Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.4.2008 | 13:41
Íbúðalánasjóður
Mér sýnist forsætisráðherran okkar vera farinn að missa tengsl við raunveruleikan. Taugarnar kannski að bresta. Nýjasta útspil hans er að kenna 90% lánum Íbúðalánasjóðst um efnahagsástandið í landinu. Býr kannski eitthvað annað á bak við þessa yfirlýsingu?
Þvílík firra og hroki að bjóða þjóðinni upp á slíkar skýringar. Allir vita að það eru bankarnir sem m.a. bera ábyrgðina á efnahagsástandinu. Útrás þeirra og samkeppni við Íbúðalánasjóð. Velta bankana nemur hundruðum milljarða á ári eftir að þáverandi ríkisstjórn einkavæddi Búnaðarbankan og Landsnabankan. Búin að vera samfelld góssentíð síðan og ný auðmannsstétt sprottið upp eins og gorkúlur með tekjur sem venjulegir Íslendingar hafa ekki látið sig dreyma um hér á landi
Eru hámarkslán Íbúðalánasjóðs ekki 16-18 milljónir? Hvernig í ósköpunum kemst hagfræðingurinn Geir Haarde að þessari niðurstöðu er mér óskiljanlegt. Hámarkslán Íbúðalánasjóð duga kannski fyrir 2ja herbergja íbúð í blokk á höfðuborgarsvæðinu og þokkalegri fasteign á landsbyggðinn en þó háð staðsetningu. Hvernig dettur forsætisráðherra að bjóða þjóðinni upp á slíkar skýringar? Það væri fróðlegt að sjá tölur um það hversu hátt hlutfall fasteignakaupenda eru að fjárfesta í eignum á því verðbili sem lán Íbúðalánasjóðs duga fyrir.
Í mínum huga er aðeins ein skýring á þessari yfirlýsingu forsætisráðherrans; það á að leggja Íbúðalánasjóðinn niður og ryðja þar með síðustu hindrun bankanna úr vegi. Það kann að vera að ríkisstjórn sé allt í einu að vakna úr sínum draumaheimi og fari á límingunum þegar blákaldur raunveruleikinn blasir við. Ég hef frekar þá trú að ríkisstjórnin sjái nú tækifæri í stöðunni og möguleika á að koma sínum áherslumálum í gegn. Samfylkingarmenn ætla sér greinilega að sitja hjá í umræðunni. Ekki einu sinni Jóhanna Sigurðardóttir segir orð, jafnvel þó hennar tími sé kominn.
Ríkisstjórnin mun leggja niður Íbúðalánasjóð, selja hann bönkunum sem hækkar umsvifalaust alla vexti, aftuvirkt. Frumskógagalögmálið mun gilda í landinu; þeir sterkustu munu lifa af. Enn og aftur; þetta kaus þjóðin yfir sig. Hvenær mun hún rísa upp og segja; nú er nóg komið?
30.4.2008 | 01:37
Er ekki í lagi?
Ég er orðlaus núna, settur forstjóri LSH barmar sér yfir því að hjúkrunarfræðingar slái á útrétta hendi í dag! Hvað er í gangi segi ég? Mér hefði þótt í hæsta máta óeðlilegt ef hjukrunarfræðingar hefðu stokkið til og samþykkt þá tillögu að fresta vandanum fram á haustið. Hver vill endurtaka tímabil átaka og óvissu og byrja ballið upp á nýtt?
Mér skilst að ráðherra fundi stíft með framkvæmdarstjórum Kragasjúkrahúsanna og FSA. Á ég að trúa því að neyðaáætlun sé ekki til hjá LSH þrátt fyrir stóryrtar yfirlýsingar þess efnis síðustu dagana? Ég sé ekki hvernig Kragasjúkrahúsin geti tekið þátt í neyðaráætlun LSH, varla fara menn að flytja bráðveika sjúklinga til Keflavíkur, Selfoss og á Akranes til að fara í bráðaaðgerðir? Sé um bráðaaðgerðir að ræða yfir höfuð, vinnst varla tími til þess og varla verða sjúklingar fluttir á Akureyri eða til Vestmannaeyja?
Ég hef löngum verið talsmaður þess að Kragasjúkrahúsin væru betur nýtt en raun ber vitni, bæði mannafli og tækjabúnaður til staðar en í mörgum tilvikum er engin skurðstofuvakt eftir kl. 24.00 og um helgar né heldur vakt geislafræðinga þannig að ekki nýtast þær skurðstofur til að sinna bráðatilfellum nema að aukin fjárveiting kæmi til. Sparnaðarsjónarmið hafa ráðið för árum saman í þeim efnum og hafa stjórnvöld stólað á LSH þegar kemur að bráðatilvikum og slysum sem eiga sér stað alls staðar á landinu, ekki einungis á suðvestur horninu.
Ég hef ekki trú á þvi að hjúkrunarfræðingar á öðrum stofnunum séu reiðubúir til að láta flytja sig á milli sjúkrahúsa til að bjarga málum. Það tekur langan tíma að þjálfa svæfinga- og skurðstofuhjúkrunarfræðinga til starfa, það stekkur enginn skurðstofuhjúkrunarfræðingur af skurðstofu á Akranesi sem dæmi og stendur hjartaaðgerð á LSH. Hann hefur einfaldlega ekki þjálfun til þess og slíkt myndi geta stofnað öryggi sjúklings í hættu.
Svo virðist sem stjórnendur LSH hafi hunsað þá grundvallareglu sem allir samningar byggja á, þ.e. að setjast niður og ræða við sitt starfsfólk. Á ég þá ekki við einhliða umræður heldur gagnkvæmar og skilvirkar umræður þar sem deiluaðilar leggja spilin og borðið og finna sameiginlega lausn á málum. Stjórnendur hafa kosið að fara aðra leið, þá sömu og forsætisráðherra hefur farið gagnvart vörubílstjórum og í raun allri þjóðinni; annað hvort hlýðið þið eða ....!!
Sá mannauður og þekkingaverðmæti sem LSH er í þann veginn að missa frá sér er ómetanlegur og óbætanlegur. Hversu lengi er hægt að réttlæta að svona staða komi upp, einfaldlega vegna stífni og gerræðislegra stjórnunarhátta, hvort heldur sem er frá stjórnendum eða stjórnmálamönnum.
Staðan er sorgleg og grafalvarleg. Það virðst sama í hvaða málaflokki það er, efnahagsmálum þjóðarinnar og yfirstandandi kreppu, heilbrigðismálum, öryggi landsmanna o.s.frv. Ríkisstjórnin er ekkert að aðhafast í málum, stendur á hliðalínunni, henni koma vandamál þjóðarinnar ekki við. Það er ekki oft sem ég er sammála Guðna Ágústsyni en nú er ég það. Ríkisstjórnin á að segja af sér.
Forstjóri LSH: Mikil vonbrigði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.4.2008 | 11:48
Engir samningar
Það á augljóslega ekki að semja við geislafræðinga og hjúkrunarfræðinga á LSH. Þetta eru skýr skilaboð sem stjórnendur senda starfsfólki sínu. Hvaða áhrif skyldu þau hafa á aðrar stéttir?
Mér er sem ég sjái stjórnendur breyta vaktarfyrirkomulagi lækna í samræmi við EES samningin og hvíldarákvæðin. Sparnaðurinn myndi vera margfaldur á við sparnað vegna hjúkrunarfræðinganna og geislafræðinganna en trúlega óframkvæmanlegt þar sem fjölga þyrfti stöðugildum umtalsvert. Vaktir lækna fara upp í a.m.k. 36 klst. á sólahring að ég best veit. Trúlega eru sérfræðingarnir á lengri vöktum, þ.á.m. þeir sem starfa við svæfinga- og skurðlækningar.
Hins vegar hlýtur þessi stefna stjórnenda um að virða hvíldarákvæði EES samningsins ná yfir allar stéttir LSH, engin stétt þar undanskilin. Það hefur ekki verið gert í þau 12 ár sem liðin eru frá samningum hér á landi, vaktavinna keyrð á undanþágum í heilbrigðisgeiranum, löggæslunni og víðar.
Gæti þessi aðgerð stjórnenda vera liður í því að skapa hagstæð skilyrði fyrir einkavæðingu heilbrigðisráðherra? Domus gæti tekið að sér rekstur röntgendeildar LSH og starfsmannaleigur geta trúlega útvegað hjúkrunarfræðingana. Hvernig ætla þeir að semja við læknana? Bjóða þeim hlut í huganlegu hlutafélagi? Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni.
Það sem gleymist í umræðinni og hörku í aðgerðum eru skjólstæðingar spítalans, þ.e. landsmenn. Við erum greinilega ekki hátt skrifaðir, öryggi okkar og þjónusta við okkur virðist aukaatriði. Allt snýst þetta um pólitík og völd.
Landspítalinn horfir til Noregs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.4.2008 | 01:12
Strúturinn
Stál í stál á Landspítala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2008 | 15:37
Afmæliskveðja
Stóri bróðir á afmæli í dag, einn sá jákvæðasti, hressasti og duglegasti baráttujaxl sem ég hef fyrirhitt. Ekki hægt annað en að taka hann sér til fyrirmyndar.
Innilegar hamingjuóskir með daginn Tóti
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.4.2008 | 00:46
Sammála
Það er ekki oft sem ég hef verið sammála Sjálfstæðismönnum seinni árin.Var þó stundum sammála Sturlu á þeim tíma sem hann var ráðherra og ég sveitarstjórnarmaður, ekki síst þegar kom að málefnum minnar, fyrrum heimabyggðar.
Nú get ég ekki annað en verið sammála fyrrum ráðherra Norðvestukjördæmis og er ánægð með að hann skyldi stíga fram með sína skoðun. Grátleg mótsögn ef kjósa á um aðild að ESB á 200 ára afmælishátíðarári sjálfstæðishetju Íslendinga
Umræðan um aðild að ESb er þörf, menn verða að fá tækifæri til að meta kalt kosti og galla. Leggja þarf fram réttar og áreiðanlegar upplýsingar um hvorutveggja, þá fyrst er þjóðin tilbúin til að velja eða hafna.
Eru talsmenn ESB aðildar það veruleikafirrtir að telja að það dugi að matreiða hrátt ofan í landsmenn?
Aðild að ESB ekki fýsilegur kostur segir forseti Alþingis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.4.2008 | 00:14
Svartur dagur
Ég hef verið eins og flestir Íslendingar hálf dofin yfir atburðum dagins. Hef haft fullan skilning á baráttu atvinnubílstjóra og þeirra mótmælum svo fremi sem þau fari ekki út í öfgar. Ætlaði varla að trúa skilningavitum mínum í dag þegar ég sá hvert myndbandið á fætur öðru um þróun mótmælanna í dag og harðar aðgerðir lögreglu. Málin fóru greinilega úr böndum, nýjir bættust við mótmælendahópinn og hópur ungs fólks grýtti eggjum. Sá hópur skemmdi meira fyrir bílstjórum en hitt en hafa verður í huga að mönnum er orðið heitt í hamsi og þjóðin er búin að fá upp í kok af aðgerum/aðgerðarleysi stjórnvalda.
Lögreglan beitti valdi og harðræði eins og fréttamyndir sýndu í dag og kvöld. Það er erfitt fyrir áhorfendur að dæma um réttmæti þeirra aðgerða sem þjóðin sá í dag en eitt er víst; lögreglan var að vinna sína vinnu eftir fyrirmælum.
Það sem vekur athygli mína er að lögreglan virtist vígbúin eldsnemma í morgun, klár með járnin, brynjurnar og allt heila klabbið. Það segir mér að aðgerðir voru skipulagðar, vel undirbúnar og valdboðið kom að ofan. Eftir að hafa hlustað á viðtalið við forsætisráðherran í fréttum kvöldsins þarf enginn að velkjast um í vafa um hver stefna ríkisistjórnarinnar er. Það á að berja almenning til hýðni ef hann gegnir ekki. Dómsmálaráðherra var á sömu línu. Þetta er kjarni málsins. Hrokinn og yfirgangurinn í ráðamönnum þjóðarinnar er það sem er áhyggjuefni.
Við sjáum ráðherra ríkisstjórnar (mis)beita valdi sínum á öllum stigum og í flestum málaflokkum til að koma málum sínum í gegn, hvert á fætur öðrum. Kvótinn og niðurskurður þorskaflans, einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar og viðbrögð við uppsögnum hjúkrunarfræðinga og geislafræðinga á LSH eru nærtæk dæmi en ráðherrar eru á því að frekar megi þeir ganga út og hefja störf annars staðar en að semja við þá. Skiptir þá öryggi skjólstæðinga engu máli. Til að ,,berja" þá til hlýðni er hver og einn hjúkrunarfræðingur tekinn á teppið og þrýst á hann fyrir luktum dyrum. Með því að freista þess að brjóta hvern og einn niður, ætla menn að ná árangri.
Brjóta á niður vörubílstjórana, vængstífa þá hvern á fætur öðrum enda ekki uppi á borðum að ræða við þá. Símar virðast hleraðir og setið fyrir mönnum.Einkavæðing náttúruauðlinda virðist skammt undan, þurrka á út bændastéttina með því að gera þeim ókleift að stunda búskap og þurrka á út dýralæknaþjónustuna og þar með stéttina. Keyra á í gegn skjólagjöld í ríkisháskólunum og sennilega verða lífeyrisjóðirnir þvingaðir til að lána bönkunum til að forða þeim frá frekara tapi. Svona má lengi telja. Aðferðafræðin alltaf hin sama, þvingunaraðgerðir án allrar umræðu.
Annað sem vekur athygli mína er kemur að stjórnvöldum. Svo virðist sem einungis einn maður stjórni landinu; forsætisráðherra með skósveina sína á hælunum. Ráðherrum samstarfsflokksins haldið utan við allt enda á þönum um allan heim til að tryggja inngöngu okkar í öryggisráðið og bjarga heiminum. Þeir hafa ekkert um málefni þjóðarinnar að segja og una því greinilega sáttir. Húsbóndahollir í meira lagi.
En menn eru klókir og beina athygli þjóðarinnar frá því einræði sem hér ríkir. Spjótin berast að lögreglunni og reiði þjóðarinnar beinist að lögreglumönnum. Klókur leikur. Við erum hins vegar mörg sem áttum okkur á því að lögreglan starfar undir valdboði að ofan þar sem dómsmálaráðherra fer með æðsta vald og skipanir.
Það er full ástæða til að hafa áhyggjur eftir uppákomu dagsins. Ég óttast að heift og reiði manna verði enn meiri og fleiri munu vígbúnast en lögreglan á næstu dögum. Þegar málum er svo komið er hætt við að skynsemin fjúki lönd og leið og hvatvísin látin ráða för. Það þarf ekki að spyrja hvernig málin þróast þegar þau eru komin í þann farveg. Margir muna eða hafa lesið um mótmælin og átökin í byrjun 4. og 5. áratug síðustu aldar. Atburðir sem enginn vill sjá aftur.
Ábyrgðin er fyrst og síðast stjórnvalda. Ríkisstjórnin hyggst berja menn til hlýðni með valdboði á öllum sviðum. Menn þurfa að vera skynsamir þegar þeir skipuleggja mótmæli og hafa allt sitt á þurru til að þau verði effectiv.
Við höfum henykslast á Castro í meira en hálfa öld en hver er þróunin að verða hér á landi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.4.2008 | 18:57
Létt á fæti
Það er aldeilis að mín er orðin létt á fæti, ég bókstaflega svíf. Endurkoma í morgun og ekki laus við örlítnn kvíða, ekki mjög spennandi að fara með fullri meðvitund á hátæknisjúkrahúsið þó á endurkomudeild væri að ræða. Andlitið bókstaflega datt af mér, frábærar móttökur, hlýtt viðmót og fagleg vinnubrögð á allan hátt. Þarna ríkir greinilega góður mórall og starfsgleðin geislar af öllu starfsfólki. Mér var fært kaffi, ekki einu sinni heldur tvisvar. Mér varð svo um þessi umskipti að ég gleymdi magasárinu, tók við kaffinu, brosandi aftur fyrir eyru en tókst auðvitað að hella því niður á drifhvítt teppið. Fyrirgefið á stundinni
Ég komst að því að á endurkomudeild slysamóttökunnar er ekki skortur á hjúkrunarfræðingum og færri komast að en vilja. Sá ekki betur en að aldurssamsetningin væri önnur en á slysa-og bráðamóttökunni, hjúkrunarfræðingarnir flestir 35 ára + og starfsmannavelta lítil. Í þetta skiptið var mér boðið að koma hvenær sem væri á opnunartíma, ef eitthvað væri með gipsið eða fótinn. Öll vandamál skal leysa.
Hitti þann fróma lækni sem tjaslaði brotinu sama, eldhress og skemmtilegur maður. Var ekkert að skafa af því, sagðist hafa reynt að negla hnjáliðinn sama ,,til að reyna að gera eitthvað" en liðurinn í maski svo ég noti hans eigin orð. Ástandið sem sé slæmt, brotið með því verra og allt mölbrotið, mélinu smærra. Spáin hljómar upp á gervilið innan 10 ára.
Fékk þennan fína gipshólk, nokkrum kílóum léttari en fyrri spelka var enda úr trefjaplasti núna. Ekki laust við að ég öfundaði ungan dreng við hliðina á mér, hann fékk svart gips. Ferlega smart og hefði verið í stíl við fatalagerinn minn en mér skilst að það sé svona spari. Auðvitað fá krakkarnig og unglingarnir að velja eitthvað sem þeim finnst smart, auðveldar þeim gipsmeðferðina.
En ég er sem sé hæst ánægð, ekkert mál að komast um. Jafnvægispunkturinn hins vegar annar, þarf að fara varlega í stiganum ennþá svo ég steypist ekki fram fyrir mig. Hef rýrnað hressilega sjálf, orðin mjög ,,slank" og pen eftir síðustu vikur. Fóturinn illa bólginn ennþá enda mikil blæðing í vöðvana. Er eins og illa hannað bjúga að lögun, rýr efst á læri, bólgnar síðan svagalega út, mjókkar svo aftur. Fer sennilega ekki í sólbað á almannafæri þetta árið og hvað framtíðina varðar kemur sér vel að há stígvél eru í tísku. Ég á þau nokkur
Framundan áframhaldandi gipsmeðferð í 2 vikur og síðan á að byrjað að hreyfa hnéð án þess að ég fái að tylla í fót. Sjúkraþjálfun hefst þá fljótlega. Já, sjúkraþjálfun. Augun urðu eins og undirskálar, þvílíkur lúxus, fékk enga eftir lungnaskurðinn. Fékk ekki lengra plan, ekki vitað hvernig hnéð og fótleggurinn kemur út úr þessu öllu og of snemmt að segja til um meira. Ekki raunhæft að mynda í dag,verður gert næst. Hvað varðar varanlegan skaða skilst mér að ég uppfylli öll þau skilyrði sem tryggingafélögin setji fram í smáa letrinu. Á það ferli allt eftir, á að vera þokkalega tryggð en vissara að hafa lögfræðing með sér í því máli þegar að því kemur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.4.2008 | 23:51
Kemur þetta eitthvað á óvart?
Ég hef löngum haft þann grun að til stæði að einkavæða allt heilbrigðiskerfið. 40% þegar komin skv. opinberum yfirlýsingum. Ég er ansi hrædd um að mörgum bregði í brún núna. Það jákvæða gæti gerst að þjónustan yrði hugsanlega mannsæmandi, mistökum myndi kannski fækka og líf landsmanna margra lengjast að sama skapi.
Eins og einhverjum varð á orði; ,,If you can´t beat them, join them"
Spái því að aðild í ESB verði undirbúin á þessu kjörtímabili með bindandi samningum. Frumvarp um opinbert hlutafélag fer í gegn sem og aðild að ESB. Ekkert stoppar núverandi ríkisstjórn enda í bullandi meirihluta á þingi. Þetta kaus þjóðin og þetta vill hún. Nú verða hraðar hendur. Gúrkutíð framundan hjá tryggingafélögunum, hverjir aðrir skyldu nú hagnast?
Einhver skýring hlaut að koma á brottrekstri forstjóra LSH. Þarf nokkuð fleiri orð
Landspítalinn opinbert hlutafélag? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.4.2008 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.4.2008 | 23:49
Þvers og krus
Ég er eiginlega orðin kjaftstopp þegar kemur að Samfylkingunni þessa dagana og er þá mikið sagt! Mér verður sjaldan orða vant. Þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar tala þvers og krus, ýmist þvert á móti yfirlýstri stefnu flokksins eða með. Nýjasta dæmi varðar innheimtu skólagjalda við ríkisháskólana. Ég er fyllilega meðvituð meðvituð um stefnu Sjálfstæðismanna, þeir vilja skjólagjöld og einkavæðingu. Samfylkingarmenn hafa verið á móti skólagjöldum í grunnnámi á háskólastigi, eitt af kosningarmálum þeirra sem gaf þeim einhver atkvæði í kassan í síðustu kosningum, ekki síst frá ungu námsfólki.
Ég hef hins vegar aldrei skilið af hverju einkareknu skólarnir eru að fá sömu framlög og þeir ríkisreknu, slíkt er mismunun enda þeir einkareknu með verulegt forskot þegar kemur að rekstrarfé. Það gefur auga leið að einkareknu skólarnir fá samkeppnisforskot sem um munar.
Ég hef, líkt og margur, sérstaklega fylgst með störfum Samfylkingarinnar í núverandi ríkisstjórn. Sumir þingmenn þekktir fyrir óvægna gagnrýni á áherslu Sjálfstæðismanna í gegnum tíðina enda mörg, opinber stefnumál ólíkt. Margir undruðust stjórnarviðræðurnar hjá Þingvallarstjórninni, einmitt vegna ólíkra áherslna flokkanna, að því er menn töldu. Annað hefur reyndar komið á daginn, áherslur þessara flokka fara vel saman þegar kemur að einkavæðingu ríkisstofnanna og þjónustu á vegum hins opinberra. Samfylkingarmenn í Hafnarfirði voru að tryggja rekstur einkavædds leikskóla í dag. Það sama á einnig við um fleiri málaflokka, utanríkistefnan er orðin samhljóma stefnu íhaldsins, svo virðist sem stefnan í velferðarmálum sé einróma og þannig má lengi telja.
Ég fæ ekki betur séð en að þeir örfáu þingmenn sem eru enn trúir sinni sannfæringu sem og opinberri stefnu flokksins, séu kveðnir hið snarasta í kútinn, ekki síst þegar þeir tala þvert á forystuna. Skapar ekki trúverðugleika forystunnar. Mér virðist það spursmál hvenær klofningur innan Samfylkingarinnar kemst upp á yfirborð. Það kraumar örugglega en menn ná að halda ólgunni frá fjölmiðlum og almenningi. Eins og ég hef áður sagt; rosalegar eru ráðherrastólarnir dýrir og fórnarkostnaðurinn mikill.
Ég hlustaði á hluta viðtals við Össur í gær og get ekki sagt að hann sé svipur hjá sjón miðað við fyrri framgöngu í málum. Í dag talar hann föðurlega til þjóðarinnar og er með heimspekilegar vangaveltur í viðtölum. Sannfærir mig ennfrekar um að ég hafi rétt fyrir mér um að ýmsir ráðherrar eru að sinna persónulegum hugsjónamálum og ná fram persónulegum markmiðum. Þeir sem ekki eru sammála ráðherranum eru náttúrlega villuráfandi sauðir sem þarf að leiðbeina á rétta slóðir. Sollan heldur áfram á sinni ,,Móðir Teresu" braut, virðist engan áhuga hafa á málefnum innanlands né stöðuna í efnahagsmálum fremur en aðrir ráðherrar hennar.
Ansi er ég hrædd um að sá tími sem eftir er af valdatíma núverandi ríkisstjórnar, dugi henni til að einkavæða allt sem hægt er að einkavæða, selja Íbúðalánasjóð og sigla þjóðarskútunni í kaf. Einhverjir hagnast af slíkri stöðu í efnahagi þjóðarinnar. Hverjir skyldu það verða? Í öllu falli verður það Samfylkingin sem fyrst og fremst kemur til með að gjalda fyrir stjórnarsamstarf við Sjálfstæðismenn í næstu kosningum. Hef alla trú á því að við þau tímamót verði forystu Samfylkingarinnar skipt út
Nú hefur samgönguráðherra lagt til að Bjargráðasjóður verði lagður niður og 660 milljónir greiddar út til eigenda sem eru ríkið, sveitarfélög og Bændasamtök Íslands. Hingað til hefur bændum ekki staðið til boða önnur úrræði þegar illa árar og geta ekki sótt í stéttafélagssjóði líkt og aðrar stéttir.Er enn sannfærðari um að samsæriskenning mín um vilja stjórnvalda til að þurrka út bændastéttina sé á rökum reist. Búið að selja Lánasjóð Landbúnaðarins til Landsbankans. Það verður ekkert eftir ef þetta frumvarp nær fram að ganga sem það gerir örugglega í krafti meirihluta á Alþingi. Nú þurfa bændur að fara stíga á bremsuna og standa saman
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)