Færsluflokkur: Veikindin
19.7.2007 | 22:28
Strembinn dagur
Dagurinn strembinn í víðasta skilning þess orðs. Upp snemma til mæta í Domus kl. 08.30. Að venju var bið, þó ekki nema 40 mín í þetta skipti. Tók ekki nema 7 mín að setja upp nál og dæla eitrinu í æð, síðan send heim í 2 tíma. Auðvitað sofnaði mín í þeirri pásunni en mætt á svæðið upp úr kl.11.00. Beinaskannið gekk vel og engar uppákomur.
Að skanninu loknu beið mín þessi einstaklega, ljúfa kvoða, heill líter sem ég mátti hella í mig á klukkutíma. Aftur sett upp nál, dælt í mig ólyfjan og síðan beint í sneiðmyndatökuna. Splunkunýtt tæki þannig að rannsóknin tók mun skemmri tíma en áður. Búin að bryðja stera og ofnæmislyf fyrir rannsóknirnar þar sem ég fékk bráðaofnæmi eftir sneiðmyndatökur í vetur.
Nú er það bara endalausa biðin sem tekur við, fæ vonandi niðurstöður eftir helgi.
Kostnaðurinn við herlegheit dagsins nam kr. 64.128 en þar sem ég er komin með afsláttarkort þurfti ég ekki að greiða nema 1/6 af þeirri upphæð, ríkið greiddi mismuninn. Þeir sem ekki eiga slíkt lúxus kort þurfa að leggja út fyrir slíkum upphæðum og fá endurgreitt eftir á. Believe it or not!! TR í minni heimabyggð flýtir sér ekki að endurgreiða slíkar upphæðir, alla vega ekki til allra þannig að mörgum munar um minna.
Ég var svo bjartsýn eftir herlegheitin að ég dreif mig í Smáralindina, varð auðvitað að komast á útsölu eins og allir aðrir. Í stuttu máli fór það nú þannig að ég fór í hverja einustu tuskubúð og hafði það upp úr krafsinu að finna eitthvað á krakkana sem reyndar voru himinlifandi. Minna fór fyrir tuskum á frúna en það er líka allt í lagi. Fitna svo ört að það borgar sig að bíða.
Var búin á því eftir daginn, skreið (í bóksaflegri merkingu) gráföl og óglatt inn í bíl með aðstoð Kötunnar, vissi ekki hvort ég gæti keyrt heim en það hafðist. Þar beið mín minn elskulegi sófi og klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Guðjón vissi hvað hann söng þegar hann valdi hann
"Vinir" mínir og aðdáendur ( ) í heimabyggð alltaf jafn yndislegir, einn þeirra toppar þó alla. Verð eiginlega að gefa út sannsögulega bók um þá sögu alla sem að liggur að baki ónefndri uppákomu kvöldsins. Ég er hrædd um að einhverjir súpi hveljur þegar sú saga verður sögð. En er það ekki svo að sannleikurinn er alltaf frásagna bestur? Mér var kennt það. Kannski bókin verði heimildarit um persónuvernd og trúnað, ekki síst í viðskiptum. Heimildarskráin alla vega til staðar. Kannski ég komist í viðtal í Mannlíf, hver veit
Menn ættu að vera farnir að kynnast því heima að ég er svo "kyngimögnuð" kona og fær um allt, meira að segja að ráða yfir lífi og örlögum annarra. Kannski er ég norn enda "af vondu fólki" komin
Veikindin | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2007 | 23:38
Anda djúpt og ...............
Fékk góð og holl ráð við síðustu færslu, orð sem sannarlega hittu í mark og komu mér niður á jörðina. Í stað þess að horfa í örvæntingu til allra átta er skynsamlegra að "láta sig fljóta" aðeins og bíða átekta. Lausnin ratar til manns og málin leysast á réttum tímapunkti. Í öllu falli þegar maður sjálfur er tilbúinn
Það að finna ekki kompásinn, vera rammvilltur, þurfa að taka til ótal, mismunandi aðstæðna og aðila á sama tíma og þóknast öllum, getur gert hvern mann vitlausan og í raun ekki á færi eins eða neins. Ætla að einbeita mér að verkefnum dagsins hverju sinni og gera mitt besta.
Búin að fá staðfestingu á fimmtudeginum, fer í sneið og skann skv. áætlun. Réttir varahlutir rötuðu í hús, var mér tjáð í dag. Niðurstöður vonandi eftir helgi.
Komst á góðan skrið seinni partinn við að byrja á erfiðum málum, kannski er staðan ekki eins vonlaus og ég hélt, hver veit? Það verður bara að koma í ljós. Enginn sófalúr í dag og verkirnir eftir því. Er komin í gang sem skiptir öllu máli. Nú er að halda dampi og gæta þess að pompa ekki niður. Af nógu er að taka næstu daga og vikur, nú reynir á að draga andan djúpt ot telja upp á tíu
Veikindin | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.7.2007 | 21:23
Austur eða vestur, norður eða suður?
Ég hef ekki hugmynd hvaða stefnu ég á að taka í mínu lífi. Á ég að stefna austur eða vestur eða kannski norður eða suður? Úff, ég veit það hreinlega ekki. Ferlegt að standa á krossgötum án þess að biðja um það sjálfur og vita ekki í hvorn fótinn maður á að stíga. Ekki bætir úr skák þegar aðrir, persónulega eða í krafti embættis síns, reyna að stjórna því fyrir mig. Þá fer ég gjörsamlega á hvolf
Ég er búin að vera í "haltu mér, slepptu mér" dæmi um nokkurt skeið, get hvorki haldið né sleppt. Hrikaleg hringekkja sem hellist yfir mig á hverjum degi, verst á kvöldin og um helgar enda nóg tóm til að hugsa þá. Ekki bætir úr skák að hafa greinst með þennan bjév..... sjúkdóm! Get ekki planað neitt að ráði fram í tíman, hámark 3 mánuðir í senn. Auðvitað á ég að vera þakklát fyrir horfur mínar og hvernig allt hefur gengið vel fram til þessa, margur er í mun verri sporum en ég. Ég á hins vegar erfitt með að fóta mig í þessum aðstæðum, "makalaus" og ein á báti. Ég gerði aldrei ráð fyrir því.
Til að gera stöðuna flóknari sem er svo sem ekki nýlunda í mínu lífi, er mér gert ókleift að starfa í heimabyggð og þarf að miða alla afkomu mína við störf fjarri henni. Vegalengdir yfirleitt það miklar að ekki gengur að keyra á milli daglega. Urrrrrrrrrr............, hvað þetta er pirrandi. Gleður, veit ég, suma.
Ég er þó með einn útgangspunkt á hreinu; í Reykjavík vil ég ekki búa. Hef neyðst til þess að vera hér vegna veikindanna og atvinnumöguleikana en mér finnst komið nóg af þeirri dvöl. Út frá þessum punkti verð ég að velja; austur, vestur eða norður, suður Vandamálin og erfiðleikarnir stundum óyfistíganlegir og ég sé ekki fram úr þeim, grrrrrrrrrrr............ Það fer illa í mína.
Vona að ég finni áttavitann, erfitt að vera korktappi úti á rúmsjó, ekki síst haugasjó, skoppandi stefnulaus þvers og krus um allt. Mér finnst mun auðveldara að ráðleggja öðrum en að finna réttu ráðin fyrir sjálfan mig. Skelfing er þetta allt saman flókið. Ég verð að fara að rífa mig upp úr þessari eymd og volæði, annað gengur ekki, mér er farið að sárverkja í hnén. Hvar er fj..... kompásinn?
Svei mér ef það verður ekki allra meina bót að komast í vinnu á morgun! Hef ekki gott af of löngum fríum, þarf að hafa nóg fyrir stafni. Úff, hvað ég er fegin að helgin er búin. Mun fylla lagerinn af CVD myndum og poppi fyrir næstu helgi............................ Gvöððð, ég hljóma eins og níræð piparmey Mér væri nær að vera duglegri að skrifa "Dalalíf", af nægum verkefnum er þar að taka.
Veikindin | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2007 | 20:41
Hetjur
Enn ein hetjan fallin fyrir krabbameininu. Ung og falleg kona sem hefur sýnt fádæma styrk og barátturkraft í sínum veikindum. Hún, líkt og aðrar hetjur, neitaði að gefast upp fyrir þessum vágest sem sjúkdómurinn er.
Fréttir sem þessar minna mann á hversu lífið er dýrmætt en stutt. Góð heilsa er ekki sjálfsögð forréttindi og ber að virða sem slíka. Lífinu á maður að lifa lifandi, njóta hverrar stundar en dvelja ekki við vonbrigði, áföll og veraldlega hluti sem skipta ekki máli. Fortíðinni getum við aldrei breytt, einungis dregið lærdóm af henni. Að eyða dýrmætum tíma í að sýta orðinn hlut er engum til gagns. Það er dagurinn í dag sem skiptir máli, okkur á að hlakka til morgundagsins og forðast þá sem vilja skaða mann og meiða.
Ein önnur hetja, Þórdís Tinna, berst við lungnakrabbamein á lokastigi. Skrif hennar hafa oftar en ekki verið mér innblástur og hvatning. Ótrúlega jákvæð og sterk kona og fyrirmynd margra í hennar sporum. Ég er stolt af þjóðinni fyrir að styrkja hana í baráttunni og yndislegt hvað hún er ákveðin í að njóta hverrar mínútu með dóttur sinni. Samhugur í verki hefur stuðlað að því að einhverju marki að hún geti það. Við Íslendingar kunnum að standa saman og Þórdís á marga góða að.
Búin að fara í mitt tékk til Sigurðar Böðvars, léttir að hitta hann. Blóðprufur á morgun og skann og sneiðmyndir í næstu viku og svör í þar næstu ef tækin hjá Domus verða komin í lag. Allt lítur vel út, fram til þessa, Sigurður sáttur við framfarir mínar. Nú er bara að krossleggja fingur, sjálf er ég bjartsýn en storka ekki örlögunum.
Úthaldið smátt og smátt að koma, veit að vinnan gerir mér gott þegar upp er staðið. Þvílík forréttindi að geta unnið og ekki spillir fyrir ef maður gerir öðrum gagn.
Veikindin | Breytt s.d. kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)