Vikan senn á enda

Ég einfaldlega skil ekki hversu vikan er fljót að líða, síðasta helgi ný liðin og framundan sú næsta. Ég bjó mig undir það að  tíminn myndi sniglast á áfram í veikindastússi mínu enda fátt eitt við að vera. En það er öðru nær, tíminn flýgur þrátt fyrir aðgerðarleysi og skort á hlutverkum.

Ekki það að það væsi um mig, er ekki að gera neitt af viti. Verkjaköstin heldur færri ef eitthvað er og ég almennt betri inn á milli þeirra. Finnst úthaldið vera smátt og smátt að koma, hef jafnvel upplifað ástandið betra en í marga, marga mánuði að sumu leyti. Daglegt líf snýst um verkjastillingu og einfaldari  heimilisstörf. Mér þykir náttúrlega mikið til þess koma þegar mér tekst að moppa stofugólfið eða setja í eina vél eða svo. Verð aðvitað sveitt og másandi við hverja viðleitni en þeim mun ánægðari með afraksturinn. Einkennilegt hvað veikindi breyta forgangsröðuninni hjá manni.

Ég get þó ekki leynt því að mér hundleiðist þetta ástand og eilíf veikindi. Hef verið að kljást við þessi veikindi, meira og minna síðan um miðjan nóvember í fyrra eða í 9 mánuði. Mér finnst komið nóg. Á það til að ergja mig á því að hafa ekki fengið rétta greiningu í vetur og þar með rétta meðferð mun fyrr og áður en allt fór í óefni. Get hins vegar ekki breytt því sem liðið er þannig að það hefur lítið upp á sig að dvelja um of við slíkar hugsanir sem óhjákvæmlega eru neikvæðar.Það væri hræsni að halda því fram að ég sætti mig við orðinn  hlut og tæki þessu öllu með jafnaðargeði. Ég á mína slæmu stundir líkt og aðrir.  Þær eru þó færri en þær góðu þannig að ég kemst yfir þetta allt saman.

Það sem fer verst í mig er sú staðreynd að vera ekki vinnufær. Það að geta ekki sinnt sínum daglegu störfum og pligt er eins og  kippa undan mér fótunum. Tilverugrundvöllurinn raskast heldur betur og er ég ekkert öðruvísi en aðrir í þeim efnum. Þetta er ekki eins og að fá flensu sem leggur mann í rúmið í einhverja daga. Veikindi hjá mér virðast eilífðarverkefni sem aldrei virðist ætla að taka á enda. Þegar einu lýkur, tekur annað við.  Þannig er ógjörningur að plana fram í tíman, hvað þá að treysta á mann sem starfskraft. Það þoli ég illa.  Þegar starfsþrekið er ekkert, skapast of mikið svigrúm til neikvæðra hugsanna, erfiðra minninga og pirrings yfir eigin bjargleysi. Allt er í hægagír og smásigrarnir svo litlir að maður myndi ekki taka eftir þeim undir venjulegum kringumstæðum.

Ég hef þá trú að ástandið sé á réttri leið en veit að það mun taka einhvern tíma til að endurheimta fyrra úthald sem var kannski ekki til að hrópa húrra yfir en dugði mér ágætlega. Flesta daga finn ég að ég sé á uppleið, suma dagana finn ég bakslag en það er þó allt eðililegt.  Þá verð í pirruð, svo einfalt er það.

Haffinn að taka próf í fyrramálið, vonandi gengur honum vel. Ef ekki, er  alltaf möguleiki á því að taka það aftur en kostar mun meira álag þegar að því kæmi. Ég hef alla trú á því að hann hafi þetta drengurinn en heppni spilar þar mjög ríkt inn í.  Katan flýgur út um miðja næstu viku þannig að sumarsælunni er að ljúka hér í Engjaselinu. Búið að vera góður tími fyrir utan bév.. veikindin sem hafa heldur betur sett strik í reikninginn hjá okkur öllum.

Vonandi styttist í að ég megi fara að vinna, reikna með því eftir 2-3 vikur ef fer sem fram horfir. Skýrist vonandi í næstu viku. Verð þeirri stundu fegnust þegar að því kemur. Fóturinn er að verða eins góður og hægt er að hugsa sér, býst ég við. Þarf greinilega að vera með spelku til frambúðar enda hnjáliðurinn skrollandi laus og því auðvelt að lenda í einhverju hnjaski. Verð að sætta mig við það þar til annað kemur í ljós. Gerfiliður inni í myndinni en örugglega ekki á næstunni þar sem ég get vel skrölt á fætinum eins og hann er. Biðlistar langir og forgangsröðun ræður eðlilega för undir þeim kringumstæðum. Auk þessa er ég ,,of ung" til að lenda ofarlega á listanum. Ég er fyllilega sátt við það,myndi ekki með nokkru móti nenna að standa í aðgerð og tilheyrandi bataferli strax. Því lengur sem sú bið verður og því lengur sem ástand mitt bið, því betra að bíða eftir þeim process. Get ekki hugsað mér að íhuga það ferli á næstu mánuðum og árum, hvað þá meir. Ég mun hökta á þessum lið eins lengi og stætt er.

Er búin að panta sól þessa helgina, sýnist þó veðurspár boða annað, þ.e rigningu. Var búin að panta Kötuna til að aðstoða mig við að ljúka að bera á sólpall og skjólveggi áður en hún fer út. Ekki mikið eftir en alltaf betra að hafa annan með sér í slík verk. Kvíði þó engu þessa helgina, hún mun líða ógnahratt líkt og aðrar þetta sumarið, þrátt fyrir blóðleiðinlega sjónvarpsdagskrá á öllum stöðvum. Það verður kominn mánudagur áður en ég næ að sú mér við og skiptir þá engu máli hvort mér hafi leiðst eður ei.W00t

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband