Stress?

Nú er álagið heldur betur farið að segja til sín, búin að vera með stanslausan verk og brjóstsviða síðan fyrir helgi. Ég sem japla mitt Nexium alla daga og missi töflu aldrei úr. Þessi verkur er fj... verri, með leiðni aftur í bak og herðablað. Kannast svo sem við þessi einkenni og þykist vita hver orsökin er þó enginn ætti að reyna að vera sinn eiginn læknir.. Ætla rétt að vona að honum linni, sef þó sæmilega fyrir honum en á erfitt með að sitja og hreyfa mig í vökuástandi. Urrr!

Var að lesa frábæra frétt á bloggi Þórdísar Tinnu; háttvirtur heilbrigðisráðherra hefur veitt henni viðtal á morgun. Ég veit að hún kemur til með að segja skoðanir sínar umbúðarlaust um málefni krabbameinssjúkra. Kannski ráðherra skipi nefnd og aðhafist eitthvað í þeim málum, af nógu er að taka og ansi margt að þar. Það verður spennandi að fylgjast með niðurstöðum þess fundar á morgun. Ég óska henni góðs gengisWink

Ástand mitt er annars gott fyrir utan þessi einkenni frá maga/vélinda/galli? Er farin að lýjast, ég viðurkenni það. Hef heldur minna úthald og finn að það er erfiðara að fara á fæturnar á morgnana. Auk þess bætir myrkrið örugglega ekki úr skák þó ég hafi svo sem aldrei fundið neitt sérstaklega fyrir skammdeginu.  Trúlega  hefur 200 km akstur á dag sitt að segja eins og Sigurður Bö varaði mig við í haust en ég sé fram á betri tíma í þeim efnum. Á erfiðara en áður með að láta 6 tíma duga í nætursvefn þannig að það gerist æ oftar að ég leggi mig á hinum ýmsum tímum og það er bara allt í lagi. Framtaksemin er aðeins minni, það verður að segjast eins og er og því gott að mestu törninni fer að ljúka í bili. 

Allt í þokkalegum gír hjá ungunum í Debrecen. Hafsteinn að ná mjög góðum árangri í sínum prófum og Kötunni gengur vel.   Býr vel að námi sínu í MR.  Mér heyrist leiðinn heldur minni, það er alla vega léttara yfir henni. Þau eru ótrúlega dugleg bæði tvö og mín að rifna úr stolti. Eitt próf hjá Haffa í fyrrmálið og Kata kláraði eitt í morgun. Mig minnir að nú sé að koma örstutt pása hjá þeimW00t

Ekki laust við tómleikatilfinningu síðustu daga eftir að Gillí lést. Þar var mikil baráttukona og karakter á ferð. Ég verð oft svo urrandi reið út í þessa sjúkdóma sem krabbameinið er. Þó um sé að ræða marga sjúkdóma þá eru þeir allir erfiðir og horfurnar misgóðar.  Mér finnst með ólíkindum hvernig tengsl á milli manna geta orðið náin í bloggheimum, jafnvel án þess að hafa hist. Gillí var ein af þeim fáum sem snart mig strax og einhvern veginn tengdumst við um leið. Ég sakna hennar sárt og hugsa mikið til aðstandenda hennar sem eiga virkilega sárt um að binda. Útför hennar er á morgun ef ég hef tekið rétt eftir og erfiður tími áfram. 

 

red_rose2

 

 


Könnun

Mikill tími fer í akstur hjá mér daglega á virkum dögum. Keyri stundum allt að 200 km. á dag og til að drepa tíman hlusta ég á útvarpið. Reyndar einu skiptin sem ég hlusta á útvarp. Útvarp Saga er oft sú stöð sem ég hlusta á enda hálpirrandi garg á hinum stöðvunum, að mínu mati. Á Sögu er mikið um innhringingar og verður að viðurkennast eins og er að sama fólkið hringir gjarnana aftur og aftur, sumir hella úr skálum reiði sinnar, aðrir eru málefnalegir eins og gengur.

Finnst reyndar ekki alltaf gaman að hlusta á þvaðrið í sumum en margt er ágætt á stöðinni. Í morgun voru lesnar upp niðurstöður könnunar sem hægt var að taka þátt í á heimasíðu Sögu. Spurt var um þann stjórnmálaflokk sem þátttakendur myndu kjósa í dag. Niðurstöður athyglisverðar, tæp 2000 manns svöruðu. Sjálfstæðismenn trjónuðu á toppnum með 25%, Samfylkingin með 24,6%, VG með 21%, Frjálslyndir með 20,4%, Framsóknarflokkurinn með 6,5% og Íslandshreyfingin með 0,9%, ef ég man rétt. Það sem mér þótti athyglisvert er að ríkisstjórnarflokkarnir skyldu ekki fá meira vægi og eins það að Frjálslyndir eru á hælunum á VG, hverfandi munur þar á. Mér kom vægi framsóknarmanna ekki á óvart, fengu þó 6,8% en eiga ansi langt í land miðað við þessar tölur. 

Ekki skal ég dæma um marktækni hér, hef engar forsendur til þess. Engu að síður fannst mér þessar niðurstöður athyglisverðar. Enginn fjölmiðill hrópar núna upp "rasismi", sú umræða virðist hafa fjarað út daginn eftir síðustu alþingiskosningar.Whistling

Í öllu falli ættu Frjálslyndir að vera sáttir við þessa niðurstöður.  Hve lengi skyldi núverandi ríkisstjórn halda velli?


Toppurinn

Náði að toppa sjálfan mig þessa helgina, svaf út í það endalausa og snéri sólahringnum við. Gat svo auðvitað ekki sofnað fyrr en eftir miðja nótt. Það var því seint farið á fætur þennan sunnudaginn. Las blöðin  í morgun en þurfti svo endilega að leggja mig svona smá.......Whistling Vaknaði 3.30 og geri aðrir betur! Gjörsamlega eyðilagði daginn, ætlaði að leggjast út í flakk og heimsóknir. Það er eins gott að ég var ekki búin að fastsetja neitt, hefði ekki staðið við eitt eða neitt. 

Þrátt fyrir þessa yfirgengilegu leti og svefnþörf þessa helgina hef ég náð að afkasta nokkru, er hætt að eltast við eigin hala, held ágætlega í hann nema í eigin námi. Þar er eitthvað farið að safnast upp.
Er nú ekkert sérstaklega sátt við sjálfan mig, hefði viljað vera activari og hitta fólk. Það hefur lítið farið fyrir slíku hjá mér um helgar það sem af er vetri. Á sjónvarp horfi ég ekki nema rétt undir miðnætti þannig að ég er beinlínis "úti úr kortinu" þegar kemur að fréttaefni og þáttaröðum.

Tíminn þýtur áfram, finnst alveg með ólíkindum að það sé komið fram undir miðjan nóvember. Þann 8. sl. var liðið eitt ár síðan ég fór í aðgerðina. Lifi ágætlegameð mitt eina lunga en þurfti að vera mun duglegri í að hreyfa mig og auka þolið. Er eins og fýsibelgur ef ég þarf að hlaup upp stiga. Enn er miklir verkir í brjóstkassanum, alltaf eins og "krumla" sé læst utan um hann hægra megin. Mér skilst að það sé eðlilegt og þannig geti það verið í langan tíma. Ekkert sem hamlar mér, svo fremi sem ég hef mín verkjalyf. Er enn einkennalaus m.t.t krabbameinsins þannig að lífið gæti ekki verið betra. Ég þarf ekki að kvarta miðað við margan annan og nýt þeirra forréttinda að vera vinnufær. Hef tekist helst til of mikið upp í mig í þeim efnum, finn svo sem fyrir því en lifi það af. 

Nú verður slökkt á tölvunni fyrir miðnætti og reynt að snúa sólahringnum við. Hlakka alltaf til að hefja nýja vinnuviku,  þá kemst rútína á hlutina og ég á fullu úti við en ekki einungis við eldhúsborðið. Er ákveðin í því að eyða jólunum úti hjá krökkunum og er farin að telja niður dagana. Hefði helst viljað fara með krökkunum til Kanarí, er orðin hálfgerð hitabeltisplanta  síðustu árin en ekkert svigrúm er til þess vegna prófana. Því verður það Debrecen sem er hið besta mál.

 Nákvæmlega ekkert að gerast í pólitíkinni fyrir utan einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Pétur Blöndal náði ekki í gegn breytingum á starfsmannalögum opinberra starfsmanna á síðasta kjörtímabili. Nú fara sjálfstæðismenn aðrar leið; allt verður einkavætt og þá þarf ekki opinbera starfsmenn í þann geira, a.m.k. Ótrúlegt hvað fjölmiðlar eru þegjandalegir yfir þessari þróun sem og nýjasta útspili Kbbanka. Menn ætla íbúðalánasjóð greinilega út, ég hef ekki trú á því að Samfylkingin setji sig almennt á móti því þó Jóhanna reyni að streitast á móti. Í öllu falli finnst mér líklegt að landinn hugsi sér til hreyfings, í "persónulega útrás" og flytji búferlum í auknum mæli. Hvernig má annað vera?Sick


Kyngimögnuð kona

Ég er greinilega alveg kyngimögnuð kona og margt til listanna lagt. Fær um meira en margur, skilst mér.

Nú stunda mínir "vinir" í minni fyrri heimabyggð kapphlaup um það hver þeirra getur rægt mig meira og fundið einhvern höggstað á mér. Nýjasta nýtt er reiði og pirringur yfir því að ég skuli vera farin af Seljalandi og þar með úr sveitarfélaginu  og menn keppast um að finna "skýringu" á því. Þetta æði manna kemur mér á óvart, satt best að segja þar sem það hefur verið yfirlýst markmið sumra í fimm ár að koma mér úr sveitarfélaginu meðöllum tiltækum ráðum. Nú halda menn að missa sig yfir því að ég skuli vera farin.Shocking

Ég er ekki þekkt fyrir það að gefast upp, alla vega ekki auðveldlega. Ég lét mig hafa það í fjögur ár að þurfa að stunda störf utan heimabyggðar þar sem allar dyr voru luktar,enn læstari eftir að nýjir menn tóku við stjónrvölinn. Sótti ég um hvert einasta starf sem losnaði í mínu fagi, án árangurs. Rökstuðningur manna var ansi hæpinn, þá sjaldan sem hann lá fyrir. Þetta ástand verður óbreytt á meðan fyrrum samstarfsmaður minn er alvaldur í sveitarfélaginu. Það þarf engum blöðum að fletta í þeim efnum. Komi nýjir einstaklingar í áhrifa- og stjórnunarstöður er þeim fljótlega gert grein fyrir því yfirlýsta markmiði að synja mér um störf og þeir gangast hiklaust og umorðalaust undir þau skilyrði. Þeir verða jú að falla inn í samfélagið og það er farsælla að vera með þeim í liði sem halda um stjórnvölinn. 

Síðasta ár hefur verið gríðalega erfitt í öllum skilningi þess orðs, veikindin og fráfall Guðjóns hafa tekið sinn toll. Á það ekki síst við um fjárhaginn sem eðlilega hrundi enda tekjutap gríðalegt. Allir sem lenda í slíkum aðstæðum upplifa slíkar þrengingar og ekki er aðstoðinni frá kerfinu fyrir að fara. Lífeyrissjóður bænda er ekki til að hrópa húrra fyrir, mánaðarlegar greiðslur nema um 12.000 kr. fyrir utan skatt. Enginn útfarastyrkur í boði, ekkert. Ég óvinnufær. Auðvitað fór allt í óefni, hvernig mátti annað vera?

Sumir eru heppnari en aðrir með sína viðskiptabanka. Ég hef ekki verið það, allt gjaldfellt um leið og hægt var sem var á nafni eiginmanns míns, engin ráðgjöf eða sveigjanleiki, einungis harðar innheimtuaðgerðir og vaxtarkostnaður upp í topp. Til að bæta gráu ofan á svart, frétti ég um mína fjárhagstöðu frá heimamönnum sem var komin á flot og á milli tannana á mönnum í sveitarfélaginu. Ekki í fyrsta skiptið en ég farin að sjóast!

Þegar til kom að ég fengi endurhæfingalífeyri frá TR, "gleymdi" umboðsmaður TR í sveitarfélaginu, að greiða hann út þar til að deildarstjóri í Reykjavík, gekk í málið. Það sama gilti um ekknabætur sem ég átti rétt á. Umboðsmaðurinn "gleymdi" einnig að greiða þær út. Ég átti rétt á lægri lyfjakostnaði o.fl. en það "gleymdist" að senda mér það skírtreini, mér barst það í pósti stuttu áður en það rann út. Þegar ég bað um að fá send gögn frá TR, sendi umboðsmaðurinn í minni heimabyggð það í galopnu umslagi, allir gátu lesið innihaldið sem það vildu. Það hafa ugglaust einhverjir gert. Skyldu þetta allt vera tilviljanir og "gleymsku" að kenna? Í öllu falli á umræddur starfsmaður þá við minniserfiðleika að stríða sem hamlar honum í störfum sínum.Whistling

Það er alltaf spurning hvenær maður lætur skynsemina ráða för en ekki þrjóskuna. Ég þrjóskaðist lengi við enda vildi ég hvergi annars staðar búa en í minni heimabyggð. Menn gerðu mér það ókleift með öllu og er sagan sú efni í heila bók.  Ég þarf, líkt og allir aðrir, að stunda vinnu til að hafa ofan í mig og á, svo ekki sé minnst á allan skuldahalann sem óhjákvæmlega safnaðist upp. Mér er það ekkert feimnismál að ræða hann opinskátt, á meðan fólk á ekki þess digrari sjóði, safnar það skuldum þegar það verður fyrir tekjuskerðingu.  Það þarf ekki reiknishaus til að komast að þeirri niðurstöðu. Ég hef, líkt og aðrir í sömu stöðu, skriðið með veggjum, gjörsamlega niðurbrotin yfir stöðunni, ekki síst þegar um ábyrgðarmenn er að ræða. Ég gat ekkert gert í málum fyrr en ég varð vinnufær á ný. Svo eru menn að hneykslast yfir því að ég skuli vinna mikið. Hvað annað er hægt, segi ég nú? Það tekur hins vegar tíma að vinna sig út úr slíkri stöðu og það virðast sumir alls ekki getað skilið.W00t

Nú halda menn ekki vatni yfir því að ég skuli vera farin og enn og aftur er mér kennt um fráfall eiginmanns míns.  Enn og aftur er ráðist á æru mína í því skyni að troða hana niður í svaðið. Ég get ekki annað en haft samúð með slíku fólki. Þeir sem koma slíku af stað eru að keppast við að sópa yfir eigin slóð og bæla samvisku sína niður. Enda hafa þeir margt á samviskunni, það vantar ekki upp á þar. Þeir sem taka undir slíka fólsku, hlýtur að leiðast mjög og vanta krydd í tilveruna. 

Ekki veit ég hvort ég standi undir þeim vafasama titli að vera kyngimögnuð kona og vera fær um nánast allt. Ég stend þó enn upprétt, hef vissulega oft bognað en aldrei brotnað. Ég ætla mér ekki að gera það. Eitt veit ég þó með vissu að sannleikurinn kemur alltaf í ljós þó það kunni að taka tíma. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það sé einmitt það sem sumir menn óttast þessa dagana og þurfa því að skapa moldviðri til að draga athyglina frá staðreyndum. Sick

Það er kannski ekki alsæmt að vera aðalumræðuefnið í minni fyrrum heimabyggð.  Fremur drungalegur tími núna og lítið við að vera, menn verða að hafa eitthvað fyrir stafni og ekki amalegt að ég leggi þeim lið, svona ómeðvitað. Í öllu falli bítur þessi óskemmtilega umræða mig ekki, ég sef alveg róleg yfir henni. Menn eru eitthvað órólegir það er greinilegt. Ég get ekki sagt að mér leiðist það mikið. Sögurnar kyngimagnaðar. Ég virðist alla vega ekki gleymd, ennþáSmile


Til hvers að blogga?

Ég hef stundum verið að velta fyrir mér af hverju ég blogga. Ég byrjaði eins og margur í minni stöðu, í veikindaferlinu.  Þetta var ágæt leið til að skrifa mig frá ýmsum hugsunum og reynslu, miðla upplýsingum til vina og vandamanna. Mér finnst þetta einnig  góð leið til að tjá mig um tilfinningar, skoðanir á hinum ýmsu málum, ekki síst pólitískum skoðunum og áherslum. Kosturinn við þetta form að hér er ég við ritvöllinn á eigin ábyrgð og þarf ekki að bera mín skrif undir neinn. Engum ber heldur skylda til að lesa skrif mín, það er öllum frjálst val.Smile

Mér hefur svo sem verið kunnugt um að skrif mín og skoðanir hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum í gegnum tíðina og það hefur komið fyrir að ég hafi verið of harðorð, líkt og margur. En ég hef líka verið fær um að standa við mín  skrif of ábyrgjast þau sjálf. Oftar en ekki hef ég verið gagnrýnin á stjórnsýsluna í minni, fyrrum heimbyggð en hef ávallt byggt þá gagnrýni á rökum. Við búum jú,við lýðræði, eigum alla vega að gera það sem þýðir að við höfum skoðanafrelsi. Þegar stjórnsýslan er margítrekað brotin, ber okkur að gera athugasemdir við það eða hvað?W00t

Eitthvað hefur sú gagnrýni mín farið fyrir brjóstið á þeim sem verða fyrir henni og uppi verður fótur og fit. Í stað þess að svara gagnrýni minni beint sem öllum er frjálst hér á síðunni, er rokið upp til handa og fóta, beint inn í eldhús nágrannans, í fjósið, krónna, eða einfaldlega á biðstofuna til að espa menn upp og fjargviðrast yfir gagnrýninni. Slík viðbrögð minna mig á gömlu Gróurnar á Leiti sem settu undir sig pilsið og svuntuna og hlupu á milli bæja með nýjustu sögurnar. Enginn vildi þekkja þessar Gróur en allir hlustuðu á þær og buðu þeim inn í bæ. Enginn kannaðist síðan við að hafa talað við þær, allir skömmuðust sín fyrir þær.Sick

Nútíma Gróurnar bera sig reyndar öðru vísi að. Nú má ekki kenna sögurnar við þær sem persónur. Aðrir eru fengnir til að lána nöfn sín til breiða út boðskapinn og alltaf er nóg til af þeim sem eru tilbúnir að vinna sig upp í áliti hjá þeim sem "meira mega sín". Verst er að þeir sem slíkt gera, vinna sig ekkert upp í áliti, þeir eru notaðir á meðan þörf er fyrir þá, síðan er þeim hent. Engin virðing borin fyrir öllu amstrinu sem þeir hafa lagt á sig né fyrir trúboðstarfinu.  Þeir mega missa sín og nægir eru tilbúnir að koma í staðinn í sama tilgangi.

Það er einkennilegt hvað menn eru leiknir í að fá mannskap til liðs við sig í þessum tilgangi. Sjálfir koma þeir náttúrlega "ekki nálægt" neinu, eru saklausari en allt blátt og koma aldrei fram undir nafni. Eitthvað virðist ég koma við kauninn á þeim blessuðum, mikið er í lagt fyrir lítið heyrist mér. Og menn kokgleypa öngulinn, enn og aftur, blessaðir. Hringrásin hefst og múgæsingin færist í aukana. En menn gæta sín að tala ekki upphátt, þeir láta Gróurnar um það, ekki satt?Halo

Ég er svo sem býsna undrandi þessa dagana, sé ekki að tilteknum einstaklingum standi ógn af mér lengur. Þeim tókst ætlunarverk sitt, ég er farin, a.m.k í bili. Þeir orðnir alvaldir í sveitarfélaginu, gæta sín að birta ekki of mikið í fundargerðum sínum, birtist þær á annað borð þannig að umkvörtunrefnum fer fækkandi þó stjórnsýslubrotin grasseri aldrei sem fyrr. Kannski menn séu sannleikanum sárreiðastir eða hvað? Ótrúlegt hvað ég virðist fara fyrir brjóstið á sumum ennþá. Whistling

Í öllu falli er það nú svo að þessi bloggsíða er á mína ábyrgð og hér hef ég hugsað mér að blogga um það sem mér liggur á hjarta hverju sinni, súrt og sætt, hæðir og lægðir. Mér myndi ekki leiðast það að fá comment en því miður er það staðreynd að þeir sem láta hæst, koma ekki fram undir nafni.  Eru þess duglegri að þyrla upp moldviðri, fara með veggjum, koma af stað illindum, ala á tortryggni og splundra vináttusamböndum.  Stundum tekst það, stundum ekki.

 Ég hef ekki náð það miklum "þroska" í andlegum og trúalegum skilningi þannig að ég hef ekki fyrirgefið mínum böðlum. Til þess að slíkt geti gerst þarf heiðarlegt uppgjör að fara fram, þannig er það einfaldlega og þannig verður það. Það ferli er hafið og tekur tíma.

Enginn er fullkominn, ég ekki heldur og tilbúin að viðurkenna það. Margt hefði ég viljað gera öðru vísi í gegnum tíðina en ég get ekki breytt fortíðinni, einungis haft áhrif á núið og framtíðina. Gera betur á morgun en í gær og reyna að bæta fyrir það sem betur mátti fara í liðinni tíð. Þess ber að geta að maður ræður ekki alltaf við aðstæður, oft koma þar aðrir inn í sem ráða för.

Hvað sem þessum vangaveltum líður, þá er Katan að fara í próf á morgun kl.20.00 annað kvöld. Veit að henni á eftir að ganga vel, hún var arfahress í kvöld og ég ekki hlegið lengi svona dátt með henni.Heart

 

images

 


Heimþrá

Orðin algjör morgunhæna, risin úr rekkju kl.05.30! Fannst það heldur snemmt og skreið aftur upp í, þurfti ekki framúr fyrr en 07.30. Gerði heiðarlegar tilraunir til að stilla klukkuna sem hringdi látlaust, sama hvað ég reyndi að koma henni á rétt ról. 'Eg slökkti því einfaldlega á henni en ákvað að halda á henni svona rétt á meðan ég leggði mig aftur. Allt gert til að blekkja sjálfan sig og friða samviskuna.Whistling

Það þarf ekki að spyrja um framhaldið, rétt náði í vinnu áður en bjallan hringdi og það var stigið á pinnan á leiðinni. Fannst reyndar stórmerkilegt að ég vaknaði skellihlæjandi. Hef ekki hugmynd hvað mig dreymdi, það hlýtur alla vega að haf verið fyndið. Ég hef ekki hlegið lengi jafn dátt. Er enn steinhissa á þessu atviki.

Haffi náði að brillera í sínu prófi í dag, var efstur ásamt félaga sínum í bekknum. EKkert smá ánægður með árangurinn. Öll vinnan farin að skila sér. Kötunni gengur líka vel en ég hef miklar áhyggjur af henni. Hún er þreytt, eiginlega örmagna og komin með upp í kok á námi. Tíminn verður að leiða í ljós hvað hún gerir. Sjálf þekki ég þessa tilfinningu og ég tók hlé á sínum tíma. Það var þrautin þyngri að byrja aftur og tók á en það hefst allt, ef maður ætlar sér. Þessi líðan Kötunnar er ósköp eðlileg, nýtt umhverfi, menningasjokk, gríðaleg samkeppni og ekki laust við illkvittni hjá nokkrum samferðarmönnum hennar. Það tekur tíma að aðlagast nýju umhverfi og breyttum aðstæðum.

Síðustu 12 mánuðir ár hafa verið krökkunum gríðalega erfiðir, veikindin mín, andlát Guðjóns, lyfjameðferðin og síðan að "skilja mig eftir" hér á Fróni.  Mikið mæddi á Kötunni sem var hér heima og þurfti að sinna mér en ekki síður á Haffa sem þurfti að sætta sig við að vera víðs fjarri.  Þettar hefur ekkert verið neitt eðlilegt ástand. Haffinn orðinn "sjóaðri" og kominn yfir tilvistarkrísuna úti en alltaf vofir yfir óttinn um að krabbameinið taki sig upp aftur og erfitt að vera ekki á staðnum til að "fylgjast með" sjálfur hvort mamman sé að veikjast á ný.

Heimþrá og söknuður eftir dýrunum eru einnig að hrjá Kötuna, hún er blátt áfram háð því að umgangast dýr enda komin með flækingshund upp á sína arma í Debrecen. Farin að fóðra hann á íslensku lambalærisbeini, samlokum og ég veit ekki hvað og hvað.Halo

Lífið er töff og kröfurnar miklar. Stundum það miklar að manni finnst maður vera að sligast undan álaginu. Það eina sem heldur manni gangandi er framtíðarsýnin og markmiðin, á meðan maður missir ekki sjónar á þeim, er hægt að sigrast á ýmsum erfiðleikum. Erfiðleikarnir eru til að sigrast á og læra af þeim. Uppgjöf er ekki endilega rétta lausnin, það verður maður að hafa í huga. Hvar væri ég ef ég hefði gefist upp fyrir 4 árum og aftur og aftur síðan? Einhvern veginn fær maður styrk til að halda áfram, stundum getur maður ekki útskýrt hvernig.

Ég verð að passa mig að stjórna þessum ungum mínum ekki um of, þau eru orðin fullorðin og mitt hlutverk að vera leiðbeinandi og styðjandi þegar þau leita til mín. Ég er einungis með börnin mín að láni en fyrir þau lifi ég í dag. Því fer ég í kremju þegar þeim líður illa. Pinch Það vill svo til að krakkarnir eru báðir einstaklega sterkir einstaklingar og munu ná að klífa sín fjöll.

Baráttu- og saknaðarkveðjur út til Debrecen, það styttist í jólafrí hjá mér og ég stefni út til að elda jólasteikina.InLove

orange rose

 


Duglegri en ekki nóg

Búin að koma ýmsu í verk þessa helgina sem hefur beðið á verkefnalistanum. Það er að saxast á hann smátt og smátt. Kannski ég nái að núlla hann, hver veitBlush

Systursonur minn, sem ég vil nú kalla svona hálfgerðan fósturson minn" og frú hans buðu mér í lambalæri a la Seljaland í gærkvöldi með öllu tilheyrandi. Þvlíkir listakokkar þar á ferð, ég tók svo vel matar míns að ég náði ekki að smakka á ostum í desert. Þá er bleik brugðið því ég stenst aldrei osta. Bý reyndar við þá fötlun að geta ekki drukkið rauðvín með þeim, verð fárveik af því "on the spot"! 'Eg gæfi mikið fyrir lausn á þeirri fötlun!  Var eiginlega óvíg eftir öll herlegheitin í gærkvöldi en mjatlaði aðeins í tölvu- og verkefnavinnunni. Hitti Sigrúnu sys og hennar vin, frábær kvöldstund með þeim öllum og litlu skæruliðunum hjá frænda.

Að sjálfsögðu svaf ég fram eftir degi í gær en hálfhneykslaði sjálfan mig með því að vakna snemma í morgun. Vissi ekki hvað á mig stóð veðrið eiginlega. Ekki fannst mér ástæða til að leggja mig aftur og þá er mikið sagt. Ekki fór mikið fyrir svefninum síðustu nótt. Nágrannarnir voru með músíkina stillta á hæsta til kl.06 í morgun og skipti engu máli í hvaða horn ég skreið, alltaf heyrðist jafn mikið í tónlistinni.  Þessi hjón stunda þetta x2-3 á ári og stundum á virkum degi. Ég prísaði mig sæla að nú skyldi vera helgi og ekki ræs í býtið. Bjöggi Halldórs og Vilhjálmur Vilhjálms skiptust á að reyna að syngja mig í svefn, með litlum árangri. Þetta var farið að minna mig á breimandi kattarvæl undir morgun. Þetta sleppur maður við í sveitinni!

Ég dreif mig því í tiltektir og að taka til gögn sem hafa beðið ALLT OF LENGI" eftir endurskoðanda. Hef reyndar ekkert náð í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þannig að ég tók sjénsinn og skutlaði gögnunum í pósthólfið hans. Vona að hann taki málið að sér, ef ekki þá heyrist mér vinur Siggu sys vera með einhvern endurskoðanda á takteininum. Þetta er eitthvað sem er búið að bíða allt, allt of lengi og allt komið í tómt tjón enda ekki hlaupið að því að finna öll nauðsynleg gögn. Sum þeirra eru hreinlega ekki til. Það var því ekki seinna vænna en að hrökkva eða stökkva. Vona að ég sé ekki sokkin upp að hálsi í því kviksyndi. Einhvern tíman hlýtur kerfið að geta skilið erfiðar aðstæður fólks og veikindi, eða hvað? Í öllu falli var léttirinn það mikill að ég rauk til og splæsti á mig stórum hamborgara í verðlaun!

Ætlaði heldur betur að heimsækja bróður sem ég frétti að væri kominn inn á LSH aftur vegna fylgikvilla, búin að skvera mig upp og sparstla í hrukkurnar og setja á mig andlit. Hringdi nú á undan mér í þetta skiptið en minn maður farinn heim, var mér tjáð sem er auðvitað frábært ef hann er orðinn nógu hress.  Þeir eru ekki að halda í sína skjólstæðinga á þessari stofnun, fremur hitt að þeim sé hent út löngu áður en það er tímabært. A.m.k. er það mín reynsla, því miður. En ég verð bara að kíkja á vininn heima þegar hann treystir sér til, sá hörkunagli.  Við mættum fleiri vera líkari honum.Whistling

Ég lét því lítið fyrir mér fara þennan daginn, afkastaði þó nokkur engu að síður. Aðvitað var ég búin á því seinni partinn og steinsofnað, í fína dressinu. Krumpur má þó laga, meira að segja á kinninni. Er tiltölulega nýkomin á stjá og eiginlega tilbúin að skríða upp í aftur. Finn fyrir bjév... beinverkjum, sleni og kvefi, enn aðra ferðina. Nú ætla ég ekki að láta í minni pokann fyrir einhverri pest, búin að fá nóg af þeim í haust. Þvílíkur bómullarhnoðri sem maður er orðinn, fuss og svei! Ég leyfi mér að mótmæla........ og bóka það hér með. Hef ekki fundið "rétta momentið" fyrir flensusprautuna en hún skal í mig fyrir næstu helgi. Verð að vera í fríi eftir hana, fæ alltaf aukaverkanir og slappleika.

Þungu fargi er af mér létt eftir stóra skrefið í dag, er auk þess búin að taka ákveðna ákvörðun er lýtur að öðrum málum. Hef látið fara illa með mig, ef svo má að orði komast. 'Eg sem hef alla tíð verið með samninga og stéttarvitundina á hreinu, létt gabba mig.  Það er greinilega ekki fýsilegur kostur að vera fyrrum sjúklingur á vinnumarkaðinum. Á ég þá ekki við um mína kennslu. Hefði ekki trúað þeirri staðreynd að óreyndu, hef verið ríkisstarfsmaður meira og minna síðan 1974! Það var kannski fínt að fá eitthvað til að rífa mig upp úr þeim doða sem hefur einkennt mig að undanförnu. Í öllu falli er ég vel komin upp á afturfæturnar og ákveðin í að láta ekki bjóða mér allt. Shocking

Annars finn ég það vel að um leið og krökkunum líður vel, lyftist sálartetrið mitt upp. Þau eru á fullu í próflestri og eru að standa sig glymrandi vel. Katan bauð "dauðanum" birginn með því að bregða sér í gervi hans á hrekkjavökunni í Debrecen. Hún er eiginlega hálfóhugguleg, verð ég að viðurkenna. Henni tókst alla vega ná sínu markmiði í þeim efnum. Ég vona að hún fari að skipta út myndunum á heimasíðunni, mér bregður alltaf jafn mikið, svo gott er gervið. (hroll, hroll...)

 

Nú er það heitt hunang og trefill um hálsinn, ég ætla ekki að gefa eftir í þetta sinnið. Kannksi ég fari að gleypa C-vítamín, nógu dugleg er ég að ráðleggja öðrum þaðWhistling

 

 

 

 

 

 

 

 


Illt í hjartanu

 

Úff, mér er þungt í brjósti, Gillí á erfitt núna og ótrúlega erfitt að geta ekkert lagt af mörkum nema senda henni og fjölskyldu hennar hlýja strauma, kertaljós og bænir. Það mun ég einnig gera. Ég segi eins og litlu börnin; mér er illt í hjartanu mínu. Orð eru eitthvað svo léttvæg núna.

image002


Angurvær tími

Svolítið angurvær þessa dagana. Afmælisdagur foreldra minna beggja í dag. Virðist seint ætla að komast yfir það að missa þau bæði þó liðin séu meira en 7 ár. Bæði létust árið 2000, úr lungnakrabbameini, móðir mín í janúar og pabbi í ágúst. Náðu einungis 69 og 70 ára aldri sem mér finnst enginn aldur í dag. Eins og búast má við, streyma minningarnar alltaf á tilteknum tímamótum og söknuðurinn blossar upp. Ýfir einnig upp önnur sár og áföll.

Foreldrar mínir voru sterkir persónuleikar þó ólík væru og ávallt til staðar fyrir okkur. Skipti aldur okkar þar engu máli. Ég er nokkuð viss um að ég hefði komist betur út úr minni reynslu síðustu árin, hefði þeirra notið við. Bæði lífsreynd, með fæturnar niðri á jörðinni og sterkar skoðanir á málum. Ég veit að ég ýki ekki þegar ég segi það blákalt; ég var háð þeim.

Auðvitað heldur lífið áfram og hugsanir manns eru ekki daglega litaðar af sorg og söknuði en þessar tilfinningar blossa alltaf upp, af og til. Til eru þeir sem kalla slíka angurværð sjálfsmeðaumkvun og eigingirni og vísbending um að maður vilji halda í sársaukan en ég er á þeirri skoðun að slíkar tilfinningar séu eðlilegar og dúki einmitt upp við ákveðin tilefni og tímamót. Ég gef hins vegar lítið fyrir þær yfirlýsingar þess efnis að öll sár grói með tímanum. Þau gera það nefnilega alls ekki, maður lærir hins vegar að lifa með þeim. Stundum finnur maður meira til en venjulega. Er þetta ekki það sem lífið snýst um, að heilsast og kveðjast, gleðjast og finna til?

Ég leyfi mér hiklaust að skríða inn í mína skel á kvöldi sem þessu, kveikja á ótal kertum og leyfa minningunum að streyma og veit að ég er ekki ein um það.

 Móðir mín elskaði gular rósir, ekki viðrar vel í garðinum í dag þannig að hún fær eina senda í "huganum"

yellow rose
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Tími kertaljósanna er kominn hjá mér, verð með logandi kerti öll kvöld fram á vorið. Þannig líður mér best. Ekkert lítið notalegt þar til kemur að því að þrífa sótið þegar daginn fer að lengja. Mér finnst það alveg þess virði.

Bið alla um að koma við á kertasíðu Gillíar, hún og fjölskylda hennar eiga erfitt þessa dagana.  Slóðin er :

http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Gill%C3%AD

 


Tími kertanna

 

Sendi Gillí og Þórdísi Tinnu hlýjar kveðjur og strauma, hugur minn hjá þeim í kvöld. Ótrúlegar konur, báðar tvær.  Kertaljós allt um kring á mínum bæ.

Baráttu- og saknaðarkveðjur til beggja


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband