Í góðum gír

Allt gengur sinn vanagang. Ótrúlegur léttir að getað haldið í rófuna sína og ekkert að safnast upp, ennþá, náð að vera býsna afkastamikil þrátt fyrir pestarskömmW00t

Aðeins rúmar 4 vikur eftir af önninni, o.m.g ! segi ég eins og unglingarnir. Tíminn æðir áfram, það verða komin jól áður en maður snýr sér við og nýtt ár áður en maður veit af.

Styttist í "ársafmæli" greiningar minnar. Ég get heldur betur verið sátt við mitt hlutskipti. Ástandið alveg þolanlegt og ég einkennalaus m.t.t. krabbameinsins. Ef ég er meira verkjuð eða þreyttari en venjulega, er það mín eigin sök, tók of mikið að mér. Ekki það að verkir eru ekki það versta, það er vel hægt að lifa með þeim og sætta sig við þá. Þeir eru smámál miðað við það sem aðrir mega þola. Ef það gengur ekki nógu vel hjá mér þá er það sjálfri mér að kenna. Hef einfaldlega ekki verið nógu dugleg í þeirri lífstílbreytingu sem er mér nauðsynleg.  Eru áramótin ekki fínn tími til framkvæmda og breytinga?Whistling

Næsta tékk í janúar og á ekki von á því að neitt neikvætt komi út úr því, miðað við líðan og heilsufar. Er farin að leyfa mér að trúa því að það sé komið hlé á þessu sjúkdómsferli í bili. Er óttarlegur bómullarhnoðri og verð að gæta þess að vindurinn blási ekki á mig, fæ þá strax kvef og bronchitis.  

Hlakka mikið til þess að komast í jólafrí, er að vonast til að ég eyði jólunum með krökkunum, þykist náttúrlega svo óskaplega ómissandi  hjá þeim. Er í algjörri afneitun gagnvart þeirri staðreynd að þeir eru orðnir fleygir fuglar og standa á eigin fótum. Þau láta sig hafa þessa ranghugmynd mína, ennþá. Þau byrja í sínum prófum í kringum 24. desember og ljúka þeim einhvern tíman í lok janúar, byrjun febrúar. Koma þá heim í einhvern tíma þangað til næsta törn byrjar. Annars mikil afföll á 1. árs nemendum í læknisfræðinni, nemendur eru að hrynja niður eins og flugur, gefast upp og fara heim. Mikið um hlutapróf þessar vikurnar og gríðaleg samkeppni, að því er virðist. Verst er að klíkumyndanirnar eru ansi sterkar þarna meðal Íslendinganna og ekki komast allir inn sem vilja. Húka utan hóps, í kulda og trekki. Hver myndi ekki gefast upp?

Er með hugan hjá krökkunum, ekki síst Katarínu. Held þó að henni sé farið að líða eitthvað betur. Þessi vanlíðan og leið kemur trúlega í bylgjum, stutt í jólin og prófin. Haffi hefur meira forskot í þessum efnum, er á sínu 3. ári og orðinn hagvanur og sjóaður í þessu umhverfi auk þess að vera eldri og þroskaðri. Auðvitað er erfitt að vera fjarri vinum og fjölskyldu.

Búin að setja mér ótal markmið á morgun, eins gott að fara að halla sér. Þarf að ráðast á kerfið og  skattinn, þetta dugir ekki lengur. Vikan að verða hálfnuð. Ræs í býtið! Vonandi engin hálka og greiðfært, ekki enn búin að ná mér í dekkBlush

 

 


Náði í skottið á mér!

Loksins hafðist að ná í rófuna á mér í uppsafnaðri verkefnavinnu, komin á slétt og "skulda" ekki lengur í þeim efnum. Ótrúleg sælutilfinning, sektarkenndin bókstaflega molnaði niður. Hef nú vaðið fyrir neðan mig og er með "back up" á öllu. Aldrei aftur tölvuslys með fyrrgreindum afleiðingum.

Fja... kaldara núna, náði að komast upp á Skaga á mínum slitnu dekkjum, ekki nokkurt viðlit að fá umfelgun þessa dagana í höfuðborginni, ekki nema að bíða í langri biðröð tímunum saman. Hvorki nenni því né hef tíma, keyri varlega þangað til um hægist. Alltaf sama panicin í höfuðborginni þegar jörðin hvítnar og kólnar.W00t

Er reyndar hörð á því að fá mér negld dekk. Engum hefur tekist að sannfæra mig um að "góð snjódekk" geri sama gagn. Búin að prófa slík dekk sem ég keypti dýrum dómum, var eins og belja á svelli  og þau óbrúkhæf eftir veturinn. Minnir að ég hafi greitt um 70.000 kr. fyrir þau "frábæru" dekk fyrir 2 árum og fann verulega fyrir því. Á meðan ég er í þessari langkeyrslu, verð ég á nelgdum, takk fyrirTounge

Ótrúlega gaman að sjá hvað tíkurnar skemmta sér vel í snjónum, eiginlega of vel því það er svo kalt. Brrrrrrr. Á það sérstaklega við þá yngri sem er að upplifa þessi ósköp í fyrsta skiptið. Mín þarf að vera duglegri að ganga með þær, hef ekki gefið mér mikinn tíma að undanförnu.

Lífið gengur sinn vanagang hér, harla lítið spennó. Vinna og tölvuvinnsla fram yfir kl.23.00 að vanda og ekkert svo sem að því. En er ákveðin í því að minnka aðeins vinnunna, fæ hvort eð er ekkert útborgað þar sem ég lenti í áætlun hjá skattinum. Mig langar að eiga aðeins tíma fyrir sjálfan mig, var að uppgötva það um daginn að ég hef ekki farið í klippingu síðan í byrjun ágúst! Hvað þá annað. Það kom sér vel að ég var ansi stuttklippt þá. Hausinn á mér eins og heysáta núna, hreint skelfileg. Lakkaði á mér neglurnar á leiðinni upp á Skaga í morgun. Líkt og oft áður, tel mig ekki hafa tíma til þess að setjast niður "aðgerðalaus" og dúlla við neglurnar!Shocking Halló!  Klukkurnar klingja á fullu!

Hef ekki farið í eina heimsókn hér á höfuðborgarsvæðinu síðan í ágúst, veit ekki hvernig kvikmyndahús lítur út, hvað þá skemmtistaðir. Var boðið að slást í för með systur minni á Kringlukránna á laugardagskvöld og ég of þreytt til að fara. Haldið að það sé nú! Þvílík vitleysa, það hálfa væri nóg. Ekki það að ég hef svo sem ekki tíma til að láta mér leiðast en finnst þetta engu að síður orðið ansi einhæft og litlaust allt saman. Mál til komið að poppa þessa tilveru eitthvað upp.

Bleik er brugðið þegar ég er hætt að minnast á pólitík. Reyndar finnst mér ekkert spennandi að gerast á þeim vettvangi. Spillingin óbreytt í minni, fyrrum heimabyggð og borin von að það ástand breytist. 'Menn þegja þunnu hljóði á þeim bæ. Hef ekki sett mig inn í málefni borgarinnar, fylgst auðvitað með hneykslinu í OR og eilífum utanlandsferðum ráðherranna. Ingibjörg Sólrún er trúlega búin að flytja lögheimili sitt út úr landi, Össur á fullu í útrásinni fyrir OR, man ekki betur en að þau hafi viljað sparnað í þeim efnum á síðustu kjörtímabilum. Gott ef þau kölluðu slíkar ferðir ekki sukk og svínarí. Kannski eitthvert líf glæðist á næstu vikum á þingi, hver veit. Í öllu falli er tíðindalaust á þeim vígstöðvum, líkt og mínum.


Helgin liðin

Þá er þessi helgi liðin, finnst hún varla hafa verið neitt, neitt, svo fljót var hún að líða. Mér finnst eins og föstudagur hafi verið í gær. Nóg var sofið alla vega, bæði í gær og í dag. Seint skriðið á fætur í dag og litlu komið í verk af því sem ég ætlaði en eitthvað mjakaðist þó áfram.

Ótrúlegt hvað maður tekur líðan barnanna sinna inn á sig. Kötu líður ekki nógu vel úti, trúlega jók koma mín enn á hennar heimþrá og vanlíðan. Sjálf er ég með herping í maganum og kökkinn í hálsinum.Crying Veit ekki hvernig þetta kemur til með að þróast hjá henni, heimþrá er eðlilegasti hlutur í heimi sem ég þekki mæta vel. Spurningin hins vegar hvernig manni tekst að vinna úr slíkum tilfinningum. Öll upplifum við slíkar tilfinningar á lífsleiðinni og stundum bera þær manni ofurliði. Þá er ekkert annað að gera en að bregðast við þeim og vinna sig út úr málum. Oftar en ekki upplifði ég það að vilja hætta í því sem ég tók mér fyrir hendur á sínum tíma og þá var það móðir mín sem stappaði í mér stálinu.  Það er ansi oft sem ég hugsa til hennar og sakna þess að geta ekki fengið góð ráð.  

Annast finnst mér þetta líf vera býsna töff. Er orðin langþreytt á vonbrigðum, basli og mótlæti.  Þegar einu lýkur, tekur annað við. Auðvitað það ferli sem allir upplifa en í mismiklum mæli. Stundum langar mig að flýja þetta basl og byrja upp á nýtt einhvers staðar úti í buskanum í einskins manns landi. Týpísk flóttaviðbrögð sem sæmir ekki konu á mínum aldri en engu að síður hvarflar þessi hugsun oft að mér. 

Erfiðleikarnir eru til að sigrast á þeim, það vitum við öll. Auðvitað tökumst við á þessa erfiðleika eins og aðra, þrekið gagnvart mótlæti hefur hins vegar dvínað hjá mér, það finn ég vel. Í öllu falli verð ég að fara vinna mig betur út úr hlutum og herða leitina af sjálfri mér. Það er hundleiðinlegt að vera fastur í einhverju fari sem maður vill ekki vera í og reyna að hjakka árangurslaust upp úr hjólförunum.  Skelfing er ég orðin leið á því, í öllu falli, þetta gengur ekki lengur. Maður lufsast í gegnum dagana og vikurnar sem eru fremur gleðisnauðar, af gömlum vana. Whistling

Þeir eru til sem hafa ýmislegt á samviskunni og ég mun seint fyrirgefa böðlum mínum sem hafa haft nánast rústað lífi okkar um tíma, þessarar litlu fjölskyldu. Ég upplifi mun meiri biturleika nú en nokkurn tíman fyrr, hætt að vera sár og brotin, er fremur reið. Ekki það að reiðin er vond tilfinning en hún er skárri en sársaukinn og vonbrigðin og gefur manni aukinn baráttukraft. Aðallega reið fyrir hönd fjölskyldunnar minnar sem engum gerði neitt. Hugurinn hefur reikað til þeirra þöglu áhorfenda sem stóðu til hliðar og gerðu í rauninni ekki neitt á meðan böðlarnir hömuðust á mér og mínum. Voru þeir eitthvað skárri? Það er alla vega deginum ljósar að við eigum langt í land með að vinna okkur út úr afleiðingum síðustu ára. Við erum einfaldlega skemmd eftir harkalega reynslu og sálartetrið er eftir því. Hvernig má annað vera? Það kemur mér hins vegar á óvart hversu þessar tilfinningar og hugsanir hafa sótt á mig að undanförnu en veit að þær eru komnar til vegna þeirra kaflaskila sem eru í mínu lífi.

Þessar hugsanir líða hjá eins og annað og maður mætir daglegu lífi eins og það er. Við erum ekki þekkt fyrir að gefast upp þessi litla fjölskylda en sumir dagar  eru dimmari en aðrir og verstir þegar börnin mín finna til eða líður illa. Kata hefur fundið meira fyrir mótlætinu en Haffi þar sem hún var meira á staðnum þegar það gekk yfir, veikindin mín bitnuðu þ.a.l. meira á henni en ella. Skal nokkurn undra að hún eigi erfiða daga. Þrátt fyrir allt er hún ótrúlegur stuðpúði og fljót að sjá jákvæðu hliðarnar í flestum aðstæðum. Vona að hún fái styrk til að komast yfir sína vondu daga.InLove

Heimurinn er fullur af vondu fólki og leiðinlegu. Okkar er að greina þá einstaklinga úr og sniðganga þá. Í öllu falli að hleypa þeim ekki inn í líf okkar til að valda usla og skaða. Þeir eru til sem eru það góðir leikarar að ekki er hægt að sjá í gegnum þá fyrr en um seinan. Því oftar sem maður lendir í slíkri reynslu, þeim mun tortryggnari verður maður í vali á sínum viðmælendum. Auðvitað á maður ekki að dæma alla eftir nokkrum svörtum sauðum en eðlishvötin er sú að vera varkár og taka sér lengri tíma en ella. Pinch

Við höldum áfram að urra okkur í gegnum lífið enda til mikils að vinna. Smátt og smátt verður ástandið betra og við sáttari við okkar hlutskipti. Við höfum oftast val um það hvert við viljum stefna og hvernig. Mestu skiptir að vanda valið vel og gefa sér góðan tíma. Öll él stytta upp um síðir, það er á hreinu og alltaf kemur sólin upp að nýju. Wizard Mikilvægast er að setja sér raunhæf markmið og finna leiðir til að ná þeim.  Það að hafa eitthvað til að stefna að, gefur manni kraftinn til að sigrast á mótlætinu. Við eigum að læra af reynslunni. Hins vegar hefur oft verið sagt um mig að ég sé "late bloomer" og eru það orð að sönnu. Læri seint af reynslunni og dett oft í sama pyttinn. Er smám saman að breyta áherslunum í lífinu og finna því nýjan farveg þó hægt gangi.  Allt hefst þetta með tíð og tíma, einhvern tíman lýkur uppgjörinu. Við klárum okkur í gegnum þetta tímabil, ég og mín litla fjölskylda


Aumingjaskapur! Hvað?

Þvílíkt óánægð með aumingjaskapinn í mér. Náði engum markmiðum mínum í dag! Reis úr rekkju nálægt hefbundnum kaffitíma hjá venjulegu fólki. Ekki í lagi á þessu heimiliBlush

Dreif mig þó niður á LSH og minn bro bara útskrifaður. Ótrúlegur, vægt til orða tekið!Cool

Búin að heyra í "mínu fólki" í kvöld; úff hvað ég er með mikla heimþrá. Í öllu falli verður í lagi með hrossin okkar Kötu í vetur; þvílíkur léttirInLove Það er svo annað mál hvert framhaldið verður, það verður að koma í ljós. Ótrúlega gott að heyra í einum að mínum nánasta vini og vinum, hvað ég er rík að eiga þá að. Og það sem meira er, enginn eða "öngvir" taka þá frá mérTounge

Í öllu falli er ég á leiðinni í sauðburð í vor, kem trúlega að gagni, svo fremi sem ég hef heilsu og þrek  til. Ég skal!!!!!
 Úff, ég endurtek; ég er að farast úr heimþrá, hana tekur enginn frá mér.


Lánsöm

Svaf nátúrlega af mér bróðupartinn af kvöldinu, veit að ég er að ganga allt of nærri mér í vinnu. En mér finnst svo æðislegt að vera viðurkennd fyrir störf mín eftir allt sem undan er gengið, að ég læt mig hafa það. Þarf reyndar á vinnunni að halda til að reyna að kroppa í halann sem lengdist í veikindunum og við fráfall Guðjóns.  Það er mér ómetanlegt að fá tækifæri til þess og mér finnst ég yfirmáta lánsöm að geta unnið sem er meira en margur getur sagt.

Veit hins vegar að ég hef gengið of langt og þarf að endurskipuleggja hlutina. Hef vaknað síðustu nætur um kl.03 svo svakalega verkjuð að það hálfa væri nóg. Það eitt að liggja flatur er hrein skelfing. Er náttúrlega með mikla slitgigt eftir að hafa starfað við ummönnunarstörf frá 15 ára aldri og gleymi þeirri staðreynd allt of oft eftir að ég greindist. Einhvern veginn reiknar maður með því að allir verkir séu af illu komnir og stimplar þá alla á krabbameinið. Staðreyndin er hins vegar sú að mínir verkir eru trúlega til komnir af slitgigtinni og eftir brottnámið af lunganu. Þeir verkir hverfa seint, er mér sagt. Tók eftir því, þegar við gistum á hóteli í Búdapest og ég með 1 kodda, að verkirnir jukust svo að ég hreinlega kastaði upp eftir nóttina. Þarf að hafa a.m.k. 3-4 kodda og sofa hálf sitjandi. Þannig er það einfaldlega og ég verð að lifa með því.

Það er ótal margt sem spilar inn í mína líðan síðustu vikur. Söknuður og sorg, brottför krakkanna, flutningar, tómleikatilfinning, of mikið álag og áhyggjur af ýmsum toga. Svo ekki sé minnst á þá staðreynd að ég er "týnd" eða bókstafleg "lost" í þessari breyttu tilveru. Að geta ekki búið á þeim stað sem ég vil búa er bara heilmikið mál. Allir þurfa að geta stundað sín störf og tryggja sína afkomu, ég er engin undantekning þar á.

Hvað ég vildi að ég kæmist út úr þessum rúmsjó og fyndi "minn farveg". Veit að það kemur að því en skelfing er biðin erfið og biturleikinn hefur verið að gera sterklega vart við sig upp á síðkastið. Hvernig má það vera að menn komist upp með það að leggja líf manns í rúst og blómstra á sama tíma! Urrrrrrrrr.....................!  Einhvern tíman kemur að því að menn uppskeri eins og þeir sá.

Ég get hins vegar sofið út á morgun og það verður gertW00t Hvað ég hlakka til, ég á engin orð til að lýsa þeirri tilhlökkun. Næ pottþétt að vinna upp minn "hala",um helgina, þá loks fer mér að líða beturSmile


Helgin að nálgast

Þá sé ég fyrir endan á vinnuvikunni, var að ljúka við að sinna eigin verkefnavinnu. Búin á því. Þarf að fara að japla á einhverju blómafrævlum til að fá meiri orku. Náði ekki að klára þann hluta sem stendur upp á mig í hópverkefni, verð að bíta á jaxlinn á morgun, ekkert sem heitir.

Heyrði í bróður í kvöld, þvílíkur léttir að heyra í honum. Hann auðvitað kominn á fullt og fram úr rúmi, frábært enda ekki smá skurður sem hann  fór í. Orðinn það hress að ég ætla að "bögga hann" smá á morgun með innliti. Verð þó að passa mig á að þreyta hann ekki of mikið.  Ekki það að hann er ekki þekktur fyrir að hlífa sér, blessaður. Hlakka mikið til að hitta hann.Heart

Stutt færsla í kvöld, er ekki að sofa nema 5-6 klst. á nóttunni. Það er ekki nóg, er hálfdottandi allan daginn og búið að líða eins og ég hafi verið á skrallinu langt fram á nótt. Hlakka ekki lítið til laugardagsins, þá get ég sofið úttttttttttttttttttttttCool  Vonandi fer veðrið að skána og þar með sálartetrið. Vantar drifkraftinn, kannski skilið hann eftir í háloftunum? Langar mikið til að athuga með ferð til Debrecen yfir jólin, ólíklegt að krakkarnir komist heim. Alla vega eitthvað til að hlakka til 

 


Haustlægðir

Þvílík veðrátta, viku eftir viku. Stanslaust rok og rigning, stormur þess á milli. Ég þakka þó fyrir rigninguna, býð ekki í það ef um snjókomu væri að ræða. Orðin býsna þreytt á þessu tíðafari, finn verulega fyrir rokinu á minni daglegu keyrslu. Ekki frá því að sumir ökumenn séu hálf dottandi við stýrið þessa dagana eða uppteknir í GSm símanum sínum. Í öllu falli er umferðin afspyrnu þung og hæg, hvort heldur sé innan bæjar eða úti á þjóðvegi 1. Eiginlega  hundleiðinleg. Þarf hreinlega að passa mig að dotta ekki sjálf. Kosturinn við rokið er þó sá að ekki þarf að hafa áhyggjur af hárgreiðslunni, hún fýkur sjálfstætt út í vindinn.

Búið að laga gasið hjá krökkunum og farið að hlýna innan dyra. Nóttin var víst ansi strembin hjá þeim. Próf hjá Kötu í kvöld, var ekki nógu sátt að því loknu. Hefur gengið glymrandi vel fram að þessu. Haffi að fara í mikilvægt próf annað kvöld, skiptir miklu máli fyrir hann að ná góðum árangri m.t.t. lokaprófsins. Úff, hvað ég sakna þeirra og vildi að ég væri pínu nær; til að skipta mér afHeart

Komin í mitt gamla, góða far, föst í tölvunni til kl.23. í kvöld. Allt eins og vant er og á að vera. Tel niður klukkutímana þar til ég kemst í helgarfrí, þarf virkilega að fara að vinna upp verkefnin í eigin námi.  

Hef ekki haft tíma til að fylgjast með pólitíkinni sem skyldi, er að vinna að verkefni sem fjallar um pólitískar ráðningar innan mennta- og heilbrigðisráðuenytanna. Athyglisverð vinna þar og niðurstöður koma mér nákvæmlega ekkert á óvart. Ástandið verst innan sveitarstjórnarstigsins, sýnist mér. Það kemur heldur ekki á óvart. 

Önnin farin að styttast í annan endan en nóg af verkefnum framundan. Ástandið verður orðið rólegra um miðjan desember sem er eins gott, mér miðar hægt með bókina. Hefði helst viljað vera úti í Debrecen þegar fer að vora og sitja við skriftir. Það er allt í lagi að láta sig dreyma......W00t

Hugur minn hjá stóra bro, vona að allt gangi vel, það fer að verða óhætt að líta til hans þegar hann hressist. Hugsa mikið til Gíslínu og bið alla sem líta hér við að senda henni góða strauma. Er virkilega farin að sakna hennar á bloggheimum. Ef ég þekki hana rétt, rífur hún þessa uppákomu úr sér á mettíma.

Fékk óvænta og frábæra gjöf frá samstarfsfólki mínu í dag. Þetta líka æðislega hálmen frá Dýrfinnu Torfa. Er ekki lítið ánægð og hrærð. Ég vissi hreinlega ekki hvernig ég átti að vera, sungið fyrir mig og ég veit ekki hvað. Það fyrst sem ég hugsaði þegar ég var kölluð til; Guð minn góður og ég er ekki búin að koma með meðlæti með kaffinu eins og tíðkast þegar starfsmenn skólans eiga afmæli! Ætlaði að gera það um daginn en komst þann dag ekki í vinnu. Svakalega skammaðist ég mín, þetta minnti mig enn og aftur að maður á ekki að fresta til morguns það sem hægt er að gera í dag. Mun svo sannarlega bæta mig í þessum efnum sem öðrum.Wink

Nú er það koddinn, upp kl. 06 í fyrramálið og akstur í rokinu.  Gott að hafa nóg að gera og minni tíma til að hugsa. Held áfram að leita af sjálfri mér, sú leit gengur hægt en er ekki sagt að góðir hlutir gerist hægt?


Í kulda og trekki

Ég er eins og vængbrotinn fugl í gær og dag, að farast af áhyggjum af ungunum mínum. Ekkert gas í íbúðinni hjá þeim sem þýðir skítakuldi. Ekkert hægt að gera í málum fyrr en í fyrsta lagi á morgun þar sem einhver allsherjafrídagur er hjá Ungverjunum. Ekki það að krakkarnir kvarta ekki en ég veit að þau hírast í kulda og trekki þessa tvo daga, hitastigið er lágt þessa dagana, það upplifði ég sjálf. Ég vona bara að þau ofkælist ekki, úff hvað er erfitt að geta ekkert gert. Einhver bilun í kerfinu er þeim sagt. Crying Ég ætla rétt að vona að ástandið verði betra á morgun.

Er svona að ná mér niður eftir ferðalagið. Auðvitað kemur rót á mann og allar tilfinningar út og suður. Hefði viljað vera miklu lengur en fegin að hafa fengið þetta tækifæri samt. Það er mest um vert.

Er óðum að ná í skottið á sjálfri mér, hafði greinilega gott af þessari pásu enda skotgengið með vinnu í dag.  Þetta er allt að koma og ég sé fram á eðlilegt ástand og álag eftir nokkra daga, hef greinilega náð að hlaða batteríin í Debrecen. Þó ferðalagið sem slíkt hafi tekið á, var það fyllilega þess virði í orðsins fyllstu merkinguSmile

Tíkurnar komnar til síns heima og svei mér ef þær hafa ekki haft gott af dvölinni á hundahótelinu en hvorugar víkja frá mér. Díana eins og prinsessa, orðin líkari því sem hún var, blíð og róleg. Við höfum allar haft gott af þessar pásu frá hvor annarri. Svei mér ef þær hafi ekki báðar lagt af sem ekki var vanþörf á, sérstaklega hjá þeirri yngri.

Hugsa sterkt til bloggvinkinu minnar hennar Gíslínu, bið alla sem ramba hingað á síðuna mína að hugsa vel til hennar. Þvílíkur baráttujaxl, það vantar ekki en mér finnst nóg lagt á hana og bið "þann uppi" að gera hlé á þessum uppákomum. Hún urrar sig í gegnum þessa erfiðu reynslu með blóðtappan í lunganu, trúi ég enda veit ég að hún afsannar ýmsar kenningar. Það hefur hún reyndar þegar gert. Ég get ekki annað en dáðst af henni. Þvílík hetja, sú kona. Sendi henni sem og bróður og "litlu" systur baráttu- og batakveðjur. Veit að þar fer all vel.

Næstu skref eru að ná utan um vinnuna og öll verkefnin og halda áfram leitinni af sjálfri mér. Hún hlýtur að bera árangur, fyrr eða síðar. Mér liggur svo sem ekkert á eða hvað?Undecided


Heim

Komin heim frá Debrecen og Budapest. Þvílíkt flug með ónefndri ferðaskrifstofu. Ég er viss um að súrefnismettun hjá mér náði ekki yfir 60 á leiðinni. Stútfull vél, 200-300 manns? Illa lyktandi af alls kyns ódaun, ekki síst fúlri, gamalli áfengislykt enda engin loftræsting á leiðinni og til að bæta gráu ofan á svart; flugið lengdist. Hjálpi mér hvað mér var þungt á leiðinni. Þvílíkur fnykur! Þetta var eiginlega svakalegtSick

Grár hversdagsleikinn tók við, rigning og rok hér á Fróni og það allra lengsta aðflug sem ég man eftir. Það reyndar snjóaði uppi þó það ringdi niðri. Fékk þó ótrúlega hlýjar móttökur frá stóru systur sem mætti á völlinn til að hitta þá minni. Takk fyrir það sys.  Góðar fréttir frá bróður, aðgerð gekk vel og allt lítur vel út. Hvernig má annað vera þegar hann á í hlut? Harðari en ands.... af sér og sá jákvæðasti sem til er. Ég veit að þetta fer allt vel og mun virða hans óskir  sem og hans aðstandenda í hvítvetna.

Nóg búið að gerast síðustu daga, litla systir búin að vera veik en að koma til og gott að vita að hún er í góðum höndum. Ekkert annað að gera en að fara vel með sig.

Þessi ferð búin að vera frábær, Debrecen höfðar til mín en Búdapest ekki. Kannski vegna árstíðarinnnar, ég veit ekki? Fannst ég vera heima með krökkunum í Debrecen en "fílaði" ekki beint Budapest. Eftir sturtu í kvöld var vatnið kolbrúnt!  Þarf að koma þangað að vori áður en ég dæmi endanlega. Aumingja krakkarnir komu heim í dag frá borginni og gasið´"úti" í íbúðinni, enginn hiti. Frídagar í dag og á morgun í landinu. Eins og Haffi sagði: ekkert að gera en að taka þessu, þetta er Ungverjaland! Margir tala um hægaganginn á Spáni og víðar en maður minn; það tekur hálfan dag að fá kaffibolla í Ungverjalndi, ef sá gállinn er á mönnum þar. Í öllu falli skítakuldi í íbúðinni enda frost á næturnar. Kata búin að kveikja á ótal kertum til að halda að sér hita, einhver rafmagnsblástursofn er til staðar sem strákarnir eftirlétu henni enda algjörar hetjur! Vonandi verða þau ekki veik vegna ofkælingar þarna úti, skólinn tekur nefnilega veikindi ekki gild. Ef þú ert veikur, þá ert þú fallinn!  Miss u gues og takk fyrir migSmile

Kannski einhverju nær með vegleysu mína á krossgötunum, í öllu falli er fátt sem heldur í mig hér. Í raun nákvæmlega ekkert, hvort sem mér líkar það betur eður ei. Ce la vie og ekkert annað að gera en að vinna út frá því.

 


Debrecen

Ótrúlegt en satt; það hafðist að komast alla leið til Debrecen.Að sjálfsögðu gekk það ekki snuðrulaust fyrir sig að komast alla leið en það hafðistWink

Eitt og annað koma upp á , áður en þeim árangri var náð. Lagðist í flensu 4 dögum fyrir brottför og leit ekki út fyrir bót á henni til að byrja með en náði að væa út Doxytab í tæka tíð, áður en ástandið varð alvarlegra. Mikið gekk á, nóg að gera og tíminn naumur. Í miðju álagstímabilinu ot stuttu fyrir áætlaða brottför tókst mér að dæla bensíni á dieselbílinn minn en sem betur fer ekki nema um 35 lítrum enda dælan afspyrnu leiðinleg, að mér fannst og kalt úti. Við tók þvílíkt vesen og bið var hægt að mjatla þessu bensíni úr tanknum, að neðanverðu um örmjótt gat og bjarga vélinni. 20 þús krónur fóru í þessa fljótfærni mína auk tapaðs tíma. Smámál hins vegar á miðað við það að eyðileggja vélina

Síðustu klukkutímarnir fyrir brottför voru að sama skapi skrautlegir, þurfti að mettíma að koma hundunum á hundahótel, sækja nýja miða þar sem mér voru sendir rangir miðar, leysa út lyf fyrir Katrínu, redda varahlutum sem áttu að fara vestur og ég veit ekki hvað og hvað. Ætlaði aldrei að komast að heiman; var með svo þungan farangur að ég bifaði honum ekki út úr húsi! Var með 40 kg.!!   Náði að rugga töskunni út fyrir dyr, ýta henni að bílnum en kom henni ekki með nokkrum móti upp í bílinn, engan veginn nógur sterk til að lofta henni. Þurfti að létta vel á henni áður en mér tókst að koma henni fyrir í bílnum; hafðist að setja hana í framsætið, farþega megin og þar sat hún föst, ofan á gírstönginni.  Þannig keyrði ég bílinn til Keflavíkur.

Á meðan útréttingum stóð bakkaði ég á girðingu, bíllinn og girðingin slapp, ég og tíkurnar í sjokki. Það var því ein fegin sem settist upp í vélina á leið til Búdapest. Nú skyldi sofið og slappað af, ég vel staðsett í vélinni í 10. sætaröð. Var reyndar fljót að sofna út frá krossgátunni sem ég hafði meðferðis, ekkert smáljúft. Sú sæla stóð ekki lengi yfir, hvernig mátti það vera ef litið var á samsetningu farþega? Langflestir á leið til Búdapest í árshátíðarferð og því bróðurparturinn bókstaflega "á felgunni"Sideways Auðvitað er fólk ekki að leggja sig í slíkri ferð, hvers konar bjáni er ég að láta mér detta slíkt í hug?

Flugið gekk samt ágætlega, finn reyndar töluvert fyrir loftrþrýstingsmuninum á meðan flugi stendur, verð þung og ómótt en þetta gekk ágætlega. Að flugi loknu tók við 3klst. akstur til Debrecen í kolniða myrkri þannig á ég sá ekkert til. Það var hins vegar ein sem sofnaði eins og grjót um kl.02 að nóttu og rumskaði ekki fyrr en kl.13. 00 í dag. Svaf betur hér en nokkurn tíman heima hjá mér.

Búið að vera frábær dagur þó hann byrjaði seint. Yndisleg íbúð sem krakkarnir hafa ásamt vini sínum honum Kára sem tekur þeirr gömlu einstaklega vel. Fékk að skoða háskólann í dag; er ansi hrædd um að H.Í fölni í samanburðinum, ekki síst m.t.t aðstöðu til kennslu og fyrirlestarhalds. Ég fylltist lotningu þegar ég kom inn í þessar virðulegu og flottu byggingar.

 Debrecen fremur litlaus bær, sá reyndar ekki nema lítinn hluta af honum í dag enda hellirigning, framan af. Ansi kalt í kvöld, trúlega við frostmark. Á morgun verður stefnan sett á Búdapest en þar ætlum við að dvelja fram á mánudag. Bíð spennt eftir því að skoða borgina og kíkja í verslanir. Ákveðin í að koma aftur í vor, vil reyndar helst flytja hingað alveg á meðan krakkarnir eru í náminu en hér er ekki vinnu að hafa og þó svo væri eru launin stjarnfræðilega lág. Læknar hafa sem nemur 120.000 kr. á mánuði, útilokað að láta sig dreyma í þeim efnum!

Nýt þess að vera í fríi, finnst svolítið skrítið að vera ekki á kafi í verkefnavinnu o.þ.h. en ætla að vera í fríi frá þeim málum fram á mánudag, verð að hlaða batteríin. Ótrúlega skrítið að vera gestur hjá börnum sínum, hér er ég eins og prinsessan á bauninni, gæti alveg hugsað mér að vera lengurHeart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband