Færsluflokkur: Sorgin

Afmæli

Elsku mamma mín hefði orðið 52 ára í dag.  Ekki eru nema átta mánuðir síðan við kvöddum hana í faðmi okkar. 

 

Mamma var mín helsta hetja í lífinu. Ég skil ekki hvernig hún fór að því að vakna á degi hverjum, vera heimsins besta mamma og lifa lífinu eftir allt sem hún gekk í gegnum.  Persónulegar árásir í vinnu, einkalífinu og i pólitík tóku mjög á hana og okkur fjölskylduna en hún lét þó ei bugast og varð enn sterkari og ákveðnari en áður.   Fráfall Guðjóns, mannsins hennar, fór mjög illa með hana enda mjög óvænt og átakanlegt.  Eins og venjulega stóð hún þó bein í baki í gegnum þá erfiðleika sem fylgdu andláti hans og bloggaði hún mikið í gegnum sorgina.  Það má segja að bloggið hafi verið ákveðin hjálp í vinnslu sorgarinnar og eignaðist hún marga góða vini í gegnum það.  Þegar veikindin hrjáðu hana sótti hún styrk í kveðjurnar á blogginu og því voru þær ómetanlegar fyrir hana sem og okkur börnin.  Ég vil geta þess að Þórdís Tinna, bloggvinkona hennar heitin, hvílir einungis 4 leiðum fyrir neðan mömmu.  Áttu þær í sérstöku en yndislegu samandi.   En þessir erfiðleikar sem ég nefni  eru þó einungis dropi í djúpu hafi.   

 

Mamma synti á móti straumi allt sitt líf og var án efa fædd undir óheillastjörnu. Það má segja að þessi þrautarganga í gegnum lífið hafi mótað hana, gert hana eins frábæra og yndislega og hún var.    Hún var einstaklega frábær hjúkrunarfræðingur og ekki síðri kennari.  Náði hún að kenna mér margt faglegt sem ég mun búa við alla ævi.  Hún kom starfsfólki 11 E sífellt á óvart, neitaði að gefast upp og sýndi þvílíka þrautseigju.   Ótruleg hetja og mín helsta og besta fyrirmynd í lífinu.  Hún var mín mamma, besta vinkona, systir, frænka og undir það síðasta litla barnið mitt.  Í veikindunum hennar tengdumst við órjúfanlegum böndum.  Á Krít sofnuðum við hönd í hönd og höfðum aldrei sofið jafnvel. Við höfðum ,,sleep over” á deildinni og dekruðum við hvor aðra.   Ég sef nú með kápuna við hlið mér og finn enn mömmulykt. Enn stend ég mig að því að fara hringja í þig enda er þetta enn svo óraunverulegt.  Ég þrái ekkert heitar en að knúsa þig og kyssa.  Mig vantar svo mömmu mína, okkur Haffa vantar múttu okkar.  Þú varst tekin frá okkur alltof snemma. Við höfum reynt að aðlagast lífinu án þín en það hefur gengið brösulega en við munum þó halda áfram að reyna því það hefði þú gert.   Ég treysti því að amma knúsi þig og skáli við þig í dag með ABBA á fóninum því það verður allavega gert hér í Engjaselinu.  Skál.

Til hamingju með daginn elsku mamma,

 

Love you 2 elsku besta mamma mín. 


12. febrúar

Dagur sem ég hef kviðið fyrir, dagur sem breytti öllu. Komið ár síðan að vonirnar um bjarta framtíðina brustu og allt varð svart um stund. Sársaukinn ekki minnkað mikið en ég hef reynt að horfa fram á við. Lífið heldur áfram þó ég hefði kosið að spóla til baka og setja það á ,,hold" 

Við áföll hefur maður tvo kosti, annað hvort að láta áfallið veikja sig og bíða ósigur eða að rísa upp og halda áfram í viðleiti til að byggja sig upp og ,,sigra". Við völdum síðari kostin, uppbyggingin mjakast áfra, tökum stundum nokkur skref afturá bak en oftast hænuskref áfram. Þessi dagur hafðist eins og allt annað.  Enn er spurningum ósvarað, ég veit að sum svörin fæ ég aldrei. Verð að lifa með því. 

 

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

 

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

útfararkross

 

 

 


Angurvær tími

Svolítið angurvær þessa dagana. Afmælisdagur foreldra minna beggja í dag. Virðist seint ætla að komast yfir það að missa þau bæði þó liðin séu meira en 7 ár. Bæði létust árið 2000, úr lungnakrabbameini, móðir mín í janúar og pabbi í ágúst. Náðu einungis 69 og 70 ára aldri sem mér finnst enginn aldur í dag. Eins og búast má við, streyma minningarnar alltaf á tilteknum tímamótum og söknuðurinn blossar upp. Ýfir einnig upp önnur sár og áföll.

Foreldrar mínir voru sterkir persónuleikar þó ólík væru og ávallt til staðar fyrir okkur. Skipti aldur okkar þar engu máli. Ég er nokkuð viss um að ég hefði komist betur út úr minni reynslu síðustu árin, hefði þeirra notið við. Bæði lífsreynd, með fæturnar niðri á jörðinni og sterkar skoðanir á málum. Ég veit að ég ýki ekki þegar ég segi það blákalt; ég var háð þeim.

Auðvitað heldur lífið áfram og hugsanir manns eru ekki daglega litaðar af sorg og söknuði en þessar tilfinningar blossa alltaf upp, af og til. Til eru þeir sem kalla slíka angurværð sjálfsmeðaumkvun og eigingirni og vísbending um að maður vilji halda í sársaukan en ég er á þeirri skoðun að slíkar tilfinningar séu eðlilegar og dúki einmitt upp við ákveðin tilefni og tímamót. Ég gef hins vegar lítið fyrir þær yfirlýsingar þess efnis að öll sár grói með tímanum. Þau gera það nefnilega alls ekki, maður lærir hins vegar að lifa með þeim. Stundum finnur maður meira til en venjulega. Er þetta ekki það sem lífið snýst um, að heilsast og kveðjast, gleðjast og finna til?

Ég leyfi mér hiklaust að skríða inn í mína skel á kvöldi sem þessu, kveikja á ótal kertum og leyfa minningunum að streyma og veit að ég er ekki ein um það.

 Móðir mín elskaði gular rósir, ekki viðrar vel í garðinum í dag þannig að hún fær eina senda í "huganum"

yellow rose
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Tími kertaljósanna er kominn hjá mér, verð með logandi kerti öll kvöld fram á vorið. Þannig líður mér best. Ekkert lítið notalegt þar til kemur að því að þrífa sótið þegar daginn fer að lengja. Mér finnst það alveg þess virði.

Bið alla um að koma við á kertasíðu Gillíar, hún og fjölskylda hennar eiga erfitt þessa dagana.  Slóðin er :

http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Gill%C3%AD

 


Rétt úr kútnum

Er að koma til eftir nokkra dýfu sem kom óvænt og mér gjörsamlega í opna skjöldu. Ég sem hélt að ég væri heldur betur að vinna mig út úr sorginni og því ferli öllu. Svo allt í einu; bang! Ég gat ekkert gert.

Trúlega hefur álag síðustu vikna verið ástæðan, ég komin út á ystu nöf, líkamlega. Þrekið gjörsamlega búið og þá finn ég til vanmáttar míns. Það versta sem fyrir mig kemur er þegar ég næ ekki að klára mitt á réttum tíma! Ekki það að óheillastjarnan stríddi mér óþarflega með tölvuhruninu, ekkert smá mál að búa til allt kennsluefni á ný, yfirfara aftur þau verkefni sem ég var búin með og það á gamla jálkinum sem líkja má við 33 snúninga grammófónsplötu.  Allt tekur óratíma en tími er það sem ég hef ekki haft nóg af. Svo einfalt er það.

Ég hef einmitt verið spurð að því að undanförnu hvort ég þurfi að vinna svona mikið og því er til að svara að ég þarf þess. Það er ekkert lítið mál að vinna sig út úr margra mánaða tekjutapi, ekki síst þegar fyrirvinnan er oðrin ein. Það er dýrt að skulda, vextir og innheimtukostnaður er stjarnfræðilega háir og það tekur langan tíma að vinna sig út úr slíkum aðstæðum. Enginn afsláttur er gefinn og ekkert gefið eftir. Þannig er það einfaldlega og ég get lítið gert annað en að mæta þeim erfiðleikum. Ég er hins vegar heppnari en margur annar í minni stöðu, ég er orðin vinnufær!

Ég er orðin þreytt á því að skríða með veggjum vegna skulda og vanskila, ég legg því allt í sölurnar til að komast út úr því ástandi. Einungis þeir sem slíkt þekkja, skilja hvernig þessi líðan er, hún er að mörgu leyti mun verri en veikindin sjálf. Slíkt ástand brýtur niður allt sjálfstraust og sjálfsvirðinguSick  Bjargráðin eru fá; afla meiri tekna og skera niður eyðslu, svo einfalt er það. Kerfið kemur ekki til aðstoðar í slíkum málum, einstaklingurinn ber þennan bagga einn. Annað hvort tekst honum að vinna sig út úr málum eða missir allt sitt. 

Til að bæta gráu ofan á svart má helst ekki ræða þessi mál, maður verður að bera harm sinn og áhyggjur í hljóði. Bíta á jaxlinn, skammast sín fyrir stöðuna enda miklir fordómar gagnvart "skuldurum" , óháð ástæðu fyrir því óskemmtilega hlutverki. En á sama tíma á hinn sami vera duglegur. Ætli margir sem hafa veikst og verið kippt út úr atvinnulífinu, skilji ekki þessa líðan? Ég hef trú á því.

Í öllu falli er mín að rétta úr kútnum, mér sýnast helgarnar verstar þegar kemur að andlegri líðan þó þær séu svo sannarlega kærkomnar eftir vikuna. Þá er bara að taka á því. Álagið fer að minnka eftir miðja þessa viku og ástandið að komast í viðunandi horf. Þetta er allt að komaSmile

 Bið alla sem heimsækja þessa síðu að líta við á síðum Gíslínu og Þórdísar Tinnu en linkar inn á þær eru hér á forsíðunni. Báðum veitir ekki af hlýjum hugsunum og baráttukveðjum. Einstakar perlur, báðar tværHeart

 

 


Týpískur mánudagur

Rétt marði þennan daginn, algjörlega búin á því eftir helgina. Ég sem gerði lítið sem ekkert. Svo virðist sem ég þurfi "langlegu" um helgar til að hlaða batteríin fyrir vinnuvikuna. Ég þarf að fara að hreyfa mig meira, þó fyrr hefði verið! Að sjálfsögðu beið minn hjartfólgni sófi eftir mér í lok dags, skreið úr honum fyrir rúmum klukkutíma.  Hann klikkar ekki frekar en fyrri daginn.

Það þarf lítið til að ýfa upp minningar og áföll þessa dagana, hvort heldur sem það er þáttur hjá Sirrý eða harmleikur helgarinnar.  Sem betur fer er umræðan farin að opnast um sjálfsvíg og áhrif þeirra. Fram til þessa hefur umræðan verið lokuð, flestir forðast hana og margir telja að slík mál eigi ekki að ræða.  Syrgjendur sitja uppi með áfallið.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sem ekki hafa lent í því, skilji í raun hversu mikið áfall það er þegar ástvinur manns sér enga aðra leið færa en að taka sitt eigið líf.  Skotvopn bætir enn við áfallið, slík leið er svo endanleg og ákvörðunin óafturkæf.  Eins og fram hefur komið í þáttunum "Örlagadagurinn" er sjálfsásökunin svo sterk í fyrstu.  Hún ætlar beinlínis að éta mann upp að innan og gera út af við mann.  Síðan kemur reiðin og svo hvert stigið á fætur öðru þar til sátt næst, þ.e. sátt við orðinn hlut sem ekki er unnt að breyta.  Mér fannst Þorvaldur Halldórs lýsa ferlinu vel hjá Sirrý í gær.

Mér var létt þegar ég heyrði það í fréttum að öllum þeim er komu að harmleik helgarinnar, var boðin áfallahjálp sem nefnist "Fyrsta sálræna neyðarhjálpin" enda engin vanþörf á. Áfallahjálpinni þarf einnig að fylgja eftir næstu vikur og etv. mánuði.  Því miður virðist þau úrræði ekki vera til staðar í öllum landshlutum enda krefst hún þverfaglegrar samvinnu ýmissa heilbrigðisstétta og kirkjunnar.  Hins vegar mega heilbrigðisstarfsmenn og kirkjunnar þjónar í hinum ýmsu, minni byggðalögum taka sig á í þessum efnum.  Harmleikirnir gerast ekki síður þar en í stórborginni.    Vissulega eru til þau byggðalög þar sem þessi mál eru í góðum farvegi. Í öllu falli veit ég að okkur hefði ekki veitt af stuðningi, ekki síst Hafsteini og Katrínu, hvað þá þeim sem kom að.

En staðreyndin er sú að eftirlifendur úti á landsbyggðinni þurfa því oftar en ekki að bera harm sinn í hljóði og þeir sem koma að slíkum atburðum, ná sér etv. aldrei eftir slíka reynslu.  Hún fylgir manni ævina út.  Reynslan er jafnframt sú að eftirlifendur sækja sér sjaldnast aðstoð, það þarf að koma með hana til þeirra. Sem betur fer eru tímar að breytast og áherslurnar með.

Erfiðar hugsanir og pælingar sem sækja á hugan enda ekkert óeðlilegt við það, einungis liðlega 4 mánuðir síðan Guðjón fór.  Breytingar á lífi okkar miklar og fótunum kippt undan okkur að mörgu leyti.  Það tekur tíma að fara í gegnum sorgarferlið, feta réttu leiðina og finna jafnvægi á ný.  En allt hefst þetta með tíð og tíma.  Þangað til verða hæðir og lægðir, aðalatriðið er að festast ekki í hinum ýmsu þrepum og æra alla óstöðuga.  Sjálfsmeðaumkvun er engin lausn heldur, það stoðar lítt að velta því endalaust fyrir sér af hverju þetta gerðist  hjá mér.  Þetta gerðist og ég get ekkert gert til að breyta því. Ég þarf hins vegar að taka mig á og nota "hæðirnar" til að leysa úr öllum flækjunum, vera duglegri að ráðast í verkefnin.  Stundum eru litlu skrefin svo óendanlega stór og erfið en um leið og þau hafa verið tekin er sigurinn sætur og næstu skrefin auðveldari.

Auðvitað skilur enginn hvað maður er að fara með þessum orðum nema sá sem hefur gengið í gegnum sorgina með einum eða öðrum hætti. En allt hefst þetta, einungis spurning um tíma. Nóg um sorgina í bili. Nú fer hún upp í hillu.

 Heyskapur hafinn að Seljalandi og mín í skýjunum.Happy   Vona að menn geti nýtt heyfenginn.  Mín fjarri góðu gamni, bókstaflega með fiðring á tánum.  Veit ekkert skemmtilegra en sauðburð og heyskap.  Leitir í 3. sæti og sláturgerð í því 4. Það eru forréttindi að búa í sveit.

Örlagadagurinn

Kíkti aðeins á þáttinn "Öralagadagurinn".  Umfjöllunin var um sjálfsvíg, ekki síst með áherslu á líðan eftirlifenda.  Þörf og brýn umræða um svo viðkvæm mál sem sjálfsvíg er.  Sirrý tók viðtal við móður ungs manns sem tók sitt líf og rakti hún ásamt tvíburabróður hans aðdraganda og síðan þann tíma sem tók við.  Svo virðist sem þessi fjölskylda hafi verið lánsöm að því leytinu til að hún fékk mikla aðstoð og stuðning við að vinna sig út úr sorginni og afleiðingum hennar.

Auðvitað ýfði þessi þáttur upp allt ferlið með Guðjón, því er ekkert að neita. Við Kata áttum báðar erfitt vegna þessa, við könnumst við þá líðan og eftirköst sem þarna var lýst. Þunglyndið, hótanirnar og sjálfsvígið sjálf, allt rifjaðist upp.  Það er ekki svo að ég hugsi um þennan atburð allan daginn en daglega þó og á langt í land með að vinna mig í gegnum sorgarferlið.

Kannaðist vel við þá lýsingu sem viðmælandinn gaf um frumkvæðisleysið, lömunartilfinninguna. Í fleiri vikur var daglegt markmið að komast í gegnum daginn, allt annað sat á hakanum enda var ærin vinna að klára hvern dag skammlaus, svo ekki sé minnst á lyfjameferðinga. Ég hafði ekki krafta til að sinna því sem fylgir daglegu amstri og rekstri. Númer eitt, tvö og þrjú var að vera sterk fyrir krakkana og láta sem allt væri í lagi með mig.  Ég veit að ég er góður leikari í þeim efnum.  Skelin og yfirborðið virtist í lagi en þar fyrir innan allt í steik, algjörlega í rusli.  Ég er nýfarin að takast á við þau mál sem hafa setið á hakanum og reyna að vinna mig út úr þeim.  Taka ákvarðanir.

Ég hef hins vegar ekki fengið skilning á þessari líðan og skorti á frumkvæði, alla vega ekki frá öllum.  Þeir sem ekki hafa lent í slíkum aðstæðum, skilja þetta hreinlega ekki.  Virðist harkan óendanleg í þeim efnum hjá sumum. Mér er vel kunnugt um þá sem hyggjast nýta sér þær aðstæður og erfiðleika mína, sér til hagnaðar.  Sumir virðist þrífast best við þær aðstæður sem hægt er að hafa gott af erfðleikum annarra.  Þar sem er gróðavon, líður þeim best.  Við skulum sjá til hvort þeim verði ágengt í þeim efnum, ég hef bognað en ekki brotnað. 

Í öllu falli erum við, litla fjölskyldan, sammála um það að stuðningur við okkur var rýr og áfallahjálp engin. Kerfið brást, kirkjan var til staðar en einungis í skamman tíma. Við nutum stuðnings stórfjölskyldunnar en það eru takmörk sett fyrir því hversu megnug hún er í svo erfiðum og viðkvæmum málum. Til eru þeir sem beinlínis ásaka mig fyrir sjálfsvíg Guðjóns, ég veit ekki hvort ég eigi að vorkenna þeim eða reiðast. Eins og ég hef oft sagt, er mér ætlað að vera ansi kyngimögnuð kona með alla þræði í hendi mér.  Norn,sem sagtDevil

Við munum halda áfram að vinna okkur í gegnum sorgarferlið, við getum ekki spólað til baka og breytt neinu. Guðjón er farinn og það er endanlegt.  Við getum einungis lært af þeirri reynslu sem við lentum í og bætt þeim lærdómi við reynslubankann sem er orðinn ansi fjölskrúðugur. Söknuðurinn verður alltaf til staðar og sorgir nístir eins og ég hef áður sagt.

Ég fagna því umræðunni um þunglyndi og sjálfsvíg, vonandi eykst skilningurinn á slíkum aðstæðum og dregur úr fordómum. Þeir eru ótrúlega miklir og þeir sem telja að það sé öðrum að kenna að einstaklingar taki slíkar ákvörðanir sem sjálfsvíg er, eru trúlega þeir sem hafa mestu fordómana. "Margur heldur mig sig".

Framundan ný vinnuvika og vonandi einhver svör frá Sigga BöUndecided


Biðin endalausa

Enn komin í sömu spor og í haust þegar ég beið og beið eftir niðurstöðum og meðferð. Þarf að fara í sneiðmyndatöku af brjóstholi og kviðarholi og fæ loksins að fara í beinaskann; það fyrsta síðan ég greindist. Fæ hins vegar ekki tíma fyrr en næsta fimmtudag og þá með þeim fyrirvara að tækin í Domus verði komin í lag. Það veltur hins vegar á því hvort réttir varahlutir berist var mér tjáð.Shocking Ég ætti skv. þessu plani að heyra í Sigurði Bö í síðasta lagi eftir aðra helgi.

Ekki það að ég er orðin vön biðinni, það er ekki vandamálið en mikið væri það skemmtileg tilbreyting ef hlutirnir gætu, svona einu sinni, gengið snuðrulaust fyrir sigWink.

Skoðunin kom vel út, engar eitlastækkanir og lungnahlustun eðlileg. Blóðprufurnar eins og ég átti von á, hækkuð í hvítu blóðkornunum enda búin að vera með "pest" og blóðrauðinn ansi hár enda ekki við öðru að búast með eitt lunga. Hvíldarpúls er alltaf yfir 100 slög/mín og er það eðlilegt af sömu ástæðu. Ég er að þyngjast og úthaldið að koma smátt og smátt.  Fékk meira að segja "starfshæfnisvottorð", að eigin ósk, sem ég þarf að skila inn þannig að ég er formlega orðin "vinnufær".

Ég líkt og aðrir sem veikjast af krabbameini, á erfitt með að plana langt fram í tíman og hef lært að horfa aðeins á næstu 3 mánuði eða þar til næsta tékk verður. Auðvitað ætla ég að sigra þennan fjanda en ekkert er sjálfgefið í þeim efnum. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir, ég hugsa um lífslok og afleiðingar þeirra á börnin mín. Hef reyndar meiri áhyggjur af þeim en sjálfri mér en ég veit að þau eru sterkir einstaklingar sem koma til með að spjara sig. Ég finn það vel að öðrum finnst óþægilegt að ræða um lífslok, ég var þannig sjálf þar til ég fékk reynslu í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur. Umræða um slík mál er óhjákvæmileg í því starfi og sem fagmaður hef ég þurft að móta mína afstöðu til dauðans eins og aðrir kollegar mínir. Að því leytinu hef ég kannski forskot á aðra í sömu stöðu en þekki það líka að það er oft nær óyfirstíganlegt að missa ástvini sína.

Ég finn það vel að ég hef breyst mikið við þessi veikindi og sviplegt fráfall Guðjóns. Afstaða mín til ýmissa mála hefur tekið U-beygju. Ég hef ekki verið þekkt fyrir að gefast upp og hef harðnað að því leytinu til ef eitthvað er. Þó að það komi mér alltaf á óvart hversu fólk getur verið óvægið, ýmist persónulega eða í krafti embættis síns, staldra særindin og sársaukinn skemur við í mínum huga. Ég má eiginlega gæta mín á því að vera ekki of hörð í viðbrögðum mínum þegar að mér er vegið eða illa komið fram við mig og mína. Ég hef líka lært á óvæginn hátt að ekki eru allir viðmælendur vinir mínir og til eru þeir sem sigla undir fölsku flaggi, tilbúnir að sparka í útafliggjandi mann þegar því er að skipta.  Ég er reyndar alltaf jafn bláeyg þegar kemur að slíkum málum, á erfitt með að trúa hvað fólk getur verið grimmt og óvægið. Sumir eru það blindaðir af heift og mannvonsku að þeim er það ekki tiltökumál að sæta lagi og bregða fæti fyrir mann, jafnvel þegar maður er ekki fær um að verjast sökum veikinda og sorgar. Hvernig skyldi slíkum einstaklingum reiða af ef þeir veikjast sjálfir, missa ástvin, verða sviptir atvinnu og afkomu eða ef vinir þeirra bregðast þeim? Oftar en ekki verður mér hugsað til þess að samviskan eigi eftir að banka hressilega upp á hjá þeim, verði þeir óvígir af einhverjum orsökum. Ég hef í raun samúð með þeimCrying

Finn að ég er ekki eins þreytt eftir vikuna nú og ég var í síðustu viku, hvað þá þeirri þar síðustu. Var þó ekki það brött að ég treysti mér að keyra vestur í dag en stefni þangað á morgun. Katan fór í dag og lítur eftir hlutum, mér heyrist ekki vanþörf á því. Verst að það er ekki hægt að panta öryggisþjónustu í sveitina, ekki veitti af, því miður.

Búin að afreka það að slá og reita arfa í kvöld, sæl og ánægð með árangurinn en ansi mikið eftir. Allt hefst með litlu skrefunum og smásigrunum. Ég get vel við unað að vera orðin þetta brött, það er meira en hægt er að segja um margan sem er að berjast við krabbamein af ýmsum toga. Ég er sátt við sjálfan mig, auðvitað hefði ég getað betur á mörgum sviðum. Ég er, eins og allir, mannleg og breysk. Vildi að ég hefði verið sterkari eftir andlát Guðjóns og drifið í ýmsum málum en viðurkenni vanmátt minn, sumt gat ég einfaldlega ekki horfst í augu við eða tekið á.  Afleiðingunum verð ég að taka og ekki er að vænta skilnings í þeim efnum á sumum vettvöngum. Þannig er það bara, ég hef reynt mitt besta, meira er ekki hægt hverju sinni. Á morgun geri ég beturBlush


Bank, bank;ég á ......

Mannskepnan er ótrúleg ekki síst þegar hún telur einhverja gróðrarvon í vændum. Menn farnir að banka upp á hressilega og ásælast eigur látins manns. Fylgja því svo eftir skriflega, láta skína í hótanir og hafa svo fögur orð um minningu um góðan dreng í sömu andránni.  Sumum finnst greinilega ekkert tiltökumál að leggjast eins lágt og hægt er. Sick

Mér finnst slíkar uppákomur óþægilegar, þær rífa upp sárin og sársaukan og allt ferlið byrjar upp á nýtt. Ekki það að ég ætti að vera farin að venjast slíku, ekki hefur mér verið hlíft, hvorki af hinu opinbera, viðskiptabankanum, tengdafólki og fyrrum starfsfélaga svo fátt eitt sé nefnt. Það mun samt seint brjóta mig þó erfitt sé að berjast á stundum.  Á langt í land ennþá með að vinna mig út úr sorginni, þannig er það einfaldlega og út frá því geng ég.

Verð þó að viðurkenna að ég átti von á meiri skilning á aðstæðum; sorginni og veikindunum. Ég þekki engan sem hefur staðið uppréttur með fulla starfsorku á meðan á slíkum aðstæðum stendur en heimurinn og þar með mannskepnan eru grimm. Sem betur fer eru til þeir sem hvetja mann og styðja andlega í ferlinu og baráttunni.  Auk þess á ég heimsins bestu börn, án þeirra væri ég ekki þar sem ég er í dag.

Eins og ég hef áður skrifað; traust er einn af grundvallarþáttum í lífinu, meðferð persónuuplýsinga er vandmeðfarin. Það á ekki að líðast að þeir sem eru bundnir trúnaði, hver sem þeir eru, opinberir aðilar eða úr einkageiranum, leki upplýsingum og geri þær að fóðri fyrir Gróu á Leiti. Trúnaðarbrestir koma alltaf í bakið á þeim sem rýfur trúnaðinn.

Uppákomur sem þessar og mótlæti herða mig ef eitthvað er; ég skal, get og vil!Angry


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband