Stím á fulla ferð

Þá er ferlið hafið og stímað áfram á fullri ferð. Byrja í lyfjameðferð nk. miðvikdag (8. okt) og í geislum sennilega í vikunni þar á eftir. Mér skilst að ég fái nýtt lyf sem hefur mun minni aukaverkanir en þau lyf sem ég fékk síðast, mér til mikillar gleði. Átti mjög erfitt með að þola ógleðina, rugguveikina og allt sem þá fylgdi. Kem til með að mæta vikulega í lyfin en trúlega daglega í geislana þegar þeir byrja, markmiðið að minnka meinið það mikið að það verði skurðtækt. Til vara ,,að grilla það" þannig að það verði dautt.

Byrjaði á steraskammt í dag, reikna með því að verða tuskuóð á næstu dögum, upp um alla veggi að þrífa og gera fínt. Sterarnir lyfta mann náttúrlega upp á allt aðrar hæðir þannig að það verður fjör hjá minni. Matarlystin á eftir að aukast og almenn líðan að skána. Verð komin í topp stand á miðvikuidag, sem sé.

Litla famelían er  svona að ná að melta þessar fréttir sem í raun áttu ekki að koma neitt á óvart. Er búin að vera hundlasin í allt sumar, unnið að hluta til með þrjóskuna sem eldsneyti enda líður mér hverrgi betur en í vinnu. Síðustu vikur hafa verið skrautlegar, verkirnir oft óbærilegir og úthaldið nánast ekkert þannig að margur dagurinn hefur farið í það að reyna að koma sér á fætur til þess eins að snúa sér við í sófanum, hundsvekktur yfir aumingjaskapnum. Önnur veikindi hafa spilað þar inn í en þessi hafa ekki hjálpað. Það er nú einu sinni svo að maður finnur svona nokk á sér, eftir að hafa kynnst þessum ára sem krabbameinið er. 

Á meðan meinið er staðbundið og ekki stærra en það er, mælist nú 3,0 x 3,4 cm, er full ástæða til bjartsýni með þau meðferðarúræði sem mér standa til boða. Engin merki eru um meinvörp í þessu eina lunga sem ég á eftir en það er svo sem ekki á fullum dampi.  Menn eru fljótir að ræsa vélarnar núna þannig að sá tími sem fer nú í bið, lágmarkast.  Auðvitað erum við ekkert kát með þessa stöðu, krabbamein er alltaf krabbamein og lungnakrabbamein með því skæðasta sem hægt er að fá en ekkert er útilokað og til eru þeir einstaklingar sem komast í gegnum slík veikindi. Ég ætla mér einfaldlega að vera ein af þeim en óneitanlega hefði verið æskilegra að hafa byrjað meðferð nokkru fyrr en nú. Það stoðar hins vegar lítt að gráta það, svona er staðan.

Næstu vikur eiga eftir að taka á, mér finnst æði mikið lagt á krakkana.  Síðustu 4-5 árin  hafa verið æði skrautleg, ekki síst vegna þátttöku minnar í pólitík. Sú reynsla gekk nærri þeim, mér er til efs að þau jafni sig á þeim að fullu en þau hafa svo sannarlega náð að nýta sér reynsluna sem þessu brölti fylgdi og meiðandi áhrif á alla fjölslylduna.

Einhvern veginn hafa málin þróast þannig að þegar eitt vandamál er frá, kemur annað, hvert á fætur öðru án nokkurs láts. Ég er náttúrlega orðin mun sjóaðri en þau og hef meiri reynslu til að kljást við áföllin. En bæði hafa sýnt ótrúlegt ærðuleysi og mikinn þroska. Ég veit að ég gæti aldrei farið í gegnum þetta án stuðnings minna barna og óneitanlega hefði það verið styrkur að hafa hægri höndina til að styðjast við.  Við erum rækilega minnt á það að við erum ekki eilíf, ekkert okkar. Því þurfum við að lifa lífinu í samræmi við það. Morgundaginn getum við ekki tekið aftur en við getum nýtt hann til að byggja upp næsta dag.

Allir sem greinast með illkynja og langvinna sjúkdóma  hugleiða það sama; lífið og dauðan.  Ég er engin undantekning og er alls ekki tilbúin til að kveðja þessa jarðvist. Það má heita eigingirni en á á eftir svo margt ógert auk þess sem ég vil fylgja mínum börnum lengur. Sjá þau eignast eigin fjölskyldu, lúka námi og koma undir sig fótunum. Ég á eftir að ná ótal markmiðum, þrái ótrúlega margt, rétt eins og allir. Á eftir að leiðréttta ýmislegt,  fjölga gleðistundum í lífi krakkanna sem hafa þurft að reyna of mikið af völdum annarra og skapa þeim trygga framtíð.  Mér finnst ég ekki hafa farið nægilega vel með tíman minn í þeim efnum. Þessi uppákoma ýtir við mér.

Svo er það óttinn við það óþekkta, ég veit ekkert hvað tekur við eftir að lífi hér á jörðu lýkur. Trúin boðar að himnaríki og sæla bíði manns handan við landamærin og það má allt satt vera en allar slíkur boðskapur er huglægur og svo sannarlega ekki byggður af vísindalegum staðreyndum þannig að sumum gengur ver en öðrum að tileinka sér hann. Ég geri ekki lítið úr honum, tek honum örugglega fagnandi en vantar áþreifanlegar sannanir. Ég veit þó að við fáum öll styrk annars staðar frá og ekki er hægt að neita því að fyrirbænir og hlýjar hugsanir hjálpa.

Það verður nóg að gera næstu dagana, nú hef ég reynsluna varðandi kerfið sem ég mun svífa á strax á mánudag. Mér stendur til boða ýmiss aðstoð, þ.á.m. hjá félagsráðgjafa sem ég hyggst nýta mér og létta mér þannig róðurinn. Fröken Jósefína er enn á sínum stað, ónotuð blessunin, en mér skilst reyndar að hármissir sé ekki algengur fylgifiskur þeirrar meðferðar sem bíður mín.  Hef ekki þrek til að vera mikið á ferðinni en veit að sterarnir flytja mig upp á aðrar hæðir í þeim efnum þannig að ég hyggst nýta mér þá vítamínsprautu til framkvæmda. Það er nokkurt ferli sem býður varðandi Tryggingastofnum, s.s. örorkulífeyrir og afsláttur lyfja sem munar um þó upphæðir séu lágar. Hef einsett mér að reyna að komast í eins konar endurhæfingu eða þjálfun um leið og ástand leyfir þannig að nú verður tekið á málum með öðrum hætti en síðast. Það verður svo að koma í ljós hvernig gengur.

Það er því ákveðinn léttir að vera komin af stað, vita hver óvinurinn er og hvaða leiðir eru færar gegn honum. Ég er því nokkuð bjartsýn og ætla að láta þetta ganga með góðra manna hjáp. Ég er rosalega þakklát fyrir innlitið á bloggið og hlýjar kveðjur, þær hafa sannarlega sýnt mátt sinn, takk fyrir migHeart

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katan

Það er eins gott að Díana tryllist ekki aftur þegar hún sér Jósefínu! haha..

En við förum í gegnum þetta saman. Við höfum gengið í gegnum svo margt að þetta fer ekki að stoppa okkur.

Ég er samt svo eigingjörn að ég hugsa hvenær við fáum frið.. Ég væri alveg til í að þú fengir frí frá þessu öllu saman. Nóg er nú búið að leggja á eina konu! Ég gæfi allt til að geta tekið eitthvað af þessu af þér.

EN það þýðir ekkert að pæla í of mikið. Bretta upp ermarnar og setja upp grillhanskana þar sem áætlunin er að ,,grilla þetta"!

Knús og kossar frá lærdómsdjamminu hérna í Debó, 

Katan , 4.10.2008 kl. 05:48

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þegar maður er í erfiðri vinnu, sér maður gjarnan í hyllingum fríið framundan.

Líttu þannig á þetta.....þú ert í erfiðri vinnu einmitt núna en þú hefur fullt leyfi til að hlakka til þegar "vinnan" er búin.  Mér finnst að þú eigir að setja þér eitthvert markmið eins og t.d. að þegar meðferð er lokið, fáir þú í verðlaun draumaferð til einhvers staðar sem þig langar mikið að fara á.  Perú ?  Sigling á Karabíska hafinu ?  Óvissuferð innanlands ?  Eitthvað verulega skemmtilegt til að hlakka til þegar þú verður frísk Guðrún Jóna.  Það auðveldar þér ferlið. 

Anna Einarsdóttir, 4.10.2008 kl. 10:01

3 Smámynd: Helena Mjöll Jóhannsdóttir

Ég vona bara að baráttan verði þolanleg og þú stefnir á sigur svo mikið er víst. Það er alveg greinilegt að í þínum uppskriftarbókum eru ekki aðrar uppskriftir. Gangi þér vel. Góðar kveðjur.....

Helena Mjöll Jóhannsdóttir, 4.10.2008 kl. 11:08

4 Smámynd: Ragnheiður

Þú ert svo ótrúlega einbeitt og dugleg að það er heiður að fá að fylgjast með dugnaði þínum. Sigur er auðvitað eina markmiðið.

Tek undir með Kötunni þinni, þetta mætti alveg fara að hætta -löngu orðið nóg.

Hvatningu færðu héðan.

Eins og Himmi minn sagði alltaf, Klús

Ragnheiður , 4.10.2008 kl. 11:50

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú reynir á alla þína orku. Ekki eyða henni í að byrgja inni tilfinningar. Þú hefur leyfi til að verða sár, reið, og lítil á stundum.

 Gleymdu ekki hversu miklu fleiri ná bata og sigra í þesari erfiðu baráttu.

Hugheilar stuðningskveðjur! 

Árni Gunnarsson, 4.10.2008 kl. 12:17

6 Smámynd: Katrín

Nú er ég farin að kannast við þá Gunnu sem var, ruslaði upp gagganum til að fara í menntaskóla og laukst með stæl.  Það var vegna þess að þú ætlaðir; einbeittur brotavilji  Þú veist að hugafarið er allt sem skiptir máli og þessa orrustu fer þú af stað í til að vinna og ekkert annað...það er bannað

Varðandi pólitíkina þá vitum við að hún getur verið ljót tík, en það er þó betra að vera gagnrýndur fyrir að gera of mikið og segja of mikið og standa við það, en fyrir að gera ekki neitt og segja ekki neitt.

Hugsum til þín og krakkanna og sendum ykkur baráttukveðjur. Þó hundruðir og þúsundir  kílómetrar skilja að þá eru við með ykkur í þessari baráttu..alla leið!

Litla/stóra systir 

Katrín, 4.10.2008 kl. 12:33

7 Smámynd: Ólöf Karlsdóttir

Nú fór ég sko að gráta við að lesaEn viljin er vist vald og ég ætla að biðja fyrir þér mín kæraOg þessir sterar eru mjög góðir ,ég sá mikkla betri breytingu á mínum manni þegar hann fékk þá Hann ætlaði að sigra þennan djöful en tapaðiEn nú er bróðir min í meðferð og ætlar að sigra og ég held að það sé að hafast En gangi þér vel að sigra það er hægt lyfinn eru líka alltaf að breytast til hins betra En kveðja og knús Óla

Ólöf Karlsdóttir, 4.10.2008 kl. 13:04

8 identicon

Ég tek undir með orðum Kötu að mikið er á þig lagt, og löngu komið nóg. Ég óska þér góðs bata.

Sigga Hilmars (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 13:37

9 identicon

Sæl Guðrún Jóna.

Ég vona svo sannarlega að þú komist yfir þessa sjúkdóms-erfiðleika enn á ný.

Baráttukveðjur til þín og bestu kveðjur til krakkanna.

Unnur Lilja frá Vestmannaeyjum.

Unnur Lilja í Dalabyggð. (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 16:58

10 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

  







Góðar kveðjur......og gangi þér vel í gegnum þessa erfiðu meðferð.

Hólmdís Hjartardóttir, 4.10.2008 kl. 17:21

11 Smámynd: Sigrún Óskars

Vá hvað þú ert dugleg og sterk kona Guðrún. Og raunsæ.

Ég sendi þér stuðning og kærleik eins og ég á til .

Sigrún Óskars, 4.10.2008 kl. 19:07

12 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Nú hef ég samband, ef ég má

Sigrún Jónsdóttir, 4.10.2008 kl. 19:13

13 identicon

Sæl Guðrún

ég er ekki í vafa um að þú grillar þetta burt og ferð að kenna

aftur , hvað sem gekk á hjá okkur þá ertu mjög góður kennari.

kveðja Guðný.

Guðný Björgv. (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 22:48

14 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk öll sömul fyrir hlý orð og hvatninguna sem kemur sér vel. Auðvitað máttu hafa samband Sigrún

Takk fyrir hlý orð Guðný, það voru forréttindi að fá að koma að námi þínu og ykkar allra. Framúrskarandi hópur og þið allar verðugir fulltrúar ykkar stéttar. Ég mun fylgjast með ykkur með mikilli ánægju og stolti.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 4.10.2008 kl. 23:20

15 identicon

Elsku Guðrún mín !!!

Ég fór nú bara að gráta þegar ég las síðustu færslunar þínar. Ég er sannfærð um að það tekst að GRILLA ÞENNANN FJANDA Í BURTU

Heitar bænir til þín og fjölskyldunnar þinnar

kv Sigþóra G

Sigþóra (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 23:27

16 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Takk fyrir að vera bloggvinkona mín. Guð veri með þér og þínum kæra vina

Kristín Gunnarsdóttir, 5.10.2008 kl. 08:02

17 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Sumir styrkjast og stækka við mótlæti, mér sýnist þú vera í þeim hóp.

Gangi þér vel í glímunni við þetta verkefni.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 5.10.2008 kl. 08:16

18 identicon

Ég hef fylgst með þér hér í gegnum bloggið og verð að segja að þú ert hörku kona. Ég vona að þér gangi vel og ég hef fulla trú á þér... Spíttu í lófana og láttu þetta fjárans krabbamein finna fyrir því. Bestu kveður...

Ragnheiður Rafnsdóttir (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband