21.7.2007 | 22:42
Enn eitt laugardagskvöldið
Laugardagskvöld enn og aftur, mér finnst það síðasta nýliðið. Ekkert spennandi í sjónvarpinu að vanda, búin að gera heiðarlega tilraun til að flakka á milli stöðva og hætt.
Heldur líflegra þó í kringum mig en oft áður. Katan á komin heim eftir inntökupróf í læknisfræði við Háskólann í Ungverjalandi, nánar tiltekið í Debrecen. Mín flaug inn eftir taugatrekkjandi, munnlegt próf hjá Ungverjunum þar sem áhersla var lögð á undirstöðuatriðin í líffræði, efnafræði og eðlisfræði. Frábært hjá Kötunni, það er ekki fyrir alla að fara í munnleg próf hjá Ungverjunum sem virðast hafa það markmið að reyna á þolrifin hjá nemendum sínum, líklega til að kanna hvort þeir séu nægilega sterkir til að þola álagið. Eru "kvikindislegir" og stunda það að reyna að "grilla" nemendurna, eins og sumir komast að orði.
Þau hafa staðið saman systkinin síðustu daga, frábært hvað Haffi hefur staðið við hliðina á systur sinni. Þau eru eins og eitt þegar eitthvað er, jafn ólík og þau eru.
Það er alveg augljóst í mínum huga að Katan hefði aldrei reynt aftur við inntökuprófið við H.Í, það reyndist henni þyngra áfall en nokkurt annað að komast þar ekki inn í fyrstu tilraun. Í því prófi var lítt látið reyna á undirstöðuþekkingu nemenda í raungreinum og náttúrufræðum. Það er hins vegar missir H.Í að missa af afburðanemanda. Leikreglurnar eru umdeildar, á því er enginn vafi.
Sem sé; til hamingu elsku Kata mín Þú áttir þetta svo sannarlega skilið, búin að stefna að þessu í mörg ár og hafðir undirbúið þig vel. Þú uppskarst loksins eins og þú sáðir. Ég er bókstaflega að rifna úr stolti.
Mér finnst það hreint út sagt frábært að bæði systkinin hafi valið sér læknisfræði sem starfsvettvang. Ekki það að það ætti að koma mér á óvart þar sem þau hafa alist upp í því umhverfi, forledrarnir báðir heilbrigðisstarfsmenn. Bæði hafa þau allt til brunns að bera til að verða góðir fagmenn. Að vita af þeim á sama stað þar sem þau geta stutt hvort annað í gegnum súrt og sætt veitir mér meiri hugarró en ég get lýst.
Framundan verða ferðalög hjá mér, ég á ugglaust eftir að vera dugleg við að heimsækja ungana út til Debrecen. Þó þeir séu vel fiðraðir, þarf maður að skipta sér eitthvað af eða hvað...........
Það eru miklar breytingar framundan hjá okkur öllum, það fer ekki á milli mála. Það styttist í að ég taki ákvörðun um það hvert skuli stefna. Ég hef náð áttum, fékk góð ráð um daginn sem virkuðu. Þetta fer allt að koma. Átthagafjötrar þurfa ekki lengur að toga og binda mig. Kannski er rétti tíminn fyrir kaflaskil núna. Í öllu falli eru hjólin farin að snúast hratt, bókstaflega að hringsnúast.
Katan farin út á lífið, Haffi á næturvakt niður á geðdeild og ég í símann
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.7.2007 | 22:28
Strembinn dagur
Dagurinn strembinn í víðasta skilning þess orðs. Upp snemma til mæta í Domus kl. 08.30. Að venju var bið, þó ekki nema 40 mín í þetta skipti. Tók ekki nema 7 mín að setja upp nál og dæla eitrinu í æð, síðan send heim í 2 tíma. Auðvitað sofnaði mín í þeirri pásunni en mætt á svæðið upp úr kl.11.00. Beinaskannið gekk vel og engar uppákomur.
Að skanninu loknu beið mín þessi einstaklega, ljúfa kvoða, heill líter sem ég mátti hella í mig á klukkutíma. Aftur sett upp nál, dælt í mig ólyfjan og síðan beint í sneiðmyndatökuna. Splunkunýtt tæki þannig að rannsóknin tók mun skemmri tíma en áður. Búin að bryðja stera og ofnæmislyf fyrir rannsóknirnar þar sem ég fékk bráðaofnæmi eftir sneiðmyndatökur í vetur.
Nú er það bara endalausa biðin sem tekur við, fæ vonandi niðurstöður eftir helgi.
Kostnaðurinn við herlegheit dagsins nam kr. 64.128 en þar sem ég er komin með afsláttarkort þurfti ég ekki að greiða nema 1/6 af þeirri upphæð, ríkið greiddi mismuninn. Þeir sem ekki eiga slíkt lúxus kort þurfa að leggja út fyrir slíkum upphæðum og fá endurgreitt eftir á. Believe it or not!! TR í minni heimabyggð flýtir sér ekki að endurgreiða slíkar upphæðir, alla vega ekki til allra þannig að mörgum munar um minna.
Ég var svo bjartsýn eftir herlegheitin að ég dreif mig í Smáralindina, varð auðvitað að komast á útsölu eins og allir aðrir. Í stuttu máli fór það nú þannig að ég fór í hverja einustu tuskubúð og hafði það upp úr krafsinu að finna eitthvað á krakkana sem reyndar voru himinlifandi. Minna fór fyrir tuskum á frúna en það er líka allt í lagi. Fitna svo ört að það borgar sig að bíða.
Var búin á því eftir daginn, skreið (í bóksaflegri merkingu) gráföl og óglatt inn í bíl með aðstoð Kötunnar, vissi ekki hvort ég gæti keyrt heim en það hafðist. Þar beið mín minn elskulegi sófi og klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Guðjón vissi hvað hann söng þegar hann valdi hann
"Vinir" mínir og aðdáendur ( ) í heimabyggð alltaf jafn yndislegir, einn þeirra toppar þó alla. Verð eiginlega að gefa út sannsögulega bók um þá sögu alla sem að liggur að baki ónefndri uppákomu kvöldsins. Ég er hrædd um að einhverjir súpi hveljur þegar sú saga verður sögð. En er það ekki svo að sannleikurinn er alltaf frásagna bestur? Mér var kennt það. Kannski bókin verði heimildarit um persónuvernd og trúnað, ekki síst í viðskiptum. Heimildarskráin alla vega til staðar. Kannski ég komist í viðtal í Mannlíf, hver veit
Menn ættu að vera farnir að kynnast því heima að ég er svo "kyngimögnuð" kona og fær um allt, meira að segja að ráða yfir lífi og örlögum annarra. Kannski er ég norn enda "af vondu fólki" komin
Veikindin | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.7.2007 | 01:47
Vonbrigði
Ég hef ekki verið allra í gegnum tíðina og sitt sýnist hverjum í þeim efnum; þannig er það einfaldlega. Ég er hins vegar heil og þeim trú sem ég tek, fáum dylst það. Stundum allt of "bláeyg". Ég hef alla tíð verið auðsæranleg en í seinni tíð gætt þess vel hverjir "komast að mér", ég kann því illa að verða særð. "Þroskuð" að því leytinu til að "brennt barn forðast eldinn". Hef reyndar sætt gagnrýni vegna þessa en menn verða að skilja það að maður fer ekki í sama pyttinn tvisvar ef hægt er að afstýra því.
Vinátta og trúnaður felst m.a í því að taka hinum aðilanum eins og hann er, með kostum og göllum. Getað bent á það sem vel er gert og það sem miður er, án þess að fjandinn verði laus. Ekki svo að skilja að maður hafi alltaf rétt fyrir sér, heldur hitt að skoðanaskipti ættu að vera með þeim hætti að gagnkvæm virðing sé til staðar. Séu þau skilyrði ekki til staðar, er grundvöllur til vináttu og trúnaðar ekki til staðar. Hvernig má annað vera; vinir ganga í gegnum súrt og sætt saman og slík tengsl virka ekki einungis í aðra áttina.
Trúlega er ég lík móður minni heitinni í þeim skilningi að bresti trúnaður eða skilningur, þá set ég í lás. Þegar maður hefur fengið rauða spjaldið, eyðir maður ekki orku né tíma í að sannfæra eða breyta öðrum enda lífsins ómögulegt að "kenna gömlum hundi að sitja".
En svona er lífið, gleði, sorg, vonbrigði og sigrar og margt í okkar eigin höndum í þeim efnum, sumt ekki. Ég veit að ég er ekki fullkomin en ég reyni mitt besta, stundum er það ekki nóg. Ekkert annað en að taka því og beina sjónum að jákvæðari hlutum, læra af reynslunni og gera ekki sömu mistökin tvisvar. Í öllu falli veit ég hverjir eru vinir mínir eftir reynslu síðustu mánaða og hverjir ekki. Jákvæður punktur, heldur betur og lásinn kominn á sinn stað. Ég þarf á allri orku að halda fyrir mig og mína á næstunni og mun klára mína pligt. Ég hef hins vegar engin áhrif á þann sem kýs að túlka hlutina með öðrum hætti en lagt er upp með.
Hnaut um eftirfarandi sem mér fannst eiga vel við eftir kvöldið;
"Það er óþægilegt að verða fyrir vonbrigðum, og því verra sem þau eru meiri. Þessu fylgja sárar tilfinningar sem geta varað lengi og orðið okkur að tjóni. Þess vegna er nauðsynlegt að takast á við vonbrigðin, reyna að skilja hvers vegna þau koma, hvernig eigi að bregðast við þeim og losna við þau ef mögulegt er"
Höfundur óþekktur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2007 | 21:43
Klukkuð
Mín hjartfólgna litla systir fékk þá hugmynd að "klukka" mig. Þurfti reyndar að fletta því hvað það þýðir og ef ég skil hugtakið rétt, þá á ég að segja 8 hluti um sjálfa mig. Þvílíkur bjarnagreiði! Hún veit það nefnilega að ég get aldrei takmarkað mig svo mikið.
Að segja aðeins 8 hluti um sjálfan mig er mér næstum um megn en reyni mitt besta. Auðvitað er litla systir fyrrmyndin mín í þeim efnum, við erum greinilega ekki mjög líkar eða hvað
Ég er útlægur Dalamaður, upprunnin úr Garðahreppi
Ég er ofvirkur eilífðarstúdent
Ég á 2 óskabörn, 2 tíkur og 1 ömmuhvolp
Ég er 6. í röðinni af 8 systkinum og miðsystirin (sáttasemjarinn??)
Ég er með algjöra símamaníu, sérstaklega seint á kvöldin
Ég er rosalega pólitísk og skipti mér af öllu í þeim efnum í heimabyggð
Ég er með ríka réttlætiskennd, stundum einum of
Ég sef alltaf á vinstri hliðinni
Hana nú litla systir! Ótrúlega erfitt að takmarka sig svo, ég hefði getað haldið miklu lengur áfram enda svo "kyngimögnuð" kona
Klukka dóttur mína og nöfnu litlu systir "med det samme"
17.7.2007 | 23:16
Þroskinn
Þroskinn er merkilegt hugtak og fyrirbrigði. Við erum stöðugt að þroskast frá blautu barnsbeini, rekum okkur á og gerum mistök. Flestir rísa aftur upp á fæturna, reyna aftur og læra af reynslunni.
Öll göngum við í gegnum ákveðin þroskastig en mishratt og misjafnlega getur tekist til í þeim efnum. Við göngum öll í gegnum æskuna og unglingsárin, fyrstu ástina, námið og val á ævistarfi og maka, misfljótt reyndar. Ég þekki fáa sem hafa gengið í gegnum þau þroskastig án þess að gera einhver mistök eða verða einhvern tíman fyrir vonbrigðum. Slík reynsla er hluti af þroskanum og lífinu. Hver man ekki eftir fyrstu ástarsorginni þegar allt virtist glatað, enginn gæti fyllt í skarðið og "lífið búið"! Þegar tímar líða, brosum við út í annað og sjáum að sem betur fer var það ekki svo. Lífið heldur áfram og úr rætist í þeim efnum.
Þyrnirnir eru mismargir og hvassir á leið okkar, öll stingum við okkur einhvern tímann, sum okkar jafnvel aftur og aftur. Fyrr eða síðar rötum við rétta leið, þyrnirnir færri og við reynslunni ríkari. auðnast það hins vegar ekki, stinga sig sífellt á sömu þyrnunum enda alltaf á sömu slóðinni. Hugtakið "Brennt barn forðast eldinn" nær einhvern veginn ekki þar í gegn. Oft er erfitt að vera sá aðili sem horfir upp á slíkt og geta ekkert aðhafst. Sumir ná ekki að læra af reynslunni.
Vonbrigði, tap og ósigrar í einhverri mynd eru hluti af tilverunni. Það er hins vegar í okkar valdi hvernig við tökum á slíkri reynslu og vinnum okkur út úr henni. Mín lífsýn og skoðun er sú að við lendum í mótlæti og erfiðleikum, á það að vera markmiðið að vinna sig út úr þeim og nýta þá reynslu sem við fáum til að byggja okkur enn frekar upp. Okkur er eðlislægt að staldra við og "sleikja sárin" um stund, hvert okkar á sinn hátt, en flestir rísa upp og halda áfram, sársaukinn og vonbrigðin minnka með tíð og tíma. Ný markmið, áhugamál og jafnvel vinir taka við og lífið fær nýjan tilgang, alla vega hjá sumum. Sjálfstraust okkar minnkar í flestum tilfellum þegar við gerum mistökin og rekum okkur á en við byggjum það upp aftur og það verður sterkara en ella.
Til eru þeir sem festast í vonbrigðunum, eigin sársauka og mótlæti. Þeir einblína eingöngu á það sem miður fór, skilja lítt í ranglæti heimsins og spyrja í sífellu "af hverju ég, hvað gerði ég"? Þeim tekst etv. smátt og smátt að koma sér upp úr þessu fari og líta á tilveruna bjartari augum eftir því sem frá líður. Sumum tekst það ekki, festast í eigin volæði, sjá allt svart. Eru hræddir og óöryggir, þora ekki að takast á við ný verkefni og markmið en eru engu að síður ósáttir við núverandi stöðu og líðan. Auðvelt getur verið að hafa áhrif á slíka einstaklinga, móta skoðanir þeirra og hugsanir enda stefnan óljós og markmiðin óskýr. Fyrr en varir verða þeir stefnulausir, áttavilltir, vita ekki í hvorn fótinn á að stíga, verða háðir öðrum og sjálfstraustið brotið. Þroskinn staðnar og framþróun verður lítil, ef einhver.
Þegar við lendum í áföllum, göngum við í gegnum sorgarferlið í einhverri mynd, mismikið og mishratt. Reynslan og þroskinn auðvelda okkur oft ferlið og við komumst í gegnum það með góðra manna hjálp. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við og vinna út frá þeim. Það er enginn sem segir að við eigum að ganga í gegnum slíka reynslu ein þó sumir kjósi það fremur. Fjölskyldan, vinir og fagfólk eru aðilar sem við getum leitað til sem geta veitt okkur stuðning og auðveldað okkur gönguna. Margir kostir eru þar í stöðunni sem vert er að hafa í huga.
Í öllu falli er það mín skoðun að í öllum vonbrigðum og mótlæti felast ákveðin ný tækifæri, við þurfum einungis að koma auga á þau og nýta okkur þau. Það tekur okkur hins vegar mislangan tíma eins og gengur. Það að festast í þeim vonbrigðunum, sársauka og neikvæðu reynslu sem hendir okkur hverju sinni er það sama og að skrifa upp á stöðnun, skert sjálfstraust og óhamingju. Lífið heldur nefnilega áfram, hvað sem tautar og raular en það er ekki endalaust . Það skiptir okkur máli að vera hamingjusöm og sátt við okkur sjálf. Það er undir okkur sjálf komið að miklu leyti, það er háð því hvernig við kjósum að vinna úr mótlætinu og hvernig við viljum þroskast. Hver sem skaðvaldurinn er hverju sinni, þá berum við sjálf ábygð á því hvernig framhaldið verður, a.m.k í flestum tilfellum. Það er ekki hægt að kenna öðrum um allt.
Það er svo annar handleggur hvað við getum lagt á sína nánustu þegar áföll og mótlæti steðja, það standa ekki allir undir því álagi. Íhugunarefni sem ég þarf að greinilega að skoða betur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.7.2007 | 23:38
Anda djúpt og ...............
Fékk góð og holl ráð við síðustu færslu, orð sem sannarlega hittu í mark og komu mér niður á jörðina. Í stað þess að horfa í örvæntingu til allra átta er skynsamlegra að "láta sig fljóta" aðeins og bíða átekta. Lausnin ratar til manns og málin leysast á réttum tímapunkti. Í öllu falli þegar maður sjálfur er tilbúinn
Það að finna ekki kompásinn, vera rammvilltur, þurfa að taka til ótal, mismunandi aðstæðna og aðila á sama tíma og þóknast öllum, getur gert hvern mann vitlausan og í raun ekki á færi eins eða neins. Ætla að einbeita mér að verkefnum dagsins hverju sinni og gera mitt besta.
Búin að fá staðfestingu á fimmtudeginum, fer í sneið og skann skv. áætlun. Réttir varahlutir rötuðu í hús, var mér tjáð í dag. Niðurstöður vonandi eftir helgi.
Komst á góðan skrið seinni partinn við að byrja á erfiðum málum, kannski er staðan ekki eins vonlaus og ég hélt, hver veit? Það verður bara að koma í ljós. Enginn sófalúr í dag og verkirnir eftir því. Er komin í gang sem skiptir öllu máli. Nú er að halda dampi og gæta þess að pompa ekki niður. Af nógu er að taka næstu daga og vikur, nú reynir á að draga andan djúpt ot telja upp á tíu
Veikindin | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.7.2007 | 21:23
Austur eða vestur, norður eða suður?
Ég hef ekki hugmynd hvaða stefnu ég á að taka í mínu lífi. Á ég að stefna austur eða vestur eða kannski norður eða suður? Úff, ég veit það hreinlega ekki. Ferlegt að standa á krossgötum án þess að biðja um það sjálfur og vita ekki í hvorn fótinn maður á að stíga. Ekki bætir úr skák þegar aðrir, persónulega eða í krafti embættis síns, reyna að stjórna því fyrir mig. Þá fer ég gjörsamlega á hvolf
Ég er búin að vera í "haltu mér, slepptu mér" dæmi um nokkurt skeið, get hvorki haldið né sleppt. Hrikaleg hringekkja sem hellist yfir mig á hverjum degi, verst á kvöldin og um helgar enda nóg tóm til að hugsa þá. Ekki bætir úr skák að hafa greinst með þennan bjév..... sjúkdóm! Get ekki planað neitt að ráði fram í tíman, hámark 3 mánuðir í senn. Auðvitað á ég að vera þakklát fyrir horfur mínar og hvernig allt hefur gengið vel fram til þessa, margur er í mun verri sporum en ég. Ég á hins vegar erfitt með að fóta mig í þessum aðstæðum, "makalaus" og ein á báti. Ég gerði aldrei ráð fyrir því.
Til að gera stöðuna flóknari sem er svo sem ekki nýlunda í mínu lífi, er mér gert ókleift að starfa í heimabyggð og þarf að miða alla afkomu mína við störf fjarri henni. Vegalengdir yfirleitt það miklar að ekki gengur að keyra á milli daglega. Urrrrrrrrrr............, hvað þetta er pirrandi. Gleður, veit ég, suma.
Ég er þó með einn útgangspunkt á hreinu; í Reykjavík vil ég ekki búa. Hef neyðst til þess að vera hér vegna veikindanna og atvinnumöguleikana en mér finnst komið nóg af þeirri dvöl. Út frá þessum punkti verð ég að velja; austur, vestur eða norður, suður Vandamálin og erfiðleikarnir stundum óyfistíganlegir og ég sé ekki fram úr þeim, grrrrrrrrrrr............ Það fer illa í mína.
Vona að ég finni áttavitann, erfitt að vera korktappi úti á rúmsjó, ekki síst haugasjó, skoppandi stefnulaus þvers og krus um allt. Mér finnst mun auðveldara að ráðleggja öðrum en að finna réttu ráðin fyrir sjálfan mig. Skelfing er þetta allt saman flókið. Ég verð að fara að rífa mig upp úr þessari eymd og volæði, annað gengur ekki, mér er farið að sárverkja í hnén. Hvar er fj..... kompásinn?
Svei mér ef það verður ekki allra meina bót að komast í vinnu á morgun! Hef ekki gott af of löngum fríum, þarf að hafa nóg fyrir stafni. Úff, hvað ég er fegin að helgin er búin. Mun fylla lagerinn af CVD myndum og poppi fyrir næstu helgi............................ Gvöððð, ég hljóma eins og níræð piparmey Mér væri nær að vera duglegri að skrifa "Dalalíf", af nægum verkefnum er þar að taka.
Veikindin | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.7.2007 | 12:25
Einar Oddur látinn
Mér var all brugðið að lesa Fréttablaðið í morgun en þar kom fram á forsíðunni að hann hefði orðið bráðkvaddur í fjallgöngu á Kaldbak á Vestfjörðum. Þvílíkur sjónarsviptir fyrir fjölskyldu og okkur öll, ekki síst í Norðvestukjördæmi. Einar Oddur var maður sem þorði að segja sínar skoðanir umbúðalaust. Hann var ekki fyrir rósamál og umbúðir, hreinskiptinn og það gustaði af honum. Kynntist honum persónulega og líkaði vel við hann. Við vorum ekki alltaf sammála en það var líka allt í lagi, hann virti skoðanir annarra.
Einar Oddur lét verkin tala, hamhleypa og hafði ég þá tilfinningu að hann lifði lífinu hratt. Hann fór snöggt að sama skapi. Hugur minn og samúð er hjá eiginkonu, börnum og afkomendum þeirra. Tíminn framundan er erfiðari en orð fá lýst.
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1280237
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2007 | 22:33
Laugardagskvöld
Þá er þessi vika liðinn og enn og aftur komið laugardagskvöld. Ég get ekki sagt að þau kvöld séu í uppáhaldi hjá mér, eyði þeim nær undantekningalaust ein með tíkunum. Hef alls ekkert á móti einverunni, þarf á henni að halda af og til og mér líður vel einni þegar því er að skipta. Hins vegar er sjónvarpsdagskráin nær alltaf hörmuleg á öllum stöðvum á laugardagskvöldum. Skiptir þá engu máli hver þeirra er, sjónvarpsefnið er dapurt. Ég eiginlega skil þetta ekki, í eina tíð var dagskráin alltaf fjölbreytt um helgar og bauð upp á afþreyingarefni sem flestir gátu unað við. Nú er öldin önnur, mér virðist sem það afþreyingarefni sem boðið er upp á vera bæði eldgamalt og "annars flokks".
Sú var tíðin sem ég var nánast aldrei heima á laugardagskvöldum, ýmist á helgarvakt eða að skemmta mér. Var dragúldin ef ég þurfti að dúsa heima, öðrum til armæðu. Ósjaldan bitnaði það á móður minni. Ótrúlegt hvað hún hafði mikið langlundargeð í þeim efnum.
Ég hef ekki verið svo dugleg að horfa á sjónvarp í sumar, hending ef ég horfi á fréttir enda sofna ég oftast í mínum hjartfólgna sófa. Um helgar get ég sofið lengur og vaki því á kvöldin. Þennan daginn þurfti ég auðvitað að sofa út í það endalausa, skreið út seinni partinn í arfann og sóleyjarnar sem eru að drepa allan grasvöxt hjá mér. Er ekki nógu sterk til að rífa illgresið upp
Var ekki nógu vel upplögð til að fara vestur, bév..... verkirnir og hitavella enda með stútfullar kinn- og ennisholur. Katan fyrir vestan í roki og kulda að harka af sér á Eiríksstaðarhátíðinni. Sú lætur sig hafa það! Færði mér hins vegar fremur daprar fréttir, svo virðist sem brotist hafi verið inn í Seljaland, af ummerkjum á útidyrahurð að dæma. Það skyldu þó aldrei vera þeir á ferð sem telja sig eiga urmul af tólum og verkfærum þar? Það verður auðvelt að dæma um það þegar ég fer yfir svæðið.
Ekki það að ég veit að margir fara þarna um til að skoða jörðina sem er ekki tiltökumál en ég er undrandi á því að menn skuli vaða inn fyrir hlið og skoða útihús og hugsanlega inn fyrir dyr, án þess að gera vart við sig. Í öllu falli hefur enginn haft samband við mig vegna jarðarinnar en traffíkin ku vera nokkur. Ég er ekki viss um að áhugasamir kaupendur gætu ruðst inn í garða og hús í þéttbýli til að skoða sig um. Ég er ansi hrædd um að uppi yrðu fótur og fit og menn með pólitíið á hælunum
Haffinn búinn að stunda sitt áhugamál um helgina; veiði! Aflinn rýr en haft gaman af enda flottur með flugustöngina. Tímin bókstaflega flýgur áfram og áður en maður veit af, er hann floginn út.
Ekkert annað að gera en að hátta snemma, fáir heima til að hringja í og spjalla sem er auðvitað uppáhaldsiðjan mín á kvöldin. Auðvitað notar fólk helgar og góða veðrið til að ferðast um og viðra sig. Það er annað ég ég...................... Dauðsé eftir því að hafa ekki hleypt í mig hörku í morgunn, grrrrrrrrr....................................
Nýr dagur á morgunn, sem betur fer, þessi kemur aldrei aftur

Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.7.2007 | 22:29
Biðin endalausa
Enn komin í sömu spor og í haust þegar ég beið og beið eftir niðurstöðum og meðferð. Þarf að fara í sneiðmyndatöku af brjóstholi og kviðarholi og fæ loksins að fara í beinaskann; það fyrsta síðan ég greindist. Fæ hins vegar ekki tíma fyrr en næsta fimmtudag og þá með þeim fyrirvara að tækin í Domus verði komin í lag. Það veltur hins vegar á því hvort réttir varahlutir berist var mér tjáð. Ég ætti skv. þessu plani að heyra í Sigurði Bö í síðasta lagi eftir aðra helgi.
Ekki það að ég er orðin vön biðinni, það er ekki vandamálið en mikið væri það skemmtileg tilbreyting ef hlutirnir gætu, svona einu sinni, gengið snuðrulaust fyrir sig.
Skoðunin kom vel út, engar eitlastækkanir og lungnahlustun eðlileg. Blóðprufurnar eins og ég átti von á, hækkuð í hvítu blóðkornunum enda búin að vera með "pest" og blóðrauðinn ansi hár enda ekki við öðru að búast með eitt lunga. Hvíldarpúls er alltaf yfir 100 slög/mín og er það eðlilegt af sömu ástæðu. Ég er að þyngjast og úthaldið að koma smátt og smátt. Fékk meira að segja "starfshæfnisvottorð", að eigin ósk, sem ég þarf að skila inn þannig að ég er formlega orðin "vinnufær".
Ég líkt og aðrir sem veikjast af krabbameini, á erfitt með að plana langt fram í tíman og hef lært að horfa aðeins á næstu 3 mánuði eða þar til næsta tékk verður. Auðvitað ætla ég að sigra þennan fjanda en ekkert er sjálfgefið í þeim efnum. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir, ég hugsa um lífslok og afleiðingar þeirra á börnin mín. Hef reyndar meiri áhyggjur af þeim en sjálfri mér en ég veit að þau eru sterkir einstaklingar sem koma til með að spjara sig. Ég finn það vel að öðrum finnst óþægilegt að ræða um lífslok, ég var þannig sjálf þar til ég fékk reynslu í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur. Umræða um slík mál er óhjákvæmileg í því starfi og sem fagmaður hef ég þurft að móta mína afstöðu til dauðans eins og aðrir kollegar mínir. Að því leytinu hef ég kannski forskot á aðra í sömu stöðu en þekki það líka að það er oft nær óyfirstíganlegt að missa ástvini sína.
Ég finn það vel að ég hef breyst mikið við þessi veikindi og sviplegt fráfall Guðjóns. Afstaða mín til ýmissa mála hefur tekið U-beygju. Ég hef ekki verið þekkt fyrir að gefast upp og hef harðnað að því leytinu til ef eitthvað er. Þó að það komi mér alltaf á óvart hversu fólk getur verið óvægið, ýmist persónulega eða í krafti embættis síns, staldra særindin og sársaukinn skemur við í mínum huga. Ég má eiginlega gæta mín á því að vera ekki of hörð í viðbrögðum mínum þegar að mér er vegið eða illa komið fram við mig og mína. Ég hef líka lært á óvæginn hátt að ekki eru allir viðmælendur vinir mínir og til eru þeir sem sigla undir fölsku flaggi, tilbúnir að sparka í útafliggjandi mann þegar því er að skipta. Ég er reyndar alltaf jafn bláeyg þegar kemur að slíkum málum, á erfitt með að trúa hvað fólk getur verið grimmt og óvægið. Sumir eru það blindaðir af heift og mannvonsku að þeim er það ekki tiltökumál að sæta lagi og bregða fæti fyrir mann, jafnvel þegar maður er ekki fær um að verjast sökum veikinda og sorgar. Hvernig skyldi slíkum einstaklingum reiða af ef þeir veikjast sjálfir, missa ástvin, verða sviptir atvinnu og afkomu eða ef vinir þeirra bregðast þeim? Oftar en ekki verður mér hugsað til þess að samviskan eigi eftir að banka hressilega upp á hjá þeim, verði þeir óvígir af einhverjum orsökum. Ég hef í raun samúð með þeim
Finn að ég er ekki eins þreytt eftir vikuna nú og ég var í síðustu viku, hvað þá þeirri þar síðustu. Var þó ekki það brött að ég treysti mér að keyra vestur í dag en stefni þangað á morgun. Katan fór í dag og lítur eftir hlutum, mér heyrist ekki vanþörf á því. Verst að það er ekki hægt að panta öryggisþjónustu í sveitina, ekki veitti af, því miður.
Búin að afreka það að slá og reita arfa í kvöld, sæl og ánægð með árangurinn en ansi mikið eftir. Allt hefst með litlu skrefunum og smásigrunum. Ég get vel við unað að vera orðin þetta brött, það er meira en hægt er að segja um margan sem er að berjast við krabbamein af ýmsum toga. Ég er sátt við sjálfan mig, auðvitað hefði ég getað betur á mörgum sviðum. Ég er, eins og allir, mannleg og breysk. Vildi að ég hefði verið sterkari eftir andlát Guðjóns og drifið í ýmsum málum en viðurkenni vanmátt minn, sumt gat ég einfaldlega ekki horfst í augu við eða tekið á. Afleiðingunum verð ég að taka og ekki er að vænta skilnings í þeim efnum á sumum vettvöngum. Þannig er það bara, ég hef reynt mitt besta, meira er ekki hægt hverju sinni. Á morgun geri ég betur
Sorgin | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)