Rólegheit

Ekkert nema rólegheitin hérna á mér. Svaf að sjálfsögðu vel og lengi. Búin að eyða seinni partinum og öllu kvöldinu í lestur í fræðunum, enn að vasast í stefnu og stefnuframkvæmd í opinberri stjórnsýslu.  Sækist lesturinn hægt, finn mér alltaf tylliástæðu til að standa upp og gera eitthvað.

Allir komnir í ró enda klukkan 01.30 hér og ræs snemma í fyrramálið. Kata á einn dag eftir í próf í eðlisfræði (Biophysics) og síðan tekur efnafræðin við ef allt gengur að óskum. Haffi á kafi í sinni meinafræði, búinn að vera í nokkra daga að lesa um hvítblæði og eitlakrabbamein en hvorutveggja eru með ótal undirflokka. Þessi hluti efnisins þó einungis um 20% af heildarefninu þannig að mikið er eftir.

Tíminn æðir áfram og styttist óðum í heimferð. Þyrfti að vera duglegri í verkefnavinnunni, þarf eiginlega að klára hana ef vel á að vera. Langar ekki að sitja með þessa pakka fram í ágúst á næsta ári. Þarf einnig að setja upp áætlanir fyrir næstu önn þannig að það er engin hætta á að mér leiðist þó ég sjái krakkana varla nema í mýflugumynd. Þarf að koma mér út í búð, allir búnir að fá upp í kok af hangikjöti og reyktum mat.  Það þarf hins vegar nokkuð mikinn kjark til að gera sig skiljanlegan við kjötborðin hér í Debrecen þegar kemur að innkaupum, menn skilja ekki ensku hér þannig að það er annað hvort að nota alþjóðlega táknmálið eða sleppa innkaupunum. Ekki mín sterka hlið að leika eftir dýrum og alls ekki tilbúin að fara að baula fyrir framan kjötiðnaðarmennina hér en ýmislegt hef ég nú látið mig hafa engu að síðurWhistling

Tel mig lengi hafa vitað hversu erfitt námið er hér úti en maður minn, það er mun meira krefjandi en ég hafði ímyndað mér!  Hér er kafað ofan í hverja frumeind eins og hún kemur fyrir, ekkert undanskilið. Það sem flokkast sem 3 ein. áfangar hér eru samsvarandi 5-7 ein. áföngum heima, grínlaust! Það er ekki af ástæðulausu sem Háskólinn í Debrecen er talin með þeim 10 bestu í heimi. Þeir sem komast í gegnum námið hér, hljóta að standa vel að vígi að loknu námi. Ég er ekki lítið stolt af ungunum mínum; þvílík þrautseigja og harka segi ég nú bara. Afföllin hafa verið nokkur í hópnum hennar Kötu, allmargir gefist upp og farið heim. Mín þraukar enn og er að standa sig mjög vel. Haffinn á þvílíkri siglingu að móðirin er að rifna af stolti. Nokkuð hefur verið um fall og aföll í hans hóp líka. Hann þraukar enn þó erfitt sé að vera í öðru landi.  Hvað getur maður óskað sér frekar? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helena Mjöll Jóhannsdóttir

Það er einkennilega rólegt í útlandinu á jólunum, miðað við að vera heima..... En njóttu dvalarinnar. Kv. Hmj.

Helena Mjöll Jóhannsdóttir, 27.12.2007 kl. 02:48

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú átt frábæra krakka.

Hólmdís Hjartardóttir, 27.12.2007 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband