Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Dalamenn standi saman og leggi lið

Vísa hér í frétt á heimasíðu Skessuhorns í dag:

Nokkrir aðilar í Dölum hafa ákveðið að efna til söfnunar til að létta undir með Þórði Halldórssyni á Breiðabólstað, en hann veiktist hastarlega síðasta haust. Verið er að skoða kaup á dráttarvél með aukabúnaði sem gæti létt honum lífið við bústörfin. Forsvarsmenn söfnunarinnar segja að Þórður hafi ætíð verið tilbúinn að leggja öðrum lið og nú sé komið að þeim að endurgjalda greiðviknina.

Þórður varð fyrir því áfalli síðasta haust að fá heilablóðfall og þurfti af þeim sökum að gangast undir erfiðar aðgerðir. Hann hefur verið í endurhæfingu á Grensásdeild, en áfallið hefur gert það að verkum að hann hefur hlotið af hreyfihömlun, sem gerir honum ókleift að ganga til starfa sinna með sama hætti og áður. Fjárbúskapur og fjárrag hefur verið órjúfanlegur hluti af lífi Þórðar frá bernsku og ljóst að þangað stefnir hugurinn þó önnur nálgun þurfi að vera á verklagi í bili. Því hefur verið ákveðið að athuga með kaup á dráttarvél með aukabúnaði sem hentar honum til að sinna fleiri og fjölþættari verkefnum við bústörfin. Aukabúnaður sem þessi er dýr og mikil vinna í því fólgin að aðlaga hann að þörfum hvers og eins. Nú líður senn að því að Þórður útskrifist af endurhæfingardeild og haldi áfram að vinna að framförum sínum heima að Breiðabólstað. Telja menn að nefndur vélbúnaður komi þar að afar góðum notum og auki lífsgæði Þórðar til muna og hjálpi honum á batabraut. Stofnaður hefur verið söfnunarreikningur til að létta undir með hjónunum á Breiðabólstað við að fjárfesta í þessari sérútbúnu dráttarvél. þeirra og vænta þeir sem að málinu standa að sem flestir sjái sér fært að leggja þeim lið. Söfnunarreikningur átaksins er hjá Kaupþingi í Búðardal og er nr. 0312-26-70707, kt. 091276-2249. Tilsjónarmaður þessa söfnunarátaks er: Trausti V. Bjarnason, Á, s. 434 1420  og 663 1420.

Frábært framtak Dalamenn, þetta er rétti hugsunarhátturinn! Tek heilshugar undir þetta átak og hvet alla til að leggja málefninu lið. 

 


Staða bankanna

Núverandi forsætisráðherra er á þeirri skoðun að einkavæðinga bankanna, þ.e Lansbankans og Búnaðarbankans, hafi verið eitt mesta framfaraspor sem stigið hefur verið í íslenskri stjórnmálasögu. Kappsmál Sjálfstæðismanna sem Halldór Ásgrímsson studdi með ráð og dáð. Bankarnir seldir á slikk, kaupendur fjársterkir aðilar. Hin íslenska útrás hófst og margir hafa hagnast síðan.

Bankarnir bókstafleg blómstruðu, tekjur þeirra jukust margfalt ár frá ári og gera enn. Til varð ný auðmannssétt viðskiptajöfra og bankamanna og landinn fór að sjá svimandi tölur þegar kom að launum fyrir stjórnarsetu og bankastjórastarfið.  Gróði bankanna hefur verið stjarnfræðilegur en ekki er hægt að segja að sá gróði hafi nýst viðskiptavinum þeirra. Þvert á móti hefur vaxtakostnaður þeirra aukist svo um munar og fer enn hækkandi.

Í dag senda bankarnir ákall til Seðlabankans þess efnis að koma þeim til bjargar í erfiðri stöðu, allt að fara í kaldakol. Nú á að taka upp evruna hið snarasta til að bjarga bönkunum frá glötun. Seðlabankinn spáir 30% lækkun á húsnæðisverði á næstu 3 árum. Bankarnir og fasteignasalarnir stuðluðu að gríðalegri hækkun fasteignaverðs og fjármagn beinlínis flæddi inn á borð til allra sem vildu taka lán. Í dag er allt lok, lok og læs, enginn fær lán og stefnir í gjaldþrot meðal landsmanna. Ástandið hjá bönkunum hlýtur að vera hrikalegt - eða hvað?

Mér varð á að rýna aðeins í tölur sem teknar voru upp úr ársskýrslu Kaupþings um daginn. Ekki er þar að sjá að menn séu að sigla þar að feigðarósi. Hagnaður ársins 2007 jókst um 53% frá árinu á undan og nam um 80.1 billjón króna (ISK)  eða 915 milljón evra og kom til fyrst og fremst vegna mikilla hækkunnar á vaxtatekjum bankans. Arðsemi eigin fjár nam um 23,5% sem verður að kallast harla gott eða hvað? Heildareignir bankans á síðasta ári námu 5,3 trilljón króna (ISK) eða sem nemur 58,3 billjón evra (€) og jukust um 35,8% á milli ára. (Heimild: ársskýrsla Exista. 2007)

Satt best að segja datt af mér andlitið við lestur á þessum tölum og árangri Kaupþings. Aðrir bankar eru líklega með svipaðar hagnaðartölur. Bankamenn og aðrir úr fjármálageiranum standa á orginu dag eftir dag, á fundi eftir fundi,  í kapp við  hvorn annan og jarma um kreppu, veikingu krónunnar og ég veit ekki hvað og hvað. Margir aðilar á fjármálamarkaðinum hóta að flytja höfuðstöðvar úr landi til að flýja fyrirtækjaskattana og forðast gengisfellingu krónunnar. 

Hvernig bregðast stjórnvöld við þessum mikla vanda bankanna og annarra fjármálastofnana? Jú, lækka fyritækjaskattinn niður í 15% til að stinga upp í þá einhverri dúsu og eru síðan búin að vera á einhverju flippi erlendist svo vikum skiptir. Seðlabankinn máttlaus, getur ekkert gert til að halda verðbólgunni niðri né hafa áhrif á þá efnahagsþrónun sem seðlabankastjóri mótaði fyrir nokkrum árum. 

Engin viðbrögð né aðgerðir til handa almenningi sem blæðir fyrir útrásina, sukkið og offjárfestingar viðskiptajöfranna og bankanna. Búið að færa kvótan upp í hendurnar á örfáum aðilum sem nýta hann eins og þeim sýnist enda allari fjárfestar og í kapphlaupi við útrásina miklu. Nýgerðir kjarasamaningar sem stjórnvöld voru stolt af þó ,,dýrir" væru fyrir þjóðarbúið, eru farnir til fjandans, kaupmátturinn löngu farinn í vaskinn ásamt þeirri hungurlús sem hækkun launa nam. 

Á hverjum degi mætir þjóðin verðhækkunum  á neysluvörum og eldsneyti. Útlansvextir bankanna hækka sem og öll þjónusta. Samdráttur verður á atvinnumarkaðinum og menn herða sultarólina. Margir eru reyndar komnir í innsta gat í þeim efnum og ná ekki að herða ólina frekar. Það heyrist ekki mikið í þjóðinni vegna þessara erfiðu stöðu sem upp er komin. Þeir sem hafa hæst eru bankarnir, fjármálafyrirtækin og fasteignarsalarnir. 

Sjálfstæðismenn hafa verið iðnir við kolan þegar kemur að einkavæðingu ríksifyrirtækjanna. Við sjáum nákvæmlega sömu þróunina og hjá bönkunum, þegar kemur að Símanum, þar hagnast með á tá og fingri og kunna ekki aura sinna tal. Þjónustan aldrei verið síðri né kostnaðarsamari.  Mikil þrýstingur er á að einkavæða Íbúðalánasjóð, þar sjá bankarnir vaxtamöguleika hér á heimamarkaði og arðvænlegar tekjur. Byrjað er að einkavæða LSH og heilbrigðsþjónustuna, við eigum eftir að sjá mun meira af  slíku á næstu vikum, trúi ég. Næsta skrefið verður að einkavæða orkufyrirtækin og aðrar náttúruauðlindir og  þá hefur draumur Sjálfstæðismanna ræsts. Allt sem skiptir máli komið í hendur auðmanna, samkeppnin í algleymingi. Landsmenn borga. 

Ekki bjart framunan í efnahagsmálum okkar einstaklinganna. Ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar sem gagnrýndu hvað mest einkavæðingu og aðgerðir fráfarandi ríkisstjórnar sitja nú sem fastast aftur í sæti á Benzinum eða fremst í einkaþotunni, á ferð og flugi til að bjarga heiminum og svala persónulegum löngunum sínum. Láta gamla drauma rætast, eru ekkert að skipta sér af Geir og kompaní. Ríkisstjórnin því ekki starfhæf svo dögum og vikum skiptir en það virðist ekki skipta neinu máli. Allt gengur sinn vana gang.

Sumir telja að réttast væri að ríkisstjórnin segði af sér sem og stjórn Seðlabanka Íslands ásamt seðlabankastjórum.  Ég er ekki svo viss um að það sé rétta leiðin. Ég óska engu stjórnmálaafli svo illt að taka við þjóðarskútunni eins og hún er í dag. Eðlilegast væri að þeir sem hafa skapað þessa stöðu, axli ábyrgðina og þrífi upp sinn eigin skít. Ég neita hins vegar að trúa því að þjóðin muni kjósa þessa hörmung yfir sig í næstu kosningum. Sjálfstæðismenn hljóta að veikjast og  forystumenn Samfylkingarinnar látnir fjúka. 

Það verður fróðlegt að fylgjast með afkomutölum bankanna, Símans og fleiri einkavæddra fyrirtækja í náinni framtíð - samhliða afkomu þjóðarinnar og heimilanna. Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með komandi kjarasamningum.Whistling


Að finna upp hjólið

Rakst á frétt um mína fyrrum heimabyggð á vef Skessuhorns í dag. Alltaf eru menn að finna upp hjólið. Nýjastu fregnir eru þær að nú sér búið að ráða stjórnsýsluráðgjafa til vinna ,,að gerð skipurita og skipunarbréfa fyrir nefndir og stjórnsýslu sveitarfélagsins".  Haft er eftir sveitarstjóra að slík vinna hafi aldrei áður farið fram í  sveitarfélaginu og að nú finnist sveitarstjórnarmönnum tími  til að breyta til og stefnt sé að skilvirkari stjórnsýslu með þessu aðgerðum.

Mér svelgdist á kókinu sem ég var að súpa á. Hvar hafa menn verið síðustu árin?  Slík undirbúningsvinna fór fram á síðasta kjörtímabili og var langt komin ásamt starfslýsingum og hvað eina. Hefði ekki þurft mikið til ef menn vildu breyta einhverjum pólitískum áherslum. Í þá tíð þótti eðlilegt að sveitarstjóri ásamt sveitarstjórnarmönnum tækju að sér slíka sverkefnavinnu í stað þess að ráða til sín sérstakan ráðgjafa.Shocking

Hitt er svo annað mál að með þeim hætti er kannski tryggt að vel og rétt verði staðið að málum þannig að þeir sem ekki kunna til verka séu að fikta í svo mikilvægum málum sem stjórnnsýslan er.  Hver veit nema að sumir sveitarstjórnarmenn fái tilhlýðilega tilsögn í stjórnsýslulögunum, meðferð opinberra mála, vanhæfisástæðum o.s.frv.?  Enn sitja menn beggja megin við borðið við afgreiðslu mála, jafnvel allan hringinn, ef því er að skipta og þykir ekki tiltökumál.

Það ber alltaf að líta það jákvæðum augum þegar menn viðurkenna vanmátt sinn og fela öðrum þeim verkefni sem þeir ráða ekki við sjálfir. Í því felst mikill styrkleiki sem ber að virða. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar menn eru að kljást við og ábyrgjast mál sem þeir hafa ekki þekkingu eða færni til eins og allir þekkja í lífinu. 

Það er hins vegar  alltaf betra að segja rétt og satt frá staðreyndum. Menn eru alla vega ekki að finna þetta hjól upp í fyrsta sinn. A.m.k. tveir af núverandi sveitarstjórnarmönnum tóku þátt í  þeirri vinnu sem fór fram fyrir nokkrum árum. Eins og umræddum sveitarstjóra varð á orði þá er ,,nauðsynlegt í nútíma samfélagi að fyrir liggi hvað fólk sé að taka að sér sem sest í nefndir á vegum sveitarfélaga". Er ég honum hjartanlega sammála en þetta  hefur legið fyrir , hvar hafa menn alið manninn í þessari  sveitarstjórn?W00t


Nú skil ég

Hann er langur ,,fattarinn" á mér. Búin að velta því fyrir mér mánuðum saman hver tilgangur Sjálfstæðismanna hafi verið með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Tvö óskyld ráðuneyti sameinuð.  Yfirstrumpur sami ráðherran og hefur staðið að því að útrýma hefðbundnum sjávarútvegi í meira en áratug. Mér hefur það verið með öllu óskiljanlegt hvaða hvatir hafa legið þarna að baki en í morgun kveiknaði á perunni: Það á að útrýma íslenskum landbúnaði, a.m.k. í núverandi mynd. Þá verður engin þörf fyrir sérstakt landbúnaðarráðuneyti.

Fór að kveikja á perunni þegar ráðherra boðaði nýtt frumvarp um óheftan flutning á hráu kjöti svo fremi sem afurðin uppfyllti staðla ESB. Reyndi mikið að finna eitthvað jákvætt við þá breytingu enda með fóbíu fyrir kamphylobakter og salmonellu.  Ráðherran telur einu jákvæðu áhrifin við breytinguna vera þau að óheftur innflutningur muni auka samkeppnina hér á landi sem væri til góða. Engin breyting á tollum þannig að ef kjötverð lækkar til neytenda, kemur sú lækkun einungis til vegna samkeppninnar.  Gott og vel en ég var ekki alveg að kaupa þetta.

Mér fannst týran af perunni heldur dauf með þessi rök. Hún breyttist hins vegar í 100 W peru þegar ég las um fyrirætlan ráðherrans um að fækka héraðsdýralæknum úr 16 í 6, stækka sem sé héruðin, skikka dýralækna til að sinna eftirliti og leggja af allan einkarekstur.  Þetta hljómar ansi þokukennt í fyrstu, hvaða eftirliti eiga héraðsdýralæknar að sinna?  Búið að úrelda flest sláturhús í landinu, einungis nokkur starfandi og það ekki í öllum landsfjórðungum. Ég fæ ekki séð að þeir dýralæknar sem ráðherran gerir ráð fyrir, hafi næg verkefni allt árið um kring. Hvað með eftirlit og meðferð á skepnum á fjár- og kúabúum? 

Sem fyrrum landsbyggðatútta tel ég mig þekkja nokkuð til dýralæknishéraða, bæði fyrir vestan og norðan. Um er að ræða feiki stór og víðfeðm héruð, erfið yfirferðar og langar vegalengdir. Stöðug sólahringsvakt dýralækna sem sinna veikum og slösuðum skepnum allan sólahringinn, allt árið um kring. Sinna auk þess bólusetningum og heilbrigðiserftirliti svo ekki sé minnst á blessaðan sauðburðinn svo fátt eitt sé nefnt af þeirra skyldustörfum.

Síðustu árin hefur verið mjög erfitt að manna héruðin, ekki síst vegna þessa álags. Nánast útilokað að fá afleysara nema með þeim hætti að næsti héraðsdýralæknir bæti við sig nágrannahéraðinu, tímabundið. Það segir sig sjálft að starfið er gríðalega erfitt og álagið mikið. Bændur vilja að sjálfsögðu þjónustu og þó það einkenni þá marga að draga það eins lengi og hægt er að kalla til dýralækni þar sem þeim hefur fundist þjónustan dýr, miðað við lágar tekjur búanna, hefur átt sér hugafarsbreyting síðasta áratuginn þannig að minna er um að skepnunum sé lógað heima í útuhúsi af bóndanum sjálfum.  Lagt meira upp úr því að bjarga þeim skepnum sem þeir hafa ræktað upp og eru stoltir af.

Dýralæknar hafa í auknum mæli stofnað eigin fyrirtæki og dýraspítala enda ekki allra að vinna fremur vanþakklát starf úti í héraði sem seint verður talist fjölskylduvænt. Þeir þrífast ágætlega enda mikið um gæludýr og hestamennskan í algleymingi.  Mikið meira en nóg að gera og vantar virkilega fjölgun í stéttina.

Það þarf ekki að stíga í vitið til að átta sig á því hvað er hér á ferðinni. Það á sem sé að fækka búum enda engin ástæða til annars með þau fáu sláturhús sem eftir eru. Þannig skapast réttlæting fyrir þeirri ákvörðun að fækka héraðsdýralæknum og skikka þá til að vinna einungis sem opinberir ríkisstarfsmenn. Innflutt kjöt kemur í staðinn fyrir það innlenda. 

Það hlaut að vera skýring á sameiningu ráðuneytanna, sjávarútvegsráðherra beitt fyrir klárnum og dregur vagninn enda með breitt bak eftir að hafa innleitt hrun sjávarútvegsins og byggðanna. Honum munar ekkert um að bæta öðrum skítverkum á sig. Ávinningurinn verður þéttari byggð og stærri byggðakjarnar, sveitirnar leggjast af, einungis stóru búin í hverjum landsfjórðungi koma til með að lifa af og blómstra. Ofgnótt af rými fyrir sumarbústaðabyggðir skapast fyrir örþreytta og stressaða viðskiptajöfra og borgarbörnin. Svolítið rómantískur blær á þessari framtíðarsýn - eða hvað?

Ég hlýt að velta því fyrir mér hverjir höfundar af þessari útrýmingastefnu ríkisstjórnarinnar séu. Eru það viðskiptajöfrarnir eða embættismannaklíkan? Eða er þetta afrakstur úr hugmyndavinnu fjármála-, forætis-, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra okkar?

Ég hef löngum haldið því fram að það sé stórhættulegt þegar vanhæfir og grunnhyggnir menn komast til valda. Ekki síst á landsbyggðinni þar sem nálægðin er mikil og klíkuskapurinn er mikill.  Ástandið er greinilega ekkert skárra í stærri byggðum, það sást best með klúðri Sjálfstæðismanna í borginni. Í landsmálunum erum við að sjá það í auknum mæli að menn eru orðnir svo forhertir og öryggir í krafti síns valds og umboðs til kjósenda, að þeir svitna ekki þó hvert hneykslið og spillimálið komi upp á yfirborðið. Þeim finnst hvers kyns spilling, klíkuráðningar og óhóflegur stuðningur við einkavæðigu á auðlindum þjóðarinnar vera hið eina rétta og sjálfsagt mál. 

Samfylkingarmenn sem hvað harðast gagnrýndu íhaldið í síðustu ríkisstjórn, stíga nú ölduna með Sjálfstæðismönnum þegjandi og hljóðalaust. Stólarnir gríðalega verðmætir. Hafa selt skrattanum ömmu sína. Það heyrist reyndar boffs úr horni VG en það einkennist fyrst og fremst af sveitarómantík 20. aldarinnar þar sem sjálfsþurftarbúskapurinn og nægjusemin eru sett á stall. Ekki heyrst múkk í okkar gamla landbúnaráðherra  eftir að Bandormurinn var kynntur og þar með taldar þessar breytingar á embættum dýralækna.

Í mínum huga er enginn vafi hver hvatinn er að baki óheftum innflutningi og fækkun dýralæknishéraða. Það á að útrýma landbúnaðinum í núverandi mynd, gera stóru  framleiðendurna enn stærri og losa sig við þá litlu. Yfirstrumpur sjávar- og landbúnaðarráðuneytis annað hvort treystir því að fólk sjái ekki í gegnum þessi áform eða telur sig öruggan um að komast upp með þau, hvað sem tautar og raular. Hann og flokkur hans hefur komist upp með ansi margt hingað til.

En ég hef trú á því að hvorki bændur né dýralæknar láti snúa á sig og þvinga sig með þeim hætti sem ríkisstjórn áformar nú. Ég hef þá trú að fólk sé búið að fá nóg og miklu meira en það og komi til með að sýna óánægju sína í verki í auknu mæli. Er ansi hrædd um að það dugi ekki til að forsætisráðherra reiðist og urri  opinberlega framan í almenning og segji honum að hlýða.  Hvorki bændur né dýralæknar eiga né munu sætta sig við þau örlög sem þeim eru ætluð og koma fram í Bandorminum. Þeir eru eldri en tvævetur. Nú er lag fyrir stjórnarandstöðuna að varpa skýru ljósi á þessi mál. 

 


Áskorun til allra

Birti hér með áskorun frá Hólmdísi bloggvinkonu og tek heilshugar undir með henni:

,,Sameinumst um aðgerðir til að lækka matarverð. Sjá blogg mitt ;uppreisn;. Það eina sem við þurfum að gera er að mæta ekki í ákveðnar verslanir á tilteknum tímabilum. Þetta verða þögul mótmæli en skír skilaboð. Kynnið þessar hugmyndir sem víðast. Ég trúi því staðfastlega að við getum haft áhrif með því að mynda nægilega stóra hreyfingu. Annars góðan sunnudag."

 

Sjá nánar: http://holmdish.blog.is/blog/holmdish/

 

 Nú verður þjóðin að standa saman, engin spurningWizard

 


Rólegt

Allt rólegt á vígstöðvunum og engin frekari óhöpp (ennþá) W00t

Geri ekkert annað en að hafa það yfirmáta náðugt eins og vera ber.

latur köttur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Sniglast í tölvuna af og til, ekkert að mér í hausnum eða höndum en fer mér hægt enda nægur tími

lazy worker

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á móti kemur náttúrlega að eitthvað safnast uppworkaholic1

 

 

 

 

 

 

 

 Hins vegar er enginn er ómissandiW00t

Hef notið fullrar þjónustu, Heiðrún færði minni dýrindis mat í gærkvöldi. Er auðvitað búin að finna mér leið til að draga úr stigaferðum, hendi lyklum bara niður gluggan þegar einhver þarf að komast inn. Hámark letinnar en það er auðvelt að venjast góðu, var að spá í að sækja um enn meiri lúxus, fengi ég einn slíkan, þarf ég ekkert að gera

lyftari


Tvisvar verður gamall maður barn

Þetta máltæki kemur upp í huga mér þessa dagana og á svo sannarlega vel við. 

Fyrst er það stiginn

skriðið upp stigan

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Næst er að læra á hækjurnar

Á hækjum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Valið stendur svo á milli:

barnagöngugrind

 

 

 

 

 

eða:

nurmi_neo göngugrind

 

 

 

 

 

 

 

 

Best væri nú samt að vera með vængi, þá kemst ég allra ferða minna:

Winged Elegance_thumb

 

 

 

 

 

 

 

 

En græði pottþétt flotta vöðva:

vöðvastælt


Er botinum náð?

Geir Haarde virðist telja að botninum sér náð í efnahagsmálum þjóðarinnar. Krónan styrktist í dag og hlutabréf hækkuðu. Ég er einhvern veginn efins um að hann hafi rétt fyrir sér, sá ágæti maður. Verður hins vegar að blása í brjóst Íslendinga á erfiðum tímum.

Margt hefur flogið í gegnum huga mér síðustu dagana, einkum um stöðu bankana. Minnug þess þegar Búaðarbankinn og Landsbankinn voru ríkisbankar. Seldir á slikk fyrir nokkrum árum og hver er staða þeirra í dag? Verðmæti þeirra margfaldast, veltan skiptir hundruðum milljarða á ári enda að fjárfesta á alþjóðlegum vettvangi, bak og fyrir. Einungis brotabrot af þeirra tekjum koma til vegna innlendra viðskipta við landan sem bjóðast reyndar ekki sömu kjör og erlendir viðskiptavinir. Ný auðmannsstétt hefur bólgnað út, stjarnfræðileg mánaðarlaun stjórnenda, laun fyrir stjórnarsetu skiptir hudruðum þúsunda og almennir starfsmenn mjög vel launaðir. Bankastarfsmaður með stúdentspróf með hærri laun en hjúkrunarfræðingar, svo dæmi sé tekið. Velgengni bankanna hefur verið með ólíkindum og ekki laust við að ég sé sannfærð um að þjóðin eigi framúrskarandi fjárfesta innan sinna raða.

Íslensk fyrirtæki hafa mörg hver verið í sömu þróun, vöxtur þeirra lygasögu líkust, alþjóðavæðingin með ólíkindum.  Árangurinn ótrúlegur, veltan skiptir hundruðum milljarða á þeim vettvangi einnig. Mörg þeirra eru enn með höfuðstöðvar hér á landi en hafa flutt starfsemi sína að milku leyti enda rekstrarskilyrði þar hagstæðara. Framleiðslukostnaður lægri, stærðarhagkvæmni auðveldari o.s.frv. Sérfræðiþekking íslenskra starfsmanna ,,flutt út" eins og hver önnur útflutningsvara. Þær upphæðir sem um er að ræða þegar kemur að tekjum og rekstri eru svo háar að flestir Íslendingar hafa einungis lesið um slíkar tölur í bókum. Mörg fyrirtækjanna orðnir risar á sínu sviði og með þeim stærstu í heimi. Íslensku fjárfestarnir og fyrirtækjaeigendur eru að fá tugi milljóna króna mánaðarlán.

Það sem ég velti fyrir mér er einfaldlega sú spurning; í hverju er velgengni íslenskra banka, fyrirtækja og fjárfesta fólgin? Ég á ekkert eitt svar við því en velti ýmsum möguleikum upp. Fyrir það fyrsta tel ég að við eigum mjög færa fjárfesta og viðskiptamenn meðal þjóðarinnar,ég held að enginn vafi leiki á því enda margir mjög vel menntaðir og með víðtæka reynslu erlendis frá og heima fyrir. Algjör sprengja hefur verið í þessari stétt.  En þessi skýring nægir ekki til að útskýra alla velgengnina. Því hlýt ég að velta fyrir mér rekstrarumhverfinu. Fyrirtækjaskattar eru einungis 18% og stefnir í að þeir lækki niður í 15%. Rekstrarkotnaður og vinnuafl er hins vegar dýr og markaðurinn er mjög lítill  þannig að bankar og fyrirtæki leita út fyrir landsteinana., Þar eru vaxtarmöguleikarnir, markaðir stærri og hagstæðara rekstrarumhverfi, ódýrara vinnuafl býst ég við o.s.frv.

Þó einungis brotabrot af hagnaði bankanna komi til vegna viðskipta innanlands eru vaxtakjör landans há þannig að bankarnir fá vel fyrir sinn snúð. Stjórnvöld hafa verið iðin við að styðja við bakið á þeim sem hafa farið í útrás með ýmsum hætti og jákvæðri kynningu. Allt hjálpast að enda viðskiptatengsl sem og önnur tengsl mjög dýrmæt. En skyldi þetta skýra velgengnina?

Samráð í einni eða annarri mynd hefur tíðkast lengi hér á landi, upp komst um samráð olíufélaganna en ég fæ ekki betur en að það standi enn yfir, sbr. Krónan og Bónus, olíufélögin, bankarnir o.s.frv. Nokkuð er á slíku samráði að græða, svo mikið er víst en skýrir það alla velgengnina? 

Það hefur vakið athygli mína lengi að íslensk fyrirtæki og bankarnir hafa í auknum mæli viljað  gera upp hagnað sinn í evrum. Bera fyrir sig þá ástæðu að stór hluti viðskipta fari fram í evrum og því sé eðlilegt að reksturinn sé það einnig. Þau hafa löngum þrýst á stjónrvöld að taka upp evruna sem gjaldmiðil, mörg þeirra hafa hótað því að flytja alla starfsemi sína úr landi, verði það ekki gert. 

Vangaveltur mínar tengjast óneitanlega þeirri stöðu sem nú er komin upp og stjórnvöld loks farin að tjá sig opinberlega um. Það að einhverjir séu með samantekin ráð um að gera atlögu að krónunni og skemmdaverk á fjárfestingum íslenskra fjárfesta er áhyggjuefni. Ekki síst þar sem sumir telji að innlendir aðilar komi þar að málum. 

Gæti það verið að menn ætli sér að þvinga hér upptöku evrunnar og inngöngu í ESB? Efnahgslegt umhverfi í landinu býður svo sannarlega upp á það.  Staðan er viðkvæm, verðlagshækkanir, minnkandi kaupmáttur og stefnir í óðaverðbólgu. Allir bankar hafa lokað á útlán til viðskiptavina eftir að hafa nánast gengið á menn úti á götu og boðið þeim lán á ,,hagstæðum" kjörum. Gæti það verið að einhverjir séu beinlínis og markvisst að skapa þessar aðstæður til að undirbúa jarðveginn fyrir nýjum gjaldmiðli og aðild að ESB? 

Ef  svo er, hverjir hagnast mest á þeim aðgerðum? Stórt er spurt en minna um svör. Hvað varðar aðild að ESB tel ég hana glapræði við núverandi skilyrði fyrir inngöngu. Við erum þegar í bullandi vandræðum vegna kvótans sem er á fárra manna höndum sem og skerðingar hans. Ég eiginlega skil ekki þessa ESB ástríðu Samfylkingarmanna og fleiri. Sjá menn ekki hverjar afleiðingarnar hafa verið hjá öðrum þjóðum? Dugar ekki að rýna í reynslu þeirra?  Hverjir hagnast á því að ganga inn í bandalagið?  

Það var ansi fróðlegt að fylgjast með umfjöllun sjónvarpsins um áhrif aðildar í ESB fyrir hinar ýmsu borgir í Bretlandi, sbr. Lowestoft sem er orðin draugaborg, allur kvóti farinn og menn fá hungurlús til að moða úr. Sjáum við ekki þessa þróun í dag í okkar sjávarbyggðum? SKyldi vera markvisst að skapa þær aðstæður? Aðlaga landan?

Finnskir bædur eru ekki allt of spenntir eftir reynslu sína innan ESB, bændum snarfækkað og kjörin versnað. Það má vera að margt jákvætt sé við aðild að bandalaginu fyrir íslenska þjóð en allt blaður um tafarlausa inngöngu er ábyrgðaleysi. Það þarf opna umræðu þar sem allir kostir og gallar eru settir fram og síðan á það að vera þjóðin sjálf sem kýs um það hvort við göngum inn í bandalagið eður ei.  Sú þjóðaratkvæðageiðsla á ekki að fara fram við núverandi aðstæður og því í raun ekkert að marka skoðanakannanir í þessum efnum. Forsendur liggja ekki til grundvallar. 

Þvingunaraðgerðir skila aldrei varanlegum árangri, hverjir sem eiga í hlut að máli. Reynist grunur margra um að ýmsir innlendir og erlendir aðilar séu að skapa skilyrði fyrir slíkum aðgðerðum til að koma landinu inn í bandalagið, getum við farið að tala opinberlega um mafíu hér á landi. Hverjir skyldu skipa þann hóp? Ninja


Verðlagshækkanir

Eins og við var að búast dynja verðlagshækkanir á landanum þessa dagana. Sumir taka forskot á sæluna og hækka gamlar birgðir í gríð og erg. Heyrist ekki hljóð úr horni frá Neytendasamtökunum né öðrum vegna þessa enda viðtekin venja að markaðurinn nýti sér aðstæður sem þessar. Landinn þekkir ekkert annað. Um leið og fregnir verðhækkun verður á eldsneyti úti í heimi berast hafa olíufélögin hækkað verðið á sínum ,,gömlu" birgðum, athugasemdalaust.

Ég get ekki sagt að ég sé undrandi á hækkun á verði til bænda, tel þá hækkun vera löngu tímabæra. Bændur hafa búið við óbreytt verð á sínum framleiðsluvörum um alllangt skeið enda verið krafa þjóðfélagsins að svo sé. Svo virðist sem það gleymist í umræðunni og við aðrar verðlagshækkanir að bændur þurfi að lifa af sinni vinnu, líkt og aðrir. Að reka lítil bú í dag, þýðir að bóndinn borgar með því og vinnur utan þess til að skrimta. 

13% hækkun á mjölkurvörum er því ekki mikil sé miðað við verðlagshækkanir á öðrum vörum en vissulega kemur sú hækkun við heimili landsins enda ekki í skrefum heldur í einu lagi. Öll aðföng bænda til rekstur hafa snarhækkað þannig að það hlaut að koma að einhverri leiðréttingu. Ríkið hefði hins vegar mátt taka meira á sig.

Mér skilst að kílóverð á kjúklingabringum eigi að fara upp í 2000 kr. á næstunni og slaga þar með upp í verð á nautakjöti. Fiskur er munaðarvara og hefur verið lengi. Gott ef kílóverðið út úr fiskbúð sé ekki svipað og á lambakjöti.  Líklega hækkar hann einnig á næstunni þó ekki sé hægt að rekja þá hækkun til hækkaðs verð á aðföngum. Þjóðin ætti að fara að snúa sér að fiskeldi í vaxandi mæli, þá verður kannski hægt að leyfa sér að kaupa nýjan fisk út úr búð.

En ég sé sæng okkar út breidda þegar kemur að rekstri heimilanna í landinu; kjöt á borðum á sunnudögum, naglasúpa og slátur til skiptis hina dagana.Sick

Hún var athyglisverð kenningin sem seðlabankastjóri lagði fram um stöðu krónunnar á ársfundi Seðlabankans en Davíð telur að óprúttnir, erlendir fjárfestar séu markvisst að gera atlögu að krónunni og þar með efnahag þjóðarinnar. Vissulega lítar margir erlendir fjárfestar á þessa litlu þjóð úti á ballarhafi hornauga vegna mikilla fjárfestinga og alþjóðavæðingar einstakra fjárfesta hér á landi. Margur á erlendum vettvangi hefur látið neikvæð ummæli falla í garð ,,síðhærða stráksins" frá Baugi sem hefur náttúrlega verið í gríðalegri útrás síðustu ár og náð að yfirtaka mörg fyrirtæki á erlendum vettvangi. Einhverjum kann að svíða það en hann er að ná fantagóðum árangri.

Hins vegar er það grafalvarlegt mál ef stjórnvöld gruna slíkar aðgerðir sem Davíð er að lýsa en þegja yfir þeim grun. Þjóðin í uppnámi yfir gengi krónunnar og aðgerðarleysi stjórnvalda. Trúlega hefði verið skynsamlegt að upplýsa þjóðina fyrr, við erum nefnilega ekki heimsk og myndum væntanlega standa saman í baráttuaðgerðum gegn því óþveraplotti sem stjórnvöld eru að halda fram að gæti verið í gangi. Þetta er ekki einkamál stjórnvalda enda snertir það afkomu okkar allra.

Enn heyrist ekkert í Samfylkingarmönnum, eru enn á fullu að bjarga heiminum og kynna árangur í útrás íslenskra fyrirtækja í því skyni að önnur efnahagskerfi geti lært af okkur. Það er svo sem góðra gjalda vert en kosningarloforðin þeirra láta standa á sér. Löng grein frá Jóhönnu, félagsmálaráðherra í Mbl. í dag um stöðu mála hjá öryrkjum en lítt bitastæð og augljóst að hvorki aldraðir né öryrkjar eiga að vera í samfloti við aðrar þjóðfélagshópa. Hróplegt misræmi við stefnu flokksins. Rosalega eru stólarnir mikilvægir fyrir flokkinn og verðmætir flokksmönnum.Shocking

Héðan er annars allt á rólegum nótum. Daglegt líf og nætur í föstum skorðum. Næturnar einkennast af 3 plús 2 eða 3 plús 1 sem felst í því að ég næ að sofa 3 tíma í senn, vakna þá við verkina, vaki í 1-2 tíma á meðan þau úrræði sem ég hef, eru að virka, næ að sofna þá aftur og þannig er hringrásin. Ef ég þarf að vakna í býtið á morgnana, verða 3 tímarnir að duga í nætursvefninn. Bæti mér upp svefnleysið seinni part dags og svona heldur þetta áfram. Síðasta nótt var ekkert öðruvísi en aðrar nema að ég glápti á hrollvekju kl. 4 í nótt á meðan verkirnir voru að hjaðna. Ekki mjög skynsamlegt, mæli ekki með því enda hálf myrkfælin undir morgun. Eyddi lunganum úr deginum við að bæta mér upp svefninn en komst á fínt skrið þegar leið á kvöldið.

Öllu má venjast, engin spurning. Er hætt að kippa mér upp við þetta ástand, tek því eins og það er. Eitthvað hefur seytlað frá magasárinu en er í rénum núna. Matseðillinn aðeins fjölbreyttari og felur í sér orðið meira en Prins polo. Harðfiskur þolist ágætlega, brauðsneið með osti og melónur þannig að allt er þetta í áttina. Heilmikið sparast í matarinnkaupum þannig að það eru jákvæðir punktar þar.

Reikna með því að þetta verði týpísk helgi og mín komin á gott skrið á morgun. Vonandi fer að hlýna því mig er farið að langa að hreyfa mig meira og brjóta upp hefðbundið mynstur. Er orðin pínu leið á þeirri stöðnun sem er á mínu lífi, flestir dagar eins, vinna og nám. Langar að fara að brydda upp á einhverju nýju. Sé fyrir mér sól og sumar í hyllingum, vildi helst vera úti á sólarströnd þessa dagana að gera nákvæmlega ekkert nema að láta mér líða vel.  Sá dagur mun komaCool

Búin að marka næstu skref og farin að skipuleggja lengra fram í tíma en til þriggja mánaða í senn. Lít á mig sem læknaða af krabbameininu og get loks leyft mér að plana í samræmi við það.  Er hætt að bíða á græna ljósinu. Hvert stefnan verður tekin, verður að koma í ljós. Prófa mig áfram og sé hvernig gengur. Léttir að vera lögð af staðWhistling

 

  

 


Páskalamb

Mér tókst að komast í feitt í gær, boðin í mat til bróður og mágkonu. Dýrindis sjávaréttasúpa með rjóma, páskalamb a la Systa og súkkulaðisúrínukaka að hætti húsmóðurinnar. Gat því miður ekki þegið hvítt og rautt með matnum, lifi við þá fötlun að geta ekki drukkið létt vín án þess að veikjast.

En hvað sem öðru líður, þá gekk allt stórslysalaust fyrir sig, ég hámaði í mig eins og hefði ekki séð mat í marga mánuði og gerði öllu góð skil. Það sem meira var, mér varð ekki illt. Verkirnir komu seinna en svo sannarlega þess virði og því auðveldara að umbera þá. Ég hlýt að geta sagt að ástandið fari batnandi þó hægt sé og orsakir ekki að fullu kunnar enn. 

Frábært að hitta famelíuna, miðlungurinn skrapp heim frá Norge með sína litlu famelíu þannig að mér gafst kostur á að hitta þau í kaupbæti. Dáist að bróður, tekur sinni lyfjamerð með þvílíkri jákvæðni og æðruleysi, þau reyndar öll fjölskyldan. Ég hef sjaldan fyrirhitt jafn jákvæðan einstakling í baráttunni við bév.... vágestinn. Ég er líka sannfærð um að hann hefur þetta með glans og það háglans.

Páskafríið sem sé búið og alvara lífsins tekur við á morgun. Frídagarnir fóru allir í verkefnavinnu en auðvitað lúrði ég inn á milli. Afkastaði engu af því sem ég ætlaði í hreingerniga- og skipulagsmálum en það kemur dagur eftir þennan dag. Eitt er víst að rykið og skíturinn fara ekki langt. 

Gærkvöldið fékk mig til að hugsa út í það sem ég er að gera þessa dagana. Allt of mikil vinna og  nám, eyði öllum mínum frítíma í verkefnavinnu. Til hvers spyrja margir og skal mig ekki undra. Ástæðan er hins vegar sú að ég hef mikla þörf fyrir að læra, gera betur og verða hæfari. Auðvitað leynist innst inni sú von að allar gráðurnar auðveldi mér með störf sem ég sækist eftir í náinni framtíð. Ég verð hins vegar að horfa kalt á stöðuna. Þátttaka mín í sveitarstjórnarmálum  hefur verið og verður mér dýrkeypt um ókomna tið. Til þess var ætlast og það ætlunarverk hefur tekist. 

Kristin trú boðar kærleik og fyrirgefningu. Menn eiga að rísa upp og bjóða hinn vangan eftir hvert kjaftshögg og umfram allt fyrirgefa. Ég hlýt að vera mjög ,,ókristin" manneskja því ég á mjög langt í land  með að fyrirgefa böðlum mínum. Það sama á við þá sem auðvelduðu þeim ætlunarverk sitt, ýmist með aðgerðarleysi eða beinni íhlutun. Ekki það að ég er ekki að velta þessum málum fyrir mér á hverjum degi en það koma upp stundir sem mér finnst ósanngjarnt að hljóta þau örlög sem sjúkir og illgjarnir menn ætla manni og geta lítt aðhafst. Það virðist ekki skipta neinu þó maður hafi verið saklaus. Gjaldið verður maður að greiða og sá tollur er hár. Sé ekki fyrir endan á því í náinni framtíð.

Ég hef ekki trú á því að fyrirgefning verði á mínum lista fyrr en allir hlutaðeigandi hafa fengið makleg málagjöld, hvaðan sem þau koma. Kannski ,,andinn" komi yfir mér einn góðan veðurdaginn, það er aldrei að vita. En þangað til, læt ég böðlana ekki eitra daglegt líf.

En ég þar sem sé að fara að rækta eigin garð betur og hugsa betur um mig og mína. Gef mér aldrei tíma til að heimsækja vini og vandamenn. Alltaf að flýta mér enda bíður yfirleitt haugur af verkefnum eftir mér í tölvunni, bæði vegna vinnu og náms. Lífið þýtur áfram og maður gleymir að lifa því lifandi. Það gengur einfaldlega ekki upp og því ekki seinna vænna en að fara að taka á þeim málum.W00t

Er enn að blanda mér í umræðuna hjá FF, nú síðast hjá formanni ungra. Þvílíkur hrokið í þeim unga manni, mér rennur kalt vatn á milli skinns og hörunds. Get tekið undir það að málefni innflytjenda eru í ólestri en hvernig má annað vera miðað við stefnuleysi stjórnvalda og frjálst flæði inn í landið? Hins vegar eru skrif eins og þau sem liggja eftir þennan unga mann, ástæðan fyrir því að hvorki ég né margur annar, getur hugsað sér að ganga til liðs við flokkinn sem annars hefur margt til brunns að bera. Mér sýnist vera kominn tími á vorhreingerningar og tiltektir á þeim bænumWhistling

Ég er ansi hrædd um að mínir krakkar myndu flosna hið snarasta upp í Ungverjalandi, væru þeir eins þenkjandi og sumir í þessum málum. Mig skal ekki undra þó flokkurinn tapi fylgi og nái ekki að stækka. Innri átök og valdabarátta virðist tilheyra öllu flokkum enda vilja margir ráða. Þeir fara hins vegar misfínt í þau. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband