Hugleiðingar

Hef óttalega lítið að segja þessa dagana, er ekkert allt of sátt og gengur ekkert allt of vel að fóta mig í tilvistarkrísunni. Er það ekki svo með okkur mannfólkið að við viljum alltaf gera betur?

Næ mér alla vega ekki almennilega á strik við breyttar aðstæður og kaflaskil í lífinu. Vil vera á einum stað en nauðbyggð að vera á öðrum. Hef haft allt of mikið að gera og þannig hef ég viljað hafa hlutina en ekki áttað mig á því að ég hef ofgert mér líkamlega og er ekki sú sama og var, fyrir veikindin  Auðvitað  heitir þetta flótti á mannamáli, ég geri hvað ég get til að forðast ákveðnar aðstæður og svigrúm til hugsana.

Sl. átta mánuðir hafa verið erfiðir, ég get ekki annað en viðurkennt það. Ég get ekki endalaust flúið sáran sannleikan og játa það að ég finn til. Fjandi mikið, meira að segja. Finn kannski meira fyrir því þegar líkamlegt þrek er ekki það sama og áður og ég finn til vanmáttar míns. Þetta skilur enginn nema sá sem hefur lent í því sama. Að tapa sjálfsvirðingu, reisn og sjálfstæði er skelfilegt og það að vera háður öðrum er ekki góð tilfinning.  Verst er hve fáir skilja slíkar tilfinningar. Maður á að vera svo  duglegur, þó maður skríði með veggjum!

Það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við að að pompa niður eftir það sem undan er gengið en ansi finnst mér erfitt að ganga í gegnum þetta blessaða sorgarferli. Sorgin dúkar upp þegar síst skyldi og nagar mann að innan án þess að maður geti spornað gegn þeim tilfinningum. Jafnvel þegar ég held að ég sé á góðri leið með að vinna mig út úr hlutum, þyrmir skyndilega yfir mig eins og hendi sé veifað. Þá er fátt um varnarhætti.

Veit að þetta gengur yfir og ég held áfram að fóta mig í þessu nýja lífi sem mér stendur til boða. Tek því reyndar fagnandi en með ákveðinni tortryggni. Treysti því ekki almennilega að ég sé sloppin í bili en verð að fara ýta þeirri tortryggni til hliðar og njóta á meðan er. Er of upptekin í því að velta mér upp úr því hvernig ég vildi að lífið væri í stað þess að sætta mig við það eins og það er. Ég breyti náttúrlega ekki öðrum né heiminum og get ekki ætlast til þess að allir hugsi eins og ég.  En ég hef hins vegar ákveðið val í ýmsum málum og þar sem ég er týpísk VOG, eyði ég of löngum tíma í það að velta öllum hliðum mála fyrir mér.  Ég ætla seint að fullorðnast í þeim efnum og því fylgja bæði kostir og gallar.

Leitin af sjálfri mér stendur sem sé enn yfir. Ekkert annað að gera en að gefa mér tíma í þeim efnum, ég get ekki breytt atburðarrás síðasta árs. Er alltaf jafn undrandi yfir mannvonskunni, ég ætti þó að vera orðin skóluð í þeim efnum. Hlýt einhvern tíman að finna minn farveg.

Hlakka mikið til næstu helgar, Búdapest framundan og heil helgi með Haffa og Kötu. Það verður meiri háttar. Hef örugglega gott af því að skipta um umhverfi. Hver veit nema að ég fari í "Spa" og fylgi þar með góðum ráðum bloggvinkonur minnar hennar Gíslínu.Wink

 Svaf auðvitað út í það endalausa í morgunn, annars væri ég ekki á netinu núna. Tókst að sofa fram að hádegi og veit að ég endurtek leikinn í fyrrmálið. Ég bókstaflega elska laugardag og sunnudag vegna þessa, þrátt fyrir að sólahringurinn dugi ekki til að fara yfir ýmisleg verkefni. Helgarnar fara í það að vinna upp það sem útaf stendur eftir vikunna en það að getað kúrt framefrir gjörbreytir stöðunni og sjálfstraustið eflist. Ég er hins vegar, enn og aftur, búin að koma mér í of mörg verkefni sem gæti haft þau áhrif að ég sinni þeim ekki nákvæmlega, eins og ég vildi.

Verkefnavinna býður mín á morgun en ég ætla pottþétt að sofa út aftur, það er einn af valkostum mínum og ég fer ansi seint að sofa þetta laugardagskvöld, enn og aftur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís tinna

Góðan daginn Guðrún Jóna - alltaf jafn gott að lesa hugrenningar þínar - jafnvel þegar að líðanin er ekki allt of góð.  En það er sjálfsagt vegna þess að maður getur samsinnað sig og virkilega skilið hvað þú ert að tala um. Ég var að spá í hvort að þú gætir sent mér á meili heimilisfangið þitt, það er svolítið sem að ég  þarf að koma til skila til þín og þarf að ná því áður en að þú ferð út -  vonandi fer þér að líða betur mín kæra og vogin að finna jafnvægið .

  Bestu kveðjur úr Grænukinninnni

Þórdís tinna, 14.10.2007 kl. 14:10

2 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Mörgum hefur reynst gott að fara á dansnámskeið. Það er bæði andleg og líkamleg áreynsla og skemmtilegt að auki, ekki nauðsynlegt að eiga maka. Mér hefur alltaf fundist hrikalega gaman að dansa en get það ekki lengur, ætlaði alltaf í kúrekadansa því þeir eru bæði flóknir og skemmtilegir og þar þarf alls engan maka heldur, bara mæta.

Vona að þú farir að hressast

Gíslína Erlendsdóttir, 15.10.2007 kl. 23:00

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Þetta kemur allt,vogin rokkar gjarnan og jafnvægið raskaðist tímabundið.

Ég væri alveg til í að læra línudans, góð hugmynd

Hjartans þakkir fyrir innlitið og hlýjar kveðjur, þið eruð frábærar

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 16.10.2007 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband