Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
16.8.2007 | 21:32
Áfram hóst og gelt
Búin að vera hælismatur í dag, hóst, kitl og gelt út í það endalausa. Hiti, beinverkir, kuldahrollur og hvaðeina. Framtakssemin eftir því. Skelfilegt að eyða fríinu sínu með þessum hætti. Er ósköp fúl yfir þessari uppákomu. Hún ætti ekki að koma mér á óvart, Haffi búin að vera með sömu pestina og það er orðið býsna kalt, alla vega á morgnana og á kvöldin.
Í dag stóð til að henda rusli og dóti. Löngu orðið tímabært að snurfusa og losa sig við pappakassa, gamalt dót og annað sem á heima á haugunum. Nú átti að taka á því áður en krakkarnir fara út. Eitthvað fór lítið fyrir mínu framlagi í þeim efnum, fór í 2 skápa og þar með var það upptalið. Haffi eins og herforingi fór tvær ferðir með fullan bíl í Sorpu en lítill munur sést enn.
Það er því blessaður sófinn í kvöld, sjónvarpið og poppið. Hef ekki einu sinni heilsu til að grufla í kennsluáætlunum. Gjörsamlega andlaus en auðvitað brosandi
Einn kosturinn við þennan krankleika er sá að nú hef ég fylgst með sjónvarpsfréttum. Ótrúlegt að fylgjast með Grímseyjarklúðrinu. Ugglaust á ráðgjafinn stóran þátt í því klúðri en eru það ekki vegamálastjóri, ráðuneytisstjóri, ráðherra og ríkisstjórn sem bera endanlega ábyrgðina (í þeirri röð)? Er ekki verið að hengja bakara fyrir smið?
Ég segi það enn og aftur, ég hef ekki trú á því að hveitibrauðsdagar þessarar nýju ríkisstjórnar verði langir. Sjálfstæðismenn með óbreytta stefnu og vinnubrögð og ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki enn komið niður á jörðina. Öll raunveruleikatengsl eru rofin á þeim bæ og það bókstaflega riginir upp í nefið á sumum þeirra. Svo virðist sem völd og titlatog sé það sem sóst var eftir af þeirra hálfu. Menn þvaðra út og suður í krafti embættis síns, í bullandi mótsögn við ríkisstjórnarsáttmálann. Ég hef ekki trú á því að Ingibjörg Sólrún nái að hafa hemil á óstýrlátum froðusnökkum.
Verð vonandi hressari á morgun, mörg verkefni liggja fyrir, eiginlega út í það endalausa og kennsla að byrja eftir helgi. Ætla rétt að vona að við náum að gera eitthvað skemmtilegt áður en Haffi fer út á þriðjudaginn. Urrrrrrrrrrrr, þennan fja...... ætla ég mér að losna við hið snarasta.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2007 | 02:09
Margfaldur dagur
Þessi dagur margfaldur í víðasta skilning þess orðs. Slepppti matar- og kaffitímum til að klára mína pligt. Ekki beint sniðugt og endurtek ekki leikinn. Hvað er maður að hugsa
Fæ ótrúlega mikið út úr starfinu en "come on" ; þetta var "too much"! Komin í fríiiiiiiiiiiiiiiiiii eftir þennan daginn, fram á mánudag og ætla að njóta þess.
Skreið að sjálfsögðu beint upp í sófann að degi loknum, sofnaði seint og um síðir, heyrði meira segja eitthvað af fréttum en vaknaði illa eins og alltaf þegar ég legg mig enda líkamsklukkan ekki byggð fyrir síðbúið "Siesta"
Ætla mér ekki að sofa út í það endalausa á morgun, veit að ég vakna þó seint. Verð að taka mig á í þeim efnum enda fáir frídagar framundan, hellingur að verkefnum og Hafffinn að fara á þriðjudag Úff!!! hvað tíminn er fljótur að líða.......................................... Áiiiiiiiiiiii
Brosi áfram allan hringinn og mun gera það í framtíðinni, það sama hvað gengur á. En núna er mín alveg búin á því í orðsinsfyllstu merkingu: BROSANDI, að sjálfsögðu
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.8.2007 | 21:38
Heilsuleysi á bænum
Hér er einhver pest í gangi, Haffi með hita og slæmur í maganum og við Kata með ólguna upp í koki. Kannski kjúklingurinn sem þau keyptu sér í gærkvöldi?? Fékk mér örilitla flís sem etv. dugði til. Hef alltaf hálfgerða ímugust á kjúkling, ekki síst þegar ég var veik, þoldi einfaldlega ekki lyktina af honum.
Mætti annars í vinnu í morgun, meira en nóg að gera og dagurinn verulega skemmtilegur. Finnst ekkert lítið gaman að vera í mínu gamla starfi, "fíla í mig í botn", eins og unglingarnir segja. Mér leiðist það ekki heldur að menn meta starfskrafta mína og öll samskipti frábær. Engar híenur á þeim bænum.
Mér finnst úthaldið vera að aukast, er reyndar búin á því að loknum vinnudegi og þarf að beita mig hörðu til að halda mér vakandi á "Brautinni" á heimleiðinni. Sofna undantekningálítið þegar heim er komið en það er líka allt í lagi. Það er ekki svo að ég sé með ungabörn sem þarf alltaf að elda ofan í.
Heiðrún Harpa, vinkona Kötu, er hreint út sagt snillingur með myndavélina. Hún benti mér á nýjar myndir á síðunni sinni og var ég svo djörf að fá nokkrar "lánaðar". Hvet fólk til að "skreppa á þjóðhátíð" með Heiðrúnu Hörpu á slóðinni http://www.hharpa.vefalbum.is/main.php?g2_itemId=9393
Stelpurnar fóru á kostum þessa þjóðhátíðina, engin leið að gera upp á milli þeirra. 'Eg skeeeeeeeeeeelfilega "veikluleg" ennþá, mætti halda að ég væri "ég veit ekki hvað". NB!! er allsgáð á flestum myndum eða þar um bil Það fer að verða spurning um "Extreme makeover", í alvörunni!
Snemma í háttinn, er ferlega óglatt. Ætla að sofa þetta úr mér, NENNI ekki að vera veik. Nóg að gera framundan, styttist í ákvörðunartöku á mínum krossgötum. Hún verður ekki auðveld en örugglega léttir þegar hún liggur fyrir.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2007 | 10:50
Helgarfrí
Fall er fararheill, ætla ég að vona. Auðvitað smá bras hjá minni, það er alltaf. Engu að síður stefnt á Eyjar ef veðurguðirnir leyfa. Nógu fallegt er veðrið enn sem komið er.
Tíkurnar fara á hundhótel, nema Lafði Díana, er hrædd um að hún myndi ekki sætta sig við slíkar aðstæður, háöldruð daman þannig að hún fer til Söru. Bjargvættur sem fyrr, skvísan sú. Þetta er smá mál, svona í fyrsta sinn að gera allt klárt. Veit að það væsir ekki um hana né Slaufuna og Perluna.
Er orðin býsna spennt, hef reyndar nokkrar áhyggjur yfir því að hafa ekki úthald í fjörið. Hef ekki skemmt mér í meira en 2 ár en mér finnst kominn tími í örlitla gleði og birtu í líf mitt. Hefði auðvitað haft það gott heima í sveitinni en ég hét því í vetur að kæmist ég til heilsu, skyldi ég á þjóðhátíð með krökkunum enda mikil þjóðhátíðarmanneskja. Þetta verður trúlega í síðasta skiptið sem ég sækist eftir því. Einn besti vinur Haffa lánar okkur íbúð sína þannig að það væsir ekki um mann, þótt hann rigni.
Tókst ekki að vera í fríi í dag, fer í vinnu á eftir og síðan lagt í hann seinni partinn. Sem sé; komin í helgarfrí.
Góða helgi og farið varlega
29.7.2007 | 21:01
Heim í heiðardalinn
Við mægður skruppum heim um helgina og mætti Sigrún systir á svæðið. Held henni hafi litist vel á, hún aldrei komið í Hörðudalinn fyrr. Svei mér ef Dalirnir hafi ekki heillað hana upp úr skónum. Hún á hins vegar erfitt með að skilja samfélagið sem slíkt, finnst líkt og mér og öðrum, spillingin sjúkleg á ýmsum stjórnsýslustigum þess. Held hún sé hálf undrandi á búsetuvali mínu undanfarin ár.
Við vorum nokkuð heppnar með veðrið en rosalega er allt þurrt, gróður og ár. Fannst svolítið erfitt að sjá túnin óslegin, úr sé sprottin og punturinn stóð upp úr. "Sveitamennskan" í mér auðvitað, vil sjá grasið í rúllum. Ekki það að ég hafi skepnur til að éta það, fyrir utan nokkur hross.
Finnst alltaf jafn erfitt að fara að heiman aftur, verð alltaf hálf þung á eftir. Hugsa um það sem ég vil að verði og barma mér í hljóði yfir því að hlutirnir séu ekki eins og ég óska. Það getur samt farið svo að ég verði ein heima í vetur, er með margt á prjónunum en ekkert víst í þeim efnum. Allt skýrist þetta á næstunni.
Gerði tilraunir til heimsókna í þessari ferð en menn ýmist uppteknir við að keyra heim rúllur eða ekki heima. Helgarferðin fékk heldur snubbóttan endi, lenti í smá óhappi heima og sá fram á saumaskap og bóderingar á hendi auk þess að fá eina stífkrampasprautu. Meiningin var að koma við í Borganesi enda augljóst að á heilsugæsluna heima fer ég aldrei inn fyrir dyr í lifanda lífi líkt og margir aðrir heimamenn. En svo sá ég fram á að lenda í þessari "yndislegu" traffík" á Vesturlandsveginum þannig að ég vildi brenna beint í bæinn. Viðurkenni það fúslega að ég nenni ekki niður á Slysó í Fossvoginum þar sem biðin er lágmarik 4 klst. þannig að ég plástraði skurðina sjálf og leyfi þeim að gróa í rólegheitum. Hlýt að geta reddað mér tíma hjá læknunum á morgun til að fá pensillín. Ör skipta ekki máli hjá konu á mínum aldri.
Lá undir feldi um helgina, ekki nógu lengi samt. Hef ekki enn tekið endanlega ákvörðun um stefnu mína í lífinu. Tek mér þann tíma sem þarf enda margir kostir í stöðunni.
Kom við á leiði Guðjóns og setti niður nokkur blóm. Búin að ætla mér það í sumar en alltaf eitthvað sem frestaði því, trúlega var ég dugleg að finna einhverjar ástæður til að fresta því enda vissi ég að þetta yrði erfitt. Nú er fyrsta skrefið tekið í þeim efnum og þau næstu verða auðveldari. Sá reyndar að einhver var á undan mér og finnst mér það nokkuð bratt ef grunur minn reynist réttur. Skal aldrei dragast niður á það plan sem það fólk er statt á.
Búin á því eftir helgina sem annars var fín. Fengum heimsóknir og við systurnar skemmtum okkur vel á laugardagskvöldið. Hefði viljað komast yfir meira en tíminn takmarkaður. Geri betur næst. Háttatími í fyrra lagi á þessum bæ, Katan steinsofnuð og styttist í mig. Helgarblöðin bíða betri tíma og ekki eru fréttir helgarinnar það upplífgandi að ég vilji hellar mér yfir lestur um þær að sinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2007 | 21:54
Myndir
21.7.2007 | 22:42
Enn eitt laugardagskvöldið
Laugardagskvöld enn og aftur, mér finnst það síðasta nýliðið. Ekkert spennandi í sjónvarpinu að vanda, búin að gera heiðarlega tilraun til að flakka á milli stöðva og hætt.
Heldur líflegra þó í kringum mig en oft áður. Katan á komin heim eftir inntökupróf í læknisfræði við Háskólann í Ungverjalandi, nánar tiltekið í Debrecen. Mín flaug inn eftir taugatrekkjandi, munnlegt próf hjá Ungverjunum þar sem áhersla var lögð á undirstöðuatriðin í líffræði, efnafræði og eðlisfræði. Frábært hjá Kötunni, það er ekki fyrir alla að fara í munnleg próf hjá Ungverjunum sem virðast hafa það markmið að reyna á þolrifin hjá nemendum sínum, líklega til að kanna hvort þeir séu nægilega sterkir til að þola álagið. Eru "kvikindislegir" og stunda það að reyna að "grilla" nemendurna, eins og sumir komast að orði.
Þau hafa staðið saman systkinin síðustu daga, frábært hvað Haffi hefur staðið við hliðina á systur sinni. Þau eru eins og eitt þegar eitthvað er, jafn ólík og þau eru.
Það er alveg augljóst í mínum huga að Katan hefði aldrei reynt aftur við inntökuprófið við H.Í, það reyndist henni þyngra áfall en nokkurt annað að komast þar ekki inn í fyrstu tilraun. Í því prófi var lítt látið reyna á undirstöðuþekkingu nemenda í raungreinum og náttúrufræðum. Það er hins vegar missir H.Í að missa af afburðanemanda. Leikreglurnar eru umdeildar, á því er enginn vafi.
Sem sé; til hamingu elsku Kata mín Þú áttir þetta svo sannarlega skilið, búin að stefna að þessu í mörg ár og hafðir undirbúið þig vel. Þú uppskarst loksins eins og þú sáðir. Ég er bókstaflega að rifna úr stolti.
Mér finnst það hreint út sagt frábært að bæði systkinin hafi valið sér læknisfræði sem starfsvettvang. Ekki það að það ætti að koma mér á óvart þar sem þau hafa alist upp í því umhverfi, forledrarnir báðir heilbrigðisstarfsmenn. Bæði hafa þau allt til brunns að bera til að verða góðir fagmenn. Að vita af þeim á sama stað þar sem þau geta stutt hvort annað í gegnum súrt og sætt veitir mér meiri hugarró en ég get lýst.
Framundan verða ferðalög hjá mér, ég á ugglaust eftir að vera dugleg við að heimsækja ungana út til Debrecen. Þó þeir séu vel fiðraðir, þarf maður að skipta sér eitthvað af eða hvað...........
Það eru miklar breytingar framundan hjá okkur öllum, það fer ekki á milli mála. Það styttist í að ég taki ákvörðun um það hvert skuli stefna. Ég hef náð áttum, fékk góð ráð um daginn sem virkuðu. Þetta fer allt að koma. Átthagafjötrar þurfa ekki lengur að toga og binda mig. Kannski er rétti tíminn fyrir kaflaskil núna. Í öllu falli eru hjólin farin að snúast hratt, bókstaflega að hringsnúast.
Katan farin út á lífið, Haffi á næturvakt niður á geðdeild og ég í símann
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2007 | 21:43
Klukkuð
Mín hjartfólgna litla systir fékk þá hugmynd að "klukka" mig. Þurfti reyndar að fletta því hvað það þýðir og ef ég skil hugtakið rétt, þá á ég að segja 8 hluti um sjálfa mig. Þvílíkur bjarnagreiði! Hún veit það nefnilega að ég get aldrei takmarkað mig svo mikið.
Að segja aðeins 8 hluti um sjálfan mig er mér næstum um megn en reyni mitt besta. Auðvitað er litla systir fyrrmyndin mín í þeim efnum, við erum greinilega ekki mjög líkar eða hvað
Ég er útlægur Dalamaður, upprunnin úr Garðahreppi
Ég er ofvirkur eilífðarstúdent
Ég á 2 óskabörn, 2 tíkur og 1 ömmuhvolp
Ég er 6. í röðinni af 8 systkinum og miðsystirin (sáttasemjarinn??)
Ég er með algjöra símamaníu, sérstaklega seint á kvöldin
Ég er rosalega pólitísk og skipti mér af öllu í þeim efnum í heimabyggð
Ég er með ríka réttlætiskennd, stundum einum of
Ég sef alltaf á vinstri hliðinni
Hana nú litla systir! Ótrúlega erfitt að takmarka sig svo, ég hefði getað haldið miklu lengur áfram enda svo "kyngimögnuð" kona
Klukka dóttur mína og nöfnu litlu systir "med det samme"
14.7.2007 | 22:33
Laugardagskvöld
Þá er þessi vika liðinn og enn og aftur komið laugardagskvöld. Ég get ekki sagt að þau kvöld séu í uppáhaldi hjá mér, eyði þeim nær undantekningalaust ein með tíkunum. Hef alls ekkert á móti einverunni, þarf á henni að halda af og til og mér líður vel einni þegar því er að skipta. Hins vegar er sjónvarpsdagskráin nær alltaf hörmuleg á öllum stöðvum á laugardagskvöldum. Skiptir þá engu máli hver þeirra er, sjónvarpsefnið er dapurt. Ég eiginlega skil þetta ekki, í eina tíð var dagskráin alltaf fjölbreytt um helgar og bauð upp á afþreyingarefni sem flestir gátu unað við. Nú er öldin önnur, mér virðist sem það afþreyingarefni sem boðið er upp á vera bæði eldgamalt og "annars flokks".
Sú var tíðin sem ég var nánast aldrei heima á laugardagskvöldum, ýmist á helgarvakt eða að skemmta mér. Var dragúldin ef ég þurfti að dúsa heima, öðrum til armæðu. Ósjaldan bitnaði það á móður minni. Ótrúlegt hvað hún hafði mikið langlundargeð í þeim efnum.
Ég hef ekki verið svo dugleg að horfa á sjónvarp í sumar, hending ef ég horfi á fréttir enda sofna ég oftast í mínum hjartfólgna sófa. Um helgar get ég sofið lengur og vaki því á kvöldin. Þennan daginn þurfti ég auðvitað að sofa út í það endalausa, skreið út seinni partinn í arfann og sóleyjarnar sem eru að drepa allan grasvöxt hjá mér. Er ekki nógu sterk til að rífa illgresið upp
Var ekki nógu vel upplögð til að fara vestur, bév..... verkirnir og hitavella enda með stútfullar kinn- og ennisholur. Katan fyrir vestan í roki og kulda að harka af sér á Eiríksstaðarhátíðinni. Sú lætur sig hafa það! Færði mér hins vegar fremur daprar fréttir, svo virðist sem brotist hafi verið inn í Seljaland, af ummerkjum á útidyrahurð að dæma. Það skyldu þó aldrei vera þeir á ferð sem telja sig eiga urmul af tólum og verkfærum þar? Það verður auðvelt að dæma um það þegar ég fer yfir svæðið.
Ekki það að ég veit að margir fara þarna um til að skoða jörðina sem er ekki tiltökumál en ég er undrandi á því að menn skuli vaða inn fyrir hlið og skoða útihús og hugsanlega inn fyrir dyr, án þess að gera vart við sig. Í öllu falli hefur enginn haft samband við mig vegna jarðarinnar en traffíkin ku vera nokkur. Ég er ekki viss um að áhugasamir kaupendur gætu ruðst inn í garða og hús í þéttbýli til að skoða sig um. Ég er ansi hrædd um að uppi yrðu fótur og fit og menn með pólitíið á hælunum
Haffinn búinn að stunda sitt áhugamál um helgina; veiði! Aflinn rýr en haft gaman af enda flottur með flugustöngina. Tímin bókstaflega flýgur áfram og áður en maður veit af, er hann floginn út.
Ekkert annað að gera en að hátta snemma, fáir heima til að hringja í og spjalla sem er auðvitað uppáhaldsiðjan mín á kvöldin. Auðvitað notar fólk helgar og góða veðrið til að ferðast um og viðra sig. Það er annað ég ég...................... Dauðsé eftir því að hafa ekki hleypt í mig hörku í morgunn, grrrrrrrrr....................................
Nýr dagur á morgunn, sem betur fer, þessi kemur aldrei aftur
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)