Raunhæfur möguleiki

Lengi hafa menn rætt um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga og hafa málefni fatlaðra og aldraðra borið þar hæst á góma. Margt mælir með flutningi þessara málaflokka, ekki síst nálægð við einstaklingana.

Oftar en ekki hef ég samt á tilfiningunni, þegar slíkir möguleikar eru ræddir, að miðað sé við stærri sveitarfélögin  sem hugsanlega hafa bolmag til að ráðast í verkefni sem þessi. Flest sveitarfélög landsins eiga fullt í fangi með að sinna þeim málaflokkum sem þau hafa undir höndum og mörg þeirra ná ekki að sinna lögbundinni þjónustu sem skyldi. Flutningur grunnskólanna til sveitarfélagana hefur reynst mörgum erfiður biti og margir haldið því fram að nokkuð vanti upp á fjármagn til að halda úti grunnskólum, ekki síst í litlum sveitarfélögum. 

Ég sé ekki fyrir mér að sveitarfélög með færri íbúa en 1000 verði fær um að sinna þjónustu við fatlaða og aldraða.  Vegur þar þyngst að sveitarfélögin munu ekki hafa nægilegt fjármagn til rekstursins og það sem meira er, þau munu varla hafa nægilega marga fagmenntaða starfsmenn til að sinna þeim störfum sem rekstrinum fylgir. Það hefur sýnt sig með rekstur öldrunarheimila að fagfólk er af skornum skammti, ekki síst úti á landsbyggðinni. Hjúkrunarheimilin eru að veita mjög mismunandi þjónustu í dag, þrátt fyrir að daggjöld miði við tiltekna þjónustu. Sömu vandamál eru uppi á borðum með þjónustu við fatlaða, skortur er á fagmenntuðu starfsfólki og fjármagn til reksturs málaflokksins talið of naumt skammtað.

Það er því tómt mál að tala um flutning á þessum málaflokkum til sveitarfélaganna nema að tryggt verði nægilegt fjármagn og fagmenntað starfsfólk. Lítil sveitarfélög hafa enga möguleika á því að auka tekjustofna sína það mikið að þau standi undir rekstrinum og reynslan með grunnskólana hefur sýnt fram á að ríkið hefur ekki tryggt nægilegt fjármagn til reksturs þeirra.

Ríkisstjórnarflokkarnir tala nú um sameiningu sveitarfélaga sem er skiljanlegt svo sem. Of mörg sveitarfélög eru það fámenn til að geta fjármagnað  lögbundna þjónustu eins og þeim er háttað í dag. Menn hafa hingað til forðast þá stefnu að þvinga sveitarfélög til sameininga en þau hafa mörg hver verið treg til þess. Getur það verið að samgöngumálaráðherra sé að boeinkavlða breyttar áherslur núna og undirbúa þvinganir í sameiningarmálum? Það kæmi mér ekki á óvart.

Mér virðist Þingvallarstjórnin ætli að koma ýmsum málum í gegn á methraða, s.s. einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og sameiningu sveitarfélaga. Lýðræði verður trúlega ekki efst í hugum þeirra heldur hagur fjárfesta og fjármálafyrirtækja. Það hefur þegar sýnt til að ríkisstjórnin er reiðubúin til að teygja sig býsna lagnt til að aðstoða fyrirtæki í þrengingum en fátt eitt er lagt til málanna þegar kemur að einstaklingum. Á meðan þeir lenda í gjaldþrotum, verður fyrirtækjum bjargað.

Þingvallastjórnin mun sennilega hafa það í gegn að rústa landbúnaðinum líkt og sjávarútvegsbyggðunum án þess að hafa mikið fyrir því. Það heyrist varla í sveitarstjórnamönnum, menn virðast sáttir við byggða- og atvinnumálaþróun ríkisstjórnarinnar. Ætli það sama gildi ekki um sameiningu sveitarfélaganna sem þarf svo sem ekki að vera neikvæð en slíkar ákvarðanir ætti að taka af þeim sjálfum, ekki ríkisstjórninni.

 


mbl.is Nýr veruleiki sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Knús á þig og þínaáttu góðan sunnudag mín elskulegust

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 24.8.2008 kl. 08:36

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ef flutningur á þessum þjónustuþáttum verður að veruleika er það auðvitað skilyrði að fjármagn fylgi með, en það hefur bara aldrei verið raunin þegar svona breytingar hafa verið gerðar.

Bestu kveðjur til þín Guðsrún mín

Sigrún Jónsdóttir, 24.8.2008 kl. 11:34

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Guðrún, átti þetta auðvitað að vera

Sigrún Jónsdóttir, 24.8.2008 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband