Færsluflokkur: Bloggar

Urr

Er hálfpartinn fúl þessa dagana. Fór í tékk hjá bæklunarlækninum í gær. Hann var hress að vanda, það vantaði ekki upp á það. Fréttirnar sem hann færði mér voru hins vegar ekki þær sem ég hefði viljað fá. Brotið sem sé ekki gróið enn, óvinnufær að hans mati, endurmeta stöðuna um miðjan ágúst, takk fyrir! Hnjáliðurinn ,,skrollandi" laus, liðböndin ekki að virka þannig að doktorinn pantaði nýja spelku, í þetta skiptið til frambúðar skilst mér. Útséð með pils og stuttbuxur í sumar. Gvöð hvað ég verð lekker.W00t

Öllum neikvæðum fréttum fylgja þó einhverjar jákvæðar; ég má halda áfram að stíga í fót upp að sársaukamörkum og hreyfa mig eins og ég get. Geri það óspart þó ég sé kjagandi eins og hölt gæs. Grrrrrrrr! Verð að viðurkenna að þetta er ekki óskastaða og ég læt hana pirra mig, um stundarsakir alla vega.

Fékk reyndar skammir fyrir að vera ekki nógu dugleg við að þjálfa upp vöðvana og gera styrktaræfingar. Tek því og reyni að bæta mig í þeim efnum enda minn akkur að koma þeim í lag.

Þetta er auðvitað ekki það versta sem getur komið fyrir mann en fjandi er þetta lýjandi og hamlandi. Ég horfi á eftir öllum gangandi vegfarendum með öfundarglampa í augum; finnst allt göngulag fallegt nema eigið. Hvenær skyldi ég komast í göngutúr með tíkurnar? Urr hvað ég er svekkt.

Gardínurnar fínu reynast í öllu falli dýrkeyptar í öllum skilningi þess orðs enda nýt ég þeirra ekki sem skyldi. Kæmi mér ekki á óvart þó ég skipti þeim út einhvern daginn.

Pollýönnuleikurinn er ekki að virka í dag, veit að ég lít öðru vísi á málin á morgun. Er það ekki svo með mannfólkið að það aðlagast öllu?  Einungis spurning um tíma. Ætla rétt að vona að ég fái að velja lit á framtíðarspelkunni og helst annað útlit. Þyrfti að fá mér hækjur í lit í stíl.

Fegin að gærdagurinn er liðinn og þessi að kvöldi kominn. Lét iðnaðarmann plata mig ofan í allt annað sem ekki bætti úr skák. Ég er ekki hægt og bláeygð að vanda. Rosalega geta menn verið frakkir segi ég eftir þá reynslu. Tímakaup margra iðnaðarmanna er alla vega hærra en tímakaup lækna og lögfræðinga. Hvað skyldi pípari kosta á tíman?

Morgundagurinn verður betri, hef ég trú á. Það er ekki gott að vera lengi í fýlu, ætla að læra af reynslunni Tounge

dansandi á hækjum


Eintóm sæla

Búin að vera í skýjunum í dag. Við mæðginin lúrðum að sjálfsögðu frameftir og tókum því rólega framan af. Lafðin fékk sinn göngutúr, er alveg að missa sig yfir heimkomu Hafsteins. Þar sér maður skilyrðislausa væntumþykkju og virðingu. 

Haffinn var 5 mínútur að slá frímerkið sem tók mig tæpar 2 klst. um dagin og í þetta sinn var verkið vel unnið. Áttum okkar gæðastund, dunduðum okkur meira saman og ýmsu var lokið sem hafð beðið enda húsmóðirin búin að vera farlama.  Ég nýt þess í botn að fá líf í húsið. Þvílíkur munur, það finn ég núna.  Katan væntanleg á föstudag eða laugardag þannig að framundan er tóm sæla og gleði.Heart

Áframhaldandi framkvæmdir næstu daga, af nógu er að taka og margt beðið allt of lengi. Allt of margt sem ég hef ekki getað framkvæmt sjálf og ekki farið vel í frúnna. Verð þó að gæta þess að kaffæra ekki krakkana í skítverkum heima fyrir, þau verða að eiga sér eitthvert líf og fá að njóta vina sinna í sumar. Það er hins vegar auðvelt að missa sig í þessum efnum.Tounge

Mér hefur ekki fundist neitt tiltökumál að vera ein í vetur svona almennt séð en vissulega hafa sumir dagar verið drungalegir og daprir, því er ekki að neita. Rauðir dagar verstir eins og ég hef áður sagt. Síðustu vikur hafa tekið á, mér hefur líkað illa bjargarleysið en hef orðið að kyngja því. Hefði kosið meira úthald og betri líðan almennt en er þakklát fyrir það sem ég hef og sumarið leggst vel í mig.

Ýmiss mál hafa ekki verið að ganga sem skyldi og vonbrigðin nokkur upp á síðkastið. Nokkur óvissa um framtíðina en einhvern veginn er ég ekki að stressa mig á hlutum, þeir skýrast fyrr eða síðar. Ég hef enga ástæðu til að örvænta. 

Vonin er ósköp stillt,

en sterk. Hún getur lifað af litlu 

og dugir lítil týra.

Hún gerir lífið bærilegt.

(Charlotte Gray)


Hömlulaus grimmd

Hvað vakir fyrir fólki að urða lifandi hvolp? Er það hömulaus grimmd eða ómeðhöndlaður geðsjúkdómur? Ófyrirgefanlegt með öllu, hvort heldur sem er. Umræddur eigandi hirðir ekki um að aflífa hvolpinn á mannúðlegan hátt.

Í mínu huga á að fangelsa hvern þann sem níðist á dýrum, þetta er þó það versta sem ég hef heyrt um. Ég hef þó ýmsu kynnst í gegnum tíðina í málefnum dýra. Menn hafa svelt skepnur sínar, skilið þær eftir án umhirðu, jafnvel meitt þær og komist upp með það en að kviksetja dýr er nýtt fyrir mér og trúlega okkur öllum.

Ég er bókstaflega miður mín yfir þessari frétt, þvílík mildi að fólk fann hvolpinn. Til þess var greinilega ekki ætlast miðað við staðsetninguna. Ég hef ekki trú á því að erfitt verið að finna handa honum eiganda. Fólk er slegið.

 litli hvolpurinnLitla tíkin er gullfalleg.Heart


mbl.is Dýraníðings leitað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar

Lífið er háð breytingum, um það verður ekki deilt. Stundum eru þær fyrirsjáanlegar en stundum óvæntar og koma í bakið á manni. Í enn öðrum tilvikum virðast þær linnulausar. Ég fékk fregnir í kvöld af einum nákomnum þar sem breytingum er þröngvað upp á viðkomandi og virðist vera geðþóttaákvörðun að ræða í því tilviki. Sú frétt fékk mig til að íhuga breytigngar og áhrif þeirra. Er ekki alls óvön þvinguðum breytingum sjálf. Oftar en einu sinni verið þröngvað til að breyta kúrs og umturna lífi mínu, hvort sem mér hefur líkað það betur en ver. 

Flestum breytingum fylgir mikil óvissa, við vitum hvað við höfum í dag en ekki hvað við fáum eftir breytingarnar. Það er í eðli okkar að vera föst í viðjum vanans og því oft erfitt að leiða aðra inn á nýjar brautir.  Fyrra jafnvægi er raskað, tímabundin ókyrrð kemst á, a.m.k. þar til nýtt jafnvægi hefur skapast.  Af þeim sökum myndast gjarnan andstaða gegn breytingum og nýjum hugmyndum. 

Okkur tekst flestum að aðlagast breytingunum, misfljótt reyndar en til eru þeir sem ná aldrei sáttum við þær.  Það hefur löngum verið sagt að breytingar krefjist vilja til að taka áhættu og hæfileika og vilja til að falla frá mörgum gömlum aðferðum, bæði í hugsun og við framkvæmdir. Það eru til þeir sem ýmist eru áhættufælnir eða hafa ekki aðlögunarhæfnina. Afleiðing breytinga er augljós í þeim tilvikum. 

Aðstæður til breytinga eru misjafnar. Þær ýmist þröngva okkur til breytinga eða skapa tækifæri fyrir okkur til að breyta sjálf. Hvernig við bregðumst við er einstaklingsbundið enda háð mörgum þáttum, s.s. aldri, heilsufari, persónuleika, hvatningu, atvinnu, menntun, reynslu af breytingum, o.s.frv. Aðalatriðið hér er að hver og einn skoði eigin styrkleika og veikleika til að geta brugðist rétt við og hagnýtt sér þau tækifæri sem felast í breytingunum.

Breytingum fylgir óhjákvæmilega einhver streita, mismikil eftir aðstæðum og áhrifum þeirra á líf okkar.  Ef breytingin er ekki af eigin frumkvæði er andstaðan og óvissan enn meiri.  Viðkomandi tapar í raun áttum á því hver hann er, hvert hann vill stefna og finnur fyrir öryggisleysi. Á það ekki síst við er einhver höfnun fylgir breytingunni. Þannig getur breyting verið ógnun við núverandi tilveru. 

Þegar breytingar eru framundan, ekki síst ef þær eru ekki kærkomnar er mikilvægt að finna jákvæðu hliðarnar og sjá kostina í stöðunni. Á ég þá ekki endilega við að maður fari í Pollýönu hlutverkið og virki hress og brattur á yfirborðinu. Hugsunin þarf að rista dýpra en svo. Það vill nefnilega svo vel til að jafnvel þegar breytingar ógna núverandi stöðu, felast ákveðin tækifæri í henni. Við þurfum að vera nógu jákvæð til að koma auga á þau á áhrif þeirra á daglegt líf. 

Ég kýs að líta á breytingar sem tækifæri, kannski orðin sjóuð. Er þó ekkert öðruvísi en aðrir og geng í gegnum ákveðið ferli þegar breytingar koma óvænt svo ég tali ekki um þegar þær eru þvingaðar upp á mig af öðrum.  Ég þekki því vel óvissuna, óöryggið, fjárhagsáhyggjurnar og hvaðeina sem því fylgir að vera kippt út úr tilverunni. Reynslan hefur hins vegar sýnt mér að í öllu mótlæti felast tækifæri. Maður þarf bara að setja upp gleraugun til að sjá þau.

Allt sem þú þarft að gera er að horfa

beint af augum og sjá veginn og þegar

þú sérð hann - að ganga af stað

(Amy Rand) 

 


 


Rauðir dagar

Mér hálfleiðast hátíðisdagar. Eru til þess fallnir að fjölskyldan komi saman og njóti þess að vera saman. 17. júní ekkert frábrugðin í þeim efnum.  Mín litla fjölskylda dreifð víða og stór hluti hennar horfinn þannig að frúin sat heima með tíkunum. Ég viðurkenni það fúslega að mér hundleiddist framan af. Ekki nógu brött til að skreppa í bæinn á hátíðarhöldin enda ekki vænlegt að hökta langar leiðir á hækjunum. 

Góðu fréttir dagsins eru þær að Hafsteini gekk vel í prófi sem hann tók í morgun, á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Er orðinn ansi slæptur og próflesin. Styttist í heimkomu hans og ég eins og lítill krakki og bíð spennt. Katan kemur eftir tæpar 2 vikur þannig að senn verður líflegt í kringum kellu. 

Gvöð hvað þau eru sætust

 

 Systkinin á góðri stunduHeart

 

 

 

 

 

Hef verið það fífldjörf að láta það eftir mér að þrífa hér innan dyra, af nógu er að taka eftir margra vikna aðgerðarleysi í þeim efnum. Myndi uppfylla öll skilyrði fyrir ,,Allt í drasli" með bravör. Hef sem sé smátt og smátt verið að takast á við rykið og óhreinindinn, sækist það á hraða snigilsins, var 3 klst. að taka stofuna í gegn og annað eftir því. En þetta mjakast þó. Afleiðingarnar láta ekki á sér standa, er sófadýr  eftir hverja viðleitni en finnst það fyllilega þess virði.

Viðurkenni að ég er fegin að þessi dagur er að kvöldi kominn, afrakstur hans rýr, einungis nokkrar stjúpur í blómapott og síðan maulað heilt stykki af Toblerone yfir sjónvarpsglápi.  Allt er þetta þó í áttina.

Ég er bara ein, en þó ein.

Ég get ekki gert allt

en þó eitthvað.

(Helen Keller) 


Um daginn og veginn

Lífið er smám saman að færast í eðlilegri skorður. Orðin býsna flink við að tylla í tærnar og koma mér á milli staða. Finnst alveg skelfilega hallærislegt að skjögra með hækjurnar og á það til að ,,gleyma" þeim svona af og til. Fæ svo sem að kenna á því síðar en fyllilega þess virði að vera pínu ,,smartari" en kjaga óneitanlega eins og gæs ennþá.

Lafði Díana er komin heim til síns heima. Kom úr sveitinni í kvöld, fékk far með einum af mínum bestu vinum. Lafðin er búin að vera í sveitinni síðan 1. apríl hjá vinafólki mínu. Það er ekki sjálfgefið að taka að sér annarra manna dýr, hvað þá Lafðina sem þýðist ekki hvern sem er, dyntótt og stundum ,,grumpy".  Vinir eru ekki á hverju strái og í seinni tíð hef ég valið mér þá fáa þó kunningjar séu fleiri. Þessir vinir mínir eiga í mér hvert bein, svo mikið er víst enda ævinlega staðið við bakið á mér í gegnum súrt og sætt.Heart

Varð að skutla Slaufu í pössun til Keflavíkur þar sem blóðug slagsmál hafa verið á milli þeirra tveggja.  Lafðin verður að fá að vera drottningin á heimilinu fyrstu dagana eftir heimkomuna enda að verða 11 ára í ágúst og hefur ráðið hér ríkjum allan þannt tíma.  Ótrúlegt pússluspil en ekkert annað en að taka á því og virða goggunaröðina.  Sigrún sys tók Slaufuna í 1-2 daga og síðan hefst aðlögunarprócessinn. Ekki veit ég hvor var ánægðari með heimkomuna, Lafðin eða eigandinn.

Úthaldið smám saman að aukast, 4 tímar í tannlæknastól í morgun sem kallaði auðvitað á sófakúr eftir kaffi, síðan brunað til Keflavíkur og þaðan áleiðis upp í Kjós til að sækja Lafðina.  Á náttúrlega uber bágt núna, búin á því og sófamatur en sátt við dagsverkið.

Ég fann fyrir miklum létti um leið og ég kom út fyrir bæjarmörkin, gróðurinn ótrúlega fallegur og mikið af blómstrandi lúpínu alls staðar sem mér finnst meiri háttar fallegar þó umdeildar séu. Það grípur mig sérstök tilfinning um leið og ég er komin úr fyrir borgina, alveg sama í hvaða átt. Er greinilega orðin rótgróin landsbyggðatútta. Hefði ekki haft á móti því að keyra lengra í norðuráttina, hef ofboðslega heimþrá. Vorið búið að vera slæmt í þeim efnum, finnst handónýtt að vera ekki í minni sveit og í sauðburði. Heyskapur fram undan og ekki síður vond tilfinning að vera fjarri góðu gamni. Er eiginlega handónýt í sálartrinu þegar kemur að þessum málum. Ekki það að ég hafi það slæmt hér, ég á bara ekki ,,heima" hér, svo einfalt er það.

Fékk óvenjulega sendingu í pósti í dag, litla bók sem ber titilinn ,,Kjarkur og von" eftir Helen Exley. Sagan á bak við þá sendingu er sérstök og bíður betri tíma en sendingin var óvænt. Hún hitti hins vegar beint í mark.  Mjög heilræði og spakmæli sem ugglaust munu auðvelda manni eitt og annað. Hef reyndar fengið send heilræði úr þessari bók á blogginu mínu og man hvað mér fannst þau eiga vel við.

Hlutirnir hafa ekki verið að ganga sem skyldi síðustu vikur og mánuði. Er svo sem ekki óvön því og ætla mér ekki að dvelja um of við það, lífið heldur áfram þó það sé ekki alltaf eftir óskum manns.  Veggirnir og hindranirnar á hverju strái og væntingar verða að engu. Ekkert annað að gera en að byrja aftur, breyta kúrs og finna nýjan farveg. Verð stundum gröm út í böðla mína, hef ekki legið á því en staldra stutt við gremjuna enda gerir hún lífið enn erfiðara.

Strangt til tekið eru aðeins tvær leiðir

í lífinu; leið fórnarlambsins

eða hins sókndjarfa bardagamanns.

Viltu eiga frumkvæðið eða bregðast við?

Ef þú leikur ekki þinn leik við lífið

leikur það sér að þér   (Merle Shain)

 

Orð að sönnu og rétt að hafa að leiðarljósi


Sælan búin í bili

Haffi náði pófinu í morgun, mikill léttir að vera búinn með það. WizardÞá eru 4 próf eftir og rúmar 3 vikur þangað til hann kemur heim. Katan er að fara austur til pabba síns í morgun, verður þar í tæpan mánuð og kemur til að vinna þar en snýr aftur suður á bóginn í byrjun júlí. Skil vel að hún skuli vilja vera hjá föður sínum, stjúpu og systkinum enda tækifærin ekki mörg eftir að hún hóf nám sitt. Tíminn líður á ógnarhraða og krakkarnir stækka að sama skapi. Mikilvægt að rækta fjölskylduböndin. 

Fékk þokkalega skoðun í morgun hjá doktornum mínum sem mér finnst hreint út sagt frábær eins og allt starfsfólk á Endurkomudeildinni. Brjálað að gera og fullt út að dyrum en allir með bros á vör, enginn asi heldur gengu allir hratt og fumlaust til sinna starfa. Ber ótakmarkaða virðingu fyrir starfsfólki deildarinnar sem og starfseminni sem þar fer fram. Er mest hissa hvernig hægt er að sinna þeim fjölda sem þar fer í gegn á degi hverjum í þessu litla, þrönga húsnæði. Andrúmsloftið svo notalegt að maður finnur ekki fyrir þrengslunum, fær sér kaffi og hefur það náðugt. Allt er smurt. 

Brotið er sem sé ekki gróið ennþá en á réttri leið. Brotalínur ennþá sýnilegar en beinmyndun til staðar. Má nú stíga í fótinn upp að sársaukamörkum þannig að það styttist í að mín taki sporið.  Það neikvæða er að það er orðin gríðaleg vöðvarýrnun, sérstaklega á lærinu, allir vöðvar horfnir. Sjúkraþjálfunin hefur verið skrikkjótt, fæ tíma með löngu millibili, allt að tæpar 3 ikur hafa liðið á milli. Það er einfaldlega ekki nógu gott og því fór sem fór. Ekkert annað að gera en að reyna að snúa við þróuninni. Lærið eins og kjúklingaleggur. Ekki mjög smart. 

Ég ræddi við doktorinn um mitt hrikalega lélega úthald sem er ekkert í orðsins fyllstu merkingu. Sagðist jafnvel vera farin að halda það að eitthvað misjafnt væri á ferðinni en hann fullvissaði mig um að orsökina væri að finna í slysinu og áfallinu sem skrokkurinn varð fyrir, hreyfingaleysinu og því sem fylgir. Allir aðrir vöðvar hafa rýrnað líkt og lærvöðvarnir en þó ekki eins mikið. Það sem ekki er notað, rýrnar og hverfur. Svo einfalt er það. Hann vill sem sé vinda kvæðinu í kross og ráðlagði mér að fara á líkamsræktastöð og hefja almenna þjálfun undir leiðsögn. Það mun ég gera enda held ég að ég muni leggja allt á mig til að koma mér upp úr þessu ástandi. Er þó þekkt fyrir að vera mjög lítið fyrir alls kyns líkamsræktarbrölt í gegnum tíðina. Nú er að nýta tækifærið og breyta því. 

Vinna er ekki inni í myndinni næstu 2-3 vikurnar skv. læknisráði en ég vil gjarnan byrja fyrr, rólega að vísu til að tapa ekki endanlega geðheilsunni. Mér er farið að leiðast eiginn félagsskapur svo um  munar.  Komin með upp í kok á sjálfri mér, hreinlega verð að fara komast innan um fólk aftur. Fer bara varlega og þreifa mig áfram. Bakka þá út ef það gengur ekki en ég hef alla trú á því að þetta verði í lagi. Þarf að styðjast við hækjurnar um hríð en spelkuna þarf ég ekki að nota nema þegar mikið álag er á mér eða ég mikið úti við. Hún veitir góðan stuðning og vernd gegn hnjaski. Það verður mikill munur að geta klæðst öðrum fatnaði en íþróttabuxum og inniskóm. Ekki mjög töff klæðnaður utan heimilis.

Er því nokkuð sátt með niðurstöður þó vissulega hefði verið ánægjulegra að sjá gróandan kominn lengra á veg en ég verð að horfast í augu við þá staðreynd að ég er ekki tvítug lengur og yngist ekki.W00t

Sælan búin í bili en kemur inn með fullum þunga eftir rúmar 3 vikur. Tíminn er fljótur að líða, ekki síst þegar tilhlökkunin er mikil. 

 

 

 

 

 


Ekki búið enn

Svo virðist sem skjálftavirkni sé linnulítil ennþá fyrir austan. Greinilega ekki búið enn, vona þó að skjálftarnir fari ekki upp fyrir 4 á Richter, nóg er þetta samt. Þvílíkt álag á íbúum þessa svæða. Einhvern veginn finnst mér meira eigi eftir að koma í ljós en vona að mér skjátlist í þeim efnum.

Stór dagur á morgun, Haffi að fara í viðamikið próf í meinafræði kl. 07.15 á staðartíma. Prófið fjórþætt, bóklegt, krufning og verklegt og munnlegt. Þrepaskipt þannig að ef hann nær fyrsta hlutanum, heldur hann áfram og svo koll af kolli. Ef ekki, þá sendur heim til að lesa meira. Efnið gríðalegt, krakkarnir búnir að vera að lesa í 5-6 vikur undir þetta próf þannig að mikið er í húfi.  Sendi þér sterka strauma yfir línuna Haffi minn og bíð spennt eftir að heyra frá þér, með öndina í hálsinum. Ef allt gengur upp á morgun ætti áætlun að standast þannig að hann komi heim um næstu mánaðarmót. 

Katan dugleg að snudda með þeirri gömlu, hefur keyrt mig út um allar trissur svo ég geti útréttað. Náði loksins að afskrá bíl sem var sóttur af Vöku fyrir ári og mulinn mélinu smærra í kjölfarið. Hef verið að greiða tryggingar af bílnum engu að síður. Ævintýraleg uppákoma þar sem loks er búið að leiðrétta. Fór í mitt tryggingafélag og fyllti úr skýrslur út af slysinu, mér skilst á sérfræðingnum að brotið teljist sem meiriháttar sem og ég reyndar vissi. Afleiðingarnar varanlegar að hans sögn. Nú er að sjá hvernig afgreiðsla mála verður. Mér finnst smáa letrið vernda tryggingafélögin ansi oft.

Fannst óþægilegt að skrifa undir upplýst samþykki sem gefur tryggingafélaginu heimild til að afla allra heilsufarslegra gagna um mig. Það virðist ekki einungis ná til þessa slyss heldur í framtíðinni einnig og þá víðtæk heimild sem nær yfir fleiri þætti en þetta brot. Hins vegar getur maður víst afturkallað það hvenær sem er. Ekki það að það er sjálfsagt að tryggingafélagið fái öll gögn um þetta slys en ég er ekki alveg tilbúin að leyfa starfsmönnum þess að grúska í öllum persónulegum og heilsufarslegum upplýsingum sem til eru um mig. Það má vera að þetta sé þröngsýni en mér finnst þetta eiginlega óþarfi og mun víðtækara en þörf er á. Hefði viljað takamarka þetta upplýsta samþykki við þetta tiltekna slys og punktur og basta. 

Allt á réttri leið hjá bróður, mikill léttir. Hann var heppinn.  Reyndar gengur mjög vel hjá þeim báðum enda kalla þeir ekki allt á ömmu sína. Er að læra af þeim daglega, í bókstaflegri merkingu. Viðhorf og jákvæðni skipta öllu máli í erfiðri baráttu. Þeir hafa nóg af bjartsýni og baráttuvilja báðir tveir.

Bíð spennt eftir niðurstöðum morgundagsins. Kostur að fá þær strax í stað þess að bíða í einhverja daga. Er farin að skakklappast meira en áður og finn mikinn mun, úthaldið kemur smátt og smátt. Finn einnig mikinn mun á sálartetrinu eftir að Katan kom heim, líf í húsinu og hún dugleg að skottast með mig. Ansi margt hefur setið á hakanum síðustu 9 vikurnar. Get ekki beðið eftir því að komast í vinnu og vera innan um fólk. Verð örugglega ekki beysin fyrst um sinn miðað við líkamlegan status í dag en að fenginni reynslu veit ég að þetta kemur fljótt. Þarf trúlega að byrja rólega. Það verður skondin sjón engu að síður á meðan ég þarf að styðjast við hækjurnar. Ég skemmti þá einhverjum á meðan Tounge

En svo ég sleppi öllu gamni þá vona ég að íbúar á skjálftasvæðinu fái frið í nótt. Sumir spá því að skjálftarnir færist vestar sem þýðir jafnvel Reykjanesskaginn. Vona að sú spá rætist ekki.


mbl.is Fjöldi eftirskjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgin liðin - aftur og nýbúin

En önnur helgin liðin, tíminn heldur áfram að líða á ógnarhraða. Katan kom heim aðfaranótt laugardags og var sótt af vinkonum sínum, svona ,,suprise" sem hitti vel í mark. Var býsna brött þrátt fyrir svefnlitla nótt fyrir brottför og 19 klst. ferðalag. Við mægður fórum ekki í koju fyrr en seint á 4 tímanum þá nóttina.

Í gær tók við óvissuferð hjá skvísunni sem vinkonur Kötunnar skipulögðu, mikið fjör og mikið gaman og mín í essinu sínu. Greinilega gott að vera komin heim, orkuboltinn hefur engu gleymt. Skyggir nokkuð á að Hafsteinn er enn úti og það við þessar aðstæður en enn sem komið er, hafa íbúarnir á Komlossy sloppið við óvænta næturgesti. Hrollur í þeim öllum samt og þeir halda hópinn á næturnar.  

Laugardagskvöldið silaðist áfram á hraða snigilsins, merkilega, skelfilega leiðinleg sjónvarpsdagskrá að vanda á því kvöldi. Unglingamyndir á stöð 1 og 2 fram eftir öllu kvöldi og endursýnt efni á Skjá 1. Mér finnst og hefur fundist laugardagskvöldin kvíðvænleg. Trúlega merki um hækkandi aldur. Einkennilegt að vera ekki á kafi í verkefnum eða vinnu eins og oftast hefur verið. Verð að fara að finna mér handavinnu eða eitthvað þangað til ég kemst allra ferða minna. Tíminn ætlar bókstaflega aldrei að líða. Þessi upplifun markast fyrst og fremst af laugardagskvöldunum, svo einkennilegt sem það er. Hjá mér ættu öll kvöld að vera eins á meðan ég geri ekki neitt en sem sé, laugardagskvöldin eru verst.

Við vorum harla rólegar mæðgurnar í dag, Katan að jafna sig eftir ferðina og ég eins og vant er með lítið úthald. Veðrið hálfleiðinlegt en lét mig hafa það að kíkja út í garð en staldraði stutt við. Höfum því dólað okkur og haft það yfirmáta notalegt.  Veikindi eins bróður míns hafa skyggt nokkuð á daginn og valdið nokkru eirðaleysi en fréttir kvöldsins góðar, ástandið á uppleið og allt lítur út fyrir að fara vel. Höggin í alvarlegri kantinum orðin þrjú í systkinahópnum á tiltölulega skömmum tíma, sennilega verður nú hlé á. Fátt bítur á bræðurna enda býsna harðir af sér. Það kemur sér vel nú. Ég er ekki mjög ánægð með heilbrigðisþjónustuna frekar en fyrri daginn, það er ansi margt sem betur má fara í þeim efnum. Crying

Framundan er skoðun hjá bæklunalækninum á miðvikudag, fæ vonandi einhverjar línur um framhaldið þá. Teknar myndir og statusinn metinn. Hef mátt tylla í síðan á miðvikudag og geri það óspart upp að verkjaþröskuldi en hreyfigetan ansi snautleg.  Úthaldið líkt og hjá  gamalmenni ennþá en allt á réttri leið. Hefði gjarnan viljað flýtimeðferð í þeim efnum. Ég er greinilega ekki að yngjast, svo mikið er víst. Það hefur gengið illa að komast að hjá sjúkraþjálfara, fékk einn tíma, síðan duttu niður 2 og löng bið í næsta. Sýnist ég fara í gegnum þetta án þeirrar aðstoðar. Álagið greinilega gríðalegt hjá þeirri stétt.  Vöðvarýrnun stjarnfræðileg, hefði seint trúað því hversu hröð  og mikil hún er en hreyfigetan hins vegar ágæt í hnjáliðnum. Frúin fer varla í pils þetta sumarið, nema þá kannski ökklasítt. Tounge

Katan fer austur á fimmtudag og verður þar næsta mánuðinn, þangað til ætlum við að nota tíman vel. Hún er nokkuð þreytt eftir törnina, get rétt ímyndað mér hvernig Hafsteinn verður eftir sínar 10 vikur þegar hann mætir á svæðið og beint í vinnu.  Hún fær nú samt að snuddast í kringum þá gömlu  og einhver blóm verða sett niður ef veður leyfir. Þyrftum svo sannarlega að reyna að nálgast Lafðina, er enn rög að fara það langa leið með alla mína bólgu og bjúg en það er aldrei að vita hvað við getum mæðgurnar. 

Styttist vonandi í að ég fái heimild til að hreyfa mig meira og þá fer þetta allt að koma.  Er orðin ansi ,, markeruð" af 9 vikna einangrun og inniveru. Mikill munur þó að finna aukna sjálfsbjargargetu og frelsistilfinningu. Það sem tilfinnalega vantar á er úthald og  matarlyst. Ég get þó miklu meira í dag en ég gerði fyrir viku þannig að allt er á réttri leið. Nokkur óvissa um framtíðina plagar mig, vil vita lengra en niður á tærnar á mér en smátt og smátt hljóta málin að skýrast. 

Mikið rosalega kann ég að meta tvo jafnfljóta eftir þessa reynslu og mun verða duglegri að nota þá en ég hef gert.  Nú er bara að krossa fingur. Það er styttra eftir en búið er og það sem meira er; það er komið líf í húsið.Smile

 


Þjófar að nóttu

Mikið búið að ganga á hjá krökkunum í Debrecen. Óprúttnir þjófar hafa verið á ferð í íbúðahúsum nemenda og skiptir þá engu máli hvort húsin eru 4 hæða eða á einni hæð. Þeir skríða alls staðar. Katan hefur verið að vakna af og til undanfarnar vikur við rjátl við gluggana hjá sér en þeir snúa beint að götunni og eru á jarðhæð. Mikil skelfing hefur gripið um sig, eðlilega en hingað til hafa þeir sem heimsótt hafa krakkana að næturlagi látið sig hverfa um leið og Hafsteinn og Kata gera vart við sig.

Í nótt keyrði um þverbak. Sá óprúttni byrjaði á því að hringja á dyrabjöllunni hjá krökkunum og þegar enginn svaraði klifraði hann eins og ,,Spiderman" upp á 4 hæð þar sem hann kom auga á opna glugga. Var á góðri leið þar inn þegar ein ung frökenin hljóðaði upp yfir sig og skellti glugganum á hann. Fór umsvifalaust upp á þak og lét sig hverfa. Virðist alla vega ekki vera í þeim hugleiðingum að skaða aðra, einungis að finna eitthvað bitastætt eins og tölvur. Hafsteinn, eini karlmaðurinn í hópnum vopnaður hnífi og Katan vopnuð tennisspöðum og fleiru lauslegu fóru upp á 4 hæð til að líta til með þeim stelpum sem þar búa. Allir sluppu ómeiddir en skelkaðir og enginn svefn þessa nóttina.

Skilaboð til krakkanna hafa verið þau að ekkert stoði a hringja á ungversku lögregluna. Leigusalar leggjast beinlínis gegn því. En eftir átakasama og svefnlausa nótt, hitti Hafsteinn einhvern Ungverja í morgunsárið og sagði honum frá þessum atburði næturinnar. Sá hinn sami brást æfur við, hringdi á lögregluna sem mætti galvösk og leitaði af fingraförum á svölum, við glugga og víða hjá krökkunum. Eigandinn lét lagfæra bilaða svalahurð ,,med det samme", gluggar voru þéttir og þjófavörn var sett upp. Auðvitað var þjófurinn löngu bak á burt en vonandi verður þetta til þess að hann láti ekki sjá sig í bráð. Í öllu falli var sviðið eins og í bíómynd og tilfinningin örugglega ekki góð.

Þeir eru allnokkrir Íslendingarnir sem búa í þessu húsi og verður að segjast eins og er að fáum þeirra er rótt þessa dagana. Gat ekki hitt á verri tíma, allir á kafi í próflestri þar sem hver mínúta er skipulögð. Vont að missa nætursvefninn. Hafsteinn orðinn einn eftir í íbúðinni sem er á jarðhæð og ekki rótt þó hann vilji ekki gera mikið úr málum. Katan fór í morgun og er væntanleg eftir miðnætti til landsins, svefnlítil blessunin.

Ekki laust við að sú gamla hafi áhyggjur af frumburðinum. Vont að vita af honum einum í íbúðinni þó það verði að teljast harla ólíklegt að menn geri aðra atlögu. Þó er aldrei að vita, þetta hefur verið að gerast af og til í rúman mánuð, skilst mér, en keyrði um þverbak síðustu nótt. 

Erfiður tími framundan hjá Hafsteini, fyrirferðarmikil og þung próf, mikill hiti úti og lestur frá 08.00-23.00 alla daga, dugar vart til. Er ekki væntanlegur fyrr en undir mánaðarmótin næstu. Hrikalegt að geta ekki verið þarna úti, þó ekki nema til að veita honum móralskan stuðning. Ekki viss um að sá stuðningur sé endilega heppilegastur frá móður samt. Mér virðist ganga það hálfilla að átta mig á því að hann er floginn úr hreiðrinuW00t

Vonandi verður í lagi í nótt. Vont að fá þau ekki bæði heim samtímis en þau eru á sitthvoru árinu og mun meira prófálag á 3ja ári en því fyrsta þannig að það er ekkert annað að gera en að sætta sig við stöðuna. Það verður líka tekið á því þegar prinsinn kemur heim. Ég hef aldrei farið eitt eða neitt með mínum börnum á sumrin enda aldrei tekið mér sumarfrí. Þau nutu þess hinns vegar að eiga yndislega ömmu og afa sem voru með þau í sumarbústað og á ferðalögum. Þetta sumarið fer ég með mínum ungum eitthvað út fyrir bæjarmörkin. Þau verða náttúrlega að vinna mikið og ég vonandi farin að vinna fljótlega þannig að það verða helgarnar sem verða nýttar.

Mér er loksins að takast það að átta mig á því að við eigum að lifa í núinu, ekki bíða til morguns það sem hægt er að gera í dag. Við höfum ekki endalausan tíma og ég vil fá sem mest út úr hverjum degi sem hægt er.  Mér liggur nefnilega á, hef farið illa með tíman fram að þessu. Treysti á að æðri máttarvöld hafi ,,afkuklað" mig þannig að fljótlega geti ég farið að hverfa til eðlilegs lífs á ný. Maður finnur það vel þegar eitthvað bilar, þó ekki nema fótur, hvað maður er bjargalaus og háður öðrum. Ástand sem ég þoli illa. Vinnan er mér, líkt og flestum, það vítamín sem heldur mér gangandi. Samúð mín er því mikil gagnvart þeim sem ekki hafa tök á því að stunda vinnu sökum örorku. Er ansi hrædd um að mín myndi taka slíku ástandi óstinnt upp. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband