Home sweet home

Lent á klakanum og skriðin inn í kofa eftir 24 klst. vöku. Að sjálfsögðu seinkun á vélinni sem dróst úr því að vera 1 klst. upp í 5-6 klst., er of ryðguð til að muna það. Efni í heila færslu að velta fyrir sér framkomu við farþega og rétt þeirra í aðstæðum sem þessum, skilst að fyritækið sem annast flug fyrir ÚRval/Utsýn og Plúsferðir sé komið í greiðluþrot með tilheyrandi afleiðinum. Fátt á gera í stöðunni annað en að kyngja þeim hundsbita en ég mun seint kyngja því að þurfa að sætta mig við algjöran skort á upplýsingaflæði til farþega, illan aðbúnað, matarleysi og erfiðar aðstæður klukkutímum saman. Ekki hósti, stuna né andvarp frá farastjórum sem voru stútungskerlingar á mínu reki og þar yfir, einungis þögn, vandræðaleg bros, flótti og feluleikur.

Farþegahópurinn var margbreytilegur og margur hefur  átt erfitt  síðusta hálfa sólahringinn. Nokkuð stór hópur þroskaheftra var meðal farþega, einhverfur drengur, nokkrir rígfullorðnir í hjólastólum, urmull af litlum börnum með foreldrum sínum og síðan öll flóran sem endurspeglar okkur mannfólkið. Svo má náttúrlega ekki gleyma ,,Brazelíunni", henni mér, með tilheyrandi sérþörfum og dyntum.

Vélin sem fengin var í snarhasti í gegnum Iceland Express er trúlega á mínum aldri, merkt Italy/Polsk. Maður hafði á tilfinningunni að ýmsir hlutar hennar hengu saman af gömlum vana, alls staðar hökti í henni, brak og brestir á ólíklegustu stöðum. Sætin upp á ,,gamla mátan", erfitt að halla þeim og hönnuð fyrir einstaklinga í kjörþyngd. Þeir sem ekki uppfylltu það skilyrði urðu að láta sér duga að ,,sitja á gírstönginni", alveg eins og í den.   Flugið minnti í stumáli á ökuferðir um Kambana forðum daga þegar bifreiðar óku um ,,þvottabretti" á 20-30 km. hraða. Allt hristist og skalf og ,,vegurinnn" ansi holóttur. Einhverjir supu hveljur á leiðinni, þ.á.m. ég.

Það sem mér fannst kannski verst við flugið var sú staðreynd að ekki var til nægur matur til að bjóða farþegum til kaups. Öll höfðum við beðið á flugvellinum á Krít í fleiri klukkutíma sem taldi einn kaffi- og samlokubar með vafasömu áleggi. Þessi eini staður þjónustaði alla farþega til og frá eyjunni. Kaffið mátti skera með hníf og gaffli, farþegum ráðlagt að fara ekki alla leið í gegnum öryggishliðið fyrr en rétt fyrir brottför sem var á óræðum tíma (sem ekkert okkar vissi hver yrði) enda ekkert við að vera þegar komið var að hliðunum, að undanskyldum enn minni kaffi- og samlokubar og fremur óálitlegum sætum úr harðplasti af einhverri gerð. Menn voru því orðnir ansi langeygir eftir hressingu þegar út í vél var komið og eftir enn aðra töfina, í þetta sinn í klukkustund til viðbótar.

Flugfreyjan upplýsti pöpulinn að því miður væri ekki nóg til af mat til að bjóða til sölu í samræmi við góða þjónustu flugfélagsins. Freyjan vonaðist til þess að sem flestir svæfu á leiðinni, það myndi draga úr óþægindum. Varð mér nóg um að heyra þessa tilkynningu og ekki skánaði skapið mitt þegar mér varð á að horfa upp á einn farastjóran og ektamann hennar (by the way; bæði yfir kjörþyngd), panta tvöfaldan skammt af pizzum og samlokum, vitandi að fyrir aftan þau var full vél af fólki, ekki síst öldruðum, fötluðum og börnum og að ekki yrði nóg fyrir alla. Þau voru eins og ég, heppin að fá að sitja framarlega í vélinni en þar var mínum sérþörfum mætt.  Ég missti alla vega lystina og snéri mér að svefni hinna réttlátu af fremsta megni.

Í heildina var ferðin yndisleg, var passlega löng, var búin að fá nóg af hitanum síðustu 2 dagana sem varla fór undir 35°C.  Held að ég hafi hreinlega fengið sólsting á laugardaginn  með tilheyrandi......Whistling.  Ekki var mikið um ferðalög né skoðunarferðir, ég var að mestu leyti á sama blettinum en krakkarnir meira hreyfanlegir. Þeir voru skelfilega treg á að kanna næturlífið, hafðist reyndar einu sinni alla ferðina. Frúin var fjarri góðu gamni en mér var það mikils virði að þau skylda drífa sig og anda aðeins. Ég átti marga góða daga þar sem mér leið vel en einnig nokkra vonda daga sem voru töff. Ég komst í gegnum þá en kýs að gleyma þeim. Verst var að finna að mín líðan hafði áhrif á krakkana, eðlilega.

Haffinn og Katan komin til Debrecen, fluttu í nýtt, glæsilegt húsnæði á meðan dvöl þeirra stóð á Krít sem er mjög rúmgott. Ég hugsa mér gott til glóðarinnar í náinni framtíð. Allt gekk að óskum hjá þeim og við Heiða komnar í okkar kot um hánótt.   Mér tókst að koma óbrotin á áfangastað og í heilu lagi. Bitin hér og þar af árasagjörnum fiskum og pöddum, en ekkertalvarlegt. Tókst meira að segja að ná mér í lit þannig að ,,Skipasundargráminn" er minna áberandi en ella.

Framundan alvara lífsins, enn og aftur. Enn er leitað svara, menn ættu loksins að vera komnir úr sumafríum og mér lofað að rannsóknum verði keyrðar i gegn með hraði. Ligg ekki á því að vera ósátt við framgang mála fram til þessa, fleiri mánuðir sem hafa farið í veikindi af ýmsum toga sem hafa kippt mér út úr atvinnulífinu og gert mér lífið virkilega leitt. Úr því verður bætt á næstu dögum og botn fenginn í allt þetta bév.... bras! Er komin með upp í kok af krankleika og heilbrigðiskerfinu. Kannski það standi til bóta eftir samþykkt frumvarpsins í dag - eða hvað??

En vá!  Hvað það er gott að vera komin heim, jafnvlel þó eitthvað hafi farist fyrir með tæmingu á ísskápnum W00t Sef á því í nótt Tounge

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Velkomin heim.
Það er gott að heyra að þú skulir hafa komist heim í heilu lagi þrátt fyrir hremmingarnar. 

Aðalsteinn Baldursson, 11.9.2008 kl. 06:28

2 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Velkomin heim elsku Guðrún Jóna mín og farðu nú vel með þig elskan ´mín

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 11.9.2008 kl. 07:19

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Velkomin heim kæra Guðrún og ég vona að þessi ferð eigi eftir að gera þér gott og að flugferðin gleymist fljótt.

P.s. Ég klukkaði þig

Sigrún Jónsdóttir, 11.9.2008 kl. 10:25

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

velkomin heim

Hólmdís Hjartardóttir, 11.9.2008 kl. 11:25

5 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Af lýsingunni að dæma mætti halda að þessi drusluvél hafi verið upptrekt   . Þreytandi að lenda í svona mikilli seinkunn og síðan þjónustu leysi.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 11.9.2008 kl. 12:23

6 identicon

Datt í hug að líta við, velkomin heim Guðrún mín og hafðu það sem allra best.      Ég er sest á skólabekkinn aftur og fer tími í tölvuna ef ég fer að skoða blogg og fl. Sjáumst vonandi hressar og kátar. Munda.

Guðmunda (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 19:25

7 Smámynd: Sigrún Óskars

Velkomin heim Guðrún - í heilu lagi. ÓMG ég skil þig vel að vera pirruð yfir seinkunum og vandræðagangi á flugvellinum. Það þarf að "rapportera" svona atvikum og þetta með fararstjórann er náttúrulega bara brottrekstrarsök og ætti ekki að líðast.

Gangi þér svo vel í þessu brasi þínu. Í téðu frumvarpi segir að allir eigi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Sigrún Óskars, 11.9.2008 kl. 22:13

8 Smámynd: Ragnheiður

Jæja mín kæra..mikið er notalegt að sjá til ferða þinna aftur. Ég saknaði þín

Ragnheiður , 11.9.2008 kl. 22:23

9 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir kveðjurnar allar saman. Það er virkilega gott að vera komin heim. Er sammála þér Erna að þessi flugvél hefur verið upptrekt. Ieland Express hefur sennilega fundið hana á fornminjasafni úti í Póllandi. Það verður þó að segjast eins og er, hún flaug, helvísk en með skrikkjum og látum.

Sigrún, takk fyrir (bjarna-) greiðan, er að vinna á fullu við að bregðast við klukkinu. Ekki beinlínis einfalt verk og margt kemur í ljós sem vekur furðu mína, hm,, hm...  Afraksturinn birtist síðar

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 11.9.2008 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband