Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Helgin liðin

Þá er þessi helgi liðin, finnst hún varla hafa verið neitt, neitt, svo fljót var hún að líða. Mér finnst eins og föstudagur hafi verið í gær. Nóg var sofið alla vega, bæði í gær og í dag. Seint skriðið á fætur í dag og litlu komið í verk af því sem ég ætlaði en eitthvað mjakaðist þó áfram.

Ótrúlegt hvað maður tekur líðan barnanna sinna inn á sig. Kötu líður ekki nógu vel úti, trúlega jók koma mín enn á hennar heimþrá og vanlíðan. Sjálf er ég með herping í maganum og kökkinn í hálsinum.Crying Veit ekki hvernig þetta kemur til með að þróast hjá henni, heimþrá er eðlilegasti hlutur í heimi sem ég þekki mæta vel. Spurningin hins vegar hvernig manni tekst að vinna úr slíkum tilfinningum. Öll upplifum við slíkar tilfinningar á lífsleiðinni og stundum bera þær manni ofurliði. Þá er ekkert annað að gera en að bregðast við þeim og vinna sig út úr málum. Oftar en ekki upplifði ég það að vilja hætta í því sem ég tók mér fyrir hendur á sínum tíma og þá var það móðir mín sem stappaði í mér stálinu.  Það er ansi oft sem ég hugsa til hennar og sakna þess að geta ekki fengið góð ráð.  

Annast finnst mér þetta líf vera býsna töff. Er orðin langþreytt á vonbrigðum, basli og mótlæti.  Þegar einu lýkur, tekur annað við. Auðvitað það ferli sem allir upplifa en í mismiklum mæli. Stundum langar mig að flýja þetta basl og byrja upp á nýtt einhvers staðar úti í buskanum í einskins manns landi. Týpísk flóttaviðbrögð sem sæmir ekki konu á mínum aldri en engu að síður hvarflar þessi hugsun oft að mér. 

Erfiðleikarnir eru til að sigrast á þeim, það vitum við öll. Auðvitað tökumst við á þessa erfiðleika eins og aðra, þrekið gagnvart mótlæti hefur hins vegar dvínað hjá mér, það finn ég vel. Í öllu falli verð ég að fara vinna mig betur út úr hlutum og herða leitina af sjálfri mér. Það er hundleiðinlegt að vera fastur í einhverju fari sem maður vill ekki vera í og reyna að hjakka árangurslaust upp úr hjólförunum.  Skelfing er ég orðin leið á því, í öllu falli, þetta gengur ekki lengur. Maður lufsast í gegnum dagana og vikurnar sem eru fremur gleðisnauðar, af gömlum vana. Whistling

Þeir eru til sem hafa ýmislegt á samviskunni og ég mun seint fyrirgefa böðlum mínum sem hafa haft nánast rústað lífi okkar um tíma, þessarar litlu fjölskyldu. Ég upplifi mun meiri biturleika nú en nokkurn tíman fyrr, hætt að vera sár og brotin, er fremur reið. Ekki það að reiðin er vond tilfinning en hún er skárri en sársaukinn og vonbrigðin og gefur manni aukinn baráttukraft. Aðallega reið fyrir hönd fjölskyldunnar minnar sem engum gerði neitt. Hugurinn hefur reikað til þeirra þöglu áhorfenda sem stóðu til hliðar og gerðu í rauninni ekki neitt á meðan böðlarnir hömuðust á mér og mínum. Voru þeir eitthvað skárri? Það er alla vega deginum ljósar að við eigum langt í land með að vinna okkur út úr afleiðingum síðustu ára. Við erum einfaldlega skemmd eftir harkalega reynslu og sálartetrið er eftir því. Hvernig má annað vera? Það kemur mér hins vegar á óvart hversu þessar tilfinningar og hugsanir hafa sótt á mig að undanförnu en veit að þær eru komnar til vegna þeirra kaflaskila sem eru í mínu lífi.

Þessar hugsanir líða hjá eins og annað og maður mætir daglegu lífi eins og það er. Við erum ekki þekkt fyrir að gefast upp þessi litla fjölskylda en sumir dagar  eru dimmari en aðrir og verstir þegar börnin mín finna til eða líður illa. Kata hefur fundið meira fyrir mótlætinu en Haffi þar sem hún var meira á staðnum þegar það gekk yfir, veikindin mín bitnuðu þ.a.l. meira á henni en ella. Skal nokkurn undra að hún eigi erfiða daga. Þrátt fyrir allt er hún ótrúlegur stuðpúði og fljót að sjá jákvæðu hliðarnar í flestum aðstæðum. Vona að hún fái styrk til að komast yfir sína vondu daga.InLove

Heimurinn er fullur af vondu fólki og leiðinlegu. Okkar er að greina þá einstaklinga úr og sniðganga þá. Í öllu falli að hleypa þeim ekki inn í líf okkar til að valda usla og skaða. Þeir eru til sem eru það góðir leikarar að ekki er hægt að sjá í gegnum þá fyrr en um seinan. Því oftar sem maður lendir í slíkri reynslu, þeim mun tortryggnari verður maður í vali á sínum viðmælendum. Auðvitað á maður ekki að dæma alla eftir nokkrum svörtum sauðum en eðlishvötin er sú að vera varkár og taka sér lengri tíma en ella. Pinch

Við höldum áfram að urra okkur í gegnum lífið enda til mikils að vinna. Smátt og smátt verður ástandið betra og við sáttari við okkar hlutskipti. Við höfum oftast val um það hvert við viljum stefna og hvernig. Mestu skiptir að vanda valið vel og gefa sér góðan tíma. Öll él stytta upp um síðir, það er á hreinu og alltaf kemur sólin upp að nýju. Wizard Mikilvægast er að setja sér raunhæf markmið og finna leiðir til að ná þeim.  Það að hafa eitthvað til að stefna að, gefur manni kraftinn til að sigrast á mótlætinu. Við eigum að læra af reynslunni. Hins vegar hefur oft verið sagt um mig að ég sé "late bloomer" og eru það orð að sönnu. Læri seint af reynslunni og dett oft í sama pyttinn. Er smám saman að breyta áherslunum í lífinu og finna því nýjan farveg þó hægt gangi.  Allt hefst þetta með tíð og tíma, einhvern tíman lýkur uppgjörinu. Við klárum okkur í gegnum þetta tímabil, ég og mín litla fjölskylda


"Puncteruð"

Ein búin á því eftir vikuna, svaf fram að hádegi og hef nákvæmlega ekkert þrek. Er aðeins að skríða saman og byrjuð að taka mig saman í andlitinu. Næsta skref er að koma mér út í búð og síðan er það göngutrúr með hundana. Mín bíður töluverð vinna í sem ég þarf að ljúka í dag og síðan er það undirbúningur fyrir næstu viku. Verð að fara yfir eigin verkferla, er of lengi með verkefnin mín hverju sinni. Allt of lengi. 

Katan heldur að hressast af Salmonellunni, þvílíkt og annað eins að lenda í slíku, ekki síst þar sem heilbrigðisþjónustan er ekki sjálfgefin. Stelpan allt of lík mömmu sinni, ég hef aldrei sloppið við heiftarlegar sýkingar þegar ég fer út fyrir landssteinana. Verst að hún skuli fá þessi "veikleikagen" frá mér, hefði viljað sjá hana fá eingöngu það sem er gott og nýtilegt. En hún stendur sig eins og hetja.
Er ákveðin í að skreppa til krakkana í miðannarfríinu í október, löng helgi þá og beint flug til Búdapest. Þá fer minni tími í tengiflug og ferðalög. Hlakka mikið til, er eiginlega kolfallin fyrir Debrecen af því sem ég hef séð á myndum og heyrt.

Úff, ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og koma sér af stað. Hressist trúlega þegar líður á daginn, skv. fyrri reynslu. Nenni ekki að vera svona og tími ekki að eyða tímanum í sófanum. Hef lítið annað getað gert í dag en dagurinn ekki búinn. Nú verður tekið á þvíAngry

 


Veikindi í Ungverjalandi

Ferlegt að vera langt í burtu frá ungunum sínum þegar eitthvað bjátar á. Hafsteinn búinn að vera fárveikur í rúma viku með kvef háan hita og önnur "flensueinkenni", heldur að rétta úr kútnum. Sem betur fer var hægt að senda honum einhver lyf. Það er ekki heiglum hent þarna úti, nemendur fara helst ekki til læknis þarna nema á börunum enda til þess ætlast. Harkan sex og þarna verða menn að mæta veikir í skólan, enginn væll  tekinn þar til greina. Ef nemendur skila sér ekki í þá kúrsa þar sem er skyldumæting, þá eru þeir einfaldlega fallnir.

Um leið og Hafsteini fór að skána, hrundi heilsan hjá Katrínu, trúlega Salmonella sýking með tilheyrandi hita og hvimleiðum einkennum. Hugsanlega hægt að kenna svínakjöti þar um. Búin að vera fárveik síðasta sólahringinn með heiftarlega kviðverki m.m. og ekkert lát á einkennum. Harkaði af sér í skólann í gær en koksaði á því morgun og endaði inni hjá ungverskum lækni í dag sem gaf henni sprautu með óskilgreindu efni og haug af töflum, að hennar sögn. Fyrirskipað að éta hrísgrjón, punktur og pasta sem henni fannst í lagi en þá vantaði kanlsykurinn til að setja ofan á hrisgrjónagrautinn. Lítið skárri í kvöld, kviðverkirnir skelfilegir en hitinn eitthvað lækkandi. Úff, nú er erfitt að vera fjarri en þau eru bæði hörkudugleg og hörð af sér. Ég þarf auglsjólega að koma hraðsendingu til krakkanna í einum grænum. Svakalega sakna ég þeirraCrying

Í tilfellum sem þessum sér maður kosti íslenska heilbrigðiskerfisins, þó ég sé dugleg að gagnrýna það. Við búum flest við þau skilyrði að geta sótt sólahringsvakt í læknisþjónustu þó vissulega sé langt að fara hjá sumum. Þarna úti þurfa krakkarnir að vera með alla pappíra á hreinu, annars vísað frá, aðgangur takmarkaður við tiltekinn tíma suma daga vikunnar og sætta sig við að fæstir ungverskir læknar eru talandi á ensku. 

Til að bæta gráu ofan á svart týndist labrador hvolpurinn hennar Kötu í gærkvöldi. Náði að losa sig og stakk af með keðjutaum áfastan og í eftirdragi. Ég fékk hina bestu hreyfingu út úr uppákomunni, hljóp, já ég meina hljóp, um allt hverfið að leita af tíkinni, keyrði eins og óð manneskja um alt án árangurs.  Uppskar hins vegar mæði og tilheyrandi enda ekki í formi. Whistling Ekkert annað í stöðunni en að tilkynna hvarfið; það var lögreglan, hundaeftirlitið, hundahótelið á Leirum sem tekur við óskilahundum og dýraspítalinn í Víðidal sem fær slest slösuð dýr sem finnast. Allir tóku erindinu vel og mér lofað að hringt yrði í mig, ef einhverjar fréttir bærust.

Enginn árangur, ég vakti hálfa nóttina, þóttist heyra gelt og ýlfur hér og þar en aðvitað var það bara vindurinn. Það var framlág Guðrún sem ók upp á Skaga í morgun. Ég tók ekki einu sinni eftir rokinu og fann ekki fyrir vindhviðunum, svo upptekin var ég við að hringja aftur í allar áttir og hugsa. Enginn hafði frétt af tíkinni. Þá fóru að renna á mig tvær grímur, hafði verið nokkuð bjartsýn að einvher hefði fundið tíkina og hýst hana yfir nóttina. Á suðurleið var ekkert enn að frétta, ég barmaði mér og kveinkað sáran við systurson minn sem er í lögreglunni, hann gat auðvitað lítið gert, engin tík í óskilum. Á þessum tímapunkti sá ég tíkina fyrir mér fasta í taumnum einhvers staðar í grindverki eða runnum, handviss um að dagar hennar væru taldir. Allt of kalt úti, hún hefði þetta ekki af.

Úff, það var erfitt að fara heim og bíða þar. Var komin í galla og alles til að leita í nærliggjandi runnum og grindverkum þegar ég verð vör við miða við bréfalúguna en á honum stóð: getur verið að þið hafið týnt gulri labrador tík í gærkvöldi? Unidrritað af nágrönnum sem búa 3 húsum fyrir neðan okkur! Mín ekki lengi að hlaupa til og sækja hana. Þar var hún blessunin í góðu yfirlæti, hjónin höfðu fundið hana í reiðileysi ca. 2 tímum eftir að hún hvarf og ekki vitað um eigandann. Höfðu hringt að Leirum, í lögregluna og upp í Víðidal; enginn kannaðist við týndan hund! En þau fengu einhvern  veginn upplýsingar um eigandan, hana Katarínu; tíkin náttúrlega örmerkt og þannig var hægt að fletta henni upp. Þeim fannst heldur langt í Dalina og því reynt að hafa upp á eigandanum með öðrum hætti, sem tókst.

Ótrúlegt ferli. Boðskapurinn: það virtist ekki virka að tilkynna hvarfið á tíkinni né fundinn á henni, langar boðleiðir og engin tjáskipti á milli vakta/einstaklinga??? Þetta minnir mig á heilbrigðiskerfið á góðri stundu! 

Tíkin fundin, víkur ekki frá mér og ég gat loks sagt krökkunum frá uppákomunni. Erfiðast var að þaga og valda þeim ekki hugarangri, mér leið eins og ég væri að fara á bak við þá. 

Örmagna eftir langan dag, hef varla undan í vinnunni og meðaltími í tölvunni ennþá yfir 12 tímum á dag. Ekki lagaði Perlumálið stöðuna Pinch Bíð spennt eftir helginni, þá get ég sooooooooofið út. Styttist í niðurstöður hjá mér, það virðist óhjákvæmilegt að fá hnút í magann á þeim tímamótum þó ég sé virkilega bjartsýnWink


Mín hetja

Ég hef fylgst með baráttu Gíslínu sem ég hef áður nefnt hér í bloggi mínu og hef komist að þeirri niðurstöðu að hún er mín hetja og fyrimynd. Ótrúlega skörp, með sterkar skoðanir á málum og það sem meira er, hún segir sína meiningu. Óbilandi kjarkur og jákvæðni drífur hana áfram í erfiðri baráttu við krabbamein enda ekki til í hennar kokkabók að gefast upp. Oftar en ekki hefur hún gefið mér heilræði og komið mér niður á jörðina þegar á þarf að halda. 

Ég bíð spennt eftir færslu á bloggi hennar á hverjum degi og það virðist sama hvað á gengur; alltaf sér hún eitthvað jákvætt við stöðuna. Óneitanlega hefur það gerst að ég skammist mín fyrir bölsýnina sem hefur gripið mig á stundum. Það er því henni að þakka að ég lýk alltaf deginum með jákvæðu hugafari; meira að segja brosandi og skiptir þá engu máli hvað hefur gengið á undan. Frásagnargáfa Gíslínu er þvílík að hún fer á kostum og er ekki oft sem ég hlæ ein með sjálfum mér en þeim tilvikum hefur fjölgað, heldur betur.

Eftir að hafa lesið bloggið hennar fór ég að hugsa hvað ég, líkt og fleiri, eyði miklum tíma í að ergja mig á  einhverjum atriðum sem skipta í raun engu máli. Á það bæði við um dægurmálaþrasið, pólitíkina og ýmsa veraldlega hluti. Ég breyti ekki heiminum, pólitíkinni né óvildarmönnum. Ég get hins vegar breytt sjálfri mér og það hefur Gíslína margbent mér á, beint og óbeint. Ég get heldur ekki breytt því liðna, það er farið og kemur aldrei aftur, við það þarf ég að búa og sætta mig við. Það ætla ég líka að gera.

Það er eins og þegar eitt áfall skellur á í minni fjölskyldu, þurfa fleiri að koma í kjölfarið. Framundan erfið barátta hjá bróður mínum. Erfið í þeim skilningi að henni fylgja aukaverkanir sem við þekkjum öll sem höfum farið í gegnum meðferðir og aðgerðir. Ég tel hins vegar hofurnar góðar  miðað við þá vitneskju sem ég hef í dag og veit að afstaða hans til lífsins og jákvæðni munu fleyta honum langt. Það hefur margoft sýnt sig að í baráttunni við erfiða og illkynja sjúkdóma skiptir hugarfarið sköpum og afstaðan til baráttunnar. Þeir eiginleikar hans sem og fjölskyldunnar eiga eftir að auðvelda honum baráttuna. Að fenginni reynslu veit ég að framundan eru erfiðir tímar en sem betur fer ganga þeir yfir og þegar til mikils er að vinna, lætur maður sig hafa ýmislegt. Hugur minn mun verða hjá honum og fjölskyldunni á næstu vikum, vonandi get ég gert eitthvað gagn í baráttu hans.

Þegar fólk með sjúkdóm á háu stigi læknast, er oft engin skýring tiltæk fyrir batanum. Ég tel hugarfarið, jákvæðnina og bjartsýnina gegna þar stóru hlutverki auk fordómaleysis gagnvart óhefðbundnum lækningum og úrræðum. Ég hef óbilandi trú á hetjunni minni og máltækinu; "það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi" og á meðan hann er til staðar er alltaf meðbyr. Ég verð óspar á að hugsa til hennar og senda henni hlýja strauma og baráttukveðjur og ég trúi því að því fleiri sem gera það, því betra.

Ég tel að það sé öllum hollt að staldra aðeins við og meta eigin stöðu og líf betur. Það eru forréttindi að vera heilbrigður en ekki sjálfsagður hlutur.

  


Dýraland

Hef ekki haft undan síðustu sólahringana, undirbúningur fyrir kennsluna sem sat á hakanum síðustu vikuna. Hef setið 10-12 klst. á dag í tölvunni við undirbúninginn. Annars frábært að vera komin í mitt umhverfi, hreinlega dýrka það að kenna. Ekki það að mér líður eins í hjúkruninni, ég gæti ekki gert upp á milli. Enda ætla ég mér að stunda hvorutveggja og jafnvel meira, hver veit? Joyful

Önnur verkefni hafa svo sem bæst á mína;  nú er ég ein með 3 tíkur, þ.a tvær sem ekki geta verið saman án þess að til blóðugra slagsmála komi.  Þau mál reyndar í vinnslu, eitthvað er að angra Lady Diönu, aldursforsetan sem stjórnar heimilinu með harðri hendi. Bíð eftir tíma á Dýraspítalanum þar sem framundan er allsherjartékk í svæfingu. Framhaldið ræðst náttúrlega af niðurstöðum.  Ungabarnið á heimilinu;Perla, er greinilega þrælsýkt í hálsi hægra megin og svo virðist sem aðgerð og penecillin sé ekki að virka sem skyldi. Trúlega aðgerð þar framundan, enn og aftur.  Ekki er þjónustan gefin á þeim bænum frekar en með okkur mannfólkið og ekki niðurgreidd með neinum hætti. Hika samt ekki við að gera allt sem hægt er til að koma þeim báðum til heilsu.

Það jákvæða við það að vera ein í "Dýralandi" er það að nú verður mín að standa sig og hreyfa tíkurnar og þar með sjálfa mig.  Auðvitað eftir kúnstarinnar reglum, ekki dugir að fara með þær allar saman og ekki sama hverjar fara í hverja ferð. Á meðan eitt hollið fer, grenjar hitt hástöfum þannig að tekur undir. Bíð eftir því að fá kvörtun frá nágrönnum. Ótrúlega sátt á meðan svo er ekkiWhistling      Í  öllu falli verður mín að fara að hreyfa sig og taka á því. Kominn tími til!  Skondin sjón ábyggilega; að sjá tíkurnar draga mig áfram, móða og másandi. Hef trú á því að þolið komi fljótt með þessu framhaldiCool

Hvað sem öðru líður þá er ég að drukkna úr verkefnum þessa dagana, hef ekki tíma til að vera einmanna og láta mér leiðast. Sakna auðvitað krakkana, ekki síst þegar um hægist  en svo ofboðslega sátt við það sem þau eru að gera að ég gef það ekki að sýta og væla.  Skárra væri það nú! Wink

Hlusta meira á útvarp núna þegar ég er komin í langkeyrsluna í vinnu,.. Hef þungar áhyggjur af afdrifum Íbúðalánasjóðs. Núverandi ráðherra búinn að skipa starfshóp sem á að fjalla um úrræði fyrir þá verst settu og þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð; þ.e. unga fólkið. Það fylgdi hins vegar ekki sögunni hvernig málum yrði háttað gagnvart meðal Jóninum og Gunnu. Mér segi svo hugur að þessi nefndarskipan sé fyrsta skrefið til að leggja Íbúðarlánasjóð niður en eftir standi úrræði fyrir þá verst settu. Aðrir verði að sækja sitt í bankana á "ránsvöxtum".  Vona innilega að mér skjátlist núna í þetta skiltið Blush


Ein í kotinu

Þá er Katan farin, komin til Köben þar sem hún gistir hjá Degi, bekkjarbróður sínum í nótt. Ótrúlega tómlegt í húsinu,  meira að segja tíkurnar í lægð. Á morgun flýgur hún til Búdapest og tekur þaðan bíl til Debrecen sem tekur 2 klst.  Á þriðjudag byrjar skólinn hjá henni og hefst með 2 vikna námi í ungversku.  Hún rúllar því upp, stelpan.

Allt er búið að vera á fleygiferð síðustu dagana. Við mæðgur staðið í stóræðum og tiltektum.  Skvísan var nefnilega með kveðjupartý fyrir vini sína á föstudagskvöld.  Var "grand" á því, grill og guðaveigar í ótakmörkuðu magni.  Mikið fjör og mikið gaman, krakkarnir fóru á kostum, sungu, spiluðu á gítar og ég veit ekki hvað og hvað. Ótrúlega gaman og þeir allir til fyrirmyndar.  Frábær hópur.

Það var því lítið um svefn hjá okkur mæðgum síðustu sólahringana. Lögðum af stað upp á völl upp úr kl. 04 í nótt þannig að ég fór að sofa upp úr kl.08 í morgun.  Hef eiginlega verið að ná mér á strik fram á kvöld og rétt að koma til núna, svona rétt fyrir nóttina. Vorum með gesti um helgina; Hafsteinn bróðir og dóttir hans voru hjá okkur.  Ekki var gestrisinni fyrir að fara hjá okkur er ég hrædd um, orkan fór í annað.  Vona að ég geti bætt þeim þetta upp síðar.

Ég er ofboðslega sátt við ákvörðun Katrínar að drífa sig út, veit að hún á eftir að standa sig vel.  Auðvitað mun ég sakna krakkanna en þegar allt gengur vel og þau að gera það sem þau hafa stefnt að, er tilfinningin öðruvísi.  Hún mun ugglaust upplifa heimþrá og söknuð, ekki síst gagnvart vinum sínum en það kemur alltaf maður í manns stað og það mun örugglega fjölga í vinahópnum. Hún er "svoddan" stuðbolti, skísan og þau reyndar bæði.  Aðalatriðið er að hún gefi þessu tíma og helli sér út í laugina, óhrædd enda vel synd og fiðruðWink

Ég mun hins vegar vera dugleg að heimsækja  krakkana og "skipta mér af" eins og ungamömmu sæmir en þó allt í hófi og í samráði við þauWhistling  Haffinn  á fullu í póflestri fyrir erfðafræði en hann tekur próf í henni í vikunni.  Vona að það gangi allt vel.

Fram undan hjá mér er nóg að gera, meira en nóg, verð trúlega í vandræðum með að ljúka öllum verkum innan tilskilins tímaramma en ætla mér að vera bjartsýn.  Allt skal þetta hafast.  Mér mun alla vega ekki leiðast á næstunni, hef hreinlega ekki tíma til þess.


Tíminn flýgur

Heldur á uppleið, hitinn lægri í dag og starfsorkan meiri en í gær. Var raunar sæmileg í morgun þegar ég fór upp á Skaga en daprari þegar leið á daginn eins og búast mátti við. Náði í hvorugan Sigurðinn í dag, skilaboð bíða beggja og ég bíð eftir þeim. Annar hvor þeirra hringir, fyrr en síðar.

Við mæðgur búnar að vera afspyrnu framtakssamar í dag (aðallega dóttirin) og ýmsu hrundið í framkvæmd sem hefur setið á hakanum. Tók svolítið á en Katan eiturhörð á að ljúka ákveðnum verkum áður en hún fer út.  Ekki spillir undirbúningur fyrir kveðjuteiti fyrir vinina fyrir framtaksseminni og ég nýt svo sannarlega góðs afWink

Tíminn flýgur á ógnarhraða og milljón hlutir sem eftir er að framkvæma á öllum vígstöðvum. Vona að pestarskömmin láti undan svo ég geti hleypt meiri hörku í mig. Allt þokast þetta í rétta átt á meðan hjólin hringsnúast á hraða ljóssins.

Mér líður ótrúlega vel að vera komin í mitt starf, saknaði þess mikið síðastliðinn vetur. Notaleg tilfinning að hafa einhver raunhæf og mælanleg markmið á hverjum degi sem standast þar að aukiTounge 

Næstu 3-4 vikur verða annasamar, ekkert annað að gera en að taka því og horfa mín uppáhalds, stuttu skref. Fílinn torga ég ekki í einu lagi frekar en aðrir.  Allt hefst þetta með jákvæðu hugarfari og stífri hugsun um hluta af "æðruleysisbæninni", þ.e  "að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt". Ég geri mitt besta, meira er ekki hægt að gera.

 


Ekki nógu gott

Úff, ég sem hélt að mér væri að skána!  Hiti, hósti og aftur hósti í dag.  Svaf út í það endalausa meira og minna í allan dag, ýmist skítkalt eða funheitt og sveitt, oj.....   Rifjar upp leiðinda minningar.  Virðist alltaf slá niður ef ég fer út.  Nú er það Siggi Bö á morgun, ef ég næ ekki í hann reyni ég að ná í Sigurð nafna hans lungnalækni. 3 vikur eru alveg nægur prófsteinn.  Þetta gengur allt tént ekki svona, í þetta skiptið þarf eitthvað meira að koma til en þrjóskan og að harka af sér. Sýklalyfin gagnslaus. Á ég að trúa því að inflúensan sé mætt á svæðið??? Ég trúi því ekki en óneitanlega minnir þessi krankleiki mig á hanaW00t

Hafsteinn kvaddi mig í nótt, ég man ekkert eftir því, umlaði eitthvað óljóst, er mér sagt. Crying  Var búin að vakna á klst. fresti til rúmlega 3 og þá greinilega steinsofnað eftir það. Þegar það gerist er óhætt að setja mig í hjólbörur og keyra mig út, ég rumska ekki við það.  Það er eins gott að við hittumst fljótlega eins og planað er.  Mér skilst að haustin í Búdapest séu æðisleg. Var að heyra í prinsinum, komin á leiðarenda, heill á húfi. 30°C hiti og mikill raki. Mig langar núna............

Náði að undirbúa það helsta fyrir kennsluna, svona rétt í tæka tíð. Ballið byrjar á morgun og kemur sér vel að fyrsta vikan verður stutt.  Hellings undirbúningsvinna eftir sem ég lýk væntanlega á næstu dögum og þá er hægt að anda léttar. 

Spennandi tímar framundan og miklar breytingar. Sumar kærkomnar og ánægjulegar á meðan aðrar eru súrari og erfiðari að kyngja.  Veit að söknuðurinn verður mikill þegar báðir krakkarnir eru farnir en það jákvæða við þetta allt er að þau eru að gera það sem þau hafa stefnt lengi að. Það gerir fjarveru þeirra mun bærilegri en ella auk þess sem þau eru orðin vel fiðruð.  En auðvitað verð ég lítil í mér til að byrja með, annað væri ekki eðlilegt.

Ennþá óvissa um stefnumörkun í ákveðnum málum, bíð afar spennt eftir viðbrögðum við atvinnuumsókn minni, allt mjög "duló".  Í öllu falli verðu kúvending á sumum sviðum, bíð með að tjá mig um það þar til málin skýrast.  Heima er bestWhistling

Hef verið fremur óvirk í að fylgjast með pólitíkinni heima, ekkert að græða á heimasíðu sveitarfélagsins enda lítið um fréttir, fundir fáir og fundargerðir loðnar eða hreinlega lítt upplýsandi. Þarf að taka mig á þeim efnum, álagið fer að minnka þannig að svigrúmið verður meira. Vona að menn átti sig á hæfisreglunni og kynni sér hana í botn.  Í öllu falli ættu að verða einhverjar breytingar á sveitarstjórninni í ljósi nýjustu stöðuveitingarinnar í sveitarfélaginu. 

Mér fannst reyndar svolítið skondið að hnjóta um umræðuvef heimasíðu Dalabyggðar en þar sendir maður í atvinnuleit póst á alla íbúa og spyr hvort ekki sé tekið vel á móti öllum í Dölunum. Sá maður hafði búið þar á árum áður en vonaðist til að geta snúið aftur.  Þessi fyrirspurn birtist á vefnum þann 14. ágúst og enginn búinn að svara honum í gær.  Auðvitað er tekið vel á móti öllum sem í Dalina vilja koma, skárra væri það nú Whistling

 

 


Annir og batnandi heilsa

Held, svei mér, að heilsan sé að skána.  Fór í vinnu í morgun, frábært að hitta samstarfsfólkið sem tók mjög vel á móti mér.  Síðan tók við nákvæmisvinna sem fólst í undirbúningi fyrir fjölskyldumyndatöku.  Í fyrsta skiptið "ever", dreif litla famelían sig í myndatöku og gekk á ýmsu.  Frábær ljósmyndari hann Arnold og konan hans, sem annaðist förðunina, ekki síðri. 

Hef alltaf verið "myndavélafælin", fór síðast í myndatöku þegar ég kláraði stúdentinn og síðan eru liðin mörg ár.  Krakkarnir eiga enga mynd af múttu sinni og fáar myndir til af okkur saman.  Arnold og frú fóru á kostum, andrúmsloftið aflsappað en samt mikill húmor, mikið hlegið og skíkt.  Þetta var meiriháttar lífsreynsla, segi ég nú bara. Okkur krökkunum leið eins og við hefðum alltaf þekkt þau hjónin. Mæli hiklaust með Arnold og set veflóðina hér með, hvet alla, ekki síst foreldra ungra barna,  til að skoða listaverkin hans.

http://www.arnold.is/

Búið að vera fjör í kotinu í kvöld, Gunni Brynjólfur og famelía hans komu í kveðjugrill til Haffa, skemmtileg og notaleg stund.  En, úffff, Haffinn að fljúga út eldsnemma í fyrramálið.  Sælan búin í bili.  Væsir þó ekki um drenginn á leiðinni út til Köben, flýgur á Saga-Class en þann lúxus fékk hann fyrir frammistöðuna á heimleið í sumar þegar hann brást við neyðartilviki sem kom upp um borð í vél Ielandair.

Ekki laust við tárvot augu, mér finnst alltaf erfitt að kveðja þau bæði, er hálf fegin að þurfa ekki að fara með honum upp á völl í þetta skiptið, Í þetta skiptið verður hann samferða öðrum.   Brotna alltaf niður þegar ég horfi á eftir honum.   Skána lítt í þeim efnum.  Enn eru nokkrir dagar í að Katan fari, flýgur út á sunnudagsmorgun, fyrir allar aldir.

Haffinn búinn að pakka og kominn tími á "quality time" með krökkunum.  Það verður lítið um svefn í nótt.

 


"Upp" risin

Það hafðist í dag að komast í föt og á fætur, að vísu í áföngum en allt hafðist þetta með þolinmæðinni. Mætti galvösk í afmæliskaffi til Kidda bróður sem tók á móti okkur, glerfínn og svakalega unglegur.  Hvernig fer hann að þessu??  Heilbrigt líferni spilar þar inn í veit ég, en vá......hvað hann lítur vel út, þau hjónin reyndar bæði.  Ég stefni á "extreme makover" fyrir mitt hálfrar aldar afmæli í haust.  Annars frábært að hitta stórfjölskylduna en hefði viljað sjá fleiri.

Er sem sé upprisin en vantar enn talsvert á að ég sé orðin góð, úthaldið skammarlega lítið í dag enda skriðið beint upp í sófa þegar heim var komið.  Ég gat hins vegar stjórnað liðinu, Haffinn mátti sjálfur setja í þvottavélina og undirbúa brottför sína til Ungverjalands í býtið á þriðjudagsmorgun.  Ég bæti honum þetta upp á morgun, verð dugleg Whistling
Ekki laust við að það sé kominn smá herpingur í magan vegna brottfarar hans en veit að ég hitti hann fljótlega aftur.  Katan að fara á sunnudagsmorgun, eldsnemma líka.  Það verður sett upp loftbrú á milli Búdapest og Íslands í vetur enda nóg um að vera.

Er smá spæld yfir því að hafa þurft að eyða þessum fáu frídögum mínum í þessa pest, handónýt til alls og við sem ætluðum að geta svo margt. M.a að skeppa á Þingvöll, fara heim, kíkja í ber og ég veit ekki hvað og hvað.  Það verður að bíða betri tíma. Höfum reyndar átt "quality time" saman, hvert og eitt kúrandi í sitthvorum sófanum með teppi og notalegheit.

Úff, ekki laust við að þessi pest hafi minnt mig illþyrmilega á nýafstaðin veikindi og lyfjameðferð, hóstinn búinn að vera skelfilegur.  Ekki sælar minningar þar á ferð, skil eiginlega ekki hvernig við, sem höfum fengið krabbamein og þurft meðferð, komumst heil út úr þeirri vegferð. Auðvitað er maður reiðubúinn til að leggja slíkt á sig og meira en það í baráttunni við þennan skratta en ég er þess fullviss að enginn sem ekki hefur gengið í gegnum þetta ferli, veit hvað það er erfitt og skelfilegt tímabil í raun.  Á ég þá ekki einungis við líkamleg einkenni og aukaverkanir heldur og einnig andlegu líðanina, óvissuna, áfallið, og eftirköst þess.  Pollýönnu hlutverkið og allt það. Þrátt fyrir áratuga reynslu í hjúkrun, gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu erfitt þetta væri, taldi mig þekkja ferlið og líðanina út í gegn.  Þar skjátlaðist mér en á móti kemur það að ég er reynslunni ríkari, sterkari einstaklingur og laus við árann.

Nú fer mín snemma í háttinn, fyrsti vinnudagurinn í skólanum á morgun, allt að bresta á.  Þarf að finna mér starf sem ég get sinnt samhliða kennslunni enda launin ekki nægileg til að reka heimili sem eina fyrirvinnan.  Hef ákveðið á láta enn reyna á atvinnumöguleika mína í heimabyggð, bíð spennt eftir niðurstöðum um það hvort menntun og reynsla hafi vægi þegar kemur að vali á umsækjendum og mati á hæfni.  Nýtt fólk við stjórnvölinn sem boðaði breytta og bjarta tíma og lýðræði þar sem jafnræðis gætir. Sturlungaöld á að vera liðin hjá og stríðsöxin grafin.  Spennandi tímar framundan á krossgötunum og gaman að vera tilW00t


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband