á þau tækifæri sem felast í þessum breytingum og fagna því þegar þær verða yfirstaðnar.

Hvað varðar blessuð áföllin sem dynja á manni, að því er virðist út í það endanlega, þá hafa þau vissulega neikvæð áhrif á mig, alla vega svona í fyrstu en það hvarflar ekki að mér að láta þau buga mig.  Áföllin eru stærri og meiri hjá mörgum öðrum en mér. Þessum þjófnaði fylgir vissulega fjárhagslegt tjón en ekkert í samanburði við tjón annarra. Mér fannst hrikalegt að frétta af bruna sumarbústaðs Gunna bróðurs sem brann til kaldra kola með tilheyrandi eignartjóni. Einhverjir óprúttnir þar á ferð.  Maður spyr sig daglega; hvað er að verða um þetta þjóðfélag? Dóp, ofbeldi, innbrot og þjófnaður, íkveikjur og pólitískar aftökur daglega i fréttum.


Mótmæli

Tek undir orð Gíslínu sem koma fram á bloggi hennar, hvet alla til að lesa það og standa saman í þessu baráttumáli sem snýst fyrst og fremst um mannréttindi sjúkra, öryrkja og aldraðra

http://www.blog.central.is/gislina


Í skjóli nætur

Manninum er margt til listana lagt, oftast gott en stundum miður. Fátt er eitt auðvirðilegra þegar menn læðast í húmi nætur og ásælast annarra manna hluti eða vinna öðrum mein. Menn taka vel eftir þeirri umfjöllun fjölmiðla þegar þjófar stela öllu steini léttara í höfuðborginni; láta hreinlega greipir sópa og gista í híbýlum manna. Jafnvel nágrannar átta sig ekki á því að óboðnir gestir leggi undir sig heilu húsin.  Maður spyr sig hvað sé í gangi á höfuðborgarsvæðinu svo dæmi séu nefnd. Af hverju taka menn ekki eftir því að óboðnir gestir stela öllu steinum létttara hjá nágrannanum í næsta húsi?  Hvað er eiginlega í gangi?? Í öllu falli er tekið hart á slíkum málum.

Til sveita hafa menn yfirleitt verið blessunalega lausir við ágang slíkra einstaklinga sem taka hluti og eigur annarra með ófjrálsri hendi.  Menn gæta hvor að öðrum, sem betur fer. Mannaferðir fara ekki á milli mála, menn taka eftir þeim, slóðin liggur eftir slíka einstaklinga.  Það er hins vegar spurning hvort menn kjósi að taka eftir misjöfnum mannaferðum og hvað þeir hyggjast gera í þeim málum.

Í öllu falli hlýtur það að lýsa þeim einstaklingi best sem kýs að taka eigur annarra ófrjálsri hendi og án samráðs við eiganda. Siðblinda? Veikindi? Eða hreinlega rotinn  hugsunarháttur og ekki nokkur leið að finna viðkomandi málsbætur?

Ég hreinlega veit ekki hvort ég á að hafa samúð með slíkum einstaklingum eða reiðast þeim. Það verður að koma í ljós. En ég er ekki þekkt fyrir að láta þjófnað yfir mig ganga, þegjandi og aðgerðarlaus.  Er bókstaflega orðlaus yfir fréttum kvöldsins; mér heyrist ég hafa verið rænd og það heldur betur! Hversu lágt eru menn tilbúnir að leggjast í græðgi sinni og heift?  Menn ættu að vera búnir að átta sig á því að ég legg ALDREI árar í bátW00t

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband