Búin á því

Þá er maður kominn upp á fastalandið, gjörsamlega búin á því.  Ekki það að guðaveigarnar hafi borið mig ofurliðið, heldur ferðalagið, umstangið og útiveran.Gasp Var reyndar ekki dugleg í Dalnum, fór á föstudagskvöld og svo aftur í gærkvöldi.  Brekkusöngurinn er náttúrlega toppurinn á þjóðhátíð og ekki klikkaði Árni Johnsen frekar en fyrri daginn.  Það er einfaldlega magnað að syngja með honum á sunnudagskvöldinu og horfa síðan á blysin sem lýsa upp dalinn.  Engin orð lýsa þeirri tilfinningu.

Ekki tókst okkur systrum að standa undir nafni: "tvær úr Tungum", sú eldri fékk nóg og flaug upp á fastalandið á laugardagskvöldinu.  Leyni því ekki að vonbrigðin  og undrunin voru mikil en svona er lífið og mennirnir ólíkir.  Hálf vængbrotin og miður mín, því er ekki að neita. Vond tilfinning þegar menn slá ekki saman í takt, ekki síst ef það fer fram hjá manni.

Mér fannst svolítið sérstakt að keyra um Vestmannaeyjabæ, fátt breyst á 6 árum og rataði maður hiklaust.  Búðirnar vöfðust ekki fyrir mér né aðrir merkilegir staðir. Mér fannst ég hins vegar ekki komin "heim" þannig lagað séð. Bjó í Eyjum í 11 ár samtals, þykir ofboðslega vænt um Eyjarnar en sá kafli virðist einfaldlega liðinn í mínu lífi.  Mér leið reyndar eins og ég hefði aldrei farið, aðeins skroppið frá.

Hitti reyndar fáa heimamenn en Ellý, þessi elska lét sig hafa það að kalla á eftir mér í brekkunni þar til ég heyrði. Frábært að hitta hana, eiginlega svolítið magnþrungin stund. Rosalega þykir mér vænt um hana, tilfinningar sem ekki er hægt að tjá, aðeins finna.  Auðvitað hitti ég fleiri; Möggu Ársæls og Hjalla og Jónu Heiðu sem klikkuðu ekki frekar en fyrri daginn, ég hefði viljað spjalla meira við þau.  Hólmfríði hitti ég ,fyrrum yfirmann minn út á flugvelli sem breytist ekki neitt, alltaf 17 ára í anda.  Við ekki alltaf sammála, en sammála um að vera ósammála. Lea, fyrrum vinkona mín, vildi hins vegar lítið við mig tala.  Það var samt gaman að hitta hana enda stórbrotinn karakter þar á ferð.Kissing

Þegar upp er staðið, var það fyllilega þess virði að fara á Þjóðhátíð. Erfitt að mörgu leyti, allt of margar tilfinningar og líkamlega var þetta ögrun. Stóð mig reyndar vel, held ég, ekki síst í göngunni.  Krakkarnir hreint út sagt magnaðir, bæði mín eigin og vinir þeirra, ekki síst úr Dölunum. Ótrúlega skemmtilegir og frábærir í alla staði. Þvílíkir gullmolar og engin leið að gera upp á milli þeirraW00t

Framundan vinnuvika, nældi mér reyndar í "bronchitis" á ferðalaginu en vona að ég verði til í slaginn í fyrramálið. Svaf í allt kvöld. Ótrúlega tómlegt að koma í hús, enginn Haffi eða Kata og tíkurnar ýmist á hundahóteli eða hjá Söru. Kisan Ísafold, reyndar ekki vikið frá mér frá heimkomu og tók vel á móti mér. Það fjölgar hjá okkur á morgun þegar krakkarnir og tíkurnar koma heim.

Einkennilegt hvernig þessi veikindi hafa breytt forgangsröðun manns, þjóðhátið var eitt af því sem ég setti í forgang ef ég hefði þessi veikindi af.  Brekkan með krökkunum, brennan, flugeldasýningin og brekkusöngur.  Tilfinning sem ekki er hægt að lýsa.  Nú er því forgangsverkefni lokið, áfram heldur lífið og næstu verkefni taka við. Efst í huga mér er sveitin og kyrrðin. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að eftir þjóðhátíð fer að skyggja á næturna, daginn fer að stytta.  Haustin eru reyndar minn uppáhaldstími.

Krakkarnir að fara út á næstu 2-3 vikum og miklar breytingar framundan.  Óttast að mörgu leyti breytingarnar en fagna þeim líka, systikinin orðin fleygir fuglar og vel í stakk búin til að takast á við tilveruna.  Það er ég líka þó ég sé ekki enn búin að marka næstu skref, málin í farvatninu en engar endanlegar ákvarðanir ennþá. Það var góður endir á helginni að spjalla við stoltið mitt, hana Auju, ótrúleg manneskja og fagmaður þar á ferð sem ber nafn sitt með réttu; Auðbjörg  Smile Hlakka til að fylgjast með ferli hennar.

Úff, hvað er gott að vera komin í sitt hreiður. Nú er að krossleggja fingur með heilsufarið og horfa fram á við. Næsti kafli er framundan og ekkert annað en að taka á honum. Er hins vegar alveg búin á því núnaCrying

Er his

Helgarfrí

Fall er fararheill, ætla ég að vona.  Auðvitað smá bras hjá minni, það er alltaf.  Engu að síður stefnt á Eyjar ef veðurguðirnir leyfa. Nógu fallegt er veðrið enn sem komið er.

Tíkurnar fara á hundhótel, nema Lafði Díana, er hrædd um að hún myndi ekki sætta sig við slíkar aðstæður, háöldruð daman þannig að hún fer til Söru.  Bjargvættur sem fyrr, skvísan sú. Þetta er smá mál, svona í fyrsta sinn að gera allt klárt.  Veit að það væsir ekki um hana né Slaufuna og Perluna.

Er orðin býsna spennt, hef reyndar nokkrar áhyggjur yfir því að hafa ekki úthald í fjörið. Hef ekki skemmt mér í meira en 2 ár en mér finnst kominn tími í örlitla gleði og birtu í líf mitt. Hefði auðvitað haft það gott heima í sveitinni en ég hét því í vetur að kæmist ég til heilsu, skyldi ég á þjóðhátíð  með krökkunum enda mikil þjóðhátíðarmanneskja. Þetta verður trúlega í síðasta skiptið sem ég sækist eftir því.  Einn besti vinur Haffa lánar okkur íbúð sína þannig að það væsir ekki um mann, þótt hann rigni.

Tókst ekki að vera í fríi í dag, fer í vinnu á eftir og síðan lagt í hann seinni partinn. Sem sé; komin í helgarfrí. 

Góða helgi og farið varlega


Stutt og laggott

Það kom að því sem mig grunaði. Komin með sýkingu í hundsbitin síðan á sunnudag. Lét kíkja á skurðina í gær, fékk stífkrampasprautu en engin sýklalyfin.  Átti að bíða og sjá til, fannst það nokkuð bratt en doktorinn hefur síðasta orðið. Rokin upp í hita, með köldu og alles í kvöld og bólgan litlu minni í hendinni.  Það kemur sér vel að eiga ráð undir hverju rifi, nú sem oft áður.  Whistling

Styttist í þjóðhátíð, krakkarnir fara til Eyja á morgun og við Sigrún, stútungskellingarnar, mætum á svæðið á fimmtudag ef allt gengur eftir.  Ekkert smá mál, fá pössun fyrir tíkurnar hér og þar og vinna fram á síðustu stundu.  Það er meira mál að koma þeim fyrir en ungabörnum.  En hvað gerir maður ekki fyrir þjóðhátíð?  Þetta verður hins vegar trúlega mín síðasta en hef ekki farið í 7 ár. Ég sem mátti ekki missa af einni hér áður fyrr.  Búin að redda regngalla sem ekki mun veita af ef spáin gengur eftir.  En það er engin þjóðhátíð nema að það rigni og blási, svo einfalt er þaðW00t

Snemma í háttinn með hitalækkandi á náttborðið þetta kvöldið. Eins gott að rífa sýkinguna úr sér með hraði og hlaða batteríin til að standa sig. Til Eyja hef ég ekki komið í 6 ár. Vinir og vandamenn munu gæta bús og véla á meðan, ekki mun veita af á þessum verstu og síðustu tímum.


Týpískur mánudagur

Rétt marði þennan daginn, algjörlega búin á því eftir helgina. Ég sem gerði lítið sem ekkert. Svo virðist sem ég þurfi "langlegu" um helgar til að hlaða batteríin fyrir vinnuvikuna. Ég þarf að fara að hreyfa mig meira, þó fyrr hefði verið! Að sjálfsögðu beið minn hjartfólgni sófi eftir mér í lok dags, skreið úr honum fyrir rúmum klukkutíma.  Hann klikkar ekki frekar en fyrri daginn.

Það þarf lítið til að ýfa upp minningar og áföll þessa dagana, hvort heldur sem það er þáttur hjá Sirrý eða harmleikur helgarinnar.  Sem betur fer er umræðan farin að opnast um sjálfsvíg og áhrif þeirra. Fram til þessa hefur umræðan verið lokuð, flestir forðast hana og margir telja að slík mál eigi ekki að ræða.  Syrgjendur sitja uppi með áfallið.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sem ekki hafa lent í því, skilji í raun hversu mikið áfall það er þegar ástvinur manns sér enga aðra leið færa en að taka sitt eigið líf.  Skotvopn bætir enn við áfallið, slík leið er svo endanleg og ákvörðunin óafturkæf.  Eins og fram hefur komið í þáttunum "Örlagadagurinn" er sjálfsásökunin svo sterk í fyrstu.  Hún ætlar beinlínis að éta mann upp að innan og gera út af við mann.  Síðan kemur reiðin og svo hvert stigið á fætur öðru þar til sátt næst, þ.e. sátt við orðinn hlut sem ekki er unnt að breyta.  Mér fannst Þorvaldur Halldórs lýsa ferlinu vel hjá Sirrý í gær.

Mér var létt þegar ég heyrði það í fréttum að öllum þeim er komu að harmleik helgarinnar, var boðin áfallahjálp sem nefnist "Fyrsta sálræna neyðarhjálpin" enda engin vanþörf á. Áfallahjálpinni þarf einnig að fylgja eftir næstu vikur og etv. mánuði.  Því miður virðist þau úrræði ekki vera til staðar í öllum landshlutum enda krefst hún þverfaglegrar samvinnu ýmissa heilbrigðisstétta og kirkjunnar.  Hins vegar mega heilbrigðisstarfsmenn og kirkjunnar þjónar í hinum ýmsu, minni byggðalögum taka sig á í þessum efnum.  Harmleikirnir gerast ekki síður þar en í stórborginni.    Vissulega eru til þau byggðalög þar sem þessi mál eru í góðum farvegi. Í öllu falli veit ég að okkur hefði ekki veitt af stuðningi, ekki síst Hafsteini og Katrínu, hvað þá þeim sem kom að.

En staðreyndin er sú að eftirlifendur úti á landsbyggðinni þurfa því oftar en ekki að bera harm sinn í hljóði og þeir sem koma að slíkum atburðum, ná sér etv. aldrei eftir slíka reynslu.  Hún fylgir manni ævina út.  Reynslan er jafnframt sú að eftirlifendur sækja sér sjaldnast aðstoð, það þarf að koma með hana til þeirra. Sem betur fer eru tímar að breytast og áherslurnar með.

Erfiðar hugsanir og pælingar sem sækja á hugan enda ekkert óeðlilegt við það, einungis liðlega 4 mánuðir síðan Guðjón fór.  Breytingar á lífi okkar miklar og fótunum kippt undan okkur að mörgu leyti.  Það tekur tíma að fara í gegnum sorgarferlið, feta réttu leiðina og finna jafnvægi á ný.  En allt hefst þetta með tíð og tíma.  Þangað til verða hæðir og lægðir, aðalatriðið er að festast ekki í hinum ýmsu þrepum og æra alla óstöðuga.  Sjálfsmeðaumkvun er engin lausn heldur, það stoðar lítt að velta því endalaust fyrir sér af hverju þetta gerðist  hjá mér.  Þetta gerðist og ég get ekkert gert til að breyta því. Ég þarf hins vegar að taka mig á og nota "hæðirnar" til að leysa úr öllum flækjunum, vera duglegri að ráðast í verkefnin.  Stundum eru litlu skrefin svo óendanlega stór og erfið en um leið og þau hafa verið tekin er sigurinn sætur og næstu skrefin auðveldari.

Auðvitað skilur enginn hvað maður er að fara með þessum orðum nema sá sem hefur gengið í gegnum sorgina með einum eða öðrum hætti. En allt hefst þetta, einungis spurning um tíma. Nóg um sorgina í bili. Nú fer hún upp í hillu.

 Heyskapur hafinn að Seljalandi og mín í skýjunum.Happy   Vona að menn geti nýtt heyfenginn.  Mín fjarri góðu gamni, bókstaflega með fiðring á tánum.  Veit ekkert skemmtilegra en sauðburð og heyskap.  Leitir í 3. sæti og sláturgerð í því 4. Það eru forréttindi að búa í sveit.

Heim í heiðardalinn

Við mægður skruppum heim um helgina og mætti Sigrún systir á svæðið.  Held henni hafi litist vel á, hún aldrei komið í Hörðudalinn fyrr. Svei mér ef Dalirnir hafi ekki heillað hana upp úr skónum.  Hún á hins vegar erfitt með að skilja samfélagið sem slíkt, finnst líkt og mér og öðrum, spillingin sjúkleg á ýmsum stjórnsýslustigum þess.  Held hún sé hálf undrandi á búsetuvali mínu undanfarin ár.

Við vorum nokkuð heppnar með veðrið en rosalega er allt þurrt, gróður og ár.  Fannst svolítið erfitt að sjá túnin óslegin, úr sé sprottin og punturinn stóð upp úr.  "Sveitamennskan" í mér auðvitað, vil sjá grasið í rúllum.  Ekki það að ég hafi skepnur til að éta það, fyrir utan nokkur hross.

Finnst alltaf jafn erfitt að fara að heiman aftur, verð alltaf hálf þung á eftir.  Hugsa um það sem ég vil að verði og barma mér í hljóði yfir því að hlutirnir séu ekki eins og ég óska.  Það getur samt farið svo að ég verði ein heima í vetur, er með margt á prjónunum en ekkert víst í þeim efnum.  Allt skýrist þetta á næstunni.Whistling

Gerði tilraunir til heimsókna í þessari ferð en menn ýmist uppteknir við að keyra heim rúllur eða ekki heima.  Helgarferðin fékk heldur snubbóttan endi, lenti í smá óhappi heima og sá fram á saumaskap og bóderingar á hendi auk þess að fá eina stífkrampasprautu.  Meiningin var að koma við í Borganesi enda augljóst að á heilsugæsluna heima fer ég aldrei inn fyrir dyr í lifanda lífi líkt og margir aðrir heimamenn.  En svo sá ég fram á að lenda í þessari "yndislegu" traffík" á Vesturlandsveginum þannig að ég vildi brenna beint í bæinn. Viðurkenni það fúslega að ég nenni ekki niður á Slysó í Fossvoginum þar sem biðin er lágmarik 4 klst. þannig að ég plástraði skurðina sjálf og leyfi þeim að gróa í rólegheitum. Hlýt að geta reddað mér tíma hjá læknunum á morgun til að fá pensillín. Ör skipta ekki máli hjá konu á mínum aldri.Cool

Lá undir feldi um helgina, ekki nógu lengi samt. Hef ekki enn tekið endanlega ákvörðun um stefnu mína í lífinu.  Tek mér þann tíma sem þarf enda margir kostir í stöðunni.

Kom við á leiði Guðjóns og setti niður nokkur blóm. Búin að ætla mér það í sumar en alltaf eitthvað sem frestaði því, trúlega var ég dugleg að finna einhverjar ástæður til að fresta því enda vissi ég að þetta yrði erfitt.  Nú er fyrsta skrefið tekið í þeim efnum og þau næstu verða auðveldari.  Sá reyndar að einhver var á undan mér og finnst mér það nokkuð bratt ef grunur minn reynist réttur. Skal aldrei dragast niður á það plan sem það fólk er statt á.

Búin á því eftir helgina sem annars var fín.  Fengum heimsóknir og við systurnar skemmtum okkur vel á  laugardagskvöldið.  Hefði viljað komast yfir meira en tíminn takmarkaður.  Geri betur næst. Háttatími í fyrra lagi á þessum bæ, Katan steinsofnuð og styttist í mig.  Helgarblöðin bíða betri tíma og ekki eru fréttir helgarinnar það upplífgandi að ég vilji hellar mér yfir lestur um þær að sinni.

 

 


Styttist í vikulok

Þá styttist í lok vinnuvikunnar, einn dagur eftir.  Verð fegin að komast í helgarfrí. Þarf að skreppa heim, leggjast undir feld og hugsa málin. Er varla enn farin að trúa góðu fréttunum, ekki vön að vera svo heppin.Blush ´

Verkirnir enn verulegir, allur skrokkurinn undirlagður.  Vegna þeirra leyfði ég mér enga óhóflega bjartsýni. Nú er bara að ráðast á þá og finna góða lausn, þeir hamla mér nokkuð daglega og á næturna og hafa þannig áhrif á starfsorkuna.  Það hlýtur að vera hægt að vinna bug á þeim. Stefni að því að vera orðin verkjalaus þegar kennslan hefst eftir mánuð.

Ég tek undir með þeim sem hafa sett inn athugasemdir hjá mér, nú er bara að hella sér út í lífið aftur af fullum krafti.  Ég verð að nýta vel það tækifæri sem mér hefur gefist og njóta þess að vera til.  Sjúkdómshugsunin verður að víkja þar til annað kemur í ljós. Auðvitað verð ég á verði gagnvart einkennum sjúkdómsins, annað væri kæruleysi en í minni "remission" mun líf mitt ekki snúast um krabbameinið heldur lífið og það sem það hefur upp á að bjóða.  Ávextirnir gallsúrir þessa dagana en öl él birtir upp um síðir og í öllu mótlæti leynast tækifærin.

Einungis rúmar 3 vikur þangað til Hafsteinn fer aftur út, Katan fer stuttu seinna. Ótrúlegt hvað sumarið hefur liðið hratt. Mér finnst ég hálfpartinn hafa misst af því vegna vinnunnar en á móti hef ég notið þess að komast í mitt hugsjónarstarf.  Sjálfstraustið aukist í þeim efnum.  Plúsar og mínusar eins og allt í lífinu.

Er vonandi að skríða upp úr eymdinni, trúlega ekkert óeðlilegt að taka dýfur. En skelfing er leiðinlegt á meðan á þeim stendur, oj........... En er lífið ekki einmitt "ups and downs"?


Góðir hlutir gerast hægt

Símtalið kom í morgun, mín á kafi í vinnunni og miðju þroskaprófi með stelpuskottu. Gleðigjafinn; Sigurður Bö færði mér niðurstöðurnar.  Allt gott að frétta, engin merki um krabbamein í líkamanum.  Hann sagðist reyndar vera gleðipinni þegar ég spurði hann hvort hann væri gleðigjafi.  Hann stendur fyllilega undir því nafni.Smile Mér var eiginlega svo brugðið að ég hafði ekki rænu á að spyrja hann ítarlega út í niðurstöðurnar. Þorði ekki að vonast eftir svo góðum fréttum.  Búin að læra það af langri reynslu að vera hóflega bjartsýn.

Síðustu 2 vikur hafa tekið á, meira en ég átti von á. Sjúkdómsferlið hefur allt rifjast upp, biðin endalausa, aðgerðin og svo lyfjameðferðin sem var eitt það erfiðasta sem ég hef gengið í gegn um. Kalla þó ekki allt á ömmu mína.  Er eiginlega hálf dofin, ekki búin að hoppa hæð mína ennþá en ég veit að það kemur. Mér finnst það líkjast kraftaverki að vera í þessari stöðu nú, miðað við umfang og eðli sjúkdómsins.  Auðvitað veit ég að þetta getur breyst á augabragði en ég ætla að trúa Sigurði, ég er læknuð þar til annað kemur í ljós og laus við þennan fjanda. Ég leyfi mér að þora að trúa því.

Nú fyrst finnst mér ég geta farið að gera langtímaáætlanir og taka stórar ákvarðanir. Nú ætla ég að skipuleggja sumt a.m.k. ár fram í tímann, annað til lengri tíma.  Búin að vera stopp of lengi við ljósið sem er löngu orðið grænt, eins og einhver sagði við mig um daginn. Viðurkenni hins vegar að mér reynast ákvarðanirnar erfiðar sem er ekkert óeðlilegt miðað við þær krossgötur sem ég stend við.

Búið að vera ansi þungt í mér síðustu vikurnar vegna þessa alls og ekki síst vegna þess að ég hef skynjað og frétt um óvild annarra.  Ótrúlegt hvað sumir nenna að eltast við að leggja steina í götu mína, meira að segja löngu eftir að ég hröklaðist í útlegð. Eyði trúlega allt of miklum tíma og orku í að hugsa um tilganginn og ávinninginn fyrir þá en veit að hluta til um hvoru tveggja en breyti engu þar um. Ég treysti hins vegar fáum en þeir standa líka undir því trausti.  Sorgin er að naga mig og bíta sem er eðlilegur fylgifiskur breytinga.  Það þarf heldur ekki mikla vindhviðu til að ýfa hana upp.

Ætla að reyna að rífa mig upp úr þessu volæði og einbeita mér að uppbyggingu og jákvæðari hlutum. Gæti komið mönnum á óvart í þeim efnum. Áfram eru það litlu skrefin, hægt og bítandi. Það stoðar lítt að horfa alltaf um öxl.  Góðir hlutir gerast hægt.

 

 


Biðin endalausa

Ekkert símtal, engar fréttir í dag.  Ótrúlega langur og dauflegur dagur, satt best að segja. Andlaus og ekkert frumkvæði. Kláraði vinnudaginn skammlaust af skyldurækni, hefði mátt vera meira að gera. Status quo hvað varðar heilsufarið  Whistling.

Virðist eiginlega seinheppin þegar kemur að rannsóknum og greiningu, lendi alltaf í endalausri bið. Nú eru að verða 2 vikur síðan ég hitti lækni minn, lenti enn og aftur í bið eftir tækjum og rannsóknum og nú eftir niðurstöðum. Mér sýnist flestir byrja á rannsóknunum og hitta svo sinn lækni, jafnvel daginn eftir. Hálf pirrandi, mér finnst þetta ekki þurfa að vera svona en einmitt lýsir þetta því frábæra heilbrigðiskerfi sem ýmsir stjórnmálamenn róma og lofa.  Ekki er skilvirkninni fyrir að fara á þeim bænum, svo vægt sé tekið til orða.  Í öllu falli leiðist mér bið, neikvæð upplifun á kerfinu rifjast óþyrmilega upp, mér til mikillar gleðiTounge

Fremur drungalegt yfir en ég fagna þó rigningunni.  Ekki veitti af vætunni, gróðurinn "sólbrunninn" og skrælnaður.  Hins vegar er augljóst að daginn er farið að stytta, dimmir um tíma á næturna.  Minni mann óneitanlega á það að haustið nálgast. Reyndar eru haustin uppáhaldstíminn minn og kvíði ég engu í þeim efnum. Fer að koma tími til að undirbúa kennsluna í vetur, hlakka mikið til að byrja aftur.  Finnst eiginlega komið nóg af sumarvinnunni, hefði gjarnan viljað vera í fríi í ágúst þar sem krakkarnir fara út í kringum 20. Langar að gera eitthvað skemmtilegt með þeim áður en þau fara.

"Engar fréttir eru góðar fréttir" segir máltækið.  Ég verð að trúa því þar til annað kemur í ljós.Pinch


Myndir

Hef verið dugleg að "bísa" myndum hér og þar, setti inn nokkrar af gullmolunum mínum og fjölskyldu minni.

Örlagadagurinn

Kíkti aðeins á þáttinn "Öralagadagurinn".  Umfjöllunin var um sjálfsvíg, ekki síst með áherslu á líðan eftirlifenda.  Þörf og brýn umræða um svo viðkvæm mál sem sjálfsvíg er.  Sirrý tók viðtal við móður ungs manns sem tók sitt líf og rakti hún ásamt tvíburabróður hans aðdraganda og síðan þann tíma sem tók við.  Svo virðist sem þessi fjölskylda hafi verið lánsöm að því leytinu til að hún fékk mikla aðstoð og stuðning við að vinna sig út úr sorginni og afleiðingum hennar.

Auðvitað ýfði þessi þáttur upp allt ferlið með Guðjón, því er ekkert að neita. Við Kata áttum báðar erfitt vegna þessa, við könnumst við þá líðan og eftirköst sem þarna var lýst. Þunglyndið, hótanirnar og sjálfsvígið sjálf, allt rifjaðist upp.  Það er ekki svo að ég hugsi um þennan atburð allan daginn en daglega þó og á langt í land með að vinna mig í gegnum sorgarferlið.

Kannaðist vel við þá lýsingu sem viðmælandinn gaf um frumkvæðisleysið, lömunartilfinninguna. Í fleiri vikur var daglegt markmið að komast í gegnum daginn, allt annað sat á hakanum enda var ærin vinna að klára hvern dag skammlaus, svo ekki sé minnst á lyfjameferðinga. Ég hafði ekki krafta til að sinna því sem fylgir daglegu amstri og rekstri. Númer eitt, tvö og þrjú var að vera sterk fyrir krakkana og láta sem allt væri í lagi með mig.  Ég veit að ég er góður leikari í þeim efnum.  Skelin og yfirborðið virtist í lagi en þar fyrir innan allt í steik, algjörlega í rusli.  Ég er nýfarin að takast á við þau mál sem hafa setið á hakanum og reyna að vinna mig út úr þeim.  Taka ákvarðanir.

Ég hef hins vegar ekki fengið skilning á þessari líðan og skorti á frumkvæði, alla vega ekki frá öllum.  Þeir sem ekki hafa lent í slíkum aðstæðum, skilja þetta hreinlega ekki.  Virðist harkan óendanleg í þeim efnum hjá sumum. Mér er vel kunnugt um þá sem hyggjast nýta sér þær aðstæður og erfiðleika mína, sér til hagnaðar.  Sumir virðist þrífast best við þær aðstæður sem hægt er að hafa gott af erfðleikum annarra.  Þar sem er gróðavon, líður þeim best.  Við skulum sjá til hvort þeim verði ágengt í þeim efnum, ég hef bognað en ekki brotnað. 

Í öllu falli erum við, litla fjölskyldan, sammála um það að stuðningur við okkur var rýr og áfallahjálp engin. Kerfið brást, kirkjan var til staðar en einungis í skamman tíma. Við nutum stuðnings stórfjölskyldunnar en það eru takmörk sett fyrir því hversu megnug hún er í svo erfiðum og viðkvæmum málum. Til eru þeir sem beinlínis ásaka mig fyrir sjálfsvíg Guðjóns, ég veit ekki hvort ég eigi að vorkenna þeim eða reiðast. Eins og ég hef oft sagt, er mér ætlað að vera ansi kyngimögnuð kona með alla þræði í hendi mér.  Norn,sem sagtDevil

Við munum halda áfram að vinna okkur í gegnum sorgarferlið, við getum ekki spólað til baka og breytt neinu. Guðjón er farinn og það er endanlegt.  Við getum einungis lært af þeirri reynslu sem við lentum í og bætt þeim lærdómi við reynslubankann sem er orðinn ansi fjölskrúðugur. Söknuðurinn verður alltaf til staðar og sorgir nístir eins og ég hef áður sagt.

Ég fagna því umræðunni um þunglyndi og sjálfsvíg, vonandi eykst skilningurinn á slíkum aðstæðum og dregur úr fordómum. Þeir eru ótrúlega miklir og þeir sem telja að það sé öðrum að kenna að einstaklingar taki slíkar ákvörðanir sem sjálfsvíg er, eru trúlega þeir sem hafa mestu fordómana. "Margur heldur mig sig".

Framundan ný vinnuvika og vonandi einhver svör frá Sigga BöUndecided


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband