Einkennileg þessi heilsa

Botna hvorki upp né niður í ástandinu síðustu 2 og 1/2 vikuna, þ.e. frá því ég brotnaði. Er reyndar orðin býsna leikin með hækjurnar, hoppa hiklaust stigana núna að örlítið meiri hraða en snigillinn. Farin að slaga upp í hraða skjaldbökunnar ef eitthvað er. Er úthaldsmeiri í pallapúlinu og hætt að mjaka mér áfram á botninum. Er hins vegar illa haldin af síþreytu og úthaldsleysi. Ef ég hef skroppið út fyrir dyr, á hækjum eða í hjólastól er mín gjörsamlega búin á því, verkjuð og aum eftir 2-3 klst. Þó ég geri fátt eitt annað en að sitja í fínum hjólastól. Eftir slíkar ferðir, steinligg ég eins og sveskja, búin á því og sef út í það endalausa. Ég hreinlega er ekki að skilja þetta ástand.W00t

Vissi fyrir að ég væri eitthvað að lækka í blóði og járni áður en ósköpin dundu yfir. Veit náttúrlega ekkert hvort mikið hafi blætt við brotið eða í aðgerðinni þannig ég veit ekki hvort þetta ástand tengist blóðmyndinni á einhvern hátt. Við útskrift fékk ég engar upplýsingar aðrar en um endurkomutíma, hitti ekki sérfræðinginn og veit í raun ekkert um það hvernig til tókst. Ég geri mér grein fyrir því að brot er áfall fyrir skrokkinn og það er mænudeyfing einnig en ég hef ekki trú á því að ég eigi að vera eins og veimiltíta í lengri tíma á eftir. Á morgnana rangla ég eins og drukkin   vegna svima, tröppurar koma stundum fljúgandi á móti mér. Er ekki að éta einhver sterk verkjalyf né svefnlyf sem skýra þetta, Nota bene!  Húðlitur er  grárri en allt grátt og hafi hann líkst ,,Skipasundarlitnum" áður þá er ég búin að toppa hann fyrir löngu. Ættarsvipurinn leynir sér alla vega ekki.Shocking

Berst við bév....ógleðina ennþá og lystarleysið þó magaverkirnir séu snöggtum minni. Finnst allt vont en ef ég næ að koma einhverju niður, verður mér illt í fleiri klukkutíma á eftir.  Má helst ekki finna lykt af mat, oj.... Er greinilega komin í ferlegan vítahring með þetta allt saman. Prins poloið klikkar ekki frekar en fyrri daginn en það kemur reyndar fyrir af og til að mér finnist það ekki sérlega gott.

Hef reynt bókstaflega allt sem mér dettur í hug, þykist náttúrlega hafa óskaplega mikið vit á þessu öllu saman en er strand. Það verður að viðurkennast eins og er.  Siggir stormur segir að það sé komið vor, næsta skref er að láta á það reyna og koma sér út, þó ekki nema út í garð og anda að sér hreinu lofti. Kúldrast inni 99% af sólahringnum, að öllu jöfnu og hitti ekki sálu. Svo þegar ég fer loksins út, virðist áreitið yfirþyrmandi og ég eins og sönn bresk hefðarfrú; alltaf þreytt, þarf að leggja mig. OMG! Vantar bara ilmsaltið, blævænginn og vasaklútinn.Halo

Verð að viðurkenna að mér leiðist þetta ástand heldur betur, get ekki beðið eftir því að endurheimta sjálfstæðið og frelsið. Hef verið lengi í útlegð og orððin býsna vön henni en búin að vera í stofufangelsi og einangrun núna í  2 1/2 viku og kann því fremur illa. Hef verið háð öðrum með allar bjargir og notið góðs af þrautseigju stóru systur og hennar dóttur. Get sennilega seint launað þeim allan greiðan. 

Hef reyndar haft nóg fyrir stafni, sá enga ástæðu til að vera í veikindaleyfi þegar kom að fjarkennslunni, ekkert að mér í hausnum (eða þannig) né höndunum auk þess sem ég hef haft nóg að gera í eigin verkefnum.  Mér sækist hins vegar vinnan afar hægt, löturhægt reyndar.

Sakna hundanna ekkert lítið, vantar mikið þegar Díana mín er hvergi nærri enda hefur hún fylgt mér í 10 ár. Veit að það fer vel um þær báðar í sveitinni þar sem þær eru í góðu yfirlæti. Heimilislæðan hefur verið með víðáttubrjálæði hér innan dyra síðan tíkurnar fóru, hegðar sér eins og hundur og eltir mig hvert fótmál, ekki síst í stiganum þar sem hún er orðin hálfgert vandamál, flækist fyrir fótunum á mér. Hefur alltaf haldið sér víðsfjarri blessunin þegar tíkurnar eru heima en nú á hún húsið og breiðir úr sér eins og hver önnur prímadonna og það sem meira er, hún spikfitnar. Heart

Get varla beðið eftir endurkomutímanum sem er nk. miðvikudag, þá liðnar 3 vikur frá brotinu. Það verður spennandi að taka heftin eftir allan þennan tíma, úffSick.  Fæ væntanlega nýtt gips sem vonandi verður léttara en þessi 10 kílóa hlunkur er sem ég er með á löppinni núna. Það verða ákveðin tímamót því væntanlega verður tekin mynd og metið hvernig brotið hefst við og gróandinn er. Hvorutveggja segir mikið um framhaldið. Á heimboð í sveitina, sauðburður að hefjast, ætla rétt að vona að ég verði fær um að skreppa. Verður frábært að kíkja á hrossin og bara skreppa ,,heim í heiðardalinn". Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ég þarf að vera fær um það þannig að ég tek eitt skref í einu. 

Hún er einkennileg þessi heilsa, það finnur maður best þegar maður missir hana. Allt er háð því að maður sé með góða heilsu og fulla starfskrafta. Ekki veit ég hvernig ég myndi bregðast við ef ég missti hana varanlega. Ég hef illþyrmilega orðið vör við skeytingaleysi og tillitsleysi gagnvart hreyfihömluðum eins og mér, t.d. í verslunum síðustu vikurnar og skil nú betur þær kvartanir sem berast frá öryrkjum. Þær eiga sér stoð í raunveruleikanum, mér finnst tilllitsleysi margra vera til háborinnar skammar. Ég hef haft gott af því að kynnast því á eigin skinni.

Get eiginlega ekki ímyndað mér lífið án þess að njóta starfskrafta, sjálfstæðis og frelsis. Sem betur fer er þetta ástand tímabundið, ég kann örugglega betur að meta þá heilsu sem ég hef náð eftir veikindin. Þó ég nái aldrei fyrri starfsorku og getu, má ég svo sannarlega þakka fyrir þann bata sem ég hef fengið. Hann er ekki sjálfsagður og ekki eru allir jafn heppnir og ég. 

Ætla að nota næstu daga til að byggja upp andlegt og líkamlegt þrek til að komast í gegnum programmið sem bíður mín á miðvikudag, það er ærið verkefni fyrir fullhrausta að komast í gegnum frumskógakerfið. Í þeim efnum stendur landsbyggðin mun betur að vígi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þetta gengur yfir....endilega reyndu að sitja dálítið úti hjá þér. Það er svo hressandi að fá súrefni. Og kannski batnar matarlystin við það.

Hólmdís Hjartardóttir, 19.4.2008 kl. 01:41

2 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Hef trú á að þetta komi

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 19.4.2008 kl. 08:27

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég hef oft hugsað til þín síðustu vikur og ekki síst í því sambandi að ég þurfi nú ekki að kvarta (en ég geri það, þegar enginn heyrir til), miðað við þær hremmingar sem þú hefur lent í.

Þetta verður vonandi betra hjá þér, þegar þú ert komin í léttara gips, en ég skil vel líðan þína, maður verður eitthvað svo niðurdreginn, þegar starfsgetan minnkar og allt sem maður telur sér trú um að þurfi að gerast er sett á "hold".

Farðu vel með þig og ég vona að þú komist í sveitina og þar með smá tilbreytingu

Sigrún Jónsdóttir, 19.4.2008 kl. 11:58

4 Smámynd: Katan

knús og kossar frá þrumuveðrinu í Ungverjalandi.. (btw.. Kíktu á mynd sem ég setti á bloggið mitt, sýnir hvað við íslensku stelpurnar erum harðar og scary)

Katan , 19.4.2008 kl. 19:26

5 identicon

Ég sé þig fyrir mér með blævænginn og ilmsöltin, ensk hefðarfrú með prins póló í bunkum við hliðina á flotta stólnum og köttinn að notfæra sér frelsið uppum alla veggi. 

Ég sé þig líka fyrir mér sterkari,  laus við gifsið og hundarnir komnir heim og kisa hundfúl yfir því að vera ekki aðalnúmerið lengur og þú reynslunni ríkari.

Það sem hefur verið að gagnast mér vel til að ná upp orkunni er að taka inn L-Glutamine 500 mg eina töflu 3x á dag.  Fæst í næsta apóteki.  Systir mín er homopati og ráðlagði mér þetta og ég finn mikinn mun, ég er reyndar að taka inn fleira sem ég kaupi í apótekinu en eftir að hafa gúgglað og lesið um þetta efni þá held ég að þetta sé efnið sem er að gefa mér orkuna á ný.  

Sunnudagsknús mín kæra ....

Maddý (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 10:28

6 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Mér dytti seint að láta tíkurnar frá mér Stýri, alla vega ekki Lafði Díönu, Perla er sennilega betur komin í sveitinni en dóttirin á hana og verður að taka þá ákvörðun. Þetta hefst allt saman, vonandi get ég kíkt í sauðburð, ég veit að ég mun hoppa upp í bílinn um leið og ég finn leið til að keyra

Takk fyrir góð ráð Maddý, kíki á þetta. Hlýjar kveðjur að vanda frá þér Helena, er sammála, þetta gengur ekki mikið lengur svona. 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 20.4.2008 kl. 23:36

7 Smámynd: Beturvitringur

"Hinn heilbrigði á sér margar óskir, hinn sjúki aðeins eina"

Beturvitringur, 21.4.2008 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband