Færsluflokkur: Bloggar

Spennufall

Ekki laust við smá spennufall eftir að Katan fór í gær. Við áttum frábæra daga saman hér og náðum að afreka eitt og annað sem var á óskalistanum en ekki síst bara að vera saman og dingla eins og maður segir. Sælunni lauk sem sé seinni partinn í gær, þegar daman flaug út til Búapest.
Þetta var annars aldeilis skemmtileg uppákoma þegar daman mætti hér á tröpunum undir morgni. Veit að Haffinn studdi hana og hvatti með dáðum að drífa sig. Ferðalag á milli landa er ekki beint fýsilegur kostur hjá námsmönnum erlenis, fargjödl og gjaldmiðlar upp úr öllu valdi. Krakkarnir finna all verulega fyrir þessu ástandi þarna úti, allt er mun dýrara og erfittt er með allar millifærslur. En við vorum heppin, nú var hægt að fá flugmiða á sanngjörnu verði. Þessi ferð var allaa vega hverrar krónu virði.   Það sem mér þótti svolítið kómiskt að heyra var að vélin sem flaug til Búdapest í gærkvöldi var full af Ungverjum þannig að þeir eru greinilega farnir að nema hér land. Það ku vera mjög hagstætt að skreppa hingað í verslunarferðir þessa dagana. Hver hefði nokkurn tíma trúað því?Tounge

Þrátt fyrir þetta spennufall er ég svo sem ekkert búin að breiða upp yfir haus. Það er stutt eftir af önninni hjá krökkunum og til jóla og ég veit að tíminn verður fljótur að líða þangað til. Það er auðvelt að venjast góðu og kannski er það það sem gárar pínu hjá mér yfirborðið; það var svo ansi notalegt að láta stjana við sig og hafa félagsskapinn.

Ég finn að meðferðin er farin að taka aðeins í. Þjáist af ólýsanlegri síþreytu og úthaldsleysi. Sofna hér og þar og alls staðar. Enginn svefn virðist nógu langur.  Fótaferðtími nær ekki mörgum klukkustundum  og er að mestu bundinn við ferðir niður á LSH í geislana. Finn nokkuð fyrir rugguveiki og svima en á meðan ég er ekki með fötuna um hálsinn, ætla ég ekki að kvarta, enda engin ástæða til. Ég þoli meðferðina ágætlega fram til þessa. Verkjastatusinn er svipaður, engar stórvægilegar breytingar, heldur lengra á milli kasta en áður, ef eitthvað er. Það hlýtur að vita á gott. Ætli ég sé ekki að verða hálfnuð í geislunum af þeim 22 skiptum sem lagt var með í upphafi, minnir það en ekki viss. Hef steingeymt að skrá þetta hjá mér. 

Ég líkt og aðrir  landsmenn, er gjörsamlega miður mín yfir því ástandi sem hér ríkir í þjóðfélaginu og kvíðir fyrir því að lesa dagblöðin á morgnana. Alltaf nýjar fréttir af einhvers konar klúðri og/eða laumuspili. Útrásarvíkingar, seðlabankastjórar og ráðherrar benda hvor á annan, hver og einn heldur fram sakleysi sínu. Erfitt að treysta nokkrum þeirra, flestir orðið uppvísir um að a.m.k. hagræða hlutum eða kjósa að túlka þá eftir eigin höfði. Ég get vel skilið þá miklu reiði sem kraumar í landsmönnum en óttast þá þróun sem virðist ætla verða ofan á i þeim efnum. Það hefur aldrei þótt góðri lukku að stýra að fara fram með offorsi og látum, galdrabrennur og persónulegar offsóknir skila ekki heldur neinu nema niðurbroti og skemmdum, jafnvel á þeim sem síst skyldi. Það er ekki þar með sagt að við eigum að láta þetta hrikalega mál yfir okkur gangandi þegjandi og hljóðalaust. 

Staðan í efnahagsmálunum þjóðarinnar kemur við öll heimili landsins. Mitt er ekkert undanskilið því. Þetta er hins vegar ekki góður tími til veikinda. Mér til sælla minningar síðast þegar fjármál okkar gjörsamlega hrundu vegna aðstæðna. Ég ekki enn búin að sjá fyrir endan á þeim björgunaraðgerðum,  þegar næsta högg ríður.   Því er ekki að neita að þunginn er all verulegur. Reynsla mín af bönkum og öðrum lánasfyrirtækjum er erfið, þessar stofnanir gefa ekkert eftir og  taka lítt tillit til aðstæðna fólks þegar svona ber undir. Engin grið gefin né miskunn sýnd.  Vextir innheimtir að fullu auk vaxta- og vaxtavaxta og er hið opinbera ekki skást í þeim efnum.

Velferðarkerfið er svifaseint, Heilbrigðis- og tryggingakerfið er þungt í vöfum þannig að það tekur heila eilífð að fá afgreiðslu á þeim umsóknum sem sendar eru inn til að fá bætur o.þ.h. Þær bætur sem eru í boði þegar langvinnir og alvarlegir sjúkdómar banka upp á hjá fólki, dekka ekki framfærslukostnað, hvað þá að komast ekki nálægt launum hins almenna launþega. Þrátt fyrir afsláttarkort á heilbrigðisþjónustuna heldur einstaklingurinn áfram að greiða sína þjónustu en á lægra verði en áður. Sú upphæð er fljót að vinda upp á sig. Þó verður að segjast eins og er að mikið  munar um lyfjaskírteinin sem einstaklingurinn á rétt á. Í mínu tilviki skiptir sá kostnaður tugum þúsunda á mánuði, miðað við lyfjakostnað síðustu mánaða. 

Það er mjög freistandi að breiða upp fyrir haus og kasta þessum vandamálum frá sér.  Forðast að hugsa um þau, sofa bara út i það endalausa og láta ráðast hvernig það fer. Margur hefur ekkert stuðningsnet til að bakka sig upp og aðstoða.  Geta einfaldlega  ekki staðið í stórræðum, til viðbótar eigin veikindum.  Nú þegar fjármálakreppa er skollin , sjá stjórnvöld ástæðu til að koma til móts við einstaklinga með frystingu lána o.þ.h. sem er þarft og virðingavert framtak. Hið sama ætti að vera uppi á teningnum þegar fólki er kippt út úr sínu daglega lífi og atvinnu vegna lífshótandi veikinda.  Þörfin er ekki síðri undir slíkum kringumstæðum. Það þekkja sjúklingar, aðstandendur og foreldrar langveikra barna. Kannski leiðir kreppan af sér aukinni umræðu og skilning á þessum málum.   Ég hef ekki í hyggju að breiða upp yfir haus, hversu freistandi sem það er. Ég tekst á við þessi mál líkt og síðast en nú reynslunni ríkari og vonandi með betri þekkingu á frumskógarlögmálum kerfisins. En ég er ekkert yfir mig kát né full eldmóðs þegar kemur að því að ráðast á vandann og kerfið. Mér finnst nógu erfitt að kljást við bév... veikindin svo þessi vandamál bætis ekki við til úrlausnar. En það skal hafast.

 

 

 


Á rósrauðu skýi

Frúin hefur svifið á rósrauðu skýi síðan í morgun, snerti vart jörðina. Fékk óvænta símhringingu kl. 05 í morgun frá Kötunni sem bað mig um að opna dyrnar. Hélt mig vera að dreyma, hef svo oft kjaftað við sjálfa mig í svefni undanfarið en lét mig hafa það að fara niður og tékka á málum. Viti menn; á tröppunum stóð mín ástkæra dóttir og brosti sínu blíðasta! Komin heim í stutt frí fram á sunnudag.

Heimsferðir fljúga núna beint flug til Búdapest og nú voru einhver sæti á vildarkjörum í boði þannig að þau voru fjögur sem tóku sig saman og skruppu heim í kreppuna, rétt si sona. Framundan langt helgarfrí hjá þeim frá skólanum þannig að það var ekki hægt annað en að stökkva á tækifærið. Ekki leiddist mér sá glaðningur sem mín beið á útidyratröppunum, ætlaði seint að trúa því að daman væri komin. Mikið knúsað og mikið brosað allan hringinn. Því miður átti Haffinn ekki heimangengt en Katan bætir upp að stórum hluta auðvitað. Hann átti stóran þátt í ákvörðun hennar að skreppa heim og studdi hana með ráð og dáð eins og vera ber. 

Það þarf vart að taka  það fram að ég hef varla snert jörðina í dag, allt verið óskaplega gaman. Er ég þá ekki að tala um ,,steragleði" heldur miklu, miklu meira.  W00tFékk fylgd í geislana og selskap í búðina. Var búin að gleyma því hve gott er að hafa selskap.  Ákvörðun Kötu hafði stuttan aðdraganda þannig að frökenin er hálf vansvefta en ber sig vel, að vanda. Henni er nokkuð létt að sjá að ég er ekki eins og ég sé við grafarbakkan og allt er að ganga skv. áætlun hjá mér. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið mjög erfitt fyrir krakkana að vera úti á meðan ég fór í gegnum greiningarferlið og fyrstu meðerð en við sumt verður ekki ráðið. 

Það er svolítið sérstakt hvað við mannfólkið höfum mikla aðlögunarhæfni. Það var erfitt fyrst eftir að krakkarnir fóru að vera ein í íbúðinni og hafa engan til að hugsa um nema dýrin og sjálfa sig. Ég vandist því ótrúlega fljótt og kom ákveðinni rútínu á enda nóg búið að vera í gangi og margt sem hefur þurft að melta.  Auðvitað hef ég saknað krakkanna og oft þráð að þau væri heima á meðan við tökum þessa lotu en ég hef verið og er mjög sátt við það sem þau eru að gera og á meðan allt gengur skv. áætlun og ég ekki við grafarbakkan finnst mér óþarfi að snúa lífi þeirra á hvolf, fresta námi þeirra o.s.frv. til þess eins að halda í hendina á mér.  Samskipti og samvera snúast í mínum huga um gæði en ekki magn. Þannig geta stuttar samverustundir gefið mun meira af sér en langar, tímalengd hefur ekkert með gæðin að gera. 

Framundan er tóm sæla hjá frúnni, ætla að njóta hverrar mínútu með dótturinni. Ekki margt planað enda kannski ekki í stakk búin til að standa í stórræðum. Ætla mér fyrst og fremst að njóta félagskaparins, hlæja og hafa gaman af. 5 dagar eru fljótir að líða og því eins gott að nýta þá vel. Ekki það að ég setjist ofan á prinsessuna, hún verður auðvitað að fá að hitta vini og vandamenn.

En vá Katrín Björg! Þér tókst að koma mér rækilega á óvart, svo mikið er víst. Velkomin heim, mín kæra. Þetta verður ljúfur og ómetanlegur tími. Er hægt að biðja um meira?

katrin_bjorg_705649.jpg

 

Til að auka enn á gleði mína fékk ég óvæntar fréttir sem eru betri en ég hef látið mig dreyma um.   Mér barst auk þess aðstoð úr óvæntri átt  við frágang á erfiðu og viðkvæmu máli sem léttir mjög á stöðunni og áhyggjunum. Hef eiginlega verið orðlaus sem gerist afskaplega sjaldan. Er farin að reikna alltaf með því versta, í hverju sem er en segið svo að góðir hlutir geti ekki gerst, meira að segja í kreppunni! Mér finnst eins og ég geti rétt úr kútnum eftir mjög erfiðan tíma sem hefur tekið sinn toll af mér og mínum. Kannski svefninn lagist líka (má ekki vera of gráðug)Whistling Það fylgir því óneitanlega mikill léttir að geta horft upp og brosað framan í tilveruna. Kannski er komið að góðæri hjá frúnni, (tí, hí).  Það væri toppurinn á tilveruni.

Það verður sæl og ánægð móðir sem leggst til hvílu í kvöld. Ég hlakka til morgundagsins. 

 


Lífið utandyra

Kíkti aðeins út fyrir dyr í dag og skoðaði mannlífið á höfuðborgarsvæðinu. Fór reyndar ekki langt, kíkti upp í Smáralind með Sigrúnu sys, rétt svona til að kíkja í búðarglugga, skoða aðra og sýna sjálfa sig.  Langaði að kíkja í kaffihús, fá mér stríðsteru eða eitthvað í kreppunni. Var eiginlega hálfhvumsa þegar ég leit í kringum mig, mannhafið gríðalegt, allar búðir fullar og þá ekki einungis bundið við búðagluggana heldur og einnig búðakassana. Fólk var sem sé að versla og verslaði grimmt sýndist mér. Haustdagar hér og þar með 30-50% afslætti, jafnvel meiri. Gulræturnar virkuðuð auðvitað á mig líka, ég fór að skoða og spekúlera.

Vantar ekkert sérstakt en þarna var hægt að sjá ýmislegt sem ég gæti hugsanlega nýtt mér, einhvern tíma við tilteknar aðstæður. Ekki síst af því að verðið var lækkað, náttúrlega.  Tókst á loft þegar ég sá barnafötin á heilu rekkunum frammi á gangi fyrir utan búðirnar, hugsaði til Kamillu litlu, hvað hún yðri nú fín í þessum lit og hinum litnum. Pínulitlar og fallegar flíkur, kostuðu jafnvel meira en fatnaður á fullorðna. Nóg var úrvalið.  En vá, hvað maður er raunveruleikafirrtur. Hér er bullandi efnahagskreppa og maður stendur í miðri Smáralindinni að skoða piparstauka og fatnað  sem maður gæti hugsanlega notað, einhvern tíman en ekki bráðnauðsynlega. Þegar ég rýndi í verðið, tók ég eftir því að það hafði hækkað á síðsustu 4-6 vikum, jafnvel sama flíkin hafði hækkað um 20-30%, sumar meira. Skyldi það vera út af nýjum sendingum eða...........????Whistling

Við systurnar sannfærðum hvor aðra að tiltekin stígvél æptu á okkur í gegnum búðarglugga, urðum að skoða þau betur. Þau æptu meira, Sigrún mátaði og auðvitað gátu þau ekki farið betur á fæti, verið meira töff. Þau bókstaflega æptu enn meira. Við litum hvor á aðra, í miðri kreppunni, með stígvélin í annarri hendi og létta budduna í hinni. Vorum fljótar að finna lausnina; sameinuðum 2 léttar buddur, fengum eina meðalþunga og keyptum fjandans stígvélin. Rosalega eru þau flott! W00t

Ég get ekki sagt að úthaldið hafi verið neitt til að hrópa húrra fyrir, varð fljótt þreytt á harkinu en mesta furða þó hve langt gulrótin getur dregið mann. Vorum ósköp penar í fjárútlátum eftir þetta en það spillti ekki fyrir áhuganum að kíkja á þetta og hitt, sem maður á nóg af. Mér var hugsað til fatarskáps míns sem er stútfullur af fötum sem eru orðin allt of stór á mig og þá meina ég stútfullur. Ég tók þá ákvörðun að teyma systur þangað þegar heim væir komið og stóð við það. Drifum okkur í kaffi og með því, meira að segja ég fékk mér gúmmelaði og naut í botn, svona framan af alla vega. .

Hvað varðar fataskáp minn þá hef ég horft á hann síðasta árið og verið að armæðast yfir því að geta ekki notað fötin mín. Þau eru orðin allt of stór. Megnið af ævi minni hef ég barist við aukakilóin, verið með spik hér og þar, mér til mikillar skapraunar. Nú horfir dæmið öðru vísi við, ég get ekki með nokkru móti haldið einu kílói á mér skammlaust og orðin fjandi tálguð, nákvæmlega eins og krabbameinssjúklingur sem og ég er auðvitað. Ekki lagast útlitið þegar ég klæði mig í of stór föt, verð eins og fuglahræða þannig að ég hef verið að bæta inn einni og einni flík við sem þó kemst ekki inn í skápinn. Varð því að rýma og ákvað að þessi dagur yrði kjörinn til þess. Setti Sigrúnu í stellingar og síðan hófst mátun, ekkert múður heldur klárt púl. Hana nú, og flest passaði. Við báðar ánægðar, hún komin með smá lager af nýlegum fatnaði og jafnvel með öðrum stíl en hennar eigin og ég komin með pláss í skápinn. Þarf ekki lengur að mæna inn í hann, full af samviskubiti. Þungu fargi af mé létt, ekki síst nú í kreppunni og get klætt stakk eftir vexti. Það eru töluverð verðmæti fólgin í fatnaði og ekki nýtast þau við að geyma þau í lokuðum fataskáp. Maður á að mota þau á meðan þau eru í tísku og passa manni.

Dagurinn var sem sé harla góður, byrjaði ekki fyrr en um kl. 14.00 hjá mér en betra er seint en aldrei stendur einhvers staðar. Get ekki sagt að ég hafi hlaupið um Smáralindina og var býsna verkjuð um tíma en áhuginn dró úr þeirri líðan. Mér er það ljóst að ég er á eins konar ,,steraflippi" þessa dagana, þeir hafa reyndar verið svolítið seinir í gang hjá mér en farnir að verka á fullu. Helstu fylgikvillar steranna er þó næturgöltið á mér, ég ,,þarf ekki að sofa" á næturnar, er bísperrt og hress, auk þess sem maginn lætur vita af sér. Er með brjóstsviða og önnur óþægindi sem ég átti svo sem von á. 

Útahaldið hefur verið með skásta móti, treysti mér þó ekki út í göngutúr með Lafði Díönu, fór í gær með hana og stóð bókstaflega á öndinni með köfnunartilfinningu þannig að ég þarf að byrja á núlli og hægt og bítadi auka þolið í þeim efnum. Sigrún tók að sér göngutúrinn. 

Mín kynslóð þekkir kreppu frá fyrri tíð. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið við einkenni hennar í Smáralindinni í dag, án þess þó að gera lítið úr því að ein slík er skollin á. Allar vörur hafa hækkað, ekki síst matvara og við eigum eftir að verða vör við afleiðingarnar í auknu mæli. Við getum hins vegar gert eitt og annað til að komast léttar frá þeim enda með reynslu og séð það svartara. Ég græt það ekkert ógurlega þó ég nái ekki að fylla fatarskápana mína, hef hvort eð er ekki undan því að nota það sem ég þegar. Þarf að breyta forgangsröðuninni, líkt og margur.Á sama tíma og ég gekk um Smárann í dag, varð mér hugsað til þeirra sem eiga ekki milli hnífs og skeiðar. Mér var hugsað til þeirra sem leitar til mæðrarstyrksnefnda, fjölskylduhjálpar o.fl. og ég blátt áfram skammast mín. Það eru ekki allir sem geta valið hvort og þá hvað er á borðum þessa dagana.

Ég ætla samt að leyfa mér að njóta þessa dags, er mjög ánægð með þær framfarir sem ég finn, jafnvel þó þær séu til komnar af sterunum.  Er býsna sátt og stefni að því að sofa í nótt.Heart

 


Ella Dís - tökum þátt þó tímar séu erfiðir

Ljáum endilega sem flest þessu máli lið þó tímar séu svartir þessa dagana. Þarna er á ferð ótrúleg fórnfýsi og samhugur fjölmargra einstaklinga sem vilja leggja málinu lið en margir okkar fremstu tónlista- og tæknimanna gefa framlag sitt á þessum tónleikum í kvöld.

Þjóðin hefur marg sýnt samhug í verki í tilvikum sem þessum, margt smátt gerir eitt stórt. Slíkur samhugur getur gjörbreytt lífi þeirra einstaklinga sem um ræðir. Það þekkir sá er fær að njóta slíkra góðra verka og samkenndar.  Ég get aðeins ímyndað mér hversu margar vinnustundir hver þátttakandi tónleikanna er að gefa af sér, í þeim  tilgangi að sýna litlu stúlkunni samhug í verki og gera líf hennar sem og fjölskyldu bærilegra.

 Mætum í kvöld og sýnum samhug í verki.Oft er þörf en nú er nauðsyn.

Stillum stengi saman með þeim sem standa að þessari metnaðarfullu dagskrá og mætum endilega  eða takið þátt í söfnuninni fyrir Ellu Dís. Hægt er að fræðast betur um tónleikana á slóðinni: http://blogg.visir.is/elladis.  Ég kemst ekki  í þetta sinnið en mun sýna minn samhug í verki, engu að síður.  Ég veit að tónleikarnir verða frábærir og margur mun varðveita þá minningu sem þar skapast.  Við höfum öll gott af því að gleyma erfiðleikum og svartnætti um stund. Flestir þurfa því miður að ganga í gegnum einhvers konar mótætlæti og erfiðleika á ævinni. Flestir þeirra tengjast veraldlegum auði, þ.e. fjámunum, atvinnu og afkomu.  Við Íslendingar höfum sem betur fer ekki margir þurft að kljást við glæpagengi, þjófnað og morð en ´svo virðist sem tegundir og alvarleiki glæpana séu að taka á sig breytta mynd.

ella_dis_a3.jpg


Rússibani

Síðustu sólahringar hafa veirð líkt og rússibani, hér á landi sem utan. Atburðarrásin svo hröð að allar fréttir eru í rau úreltar um leið og þær eru birtar. Finnst Bretar hafa gengið ansi langt í aðgerðum sínum í gær en vissulega má gagnrýna íslensk stjórnvöld fyrir framgöngu sína og klaufaskap (vankunnáttu).   Allar aðgerðir og yfirlýsingar virðast vera með þeim hætti að brugðist er við málum ,,á staðnum". Svo virðist sem stjórnvöld skorti með öllu yfirsýn á málin og engin aðgerðaráætlun tilbúin. Líkt og ráðherrarnir spili af fingrum fram, jafnóðum í eins konar spuna. Skal nokkurn undra þó misskilingur skapist og glundroði?

Ég gruna reyndar Bretana um að ætla að nýta sér aðstæður sínar í botn, ekki síst ráðamenn þjóðarinnar sem virðast vera að leita eftir prikum og rósum í hnappagatið.  Það hafa greinilega fleiri en íslensk stjórnvöld sofið á verðinum og stefnt þjóðarskútunni að feigðarósi.  Við Íslendingar náttúrlega manna fyrstir búnir að finna og skilgreina höfuð andstæðinginn, þ..e Davíð Oddsson. En þó maðurinn búi yfir ótrúlegum kröftum og valdi hef ég ekki trú á því að hann sé yfirnáttúrlegur og starfi af öðrum heimi en almúginn. Það er sama hversu illa okkur er við manninn, það verður ekki hægt að kenna honum um allt misjafnt, t.d.upphlaup forsætis- og utanríkisráðherra Breta.  Það stenst einfaldlega ekki í tíma né rúmi.

Við getum hins vegar kennt Davíð um æði margt, bæði gott og slæmt og það sama á við núverandi ríkisstjórn þó þáttur Sjálfstæðismanna sé öllu meiri en Samfylingamanna. Þeir fyrrnefndu tóku þátt í að færa ríkisbankana í hendur fámennrar auðmannsstéttar fyrir 5-6 árum og vissu alveg í hverju það fólst og hverja rafleiðingarnar yrðu. Leikurinn einmitt til þess gerður. Framsóknarmenn, sem nú berja á klökkir á brjóst sér, komu þar ekki síður að máli. Startegía sem gekk upp og útrásin mikla hófst, bæði meðal banka- og fjaðrfestingafélaga. Gullaldartíð hófst fyrir fáa útvalda. 

Núverandi ríkisstjórn ber ekki síður ábyrgð á núverandi ástandi. Ráðamönnum hennar hefur verið kunnugt um þá þróun sem varð,  í langan tíma. Hefðu getað stöðvað þessa alvarlegu þróun fyrir löngu síðan og þar með bjargað efnahag þjóðarskútunar, en kaus að gera það ekki. Það er ekki fyrr en ytri aðstæður koma til, sem þeir réðu ekki við, að ráðamenn rjúka upp til handa og fóta í hlutverki bjargvættarnins!  Algjör viðsnúningur í hlutverkaleik manna virðist ekki standa í mönnum, Geir á meira segja til að sýna sannfærandi leik á köflum.  Það er sennilga nýnæmi að núverandi forsætisráðherra skuli halda fund með blaða- og fjölmiðlamönnum að lágmarki einu sinni á dag.

Á sama tíma eru óskir stjórnarandstöðunnar virtar að vettugi, hún fær ekki einu sinni að fyljgast með gangi mála nema í gegnum fjölmiðla, líkt og almúginn. Það þarf ekki vitring til að átta sig á ástæðum fyrir slíkri framkomu. Ekki það að stjórnarandstaðan er ekki ýkja hávær, svo sem.

Ég er á þeirri skoðun að núverandi stjórnvöld eigi að klár þessi mál bankanna og koma þeim á réttan kjölinn. Ég óska engum svo illt að þurfa að koma að þeim verkum og axla ábyrgð. Því er rétt að ríkisstjórn og aðrir ráðamenn þjóðarinnar ljúki þessu ferli og víki síðan. Varanlega, allir sem einn. Það er of auðveld undankoma að sleppa í gegnum þetta á töfrateppi.

Nú, á meðan ússibanaferða þjóðarinnar stóð í gær, átti ég sennilega einn hinn besta dag minn svo mánuðum skipti hvað varðar heilsufarið. Var reyndar bévíti slæm af mínum verkjum og draugaverkjum í morgunsári en tók ráðlagðan skammt af lyfjum sem nýbúið var að auka við mig og mér fannst himinnhár.  Hafði ekki ætlað mér að gera það, þessi hækkun svona helst til of mikil fyrir minn smekk en neyðin kennir naktri konu að spinna, stendur einhvers staðar og því lét ég mig hafa þetta enda undirbúningur fyrir geisla og einhverjar leikfmisæfingar framundan. Í stuttu máli græddi ég vel á þeirri ákvörðun. Allt í einu gat ég snúið mér við eins og ekkert var, náði að leggjast á bakið í fyrsta skiptið svo mánuðum skipti, gat klætt mig án þess að vera á öskrinu og sat bein í stólnum. Þvílík  himnasæla og allt þetta án þess að finna svo mikið til og ekki ,,lyfjuð".

Þrátt fyrir að hafa síðan lent í rúmlega 2 klst. langan  flöskuháls í geislaundirbúningunm á LSH, dugði það ekki til að eyðileggja þennan góðan  dag og árangur, svona fram eftir degi.Tók létt spor með moppuna þegar heim var komið og náði að þrífa mesta rykið í kringum mig með tilheyrandi sveiflum. Reyndar dró nú úr kæti minni svona undir kvöldmat í gærkvöldi og var ástandið nokkuð strembið í nótt en þó í áttina. Tók lyfin mín á réttum tíma og í réttu magni, svk. fyrimælum nú í morgunsárið  Ætla mér að láta á það reyna og sjá hverju sú hlýðni skilar mér.

Ætla rétt að vona að gjaldeyrisviðskipti og gengi fari að komast í viðunandi farveg, það er orðið ansi þröngt í búi hjá smáfuglunum í Debrecen og engar mótvægisaðgerðir þar fyrirhugaðar svo ég viti til. Vona að krakkarnir allir nái að þreyja þorran aðeins lengur.

Næsta skrefið er útivera og matarlyst, orðin ansi framlág af vannæringu, eins og doktorinn tók til orða. Einkennilegt hvað allur uppáhaldsmatur er orðinn vondur og klígjuvaldandi. Hef verið salltat- og ostafíkill og sælkeri frá því ég man eftir mér.  Alltaf átt barist við aukakílóin. Nú framkallar mín fyrrum sælkerafæða einungis klígju og ógleði  þannig að frúin er á byrjunarreit að þróa sig áfram á meðan kílóin fljúga af.  Fæturnir eins og sverir rafmagnsstaurar út af vannæringunni þó allt annað hafi rýrnað og sé óðum að hverfa. Myndi sennilega sæma mig vel við hliðina á Kate Moss og stöllum á pallninumW00t Ætla að birgja mig upp af próreinstöngum og einhverju íþróttaglundri sem hlýtur að skila sér fljótt en dýrt er það. Það er lúxus að vera í heilsurækt og átaki, greinilega. Verð bara að læra á nýtt ástand og aðlagast svo ég komi til með að þola meðferðina.  

Á meðan ríkisstjórnin reynir að bjarga því sem bjargað verður, ætlar mín að reyna að bæta sér upp svefnleysi síðustu nætur og verð vonandi í því formi sem ég þarf að vera í til að takast á við verkefni dagsins og útréttingar. 


Og þá hefst ballið.......

Þá hefjast herlegheitin á morgun niður á LSH. Fyrsta lyfjameðferð. Framundan síðar í vikunni undirbúningur fyrir geisla þannig að mér sýnist þeir byrja í næstu viku eins og doktorinn lagði upp með í síðustu viku. Hitti minn lækni ekki á morgun þar sem hann verður í fríi þannig að ég á ekki von á því að fá upgefið endanlegt prógram fyrr en í næstu viku. Veit því ekki enn hversu stíft þetta verður.

Ætla nú ekki að þykjast vera einhver ofurhetja og segjast ekki kvíða fyrir morgundeginum. Auðvitað kvíði ég fyrir honum, man allt of vel aukaverkanirnar á síðustu lyfjagjöf. Ég veit þó að ég á ekki von á þeim sömu nú, mun minni aukaverkanir af þeim lyfjum sem mér eru ætluð núna. Ég er hins vegar afar sjaldan heppin þannig að mér er það eðlislægt að búa mig undir það versta.  Bara tilhugsunin ein að mæta niður á göngudeild dugar til að vekja upp smá hnút. Þar verður hvert rúm og hver stóll skipaður af fólki í meðferð, á mismunandi aldri og misveikt en allir með vökva og dripp.  Það tekur alltaf svolítinn tíma fyrir fólk að kynnast innnbyrðis, flestir fljótir til  og  ófeimnir við að skiptast á þessum hefðbundnu spurningum; ,,hvernig hefur þú það",  ,,ertu með hárið ennþá",  ,,hvernig var vikan" o.s.frv.

Þrátt fyrir kvíðan, fylgir því ákveðinn léttir að byrja meðferðina. Er dauðfegin að þurfa ekki að bíða lengur en þessa viku sem liðin er síðan ég fékk minn stóradóm. Hef verið að byggja mig upp, m.a. fengið stera sem hafa óneitanlega valdið mér vonbrigðum. Hef ekki verið nógu hress og tuskuæðið látið standa á sér.  Verkirnir hafa aukist töluvert eins og tíðkast í svona veðurfari og ég almennt lélegri, sérstaklega síðustu 2-3 dagana.  Finn þó að það er algjört ,,must" fyrir mig að komast út einu sinni á dag, þó ekki nema út í búð. Það gerir kraftaverk. Fékk góða aðstoð við það í dag hjá Siggu sys sem gerði kraftaverk. Takk fyrir mig SigrúnHeart

Það er ekki laust við að maður sé hálf svartsýnn á tilveruna þessa dagana vegna stöðunnar í efnahagsmálum. Hrikalegt ástand, vægast sagt. Ég fæ ekki skilið hvernig  fjárfestar, bankmenn og ríkisstjórnarflokkarnir gátu leynt ástandinu svo lengi sem raun bar vitni. Ýmsir áttuðu sig á því að margt væri  bogið  með útrás bankanna og annarra fjárfestingafélaga, enda verið þvílík að heimurinn hefur staðið á öndinni. Útrásin hefur staðið yfir í nokkur ár og er ekki nýtilkomin. Það sama á við vandann.  Sú þróun sem við landsmenn höfum horft upp á síðustu dagana gerðist ekki á nokkrum dögum og á sér mun lengri aðdraganda. Stjórnarandstðan hefur reynt að benda á ýmiss teikn á lofti en ríkisstjórn slegið jafnharðan á puttana á þeim og gert lítið úr áhyggjum þeirra. Mig skal ekki undra að henni var haldið utan við allar umræður og gjörninga nú um helgina.  Hvernig mun þjóðin koma sér út úr þessum vanda?

Jóhanna Sigurðardóttir, Björgvin, Össur og Geira hafa verið ötul síðustu dagana að sannfæra þjóðina um að heimili landsins verði varin og efast ég ekki um heillyndi þeirra í þeim efnum. Undir þetta hafa einhverjir þingmenn tekið sem flestir þegja þó þunnu hljóði.    En er það nóg til að friða eigin samvisku og nægir það til að geta horft framan í þjóðina án þess að vera með svört sólgleruagu og í felulitum?  Mér hryllir við þessu og skil ekki hvernig ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnar geta yfir höfuð látið sjá sig, hvað þá að þeim sé svefnrótt. 

Íbúðalánssjóði verður gert kleift að kaupa upp húsnæðislán þau sem bankarnir högnuðust sem mest ár þannig að hægt verður að því leytinu að koma til móts við húseigendur. En hvað með öll önnur lán og hvað með sparnað einstaklingana?  Mesta púðrið verður ugglaust sett i fyrritækin og  rekstur sem er skiljanlegt þar sem  tryggja þarf atvinulíf í landinu en hversu mörg heimili munu leysast upp á næstu misserum? Ég veit að ég hef verið uggandi um minn hag fyrir vegna veikindanna , hvað þá núna í þeirri stöðu sem upp er komin.

Hvað gera landsmenn núna?  Skyldi ríkisstjórnin sem ber, a.m.k að hluta til ábyrgð á ástandinu, halda velli? Getum við ger eitthvað?  Ráðamenn segjast ætla að sitja og halda áfram ótrauðir þrátt fyrir allt. Er hægt að stöðva það?  Mér er það til efs, því miður og spái því að ríkisstjórnin muni standa þennan storm af sér og óbreytt stjórn fylla stólana hjá Seðlabanka Íslands. Geir Haarde bliknaði ekki aðfaranótt mánudags þegar hann lýsti því yfir að ekki væri þörf á aðgerðarpakka. Hann bliknaði heldur ekki þegar hann át það ofan í sig daginn eftir né í dag þegar hann skýrði þjóðinni frá staðreyndum mála eins og þær blasa við núna. Hann mun því ætla sér að stýra þjóðarskútunni áfram hikstalaust.

Það heyrist lítið í stjórnarandstöðunni sem mér þykir athyglivert. Vissulega verða allir kjörnir fulltrúar að vinna sameiginlega að því að bjarga því sem bjargað verður en það kemur mér samt á óvart hversu hljótt er í þeim herbúðum.  Ég er þess fullviss að hún býr yfir veigamiklum upplýsingum sem hugsanlega hafa ekki enn litið dagsins ljós. Hlutverk stjórnarandstöðunnar er að m.a að veita ríkisstjórninni aðhald, ég ætla rétt að vona að hún standi sig vel í því hlutverki. Oft er þörf en nú er nauðsyn.

Hvað sem mínum vangaveltum líður, þá hefst ballið á morgun. Er klár í slaginn og kem örugglega til að hugsa um eitthvað annað er efnahagsmál og pólitík svona framan af degi - eða hvað..Whistling


Sólarglenna

Það fór ekki fram hjá mér að sólin lét aðeins sjá sér og vindar lægðu þó ekki væri logninu að fara. Svo fór sem ég vissi, ég svaf bév.. fýluna að mestu úr mér. Vaknaði í öllu falli öllu bjartsýnni en upp á síðkastið.

Mætti galvösk upp á 11-E í morgun og drifin upp í rúm með det samme. Hafði misskilið tímasetninguna þannig að mín var of sein fyrir. Átti að fá þessa fínu ,,kæruleysispsrautu" fyrir sýnatökuna en ekki reyndist nægur tími. Það var því skjálfandi hrísla sem lá undir sængini á leiðini á Röntgen. Fann öllu allt til foráttu, (í hljóði Note Bene) legustellingunum, kuldanum í herberginu og bókstaflega öllu sem ég gat hugsað upp á staðnum. Starfsfólkið annað hvort varð ekki vart við það eða lét á engu bera (trúlegra) og mín sett á magan fyrir herlegheitin. Var nú aldeilis ekki á þeim buxunum, hef ekki legið á maganum í fleiri mánuði en viti menn það gekk. Var eins og argasta óhemja þegar kom að deyfingunni en þorði ekki að láta það uppi svona upphátt alla vega.

Sérfræðingurinn var algjör snillingur og fljótur að deyfa. Síðan tók við dúllerí og bið eftir því að deyfingin verkaði og ég alveg ákveðin í að þetta yrði allt óbærilegt og miklu meira. Við yrðum öruggleg að hætta við, hugsaði ég með mér. Óhemjusakapurinn og nálarfóbían í algleymingi. Í stuttu máli fékk ég spennufall; ég varð nánast ekkert vör við sýnatökuna þó á langinn drægist! Doktorinn gat hamast eins og hann vildi, ég æmti ekki. Náði þessu fínu sýnum, sneiðmyndartæki var notað til að hitta örugglega á réttan stað þannig að greiningin ætti að vera leikur einn og örugg þegar kemur að henni. Mér skilst að það líði a.m.k. 5 virkir dagar þangað til niðurstaða liggur fyrir.  Reikna með niðurstöðum um miðja næstu viku.

Þetta voru sem sé öll ósköpin, búin að dauðskammast mín í allan dag. Er ótrúleg óhemja þaegar kemur að nálastundum sem ná lengra en í vöðva. Fóbían algjör. Lét svo fara vel um mig næstu klst. á eftir eða þar til blæðingarhætta var liðin hjá. Hins vegar fór svo mikil orka í stressið að ég er búin að vera óendanlega þreytt seinni partinn.  Léttirinn er hins vegar það mikill að mér finnst ég loksins fær í allan sjó. Biðtíminn hefur tekið á og farið mikið í skapið á mér. 

Ég finn það ekki síst núna þegar þessi sýnataka er að baki, hvað hún hefur legið eins og mara á mér og hamlað mér hressilega.Trúlega aukið á öll einkenni sem plaga mig. Stóð í þeirri meiningu framan af að ástungan yrði gerð í létri svæfingu en auðvitað mátti ég segja mér annað. Ég átti að vita betur. Ég var hræddari við ástunguna sjálfa en niðurstöðurnar. Ég er ekkert fædd í gær og veit alveg hverjar þær gætu orðið. Einhvern veginn er ég samt ekkert að æsa mig yfir þeim. Ef eitthvað miður kemur út úr þeim, tekur maður á því eins og hverju öðru (skít-)verki.  Ég neita því ekki að óneitanlegra yrði allt einfaldara ef ekkert finnst við frumuskoðun. Það verður bara að koma í ljós. Sýti helst glataðan tíma, hefði viljað vera búin að ljúka þessu af fyrir löngu, ligg ekki á því. Rannsóknarpakkanum ætti að vera lokið í bili, fæ tíma í magspeglun þann 7. okt. og hef engar áhyggjur af henni.

Fann eirði mér að byrja á verkefnum í kvöld, hef ekki verið í standi til að sinna þeim af einhverju viti upp á síðkastið. Er á eftir í skilum en vona að hægt verði að taka tillit til aðstæðna. Hlakka til að kljást við þau á næstunni. Krosslegg svo fingur um að næstu skref mín liggi í átt að vinnu, get ekki beðið eftir því að lífið komist í eðlilegan farveg. Eitt er víst að ég hef ekki efni á því að vera veik öllu lengur, hvorki í andlegum skilningi þess orðs né veraldlegum. Nú er kominn tími á að ég verði afkukluð. Ekki seinna að vænna.W00t

Ég stefni að því að bretta upp ermar á morgun og vera í góðu skapi.  Vona að veðrið verði sæmilegt.

 


Haustlægðirnar

Mikið skelfing er ég orðin þreytt á eilífu roki, rigningu og leiðindum í veðrinu. Ekki hægt að hafa opna glugga án þess að það hrikti  í kofanum. Tíkurnar á orginu út í það endalausa enda stöðugt að vakta þá gömlu og húsið. Ef ég vissi ekki betur, teldi ég að draugagangur væri hér. Svo mikið gengur á, á köflum.  Ég held að við séum allar komnar með ,,inniveru syndrome" sem einkennist af fúlu skapi og almennum leiðindum.

Magspegluninni var frestað í dag. Þegar ég hafði beðið fram yfir hádegi var ljóst að doktorinn var kallaður á skrðstofu og óvíst um hvenær yrði laus aftur.  Því var ekkert annað að gera en að skríða heim og fara aftur á biðlistan. Get ekki sagt að ég hafi glaðst mikið yfir því.

Er einhvernvegin búin að vera handónýt það restina af deginum, ekki í stuði til að gera nokkurn skapaðan hlut.  Mér finnst biðlundin horfin og úthaldið farið. Hef aldrei þolað óvissu vel, komið mér reyndar á óvart síðustu vikur hvað ég hef látið mig hafa í þeim efnum en nú er það búð'. Búin að halda ró minni ótrúlega þó, miðað við fyrri reynslu í þeim efnum. En nú er einhvern veginn komið nóg, ég get ekki hugsað mér að vera svona deginum lengur. Vil hrista þessi bév... veikindi af mér og urra mig áfram í gegnum lífið. Búin að fá nóg af verkjum, slappleika og sleni. Tipla á tánum með hvað ég get borðað, láta mig hafa óþægindin og kyngja velgjunni.  Óteljandi vandamál hrannast upp með hverjum deginum sem líður sem er óþolandi að geta ekki ráðist í. Kannski ekki svo flókin í eðli sínu en verða það þegar getan er skert og manni er kippt út af atvinnumarkaðinum. 

Leyni því ekki að ég kvíði morgundeginum. Læt eins og smákrakki út af væntanlegri sýnatöku sem verður örugglega ekki neitt, neitt þegar á hólminn er komið en úff! Tilhugsunin er hrikaleg akkúrat núna. Veit að mín bíður viku til tíu daga bið til viðbótar í óvissu, hef ekki hugmynd hvernig ég höndla þá bið. Þolinmæðin svo gjörsamlega á þrotum, finnst ég ekki geta meir. 

Ef ég þekki sjálfa mig rétt, verða þessar hugsanir að baki á morgun og ég tekst á við það sem framundan er. Heilbrigðiskerfið er það seinvirkt að mér finnst að það ætti að beita dagsektum þegar fólk lendir í endalausri bið.  Kannski lausnin sé eftir allt saman einkavæðing og þar með samkeppni.   Ef kerfið væri að virka eðlilega væri ég komin með niðustöður fyrir mörgum vikum síðan og farin að kljást við þekkt vandamál í stað óvissunnar og einkenni hennar. Ég geri mér grein fyrir því að flestir innan kerfisins gera sitt besta en hafa takmörkuð úrræði úr að moða. Það strandar á pólitískum vilja, að mínu mati.

Nóg af þeim vangaveltum, ekkert annað en að koma sér í koju með mitt fúla skap.  Sofa það úr mér. Geri ráð fyrir áframhaldandi haustlægðum með tilheyrandi þannig að ég læt mig ekki dreyma um breytingar þar, einungis breytingar á því syndromi sem er að angra mig og ferfætlingana hér. Á morgun kemur nýr dagur......

 

 

 

 


Skínandi í gegn

Þá geislar og lýsir af frúnni, hægt að sjá í gegnum mig, vænti ég. Geislavirk með afbrigðum, tók 2ja daga pakka á einum degi sem er bara fínt, gott að vera búin. Allt gekk skv. áætlun.

Einn skásti dagurinn um nokkurt skeið, hef þó verið á róli og rölti, tókst meira að segja að moppa stofugólfið hjá mér í fyrsta sinn í all langan tíma. Tíkurnar hafa fengið meiri athygli en oft áður, blessaðar. Ræð þó illa við göngutúrana, er völt eins og drukkin hefðarfrú sem stundar dagdrykkju þessa dagana, leita til hægri sem er náttúrlega ósættanlegt.  Tel mig frekar vinstri sinnaða.....Arkaði í búðina og keypti mér haframjöl og rjóma, nú skal tekið á því! Get ekki með nokkru móti borðað það sem mér hefur fundist gott, s.s. salöt, samlokur, koktailsósu, steikur o.fl. Einfaldleikinn í fyrirrúmi á þessum bæ og hollustan auðvitað!

Lyf og rannsóknir  kostaði mig um 45 þús krónur og er ég komin með aflsáttarkort.  Mér reiknast til að kostnaður vegna rannsókna og lyfja sé kominn yfir 400 þús. krónur það sem af er af þessu  ári. Ekki bólar á því að nýju lyfjalögin hafi tekið gildi enn. Þess bera að geta að þetta er þó einungis minn hluti af kostnaðinum, ríkið tekur annan kostnað á sig sem er umtalsvert hærri en hér um ræðir. Verð þó að viðurkenna að þetta kemur við budduna. Ætti kannski að setja söfnunarbauk á tröppurnar hjá mérTounge

Í öllu falli er ekkert grín fyrir fólk að vera veikt í dag, það má segja að veikindi sé einungis fyrir forréttindahópa og hálaunafólk. Ég get rétt imyndað mér hvernig láglaunafólk fer út úr málum, ég býst við að teljast til eins konar ,,miðstéttar" launalega séð en höndla þennan kostnað illa engu að síður.

Næsta skref er síðan á miðvikdag, allar klukkur í húsinu stilltar til að minna mig á Stóra dóm. Vona að hinn nýji ,,ferskleiki" minn haldist á morgun þannig að ég geti haft nóg fyrir stafni. Kannski það sópi og gusti af frúnni? Hver veit? Allt getur gerstW00t

 alarm_clock_203_203x152.jpg

 

 

 

 

 

 

Kannski mér leyfist að láta mig dreyma um frekari sigra og landvinninga eftir viðtalið á miðvikudag. Þangað til ýti ég slíkum draumum frá mér og  einbeiti mér að grámyglulegum hversdagsleikanum. Fer ekki að koma tími fyrir haustlaukana - hvernig er það?

Framundan enn skertari kjör að sögn forsætisráðherra. Hvað gera veiku smáfuglarnir sem komast af, þá?  Farfulgarnir eru óðum á förum úr landi.  Sumir eru orðnir það tæpir að þurfa að stela sokkum og nærfatnaði fyrir einhverja þúsundkalla. Dómskerfið setur það ekki fyrir sig að taka slík ,,léttvæg" dómsmál fyrir sem ugglaust mætti ljúka með einfaldari hætti (og þannig spara sko)

Ekki hefur ráðherra eða ríkisstjórn hans komið með tillögur að úrræðum fram að þessu fyrir utan meiri sparnað okkar einstaklinganna.  Hugsanlega er ráðherran að boða breyttar áherslur í þeim efnum.  Hver myndi ekki fagna því??  Aldrei að útiloka neittTounge

Brakandi fjör í Breiðholtinu hjá Villa næstu daga, það er kannski málið að skella sér á þá.  Alla vega virðist vera logn í herbúðum innan borgarinnar þessa dagana og er það vel, svo fremi sem það boði ekki logn á undan storminum. Ekki það að við séum ekki sjóuð......Whistling


Fylgikvillar

Er smám saman að koma mér niður á jörðina eftir fríið. Ferðalagið tók sinn toll, á því er enginn vafi enda ekki af miklu að taka.  Hef þjáðst af óstjórnlegum kulda frá heimkomu, verið svo kalt að föðurland og 2-3 peysur hafa ekki dugað til þegar verst lætur. Hef skolfið eins og hrísla en ekki frá því að mér sé farið að hlýna enda orðin býsna þjálfuð í aðlögun.

Það styttist til tíðinda hjá vandræðagemsanum, rannsóknir allan daginn á morgun og niðurstöður á miðvikudag. Er löngu búin að týna tölu yfir þau skipti sem ég hef þurft í röntgen, sneiðmyndir og skann á þessu ári enda kannski farin að beita eins konar varnaraðgerðum í þeim efnum. Það veldur sjokki að rifja þetta upp og halda þessu til haga. Að mínu mati hefðu niðurstöður átt að liggja fyrir strax um síðustu mánaðarmót þegar ég lá inni á LSH. Sumarfrí, langar og stirðar boðleiðir og margt fleira innanhúss aftraði því þó. Kerfið er seinvirkt með eindæmum og augljóst að ekki er verið að horfa í fórnarkostnað sjúklingins þegar kemur að skilvirkninni. Það virðist ekki þykja tiltökumál að einstaklingar missi úr vinnu vikum saman vegna seinvirks kerfis, skorts á samráði og innbyrðis togstreitu á milli deilda. 

Mér hefur oft verið hugsað til öryrkja síðustu 2 árin eftir að ég greindist. Sjálf hef ég þurft að vera frá vinnu mánuðum saman og aðlagast breyttu hlutverki eða öllu hlutverkaleysi án þess svo sem að fá einhverja aðstoð eða stuðning við það. Flestir geta ímyndað sér áhrif þess að vera kippt af vinnumarkaðinum og settur í rúmið eða Lazy-boy stólinn heima. Sektarkennd, eirðarleysi, óvissa fylgir og maður missir fótanna í ákveðnum skilningi. Hættir að vera mikilvægur og/eða hluti af vinnustaðnum, hlutverk manns hverfur a.m.k. tímabundið. Vissulega koma inn önnur hlutverk enda ,,full time job" að vera sjúklingur og í meðferð. Þau hlutverk koma þó aldrei í staðinn fyrir þau fyrri. Sum þeirra eru erfiðari en önnur og ber þá fjármálin þar hæst sem fara öll í skrall af eðlilegum ástæðum og er efni í heila bók.

Eftir að hafa verið kippt út úr mínu starfshlutverki trekk í trekk til langs tíma hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mér myndi ganga mjög illa að aðlagast því að verða óvinnufær með öllu og þurfa að vera upp á ríkið komið. Á ég þá ekki við fjárhagslegu hliðina sem þýddi vissulega algjört hrun heldur andlega og félagslegu hliðina. Það að geta ekki sinnt því starfi sem ég hef valið mér og verið gjaldgeng á vinnumarkaði myndi fara með mig, það veit ég fyrir víst. Öryrkjar hafa hins vegar yfirleitt ekkert val í þessum efnum og þurfa að sætta sig við orðin hlut án þess að geta haft áhrif á gang mála. Mér virðist sem flestir þeirra nái að sætta sig við breytingarnar, eftir mislangan tíma, og sýna þann kjark og dug að aðlagast breyttu lífsformi og hlutverki. Ég get því ekki annað en dáðst að þeim einstaklingum sem ná þeim árangri en jafnframt sýnt þeim sem það ekki gera, skilning og aðdáun.

Þunglyndi er algengur fylgifiskur veikinda sem hafa varanleg áhrif á viðkomandi sem bætist síðan ofan á alla aðra erfiðleika og mótlæti.Ég veit núna eftir reynslu síðustu 2 ára að ég myndi ekki standa mig vel í breyttu hlutverki sem öryrki og myndi eiga í miklum erfiðleikum við að fóta mig í breyttu hlutverki. Það geta ekki verið margir, þegar upp er staðið, sem sætta sig við það að verða öryrkjar þó gagnrýni margra í þjóðfélaginu bendi til annars.  Er þá gjarnan horft til fjölskyldna þar sem 3. og 4. kynslóðin er að koma fram sem öryrkjar. Sá hópur er örugglega í miklum minnihluta og á sér ýmsar skýringar. Stimpillinn einn og sér dugar ekk í mínum huga.

Ég hef löngum horft til haustsins með breytingar á mínum högum í huga. Það hefur tekið mig góða stund að átta mig á því hvert ég vil stefna við þau kaflaskil sem ég hef staðið frammi fyrir síðasta árið. Ég ákvað að taka mér góðan tíma enda ekki beint á tvítugsaldrinum. Hef átt virkilega erfitt með að sjá mig í breyttu hlutverki og/eða starfi og það hefur ekki verið þrautalaust að átta sig á því hvar ég vil búa. Höfuðborgarsvæðið hefur ekki fallið í kramið hjá frúnni, er orðin of mikil landsbyggðatútta. Engu að síður var ég farin að leita fyrir mér og skoða málin af fullri alvöru þegar ég lenti í fótbrotinu. Varð þá að setja allt á bið enda fer engin að segja upp starfi sínu eða færa sig um set í veikindaleyfi. Sú bið hefur heldur betur dregist á langinn, eitt hefur tekið við af öðru.  Ekkert lát hefur virst á þeirri þróun og enn er allt sett á ,,hold". 

Síða 1. apríl hef ég að mestu leyti verið fjarverandi í mínu starfi og verið heima 24/, mánuð eftir mánuð. Var þó lansöm að geta lokið ýmsum af mínum skyldustörfum með góðra manna hjálp.  Hrútleiðinlegt hlutskipti sem hefur auk þess sett allar áætlanir, drauma og væntingar úr skorðum. Verið pikkföst, hvorki komist aftur á bak né áfram og stundum upplifað ástandið eins og að vera í kviksyndi. Fyrir hvert skref áfram hafa 2 verið aftur á bak og stundum rúmlega það. Sú tilfinning að vera atvinnurekendum erfitt tilfelli og kostnaðarsamt, ekki einu sinni heldur aftur og aftur hefur farið verst í mig. Auðvitað hefur mér hundleiðst heima yfir engu nema sjálfri mér og tíkunum en það hefur verið smámál samanborið við frammistöðu mína gagnvart atvinnurekendum mínum. Veikindi starfsmanna hafa auðvitað áhrif á samstarfsmenn, starfsemina sem slíka og skapa ávkeðinn stjórnunarvanda. Það er ekki auðvelt að skapa þær aðstæður ítrekað.Slíkur starfsmaður er ekki eftirsóttur.

Síðustu mánuðurinir hafa því verið fjandi töff, ég ligg ekki á því. Það stoðar ekkert að vorkenna sér en vissulega bognar maður á stundum. Ég vil, líkt og flestir, standa mína pligt og njóta þess að stunda þá vinnu sem ég hef valið mér. Hafa tilgang og hlutverk, bæði sem móðir, húsmóðir og starfsmaður. Ég er því orðin nokkuð pirruð yfir þeim seinagangi í heilbrigðiskerfinu sem ég hef mátt þola síðustu máuðina. Þó ég hafi verið það lánsöm að detta ekki niður í dýpsta pytt þunglyndis þá hefur mér ekkert liðið vel. Margir mánuðir hafa farið til spillis frá því í vetur en strax þá var ég ,,vangreind" og rangt greind þegar kom að krankleika og líðan. Fékk vissulega þá greiningu að vera með magasár en engin vandamál leyst þannig að þau hurfu ekkert við þá greiningu. Eins og heilbrigðiskerfið er sett upp í dag er sérhæfingin það mikil að athyglinni er beint á það tiltekna svlði líkamans sem er sjúkt hverju sinni,  í stað þess að horfa á vandamálin í heild og tryggja samráð á milli sviða og þar með lækningu á ,,öllum pakkanum". Enginn tekur lengur á heildarmyndinni þegar kemur að veikindum einstaklinga. Heilsugæslan virðist einnig bregðast í því hlutverki að samræma meðferðarúrræðin og vea eins konar tengiliður á milli sjúklings og kerfisins.

Brotinu í vetur fylgdi m.a. lyfjameðferð sem var eitur í magan en menn spáðu lítt í það. Bæklunarlæknar eru lítið að ,,fara inn á svið" lyflækna og öfugt þannig að vítahringur myndaðist sem lauk með sprungnu magasári núna síðla sumars með tilheyrandi sýkingum og veikindum. Enn og aftur var lítt samráð haft á milli sviða, ég versnandi af verkjum sem hafa fylgt mér eftir brjóstholsaðgerðina. Magasárið og sýkingarnar meðhöndlaðar og síðan bang! Útskrift og önnur vandamál enn til staðar, ómeðhöndluð. Komst reyndar að því fyrir tilviljun að einhverjar breytingar voru á lungnamynd sem þyrfti að skoða um leið og ég útskrifaðist. Ekki mátti nýta legu mína á LSH til að vinna það mál upp þó ástæða þætti brýn.  Ó nei og sei sei, það mátti bíða!  Minn sérfræðingur í sumarfríi en fékk með herkjum tíma hjá staðgengli sem í raun gat ekkert gert fyrr en menn kæmu úr sumarfríum sínum sem var nú í september. Mig skal ekki undra þó eitthvað sé um ótímabær dauðsföll þegar kerfið virkar með þessum hætti.

Ég er svo sem enn lifandi en hefði gjarnan þegið að vera komin með greiningu á ástandinu fyrir 4 vikum síðan í síðasta lagi. Auðvitað hefði það átt að liggja fyrir um síðustu áramót, mars eða í byrjun júní en nei, mönnum kom ástand mitt, fyrir utan krabbamein og brot á hnjálið og legg, ekkert við. Því fór sem fór.

Pirrings og reiði út í heilbrigðiskerfið er farið að gæta hjá mér. Mér finnst sem síðustu mánðum hafi verið stolið af mér í bókstaflegri merkingu svo ekki sé minnst á öll veikindin, verkina og aðara vanlíðan sem hefði mátt meðhöndla með viðeigandi hætti mun fyrr. Hver dagur, vika og mánuður eru mér dýrmæt því ég veit ekkert fremur en aðrir hvað ég fæ langan tíma hér í þessari jarðvist. Ég vil því njóta þess að vera lifandi hér og geta tekið þátt í atvinnu- og þjóðlífinu af fremsta megni. Auðvitað er ekki hægt að lækna allt og ekki kemst maður samstundis að alls staðar enda er ég ekki eini veiki einstaklingurinn hér á landi. Mér finnst hins vegar ég eigi fullan rétt á því að fá greiningu og viðeigandi meðhöndlun eins fljótt og auðið er. Uppbygging kerfisins, boðleiðir og samskiptavandar á milli sviða eiga ekki að hamla því ferli né stuðla að  frekari framþróun sjúkdóms hverju sinni.

Mér finnst bæði ég og krakkarnir hafi verið snuðuð um þetta sumar. Það leið án þess að fá fulla bót á meinum og einkenndist af miklum verkjum, úthaldsleysi, lystarleysi og almennri vanlíðan. Við náðum fáum markmiðum okkar, urðum að einbeita okkur að einum degi í einu og komast í gegnum hann. Ferðin út gerði mér gott, hitinn virtist draga úr ýmsum einkennum, úthaldið jókst og ég gat meira notið mín en áður. Það finn ég ekki síst eftir að heim er komið, kuldinn hefur sitt að segja þegar kemur að líðaninni.

Allt tekur á enda segir máltækið og vona ég að það eigi við nú eftir morgundaginn. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, mun ég fagna þeim. Það er gríðalega erfitt að upplifa erfiða líðan og verki án þess að vita um ástæðuna. Hið óþekkta veldur alltaf kvíða og óvissu,ég viðurkenni það fúslega að hvorutveggja háir mér nú. Á hverju á ég von nk. miðvikudag? Hver verður framtíðin og hvað verður til úrræða? Verður hægt að finna úrlausn yfir höfuð? Þetta eru spurningarnar sem klingja stöðugt í höfðinu, ég er engin undantekning. Við viljum, jú, flest lifa sem lengst og eiga möguleika á að láta markmið og drauma rætast. Við eru fæst tilbúin að lúta í lægra valdi fyrir sjúkdómum eða slysum en fáum oft ekkert við það ráðið. Ég og mín fjölskylda er ekkert frábrugðum öðrum að því leytinu til. Við viljum fá tækifæri til að lifa lífinu og ná settum markmiðum. Öllum er ljóst að allt líf á sér upphaf og endir en fæstir eru reiðubúnir til að sætta sig við það sem okkur finnst ótímabær fráföll. Ég get einungis ímyndað mér hvernig foreldrum sem missa börn sín á unga aldri líður. Flestir sætta sig betur við dauðan þegar hann ber að garði þegar háum aldri er náð. Maðurinn er þó ótrúlega aðlögunarhæfur þar sem sumir ná að sætta sig við ,,ótímabær"veikindi sem valda fötlun af einhverju tagi eða dauða en slík aðlögun tekur tíma.  Þann tíma fá ekki allir.

Vonandi fer óvissu okkar hér í minnil litlu famelíu að ljúka þannig að hægt verði að vita við hvað við erum að kljást og hvað sé til úrræða. Baráttan gengur betur þegar óvinurinn er sýnilegur.  Þrátt fyrir yfirþyrmandi leiða og pirring á ástandinu er ég þess fullviss að þegar öll spil eru komun upp á borð fær maður kraft á ný til að takst á við næsta verkefni, hversu ,,skítlegt" það verður. Það er engin uppgjöf hér á bæ, einungis þreyta, leiði og pirringur. Er ekki sagt að öll él stytti upp um síðir? Orðið tímabært að beisla pirringin og reiðina í það sem framundan er. Morgundagurinn er stíft bókaður og verður strembinn Whistling


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband