Mín hetja

Ég hef fylgst með baráttu Gíslínu sem ég hef áður nefnt hér í bloggi mínu og hef komist að þeirri niðurstöðu að hún er mín hetja og fyrimynd. Ótrúlega skörp, með sterkar skoðanir á málum og það sem meira er, hún segir sína meiningu. Óbilandi kjarkur og jákvæðni drífur hana áfram í erfiðri baráttu við krabbamein enda ekki til í hennar kokkabók að gefast upp. Oftar en ekki hefur hún gefið mér heilræði og komið mér niður á jörðina þegar á þarf að halda. 

Ég bíð spennt eftir færslu á bloggi hennar á hverjum degi og það virðist sama hvað á gengur; alltaf sér hún eitthvað jákvætt við stöðuna. Óneitanlega hefur það gerst að ég skammist mín fyrir bölsýnina sem hefur gripið mig á stundum. Það er því henni að þakka að ég lýk alltaf deginum með jákvæðu hugafari; meira að segja brosandi og skiptir þá engu máli hvað hefur gengið á undan. Frásagnargáfa Gíslínu er þvílík að hún fer á kostum og er ekki oft sem ég hlæ ein með sjálfum mér en þeim tilvikum hefur fjölgað, heldur betur.

Eftir að hafa lesið bloggið hennar fór ég að hugsa hvað ég, líkt og fleiri, eyði miklum tíma í að ergja mig á  einhverjum atriðum sem skipta í raun engu máli. Á það bæði við um dægurmálaþrasið, pólitíkina og ýmsa veraldlega hluti. Ég breyti ekki heiminum, pólitíkinni né óvildarmönnum. Ég get hins vegar breytt sjálfri mér og það hefur Gíslína margbent mér á, beint og óbeint. Ég get heldur ekki breytt því liðna, það er farið og kemur aldrei aftur, við það þarf ég að búa og sætta mig við. Það ætla ég líka að gera.

Það er eins og þegar eitt áfall skellur á í minni fjölskyldu, þurfa fleiri að koma í kjölfarið. Framundan erfið barátta hjá bróður mínum. Erfið í þeim skilningi að henni fylgja aukaverkanir sem við þekkjum öll sem höfum farið í gegnum meðferðir og aðgerðir. Ég tel hins vegar hofurnar góðar  miðað við þá vitneskju sem ég hef í dag og veit að afstaða hans til lífsins og jákvæðni munu fleyta honum langt. Það hefur margoft sýnt sig að í baráttunni við erfiða og illkynja sjúkdóma skiptir hugarfarið sköpum og afstaðan til baráttunnar. Þeir eiginleikar hans sem og fjölskyldunnar eiga eftir að auðvelda honum baráttuna. Að fenginni reynslu veit ég að framundan eru erfiðir tímar en sem betur fer ganga þeir yfir og þegar til mikils er að vinna, lætur maður sig hafa ýmislegt. Hugur minn mun verða hjá honum og fjölskyldunni á næstu vikum, vonandi get ég gert eitthvað gagn í baráttu hans.

Þegar fólk með sjúkdóm á háu stigi læknast, er oft engin skýring tiltæk fyrir batanum. Ég tel hugarfarið, jákvæðnina og bjartsýnina gegna þar stóru hlutverki auk fordómaleysis gagnvart óhefðbundnum lækningum og úrræðum. Ég hef óbilandi trú á hetjunni minni og máltækinu; "það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi" og á meðan hann er til staðar er alltaf meðbyr. Ég verð óspar á að hugsa til hennar og senda henni hlýja strauma og baráttukveðjur og ég trúi því að því fleiri sem gera það, því betra.

Ég tel að það sé öllum hollt að staldra aðeins við og meta eigin stöðu og líf betur. Það eru forréttindi að vera heilbrigður en ekki sjálfsagður hlutur.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Elsku Guðrún Jóna ég verð bara feimin við þessa lesningu en jafnframt stolt af því að hafa náð að koma einhverju jákvæðu til skila. Ég þekki konu sem núna berst fyrir lífi sínu vegna ólæknandi krabbameins, hennar barátta hófst fyrir þremur vikum síðan, fram að því var hún hraust. Ég hugsa stundum um það hvað ég er heppin að hafa fengið svona langan frest og geta nýtt hann til að njóta lífsins.  Það eru greinilega ekki allir svo "heppnir" ef svo má að orði komast.

Ég tel að þú sjálf sért ótrúlega sterk kona sem þarf að beina kröftum þínum í jákvæðari farveg og ná að springa út sem hamingjusöm kona. Ég hef fulla trú á að þér takist það. Ég man eftir því þegar ég bjó ein, var skilin og leigði íbúð með syni mínum að mér fannst svo gaman að lifa að ef ég lenti í leiðinlegu fólki eða aðstæðum þá sneri ég við og hugsaði, þetta er ekki fyrir mig, ég er frábærust og æðislegust, þeirra missir ekki minn. 

Ég vona að bróðir þinn nái sér að fullu og ég sendi þér og ykkur fjölskyldunni mína allra bestu strauma.

Gíslína Erlendsdóttir, 25.9.2007 kl. 19:21

2 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

.....hafðu það alltaf sem best

Gíslína Erlendsdóttir, 25.9.2007 kl. 19:22

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Þú þarft ekki að vera feimin, þetta er sannleikurinn.

Takk fyrir heilræðin og hlýju straumana, nú sem fyrr, ekki veitir mér af þeim

P.S. Þú ert FRÁBÆRUST ennþá 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 25.9.2007 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband