Er ekki í lagi?

Ég er orðlaus núna, settur forstjóri LSH barmar sér yfir því að hjúkrunarfræðingar slái á útrétta hendi í dag! Hvað er í gangi segi ég? Mér hefði þótt í hæsta máta óeðlilegt ef hjukrunarfræðingar hefðu stokkið til og samþykkt þá tillögu að fresta vandanum fram á haustið. Hver vill endurtaka tímabil átaka og óvissu og byrja ballið upp á nýtt?

Mér skilst að ráðherra fundi stíft með framkvæmdarstjórum Kragasjúkrahúsanna og FSA. Á ég að trúa því að neyðaáætlun sé ekki til hjá LSH þrátt fyrir stóryrtar yfirlýsingar þess efnis síðustu dagana?  Ég sé ekki hvernig Kragasjúkrahúsin geti tekið þátt í neyðaráætlun LSH, varla fara menn að flytja bráðveika sjúklinga til Keflavíkur, Selfoss og á Akranes til að fara í bráðaaðgerðir? Sé um bráðaaðgerðir að ræða yfir höfuð, vinnst varla tími til þess og varla verða sjúklingar fluttir á Akureyri eða til Vestmannaeyja?

Ég hef löngum verið talsmaður þess að Kragasjúkrahúsin væru betur nýtt en raun ber vitni, bæði mannafli og tækjabúnaður til staðar en  í mörgum tilvikum er engin skurðstofuvakt eftir kl. 24.00  og um helgar né heldur vakt geislafræðinga þannig að ekki nýtast þær skurðstofur til að sinna bráðatilfellum nema að aukin fjárveiting kæmi til. Sparnaðarsjónarmið hafa ráðið för árum saman í þeim efnum og hafa stjórnvöld stólað á LSH þegar kemur að bráðatilvikum og slysum sem eiga sér stað alls staðar á landinu, ekki einungis á suðvestur horninu.

Ég hef ekki trú á þvi að hjúkrunarfræðingar á öðrum stofnunum séu reiðubúir til að láta flytja sig  á milli sjúkrahúsa til að bjarga málum. Það tekur langan tíma að þjálfa svæfinga- og skurðstofuhjúkrunarfræðinga til starfa, það stekkur enginn skurðstofuhjúkrunarfræðingur af skurðstofu á Akranesi sem dæmi og stendur hjartaaðgerð á LSH. Hann hefur einfaldlega ekki þjálfun til þess og slíkt myndi geta stofnað öryggi sjúklings í hættu. 

Svo virðist sem stjórnendur LSH hafi hunsað þá grundvallareglu sem allir samningar byggja á, þ.e. að setjast niður og ræða við sitt starfsfólk. Á ég þá ekki við einhliða umræður heldur gagnkvæmar og skilvirkar umræður þar sem deiluaðilar leggja spilin og borðið og finna sameiginlega lausn á málum. Stjórnendur hafa kosið að fara aðra leið, þá sömu og forsætisráðherra hefur farið gagnvart vörubílstjórum og í raun allri þjóðinni; annað hvort hlýðið þið eða ....!!

Sá mannauður og þekkingaverðmæti sem LSH er í þann veginn að missa frá sér er ómetanlegur og óbætanlegur. Hversu lengi er hægt að réttlæta að svona staða komi upp, einfaldlega vegna stífni og gerræðislegra stjórnunarhátta, hvort heldur sem er frá stjórnendum eða stjórnmálamönnum.

Staðan er sorgleg og grafalvarleg.  Það virðst sama í hvaða málaflokki það er, efnahagsmálum þjóðarinnar og yfirstandandi kreppu, heilbrigðismálum, öryggi landsmanna o.s.frv. Ríkisstjórnin er ekkert að aðhafast í málum, stendur á hliðalínunni, henni koma vandamál þjóðarinnar ekki við. Það er ekki oft sem ég er sammála Guðna Ágústsyni en nú er ég það. Ríkisstjórnin á að segja af sér. Shocking

 

 


mbl.is Forstjóri LSH: Mikil vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Það hefur ekkert verið reynt að semja við hjúkruarfræðingana.....það  hefur ekkert verið talað við þær. Enda lýstu þær vantrausti á stjórn spítalans með réttu. Mig grunar að þær verði skikkaðar næstu 3 mánuðina......þá geta þær ekkert nema veikst. Fengið hina alræmdu flugumferðastjórapest. Góður pistill Guðrún Jóna.

Hólmdís Hjartardóttir, 30.4.2008 kl. 01:57

2 Smámynd: Hreggviður Davíðsson

Sæl vinan.

Heilbrygðismálum landsins er stjórnað frá veruleikafyrrtum fílabeinsturni, án hugsunar um að aðrir en þeir sem þar sig finna, hafi nokkuð til málanna að leggja. Fyrr skal landið í eigin blóði liggja en að hrokagikkir stjórnsýslunar beigi af. Það þarf fleiri raddir í þínum anda til að styðja okkar frábæra starfsfólk á sjúkrahúsum landsins. Guð blessi þig.

Hreggviður Davíðsson, 30.4.2008 kl. 03:20

3 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 30.4.2008 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband