7.12.2007 | 22:03
Eru menn ekki í lagi??
Hnaut um frétt um fyrirhugaðan sparnað heilsugæslum til að mæta hallarekstri. Eins og glöggt má sjá á tillögunum eru hönnuðir læknar!
Ekki á að skerða þjónustu við "veikt fólk" en skerða á heimahjúkrun um 20% og að skólaheilsugæsla á að leggja niður, skv. tillögum sem og miðstöð heilsuverndar barna, mæðravernd og miðstöð sóttvarna til að standa straum af rekstrarhallanum.Veit ekki betur en að þyggjendur heimahjúkrunar séu veikir skjólstæðingar. Henda á út öllu eftirliti með skólabörnun og forvarnastarfi. Hjúkrunarþætti heilsugæslunnar að miklu leyti hent út!
Ég segi nú eins og Ragnar Reykás: mmmmmmaður bbbaaara skilur ekki svona lagað! Slíka hugmyndasmiði á að leggja af eins og öðrum fánýtum hlutum. Ég held að menn séu ekki í lagi. Ætli launakostnaður vegna lækna slagi ekki upp í 50% af rekstrarkostnaði heilsugæslustöðva, ef ekki meira?
Það væri eftir öllu að þessar hugmyndir yrðu samþykktar umorðalaust. Hvar eru viðbrögð hjúkrunarfræðinga nú!
7.12.2007 | 21:44
Enn ekki hægt
Var að skríða fram úr sófanum. Enn og aftur svaf ég stóran hluta kvöldsins af mér. Lengsti dagur ever í dag sem ég hélt að myndi seint ætla að líða. Var ekki lítið fegin þegar ég faðmaði minn hjartans sófa. Ekki eins kát þegar ég vaknaði frekar en endranær. Ekkert verra en að vakna eftir svona langan lúr, krumpaður, verkjaður og fúll yfir að hafa misst af einhverju. Er auk þess nokkurn tíma að koma mér í gang.
Mér finnst ég vera orðin eins og farlama gamalmenni, nota hvert færi til að leggja mig þó mig langi ekki til þess og hafi nóg annað að gera. Hlýði skrokknum sem segir; must! Á auðvitað að vera þakklát fyrir það að hafa tækifæri til að leggja mig en vá! Á hverjum degi, takk fyrir! Ef ekki í hádeginu, þá strax a lokinni vinnu. Stundum hvorutveggja. Bév.... maginn ekki orðinn góður, enn með þessa vondu verki sem fylgja. Orðin pínu þreytt á þessu ástandi en ætti að hoppa hæð mína yfir því að vita að þetta er ekki alvarlegt og umbera þessi óþægindi. Jafnvel þó þeim fylgi kviður á við 7 mán meðgöngu, lystarleysi og ógleði. Ég færi alla vega ekki í Bláa Lónið núna.
Gekk býsna vel að keyra í morgun upp á Skaga á mínum slitnu heilsársdekkjum, það munar heldur betur um drifið. Var auðvitað lengur á leiðinni en allt hafðist þetta. Er annars orðin svo náttblind að það hálfa væri nóg. Enn önnur ellimerkin.
Var að lesa sterkan pistil frá Kristni bróður um Bætt kjör aldraðra og öryrkja og þar kemur ýmsilegt áhugavert fram. Ekki virðist núverandi ríkisstjórn vera höfundur á þessum hugmyndum að öllu leyti. Hvet alla til að lesa pistilinnn á heimasíðu hans:
http:/www.kristinn.is
Nú er ekkert annað að gera en að hrista af sér aumingjaskapinn og fara að heyra í mönnum. Orðin fréttaþyrst og langar að slá þessu kvöldi upp í kæruleysi. Leggja frá mér verkefni og yfirferðir og leggjast í símann!
6.12.2007 | 23:39
Styttist í vikulok
Loks farið að síga á seinni hluta vinnuvikunnar, hlakka mikið til helgarinnar. Reyndar eitt heimapróf á sunnudag en það verður bara að koma í ljós hvernig það fer. Í öllu falli vakna ég kl. 07 og slekk á öllum símum kl. 08 og þar til prófi lýkur seinni partinn. Viðfangsefnið eru sveitarstjórnarmál.
Er enn að synda í stefnuleysinu í víðum skilningi þess orðs. Búin að finna heimildir er lúta að verkefnavinnunni frægu en ekki komist í að hefja þá vinnu að ráði, of mikið að gera á öðrum vettvangi. Er með hugan engu að síður við þessi mál, ekki síst ástandið í minni fyrrum heimabyggð. Er enn kjaftstopp og miður mín. Ég einfaldlega skil ekki hvernig opinber málaflokkur sem sveitarstjórnamál og stjórnun þeirra geta þróast eins og raun ber vitni. Hentugleikastjórnun, stefnuleysi og algjört ábyrgðarleysi meirihlutans. Þetta ástand er í raun grátlegt
Næstu 2 vikur verða áfram strembnar og verkefnaskil tæp. Er fegin að þurfa ekki að standa í jólastressinu hérna heima, gæti hvort eð er ekki byrjað á neinu að viti fyrr en eftir 18. des. og þá er ekki langur tími til stefnu. Við höfum þetta rólegt og nice þarna úti!
Allt gengur vel hjá krökkunum, Kata þarf ekki að taka eins mörg hlutapróf og flestir, búin að ávinna sér rétt til að sleppa sumum þeirra og stytta einnig lokaprófin. Haffinn heldur áfram að verma efstu sætin í sínum árgangi, fékk frábæra niðurstöðu í dag. Vantaði 0,1 til að ná hæstu, mögulegu einkunn. Honum fannst þetta náttúrlega fáranlega nálægt og því svekktur en vá, hann er að brillera drengurinn. Ekki það að einkunnir og próf eru ekki allt en gott ef hvorutveggja er í samræmi við vinnuframlag og væntingar. Katan kemur heim um leið og ég þann 5. janúar en Haffi verður lengur í prófunum þar sem þau standa lengur yfir.
Ætla rétt að vona að það snjói ekki meira í bráð þó mér finnst yndislegt að hafa snjóinn. Er ekki komin á naglana ennþá, á eftir að finna dekkjaverkstæði sem tekur að sér að geyma dekkin, hef ekkert pláss fyrir þau
Verð með próf í fyrramálið og gott ef ég er ekki með yfirsetu á sama tíma, svei mér þá! Það verður sjón að sjá mig hlaupa endanna á milli....Ekki veitir minni af hreyfingunni
Það verður hins vegar yndislega ljúft að komast í helgarfrí þó nóg verði að gera, maginn ennþá að stríða mér. Finn að einkennin aukast þegar álagið eykst. Allt helst þetta í hendur. Er ákveðin í að hægja á mér eftir áramót, hvernig sem ég fer að því. Mér leggst eitthvað til. Sé fyrir mér janúar mánuð í sæluvímu, krakkarnir heima, a.m.k. hluta mánaðarins og þá verður tekið á ýmsu sem setið hefur á hakanum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2007 | 00:29
Hneiksluð og miður mín
Ekki er nú svo gott að ég sé hætt að fylgjast með málum í minni, fyrri heimabyggð. Var að renna yfir fundargerð síðasta fundar sveitarstjórnar og er satt best að segja kjaftstopp og eiginlega miður mín.
Fundarefnið var annars vegar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og hins vegar málefni sláturhússins. Í stuttu máli verður að segjast eins og er að þeir sem bera ábyrgð á fjármálum og fjármálastefnu sveitarfélagsins virðast ekki hafa sótt sér þá þekkingu sem til þarf.
Ég veit ekki hversu oft í saup hveljur á meðan lestri fundragerðarinnar stóð. Halldór þetta, Halldór hitt en sá frómi maður er endurskoðandi sveitarfélagsins. Af fundargerðinni má ráða að bókhaldið sé í molum og ekki síst það að forsvarsmenn sveitarfélagsins virðast ekki hafa hundsvit á gerð fjárhagsáætlunar. Endurskoðandinn ætlar að aðstoða menn við að gera drög að 3 ára áætlun sem greinilega er ekki til. Hún á alltaf að liggja fyrir. Ekki er farið að móta stefnu fyrir sveitarfélagið sem fékk þó 47 mill. kr. styrk til að móta stefnu nýs sameinaðs sveitarfélags fyrir rúmum tveim árum. Hvers konar doði er að hrjá menn?
Málefni Silfurtúns rædd fyrir luktum dyrum eins og endranær með formann byggðaráðs í stöðu yfirlæknis heimilisins. Og til að kóróna allt er stefnt að úreldingu sláturhússins sem kostaði vel á annað hundrað milljónir að gera upp. KS fær úreldingaféð sem mig minnir að sé í kringum 30 millj. og Dalabyggð fær 4.4. millj. greiðslu vegna fasteignagjalda. Núverandi skuldir hússins nema um 65 milljónir. Hvernig í ósköpunum tókst mönnum að klúðra málum svona gjörsamlega!
Í mínum huga er augljóst að þeir sem fara með fjármálastjórn sveitarfélagsins eru ekki starfi sínu vaxnir og hafa stefnt rekstri sveitarfélagsins í hættu. Eins og það sé ekki nóg að þeir hinir sömu geta ekki með nokkru móti virt stjórnsýslureglur sem eru svívirtar hvað eftir annað og menn beggja megin við borðið í mörgum mikilvægum málum. Á sama tíma og forsvarsmenn leggja til sölu á félagslegu húsnæði sveitarfélagsins eru þeir hinir sömu að bregðast þeim skyldum sem öll sveitarfélög hafa gagnvart íbúunum sem felst í að tryggja þeim húsnæði. Til að bæta gráu ofan á svart reka sumir þeirra húsnæðismiðlun í eigin fyrirtækjum á meðan eignir sveitarfélagsins eru seldar. Hver hagnast þar?
Það vissi hver maður að kjörnir fulltrúar í núverandi sveitarstjórn voru flestir reynslulausir þegar þeir tóku sæti í sveitarstjórn og að það tæki menn einhvern tíma til að ná upp færni og nauðsynlegri reynslu. Nokkrir þeirra voru þó með einhverja reynslu, t.d. varamaður í síðustu sveitarstjórn og aðstoðamaður sveitarstjóra. Maður skyldi ætla að sú reynsla nýttist eitthvað. En svo virðist ekki vera. Staðreyndirnar eru vægast sagt grátlegar.
Menn hoppa ekki fyrirvaralaust inn í störf eins og störf innan sveitarstjórnar þar sem meginviðfangsefnið eru íbúarnir, réttur þeirra og lýðræði, án þess að kynna sér málin, afla sér þekkingar og leita eftir sérfræðiaðstoðar þegar þess er þörf. Átta menn sig ekki á því að skv. stjórnsýslulögum eru menn dregnir til ábyrðgðar þegar þeir sinna starfi sínu ekki sem skyldi og stofna rekstri og afkomu síns sveitarfélags í hættu? Ábyrgð byggðaráðs og framkvæmdarstjóra sveitarfélagsins er sýnu mest.
Hvað hafa menn verið að gera frá síðustu kosningum? Í öllu falli ekki að fara með ábyrga fjármálastjórn í samræmi við stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlög, eða hvað? Sveitarstjórn er þegar búin að fá athugasemdir vegna tapreksturs á síðasta ári frá Eftirlitsnefnd sveitarfélagana. Engin stefnumótun hefur farið fram. Hafa menn verið að gera eitthvað annað en að skara eld að eigin köku, t.a.m. í málefnum örfárra hestamanna?
Það er hreinlega spurning hvort sá greiði sem endurskoðandinn býður nú fram, sé ekki bjarnagreiði og er ég þá með haugsmuni íbúana í huga. Endurskoðandinn er með ráðleggingar um gerð fjárhagsáætlunar sem er hið besta mál, en hafi menn ekki unnið eftir þeim ráðum sem koma fram í fundargerðinni hingað til, eftir hverju hafa menn þá unnið? Hvar er stefnan?? Það má kannski virða þessa viðleitni manna til að leita eftir sérfræðiþekkingu þó hún verði kostnaðarsöm. Einhverjar milljónir fjúka þar aukalega, trúi ég.
Það tekur tíma að læra á jafnflókin störf og taka vandmeðfarnar ákvarðanir sem felast í stjórnsýslunni á réttan hátt. Menn eiga að hafa þann dug, metnað og úthald að afla sér þekkingar og reynslu enda ábyrgð hvers og eins mikil. Fatta menn ekki að allar ákvarðanir sem þeir taka í sveitarstjórn eru stjórnvaldsákvarðanir og þeir bundnir lögum og reglugerðum við töku þeirra? Eða hafa menn einfaldlega búið til og sett upp sínar eigin leikreglur?
Hversu lengi á þessi fjármálaóstjórn að vara áður en gripið verður í taumana? Hversu lengi getur vanhæfnin gengið án þess að íbúar segi blátt áfram stopp? Hversu mörg stjórnsýslulög þarf að brjóta til viðbótar áður en menn segja stopp?
Hversu lengi verður rekstur hjúkrunarheimilisins fyrir luktum dyrum, einkamál formanns byggðaráðs sem jafnframt gegnir trúnaðarstarfi fyrir heimilið? Landlæknisembættið er reyndar að kanna raunverulegan aðbúnað aldraðra á hjúkrunarheimilum um allt land. Hvernig skyldi heimilið koma út úr þeirri könnun? Hver er raunverulegur aðbúnaður hjúkrunarsjúklinga í sveitarfélaginu? Það verður fróðlegt að sjá þær niðurstöður en ég ætla rétt að vona að lög og reglugerðir móti a.m.k. gæði þjónustunnar þar. Enginn veit náttúrlega neitt um það, allar slíkar upplýsingar eru gefnar örfáum aðilum fyrir luktum dyrum. Hver skyldi skýringin vera á því?
Auðvitað á maður ekki að ergja sig á málum sem þessum á aðventunni en hjálpi mér hamingjan! Ástandið þarna er svakalegt. Ég skil ekki hvernig fólk heldur ró sinni. Kannski má skýra þá ró með þeirri einföldu staðreynd að menn viti etv. ekki betur en að allt sé í góðum gír. Ekki rignir upplýsingum yfir íbúana svona daglega. Það verður seint sagt að stjórnsýslan sé gegnsæ.
Klíkumyndanir sterkari og greinielgri en nokkurn tíman fyrr og þóttu slæmar fyrir nokkrum árum. Þeir sem gagnrýndu klíkurnar og áhrif þeirra á samfélagið þá, eru komnir á bólakaf í nýjar klíkurmyndanir sem eru sterkari en nokkurn tíman fyrr.
Ég mun seint hætta að fylgjast með málefnum í minni fyrrum heimabyggð þó ég sé í útlegð, í bili. Ég er þess fullviss að ég muni gera það áfram að handan þegar að því kemur. Menn geta rægt mann, kippt undan manni fótunum, sett mann í útlegð og gert manni lífið erfitt fyrir en þeir geta ekki tekið sjálfstæða hugsun í burt né rænt manni réttlætiskenndinni. En vissulega væri lífið mitt auðveldara ef ég gæti slitið þessi tengsl endanlega. Menn þurfa að bíða eitthvað eftir því enn.
En þangað til held ég trúlega áfram að súpa hveljur yfir röngum vinnubrögðum og gríðalegri fjármálaóstjórn. Hvenær ætla menn að vakna upp af doðanum og láta málin til sín taka?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 23:56
Kolfallin
Ekkert varð úr draumórum mínum um þennan daginn. Lét mig dreyma um að fara hér um eins og hvítur stormsveipur um íbúðina og ég í jólaskapi. Ekki það að það hefur ekkert verið að skapinu mínu, ég komst bara ekki í jólaskap. Hvernig má það vera þegar maður drattast varla fram úr og nýtir hverja smugu til að ,,aðeins að leggja sig"?
Sem sagt, vaknaði reyndar og ,,stand by" fyrir útkall en fékk frið. Ekki lengi að henda frá mér blöðunum og skríða upp í. Það var ekkert lítið notalegt með rokið standandi upp á gluggann svo hvein í. Mín hafði sig með herkjum fram úr um hádegi (eða rúmlega það) og nú var tekið á því. Blöðin lesin og krossgáturnar ráðnar. Sá tími passar akkúrat á meðan ég er að komast í gang, losna við verkina og fá almennilega hreyfigetu, fyrst í fæturna og síðan fingurnar. Allt hafðist þetta.
Næsta skref var að setja á sig andlit og drífa sig út í búð, þurfti að leysa út lyf þannig að Mjöddin varð fyrir valinu. Krögt af fólki, aðallega eldri borgurum á bílum og hvergi hægt að fá stæði. Slabb og skemmtilegt úti og ég þurfti að ganga spölkorn til að komast inn í þetta fróma ,,moll". Á leiðinni keyrðu margir bílar fram hjá mér á nokkurri ferð þannig að þegar inn var komið voru fínu skórnir mínir gegnsósa og gallabuxurnar líka, upp að hnjám. Fíni, svarti rúskinsjakkinn minn ekki svipur hjá sjón.
Við tók örtröð í apótekinu, ákvað að prófa Bónus apótekið eða hvað það nú heitir. Ein afgreiðslustúlka og einn lyfjafræðingur að störfum. Sú fyrrnefnda eyddi rúmum 20 mín í að fræða eldri borgara um vítamín og steinefni. Litla rými apóteksins stútfylltist auðvitað á þessum tíma og nú dugði frumskógalögmálið þegar kom að biðröðinni. Gaf mig ekki, rétti skvísunni lyfseðillinn og sagðist koma aftur eftir smá. Nennti ekki mitt litla líf að hanga þarna inni enda búin að þræða allar hillurnar.
Ekki tók betra við inni í Nettó, var fljót að hætta við fyrirhuguð innkaup, henti einhverju smotteríi í körfuna og nánast hljóp í röðina. Vá, þvílík röð. Sýndist afgreiðslufólkið ýmist á fermingaaldri eða á svipuðu reki og flestir kúnnarnir, sem sé á sjötugs aldri og þar yfir. Viðbrögðin auðvitað eftir því.
Í apótekinu tók sama biðin við og þegar ég slapp út sá ég að ég hafði verið um 1 klst. og 40 mín. í þessari búðarferð! Kom heim með lyfjapoka, og nokkra hluti í poka úr Nettó. Ég hreinlega skil ekki í mér að fara aftur og aftur í Mjóddina. Veit að Katan glottir núna. Ég hreinlega þoli ekki þetta moll, hvað þá Nettó! Hvað var ég að hugsa????Ég hefði verið fljótari ofan í miðbæ eða Smáralindinna. Aldrei aftur og nú stend ég við það. Minnir mig rækilega á það að þó vöruverð sé hærra úti á landi þá hentar landsbyggðin mér mun betur. Reykjavík er einfaldlega ekki fyrir mig.
Dröslaðist með moppuna á brýnustu svæðin og settist svo við að halda áfram að leysa gátuna um stefnu stjórnvalda og stefnuframkvæmdir. Loks varð ljós! Vá, þvílíkur léttir en bíddu nú við hugsaði ég með mér. Hvert eru íslensk stjórnvöld að stefna núna, ekki síst í heilbrigðisþjónustunni?? Mér er svo brugðið eftir að hafa lesið tilteknar greinar að ég næ varla andanum. Í öllu falli má ljóst vera að þróunin er og hefur verið sú að markvisst er verið að færa valdið frá stjórnmálamönnum yfir til hagsmunahópa í þjóðfélaginu. Ætla að skoða þessi mál gaumgæfilega og mun pottþétt úttala mig meira um þessi mál. Ef fram fer sem horfir, þurfum við hvorki sveitarstjórnarmenn né þingmenn! Meira um það síðar.
Er svipuð af álagstollunum, lítil breyting ennþá. Tekur auðvitað tíma að snúa ofan af sér þegar vinnan er minnkuð. Ekki hægt að ætlast til þess að áhrifanna gæti strax. Fékk nýtt galdralyf frá Sigga Bö sem ég bind miklar vonir við. Fékk reyndar að velja á milli erlendrar framleiðslu og íslenskrar, tók það síðarnefnda og vona að það virki ekki síður eins og margir halda fram. Ætti að vera byrjuð að skauta upp um alla veggi á næstu dögum ef lyfið virkar sem skyldi. Hlít að vera orðin eins og jarðýta þegar kemur að brottförinni til Debrecen. Þangað til verður H.Í að sýna mínum aðstæðum skiling. Er ekki tilbúin að gefa mig varðandi námið en hef ákveðið að sleppa einu námskeiði. Nú er að sjá hvað forsvarsmenn háskólans segja.
Hvað varðar markmið dagsins verður að segjast eins og er, ég kolféll í markmiðssetingunni. Ekkert annað að gera í stöðunni en að setja ný og raunhæfari á morgun. Upp snemma, umsjón með yfirsetu þannig að nú má mín ekki klikka né sofa yfir sig! Ég er náttúrlega hvergi nógu syfjuð núna
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2007 | 23:42
Þetta er ekki hægt
Ótrúlegur sólahringur loks að líða. Gat ekki með nokkur móti sofnað í nótt, reyndi og reyndi með öllum ráðum og ekkert gekk. Man eftir mér síðast um kl.04.30 og var þá í ímynduðum jógahugsunum. Reyndi hvað ég mátti til að setja mér inn í innhverfa íhugun til að sofna. Það hafðist en þá búin að gefast upp við að telja rollur, hoppandi yfir grindverk. En hvernig má nú annað vera þegar ég sef helgina eins og hún leggur sig?
Nú mín þurfti að rífa sig upp kl.07.00, var með próf í morgun og yfirseta eftir hádegi. Maður minn, hvað þessi dagur var langur. Ég er þess fullviss að Skagamenn hafi álitið það ansi bilaða manneskju sem lagði bílnum við vitann kl. 11.30, breiddi úlpu yfir sig, stillti vekjarann á símanum og lagði sig! Rumskaði af og til við það að bílar keyrðu fram hjá. Var fljót að læsa bílnum innan frá, svefn minn skyldi nú enginn trufla! Þessi lúr dugði mér til að sitja yfir prófi eftir hádegi og koma mér heim. Þetta er nú hálfsjúkt svona þegar ég hugsa út í þetta, hefði seint trúað því að ég ætti eftir að stunda þá iðju að leggja mig í bílnum eins og flutningabílstjóri en hvað gerir maður ekki þegar langt er að fara heim í hléum og syfjan ætlar að gera út af við mann?
Það var ansi föl og sjúskuð manneskja sem mætti tíkunum, hleypti þeim út og síðan var stefnan tekin beint í minn heittelskaða sófa. Ummm............. það var bókstaflega dásamlegt að leggja sig.
Það var hins vegar ekki eins dásamlegt að vakna aftur í kvöld! Krumpuð og enn sjúskaðri. Aldurinn er augljóslega farinn að segja til sín, þoli greinilega ekki andvökunótt þrátt fyrir mikinn svefn undanfarið. Maður leggur víst ekki lengur inn og geymir innistæðuna til mögru áranna, það er á tæru.
Er ekki frá því að einhver pest sé að banka upp á, verið óglatt og kalt. Reyndi að kenna því um að ég fékk mér laufabrauð og reykta nautatungu sem er náttúrlega baneitruð blanda í gall- og magavesen. En svo gæti þetta verið afsökun fyrir því að skríða í sófann aftur og horfa á sjónvarpið. Nokkuð sem ég hef ekki gert síðan í suma. Hafði reyndar lúmsk gaman af. Eða skyldi þetta vera raunveruleikaflótti frá stefnunum, stefnuframkvæmdinni og hvað þetta heitir nú allt saman? Gerði nú heiðarlega tilraun að rýna í Hogwood og Gunn eða hvað þeir heita nú þessir garpar en ógleðin sigraði, raunveruleikaflóttinn eða eitthvað annað.
Ert á bakvakt í fyrramálið í yfirsetu, þ.e. verð að drífa mig í spjarirnar ef einhver forfallast og koma mér upp á Skaga í einum grænum. Þar sem ég er ekki fyrsti varamaður þótti prófstjóra óþarfi að ég færi að mæta nema ef fyrstu varamenn forfallist. Líkurnar ekki miklar en að fenginni reynslu með mína heppni þá ætla ég nú að vera viðbúin. Allt getur gerst, það líka að aðalmaður og næstu 2 varamenn forfallist á sömu stundu, a.m.k. þegar ég á í hlut. Það er því eins gott að vera ,,stand by"
Sé ekki fram á mikinn afrakstur í kvöld, allt of seint að hringja í fólk og sé ekkert annað í stöðunni en að fara snemma í háttinn í kvöld. Ætti að vakna ,,hyper hress" á morgun, vonandi svo hress að ég fari eins og stormsveipur um íbúðina og þrífi en þann lúxus hef ég ekki látið eftir mér undanfarið enda heimilisstörf mikill tímaþjófur. HÞau hafa því setið á hakanum um hríð. Ég ætla mér að vera svo bjartsýn að ætla mér að fara yfir ritgerðir og hrista fram úr erminni stóran hluta af þessu blessaða stefnuverkefni. Ekki seinna vænna, ég er að renna út á tíma, þrátt fyrir frestinn góða í skjóli læknisvottorðs. Nú, ekki myndi nú spilla góðum degi ef ég hringdi eitt til tvö símtöl til þeirra sem ég er búin að ætla að heyra í vikum saman. Það eru nefnilega fleiri til í heiminum en ég. Orðin svo skömmustuleg að það er orðið meiriháttar mál að taka upp tólið.
Farin að hnerra í tíma og ótíma út af uppsöfnuðu ryki og hef sett upp sólgleraugu til að lifa það af að láta draslið sitja á hakanum. Kannski ekki skrítið þó maður sé ekki ,,uber" bjartsýnn þessa dagana stöðugt með svört sólgleraugu til að sjá ekki staðreyndir í kringum sig. Ekki er nú dagsbirtunni fyrir að fara þannig að það ætti að vera auðvelt að gera sér í hugalund hvernig ástandið er hér innandyra.
Hef þó passað upp á að vökva blómin, þ.e. þau sem ekki hafa drepist vegna spunamaurs sem ég fékk í kaupbæti frá Garðheimum og opna glugga. Hef keypt samtals 7 blóm þar á síðustu vikum, öll dauð nema eitt. Hawai rósir, gardeniur, iðnu lísur og ég veit ekki hvað og hvað. Skildi ekkert í því að vefur þakkti blöðin, aldrei nokkurn tíma séð slíkt áður nema eftir köngulær. Færði þetta í tal um daginn við starfsmann Garðheima sem var fljótur að gefa mér brúsa af einhverju plöntueitri en taldi björgunaraðgerði vonlausar. En brúasann fékk ég í skaðabætur, kostaði tæpar þúsund krónur. Fátt drepur spunamaurinn varð honum að orði. Þvílíkur ófögnuður að fá þetta kvikindi hér inn, svo ekki sé minnst á tjónið sem maurinn veldur. Ég get ekki komið nálægt blómunum nema í tvennum hönskum, takk fyrir. Oj!
Haffinn var boðberi góðra frétta í dag, náði feiki góðum árangri í ónæmisfræði, næst hæstur bekknum og ef fram fer sem horfir eru góðar líkur á því að hann sleppi þessum hluta úr lokaprófinu. Hann er á blússandi siglingu drengurinn og öll han vinna og samviskusemi farin að skila sér. Var með ansi lélegan grunn í raunvísundum úr sinni náttúrufræðibraut og þurfti mikið að leggja á sig í byrjun. Katan skoppar yfir þessar hindranir eins og ekkert sé enda með sterkan grunn úr sinni náttúrufræðibraut.
Tel niður dagana þangað til ég fer út og farin að hamstra ýmislegt góðgæti til að taka með mér út. Það er þegar ég gef mér náðarsamlegast tíma til að fara út í búð! Það hefur ekki gerst oft upp á síðkastið, eyði minna á meðan. Hef þá úr meiru að moða í annað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2007 | 22:20
Stefnu þetta, stefnu hitt.......
Heldur meiri ,,dugnaður" í dag en í gær. Vaknaði kl.11 í morgun og hef ekkert lagt mig síðan, Jibbí! En ÚFF! mér finnst ég að niðurlotum komin, búin að sitja við eins og rjúpan við staurinn að finna lesefni um hinnar ýmsu kenningar framkvæmd stefnu. ,,Gúglað" og hvað eina en uppsker ekki árangur sem erfiðið. Legið yfir þeim skruddum sem ég hef haft og ekki búin að finna neinn bitastæðan útgangspunkt. Hef aldrei lent í þvíumlíku. Stífla af verstu gerð.
Er búin að vera að íhuga næstu skref og alltaf verður tilhugsunin um að fresta þessu námskeiði áleitnari. En á móti kemur einhver þrjóska að gefast ekki svo auðveldlega upp. Hundfúl staða. Helgin flogin og afraksturinn rýr í öllum skilningi þeirra orða.
Það fer hins vegar að verða umhugsunarefni hvert maður stefnir með áframhaldandi námi. Svo virðist sem menntun hafi lítið vægi þegar kemur að stöðuveitingum, a.m.k. hjá hinum opinbera. Þar gilda frumskógalögmálin, þ.e. að vera í réttum flokki og með réttu samböndin o.s.frv. Nú ef kennsla verður mitt aðalstarf áfram sem ég hef ekki tekið ákvörðun um, liggur fyrir að enginn kemur til með að kenna nema að hafa meistaranám að baki. En hvers konar meistaranám það ætti að vera, fylgir ekki sögunni. Skyldi mitt meistaranám duga???Það er í viðskiptastjórnun en ekki kennslufræðum. Hef einungis réttindanám í kennslu- og uppeldisfræðum að baki.
Hvernig skyldi menntamálaráðherra útfæra þessar auknu kröfur um menntun kennara? Skyldi liggja fyrir áætlun um það hvernig og hvenær kennurum verður gefinn kostur á að sækja meistaranám? Slík umbylting á námi og kröfum krefst aðdraganda og undirbúnings. Háskólarnir verða að tryggja viðeigandi námsframboð, skólarnir verða að tryggja aðstöðu og námsleyfi o.s.frv. Hvernig skyldi þá ganga að manna stöðurnar á meðan? Hef ekki séð frumvarpið en ætla rétt að vona að það sé útfært með þeim hætti að það sé framkvæmanlegt. Einhver verður kostnaðurinn, trúi ég.
Ekki svo að skilja að ég sé mótfallin þeim hugmyndum að auka menntunarkröfurnar. Það þarf hins vegar að undirbúa slíkar breytingar, tryggja að kennarar ,,kaupi" þessa sýn og fylgi henni eftir með jákvæðu hugafari. Ætla má að verulegt launaskrið fylgi þessum breytingum og það er jákvætt að því leyti að það er löngu tímabært að kennarar verði launaðir í samræmi við störf sína og ábyrgð. Kennslustörf og hjúkrun er vanmetin störf í þeim skilningi, á því er enginn vafi.
Ég hef heyrt að nýútskrifaðir viðskiptafræðingar með 3 ára nám að baki séu töluvert hærra launaðir hjá bönkunum en t.d. hjúkrunarfræðingur með 4 ára háskólanám. Munar þar miklu er mér sagt. Þó ég njóti þess að vera með meistaranám að baki auk 25 ára starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur, er ég enn lægra launuð en þessir nýútskrifuðu viðskiptafræðingar. Hvað var ég eiginlega að hugsa á sínum tíma? Lét hugsjónina augljóslega ráða för, eitthvað sem er ,,fatalt" í nútíma þjóðfélagi.
Búin að leggja frá mér opinbera stefnumótun í kvöld, sef á þessu í nótt og tek frekari ákvarðanir í framhaldi af því. Í öllu falli gengur þetta ekki svona
Allt í góðum gír í Debrecen, styttist í prófin með tilheyrandi álagi. Katan var að ganga frá miða fyrir múttu sína, þvílíkt verð á þessum tíma! Flýg til Köben og þaðan til Búdapest þann 19. des. Ég hlakka ekkert lítið til. Kem heim í kringum 5. jan ef allt gengur upp og Katan kemur trúlega með mér. Haffi verður hins vegar lengur í prófunum sínum og kemur líklega ekki fyrr en um miðjan jan. Heilmiklar áætlanir og nóg að gera hjá þeim þegar heim er komið. Ungamömmunni leiðist það ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2007 | 19:50
Andlaus og þreklaus
Enn og aftur komin helgi og enn og aftur sama sagan. Ég eins og sprungin blaðra, svaf til kl.14.00 og reif mig fram úr með herkjum enda ekkert um annað að ræða. Perlan búin að vera á orginu til að komast út og ég orðin ansi verkjuð eftir nóttina. Er orðin pínu leið á þessu mynstri, helgi eftir helgi fer í að safna orku og hlaða batteríin. Afkasta aldrei því sem ég ætla mér og fer ekki í þær heimsóknir sem brenna á mér.
Tók því fremur þunglega að komast ekki vestur til að fylgja vini mínum; Einari á Lambeyrum, síðasta spölinn. Hann átti það svo sannarlega inni hjá mér, studdi mig með ráð og dáð í gegnum erfiðleika og störf mín í sveitarstjórn og reyndist mér traustur vinur. . Ég hefði ugglaust aldrei þraukað án þess stuðnings og þegar ég lít til baka sé ég hversu mikið víti sá tími var. Oftar en ekki var það Einar sem hjálpaði mér í gegnum þetta tímabil og voru símtöl og samtöl okkar mörg og löng. Ég á eftir að sakna hans mikið, þar var mikill höfðingi á ferð sem hafði áhrif á samtíma sinn. Ég get rétt ímyndað mér hvernig hans aðstandendum líður nú.
Í fyrsta skiptið finn ég fyrir uppgjafatilfinningu varðandi þetta blessaða nám mitt í opinberri stjórnsýslu. Hef ekki náð að sinna því sem skyldi, er á eftir með verkefnavinnu og finnst ég hreinlega ekki orka meir. Úff, ég hef mig ekki í að byrja á verkefni sem ég fékk stuttan frest á, með því að skila læknisvottorði! Það er svo sem auðsótt mál en vá! Læknisvottorð vegna nokkura daga frests á verkefni. Það væri sök sér ef um próf væri að ræða en ég breyti því ekki, svona er þetta einfaldlega.
Brennandi áhugi á pólitík rak mig áfram í þetta nám, nú finnst mér einhvern veginn neistinn hafi dofnað. Verð að reyna að bíta á jaxlinn og líta á muninn á opinberri stefnu og stefnuframkvæmd en hann getur verið æði mikill. Hef ekki úr miklu efni að moða, þrautleiðinlega bók um kenningar á þessum sviðum og dotta í hvert sinn sem ég hef lesturinn. Vona að ég fá spark í afturendann að ofan...... Er svo ferlega þreklaus að það hálfa væri nóg! Þjáist ekki af einhverjum skammdegisdrunga, uppáhaldstími minn er einmitt síðla hausts þannig að ekki er drungi skýringin. Þreyta og aftur endalaus þreyta sem ég er orðin svo ferlega þreytt á
Urr, ég verð að koma mér að verki og sjá hvað setur.
29.11.2007 | 00:16
Styttist í annan endan
Þá fer að líða að lokum annarinnar, einungis yfirferð á verkefnum, próf og yfirsetur eftir. Sýnist öll næsta vika fara í próf og yfirsetur. Er með smá hala sem ég á eftir en allt er þetta í réttum farvegi, ennþá.
Mér tókst að mæta á réttum tíma þennan síðasta kennsludag, eins gott! Ansi var ég framlág þegar ég hitti mitt fólk en það tók þessu með bros á vör.
Get ekki beðið eftir jólafríinu, er spennt að fara út og halda jólin þar með krökkunum. Mér skilst að þar sé jólatré að fá og hvaðeina. Vonandi verður léttara yfir þessum jólum en í fyrra þegar veikindin krydduðu þau verulega. Man að ég kúgaðist yfir pottunum, allt í lagi að segja frá því núna.
Katan er mikið jólabarn en Haffi rólegri í tíðinni, finnst allt of mikið stress í kringum hátíðarnar. Trúlega hefur það verið þannig á minningunni hjá honum, ég alltaf í vaktavinnu og á síðustu stundu með allt. Oftar en ekki vann ég jól og áramót og lítið um rólegheit og undirbúning á aðventunni.
En til hvers að stressa sig? Á þetta ekki að vera tími fjölskyldunnar þar sem gleðin ríkir? Við munum alla vega reyna að hafa þetta huggulegt og eiga ánægjulega minningar. Áherslurnar hafa breyst og engin vaktavinna núna. Aldrei meir, reyndar! Einhvern veginn er maður svo upptekin í því að reyna að skapa jákvæðar minningar. Hlakka ekkert lítið til að skreppa á torgið í Debrecen sem mér skilst að sé með eindæmum jólalegt.
Erfiðleikarnir halda áfram að banka upp á hjá minni litlu famelíu, sjaldan virðist jafnvægi ríkja í herbúðum. Aldrei lognmolla í kringum mig, verst að það skuli yfirfærast á krakkana. Líta verður til þess að þessi tími er og verður okkur erfiður, sárar minningar og söknuður ýfast upp. Einmitt þess vegna verðum við að vera saman. Hef reyndar stundum svolitlar áhyggjur af því hvað við þrjú erum háð hvort öðru. Ef einum líður illa, eru hin tvo heltekin af sömu vanlíðan. Eitthvað sem við verðum að fara að vinna með enda öll sjálfstæðir einstaklingar. Hluti af þroskanum er einmitt að skapa ákveðið sjálfstæði og fjarlægð.
Erfileikarnir eru til að sigrast á þeim, við höfum fengið slatta af þeim en erum vonandi sterkari fyrir vikið. Það er fúlt þegar þeir ,,poppa upp" trekk í trekk og oft spyr maður sig hvort þeir ætli engan enda að taka. Hins vegar er ekkert annað að gera en að taka því sem höndum ber og sigrast á blessuðum þúfunum og grjótinu hér og þar. Ekki yrði lífið skárra ef maður breiddi yfir haus og gerði ekkert. Uppgjöf er aldrei lausn. Maður hefur alltaf valkost þó stundum sé erfitt að koma auga á hann. Við megum heldur ekki gleyma því að sjálf höfum við mikil áhrif á eigið líf og líðan þó vissulega geti utanaðkomandi áhrif/öfl kúvent því.
Lauk endanlega ákveðnum kafla í dag er lýtur að Seljalandi, því máli endanlega lokið og hefur tekiið á. Sá kafli verður ekki opnaður fyrr en ég skrifa mína bók sem ég er harðákveðin í að klára.
,,Rise and shine" í fyrramálið og upp með hökuna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.11.2007 | 23:58
Kveðskapur
Rakst á eftirfarandi vísur á heimasíðu FVA og get ekki stillt mig um að birta þær. Eins og talað úr mínum munni. Þvíkur kveðskapur! Alltaf leynast jákvæðir hlutir í volæðinu, svo mikið er víst
Það skal enginn á mér sjá,
ekki heldur finna,
þótt ég gangi grátin frá
grafreit vona minna.
Oft þó væru kröppin kjör,
og kætin liði baga
hafa alltaf einhver höpp
yljað mína daga.
(Höf. Jóhanna Brandsdóttir)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)