Smátt og smátt

Held að ástandið sé hægt og bítandi að skána. Verulega slæm síðastu sólarhingana, ekkert beit á verkina og fátt í stöðunni annað en að bryðja verkjalyf eins og Tópaz og krossleggja fingur um að sú stund komi að þau slái ögn á verkina. Síðan gengið um gólf eða reynt að hnipra sig saman, ýmist kaldsvitnað eða hríðskolfið.

Fannst ástandið erfitt í nóv-febrúar sl. en sé það nú að það jafnast á við paradís, samanborðið við núverandi ástand. Það á ekki að koma mér á óvart hversu slæmt ástandið hefur verið, með sprungið magasár, sýkingar hér og þar og lífhimnubólgu til að krydda ástandið aðeins. Það kemur hins vegar á óvart hversu veikt fólk er þegar það er útskrifað af sjúkrahúsi. Ég hef átt í fullu fangi með að komast í gegnum þessa daga þó ég sé ýmsu vön, hafi einhverja þekkingu á ástandinu og kalli ekki allt á ömmu mína. Ég get ekki ímyndað mér hvernig fólk kemst í gegnum slík veikindi í heimahúsum, án innlits eða eftirlits frá heilbrigðiskerfinu. Oftar en ekki hefu verið tilefni fyrir verkjalyfjagjöf í stunguformi enda töflur lengur að virka og ýmislegt getur hindrað verkun þeirra. Sjálf hef ég þurft að bíða eftir verkun í allt að 4 klst., gjörsamlega á á orginu. Þær klukkustundir hafa verið helvíti, satt best að segja. Fannst mér nóg um að bíða eftir verkjastillingu í 1 1/2 klst. á meðan ég var inniliggjandi en eftir á að hyggja er það ekki tiltökumál miðað við eftirleikinn.

Ég á auðvitað ekkert að vera undrandi yfir því hversu fljótt sjúklingar eru útskrifaðir af stóru sjúkrahúsunum eins og LSH sem þjónar allri landsbyggðinni. Nú stendur yfir tímabil sumarlokana og aðhalds á öllum sjúkrastofnunum landsins sem þýðir einfaldlega færri legupláss og færra starfsfólk. Minni sjúkarhúsin senda sjúklinga frá sér, ýmist til Reykjavíkur eða FSA, burtséð frá því hvort hagkvæmara sé að meðhöndla þá heima í héraði.  Hver sólahringur á bráðasjúkrahúsi er margfalt dýrari en sólarhringur á jaðarsjúkrahúsunu. Öllum er gert að spara og draga saman seglin, hvað sem tautar og raular. LSH sem hátæknisjúkrahús getur ekki neitað að taka við sjúklingum sem þangað þurfa að leita. Á sama tíma er því gert að spara og aftur spara. Slíkur sparnaður getur aldrei annað en bitnað á gæðum þjónustunnar. 

Þann tíma sem ég þáði þjónustu LSH var yfirfullt á öllum göngum, skúmaskotum, setustofum og sjúkrastofum. Ég kynntist þessu öllu auk þess sem ég deildi 4 manna stofu á tímabili, með 3 einstaklingum af báðum kynjum. Áttu þó aðeins eitt sameiginlegt en það var þvagleggur og ,,vandamál í kviðarholi"! Heimsóknartímarnir gátu verið æði skrautlegir, ekki síst þegar stofan fyllti 17 manns fyrir utan innskrifaða.  Kliðurinn gat verið eins og í fuglageri enda voru hinir einstaklingarnir komnir vel við aldur, heyrðu illa og áttu það til að taka sín  sólól á næturnar á milli hrotanna, eins og gengur. 

Starfsfólkið hafði ekki undan því að sinna sínum sjúklingum þannig að margt skolaðist til og ,,gleymdist". Það kom fyrir að þráðurinn væri stuttur á milli starfsmanna og sjúklinga sem er mjög skiljanlegt undir skilyrðum sem þessum. Oftar en ekki komust starfsmenn ekki í mat né kaffi. Haldið endalaust áfram en alltaf að elta ,,skottið af sjálfum sér" þar sem verkefnin voru mun fleiri en starfsfólkið annaði og söfnuðust þar af leiðandi upp.  Kjörnar aðstæður til að verkferlar skili sér ekki og að sjúklingar ,,gleymist". 'Eg er ekki viss um að ég treysti mér til að starfa við álag og aðstæður sem þessar. Það að geta ekki staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til manns í starfi hefur eyðileggjandi áhrif á hvern þann sem í því lendir, ekki síst ef kröfurnar eru óraunhæfar og útilokað að standa undir þeim. 

Alfeiðingin á þeim vítahring sem árlega skapast í sjúkrahústengdri þjónustu er augljós. Sjúkingar eru sendir fyrr heim en ella, mun veikari en almennt þykir við hæfi. Sökum plássleysis eru þeir innskrifaðir veikari en áður. Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja sínum til að bæta heilbrigðisþjónustuna og fjölga úrræðum og er það vel. Af hverju í ósköpunum er ekki búið að byggja upp sterkt stuðningsnet af hálfu heilsugæslustöðvanna og annarra aðila til að sinna því veika fólki sem er útskrifað heim? Það gefur auga leið að það úrræði er mun kostnaðarminna í framkvæmd en legupláss á hátæknisjúkrahúsi,legutíminn myndi styttast og hugsanlega myndi innlögnum fækka.

Það er æði margt sem betur má fara í starfsemi LSH og ugglaust fleiri heilbrigðistofnana. Ábyrgðin er þó fyrst og síðast í höndum ráðherra og stjórnmálamanna. Formaður heilbrigðisnefndar er heilbrigðisstarfsmaður með áralanga reynslu af réttindamálum sem formaður síns stéttarfélags. Maður skyldi ætla að sú reynsla, þekking og skilningur á málaflokknum myndi skila sér í bættari þjónustu og starfsaumhverfi en það er öðru nær. Ekki er að merkja neina tilfinningu fyrir málaflokknum aðra en þá er lýtur að gerð þjónustusamninga og samninga um einkaframkvæmd. Annað er ekki að skynja í stefnu Sjálfstæðismanna í heilbrigðisþjónustunni.

Það kemur mér fyrst og síðast á óvart í raun, hversu góð þjónustan er á LSH miðað við aðstæður og þá reynslu sem ég hef upplifað. Mikið vantar upp á, henni er ábótavant,  bæði gagnvart skjólstæðingum og starfsmönnum en ég get ekki annað en dáðst að því hvernig starfsfólki tekst að halda þjónustunni gangandi.  Það erfiða hlutverk hefur hins vegar tekið mikinn toll, viðmót og framkoma er eftir því, þreyta og pirringur allsráðandi enda hvernig myndi manni sjálfum líða eftir að hafa unnið vakt eftir vakt, án þess að ljúka þeim verkefnum sem bíða manns?

Það verður kvíðvænlegt að fylgjast með framvindu heilbrigðisþjónustunnar eftir því sem líður á kjörtímabilið. Menn eru ekki hálfnaðir enn.  W00t

Ég á hins vegar langt í land ennþá.............


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Óskars

Leitt að heyra með ástandið á þér, Guðrún. Þú hlýtur að vera sterk kona.

Hefur formaður heilbrigðisnefndar starfað " á gólfinu" nýlega? Nei, hún veit ekki hvernig ástandið er í alvörunni, frekar en aðrir sem stjórna þessu batteríi. Því miður.

Svo er það með jaðarsjúkrahúsin, mjög sérstakt að þau geti lokað og sent allt "suður". Annars þekki ég ekki ástandið hjá þessum jaðarsjúkrahúsum til að geta dæmt svona - en ég veit bara að vinnan hjá okkur eykst - ekki á það bætandi.

Vona að þú getir fengið hjálp við að reka burt verkjadrauginn.

Sigrún Óskars, 10.8.2008 kl. 23:01

2 identicon

Hvernig er þetta með þig vinkona, ætarðu að halda uppi lyfjaframleiðslunni lengi ?

Reyndu að lifa mínútu fyrir mínútu og ekki soga í þig allra vandamál, eins og svarthol.  Allir eiga nóg með sitt og mér sýnist þú hafa alveg nóg.  Vertu nú dugleg ,,stelpa"  Knús x 5

Gummi. 

Guðmundur (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 01:51

3 identicon

Elsku Guðrún mín !!!!

Mikið finnst mér sárt að heyra hvað hefur gengið á hjá þér undanfarið. Þú ert órtúleg kona og sterk það veit ég.  Ég vona svo innilega að hlutirnir fari að ganga hjá þér mín kæra og að þér fari að líða betur mín kæra. Láttu ekki deigan síga þú ert baráttukona það veit ég. Guð veri með þér mín kæra. Ég sendi þér baráttu kveðjur héðan af Skaganum. Gangi þér vel.

Sigþóra (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 09:06

4 Smámynd: Ragnheiður

Þetta er áhugaverður pistill, ég hef ekki þurft að nýta mér þjónustu sjúkrahúsa en er í sæti áhorfandans með hana Öldu mína. Þar hefur allt gengið að óskum, sem betur fer.

Óskaplegt álag er þetta á starfsfólkinu!

Vonandi fer þér að líða betur sjálfri. Þetta er löngu komið meira en nóg !

kær kveðja

Ragnheiður , 11.8.2008 kl. 11:57

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Álagið á spítalanum fer oft fram úr því sem mannlegt getur kallast.  Farðu vel með þig....vonandi fer þér að líða betur...þetta er hörmungarástand á þer

Hólmdís Hjartardóttir, 11.8.2008 kl. 11:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband