27.11.2007 | 23:40
,, Bimmi limm
Þar kom að því að ég yrði ,,bimma limm". Er greinilega komin út á ystu nöf þessa dagana. Skildi ekkert í því af hverju ég var að láta vekjaraklukkuna fara í gang fyrir allar aldir í morgun og það kl. 06.30! Ég þurfti ekki að vakna alveg svo snemma þennan morgunin. Það var nóg að vakna 7.30 í dag. Margreyndi að sussa niður í henni og taldi mig hafa slökkt á henni a.m.k. þrisvar en nei, nei hún hélt áfram. Auðvitað gafst ég upp um síðir og skreið fram, sótti blöðin og hóf lesturinn. Nánast malaði af ánægju yfir því að nú væri ekkert stress, ég gæti lesið blöðin spjaldanna á milli en ekki einungis flett þeim á hundavaði. Ég er nefnilega klukkutíma að komast í gang á morgnana og að verkjastilla mig eftir nóttina. En nú lá ekkert á, mæting kl. 9.45, nóg að leggja af stað um k. 8.30 og ég hélt áfram að mala bókstsflegri merkingu. Réði meira að segja krossgáturnar í blöðunum.
Þvílík stund, notalegheit og alles. Batt tíkurnar út og hugsaði með mér að það margborgaði sig að vera aðeins fyrr að ferðinni á morgnana, þá gæti ég virkilega notið mín í botn áður en ég keyrði af stað. Nema hvað að þessi stund leið eins og hver önnur og kominn tími til að ferðbúast. Sá að ég þurfti að skafa rúður og hálka úti þannig að ég vildi vera snemma á ferðinni enda ekki komin á nagladekkin. Var að bardúsa með hausinn á mér rétt fyrir hálf níu þegar staðreyndum laust niður í huga mér; ég er orðin bimma limm, átti að vera mætt í kennslu nákvæmlega klukkan 8.30! Ég held ég hafi sjaldan ,,panicað" eins mikið eins og á þessari stundu, stökk í síman móð og másandi og stundi upp vandræðum mínum við skrifstofuna. Hvað átti ég að gera? Láta nemendur bíða? Senda þá heim? Næst síðasti kennslutíminn á önninni, úff hvað átti ég að gera???
Svarið var auðvitað einfalt! Lágmark 40 mín að keyra og nú hálka. Ég myndi aldrei ná upp á Skaga fyrr en í lok tímans. Ég varð að játa mig sigraða yfir eigin aumingjaskap og gat ekkert gert. Það lá við að ég færi að háorga á staðnum, þvílíkt klúður, þvílíkur bömmer! Ekki veit ég hvað hún hugsaði á skrifstofunni en ég var augljóslega að tapa mér þarna í símanum.
Hugsanirnar hafa þotið í gegnum kollinn á mér í allan dag. Nú er nóg komið, einhvers staðar verð ég að stoppa! Ef þetta eru ekki skýr skilaboð, þá veit ég ekki hvað! Dagurinn náttúrlega ónýtur þannig lagað séð, ég í engu fantaformi til að takast á við verkefni dagsins. Nærtækast var einfaldlega að skríða upp í sófa og sleikja sárin og það gerði ég. Fór létt með það enda ekki alveg komin á fullan gír aftur
Náði mér eiginlega ekki á strik það sem eftir lifði dags, lufsaðist í gegnum verkefni dagsins, helmingi lengur en vant er. Það hafðist að klára það helsta, ekki það en vá hvað þetta gekk hægt. Ákvað að hætta í fyrra fallinu þó ýmislegt stæði út af borðum, búin að stilla allar klukkur í húsinu fyrir morgundaginn. Verst að geta ekki sett prógramm í Lafði Diönu og látið hana gelta á ,,réttum" tíma í stað þess að boffsa allar nætur og í raun allan sólahringinn. Hin þegir að mestu þannig að ekkert er á hana stólandi.
Svona uppákomur flokkast auðvitað undir mannleg mistök en það er erfitt að leiðrétta þau þegar vinnustaðurinn er eins langt í burtu og raun ber vitni. Ég stekk ekki í úlpu og skó og hleyp yfir götuna. Ferðalagið er drjúgt, þannig lagað séð.
Í öllu falli eru skilaboð dagsins þau að nú verð ég að taka mig á og taka til í eigin ranni. Fækka verkefnum með einhverju móti, fórna sumum, fresta öðrum, framlengja enn öðrum. Annað er ekki hægt í stöðunni. Mig skal svo sem ekki undra þó maginn sé í tómu tjóni með tilheyrandi óþægindum. Ég bý hluta vandans til sjálf þó við sumt sé ekki ráðið. Að öllu óbreyttu er hætt við að ég mæti í vinnu á sunnudagsmorgun o.s.frv. en ég er sem betur fer blessunarlega laus við helgarvinnu núna.
Það verður sneypuleg kona sem mætir í fyrrmálið og skríður með veggjum með svartan hausapoka. Þvílíkur dagur. Ég er ekki lítið fegin að vita til þess að hann kemur aldrei aftur. Boskapur hans situr hins vegar eftir. Er þá tilganginum þá ekki náð?
Bloggar | Breytt 29.11.2007 kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2007 | 23:17
Daglegt líf
Það má með sanni segja að ég sé algjör ,,félagsskítur" eins og einhverjum varð á orði um daginn og hef verið síðustu mánuði. Fer aldrei neitt að vinnu lokinni, sit við tölvuna þegar heim er komið og keppist við klukkuna enda markmiðið að vera búin í minni vinnu fyrir miðnætti. Það vill nefnilega svo til að þegar heim er komið úr ,,hefðbundinni" vinnu tekur aðalvinnan við, þ.e. fjarkennslan. Hefðbundinn virkur dagur hjá mér felur í sér rúmlega 200 km. akstur auk vinnu. Allir dagar eins hvað snertir vinnuálag , helgarnar ekki undanskildar. Ofan á þetta prógram bætist eigið nám sem fær náttúrlega ekki mikið vægi svo ekki sé minnst á hundauppeldi, þrif og heimilishald. Stundum þarf að fara í búð og þá seinkar dagskránni hjá mér.
Þegar færi gefst síðla kvölds, heyri ég í krökkunum, við tölum reyndar mikið saman, þökk sé Frelsi og Skype. Þegar föstum liðum er lokið, sest ég niður við bloggið og pikka inn þær hugrenninga sem leita á mig þá stundina. Fæ ákveðna útrás við það, finnst stundum gott að skrifa mig frá hlutum auk þess sem ég ..á" þetta svæði til að koma skoðunum mínum á framfæri. Yfirleitt er klukkan farin að nálgast miðnættið þegar að blogginu kemur.
Þetta daglega líf er etv. ekki endilega eins og ég hefði kosið. Ég vanræki vini og vandamenn enda númer eitt, tvö og þrjú að klára sína pligt. Ef ég geri það ekki, hvað þá? Ég hef tekið að mér verkefni og þau verð ég að standa við. Of mikið af verkefnum, það veit ég en þegar upp er staðið, veitir mér ekkert af þeim. Það vill nefnilega svo til að ég hef verið skuldum vafin eftir fráfall maka og veikindin mín. Ég hef ekki legið á því að mér hafa ekki verið sýndar neinar tilslakanir, skilningur eða frestur hjá skuldunautum, hvort heldur sem það er viðskiptabankinn, skatturinn eða annað. Í ruan hafa sumir aðilar gert mér lífið eins erfitt og hægt er að hugsa sér. Það kemur mér ekkert á óvart, það hef ég marg sagt. Vaxta- og innheimtukostnaður í sumum tilfellum hærri en skuldin sjálf. Ég hef og verð að standa ein í þessum málum sem eina fyrirvinnan og þannig er það einfaldlega. Mér óar ekkert við vinnunni, hefði viljað vera frískari og með meira úthald en það bæði tekur á og tíma að vinna sig út úr skuldasúpunni. Ég er ein þeirra lánsömu að fá tækifæri til þess og við það er ég sátt. Það er meira en margur í mínum sporum.
Á meðan málin standa svona, snýst mitt líf um vinnu og aftur vinnu. Það er einfaldlega ekki mikill tími aflögu til félagslífs. Sá naumi tími sem er afgangs fer í krakkana, hundana og stundum í sjálfan mig. Það er lúxus að komast í gönguferð. Ég get ekki sagt að ég eyði tíma fyrir framan imbakassan, slík meðferð á tíma er mér einfaldlega of dýrkeypt.
Ég er því ekki á kaffihúsum, á fartinni í heimahús og það sem meira er; ég eyði litlum tíma í símanum sem er nýlunda. Hef nefnilega alltaf verið dugleg að hafa samband við aðra, mun meira en aðrir við mig en nú er tíminn af skornum skammti. Sá naumi tími sem er afgangs, fer gjarnan í að ,,leggja sig", meira en ég kýs sjálf en það er eins og líkaminn segir til sjálfur og stjórni þar för. Stundum orka ég ekki merira og þá er ekkert annað að gera en að leggjast með tærnar upp, hvernig sem mér líkar það svo.
Að undanförnu hef ég fengið að finna fyrir álagstollunum eins og hefur komið fram. Afleiðingarnar eru þær að mér sækist öll vinna hægar, þarf að leggja mig í tíma og ótíma til að hlaða batteríin. Það kemur mér ekkert á óvart. Hef fundið fyrir þreytu og verkjum frá því ég byrjaði að vinna, stundum meira en venjulega. Ekkert sem kemur á óvart en hélt kannski að ég myndi ná að byggja upp þol og þrek smátt og smátt. Hef líka gert það að einhverju marki en ekki nóg enda ekki verið skynsöm. Síðustu vikur hafa verið slæmar og við því mátti búast þegar keyrt er fram úr því afli sem maður hefur. Það er minna mál að láta sig hafa slíka álagstolla þegar maður veit að engin alvara er á ferð þó þeir setji vissulega strik í reiknginn.
Ég sé ekki fram á miklar breytingar á mínu álagi á næstunni. Ég ætla mér að koma málum í eðlilegan farveg. Hef staðið ein í þeirri baráttu og mun gera það áfram á meðan ég stend í fæturnar. Ég hef ekki viljað heyra það nefnt að krakkarnir taki sér hlé frá námi á meðan ég er vinnufær og mun ekki taka undir slíkar tillögur. Á meðan svo er, verð ég einfaldlega að vera áfram leiðinleg, ,,félagsskítur", ,,einræn og sérsinna" eins og einhverjum varð á orði. Það verður að hafa það, ég er að berjast fyrir eigin lífi og lífsskilyrðum þannig að þá verður einfaldlega svo að vera. Ekki það að ég get ekki varist þeirri hugsun að sumir hafa það gott og þekkja ekki erfiðleika né það hvað það er að þurfa að stunda vinnu á mörgum stöðum. Ein fyrirvinna hefur eðlilega meira fyrir hlutunum en tvær og tekjur ríkisstarfsmanna eru ekki til að hrópa húrra fyrir. Ekki duga mér einföld dagvinnulaun í þeirri stöðu sem ég hef verið þetta árið.
Hitt er svo annað mál að ég þarf að forgangsraða tíma mínum betur, ég er ekki eilíf frekar en aðrir en það er óraunhæft að ætla sér miklar breytingar fyrr en málin eru komin í eðlilegan farveg. En ég get varið tímanum mínum betur með því að fórna einhverju af því sem ég er að gera núna. Það er eitthvað sem ég mun skoða. Ekki skortir á sektarkenndina yfir því að sinna ekki sínum nóg. Fæstir vita, eðlilega ekki, hvað ég þarf að kljást við daglega og hversu mikið ég þarf að hafa fyrir hlutunum. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir sem hafa lent í svipaðri stöðu, úthaldsminni, skuldugri og blankari. 'Eg skal, get og vil sigra þá erfiðleika, a.m.k. á meðan ég hef heilsu til.
Skilningur á stöðu sem þessari er hins vegar af skornum skammti víðast hvar. Mér gengur einna helst verst með að sætta mig við það og alltaf jafnundrandi á því. Það að stunda nám með mikilli vinnu kallar á gríðalegan fórnarkostnað. Ég ætla rétt að vona að námið skili tilætluðum árangri einhvern timan þó það geri það ekki þar sem ég hefði helst viljað vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.11.2007 | 00:03
Álagstollar
Enn önnur helgin liðin og hún fór eiginlega ekki í neitt. Legið með tærnar upp í loft megnið af henni og sennilega aldrei náð að sofa jafnmikið. Fengið að kenna hressilega á ,,álagstollum" síðustu dagana með tilheyrandi verkjum og vanlíðan. Ekkert alvarlegt sem betur fer en hvimleitt og hefur tekið á. Maginn í stuttu máli í rugli, trúlega gallvesen í ofanálag og síðan eitt og annað eins og sýking til að krydda þetta svolítið. Enda aldrei nein lognmolla hjá mér og alltaf þörf á því að poppa hlutina upp.
Hafði reyndar hugsað mér að eyða helginni í skemmtilegra afþreyingu en hægt er að stunda með tærnar upp í loft. Átti von á góðri heimsókn sem fór náttúrlega út um þúfur og svo ætlaði ég að fara í heljarinnar ,,vísitatiu" sem var löngu orðin tímabær. Er hætt að plana, enn og aftur! Það einfaldlega þýðir ekki og hefur nákvæmlega ekkert upp á sig annað er ergelsi. Í öllu falli er ástandið að skána og allt upp á við.
Óttalega finnst mér sumt fólk geta verið grunnhyggið. Til eru þeir sem stökkva til eftir því sem sýnist í stað þess að kynna sér málin. Fljótt er það að dæma, það stendur ekki á því og það á hraða ljósins. Mér sýnist ég þurfa að taka til í nánasta umhverfi og vanda betur valið þegar kemur að viðmælendum. Það leynast víða slettrekurnar eins og systir mín orðaði það, jafnvel í nærumhverfinu. Sumir virðast telja sig þurfa að hafa vitið fyrir aðra og setja upp þann ramma sem manni ber að fylgja. Oft er auðveldara að skipuleggja fyrir aðra en eigið líf. Allir kannast við þetta þó færri ræði það opinskátt. Hitt er svo annað mál að skelfing væri tilveran litlaus ef allir væru eins þannig auvitað þarf að vera fjölbreytni í flórunni. Hver flýgur svo eins og hann er fiðraður til.
Finnst með ólíkindum að það sé að koma jól, mér finnst eiginlega svo stutt síðan síðast. Tíminn flýgur áfram á ógnarhraða og mér finnst ég fara illa með hann. Þarf að endurmeta og forgangsraða upp á nýtt. Hef ekki beint athyglinni að því sem ég vil gera, verið of upptekin í vinnu. Þessu ætla ég að breyta. Hvernig veit ég ekki en ég mér leggst eitthvað til. Helst hefði ég viljað flytja út í hlýrra loftslag en á meðan leitin af sjálfri mér stendur yfir, verð ég kyrr um stund en ekki endilega á höfuðborgarsvæðinu.
Er farin að telja niður dagana þangað til ég kemst út til krakkanna og þó það sé kalt þarna úti, er hlýrra þar en hér. Þvílíkt veðurfar sem við upplifum hér, eilíft rok eða stormur, rigning einn daginn og skítakuldi þann næsta. Risjótt veður hefur ævinlega farið svolítið í ,,pirrurnar" á mér enda mikið á ferðinni. Svei mér ef ég er ekki eins og gömlu konurnar forðum!
Hlakka til vikunnar, frábært að finna að ég er að hressast aftur og hef ákveðið að afþakka frekara pestafár og álagstolla í bili. Nóg komið að sinni og skemmtilegir tímar framundan í bland við aðra daprari. Vona að ég nái að fylgja einum góðvini mínum næstu helgi. Náði að horfa á hluta þáttarins um líknandi meðferð á Stöð 1. Allir hefðu gott af því að horfa á hann. Ótrúlega margir gera sér enga grein fyrir því sem einstaklingar með langvinna sjúkdóma eru að ganga í gegnum. Í þessum þætti er varpað ljósi á það að einhverju leyti. Góðir punktar hjá Hauki heitnum sem stóð að stofnun Ljóssins, en honum kynntist ég í minni legu á LSH. Margt væri öðruvísi ef við værum almennt betur upplýst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 23:16
,,Svo bregðast krosstré sem önnur tré"
Nú hefur Framsóknarflokkurinn staðið í sinni tilvistarkrísu um all langt skeið. Eftirhreyturnar keppast við að mæra flokkinn fyrir að vera elsti flokkur landsins, orðinn rúmlega níræður! Geri aðrir betur! En nú er einfaldlega komið að endalokum hans og hans æviskeiði að ljúka. Hef ekki trú á því að núverandi forystusauðum takist að dæla í hann "lifni við pillu", þau valda einfaldlega ekki því hlutverki að óbreyttu. Klíkumyndanirnar og ofsóknir á hendur þeim sem þora að segja sína skoðun, hafa skemmt það mikið innviði flokksins að það er ekki aftur snúið. Þú kennir ekki gömlum hundi að sitja! Ekki svo auðveldlega.
Forystumenn flokksins hafa skilið félagsmenn eftir í sárum síðustu 10 árin, engin breyting virðist ætla að verða á þeirri aðferðafræði manna þrátt fyrir nýja forystu. Ástandið virðist versna, ef eitthvað er. Það er staðreynd að sár sem rista djúpt, gróa ekki svo auðveldlega.
Reyndar hefur það verið með ólíkindum hvað við framsóknarmenn höfum látið bjóða okkur í gegnum tíðina. ,,Óþekkir" eru rasskeltir á opinberum vettvangi, útskúfaðir og hraktir á brott. Við hin boffsum og bölsótumst í hálfum hljóðum yfir útreiðinni. Erum ósátt við aðferðirnar en hversu margir hafa þorað að stíga fram og segja sínar skoðanir umbúðarlaust? Það hafi fáir gert og þeir sem hafa sýnt þann kjark hafa verið króaðir af í sérstaka ,,óþægðarstíu" og boltaðir þar niður eins og mannýgir hrútar og tarfar. Hver vill lenda í þeirri stíu?
Svo virðist sem það dugi fyrir forystuna að mala ,,hlýlega" framan í hinn almenna flokksmann á fundum og þingum, þá er allt gleymt og grafið og allir vinir í skóginum. Baráttan blásin í brjóst manna með þrumuræðu og góðlátlegum bröndurum núverandi formanns
Nú, ef það dugir ekki þá eru menn tuktaðir til í bókstaflegri merkingu. Menn verða að hlýða og ekkert múður með það. Sviptnir sínum titlum og trúnaðarstörfum. Nógu oft hef ég orðið vitni af því.
Það er svo sem ekkert fréttnæmt þó ég hafi sagt mig úr flokknum, einhverjum til mikillar gleði, trúi ég. Einhverjum skrattanum er skemmt við þá frétt.
Það er hins vegar saga til næsta bæjar þegar Anna Kristinsdóttir segir skilið við Framsóknarflokkinn, ekki síst vegna þess að framsóknarblóð rennur bókstaflega í æðum hennar. Hún hefur sinnt trúnaðarstörfum og starfað fyrir flokkinn í 27 ár og ég veit að það hefur hún gert af heilindum. Kjörkuð og segir sínar skoðanir en verið sínum flokki trú í gegnum súrt og sætt.
Þetta eru reyndnar gleðifréttir fyrir suma, bæði innn flokks og utan. Trúlega hefur hún þótt of ,,baldin" innandyra og því léttir af brottför hennar en þeir sem standa utan við flokkinn munu ugglaust leita eftir hennar starfskröftum, á því er enginn vafi. Hún kemur örugglega til með að hafa nokkurt val í þeim efnum.
Ég tel fátt koma Framsóknarflokknum til bjargar úr því sem komið er. Endurlífgunartilraunir síðustu missera, eftir viðskilnað fyrrum formanns, hafa ekki borið árangur. Hvernig má annað vera þegar sjúkdómurinn fær að krauma látlaust og ekkert gert til að uppræta hann? Þeir eru til sem eru sannir framsóknarmenn og hollir þeirri stefnu sem flokkurinn boðar. Þeir sjá hins vegar ekki til sólar og koma ekki til með að gera það í bráð, a.m.k. Mér hugnast sú stefna sem flokksstarfið byggir á en get ekki sætt mig við þá afbökun sem hefur orðið á henni. Allt vegna valdabaráttu og titlatogs manna sem setja eigin hagsmuni ofar hagsmunum flokksmanna og þjóðarinnar.
Ég kannast svo sem við slík vinnubrögð, oft á tíðum er erfitt að gera greinamun á því sem kallast ,,framsóknarmennska" og ,,Dalamennska" meðal einstakra, ,,metnaðarfullra" manna. Er hann nokkur?
Við uppskerum eins og við sáum og þegar flokkurinn vanrækir sitt fólk og þjóðina eingöngu vegna valdabaráttu og eigin hagsmuna, molnar hann innan frá, fólk missir tiltrúna og snýr sér annað, alla vega um síðir. Ótrúlegt hvað margir hafa verið þolinmóðir, en það kemur að því að menn gefast upp eins og reynslan sýnir. Fyrir 2-3 árum taldi flokkurinnum 10.000 meðlimi, hversu margir skyldu vera flokksbundnir nú?
Í öllu falli eru 90 ár langur tími og ef menn rífa eingöngu niður og byggja aldrei neitt upp á móti þá gefa ,,líffærakerfin" sig smátt og smátt. Nú duga engir skyndiplástrar, vítamín og ,,lyfjakúrar". Það eru nefnilega komnir upp fjölónæmir stofnar. Ég tilheyri þeim. Það sem meira er, framsóknarhjartað er löngu hætt að slá í þeim sem fara með völdin. Þá er fátt til ráða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.11.2007 | 23:55
Pestafár o.fl.
Þetta haust hefur einkennst af þvílíku pestafári að það hálfa væri nóg. Ég held ég sé búin að sleikja þær allar. Búin að vera með einhverja iðrakveisu með tilheyrandi uppköstum og fínt, fínt, ofan í minn ofurviðkæma maga og skeifugörn. Er búin að liggja eins og klessa, heldur að rétta úr kútnum. Eins gott, stífur dagur á morgun þar sem ekkert má klikka, svo einfalt er það. Ég ætti í öllu falli að vera búin með minn pestaskammt þetta árið. Ég ætti að fá premiu fyrir afköstin í þessum efnum.
Náði að skríða út í kvöld og fór í göngutúr með aðra tíkina, útilokað að fara með báðar í einu. Gengur hægt að venja hana við taum, hún er fullsjálfstæð og liggur mikið á. Þarf að vera miklu duglegri að fara út með tíkurnar og þar með sjálfa mig. Veðrið búið að vera með eindæmum rysjótt og leiðinlegt sem hefur virkilega dregið úr mér. Þær dragast á langinn þessar haustlægðir, svo mikið er víst.
Hef annars verið nokkuð þungt hugsi, líður alltaf illa þegar ungunum mínum líður ekki vel. Erfitt að vera vanmáttug og getað lítið hjálpað. Ekki bætir úr skák að ég hef ekki getað sinnt mínum nánustu sem skyldi, bæði út af pestum, álagi og öðrum málum. Vona bara að krakkarnir fái þann styrk sem til þarf til að vinna sig úr málum og þeim fari að líða betur.
Lífið verður svo grámyglulegt þegar þungar hugsanir leita á mann. Áfallahjálp hefði trúlega bætt verulega líðan þeirra, ekki síst Katrínar sem mikið mæddi á sl. vetur, bæði vegna veikinda minna sem og fráfall Guðjóns. Henni bauðst hún ekki fremur en okkur hinum. Hún á langt í land með að vinna sig út úr þeim málum og erfiðar hugsanir leita á hana þarna úti. Stendur sig samt eins og hetja í náminu og er ein af þeim nemendum sem er að ná besta árangrinum. Ég vona innilega að hún nái að fóta sig og sigla í gegnum þessa erfiðleika með góðra manna hjálp.
Sú reynsla sem þessi sem krakkarnir hafa þurft að fara í gegnum, hefur reynst þeim erfið, í raun ofviða. Ég hef grun um að þeim finnist dómharka annarra vera erfiðust. Við hana bætast áhyggjurnar af mér. Mikið fj....... ætla veikindi mín að taka mikinn toll af þeim, mér finnst það óþolandi tilhugsun. Það að hafa valdið krökkunum vanlíðan og erfiðleikum er erfiðasta tilfinningin sem ég hef þurft að upplifa í gegnum þessar þrengingar. Vildi að ég gæti axlað þessa vanlíðan fyrir þau enda mun sjóaðri en þau. Ég verð hins vegar að sætta mig við það að sumt get ég ekki gert fyrir þau, þó fegin vildi.
Við verðum þó að horfa á björtu hliðarnar á öllu þessu veikindastandi. Ég er alla vega hér ennþá og engin ástæða til að örvænta í þeim efnum. Fyrir það ber að þakka. Það eru ekki allir svo heppnir. Við verðum að meta það sem við höfum og staðreyndin er sú að öll reynsla þroskar mann. Ekkert annað að gera en að vinna sig út úr málum og þiggja þá hjálp sem býðst í þeim efnum eða þá að leita eftir henni. Við gefumst ekki svo auðveldlega upp þessi litla famelía þó mikið hafi gengið á enda engin ástæða til. Stundum þarf maður að harka af sér og þá gerum við það einfaldlega. Í öllu falli græðum við ekkert á því að setja tærnar upp í loft og gefast upp. Þá fyrst fer lífið að verða erfitt. Við höldum áfram að brosa framan í tilveruna. Einhvern tíman styttir upp. Vonbrigðum og mótlæti hlýtur að linna.
Bloggar | Breytt 22.11.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2007 | 00:07
Hugrenningar
Hugur minn hefur verið við sveitarstjórnarmál upp á síðkastið. Taldi reyndar víst að þess konar hugleiðingar heyrðu liðinni tíð en lengi lifir í gömlum glæðum. Etv. er það núverandi verkefnavinna sem kyndir undir glæðunum.
Mér hefur verið títt hugsað til starfa núverandi sveitarstjórnar í mínu fyrrum byggðalagi enda virðist mér frjálslega vera farið með völd og stjórnsýslureglur á þeim bænum, ekki síst meðal fulltrúa byggðarráðs.
Margir telja að sveitarstjóri og oddviti séu valdamestu einstaklingarnir í sveitarstórn en því fer víðs fjarri. Oddvitinn er í raun valdalítill, stýrir sveitarstjórnarfundum og ber ábyrgð á því að þeir fari löglega fram. A.ö.l. er hann höfuð meirihlutans og sú "fígúra" sem kemur opinberlega fram ásamt sveitarstjóra. Sveitarstjórinn er starfsmaður sveitarstjórnar, oftast trúnarðarstarsmaður meirihlutans og annast daglegan rekstur og er prókúruhafi fyrir hönd sveitarstjórans. Hann ber ábyrgð á að framkvæma pólitískar ákvarðanir sveitarstjórnar en tekur þær ekki einn og sér eins og margur kann að halda.
Völdin eru hins vegar í höndum byggðarráðs og valdamesti maður sveitarstjórnar er formaður byggðaráðs. Að öllu jöfnu skipa efstu menn framboðslistanna byggðarráðið. Hlutverk þess er að fara með framkvæmdarstjórn sveitarfélagsins, sinna fjármálastjórn hafa umsjón með stjórnsýslunni og þar með starfsmannamálum. Byggðarráðið mótar og skipuleggur allar ákvarðanir sveitarstjórnar, bæði hvað varðar forgangsröðun verkefna, fjárhagsáætlun og ráðstöfun tekna sveitarfélagsins. Auk þessa tekur það ákvarðanir um laun og kjör starsmanna sveitarfélagsins þannig að völd og ábyrgð byggðarráðs eru mikil og vandmeðfarin. Það er akkúrat þetta sem ég hef staldrað við.
Það sem ég hef horft upp á trekk í trekk í byggðarráði míns fyrrum sveitarfélags er að formaður byggðarráðs sem og aðrir byggðarráðsmenn sitja báðum megin við borðið, þ.e eru bæði kjörnir fulltrúar og þar með umboðsmenn kjósenda og um leið eru þeir starfsmenn í stofnunum sveitarfélagsins. Sem byggðarráðsmenn hafa þeir tekið ákvarðanir um þau laun og önnur kjör sem þeir þiggja sem starfsmenn, þ.e í hinu hlutverki sínu. Auk þessa eru þeir nánast alsráðandi þegar kemur að mótun stefnu og markmiða í starfsemi þeirra stofnana sem þeir starfa við. Þeir koma að þeirri vinnu bæði sem starfsmenn og sem byggðarráðs- og sveitarstjórnarmenn. Hvernig í ósköpunum getur slíkt átt sér stað á 21. öldinni þar sem flestir einstaklingar eiga að vera það upplýstir að svona lagað gerir maður ekki! Sveitarstjórn ber að vinna eftir sveitarstjórnar- og stjórnsýsluögum og þar er m.a. kveðið á um vanhæfi manna.
Engar faglegar eða aðrar kröfur eru gerðar til sveitarstjórnarmanna að undanskildu því að þeir skulu vera ráðandi eigin fjárs og undir hælinn lagt hvort einhverjar faglegar kröfur eru gerðar til sveitarstjóra. Ég er ekki að halda því fram að einungis menntaðir einstaklingar í stjórnsýslufræðum eigi að veljast til setu í sveitarstjórn, þvert á móti. Hins vegar er sú krafa gerð til sveitarstjórnarmanna og hlýtur sú krafa að búa innra með hverjum þeim sem tekur að sér störf fyrir íbúa, að afla sér viðeigandi þekkingar, ekki síst á sviði stjórnsýslunnar sem öll ákvarðanataka byggir á.
Ég tel mikinn misbrest á þessum þáttum víða, a.m.k. í minni fyrri heimabyggð enda endurspeglast sá misbrestur í stjórnsýslunni. Engin virðing virðist vera borin fyrir stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlögum ef marka má fundagerðir byggðarráðs og sveitarstjórnar sem og framkvæmdir. Svo virðist sem við stjórnvölinn ríki fámennur klíkuhópur sem vinnur að sínum eigin hagsmunamálum en lítt aðhafst í því að vinna að málefnum íbúa og sveitarfélagsins. Þeir sem ekki tilheyra klíkunni geta lítt aðhafst enda klíkan með meirihluta. Þetta er grafalvarlegt mál og ég get auðveldlega misst mig í skrifum um þau.
Auðvitað þurfa menn tíma til að afla sér reynslu og þekkingar en því miður virðist lítill metnaður vera til staðar, a.m.k. hjá mörgum þeirra. Etv. hafa aðrir hreinlega gefist upp. Það hentar þeim sem stjórna ágætlega, enginn fettir fingur í störf þeirra á meðan. En ég hlýt að spyrja, hvar er eftirlitið með störfum sveitarstjórna?
Misbeiting valds er ekki ný á nálinni en er þolinmæði kjósenda slík að þeir umberi ítrekað vanhæfi og brot á stjórnsýslureglum? Hvað er það sem veldur deyfð manna? Mér er þetta svo óskiljanlegt að það hálfa væri nóg. Ég trúi því ekki að óreyndu að menn ætli að láta allt kjörtímabilið líða án þess að freista þess að þrýsta á að stjórnsýslan fari fram með réttum hætti. Völdin eru á fárra manna höndum og það sem gerir stöðuna alvarlegri eru þau völd sem þeir hinir sömu hafa í krafti annarra starfa sinna en í sveitarstjórn. Ég trúi ekki öðru en að menn fari að vakna til lífsins. Vissulega er gott þegar öll dýrin í skóginum eru vinir en standa verður vörð um vandaða stjórnsýslu og rétt skal vera rétt. Sumum virðst seint ætla að lærast það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.11.2007 | 00:35
Týpísk helgi
Enn önnur helgin að líða og ég alltaf undrandi á því hvað lítið fer fyrir athöfnum og framkvæmdum. Enn og aftur fer helgin í að hlaða batteríin og ekkert verður úr áætlunum. Þó ég vakni í býtið er "nauðsynlegt" að leggja sig aftur. Einkennilegt hvað ég virðist halda dampi þegar ég þarf að mæta til vinnu eða vinna að verkefnum, þá einhvern veginn eru einkennin minni. Kannski ég nái að "hefja mig upp" yfir verkina þegar þess þarf, ég veit ekki. Í öllu falli vakna ég alla morgna verkjuð, mismikið reyndar en mér sýnist ég verst þegar ég sef lengur. Tekur jafnframt lengri tíma að verkjastilla mig hef ég tekið eftir eða kannski er það málið að ég hef meira svigrúm til að "finna" fyrir verkjunum, ég veit ekki???
Nú liggur fyrir skýring á maga/vélinda óþægindunum, þau koma frá skeifugörninni. Kemur mér ekkert á óvart miðað við einkennin en alltaf betra að hafa "greiningu", þá verður allt raunverulegra. Ekki það að ég hafi upplifað "stress, stress" en vissi af álaginu og það hlaut að koma að því að eitthvað gæfi sig. Sem betur fer ekkert alvarlegt en vont. Ég vil reyndar meina að skýringuna á þessu magavesini megi finna í þeirri staðreynd að Vífilfell er hætt að framleiða TAB! Hef alla tíð verið mikill gikkur hvað snertir drykkjarvörur, verið háð TABI frá því ég var unglingur, finnst vatn, safar, te, sítrus drykkir o.m.fl. einfaldlega vondir. Kaffi drekk ég orðið aðeins endrum og eins og fæ auðvitað brjóstsviða af því. Hef því neyðst til að snúa mér að COCE light,sem veldur magaóþægindum hjá mér. Erfitt að gera gikknum til hæfist eins og sést hér.
Hef því ekkert framkvæmt af því sem ég ætlaði þessa helgina, ekki frekar en hinar fyrri. Ce la vie! Er ákveðin í að morgundagurinn verði betri en þessi laugardagur. Það er orðin viðtekin venja að laugardagarnir eru "pain" í orðsins fyllstu merkingu. Mér finnst þeir óþolandi og ekki eru laugardagskvöldin skárri nema síður sé. Þau eru einfaldlega hundleiðinleg. Náði að sofa hluta af þessu af mér og það var eiginlega bara fínt. Er farin að átta mig á því og sætta mig við það að svona eru hlutirnir. Orðið tímarbært í stað þess að ergja sig á þessu, nóg er af öðru að taka.
Hef verið að vinna að verkefni er snýr að sveitarstjórnarmálum og stjórnsýslu að undanförnu og margt rifjast upp frá liðinni tíð. Sé alltaf betur og betur hversu víða pottur er brotinn í þeim efnum, fyrst og fremst vegna skorts á þekkingu sveitarstjórnarmanna og fagmennsku. Menn virðast ekki hafa þann metnað að afla sér þekkingar og haga því hlutunum eins og þeim finnst "rétt" hverju sinni eða hentar þeirra hagsmunum. Stjórnsýslulögin virt að vettugi.
Eftirlitið með störfum þeirra ekkert og engar forsendur til að aðhafast nokkuð nema að íbúar leggi fram stjórnsýslukærur. Fæstir tilbúnir til þess enda mikið í húfi, menn vilja jú halda sínu. Einkennilegt hvað menn eru kaldir að axla ábyrgð án þess að hafa forsendur til þess. Margt er mannanna bölið, get ekki annað sagt. Skyldu slíkir menn átta sig á áburgðinni og þeirri staðreynd að það er hægt að sækja þá til saka fyrir brot á eða slaka stjórnsýslu??? Staðreyndin er sú að allt of margir vanhæfir einstaklinga eru kjörnir sveitarstjórnamenn enda engar hæfniskröfur gerðar til þeirra. Þetta þýðir einfaldlega það að í 4 ár geta vanhæfir, kjörnir fulltrúar vaðið uppi og tekið afdrifamiklar ákvarðanir, í krafti "lýðræðis". Úff! Í öllu falli er áhugavert að "stúdera" þessi mál út frá fræðunum og ekki verra að geta lagt fram rökstudda gagnrýni með skírskotun til þeirra.
Bíð spennt eftir morgundeginum. Ef að líkum lætur ætti mín að vera orðin arfahress þegar líður að hádeginu. Nú er að láta á það reyna. Hætt að leggja upp með plön, læt verkin tala, það tel ég orðið farsælast Er ákveðin í að vera afkastarmeiri á morgun en í dag, sjáum hvað setur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2007 | 00:21
Skrafað á kaffistofunni
Margt er skrafað á kaffistofu minni líkt og annars staðar. Stundum eru það stjórnmál og málefni líðandi stundar til umræður og þá oft kátt á hjalla. En oftar er það lífsgæðakapphlaupið sem er umræðuefnið. Þá á ég við lífsgæðin en ekki lífsbaráttuna. Umræðan snýst nefnilega gjarnan um nýju húsin , nýu jeppana, eldhúsinnréttingarnar, sófasettin, heitu pottana og allar breytingarnar innan dyra svo ekki sé minnst á 3-4 utanlandsferðir á ári. Mottóið virðist vera það að henda því gamla út og það setja það nýja inn. Samkeppnin er gríðaleg.
Ég upplifi mig eins og algjört furðurverk innan um slíkar umræður. Er nákvæmlega ekkert í takt við aðra í þessum efnum. Mín lífsbarátta snýst um að halda velli og tóra, borga niður skuldir og ná endum saman. Þó komin á þennan aldur! Vinn út í það endalausa og rétt hangi í horreiminni með allan halan. Ég er löngu hætt að vekja athygli á því að það eru ekki allir "komnir svo langt" að geta velt fyrir sér nýju parketti á stofugólfið, heitum potti og palli, fellihýsi og Guð má vita hvað. Skýringuna má kannski finna í þeirri staðreynd að ég er og hef verið í meira en 30 ár, opinber starfsmaður og launin eftir því.
Ég hlýt að velta fyrir mér hvað hafi farið úrskeiðis og hverjar áherslurnar eru. Ég er aftarlega á merinni í þessum efnum, í raun alveg út úr Q. En þegar ég hugsa málið þá er ég ekki viss um að ný eldhúsinnrétting, flottari bíll og pels sé það sem ég sækist eftir í lífinu. Ég vil hafa fallegt í kringum mig og vera sátt við mitt umhverfi en töluvert vantar á það ennþá. En ég sækist ekki endilega eftir veraldlegum og dauðum hlutum. Þegar maður er minntur rækilega á að maður sé ekki ódauðlegur og skammtaður tími hér á jörð, þá verður forgangsröðunin önnur. Það skiptir mig minna máli í dag en áður þó eldavélin mín sé ekki fullkomin eða ný.
Ég held að allir hefðu gott af því að hugleiða hvað það er sem í raun skiptir mestu máli í lífinu. Er það lúxusinn og íburðurinn eða einfaldlega að hafa nóg og vera heilbrigður? Allt snýst þetta um forgangsröðun hjá manni. Dauða hluti má bæta en ekki alltaf heilsuna. Ekki tekur maður djásnið með sér í gröfina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.11.2007 | 23:59
Orð að sönnu
Get ekki stillt mig um að fá að láni skrif systur minnar, Katrínar sem hún birit á heimasíðu sinni í gær:
,, Almenningsálitið er grimmt. Það er óréttlátt í eðli sínu, Það krefst þess á öllum tímum, að Barrabas sé látinn laus en Kristur krossfestur. Það spyr hvorki um rétt né sannleika. Það spyr yfirleitt ekki um neitt. Böðulinn er hetja almenningsálitsins........"
og síðar segir:
,,Almenningsálitið er óútreiknanlegt. Því virðist vera vel til skálka og illmenna. Slíkir menn verða oft hetjur í augum fjöldans. En venjulegur maður, sem ekki hefur kynnt sig að öðru en öllu góðu, sem ef til vill hafizt upp yfir múginn vegna mannkosta og dugnaðar, er öllu verr settur. Það er engu líkara en að fjöldinn þrái mest af öllu að hefna sín á honum. Hefna sín fyrir það að hann var meiri en þeir
Úr bókinni Valtýr á grænni treyju , 17. kafli Sveitarþvaður-
í heljargreipum; e. Jón Björnsson
Svo mörg eru þau orð. Þau segja allt sem segja þarf. Ég vona að hún fyrirgefi mér stuldinn, gat einfaldelga ekki stillt mig. Ótrúlega hnitmiðuð hugsun þarna á ferð og orð að sönnu.
14.11.2007 | 23:43
Gleði og gaman í Debrecen
Krökkunum hefur gengið vonum framar, Kata fékk út úr sínu prófi í dag og niðurstaðan sú að nú hefur hún lokið 25% af námsefninu í lífeðlisfræðinni og þarf ekki að taka það aftur í lokaprófinu. Frábær árangur svona í fyrstu lotu, ekki síst í ljósi þess að hún er búin að vera með mikla heimþrá og ekki beinlínis legið yfir bókunum. Haffanum gekk vonum framar í ónæmisfræðinni í kvöld, er býsna sáttur en prófið þótti langt og erfitt. Hann er búinn að vera á blússandi ferð það sem af er annarinnar. Hann tekur þessu öllu með stóatískri ró og farinn að leggja sig á meðan tryppið er farið út á lífið með bekkjarfélögunum að fagna prófárangri eins og mér skilst að sé lenska á miðvikudagskvöldum. Helgarnar hins vegar notaðar til að bæta upp "glataðan" tíma.
Er ofboðslega sátt við frammistöðu krakkana og yndislegt að skynja það að þau eru á réttri hillu í lífinu. Þau eru það sem ég lifi fyrir en ég verð að passa mig að skipta mér ekki of mikið af, þau eru orðin fullorðin. Maður þykist svo ómissandi að það hálfa væri nóg. Ótrúlega rík tilhneiging í manni að vilja "miðla reynslu" sinni til þeirra. Þau verða að fá að reka sig á eins og ég og allir aðrir höfum þurft að gera. Það er hins vegar alveg gefið að þegar þeim gengur vel, líður ungamömmunni vel og vice versa.
Held áfram leit minni af sjálfri mér, stefnunni og framtíðarsýninni. Ákvað að hætta að stressa mig á hlutunum og leyfa málum að gerjast og þróast. Vissulega er það vond tilfinning að vera stefnulaust rekald en á meðan sýnin er ekki skýr er réttast að láta sig reka áfram án þess þó að stefna að feigarðósi. Hef reyndar verið nokkuð nærri því í sumum málum en vona að ég hafi náð að taka U-beygju í tæka tíð.
Finn það vel að ég á langt eftir í land með að vinna mig úr málum en finnst ég sjá til lands í þeim efnum. Þá er bara að velja lendingarstaðinn. Kannski þetta séu hyllingar en leyfi mér þá að njóta þeirra. Finnst lítið spennandi að vera hér á höuðborgarsvæðinu í stressi og hávaða. Umferðin ein og sér er nóg til að æra óstöðugan svo ekki sé minnst á stöðugt áreiti frá bílum og mannfólki. Finn mig í öllu falli alls ekki hér um slóðir og þrái ekkert heitara en að komast út úr skarkalanum. Það hefur komið sér vel að hafa meira en nóg fyrir stafni, minni tími hefur gefist til hugsana og það hefur verið fínt.
Upplifi nú engan sérstakan létti yfir því að vera farin úr umhverfi "Sturlunga", upplifi frekar hitt að vera með "heimþrá". Það er nú einu sinni svo að á sumum stöðum skýtur maður rótum, meðvitað eða ómeðvitað og það tekur alltaf á þegar maður þarf að rífa þær upp, ekki síst gegn vilja sínum. Það hlýtur hins vegar að vera rólegt á vígstöðvunum núna, enginn til að hræra í "jafnvæginu". Einhverjum mönnum hlýtur að vera létt, a.m.k. um stundarsakir
Ekki það að það er ekki nýtt á nálinni að litlu þorpin á landsbyggðinni velja einstaklinga til búsetu en ekki öfugt. Sumir hljóta náð fyrir augum ráðamanna á meðan aðrir eru ofsóttir og hraktir á brott. Svona er þetta einfaldega, hefur lengi verið og verður ugglaust þannig um ókomna framtíð, a.m.k. þar til byggðirnar leggjast í eyði sem siglir reyndar í hraðbyr í með óbreyttum áherslum stjórnvalda.
Hef ekki verið nógu sátt við heilsufarið en veit að þar er engin alvara á ferð, einungis viðbrögð við álagi. Hundfúlt engu að síður og hamlandi. Svaf lungan úr kvöldinu, tiltölulega ný skriðin framúr. Enn með verkina og brjóstsviðan sem láta ekki undan neinum úrræðum. Það er ekki hlaupið að því að komast til læknis hér á höfuðborgarsvæðinu, læknavaktin er einungis skyndiplástur, eðlilega, þannig að það hefur lítið upp á sig að væla á þeim bænum. Önnin styttist í annan endan þannig að þetta ástand gengur yfir. Á næsta tékk í byrjun janúar og hef enga ástæðu til að ætla annað en að það komi vel út. Það skiptir mestu máli. Kannski ég þurfi að læra jóga???? Aldrei að vita upp á hverju ég kann að taka.
Vinir og fjölskylda | Breytt 15.11.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)