Róðurinn þyngist

Helgin liðin með tilheyrandi aukverkunum eftir lyfjagjöfina. Er alltaf verst á 3. - 5. degi þannig að ég tek helgarnar í verstu líðanina. Meðferðin er farin að síga í sem var viðbúið og ekkert sem kemur á óvart í þeim efnum. Hef því verið með versta móti og náði toppnum í kvöld í bókstaflegri merkingu. Rauk uppí hita með alles en betri nú en tilhugsunin um innlögn dugði til; hitinn snarlækkaði og önnur einkenni að ganga til baka. Ég á sem sé að hafa samband við bráðamóttöku LSH ef hitinn hækkar skyndilega og fer yfir 38°C.  Segið svo að hugurinn skipti máli.  Get ekki hugsað mér innlögn, ekki nógu veik ennþá.  W00t Hitt er svo annað mál að ég get átt von á uppákomu sem þessari aftur auk þess sem ég fer að þola meðferðina ver. Hvorutveggja eðlilegur gangur. Þori varla að segja það en ég held hárinu ennþá. Stefni á að gera það áfram.

Annars merkileg tímamót hjá mér þann 8.nóv.sl.  en 2 ár eru liðin frá því ég fór í aðgerðina þar sem lungað var tekið. Átti alls ekki von á því á þeim tímapunkti að ná 2ja ára lifun eftir greiningu. Það tókst og ég stefni á áframhaldandi árangur í þeim efnum. Hitti minn geislalækni í dag þar sem við fórum aðeins yfir framhaldið aftur. Fer í sneiðmyndina á föstudag og í framhaldi af henni verður teymisfundur lækna sem metur þau úrræði sem standail boða. Stefnt fullum  fetum á aðgerð sé hún nokkur kostur, ef ekki áframhaldandi geislar og lyf eins og lagt hefur verið upp með.  Alltaf gott að ræða málin,jafnvel þó ekkert nýtt komi fram. Kann mjög vel við minn mann, hann er hreinskilinn og talar tæpitungulaust á mannamáli. Þannig eiga menn að vera.

Vona að ástandið verði stabilt á morgun, kem til með að hafa það yfirmáta ólegt yfir skólabókum og verkefnavinnu.

 


Einstök upplifun

Senn líður að því að fyrri hálfleik sé að ljúka í geislunum, þ.e miðað við fyrsta plan. Er u.þ.b. hálfnuð í mínum daglegum ferðum á geisladeild LSH og fór í vikulega lyfjaskammtinn í gær. Þetta hefur gengið ágætlega og það verður að segjast eins og er að ég þoli meðferðina ágætlega, hingað til. Ég finn nú greinilega að þeir heiftarlegu verkir sem hafa verið að plaga mig síðasta árið eru á undanhaldi, þarf minna af verkjalyfjunum og tek þau sjaldnar. Næturnar ennþá verstar eins og lög gera ráð fyrir. Á móti koma vaxandi aukaverkanir sem heldur er að aukast.  Húðin á fingurgómunum flagnar og ég eitt sprunguvæði sem auðveldar mér ekki vinnuna beint á lyklaborðinu. Ég þjáist af sívaxandi síþreytu og þegar ég tel að hámarki sé náð í þeim efnum, verð ég þreyttari. Ekkert sem kemur að sök, það er ekki svo að ég sé með stórt heimili og fullt hús barna. Mér er sagt að ,,eðlilegur svefn" hjá mér núna sé ekki undir 12-14 klst.á sólahring. Ég næ þeim tímaramma léttilega, eins og ég hafi aldrei gert neitt annað. Það virðist ganga ágætlega að ,,grilla" svæðið, er með mikinn brunaverk í vélinda sem er að þvælast þarna fyrir.Allt saman fyrirsjáanlegar aukaverkanir en hálfleiðinlegar.

Auðvitað er farið að taka í, ekki síst andlegu hliðina. Ég reyni að finna mér nóg til dundurs og hef það eiginlega en kannski ekki alveg það úthald og ég hefði kosið til að sinna því dútli mínu. Mér leiðist því eins og þetta heitir á góðrí íslensk, svo einfalt er það og kemur í bylgjum. Ég hef fallið ofan í þá gryfju, líkt og margur Íslendingurinn, að fyllast hálfgerðu vonleysi vegna stöðu efnahagsmála í landinu sem bætast ofan á eigið bölsýni í fjármálum. Horfurnar eru almennt rosalega dökkar og ekki var á það bætandi sem okkar bíður í vetur. Ég hef ekki leyft mér að hugleiða það til enda hvernig mín mál koma til með að líta út eftir nokkrar vikur, mánuði. Reynin að taka einn dag í einu og höndla hann fyrst. Það stoðar hins vegar lítt að vera með ,,strútsheilkennið" of lengi, einhvern tíman verð ég koma hausnum upp úr sandinum og meta stöðuna. Gerði það reyndar og afleiðingarrnar létu ekki á sér standa; ég varð bullandi svartsýn.

Þann sama dag fékk ég synjun frá TR en læknir minn hafði sótt um leigubílastyrk vegna daglegra ferða minna á LSH.  Matnefnd TR þótti ekki sannað að ég gæti ekki nota almenningssamgöngur til minna ferða í meðferðina. Ég hef aldrei verið dugleg að biðja aðra um aðstoð né að sækja um þann rétt sem ég kann að eiga. Þessi niðurstaða fór alveg með það. Mér finnst ég náttúrlega algjör aumingi, margur þarf að sætta sig við að komast ekki einu sinni í strætó en fá samt synjun fyrir öðru úrræði í okkar velferðarkerfi, þegar þörfin er augljós og er þá vandi þeirra oft viðvarandi um ókomna tíð.  Ég þarf ekki að kvarta en einhvern veginn er ég ósátt og kvarta því.  Ég er ekkert of góð til að taka strætó frekar en aðrir en þegar kemur að því að ferðast með honum í þessu ástandi verð ég að játa mig sigraða. Ég myndi sennilega ekki endast aðra leiðina miðað við stöðuna eins og hún hefur verið.

Ég hef alla tíð átt hábölvað með að biðja aðra um aðstoð eða stuðning. Ekki vegna þess að aðrir bjóði ekki upp á það, síður en svo, ég er bara vön því að gera hlutina og berjast fyrir þeim sjálf. Uppeldið líklega, við erum flest svona systkinin en tökum því ekki vel ef við megum ekki aðstoða aðra. Svona týpísk ,,eigingirnisafstaða" og ómeðvitaður hroki en það hefur reynst erfitt að kenna gömlum hundi að sitja í þessum efnum. Mér er það oft legið á hálsi og hef reynt að taka á þessu viðhorfi mínu. Í þessum veikindapakka verð ég að sækja rétt minn til að komast í gegnum ferlið en á á hins vegar ekki von á því að senda inn aðra umsókn til TR um styrk til ferðaflutnings. 

Einmitt þegar sjálfsmeðaumkvun mín stóð sem hæst í vikunni og ég sá sæng mína útbreidda í vetur með alla óvissuna um það hvort ég ætti yfir höfuð eitthvert heimili þegar líða tekur á veturinn, var mér rétt útrétt hönd úr átt sem ég hefði aldrei látið mér detta í hug, hvað þá hugleitt að taka við.  Sú útrétta hendi barst frá fólki sem ég þekki lítið, hef einungis haft örlítil kynni af og þótt alveg einstaklega lífsglatt og bjarstýnt fólk. Hef einmitt ímyndað mér að á því heimili ríki mikil glaðværð og gleði og oft reynt að taka mér þann hugsunarhátt sem mér finnst einkenna þetta fólk, mér til fyrirmyndar. Mér finnst kannski ekki rétt að útlista frekar með hvaða hætti þau rétta mér hendi og stuðning en get ekki sagt annað en að ég hef aldrei kynnst jafn mikilli manngæsku og mannkærleik og hjá þeim sem endurpeglast í viðhorfi þeirra til lífins og til okkar hinna.  Eftir miklar vangarveltur og heilabrot þekkist ég gott boð þessa fólks, í fyrsta skipti á ævinni þáði ég útrétta hendi frá ókunnugum, ef svo má að orði komast. Því tókst að sannfæra mig um að það væri svo rétt og þannig upplifi ég það nú.  Ég hef alla tíð verið allt of treg til að þiggja aðstoð annarra, í sama hvaða formi hún birtist og skýlt mig á bak við ,,ég get þetta sjálf"; ,,ég þarf ekki" o.s.frv. Hlý orð og andlegur stuðningur eru dæmi um ómetanleg framlög af hálfu annarra en við alltof feimin til að taka á móti.  Sú ,,gjöf" sem ég þáði þennan dag gjörbreytti ansi miklu fyrir mig á þessum tímapunkti og breytti mér að sama skapi. Hjartans þakkir fyrir mig, hjartahlýja fólk. Þetta var eintök upplifun og ómetanleg hjálp sem barst á hárréttum tíma. InLove

Það er því margt sem hefur farið í gegnum kollinn síðustu dagana. Er ákveðin í að forðast að kafa ekki of djúpt í þær fréttir sem okkur berast af enfahagslífinu, mörgum sinnum á dag. Ég get hvort eð er ekki breytt því en get reynt að búa mig og mína undir það sem koma skal og reyna að miðla þvís em ég á, til annarra.'

Ástandið hjá krökkunum í Debrecen er óbreytt, hátt gengi og erfiðleikar með millifærslur há þeim nokkuð en þetta gengur þó og þau svelta ekki þó ólin sé hert. Farið að styttast í önnina í annan endan, þau bæði á kafi í hlutaprófum og hefur gengið vel. Kata hefur lagt áherslu á það sama og Haffi hefur gert,  að reyna að ná settu lágmarki í öllum hlutaprófum til að geta sloppið  við sum af lokaprófunum og stytta þannig prófatörnina og lengja að sama skapi jólafríið. Þau stefna á að vera heima um jólin en það er of snemmt að segja þar til um hvorum megin við verðum.  Við verðum alla vega saman.  Ég verð væntanlega á fullu í meðferðinni fram að jólum, púlsinn verður tekinn núna upp úr miðjum nóv, m.t.t. árangurs og næstu skrefa þannig að allt er skv. grófum dráttum ennþá. Hef aðeins dregist aftur úr geislunum vegna aukaverkana en ekkert teljandi samt. 

Svo virðist sem 3.-5. dagur eftir lyfjagjöf þýði veikindi og barlómur, ekkert sem er óasættnalegt eða óyfirstíganlegt. Sætti við það að helgarnar fara í það vera í bólinu og hafa það náðugt, finnst ég höndla þetta allt saman með glans á meðan ég er ekki með fötuna um hálsinn og stöðuga rugguveiki eins og var að gera út af við mig síðast. 

Framundan er áframhaldandi vinna við áætlanir og björgunarðgerðir. Ömurlega umóknarferli í okkar þunga velferðarkerfi  sem hreyfist á hraða snigilsins. Þar á bæ þykir eðlilegt að umóknarferli taki 6-8 vikur eftir að gögn berast í hús; Nota bene! Verð vonandi nógu brött á morgun til að ljúka einhverjum erindum.  Það virðist svo eilífðarverkefni að hringja í þessar stofnanir og minna á sig. Hrikalega leiðinleg verkefni, oj!

 


Vantraust

Ég fæ ekki betur séð en að Samfylkingunni sé ekki stætt á öðru en að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Með yfirlýsingu sem þessari getur varla ríkt gagnkvæmt traust á milli ríkisstjórnarflokkanna.

Hafi þetta verið leikur Samfylkingarinnar til að milda kjósendur, verður þetta að kallast pólitískur afleikur, af því gefnu að forystan hafi ætlað sér að sitja í þessari ríkisstjórn áfram. 

Næsta skref er að fylgjast með viðræðum á milli Samfylkingar og VG. Það gefur auga leið.

Án þess að ég taki afstöðu til þessarar vantraustsyfirlýingar, hefði ég talið rétt að núverandi ríkisstjórn tæki á þeim málum sem hún kom þjóðinni í og kæmi skikkan á þau. Eðlilegt væri að horfa til kosninga í vor.  En vá, sprengjan er falllin.W00t


mbl.is Samfylking afneitar Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmæliskveðja

Elskuleg systurdóttir mín, Auðbjörg Brynja á afmæli í dag. Ég hefði ekki haft á móti því að ,,skutlast til hennar" í ,,suprise " kaffi en þykir heldur langt á Klaustur fyrir mig eins og staðan er nú hjá mér. Einhvern tíman hefði það ekki verið stórmál en koma tíma, koma ráð. Whistling

Aujan hefur verið órjúfanlegur hluti af tilveru okkar krakkanna frá því hún fæddist. Ég er ekki alveg að kyngja því hve tímin er fljótur að líða.  Hefur áorkað miklu á sinni ævi  og starfar í dag sem hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir auk þess að vera með sauðfjár- og rófubúskap.  Geri aðrir betur InLove

Elsku Aujan mín, innilegar hamingjuóskir með þrítugsafmælið. Ég er ofboðslega stolt af þér. Þú ert  fágætur gullmoli og átt þér enga líka. InLoveHeart

auka_og_strakarnir_715541.jpg

 

 

 

 

 

Aujan með frumburðinn og tvíburabræður sína

 

 


Virðingarverð viðleitni

Mér finnst þessi ákvörðun menntamálaráðherra og stjórnar LÍN virðingaverð viðleitni til að koma til móts við nemendur erlendis og hér heima. Hnaut aðeins um skilyrðin sem sett eru; ,,Námsmenn þurfa að sækja sérstaklega um aukalán, en þau eru ætluð þeim sem eru í sárri neyð og verður hvert tilvik metið af stjórn sjóðsins". Hvergi kemur fram hvaða skilyrði flokkast undir ,,sára neyð" og þvði hætt við að mati á umsóknum verði huglægt, hverju sinni. 

Ég er ekki dómbær á það hvort að þessi viðleitni, sem hljómar upp á lán fyrir allt að 2 mán framfærslu erlendis og 1 mán hér heima, dugi til enda aðstæður nemenda ugglaust misslæmar, ekki síst reiknaðar  út frá  öðrum gjaldmiðli. Engu að síður er þetta skref í rétta átt.

Auk þess að þess að freista þess að bjarga því sem bjargað verður hjá mörgum,  er verið að undirbúa jarðveginn fyrir næsta skólaár með því að lækka tekjuskerðingu enda ljóst að fjöldi atvinnulausra verður stjarnfræðilegur og aðsókn í háskólanám nær hámarki. 

Í öllu falli tel ég að þessi ákvörðun stjórnvalda eigi eftir að létta mínum krökkum róðurinn í námi sínu í Debrecen. En talandi um krónuna í frjáslu falli og  veikingu hennar gagnvart evrunni, þá sýnist mér það vera barnaleikur einn miðað við stöðu forintunar, ungverska gjaldmiðilsins. Hún herðir víðar að; sultarólin, en hjá okkur.

 


mbl.is Stjórnvöld koma til móts við námsmenn erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur á margt óvart

Ég er að mörgu leyti undrandi með niðurstöður þessarar könnunar.  Get ekki sagt að ég undrandi á því fylgishruni sem er hjá Sjáfstæðismönnum í þessari könnun, ég átti hins vegar von á því að það væri mun meira en þessar niðurstöður benda til.

Ég er ekki alveg að átta mig á stöðu Samfylkingarinnar; af hverju er fylgi þeirra  ekki að dala í sama mæli og hjá Sjálfstæðismönnum? Lækkar einungis um 1,7%. Hverju skyldi það sæta? Ráðherrar og þingmenn Samfylkingar verið duglegri að láta í sér heyra og leyft sér að vera á öndverðu meiði við forsætisráðherra en ekki hefur verið minna um ósamræmi og hreinar lygar beint fram í andlit þjóðarinnar.  Eftir hvaða mælistiku eru menn að fara í könnunum sem þessum? Báðir flokkar jafnábyrgir þegar kemur að öllum ákvöðrðunartökum og afleiðingum.

Fylgi VG kemur kannski ekki á óvart, þeir hafa verið í tísku og einver flokkur verður að vera vinsælli en aðrir. Mér finnst þeir reyndar ekki eigia innistæðu fyrir þeirri  5,3%  aukingu sem nú kemur fram. Lítið heyrst frá Ögmundi sem hefur verið upptekinn í störfum sínum fyrir BSRB og lítt uppbyggilegt komið frá Steingrími J. Hann er hins vegar alltaf reiður og notar hvert tækifæri til að láta reiði sína í ljós. Ég gæti reyndar trúað því að einhverjir kunni að meta bréfaskrifitir og símtal Steingríms til nágrannaþjóða okkar og ákall um hjálp. Við vitum hins vegar að þær bónleiðir skila engu til okkar beint, Steingrímur er nefnilega í stjórnarandstöðu og ræður engu.

Fylgisauking Framóknar kemur etv. ekki á óvart, sama og síðast um 10,4% , Guðni búinn að vera sýnilegur og  harðorður; nánast kjaftfor. Kannski ekki uppfullur af tillögum en þó, hann hefur varpað einhverjum fram. Innanbúðarátök hamla flokknum ennþá greinilega.

En þá er það rúsínan í pysluendanum, raunverulegur fallisti þessarar könnunnar; Frjálslynda flokksins. Mælist nú með 3,3% fylgi, gott ef það er ekki lægra en síðast. Flokkurinn á góðri leið með að þurrkast út. Hverju skyldi það sæta? Ekki heyrst múkk í mönnum frá því að síðasti miðstjórnarfundur var haldinn. Allir þegja þunnu hljóði.  Einstaka boffs í formanninum þegar aðspurður um helstu úrræði gegn fjármálakreppunni. Ekki eru nýstofnuð félög á höfuðborgarsvæðinu og víðar farin að skila sér í auknu fylgi flokksins. Ekki heyrst orð frá FF vegna þeirra kannana sem hafa verið gerðar upp á síðkastið og benda á sídalandi fylgi. Hvað skyldi valda þögninni og fylgishruninu í raun?

Íslandhreyfingin mælist með 1% fylgi, það skyldi þó ekki verða að það næði að hækka á næstu misserum??

En ég get ekki annað en spurt mig; hvað ræður vali þeirra sem taka þátt í könnunum sem þessari? Skyldi þetta snúst allt um ESB umræður og aðild?

 

 


mbl.is Fylgi VG meira en Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennufall

Ekki laust við smá spennufall eftir að Katan fór í gær. Við áttum frábæra daga saman hér og náðum að afreka eitt og annað sem var á óskalistanum en ekki síst bara að vera saman og dingla eins og maður segir. Sælunni lauk sem sé seinni partinn í gær, þegar daman flaug út til Búapest.
Þetta var annars aldeilis skemmtileg uppákoma þegar daman mætti hér á tröpunum undir morgni. Veit að Haffinn studdi hana og hvatti með dáðum að drífa sig. Ferðalag á milli landa er ekki beint fýsilegur kostur hjá námsmönnum erlenis, fargjödl og gjaldmiðlar upp úr öllu valdi. Krakkarnir finna all verulega fyrir þessu ástandi þarna úti, allt er mun dýrara og erfittt er með allar millifærslur. En við vorum heppin, nú var hægt að fá flugmiða á sanngjörnu verði. Þessi ferð var allaa vega hverrar krónu virði.   Það sem mér þótti svolítið kómiskt að heyra var að vélin sem flaug til Búdapest í gærkvöldi var full af Ungverjum þannig að þeir eru greinilega farnir að nema hér land. Það ku vera mjög hagstætt að skreppa hingað í verslunarferðir þessa dagana. Hver hefði nokkurn tíma trúað því?Tounge

Þrátt fyrir þetta spennufall er ég svo sem ekkert búin að breiða upp yfir haus. Það er stutt eftir af önninni hjá krökkunum og til jóla og ég veit að tíminn verður fljótur að líða þangað til. Það er auðvelt að venjast góðu og kannski er það það sem gárar pínu hjá mér yfirborðið; það var svo ansi notalegt að láta stjana við sig og hafa félagsskapinn.

Ég finn að meðferðin er farin að taka aðeins í. Þjáist af ólýsanlegri síþreytu og úthaldsleysi. Sofna hér og þar og alls staðar. Enginn svefn virðist nógu langur.  Fótaferðtími nær ekki mörgum klukkustundum  og er að mestu bundinn við ferðir niður á LSH í geislana. Finn nokkuð fyrir rugguveiki og svima en á meðan ég er ekki með fötuna um hálsinn, ætla ég ekki að kvarta, enda engin ástæða til. Ég þoli meðferðina ágætlega fram til þessa. Verkjastatusinn er svipaður, engar stórvægilegar breytingar, heldur lengra á milli kasta en áður, ef eitthvað er. Það hlýtur að vita á gott. Ætli ég sé ekki að verða hálfnuð í geislunum af þeim 22 skiptum sem lagt var með í upphafi, minnir það en ekki viss. Hef steingeymt að skrá þetta hjá mér. 

Ég líkt og aðrir  landsmenn, er gjörsamlega miður mín yfir því ástandi sem hér ríkir í þjóðfélaginu og kvíðir fyrir því að lesa dagblöðin á morgnana. Alltaf nýjar fréttir af einhvers konar klúðri og/eða laumuspili. Útrásarvíkingar, seðlabankastjórar og ráðherrar benda hvor á annan, hver og einn heldur fram sakleysi sínu. Erfitt að treysta nokkrum þeirra, flestir orðið uppvísir um að a.m.k. hagræða hlutum eða kjósa að túlka þá eftir eigin höfði. Ég get vel skilið þá miklu reiði sem kraumar í landsmönnum en óttast þá þróun sem virðist ætla verða ofan á i þeim efnum. Það hefur aldrei þótt góðri lukku að stýra að fara fram með offorsi og látum, galdrabrennur og persónulegar offsóknir skila ekki heldur neinu nema niðurbroti og skemmdum, jafnvel á þeim sem síst skyldi. Það er ekki þar með sagt að við eigum að láta þetta hrikalega mál yfir okkur gangandi þegjandi og hljóðalaust. 

Staðan í efnahagsmálunum þjóðarinnar kemur við öll heimili landsins. Mitt er ekkert undanskilið því. Þetta er hins vegar ekki góður tími til veikinda. Mér til sælla minningar síðast þegar fjármál okkar gjörsamlega hrundu vegna aðstæðna. Ég ekki enn búin að sjá fyrir endan á þeim björgunaraðgerðum,  þegar næsta högg ríður.   Því er ekki að neita að þunginn er all verulegur. Reynsla mín af bönkum og öðrum lánasfyrirtækjum er erfið, þessar stofnanir gefa ekkert eftir og  taka lítt tillit til aðstæðna fólks þegar svona ber undir. Engin grið gefin né miskunn sýnd.  Vextir innheimtir að fullu auk vaxta- og vaxtavaxta og er hið opinbera ekki skást í þeim efnum.

Velferðarkerfið er svifaseint, Heilbrigðis- og tryggingakerfið er þungt í vöfum þannig að það tekur heila eilífð að fá afgreiðslu á þeim umsóknum sem sendar eru inn til að fá bætur o.þ.h. Þær bætur sem eru í boði þegar langvinnir og alvarlegir sjúkdómar banka upp á hjá fólki, dekka ekki framfærslukostnað, hvað þá að komast ekki nálægt launum hins almenna launþega. Þrátt fyrir afsláttarkort á heilbrigðisþjónustuna heldur einstaklingurinn áfram að greiða sína þjónustu en á lægra verði en áður. Sú upphæð er fljót að vinda upp á sig. Þó verður að segjast eins og er að mikið  munar um lyfjaskírteinin sem einstaklingurinn á rétt á. Í mínu tilviki skiptir sá kostnaður tugum þúsunda á mánuði, miðað við lyfjakostnað síðustu mánaða. 

Það er mjög freistandi að breiða upp fyrir haus og kasta þessum vandamálum frá sér.  Forðast að hugsa um þau, sofa bara út i það endalausa og láta ráðast hvernig það fer. Margur hefur ekkert stuðningsnet til að bakka sig upp og aðstoða.  Geta einfaldlega  ekki staðið í stórræðum, til viðbótar eigin veikindum.  Nú þegar fjármálakreppa er skollin , sjá stjórnvöld ástæðu til að koma til móts við einstaklinga með frystingu lána o.þ.h. sem er þarft og virðingavert framtak. Hið sama ætti að vera uppi á teningnum þegar fólki er kippt út úr sínu daglega lífi og atvinnu vegna lífshótandi veikinda.  Þörfin er ekki síðri undir slíkum kringumstæðum. Það þekkja sjúklingar, aðstandendur og foreldrar langveikra barna. Kannski leiðir kreppan af sér aukinni umræðu og skilning á þessum málum.   Ég hef ekki í hyggju að breiða upp yfir haus, hversu freistandi sem það er. Ég tekst á við þessi mál líkt og síðast en nú reynslunni ríkari og vonandi með betri þekkingu á frumskógarlögmálum kerfisins. En ég er ekkert yfir mig kát né full eldmóðs þegar kemur að því að ráðast á vandann og kerfið. Mér finnst nógu erfitt að kljást við bév... veikindin svo þessi vandamál bætis ekki við til úrlausnar. En það skal hafast.

 

 

 


Mótsagnir

Ekki laust við að mér hafi brugðið þegar geint var frá umræddu símtali fjármálaráðherra og A. Darling í Kastljósi í kvöld. Gat ekki betur heyrt og séð að fjármálaráðherra hafi farið heldur frjálslega með staðreyndir þegar hann var inntur eftir þessu símtali fyrir nokkru.  Þar kannaðist hann ekki við að nokkuð hafi komið fram sem gæti útskýrt harkaleg viðbrögð Darling sm leiddu svo til þess að við vorum sett á lista með hryðjuverkamönnum.  Árni lét sem hann kæmi gjörsamlega ofan af fjöllum. Ég eiginlega skil ekki hvernig hann gat leyft sér það miðað við þær staðreyndir sem nú liggja fyrir.

Ég ætla forðast að taka of stórt upp í mig núna, ætla að lesa mér betur til, en ég held að mér sé nú óhætt samt að halda því fram að mikil mótsögn er í því sem kom fram í máli fjármálaráðherra þann 7. október og þeirra staðreynda sem liggja nú fyrir. Ég skil reynda ekki af hverju þessi gögn sem Kastljós birti kvöld, hafa ekki fyrir löngu verið lögð fram, ekki síst af hálfu fjármálaráðherra á sínum tíma. Ég hef svo sem sagt það fyrr og geri það enn; ekki er öll kurl komin til grafar enn. Við eigum öruggleg eftir að sjá eitthvað meira skrautlegt af aðgerðum/aðgerðarleysi stjórnvalda. Þetta fer að verða eins og í spennandi reyfara.

Þó að mótsagna gæti í ansi mörgu af því sem stjórnvöld hafa látið frá sér opinberlega, breytir það því ekki að aðgerð Breta vegna bankamálanna er með öllu óafsakanleg og úr takt við það sem getur talist eðlileg valdbeiting. Að setja þjóðina á lista með hryðjuverkum er sennilega með grófari dæmum um mibeitingu valds stjórnvalda þó leitað væri langt aftur í söguna. Þá aðgerð eigum við Íslendingar ekki að liða. 

Það er ekki laust við að maður upplifii kvíðahnút í maganum í hvert sinn sem fréttir berast af fjármálaklúðrinu og vinnubrögðum stjórnvalda, fjárfesta og ,,óreiðumanna".  Svo íþyngjandi er þetta ástand að maður er ekki einu sinni að ergja sig á eða hafa áhyggjur af arfabrjáluðu veðri þennan sólahringinn. Ég breiddi bara teppi upp undir brigspalir, kveikti á kerti og tók fram prjóna. Ekkert annað að gera í stöðuni. 


mbl.is Samtal Árna og Darlings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langur dagur

Það gekk mikið á hjá minni í dag, blóðprufur, læknisviðtal og lyfjameðferð og síðan annað læknisviðtal og geislameðferð. Nóg að gera en sveif áfram á mínu rósrauða skýji með dóttur mína mér við hlið.  Ekki amalegt að hafa einkabílstjóra,  handlegg til að styðjast við og fúsar hendur til að stjana í kringum mig. Gæti alveg vanist þessu, í alvöru talað!Tounge

Fékk ágætist viðtöl, of snemmt að segja til um árangur meðferðar sem er nýja hafin en er nokkur nær um að vita hvað bíður mín næstu vikurnar. Þetta þykir töff meðferð þannig að ég á von á mikilli þreytu og öðrum aukaverkunum, ekkert sem kemur á óvart en gott að fá þetta ,,beint í æð" og ræða þessi mál þó ég ég að heita að kunna þetta.  Meðferðin beinist fyrst og fremst að því að minnka fyrirferðina þannig að hún verði skurðtæk að henni lokinni, það er svona draumastaðan. Nú ef ekki þá  verður hún ,,grilluð" í stuttu máli. Hið besta mál. Ég er ekki svo kvíðin fyrir því sem framundan er. Öllu munar að vita hver óvinurinn er og hvaða gereyðingavopn eru skilvirkust. Þá fyrst er hægt að bretta upp ermar og hefja varnar- og sóknabararáttu. 

Fer i lyfjameðferð alla miðvikudaga og má reikna með því að aukaverkarnirnar fari að gera vart við sig á laugardegi eða sunnudegi þegar áhrif steragjafar fjara út.  Aukaverkanir geislanna verða hugsanelga meira staðbundin og koma jafnt og þétt allan tíman. Fæ vikuleg viðtöl við bæði krabbameins-og geislækni þannig að málin eru í góðum farvegi. 

Ég mun sjá hvernig þessi næsta vika fer í mig áður en ég get ákveðið einhver frekari plön. Borgar sig að vera niður á jörðinni og vita hver staðan er áður en ég geri einhverjar skuldbindingar. Verð að sætta mig við að einbeita mér að því að auka úthald og getu mína hérna heima fyrir, áður en ég get hugsað út fyrir það. Er ágætlega sátt við það enda hvorutveggja af mjög skornum skammti hjá mér ennþá þó mér finnist ég hressari núna en fyrir viku, svona heilt á litið. Við erum enn í basi með að verkjastilla mig en ég hef enn úrræði þannig að ég þarf  alla vega ekki að engjast um tímunum saman og bíða eftir að verkir gangi yfir. Þó mér sé illa við alla lyfjasúpuna þá  dettur mér ekki í hug að þrjóskast við að nota lyfin þegar þeirra er þörf. En rosalega eru þau dýr, maður lifandi! Er ég ekki að tala um einhverja þúsundkalla á mánuði. Þarf að taka bókhaldið saman og senda Doktor Gunna. Jafnvel senda þingmönnum þær niðurstöður við tækifæri.  Var loksins að fá lyfjaskírteini í hendurnar þannig að róðurinn fer að léttast í þeim efnum.

Katan fylgdi mér eftir í allan dag, þessi elska og áttum við frábæran dag. Eftir okkar hefðbundna ,,quality time" í sófanum seinni partinn og smá fegurðarblund, settist Katan niður við lestur enda má hún ekki missa einn dag úr lestri og ég að kikja á verkefni. Höfðum það yfirmáta rólegt og nutum hverrar mínútu.

Morgundagurinn er enn óskrifaður, við munum haga seglum eftir vindi; umfram allt njóta þess að vera til og hafa gaman af. Svefninn enn í skralli hjá frúnni en það gerir ekkert til á meðan ég þarf ekki að vakna snemma eins og í morgun. Ég get þá alltaf lagt mig aftur, næga tíma hef ég til þess en ég vil helst vaka á sama tíma og skvísan.  Læt mig svífa áfram á mínu rósrauða skýi út í nóttina, þakklát eftir frábæran dag.


Á rósrauðu skýi

Frúin hefur svifið á rósrauðu skýi síðan í morgun, snerti vart jörðina. Fékk óvænta símhringingu kl. 05 í morgun frá Kötunni sem bað mig um að opna dyrnar. Hélt mig vera að dreyma, hef svo oft kjaftað við sjálfa mig í svefni undanfarið en lét mig hafa það að fara niður og tékka á málum. Viti menn; á tröppunum stóð mín ástkæra dóttir og brosti sínu blíðasta! Komin heim í stutt frí fram á sunnudag.

Heimsferðir fljúga núna beint flug til Búdapest og nú voru einhver sæti á vildarkjörum í boði þannig að þau voru fjögur sem tóku sig saman og skruppu heim í kreppuna, rétt si sona. Framundan langt helgarfrí hjá þeim frá skólanum þannig að það var ekki hægt annað en að stökkva á tækifærið. Ekki leiddist mér sá glaðningur sem mín beið á útidyratröppunum, ætlaði seint að trúa því að daman væri komin. Mikið knúsað og mikið brosað allan hringinn. Því miður átti Haffinn ekki heimangengt en Katan bætir upp að stórum hluta auðvitað. Hann átti stóran þátt í ákvörðun hennar að skreppa heim og studdi hana með ráð og dáð eins og vera ber. 

Það þarf vart að taka  það fram að ég hef varla snert jörðina í dag, allt verið óskaplega gaman. Er ég þá ekki að tala um ,,steragleði" heldur miklu, miklu meira.  W00tFékk fylgd í geislana og selskap í búðina. Var búin að gleyma því hve gott er að hafa selskap.  Ákvörðun Kötu hafði stuttan aðdraganda þannig að frökenin er hálf vansvefta en ber sig vel, að vanda. Henni er nokkuð létt að sjá að ég er ekki eins og ég sé við grafarbakkan og allt er að ganga skv. áætlun hjá mér. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið mjög erfitt fyrir krakkana að vera úti á meðan ég fór í gegnum greiningarferlið og fyrstu meðerð en við sumt verður ekki ráðið. 

Það er svolítið sérstakt hvað við mannfólkið höfum mikla aðlögunarhæfni. Það var erfitt fyrst eftir að krakkarnir fóru að vera ein í íbúðinni og hafa engan til að hugsa um nema dýrin og sjálfa sig. Ég vandist því ótrúlega fljótt og kom ákveðinni rútínu á enda nóg búið að vera í gangi og margt sem hefur þurft að melta.  Auðvitað hef ég saknað krakkanna og oft þráð að þau væri heima á meðan við tökum þessa lotu en ég hef verið og er mjög sátt við það sem þau eru að gera og á meðan allt gengur skv. áætlun og ég ekki við grafarbakkan finnst mér óþarfi að snúa lífi þeirra á hvolf, fresta námi þeirra o.s.frv. til þess eins að halda í hendina á mér.  Samskipti og samvera snúast í mínum huga um gæði en ekki magn. Þannig geta stuttar samverustundir gefið mun meira af sér en langar, tímalengd hefur ekkert með gæðin að gera. 

Framundan er tóm sæla hjá frúnni, ætla að njóta hverrar mínútu með dótturinni. Ekki margt planað enda kannski ekki í stakk búin til að standa í stórræðum. Ætla mér fyrst og fremst að njóta félagskaparins, hlæja og hafa gaman af. 5 dagar eru fljótir að líða og því eins gott að nýta þá vel. Ekki það að ég setjist ofan á prinsessuna, hún verður auðvitað að fá að hitta vini og vandamenn.

En vá Katrín Björg! Þér tókst að koma mér rækilega á óvart, svo mikið er víst. Velkomin heim, mín kæra. Þetta verður ljúfur og ómetanlegur tími. Er hægt að biðja um meira?

katrin_bjorg_705649.jpg

 

Til að auka enn á gleði mína fékk ég óvæntar fréttir sem eru betri en ég hef látið mig dreyma um.   Mér barst auk þess aðstoð úr óvæntri átt  við frágang á erfiðu og viðkvæmu máli sem léttir mjög á stöðunni og áhyggjunum. Hef eiginlega verið orðlaus sem gerist afskaplega sjaldan. Er farin að reikna alltaf með því versta, í hverju sem er en segið svo að góðir hlutir geti ekki gerst, meira að segja í kreppunni! Mér finnst eins og ég geti rétt úr kútnum eftir mjög erfiðan tíma sem hefur tekið sinn toll af mér og mínum. Kannski svefninn lagist líka (má ekki vera of gráðug)Whistling Það fylgir því óneitanlega mikill léttir að geta horft upp og brosað framan í tilveruna. Kannski er komið að góðæri hjá frúnni, (tí, hí).  Það væri toppurinn á tilveruni.

Það verður sæl og ánægð móðir sem leggst til hvílu í kvöld. Ég hlakka til morgundagsins. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband