Álagstollar

Enn önnur helgin liðin og hún fór eiginlega ekki í neitt. Legið með tærnar upp í loft megnið af henni og sennilega aldrei náð að sofa jafnmikið. Fengið að kenna hressilega á ,,álagstollum" síðustu dagana með tilheyrandi verkjum og vanlíðan. Ekkert alvarlegt sem betur fer en hvimleitt og hefur tekið á. Maginn í stuttu máli í rugli, trúlega gallvesen í ofanálag og síðan eitt og annað eins og sýking til að krydda þetta svolítið.  Enda aldrei nein lognmolla hjá mér og alltaf þörf á því að poppa hlutina upp.Whistling

Hafði reyndar hugsað mér að eyða helginni í skemmtilegra afþreyingu en hægt er að stunda með tærnar upp í loft. Átti von á góðri heimsókn sem fór náttúrlega út um þúfur og svo ætlaði ég að fara í heljarinnar ,,vísitatiu" sem var löngu orðin tímabær. Er hætt að plana, enn og aftur! Það einfaldlega þýðir ekki og hefur nákvæmlega ekkert upp á sig annað er ergelsi.  Í öllu falli er ástandið  að skána og allt upp á við.

Óttalega finnst mér sumt fólk geta verið grunnhyggið. Til eru þeir sem stökkva til eftir því sem sýnist í stað þess að kynna sér málin. Fljótt er það að dæma, það stendur ekki á því og það á hraða ljósins. Mér sýnist ég þurfa að taka til í nánasta umhverfi og vanda betur valið þegar kemur að viðmælendum. Það leynast víða slettrekurnar eins og systir mín orðaði það, jafnvel í nærumhverfinu. Sumir virðast  telja sig þurfa að hafa vitið fyrir aðra og setja upp þann ramma sem manni ber að fylgja. Oft er auðveldara að skipuleggja fyrir aðra en eigið líf.  Allir kannast við þetta þó færri ræði það opinskátt.  Hitt er svo annað mál að skelfing væri tilveran litlaus ef allir væru eins þannig auvitað þarf að vera fjölbreytni í flórunni. Hver flýgur svo eins og hann er fiðraður til.Heart

Finnst með ólíkindum að það sé að koma jól, mér finnst eiginlega svo stutt síðan síðast. Tíminn flýgur áfram á ógnarhraða og mér finnst ég fara illa með hann.  Þarf að endurmeta og forgangsraða upp á nýtt. Hef ekki beint athyglinni að því sem ég vil gera, verið of upptekin í vinnu. Þessu ætla ég að breyta. Hvernig veit ég ekki en ég mér leggst eitthvað til. Helst hefði ég viljað flytja út í hlýrra loftslag en á meðan leitin af sjálfri mér stendur yfir, verð ég kyrr um stund en ekki endilega á höfuðborgarsvæðinu.

Er farin að telja niður dagana þangað til ég kemst út til krakkanna og þó það sé kalt þarna úti, er hlýrra þar en hér. Þvílíkt veðurfar sem við upplifum hér, eilíft rok eða stormur, rigning einn daginn og skítakuldi þann næsta. Risjótt veður hefur ævinlega farið svolítið í ,,pirrurnar" á mér enda mikið á ferðinni. Svei mér ef ég er ekki eins og gömlu konurnar forðum!

Hlakka til vikunnar, frábært að finna að ég er að hressast aftur og hef ákveðið að afþakka frekara pestafár og álagstolla í bili. Nóg komið að sinni og skemmtilegir tímar framundan í bland við aðra daprari. Vona að ég nái að fylgja einum góðvini mínum næstu helgi. Náði að horfa á hluta þáttarins um líknandi meðferð á Stöð 1. Allir hefðu gott af því að horfa á hann. Ótrúlega margir gera sér enga grein fyrir því sem einstaklingar með langvinna sjúkdóma eru að ganga í gegnum. Í þessum þætti er varpað ljósi á það að einhverju leyti. Góðir punktar hjá Hauki heitnum sem stóð að stofnun Ljóssins, en honum kynntist ég í minni legu á LSH. Margt væri öðruvísi ef við værum almennt betur upplýst.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband