Færsluflokkur: Veikindin

Baráttukonur

Eins og tölfræðin sýnir eru ótal Íslendingar sem greinast með krabbamein árlega. Þeir eru á mismunandi aldri og sjúkdómurinn misskæður eftir tegund, staðsetningu og dreifingu.  Horfurnar eru því misgóðar/daprar skv. tölfræðinni.  En hún segir ekki allt.

Sumir hafa leyft öðrum að fylgjast með gangi mála á blogginu og kemur það sér oft vel, ekki síst ættingjum og vinum. Sá sem er að berjast við þennan vágest hefur oft á tíðum hvorki þrek né tíma til að vera í sambandi við alla til að leyfa þeim að fylgjast með og þá er bloggið mjög hentugt.  Það sem mér finnst einnig jákvætt er að með blogginu, t.d. hjá Ástu Lovísu, Hildi Sif,  Lóu og mörgum fleiri, hefur umræðan um krabbamein opnast og síður feimnismál en áður.

Ein af þeim hetjum sem hefur bloggað um sjúkdómsgang sinn er Gíslína Erlendsdóttir sem ólst upp í Miklahotshreppi á Snæfellsnesinu, einungis 46 ára að aldri.  Kjarnorkukona þar á ferð sem er að kljást við ólæknandi krabbamein í gallvegi.  Eins við má búast af slíkri kjarnokukonu, gefst hún ekki upp heldur berst áfram eins og ljónynja og hefur vakið aðdáun mína. Ég leyfi mér því að setja slóð hennar á forsíðuna mína og hvet alla til að kíkja í heimsókn til hennar.  Frábær penni með skemmtilegan og stundum "eitraðan" húmorWink

Gíslína er óhrædd við að fara ótroðnar slóðir til að öðlast bata og er ég þess fullviss að afstaða hennar á eftir að fleyta henni langt í baráttunni þannig að hún standi uppi sem sigurvegari. Ættingjar og vinir hennar hafa tekið af henni skarið og blásið til sóknar til að styrkja Gíslínu til að hitta Manning í Englandi.  Er sjónum beint að fyrirtækjum og einstaklingum í þeim efnum.  Bið ég sem flesta að styrkja hana til fararinnar.  Krabbameinssjúklingar eru tekjulitilir/-lausir, það þekki ég vel, þannig að þeir eiga fullt í fangi með að halda dampi.  Sumum tekst það ekki og er ég ein þeirra þannig að ég þekki slíkar aðstæður allt of vel.

SLóðin hennar Gíslínu er : http://www.blog.central.is/gislina 

Einnig er hægt að fara inn á slóðina hennar undir flipanum :Baráttukonur

Vona ég að hún fyrirgefi mér famhleypnina.

Ef einhver þekkir einhvern sem hefur lifað af lungnakrabbamein á lokastigi, sem ég veit að hefur gerst, bið ég hinn sama að setja sig í samband við Þórdísi Tinnu.  Reynsla annarra myndi koma henni vel núna.

Slóðin hennar er : http://thordistinna.blog.is/blog/thordistinna/

 


Ekki nógu gott

Úff, ég sem hélt að mér væri að skána!  Hiti, hósti og aftur hósti í dag.  Svaf út í það endalausa meira og minna í allan dag, ýmist skítkalt eða funheitt og sveitt, oj.....   Rifjar upp leiðinda minningar.  Virðist alltaf slá niður ef ég fer út.  Nú er það Siggi Bö á morgun, ef ég næ ekki í hann reyni ég að ná í Sigurð nafna hans lungnalækni. 3 vikur eru alveg nægur prófsteinn.  Þetta gengur allt tént ekki svona, í þetta skiptið þarf eitthvað meira að koma til en þrjóskan og að harka af sér. Sýklalyfin gagnslaus. Á ég að trúa því að inflúensan sé mætt á svæðið??? Ég trúi því ekki en óneitanlega minnir þessi krankleiki mig á hanaW00t

Hafsteinn kvaddi mig í nótt, ég man ekkert eftir því, umlaði eitthvað óljóst, er mér sagt. Crying  Var búin að vakna á klst. fresti til rúmlega 3 og þá greinilega steinsofnað eftir það. Þegar það gerist er óhætt að setja mig í hjólbörur og keyra mig út, ég rumska ekki við það.  Það er eins gott að við hittumst fljótlega eins og planað er.  Mér skilst að haustin í Búdapest séu æðisleg. Var að heyra í prinsinum, komin á leiðarenda, heill á húfi. 30°C hiti og mikill raki. Mig langar núna............

Náði að undirbúa það helsta fyrir kennsluna, svona rétt í tæka tíð. Ballið byrjar á morgun og kemur sér vel að fyrsta vikan verður stutt.  Hellings undirbúningsvinna eftir sem ég lýk væntanlega á næstu dögum og þá er hægt að anda léttar. 

Spennandi tímar framundan og miklar breytingar. Sumar kærkomnar og ánægjulegar á meðan aðrar eru súrari og erfiðari að kyngja.  Veit að söknuðurinn verður mikill þegar báðir krakkarnir eru farnir en það jákvæða við þetta allt er að þau eru að gera það sem þau hafa stefnt lengi að. Það gerir fjarveru þeirra mun bærilegri en ella auk þess sem þau eru orðin vel fiðruð.  En auðvitað verð ég lítil í mér til að byrja með, annað væri ekki eðlilegt.

Ennþá óvissa um stefnumörkun í ákveðnum málum, bíð afar spennt eftir viðbrögðum við atvinnuumsókn minni, allt mjög "duló".  Í öllu falli verðu kúvending á sumum sviðum, bíð með að tjá mig um það þar til málin skýrast.  Heima er bestWhistling

Hef verið fremur óvirk í að fylgjast með pólitíkinni heima, ekkert að græða á heimasíðu sveitarfélagsins enda lítið um fréttir, fundir fáir og fundargerðir loðnar eða hreinlega lítt upplýsandi. Þarf að taka mig á þeim efnum, álagið fer að minnka þannig að svigrúmið verður meira. Vona að menn átti sig á hæfisreglunni og kynni sér hana í botn.  Í öllu falli ættu að verða einhverjar breytingar á sveitarstjórninni í ljósi nýjustu stöðuveitingarinnar í sveitarfélaginu. 

Mér fannst reyndar svolítið skondið að hnjóta um umræðuvef heimasíðu Dalabyggðar en þar sendir maður í atvinnuleit póst á alla íbúa og spyr hvort ekki sé tekið vel á móti öllum í Dölunum. Sá maður hafði búið þar á árum áður en vonaðist til að geta snúið aftur.  Þessi fyrirspurn birtist á vefnum þann 14. ágúst og enginn búinn að svara honum í gær.  Auðvitað er tekið vel á móti öllum sem í Dalina vilja koma, skárra væri það nú Whistling

 

 


"Upp" risin

Það hafðist í dag að komast í föt og á fætur, að vísu í áföngum en allt hafðist þetta með þolinmæðinni. Mætti galvösk í afmæliskaffi til Kidda bróður sem tók á móti okkur, glerfínn og svakalega unglegur.  Hvernig fer hann að þessu??  Heilbrigt líferni spilar þar inn í veit ég, en vá......hvað hann lítur vel út, þau hjónin reyndar bæði.  Ég stefni á "extreme makover" fyrir mitt hálfrar aldar afmæli í haust.  Annars frábært að hitta stórfjölskylduna en hefði viljað sjá fleiri.

Er sem sé upprisin en vantar enn talsvert á að ég sé orðin góð, úthaldið skammarlega lítið í dag enda skriðið beint upp í sófa þegar heim var komið.  Ég gat hins vegar stjórnað liðinu, Haffinn mátti sjálfur setja í þvottavélina og undirbúa brottför sína til Ungverjalands í býtið á þriðjudagsmorgun.  Ég bæti honum þetta upp á morgun, verð dugleg Whistling
Ekki laust við að það sé kominn smá herpingur í magan vegna brottfarar hans en veit að ég hitti hann fljótlega aftur.  Katan að fara á sunnudagsmorgun, eldsnemma líka.  Það verður sett upp loftbrú á milli Búdapest og Íslands í vetur enda nóg um að vera.

Er smá spæld yfir því að hafa þurft að eyða þessum fáu frídögum mínum í þessa pest, handónýt til alls og við sem ætluðum að geta svo margt. M.a að skeppa á Þingvöll, fara heim, kíkja í ber og ég veit ekki hvað og hvað.  Það verður að bíða betri tíma. Höfum reyndar átt "quality time" saman, hvert og eitt kúrandi í sitthvorum sófanum með teppi og notalegheit.

Úff, ekki laust við að þessi pest hafi minnt mig illþyrmilega á nýafstaðin veikindi og lyfjameðferð, hóstinn búinn að vera skelfilegur.  Ekki sælar minningar þar á ferð, skil eiginlega ekki hvernig við, sem höfum fengið krabbamein og þurft meðferð, komumst heil út úr þeirri vegferð. Auðvitað er maður reiðubúinn til að leggja slíkt á sig og meira en það í baráttunni við þennan skratta en ég er þess fullviss að enginn sem ekki hefur gengið í gegnum þetta ferli, veit hvað það er erfitt og skelfilegt tímabil í raun.  Á ég þá ekki einungis við líkamleg einkenni og aukaverkanir heldur og einnig andlegu líðanina, óvissuna, áfallið, og eftirköst þess.  Pollýönnu hlutverkið og allt það. Þrátt fyrir áratuga reynslu í hjúkrun, gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu erfitt þetta væri, taldi mig þekkja ferlið og líðanina út í gegn.  Þar skjátlaðist mér en á móti kemur það að ég er reynslunni ríkari, sterkari einstaklingur og laus við árann.

Nú fer mín snemma í háttinn, fyrsti vinnudagurinn í skólanum á morgun, allt að bresta á.  Þarf að finna mér starf sem ég get sinnt samhliða kennslunni enda launin ekki nægileg til að reka heimili sem eina fyrirvinnan.  Hef ákveðið á láta enn reyna á atvinnumöguleika mína í heimabyggð, bíð spennt eftir niðurstöðum um það hvort menntun og reynsla hafi vægi þegar kemur að vali á umsækjendum og mati á hæfni.  Nýtt fólk við stjórnvölinn sem boðaði breytta og bjarta tíma og lýðræði þar sem jafnræðis gætir. Sturlungaöld á að vera liðin hjá og stríðsöxin grafin.  Spennandi tímar framundan á krossgötunum og gaman að vera tilW00t


Ótímabær pest

Lítt betri af "pestinni", hósta og gelti áfram.  Uppköst meira og minna í alla nótt enda seint skipt um legustellingar í dag sem fólust í að fara úr rúmi yfir í minn hjartfólgna sófa.  Hef þá alla vega sjónvarpið til að glápa á stað veggjanna eða sólarinnar sem virkilega er fúlt.  Að geta ekki nýtt þennan sólríka dag, skömmu áður en Haffinn fer út, er einfaldlega fúlt.Sick

Það er huggun harmi gegn að krakkarnir eru ekki of borubrattir sjálfir eftir útstáelsi framundir morgun, það dregur aðeins úr móralnum. Whistling

Skil reyndar ekki í slíkri pest á þessum árstíma, ef ég visssi ekki betur, teldi ég infúensuna komna. Búin að lofa sjálfri mér því að fara á Læknavaktina ef ég verð ekki betri á morgun.  Stórafmæli hjá Kristni bróður á morgun, eins gott að fara hysja upp um sig og batna. En núna er það sófinn áfram og að reyna að koma einhverju niður (ojjjjjjjj)  Fátt annað í stöðunni.


Áfram hóst og gelt

Búin að vera hælismatur í dag, hóst, kitl og gelt út í það endalausa.  Hiti, beinverkir, kuldahrollur og hvaðeina.  Framtakssemin eftir því.  Skelfilegt að eyða fríinu sínu með þessum hætti.  Er ósköp fúl yfir þessari uppákomu.  Hún ætti ekki að koma mér á óvart, Haffi búin að vera með sömu pestina og það er orðið býsna kalt, alla vega á morgnana og á kvöldin.

Í dag stóð til að henda rusli og dóti.  Löngu orðið tímabært að snurfusa og losa sig við pappakassa, gamalt dót og annað sem á heima á haugunum.  Nú átti að taka á því áður en krakkarnir fara út.  Eitthvað fór lítið fyrir mínu framlagi í þeim efnum, fór í 2 skápa og þar með var það upptalið.  Haffi eins og herforingi fór tvær ferðir með fullan bíl í Sorpu en lítill munur sést enn.

Það er því blessaður sófinn í kvöld, sjónvarpið og poppið.  Hef ekki einu sinni heilsu til að grufla í kennsluáætlunum. Gjörsamlega andlaus en auðvitað brosandiSmile

Einn kosturinn við þennan krankleika er sá að nú hef ég fylgst með sjónvarpsfréttum. Ótrúlegt að fylgjast með Grímseyjarklúðrinu.  Ugglaust á ráðgjafinn stóran þátt í því klúðri en eru það ekki vegamálastjóri, ráðuneytisstjóri, ráðherra og ríkisstjórn sem bera endanlega ábyrgðina (í þeirri röð)?  Er ekki verið að hengja bakara fyrir smið?

Ég segi það enn og aftur, ég hef ekki trú á því að hveitibrauðsdagar þessarar nýju ríkisstjórnar verði langir.  Sjálfstæðismenn með óbreytta stefnu og vinnubrögð og ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki enn komið niður á jörðina.  Öll raunveruleikatengsl eru rofin á þeim bæ og það bókstaflega riginir upp í nefið á sumum þeirra.  Svo virðist sem völd og titlatog sé það sem sóst var eftir af þeirra hálfu.  Menn þvaðra út og suður í krafti embættis síns, í bullandi mótsögn við ríkisstjórnarsáttmálann.  Ég hef ekki trú á því að Ingibjörg Sólrún nái að hafa hemil á óstýrlátum froðusnökkum.

Verð vonandi hressari á morgun, mörg verkefni liggja fyrir, eiginlega út í það endalausa og kennsla að byrja eftir helgi.  Ætla rétt að vona að við náum að gera eitthvað skemmtilegt áður en Haffi fer út á þriðjudaginn.  Urrrrrrrrrrrr, þennan fja...... ætla ég mér að losna við hið snarasta.

 

 


Það léttir til

Líðanin mun betri í dag en síðustu daga, bæði andlega og líkamlega.  Ákvað það í morgun að hætta að velta mér upp úr því sem ég get ekki haft áhrif á eða fæ ekki breytt.  Mætti því brosandi til vinnu í morgun og það bros hefur haldist út daginn.  Ég fæ ekki öllu ráðið, frekar en aðrir og verð að bíta í það súra epli að vera háð öðrum í sumum málum.  Getur verið ansi óþægileg tilfinning, engu að síður.

Ég held að við öll séum því merki brennd að vilja hafa stjórn á eigin lífi, að sem flestu leyti.  Flest okkar vilja einnig sjá fram fyrir tærnar á okkur og vita hver næstu skref eru í lífinu en stundum eru aðstæður þannig að það er ekki hægt.  Þá er bara að taka því og brosa framan í lífið.

Ég verð áberandi mikið vör við það í hinum ýmsu "krísum" og óvissu að þolmörkin eru lægri en áður. Sveiflurnar hafa verið meiri og mínir nánustu hafa fundið það.  Kenni ég veikindunum og hinum ýmsu áföllum þar um, hef svo oft staðið frammi fyrir því síðustu 4-5 árin að fótunum hafi verið kippt undan mér fyrirvaralaust og á ýmsum sviðum. Á ég þá við búsetuskilyrði, atvinnu, fjárahag, fjölskyldu, vináttu og heilsufar.  Eftir því sem áföllin hafa verið fleiri, hef ég lagt meiri áherslu á að hafa "allt undir control", tilbúin með varaleiðir út úr öllum málum, komi eittthvað til með að klikka.  Ég lærði það fljótt í pólitíkinni að búast alltaf við hinu versta, vera á undan andstæðingnum með næsta leik og tilbúin með fleiri en eina leið út úr málum.  Ekki beinlínis uppbyggilegt lífsform en þetta var nauðsynlegt til að hreinlega lifa af.  Og ég lifði afW00t

Þrátt fyrir harðan skóla og erfið lífsskilyrði síðustu árin, verð ég að viðurkenna að þessi skóli hefur verið lærdómsríkur.  Reynslan hefur verið góður grunnur í þeim erfiðleikum og sorg sem dunið hafa á okkur í litlu famelíunni síðasta árið.  Trúlega hefði okkur síður tekist að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum, hefðum við ekki haft þessa reynslu.  Ekki það að ég ætla ekki að þakka mínum óvildamönnum þann "skrápinn"FootinMouth

Síðasti dagurinn í sumarafleysingunum á morgun. Búið að vera frábær tími og ótrúlega gefandi að vera í mínu gamla starfi.  Allt gengið snuðrulaust fyrir sig, góður starfsandi og gott samstarf.   Mikill munur á mínu líkamlega úthaldi, beinlínis grét af verkjum eftir daginn fyrstu vikurnar en nú það góð að ég gat mætt í barnaafmæli eftir vinnu í dag.  Gat ekki stoppað lengi en kom þó við og hafði gaman af.  Ég hefði ekki trúað þessu fyrir nokkrum vikum.

Vinna og kennsla að hefjast í byrjun næstu viku þannig að "fríið" verður stutt enda búin að vera í fríi í allan vetur.  Í öllu falli er nýr kafli að hefjast í mínu lífi sem ég tek fagnandi.  Í honum verður ekki pláss fyrir hýenur né önnur óargardýr. 

Á enn langt í land m.t.t. úthalds og verkjastillingu en allt er þetta á réttri leið og einungis 6-7 vikur í næsta tékk. Þarf að taka föstum tökum á ýmsum málum og löstum, er loksins tilbúin til þessSmile  "Batnandi manni er best að lifa".

 

 

 


Fróðleiksmolar um lungnakrabbamein

Er aldeilis ekki skriðin upp í, Eyjólfur að hressast.  Hnaut um áhugaverða fróðleiksmola um lungnakrabbamein á Ísland.

Myndir og gröf tala sínu máli. Fengnar að "láni" af vef Krabbameinfélags Íslands

http://www.krabbameinsskra.is/index.jsp?icd=C33-C34

 

Yfirlit (2000 - 2004)
 Karlar ♂Konur ♀
Meðalfjöldi tilfella á ári6560
Hlutfall af öllum meinum10,4%10,0%
Meðalaldur við greiningu68 ár67 ár
Fjöldi á lífi í árslok 2004134150

 

 

nygengi-C33-C34

 

aldursbundidnygengi-C33-C34

 

lifun-C33-C34

 

Skelfilegur sjúkómur en ekki ósigrandi fjandi.  Er nokkur undrandi þó ég tali um kraftaverk í mínu tilfelli?  Mér eru gefnar allt að 70% batahorfur!


Styttist í vikulok

Þá styttist í lok vinnuvikunnar, einn dagur eftir.  Verð fegin að komast í helgarfrí. Þarf að skreppa heim, leggjast undir feld og hugsa málin. Er varla enn farin að trúa góðu fréttunum, ekki vön að vera svo heppin.Blush ´

Verkirnir enn verulegir, allur skrokkurinn undirlagður.  Vegna þeirra leyfði ég mér enga óhóflega bjartsýni. Nú er bara að ráðast á þá og finna góða lausn, þeir hamla mér nokkuð daglega og á næturna og hafa þannig áhrif á starfsorkuna.  Það hlýtur að vera hægt að vinna bug á þeim. Stefni að því að vera orðin verkjalaus þegar kennslan hefst eftir mánuð.

Ég tek undir með þeim sem hafa sett inn athugasemdir hjá mér, nú er bara að hella sér út í lífið aftur af fullum krafti.  Ég verð að nýta vel það tækifæri sem mér hefur gefist og njóta þess að vera til.  Sjúkdómshugsunin verður að víkja þar til annað kemur í ljós. Auðvitað verð ég á verði gagnvart einkennum sjúkdómsins, annað væri kæruleysi en í minni "remission" mun líf mitt ekki snúast um krabbameinið heldur lífið og það sem það hefur upp á að bjóða.  Ávextirnir gallsúrir þessa dagana en öl él birtir upp um síðir og í öllu mótlæti leynast tækifærin.

Einungis rúmar 3 vikur þangað til Hafsteinn fer aftur út, Katan fer stuttu seinna. Ótrúlegt hvað sumarið hefur liðið hratt. Mér finnst ég hálfpartinn hafa misst af því vegna vinnunnar en á móti hef ég notið þess að komast í mitt hugsjónarstarf.  Sjálfstraustið aukist í þeim efnum.  Plúsar og mínusar eins og allt í lífinu.

Er vonandi að skríða upp úr eymdinni, trúlega ekkert óeðlilegt að taka dýfur. En skelfing er leiðinlegt á meðan á þeim stendur, oj........... En er lífið ekki einmitt "ups and downs"?


Góðir hlutir gerast hægt

Símtalið kom í morgun, mín á kafi í vinnunni og miðju þroskaprófi með stelpuskottu. Gleðigjafinn; Sigurður Bö færði mér niðurstöðurnar.  Allt gott að frétta, engin merki um krabbamein í líkamanum.  Hann sagðist reyndar vera gleðipinni þegar ég spurði hann hvort hann væri gleðigjafi.  Hann stendur fyllilega undir því nafni.Smile Mér var eiginlega svo brugðið að ég hafði ekki rænu á að spyrja hann ítarlega út í niðurstöðurnar. Þorði ekki að vonast eftir svo góðum fréttum.  Búin að læra það af langri reynslu að vera hóflega bjartsýn.

Síðustu 2 vikur hafa tekið á, meira en ég átti von á. Sjúkdómsferlið hefur allt rifjast upp, biðin endalausa, aðgerðin og svo lyfjameðferðin sem var eitt það erfiðasta sem ég hef gengið í gegn um. Kalla þó ekki allt á ömmu mína.  Er eiginlega hálf dofin, ekki búin að hoppa hæð mína ennþá en ég veit að það kemur. Mér finnst það líkjast kraftaverki að vera í þessari stöðu nú, miðað við umfang og eðli sjúkdómsins.  Auðvitað veit ég að þetta getur breyst á augabragði en ég ætla að trúa Sigurði, ég er læknuð þar til annað kemur í ljós og laus við þennan fjanda. Ég leyfi mér að þora að trúa því.

Nú fyrst finnst mér ég geta farið að gera langtímaáætlanir og taka stórar ákvarðanir. Nú ætla ég að skipuleggja sumt a.m.k. ár fram í tímann, annað til lengri tíma.  Búin að vera stopp of lengi við ljósið sem er löngu orðið grænt, eins og einhver sagði við mig um daginn. Viðurkenni hins vegar að mér reynast ákvarðanirnar erfiðar sem er ekkert óeðlilegt miðað við þær krossgötur sem ég stend við.

Búið að vera ansi þungt í mér síðustu vikurnar vegna þessa alls og ekki síst vegna þess að ég hef skynjað og frétt um óvild annarra.  Ótrúlegt hvað sumir nenna að eltast við að leggja steina í götu mína, meira að segja löngu eftir að ég hröklaðist í útlegð. Eyði trúlega allt of miklum tíma og orku í að hugsa um tilganginn og ávinninginn fyrir þá en veit að hluta til um hvoru tveggja en breyti engu þar um. Ég treysti hins vegar fáum en þeir standa líka undir því trausti.  Sorgin er að naga mig og bíta sem er eðlilegur fylgifiskur breytinga.  Það þarf heldur ekki mikla vindhviðu til að ýfa hana upp.

Ætla að reyna að rífa mig upp úr þessu volæði og einbeita mér að uppbyggingu og jákvæðari hlutum. Gæti komið mönnum á óvart í þeim efnum. Áfram eru það litlu skrefin, hægt og bítandi. Það stoðar lítt að horfa alltaf um öxl.  Góðir hlutir gerast hægt.

 

 


Biðin endalausa

Ekkert símtal, engar fréttir í dag.  Ótrúlega langur og dauflegur dagur, satt best að segja. Andlaus og ekkert frumkvæði. Kláraði vinnudaginn skammlaust af skyldurækni, hefði mátt vera meira að gera. Status quo hvað varðar heilsufarið  Whistling.

Virðist eiginlega seinheppin þegar kemur að rannsóknum og greiningu, lendi alltaf í endalausri bið. Nú eru að verða 2 vikur síðan ég hitti lækni minn, lenti enn og aftur í bið eftir tækjum og rannsóknum og nú eftir niðurstöðum. Mér sýnist flestir byrja á rannsóknunum og hitta svo sinn lækni, jafnvel daginn eftir. Hálf pirrandi, mér finnst þetta ekki þurfa að vera svona en einmitt lýsir þetta því frábæra heilbrigðiskerfi sem ýmsir stjórnmálamenn róma og lofa.  Ekki er skilvirkninni fyrir að fara á þeim bænum, svo vægt sé tekið til orða.  Í öllu falli leiðist mér bið, neikvæð upplifun á kerfinu rifjast óþyrmilega upp, mér til mikillar gleðiTounge

Fremur drungalegt yfir en ég fagna þó rigningunni.  Ekki veitti af vætunni, gróðurinn "sólbrunninn" og skrælnaður.  Hins vegar er augljóst að daginn er farið að stytta, dimmir um tíma á næturna.  Minni mann óneitanlega á það að haustið nálgast. Reyndar eru haustin uppáhaldstíminn minn og kvíði ég engu í þeim efnum. Fer að koma tími til að undirbúa kennsluna í vetur, hlakka mikið til að byrja aftur.  Finnst eiginlega komið nóg af sumarvinnunni, hefði gjarnan viljað vera í fríi í ágúst þar sem krakkarnir fara út í kringum 20. Langar að gera eitthvað skemmtilegt með þeim áður en þau fara.

"Engar fréttir eru góðar fréttir" segir máltækið.  Ég verð að trúa því þar til annað kemur í ljós.Pinch


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband