Færsluflokkur: Veikindin

Allt upp á það besta

Mér gekk vel í dag. Mætti galvösk og hitti minn lækni sem hætti við að vera á ráðstefnunni, mér til ómældra ánægju. Við áttum langt og gott samtal þar sem við fórum yfir stöðu mála og áætlunina fram undan. Hún liggur reyndar ekki alveg fyrir ennþá en en reiknað er með því að ég fari daglega í geisla, fimm daga vikunnar, frá og með næstu viku og einu sinni í viku í lyfjagjöfina. Svona mun planið líta út, alla vega fyrstu 2-3 vikurnar en auðvitað ræðst þetta allt af því hvernig ég þoli meðferðina. Eftirlit með árangri verður þétt, skilst mér.  Var eins og malandi köttur eftir viðtalið, mér fannst ég búin að fá svör við öllum þeim spurningum sem ég var með á reiðum höndum. Mundi þó eftir ýmsu sem ég gleymdi þegar heim kom sem bíður betri tíma.

Á göngudeildinni er stunduð svokölluð einstaklingshæf hjúkrun sem felst m.a í því að sami hjúkrunafræðingurinn sinnir ,,sínum sjólstæðing" á meðan meðferð stendur. Ég varð ekki lítið glöð þegar hjúkrunarfræðingurinn ,,minn" sem sinnti mér í síðustu meðferð, tók á móti mér og kemur til með að vera minn meðferðaraðili á meðan lyfjagjöfinni stendur. Mér finnst þetta fyrirkomulag vera forréttindi, þarna er ég með minn tengilið sem þekkir mig út og inn, veit allt sem þarf að vita um mig og grípur fljótt inn í þegar þörf er á.  Að þurfa ekki að endurtaka allt, byrja upp á nýtt í hverri viku, aðlagast stöðugt nýjum tengilð er lúxus sem ekki má gera lítið úr. Alla vega upplifi ég mikið traust og trúnað gagnvart mínum hjúkrunarfræðing og lækni sem ég er líka farin að þekkja. 

Ég er ekki að gera lítið úr öðrum hjúkrunarfræðingum, veit að þeir eru upp til hópa framúrskarandi á deildinni, enda hvernig má annað vera? Það þarf nefnilega mjög heilsteypta og þroskaða einstaklinga til að annas starf eins og það sem fer fram á krabbameinsdeildum þar sem hjúkrunarfræðingar og aðrir standa daglega frammi fyrir erfiðum veikindum, lyfjagjöfum og aukaverkunum svo ekki sé minnst á nálægð dauðans og syrgjandi aðstadendur.  Það segir sig sjálft að til þess að geta sinnst slíku starfi af alúð, þarf einstakan karakter. LSH býr að miklum mannauð í þeim efnum. 

Fyrsta meðferðin gekk sem sé mjög vel í dag og aukvaverkanir engar, enn sem komið er. Fékk steragjöf í æð ásamt  fleiri lyf áður en hin eiginlega meðferð hófst. Var kannski ekki alveg upp á mitt besta þegar í mætti í dag, illa sofin eftir erfiða nótt og eiginlega fjandi verkjuð líkt og síðustu sólahringana. Eiginlega satt best að segja. Þurfti  ekki að bíða lengi eftir að fá verkjalyf í stunguformi sem gerði það að verkum að ég náði að sofa og svaf eins og prímadonna á meðan lyfið rann inn. Verkjalyfin hér heima aukin í samræmi við þessa versnun og svo krossleggjum við fingur og vonumst til að meðferðin skili sér fljótt í mini verkjum og betri líða almennt. Lyfjakostnaður dagsins nam tæpum 15. þús. kr. og dugar hluti hans í viku, annar í viku til tíu daga. Aðeins lægri upphæð en í síðustu viku enda færri lyf í þetta skiptið. Það munar.

Mæti í fyramálið í svokallaðan undirbúningstíma fyrir geislanna þar sem ég verð mæld og tússuð bak og fyrir til að tryggja að ég fái rétt magn af geislum, á réttan stað og á réttum tíma. Tekur einhvern tíma er mér sagt. Geislameðferð hefur fleygt mög fram síðustu árin. Áður fyrr var geislum ,,slumpað" á það svæði sem átti að ráðast á sem gerði það af verkum að sjúkligurinn var bæði að fá meira magn af geislum en þörf var og svo hitt að geislasvæðið var óþarfa stórt. Nú er geislum skotið nákvæmlega á það svæði sem um ræðir, ekkert umfram það. Þannig er hægt að halda aukaverkunum í lágmarki o.s.frv.

Er alveg skelfinleg með hátta- og svefntímann. Mér hættir alltof oft til að sofna yfir fréttum og langt fram á kvöldið með þeim afleiðingum að ég er glaðvakandi seinni part kvölds og fram eftir nóttu. Er ekki eins hress á daginn, það gefur auga leið.  Maður þarf víst að vaka eitthvað líka - eða hvaðW00t

Ég ætla því að gera tilraun til að henda mér útaf, er búin að endurnýja birðgir af krossgátum ef illa fer. Bráðvantar eintök af eldri krossgátum, er búin að spæna upp hvert útgefið eintak síðustu 2 árin þannig að mig er farið að vanta ,,ný/gömul" eintök. Veit einhver hvar slík blöð er hægt að kaupa?  Er búin að þræða bensínstöðvar og bókabúðir. Í harðindum hef ég strokað út þær krossgátur sem ég er búin með en það er leiðinlegt til lengdar og plássfrekt fyrirkomulag í þokkabótTounge

Nenni ekki að velta mér upp úr atburðum dagsins í efnahgslífinu. Geri fastlega ráð fyrir því að fréttamenn muni tilkynna okkur afdrif og áætlun Kaupthings. Það liggur í augum uppi hvað framundan er hjá þeim.  Ætla rétt að vona að gjaldeyrismál fari að skýrast og rétta úr kútnum áður en hundruðir nemenda í háskólanámi flosna upp. Hver yrði áhrifin á atvinnu- og efnahgsmálin þá ef svo illa færi?


Stím á fulla ferð

Þá er ferlið hafið og stímað áfram á fullri ferð. Byrja í lyfjameðferð nk. miðvikdag (8. okt) og í geislum sennilega í vikunni þar á eftir. Mér skilst að ég fái nýtt lyf sem hefur mun minni aukaverkanir en þau lyf sem ég fékk síðast, mér til mikillar gleði. Átti mjög erfitt með að þola ógleðina, rugguveikina og allt sem þá fylgdi. Kem til með að mæta vikulega í lyfin en trúlega daglega í geislana þegar þeir byrja, markmiðið að minnka meinið það mikið að það verði skurðtækt. Til vara ,,að grilla það" þannig að það verði dautt.

Byrjaði á steraskammt í dag, reikna með því að verða tuskuóð á næstu dögum, upp um alla veggi að þrífa og gera fínt. Sterarnir lyfta mann náttúrlega upp á allt aðrar hæðir þannig að það verður fjör hjá minni. Matarlystin á eftir að aukast og almenn líðan að skána. Verð komin í topp stand á miðvikuidag, sem sé.

Litla famelían er  svona að ná að melta þessar fréttir sem í raun áttu ekki að koma neitt á óvart. Er búin að vera hundlasin í allt sumar, unnið að hluta til með þrjóskuna sem eldsneyti enda líður mér hverrgi betur en í vinnu. Síðustu vikur hafa verið skrautlegar, verkirnir oft óbærilegir og úthaldið nánast ekkert þannig að margur dagurinn hefur farið í það að reyna að koma sér á fætur til þess eins að snúa sér við í sófanum, hundsvekktur yfir aumingjaskapnum. Önnur veikindi hafa spilað þar inn í en þessi hafa ekki hjálpað. Það er nú einu sinni svo að maður finnur svona nokk á sér, eftir að hafa kynnst þessum ára sem krabbameinið er. 

Á meðan meinið er staðbundið og ekki stærra en það er, mælist nú 3,0 x 3,4 cm, er full ástæða til bjartsýni með þau meðferðarúræði sem mér standa til boða. Engin merki eru um meinvörp í þessu eina lunga sem ég á eftir en það er svo sem ekki á fullum dampi.  Menn eru fljótir að ræsa vélarnar núna þannig að sá tími sem fer nú í bið, lágmarkast.  Auðvitað erum við ekkert kát með þessa stöðu, krabbamein er alltaf krabbamein og lungnakrabbamein með því skæðasta sem hægt er að fá en ekkert er útilokað og til eru þeir einstaklingar sem komast í gegnum slík veikindi. Ég ætla mér einfaldlega að vera ein af þeim en óneitanlega hefði verið æskilegra að hafa byrjað meðferð nokkru fyrr en nú. Það stoðar hins vegar lítt að gráta það, svona er staðan.

Næstu vikur eiga eftir að taka á, mér finnst æði mikið lagt á krakkana.  Síðustu 4-5 árin  hafa verið æði skrautleg, ekki síst vegna þátttöku minnar í pólitík. Sú reynsla gekk nærri þeim, mér er til efs að þau jafni sig á þeim að fullu en þau hafa svo sannarlega náð að nýta sér reynsluna sem þessu brölti fylgdi og meiðandi áhrif á alla fjölslylduna.

Einhvern veginn hafa málin þróast þannig að þegar eitt vandamál er frá, kemur annað, hvert á fætur öðru án nokkurs láts. Ég er náttúrlega orðin mun sjóaðri en þau og hef meiri reynslu til að kljást við áföllin. En bæði hafa sýnt ótrúlegt ærðuleysi og mikinn þroska. Ég veit að ég gæti aldrei farið í gegnum þetta án stuðnings minna barna og óneitanlega hefði það verið styrkur að hafa hægri höndina til að styðjast við.  Við erum rækilega minnt á það að við erum ekki eilíf, ekkert okkar. Því þurfum við að lifa lífinu í samræmi við það. Morgundaginn getum við ekki tekið aftur en við getum nýtt hann til að byggja upp næsta dag.

Allir sem greinast með illkynja og langvinna sjúkdóma  hugleiða það sama; lífið og dauðan.  Ég er engin undantekning og er alls ekki tilbúin til að kveðja þessa jarðvist. Það má heita eigingirni en á á eftir svo margt ógert auk þess sem ég vil fylgja mínum börnum lengur. Sjá þau eignast eigin fjölskyldu, lúka námi og koma undir sig fótunum. Ég á eftir að ná ótal markmiðum, þrái ótrúlega margt, rétt eins og allir. Á eftir að leiðréttta ýmislegt,  fjölga gleðistundum í lífi krakkanna sem hafa þurft að reyna of mikið af völdum annarra og skapa þeim trygga framtíð.  Mér finnst ég ekki hafa farið nægilega vel með tíman minn í þeim efnum. Þessi uppákoma ýtir við mér.

Svo er það óttinn við það óþekkta, ég veit ekkert hvað tekur við eftir að lífi hér á jörðu lýkur. Trúin boðar að himnaríki og sæla bíði manns handan við landamærin og það má allt satt vera en allar slíkur boðskapur er huglægur og svo sannarlega ekki byggður af vísindalegum staðreyndum þannig að sumum gengur ver en öðrum að tileinka sér hann. Ég geri ekki lítið úr honum, tek honum örugglega fagnandi en vantar áþreifanlegar sannanir. Ég veit þó að við fáum öll styrk annars staðar frá og ekki er hægt að neita því að fyrirbænir og hlýjar hugsanir hjálpa.

Það verður nóg að gera næstu dagana, nú hef ég reynsluna varðandi kerfið sem ég mun svífa á strax á mánudag. Mér stendur til boða ýmiss aðstoð, þ.á.m. hjá félagsráðgjafa sem ég hyggst nýta mér og létta mér þannig róðurinn. Fröken Jósefína er enn á sínum stað, ónotuð blessunin, en mér skilst reyndar að hármissir sé ekki algengur fylgifiskur þeirrar meðferðar sem bíður mín.  Hef ekki þrek til að vera mikið á ferðinni en veit að sterarnir flytja mig upp á aðrar hæðir í þeim efnum þannig að ég hyggst nýta mér þá vítamínsprautu til framkvæmda. Það er nokkurt ferli sem býður varðandi Tryggingastofnum, s.s. örorkulífeyrir og afsláttur lyfja sem munar um þó upphæðir séu lágar. Hef einsett mér að reyna að komast í eins konar endurhæfingu eða þjálfun um leið og ástand leyfir þannig að nú verður tekið á málum með öðrum hætti en síðast. Það verður svo að koma í ljós hvernig gengur.

Það er því ákveðinn léttir að vera komin af stað, vita hver óvinurinn er og hvaða leiðir eru færar gegn honum. Ég er því nokkuð bjartsýn og ætla að láta þetta ganga með góðra manna hjáp. Ég er rosalega þakklát fyrir innlitið á bloggið og hlýjar kveðjur, þær hafa sannarlega sýnt mátt sinn, takk fyrir migHeart

 

 

 


Ekki á allt kosið

Þá liggja niðurstöður fyrir eftir allt bröltið. Hitti minn doktor í gær  sem var svo sem ekki boðberi góðra frétta. Meinið hefur tekið sig upp aftur eins og okkur hefur grunað síðustu mánuði. Öll teikn voru á lofti.  Við eltum reykinn en fundum aldrei eldinn.  Mér er það með öllu óskiljanlegt af hverju það kom ekki fram fyrr en ég lá inni í lok júlí, þá nýbúin að fá þær niðurstöður að allt væri hreint. En svona er þetta og ég get ekki sagt að ég sé undrandi en fúl er ég.

Jákvæðu fréttirnar eru þó þær að meinið er staðbundið í sárbeðnum þar sem hæ.lungað var staðsett og fjarlægt. Engin merki eru um meinvörp sem gerir þetta einfaldara dæmi. Ekki er hægt að fjarlægja meinið með skurðaðgerð þar sem það er staðsett á bak við hjarta en það getur breyst þegar meðeferð er hafin. Framundan er því meðferð, bæði lyf og geislar en eftir að ákveða hvort ég fái annað hvort í einu eða bæði á sama tíma. Fæ vonandi fréttir af því á morgun.

Ég er auðvitað hundfúl yfir þessum fréttum en það er ákveðinn léttir að vita við hvað maður er að kljást, ekki síst þegar heilsufarið er búið að vera bágborið. Ég hef hvorki verið fugl né fiskur síðustu vikur og mánuði, þurft á öllu mínu að halda til að vera á fótum almennt, sérstaklega síðustu vikurnar. Nú verður hægt að ráðast í þetta og ég tel víst að verkir og önnur óþægindi munu minnka eftir því sem líður á meðferð.

Ég get ekki sagt að ég sé spennt fyrir lyfjameðferðinni, fannst hún algjört helvíti (afsakið orpbragðið) síðast en hef það forskot núna að vita hvað bíður mín þannig að ég kem örugglega til með að þola hana betur en síðast.  Ég hef þá trú að ég sé almennt í betra ástandi nú en þegar ég hóf meðferð fyrir tæpum 2 árum sem á eftir að auðvelda ferlið. Kvíði ekki geislameðferðinni enda aukaverkanir almennt mun minni. En þetta er á sig leggjandi þar sem sú tegund sem ég greinist með, svarar vel geisla- og lyfjameðferð. Ég myndi ekki leggja hana á mig nema að ávinningur sé nokkur, það er á hreinu.

Krakkarnir tóku þessum fréttum með miklu æðruleysi enda með ólíkindum hvað þau eru raunsæ. Auðvitað er þeim brugðið enda þessi uppákoma ekki endilega heppileg núna þegar þau eru í námi en svona er þetta bara og við tökumst á við þetta saman. Það er engan bilbug á okkur að finna né uppgjöf. Þessi uppákoma setur strik í reikninginn að mörgu leyti en við tökumst á við það.

Ég kvíði mest þeim erfiðleikum sem fylgja veikindunum og meðferðinni. Þau setja ekki bara strik í fjármálin og allt fer á hvínandi hvolf - aftur!  Þau setja einnig strik í  félagslífið og starfið. Er varla búin að rétta við úr kútnum eftir síðustu veikindin. Kerfið miskunarlaust og óvægið - bankarnir líka. Ekki bætir núverandi efnahagsástand og horfur úr skák. Áhyggjurnar vegna tekjutaps og tilheyrandi eru oft erfiðari en veikindin sjálf svo ekki sé minnst  á þá tilfinningu að vera óvinnufær. Ég á ekki endalausan veikindarétt og hef þegar eytt töluvert af honum í ,,hangs" og bið eftir greiningu sem hefði átt að liggja fyrir a.m.k. í byrjun ágúst en ég tel mig vera búna vera með einkenni síðan í mars, alla vega.  Það stemmir við niðurstöðurnar.

Maður fær víst ekki við allt ráðið við í lífinu. Sumir fá stærri skammt af erfiðleikum en aðrir eins og gengur og við mis vel í stakk búin til að takast á við mótlæti. Af hverju veit ég ekki og fæ sennilega aldrei svör við.  Fátt annað að gera en að spýta í lófana þegar á móti blæs.  Fæ vonandi fréttir af væntanlegri meðferð á morgun, reikna jafnvel með því að hefja meðferð í næstu viku. Þangað til þarf ég að nota tíman til að snúa  sólahringnum til betri vegar og undirbúa mig undir herlegheitin. Ætla mér að sækjast eftir allri þeirri þjónustu sem mér býðst í þetta skiptið enda meðvitaðri nú en síðast um rétt minn og reynslunni ríkari. Kerfið sem er algjört bákn, vex mér ekki lengur í augu, farin að kannast við það og það sem ég þekki ekki, afla ég mér upplýsinga um, þó það taki á að ræða við margan opinbera starfsmanninn. Kannski leikurinn verði auðveldari með hinni nýju stofnun sem ríkið var að setja á laggirnar?

Ég mun tryggja það að hafa nóg fyrir stafni á næstu vikum og mánuðum. Ætti að fá nægan tíma til að vinna í bókinni minni sem setið hefur á hakanum um stund. Alla vegar er af nógu að taka þegar kemur að verkefnum á þessum bæ. 

Við hér, litla famelíen, tökum þennan slag og setjum markið hátt enda teljum við okkur eiga innistæðu fyrir því. 


Ekki laus enn

Er ekki nógu sátt eftir daginn. Hitti minn spesialist í morgun sem fór yfir rannsóknirnar. Virðist  skv. niðurstöðum þó ennþá heil í kollinum og beinaskannið í lagi fyrir utan ummerki ótal rifbeinsbrota og inngrips eftir brjóstholsaðgerðina. Staðan á þeim beinum gefur ærið tilefni til verkjanna í brjóstkassanum enda fjölmargar taugar- og taugaendar sem liggja um svæðið til beina og vöðva í skralli. Verð að búa við það ástand ævilangt en menn eru að prófa sig áfram með meðferð á þeim verkjum sem gengur skítsæmilega. Ekki er að sjá neitt óeðlilegt við sneiðmyndina af kvið en sú sem var tekin af brjóstholinu var ekki eins jákvæð. Einhverjar breytingar eru á svæðinu á milli vi. lunga og þess hægra sem var fjarlægt. Gæti verið örvefur og bólguviðbrögð sem er auðvitað kærkomin skýring en gallinn við hana er sá að þessar breytingar hafa ,,breyst" á milli sneiðmynda sem nemur um ca. 4 mm. Allt annað hreint og fínt.

Miðað við ástand síðustu vikna, þ..e megurð, úthaldsleysi og slappleika er ekki stætt á öðru en að taka þetta alvarlega og kanna betur. Það þarf því að ráðast í sýnatöku (mér til skelfingar) til að kanna hvað sé á ferðinni þarna. Er ekki yfir mig kát yfir þessum fréttum þó ég sé vissulega sammála því að skoða þetta betur. Annað væri kæruleysi. En þetta þýðir enn frekari tafir og bið.

Er farin að þrá að komast í vinnu og þoli ekki þetta veikindastúss öllu lengur.  Sýnatakan sem slík þarf ekki að taka neitt óskapar tíma en tefur mig og alls ekki það sem mig langaði að heyra. Er því í ,,fýlu" í dag enda sé ég fram á enn frekari tafir, bið og fja... óvissu. Þessar niðurstöður verða teknar fyrir nk. föstudag á ,,allsherjarfundi"(teymisfundi) lækna LSH þar sem ávkeðið verður hvaða aðferð skuli beitt við sýnatökuna og síðan tekur einhvern tíma að komast að í hana. Allir eru farnir að þekkja álagið á LSH. 

Þar á eftir tekur við bið eftir niðurstöðum um þær frumutegundir sem er að finna  í sýninu sem getur tekið allt að 10-14 daga. Þá fyrst liggur Stóri dómur fyrir og  hægt að ákvarða hvað eigi að gera í stöðunni; fylgjast með áfram eða ráðast í að gera eitthvað (skemmtilegt). Mér til sællar minningar tók greiningaferlið hjá mér 8 vikur fyrir tæpum 2 árum, get ekki hugsað mér annað eins til enda. Ég bókstaflega fæ hroll.

Mér dettur þó ekki í hug að mála vegginn svartan og skríða skælandi undir sæng að svo stöddu. Ekki tilefni til þess en ég er pirruð, það get ég fúslega viðurkennt.  Allur vafi kemur að stað ákveðnu hugsanaferli, allt fer á flug og ímyndunaraflið fer á kreik. Þarf reyndar ekki mikið til að kveikja á því.  Er búin að vera á vælinu núna meira og minna síðan í nóvember í fyrra með mína verki og aðra vanlíðan en tíminn sem tekur að komast til botns í málum virðist óendanlegur. Ekki bætti sumarið úr skák né síðast uppákoma. Urrrrrrrrr..   hvað þetta er fúlt.

Get þó ekkert annað gert en að taka þessum fréttum. Mig munar svo sem ekki mikið um enn eitt (skít-)verkið enn eða súran bitan. Ég og litla famelían erum orðin ýmsu vön í þeim efnum. Því er ekkert annað en að þrauka áfram um stund og láta reyna á biðlundina. Verst að þetta hefur áhrif á fleiri en mig, krökkunum eðlilega ekkert rótt úti og löngu orðið tímabært að snúa aftur til vinnu.

Við höldum okkar striki sem sé og ég held áfram að vinna í að styrkjast og hressast. Tiktúrurnar í kringum fæðuinntekt stjarnfræðilegar og einstakar, satt best að segja og eftir því eftirminnilegar. Er þó að koma hægt og bítandi. Veðrið má aðeins ganga niður svo mér takist að skrönglast í göngutúrana, pallapúlið innanhús dugar ekki til að koma mér í form. Meira þarf til og það skal hafast.


Ekki aldeilis búið

Svo virðist sem hrakförum mínum sé ekki enn lokið. Er eiginlega búin að vera hundveik frá heimkomu, með versnandi verki, ógleði og lystarleysi. Komst reyndar að því að ég fékk ekki uppáskrifuð rétt lyf fyrir útskrfit en þau áhrif hefðu fyrst og fremst miðað við verkjastillinguna. Rétt lyf hefðu gert mér vistina bærilegri síðustu sólahringana en alls ekki tekið á þeim vanda sem hefur verið í uppsiglingu.

Ég var alls ekki orðin verkjastillt við útskrift og svo fór sem fór, mér versnaði. Smátt og smátt og síðan jukust öll einkenni skyndlega í gærkvöld, ný bættust við og náðu hámarki seinni partinn í dag þegar ég varð að játa mig sigraða og setjast á börurnar, enn og aftur. Leiðin lá á Hringbrautina og var mín ekki par kát með ástandið. Fann fyrir miklum létti þegar upp var staðið enda unnið hratt og fumlaus og ég verkjastillt á örfáum mínútum. Síðan hófst uppvinnslan og til að gera langa sögu stutta reynist vandamálið nú  vera bráð sýking í hægra nýra. Fylgikvilli sem má alltaf gera ráða fyrir. Gott að fá skýringuna, þoli illa að kljást við það óþekkta og eyða of miklu púðri það sem enginn veit hvað er. 

Fékk sýklalyf í æð og baðst undan innlögn. Held áfram á töflumeðferð heima. Allir gangar og deildar innan LSH eru undirlagðir af rúmum og fárveiku fólki. Ég kaus að fara heim svo fremi sem það strýddi ekki gegn ráðlagðri meðferð. Gat einfaldlega ekki hugsað mér að liggja inni á einhverri setustofunni eða á gangi með kúabjöllu um hálsinn. Starfsfólk deildanna gjörsamlega á útopnu frá því það mætir til vinnu og kemst heim. Álagið yfirgengilegt á hvern og einn. Við aðstæður sem þessar þurfa sjúklingar að vera mjög ,,hraustir".

Ég finn heldur betur fyrir breytingum og stuðningi krakkanna í þessum veikindum, nú eru það Hafsteinn og Katrín sem taka ráðin af þeirri gömlu - ekki öfugt. Svolítið einkennileg staða. Bæði hafa þau tekið sem sé fram fyrir hendurnar á mér og haft samband við ,,mína deild" vegna versnunar á ástandi. Ég veit að þeim er nokkuð brugðið yfir því hversu rýr uppskeran af þeirri viðleitni reyndist vera.

Þessi vika hefur farið fyrir lítið, ekkert geta aðhafst hér heima, krakkarnir hafa þurft að sjá um alla hluti og sinna þeirri gömlu. Hafði stefnt að því að freista þess að sækja seinni hluta af sumarnáminu á Bifröst eftir helgi en verð að bíða aðeins og sjá til hvernig framvindan verður. Magarsárið á réttri leið skv. rannsóknarniðustöðum, er hundlág í blóði ennþá þannig að nokkuð vantar upp á. Hitt er svo annað mál að líkaminn er ótrúega fljótur að jafna sig þegar hann fær rétta meðferð. Sé hvernig málin þróast næstu dagana. 

Orðið ískyggilega stutt í að Hafsteinn fari út. Enn liggur nokkur óvissa uppi á borðum varðandi rannsóknarniðurstöður sem komu fram í síðustu viku. Var búin að fá þau skilaboð frá mínum lækni fyrir ca mánuði að ég væri ,,hrein" en skv. sneiðmyndum af brjóstholi sem teknar voru á LSH í síðustu viku, eru einhverjar breytingar sem þykja ,,grunsamlegar".Ekki var talað um slíkar breytingar skv. niðurstöðum sömu rannsókna fyrir 3-4vikum síðan sem fóru fram í Domus Medica. Minn læknir í sumarfríi þannig að málið er í höndum annars á meðan. Vænti þess að fá einhver svör fljótlega, ekki ólíklegt að það þurfi að taka sýni eða rannsaka betur með einum eða öðrum hætti. Leyfi mér þó að vonast eftir kraftaverki í þeim efnum, er með ólæknandi nálarfóbíu og get einfaldlega ekki hugsað mér ástungu eða berkjuspeglunW00t Það var þó harkan í Hafsteini og Kötunni sem tryggði að þessi mál eru til skoðunar nú. Brjóstholið  tilheyrir ekki kviðarholinu og þar með ekki því ,,sviði" sem ég fékk mína þjónustu frá í síðustu innlögn. Við þurfum að fá þessi mál á hreint áður en Haffinn fer út til að taka sín 2 haustpróf í næstu viku. 

Er sem sé heldur að braggast enda sit ég eins og ráðherra og blogga út í nóttina. Fyrsta nóttin í lengri, lengri tíma sem ég hef náð að sofa lengur en 1-2 klst. í senn. Lá meira að segja út af fyrri part nætur og teygði vel úr báðum fótum sem er þvílíkur lúxus fyrir mig.  Ekki á stanslausu iði, get setið við tölvuna án þess að vera með hljóðum. Mér er því að batna, á því er enginn vafi en ekki aldeilis laus við þessi veikindi strax.  Get þó ekki alveg ímyndað mér hvað ætti næst að koma upp á, finnst ég vera búin að koma ansi víða við. 

Er ekki sagt að ,,allt er þegar þrennt er"? Magasárið í febrúar, brotið í apríl og nú þessar uppákomur. Ég hefði haldið það. Alla vega nóg komið í bili. Hef mikinn áhuga á því að snúa mér að einhverju öðru áhugaverðara verkefni en veikindum og þjónustunni í heilbrigðisgeiranum. Meira um það síðar..............Whistling

Mæting á göngudeild í fyrramálið út af verkjameðferð eftir lungnaskurðinn. Vona að ástand leyfir það að ég skrönglist niður á Hringbrautina. Er mjög þakklát fyrir að komast að í slíka mefðerð þó hún kalli á óteljandi nálarstungur, tilgangurinn er jú sá að deyfa verkina sem koma til vegna taugaskemmda og því til þess vinnandi að reyna. Væntingar um árangur blendnar, orðinn ansi langur tími frá aðgerð og skemmdir varanlegar. Á móti kemur hins vegar sú staðreynd að það er löngu kominn tími á að mitt lukkuhjól snúist við, ,,minn tími hlýtur að vera kominn".Kissing

 


Ótrúlega létt

Fékk niðurstöður í dag, vorum bæði undrandi; ég og minn læknir. Engin merki um sjúkdóminn! Einhverjar breytingar á blóðprufum sem komu mér ekki á óvart. Ætluðum varla að trúa okkar eigin augum, einkennin hafa svo sannarlega gefið ástæðu til að óttast annað. Enn liggur ekki fyrir skýring á öllum verkjunum, þyngdartapinu og slappleikanum. Við höldum áfram að skoða þau mál. Verkjastillingin gengur þokkalega, fæ enn slæm köst en almennt betri.  Sigurður mun halda áfram að fylgjast með gangi mála sem er mikill léttir. Það verður hægt að grípa í taumana strax ef þörf er á.

Það voru því góðar fréttir sem ég gat fært krökkunum. Við höfðum öll, hvert fyrir sig, búið okkur undir slæmar fréttir þó við reyndum að ,,peppa" hvort annað upp. Vorum eins og þrjár Pllýönur. Þeim er alla vega létt ekki síður en móðurinni. 

Nú er bara að halda áfram og finna orsakir og meðhöndla þær. Einhvern veginn mun auðveldara að kljást við málin þegar þau liggja fyrir, óvissan er alltaf nagandi. Þó búið að útiloka martröðina þannig að eftirleikurinn verður léttari. Ég geri mér grein fyrir því að ég þarf að lifa með ákveðnum verkjum eftir lungnaskurðinn það sem eftir er, gigtarskömm sækir í rifbeinin og fleira í þeim dúr. Get vel sætt mig við þá verki og lært að lifa með þeim, á meðan ég veit af hverju þeir stafa. Hver sem ástæðan er fyrir barlóminum núna, ætti að vera auðveldara að meðhöndla hann en krabbameinið. 

Ég er því ótrúlega heppin, það fer að styttast í 2 ár frá greiningu sem er kraftaverk miðað við útlit í fyrstu, staðsetningu og tegundina. Það hafa ekki allir verið jafnheppnir og ég. Nú vil ég komast til botns á þessu öllu saman og fara að njóta lífsins og lifa því lifandi.  Mér skal takast að komast frá þessum barlómi og byggja mig upp! Ekkert me, he með það. Þrælaði mér í fyrsta göngutúrinn í kvöld í langan tíma, var auðvitað höktandi í taumi hjá Kötunni líkt og Lafðin en það hafðist og var fyllilega þess virði. Nú er bara að halda áfram. 

Ég hef sjaldan þurft eins mikið á því að halda að endurheimta baráttuþrekið, ekki síst það andlega sem hefur verið í lamasessi um nokkurt skeið út af ástandi síðustu vikna. Víða sótt að og höggin ófá, ósveigjanleikinn og harkan gríðaleg svo ekki sé minnst á spurningu um siðferði sumra. Slíkar aðstæður kalla ekki á uppgjöf af minni hálfu, síður en svo. Slakt heilsufar getur haft áhrif en ég mun seiglast þetta áfram.

Ég kemst alltaf af. Það þýðir ekki

að maður sé óbugandi hetja heldur

heill í stuðningi við sjálfan sig 

og hafi viljann til að sigra.

(Linda Ronstadt)


Glundur og geislavirkni

Er hálfnuð í rannsóknunum. Orðin stútfull af glundri og geislavirkum efnum, ýmist tekin um munn eða fengin í æð. Ætti að vera orðin ljómandi og auðvelt að sjá í gegnum mig.Wizard

Allt gengið þokkalega, lenti reyndar í langri töf og bið í morgun fram að hádegi sem kætti mig lítt þar sem biðin var að miklu leyti til komin vegna þess að geislafræðingurinn hafði þá einkennilegu þörf að taka fólk fram fyrir mig. Um var að ræða einstaklinga sem voru að fara í sömu rannsókn og ég.  Okkur hafði orðið vel til vina þar sem við héngum á marrandi og lítt traustvekjandi  bekk á biðstofunni eins og hænur á priki og skáluðum í kapp við hvort annað. Vorum fjögur, ég átti fyrsta tíman en fór síðust í rannsóknina. Varð býsna fúl, satt best að segja og vægast sagt enda komin í keng.

Verkjameðferðin farin að skila einhverjum árangri en þó ekki eins og vonir stóðu til, geng enn um gólf í verstu hviðunum, næturnar í uppáhaldi í þeim efnum sem fyrr. Meðferðin verður endurskoðuð á morgun en er almennt skárri. 

Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um þær hugsanir sem takast á loft á meðan þessum barlómi stendur. Þær gera vart við sig þó ég ýti þeim jafnharðan frá mér aftur.  Fæ hugsanlega einhver svör úr þeim rannsóknum sem búnar eru á morgun en í síðasta lagi á þriðjudag. Aðalmálið núna er að bæta ástandið svo ég geti lifað lífinu lifandi. Er orðin ansi teygð og skökk í sófanum og hundleið á sjónvarpsglápi en sé vonandi fyrir endan á þeim ósköpum. Það jákvæða við þetta allt saman að nú finn ég eiginlega ekkert til í hnénu og fætinum, farin að verða býsna liðug, svei mér þá.W00t

Læt mig dreyma um að vera í framkvæmdarhug um helgina með krökkunum, hef varla dýft hendinni ofan í kalt vatn síðustu dagana.  Hundleiðinlegur félagsskapur fyrir krakkana og brýn þörf að breyta því. Færi á upphitun fyrir þjóðhátíð á Players á laugardag, hefði ég heilsu til þess. Verð sennilega að láta mér nægja að hlusta á þjóðhátíðarlögin hér heima með einstaka ABBA innskoti. Ekki amaleg tilhugsun.

Well, rise and shine í býtið, Katan á heimleið eftir kvöldvakt þannig að mér er ekki til setunnar boðið. Hafsteinn passað þá gömlu í kvöld, úff hvað ég vorkenni krökkunum, þetta er lítið spennó.  Orðin sérfræðingur í sjónvarpsdagskránni og búin að birgja mig upp af krossgátublöðum. Tounge

Skylduverk og önnur pligt hafa því miður þurft að sitja á hakanum þessa dagana, fátt við því að gera en að bölva í hljóði. Ce la vie! 

 


Allt að gerast

Hitti minn lækni í dag, var eins og hefði verið skrúfað frá krana þegar ég komst í tæri við hann. Var eins og blaðra sem þurfti að tæma lofti úr. Veit ekki hvað hann hefur hugsað en í öllu falli tók hann mér vel eins og alltaf. Honum fannst ég orðin ansi skökk enda er það ekki svo að maður fer í þær stellingar sem manni líður best í? Þarf hins vegar að vinna í þeim málum, ljótt að vera svona og ekki mjög ,,kvenlegt".

Vissi fyrirfram af rannsóknum en hann ákvað að allur pakkinn yrði tekinn í þetta sinnið þannig að framundan er meira en ég átti von á. Rannsóknirnar verða keyrðar í gegn í þessari viku, hugsanlega fram í þær næstu þannig að svör ættu að liggja fyrir mánudag eða þriðjudag.  Verkirnir hafa farið stigvaxandi upp á síðkastið og því ekki eftir neinu að bíða að finna orsakirnar. Það verður léttir að vita hvað maður er að kljást við. Nú prófum við nýja verkjalyfjameðferð og sjáum hvað setur á næstu dögum. 

Tók krakkana með mér í þetta sinnið, hef ekki gert það áður. Fannst eðlilegt  að þau fengju aðeins að fylgjast með enda þau búin að vera áhyggjufull, hafa ekki séð mig svona verkjaða fyrr. Þó að ástandið þurfi alls ekki að þýða að allt sé komið á versta veg, blundar sá grunur alltaf í manni. Ákveðnar tilfinningar og minningar fara í gang þegar kemur að hefðbundnu tékki, það þekkjum við öll sem höfum greinst með þennan fjanda og er eðlilegt ferli. Ég geri mér grein fyrir því að málin líta ekkert allt of vel út núna en ég er alls ekki svartsýn um að eðlilegar skýringar liggi að baki þessu hábölvaða heilsufari og verkjum. Hef að sjálfsögðu mínar kenningar um orsakir sem ég vona að reynist réttar. Tounge En hver sem skýringin kemur til með að verða er ekkert annað en að taka á því og gera sitt besta.  Þarf að hugsa um fleiri en sjálfa mig, ástandið hefur farið illa í krakkana og því mikilvægt að komast til botns í málin, okkar allra vegna.

Sé alltaf betur og betur hversu mikils virði það er að eiga gott og náið trúnaðarsamband við sinn lækni. Hef ekki verið dugleg í gegnum tíðina að leita til lækna, finnst það alltaf svolítið happadrætti enda þeir misjafnir eins og aðrir. Hef þó látið mig hafa það að tala við nokkra síðustu vikur en enginn einhvern veginn tilbúinn að taka á málum og ,,gera eitthvað", vísað í minn sérfræðing. Vandamálin hafa því setið eftir óleyst og versnað.  Skiljanlegt að sumu leyti en sum vandamál heyra etv. ekki undir krabbameinslækni og svo fara menn einnig í sín frí eins og gengur. EKki alltaf hægt að fresta málum þar til sumar- og vetrarfríium lýkur. En ég gæti ekki verið heppnari með minn sérfræðing í dag. Alltaf gott að leita til hans og hann farinn að þekkja mig sem er mikils virði. 

Ég hef einu sinni hafnað lækni og það var í upphafi greiningarinnar haustið 2006. Lenti hjá mjög færum sérfræðing en ég gat ekki talað við hann né myndað trúnaðarsambad við hann. Veit þó að sá læknir er mjög fær á sínu sviði og vinsæll af mörgum. En við erum misjöfn og þannig er þetta bara. Gagnkvæm virðing og góð samskipti eru lykilatriði á milli sjúklings og aðstandenda annars vegar  og heilbrigðisstarfsmanna hins vegar.

Törnin byrjar hjá mér í fyrramálið og síðan verður þetta tekið með trukki. Ég er farin að sjóast í þessu ferli, rannsóknirnar taka auðvitað sumar á eins og gengur og sumar tímafrekari en aðrar en þetta venst ótrúlega þannig að ég er ekkert kvíðin. Sigurður ætlar að halda vel utan um sjúklinginn og vera í tíðu sambandi sem mér finnst gríðalegt öryggi því ekki er víst að sú meðferð sem lagt var upp með í dag komi til með að skila tilætluðum árangri. Ég þarf þá alla vega ekki að bíða dögum saman eftir að önnur úrræði verða reynd. 

Veit að ég fæ vængi um leið og verkirnir minnka, get þá kannski haldið áfram og sinnt þeimm brýnu verkefnum sem bíða mín. Hef nákvæmlega ekkert gert síðustu vikurnar annað en að standa mína pligt, farið hratt versnandi. Sé það í hyllingum að fá lengri nætursvefn en 2-3 klst. í senn. Vá, hvað það verður æðislegt!

Ekkert annað að gera en að takast á við þau verkefni sem bíða núna, því fyrr, því betra.Nú verður keyrt áfram á fullu ,,stími" Cool

 


Töff helgi

Helgin var fremur töff hjá minni, verkjuð sem aldrei fyrr í liðum og brjóstkassa. Þarf að lifa með þessum verkjum það sem eftir er, skilst mér, afleiðing brjóstholsaðgerðarinnar. Óljóst hvort liðverkirnir séu afleiðing krabbameinsins eða vegna slitgigtar. Var vöruð við þessu á sínum tíma og lært að lifa með þessu ástandi. Hef forðast sterk verkjalyf eins og heitan eldinn en bólgueyðandi lyf hafa komið mér í gegnum daginn svona almennt og þannig hefur þetta gengið.

Nú brá svo við að ég misreiknaði lyfjabirgðirnar og varð uppiskroppa um helgina. Áhrifin ekki lengi að koma í ljós, hef veri kengbogin  og vart getað hreyft mig. Verkirnar allt frá fingurliðum í stóru liðina og rifjabogan. Verkirnir í rifjaboganum líkjast mjög verkjum eftir rifbeinsbrot, hver hósti, stuna og hreyfing er sársaukafull enda hef ég vaknað upp á 2-3 klst. fresti síðustu nætur. Illskást að ganga um gólf.  Sofið sitjandi.  Átti til bólgueyðandi í töfluformi og lét mig hafa það að taka þær inn þrátt fyrir blátt bann lækna vegna magasársins og uppskar eftir því. Ekki oft sem ég beygi af. Verkirnir eftir fótbrotið eru ,,piece of cake" miðað við þessi ósköp

Það einkennilegasta við þetta er að maður getur ekkert leitað  um helgar þegar svona aðstæður skapast. Lyfjaendurnýjunum er ekki sinnt um helgar og á kvöldin. Ég get vel skilið þá vinnureglu enda eiga menn að vera með vaðið fyrir neðan sig og búnir að endurnýja sín lyf í dagvinnutíma og á virkum dögum. En slysin gerast og hvað þá? Ég braut odd af oflæti mínu og leitaði á vaktina í Smáranum. Fannst ástandið réttlæta það að sækja þá þjónustu. Mér var vísað frá án þess að fá endurgreiðslu. 

Ég kann að hljóma eins og lyfjafíkill sem vantar skammtinn sinn en sem betur fer eru þau lyfin mín ekki eftirritunarskyld, síður en svo. Eftir nokkrar tilraunir fannst meðferð sem hentar og gerir mér kleift að starfa og funkera án þess að kljást við aukaverkanir sem fylgja sterkum verkjalyfjum. Ekki allir eru svo lánsamir. 

Þessi uppákoma vekur mig hins vegar til umhugsunar um lyfjamál margra almennt, ekki síst eldri borgara. Margir eru á ótal lyfjum, t.d. gegn háþrýstingi, hjartasjúkdómum, sykursýki, magabólgum, vöðvabólgum, eru á blóðþynningu og ég veit ekki hvað og hvað. Hversu oft skyldi koma upp sú staða að menn gleymi að endurnýja lyfseðla sína og þurfa að bíða yfir helgi svo ekki sé minnst á alla rauðu hátíðisdagana? Alfeiðingarnar geta því verið margvíslegar þegar lyfjatöku er sleppt í 2-5 daga samfleytt. Hér vantar í öllu falli einhver úrræði fyrir okkur tossana.

Helgin fór því ekki eins og stefnt var að, afraksturinn rýr og líðanin hábölvuð. Er létt að vita til þess að það er mánudagur á morgun. Það jákvæða við þessa reynslu er þó það að nú mun ég stúdera grasa- og jurtafræðina á fullu. Ég þarf að lifa með þessum verkjum það sem eftir er, ekki væri verra að geta sopið á einhverju glundri í stað þess að þurfa að stóla á rándýr, bólgueyðandi lyf þar sem mánaðarskammturinn fer ekki undir 12-15.000 kr. Mér skilst þó að grasa- og jurtaglundrið kosti þó sitt en er tilbúin að prófa. Málin verða í öllu falli endurskoðuð. Er orðin ansi glúrin í krossgátunum eftir síðust nætur og búin að spæna upp nokkur slík blöð.

Ég verð einnig að horfa raunsætt á málin, ég held lífi, verkirnir eru smávægilegir í því samhengi en fjandi geta þeir verið hvimleiðir. Það verður harkan sex í fyrramálið, ég verð í öllu falli ekki í vandræðum með að vakna.W00t 

 


Einkennileg þessi heilsa

Botna hvorki upp né niður í ástandinu síðustu 2 og 1/2 vikuna, þ.e. frá því ég brotnaði. Er reyndar orðin býsna leikin með hækjurnar, hoppa hiklaust stigana núna að örlítið meiri hraða en snigillinn. Farin að slaga upp í hraða skjaldbökunnar ef eitthvað er. Er úthaldsmeiri í pallapúlinu og hætt að mjaka mér áfram á botninum. Er hins vegar illa haldin af síþreytu og úthaldsleysi. Ef ég hef skroppið út fyrir dyr, á hækjum eða í hjólastól er mín gjörsamlega búin á því, verkjuð og aum eftir 2-3 klst. Þó ég geri fátt eitt annað en að sitja í fínum hjólastól. Eftir slíkar ferðir, steinligg ég eins og sveskja, búin á því og sef út í það endalausa. Ég hreinlega er ekki að skilja þetta ástand.W00t

Vissi fyrir að ég væri eitthvað að lækka í blóði og járni áður en ósköpin dundu yfir. Veit náttúrlega ekkert hvort mikið hafi blætt við brotið eða í aðgerðinni þannig ég veit ekki hvort þetta ástand tengist blóðmyndinni á einhvern hátt. Við útskrift fékk ég engar upplýsingar aðrar en um endurkomutíma, hitti ekki sérfræðinginn og veit í raun ekkert um það hvernig til tókst. Ég geri mér grein fyrir því að brot er áfall fyrir skrokkinn og það er mænudeyfing einnig en ég hef ekki trú á því að ég eigi að vera eins og veimiltíta í lengri tíma á eftir. Á morgnana rangla ég eins og drukkin   vegna svima, tröppurar koma stundum fljúgandi á móti mér. Er ekki að éta einhver sterk verkjalyf né svefnlyf sem skýra þetta, Nota bene!  Húðlitur er  grárri en allt grátt og hafi hann líkst ,,Skipasundarlitnum" áður þá er ég búin að toppa hann fyrir löngu. Ættarsvipurinn leynir sér alla vega ekki.Shocking

Berst við bév....ógleðina ennþá og lystarleysið þó magaverkirnir séu snöggtum minni. Finnst allt vont en ef ég næ að koma einhverju niður, verður mér illt í fleiri klukkutíma á eftir.  Má helst ekki finna lykt af mat, oj.... Er greinilega komin í ferlegan vítahring með þetta allt saman. Prins poloið klikkar ekki frekar en fyrri daginn en það kemur reyndar fyrir af og til að mér finnist það ekki sérlega gott.

Hef reynt bókstaflega allt sem mér dettur í hug, þykist náttúrlega hafa óskaplega mikið vit á þessu öllu saman en er strand. Það verður að viðurkennast eins og er.  Siggir stormur segir að það sé komið vor, næsta skref er að láta á það reyna og koma sér út, þó ekki nema út í garð og anda að sér hreinu lofti. Kúldrast inni 99% af sólahringnum, að öllu jöfnu og hitti ekki sálu. Svo þegar ég fer loksins út, virðist áreitið yfirþyrmandi og ég eins og sönn bresk hefðarfrú; alltaf þreytt, þarf að leggja mig. OMG! Vantar bara ilmsaltið, blævænginn og vasaklútinn.Halo

Verð að viðurkenna að mér leiðist þetta ástand heldur betur, get ekki beðið eftir því að endurheimta sjálfstæðið og frelsið. Hef verið lengi í útlegð og orððin býsna vön henni en búin að vera í stofufangelsi og einangrun núna í  2 1/2 viku og kann því fremur illa. Hef verið háð öðrum með allar bjargir og notið góðs af þrautseigju stóru systur og hennar dóttur. Get sennilega seint launað þeim allan greiðan. 

Hef reyndar haft nóg fyrir stafni, sá enga ástæðu til að vera í veikindaleyfi þegar kom að fjarkennslunni, ekkert að mér í hausnum (eða þannig) né höndunum auk þess sem ég hef haft nóg að gera í eigin verkefnum.  Mér sækist hins vegar vinnan afar hægt, löturhægt reyndar.

Sakna hundanna ekkert lítið, vantar mikið þegar Díana mín er hvergi nærri enda hefur hún fylgt mér í 10 ár. Veit að það fer vel um þær báðar í sveitinni þar sem þær eru í góðu yfirlæti. Heimilislæðan hefur verið með víðáttubrjálæði hér innan dyra síðan tíkurnar fóru, hegðar sér eins og hundur og eltir mig hvert fótmál, ekki síst í stiganum þar sem hún er orðin hálfgert vandamál, flækist fyrir fótunum á mér. Hefur alltaf haldið sér víðsfjarri blessunin þegar tíkurnar eru heima en nú á hún húsið og breiðir úr sér eins og hver önnur prímadonna og það sem meira er, hún spikfitnar. Heart

Get varla beðið eftir endurkomutímanum sem er nk. miðvikudag, þá liðnar 3 vikur frá brotinu. Það verður spennandi að taka heftin eftir allan þennan tíma, úffSick.  Fæ væntanlega nýtt gips sem vonandi verður léttara en þessi 10 kílóa hlunkur er sem ég er með á löppinni núna. Það verða ákveðin tímamót því væntanlega verður tekin mynd og metið hvernig brotið hefst við og gróandinn er. Hvorutveggja segir mikið um framhaldið. Á heimboð í sveitina, sauðburður að hefjast, ætla rétt að vona að ég verði fær um að skreppa. Verður frábært að kíkja á hrossin og bara skreppa ,,heim í heiðardalinn". Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ég þarf að vera fær um það þannig að ég tek eitt skref í einu. 

Hún er einkennileg þessi heilsa, það finnur maður best þegar maður missir hana. Allt er háð því að maður sé með góða heilsu og fulla starfskrafta. Ekki veit ég hvernig ég myndi bregðast við ef ég missti hana varanlega. Ég hef illþyrmilega orðið vör við skeytingaleysi og tillitsleysi gagnvart hreyfihömluðum eins og mér, t.d. í verslunum síðustu vikurnar og skil nú betur þær kvartanir sem berast frá öryrkjum. Þær eiga sér stoð í raunveruleikanum, mér finnst tilllitsleysi margra vera til háborinnar skammar. Ég hef haft gott af því að kynnast því á eigin skinni.

Get eiginlega ekki ímyndað mér lífið án þess að njóta starfskrafta, sjálfstæðis og frelsis. Sem betur fer er þetta ástand tímabundið, ég kann örugglega betur að meta þá heilsu sem ég hef náð eftir veikindin. Þó ég nái aldrei fyrri starfsorku og getu, má ég svo sannarlega þakka fyrir þann bata sem ég hef fengið. Hann er ekki sjálfsagður og ekki eru allir jafn heppnir og ég. 

Ætla að nota næstu daga til að byggja upp andlegt og líkamlegt þrek til að komast í gegnum programmið sem bíður mín á miðvikudag, það er ærið verkefni fyrir fullhrausta að komast í gegnum frumskógakerfið. Í þeim efnum stendur landsbyggðin mun betur að vígi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband