Lífið í Selinu

Fátt eitt drífur á mína daga, grúfi mig yfir próf og verkefni, önnin búin og styttist í útskrift. Er á hraða snigilsins en þetta gengur og mun hafast í tæka tíð. Alltaf svolítill söknuður þegar maður kveður hópinn sinn en minn er að klára. Full ástæða samt til að gleðjast enda finnst mér forréttindi að fá að taka þátt í menntun þeirra. 

Hef auk þess sjálf verið í verkefnavinnu.  Draumarnir snúast um forystu og leiðtoga, stjórntæki hins opinbera enda hundruði blaðsíðna lesnar yfir. Búin með alþjóðavæðingu og  fyrirtækjagreingar en þarf að taka eitt sjúkrapróf í upplýsingatækni. Náði ekki að ljúka öllum verkefnum fyrir annarlok í desember, átti örfá eftir þannig að sumarið fer í það hjá mér. Er þá langt komin með diploma í opinberri stjórnsýslu. Á eftir að ákveða framhaldið. Mér finnst stjórnsýslan feiki skemmtileg en það er alltaf spurning hvort maður leggur á sig erfitt nám eingöngu vegna áhuga. Hingað til hefur aukin menntun ekki skilað mér bættum kjörum.

Það hefur gengið vel hjá krökkunum úti, bæði búin að vera í stífri törn og hlutaprófum. Skólanum lauk í dag, Kata tók 4 hlutapróf, Haffi eitt í gær og annað í dag, fullt stig húsa. Framundan er 10 vikna prófatörn hjá honum en Katan verður búin mikið fyrr, sennilega í byrjun júní. Sleppur við öll lokapróf sem hægt er að fá undanþágu í, fékk nógu hátt í öllum hlutaprófum. Þarf að taka tvö lokapróf sem ekki var hægt að fá undanþágu í. Haffi þarf að taka samtals 9 próf þetta vorið. Ekki veit ég hvernig hann verður að þeim tíma loknum annað en að hann verður þreyttur.

Ég hafði sett mér það markmið að fara út til þeirra í lok maí, sú ferð verður að bíða betri tíma. Fæ ekki fararleyfi út af fætinum. Hann hefst þó vonandi vel við. Enn rúmar 2 vikur þangað til ég má stíga í fótinn. Er farin að beygja hnéð nokkuð vel, á tíma hjá sjúkraþjálfara á mánudag. Þá kemur í ljós hvort ég sé á réttri leið. En ljótur er fóturinn. 

Er orðin viðþolslaus og langar að vera úti í garði enda full þörf á. Hefði viljað þiggja gott boð um að dvelja í sveitinni, hefði ekki slegið hendinni á móti sauðburði sem ég beinlínis dýrka. En ég verð að játa mig sigraða í þeim efnum. Harla ólíklegt að ég geti hökt um úti í fjárhúsum nema að slasa mig,  hvað þá að ég geri  eitthvert gagn.

Er farin að telja niður dagana þangað til ég get mætt til vinnu, er harðákveðin að láta á það reyna um leið og ég má stíga í fótinn. Geri ekki mikið gagn eins og er, en ansi er ég hrædd um að ég þurfi að byggja upp þrek á sem skemmstum tíma. Hef algjörlega tapað því niður.

Framundan er því nóg að gera á öllum vígstöðvum, þannig á það líka að vera. Er virkilega farin að sakna lafði Di, hún hefur aldrei verið svona lengi fjarverandi frá mér þau 10 ár sem hún hefur lifað, blessunin.  Vonandi hitti ég á einhvern sem er á leið vestur sem gæti kippt henni með sér á suðurleið. Ekki endalaust hægt að biðja aðra fyrir hana. Hún er hins vegar í góðum höndum og unir sér örugglega vel í sveitinni, það er ekki málið en fyrir eru all margir hundar og lafðin er ansi dyntótt í umgengni sinni við aðra hunda, hún ræður. 

Las á vef Vísis að stjórnvöld hyggðust breyta Íbúðalánasjóði. Ingibjörg Sólrún og Jóhanna leggja áherslu á félagslegt hlutverk hans. Ætli grunur minn sé á rökum reistur um að bankarnir fái annað hlutverk hans? Nógu bera þeir sig illa, þrátt fyrir milljarða veltu. Það verður spennandi að fylgjast meðWhistling

 

 

 


Örkönnun

Hafði nægan tíma til að fylgjast með í apóteki Lyf og heilsu í gær. Straumur manna lá inn eins og gengur og óvenju margir voru að kaupa Ibúfen eða Paratabs fannst mér. Þar sem ég var upp við afgreiðsluborðið heyrði ég hvað lyfin kostuðu og mér sundlaði þegar ég heyrði verðin.

Þegar kom að Ibúfen 400 mg töflum kostaði pakkningin, sem ég held að innihaldi 10stk.  rúmar 1300 kr. Ég saup hveljur. Svipað verð var á Paratabsinu, rétt innan við 1300 kr. en pakkningin var með 30 stk. Vá hvað þetta hefur hækkað hugsaði ég með mér og gerði mér svo lítið fyrir og fór inn á vef Lyfjastofnunar í kvöld og kannaði verðið á þessum lyfjum.

Niðurstaðan var lamandi. 30 stk. pakkning af Ibúfen kostar 742 kr. eða 24,73 kr. per töflu. 100 stk, pakkning kostar 805 kr. eða rúmar 8 kr. taflan en einungis  er hægt að fá svo mikið magn í gegnum lyfseðil. Í lausasölu kostar10 stk. pakkning sem sé rúmar 1300 kr. eða meira en 130 kr. taflan.

Þegar ég skoðaði verðið á Paratabs voru niðurstöðurnar ekki síður sláandi, 100 stk. pakkning kostar 486 kr. eða 4,86 kr. hver tafla á móti 40-43 kr. per töflu í lausasölu miðað við 30 stk. pakkningu.

Hjartamagnýl var selt á um 1400 kr.  en ekki veit ég hversu stór sú pakkning var. 100 stk. kosta 1006 kr. eða rúmar 10 kr. stk. skv. upplýsingum hjá Lyfjastofnun

Það ríkir frjáls álagning hjá lyfsölunum á lausasölulyfjum sýnist mér og það sem meira er, það virðist engin samkeppni. Ansi er ég hrædd um að samráð sé víðar en hjá olíufélögunum. Mig skal ekki undra þó vel gangi í lyfjabransanum, álagningin er sviívirðileg, alla vega þegar kemur að lausasölulyfjum.  Hef þó tekið eftir umtalsverðum verðmun á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.

Þar sem ekki er um sama magn í þeim pakkningum sem ég skoðaði get ég ekki reiknað út álagninguna en hver maður sér að hún er stjarnfræðileg. Eina vitið er að leggja á sig ferð til læknis og biðja um lyfseðil með meira magni en selt er án lyfseðils til að gera hagkvæmari kaup, þurfi fólk á vægum bólgueyðandi og verkjalyfjum að halda.

Hvernig skyldi málum vera háttað með væg sterakrem, sveppalyf og nikotínlyf? Fólk verður að fara að meira á varðbergi, þetta er ekki hægt.  Lyfsölur selja t.d hóstamixtúrur í lítratali þegar pestar eru að hrjá landan sem eiga að vera slímlosandi svo ekki sé minnst á hóstastillandi. En eins og einn ,,frómur" læknir sagði við mig forðum daga þá virka það glundur ekki neitt, eina lyfið sem slær á hósta t.d. er kódein.  Trúin flytur hins vegar fjöll.

Fáið ykkur lyfseðil hjá læknum ykkar þegar þess er þörf og forðist lausasölulyfin eins og heitan eldinn,  esskurnar... Heart


Upp, upp....!

Fékk nóg af eingangrun, hjálparleysi og leiðindum eftir þessa helgi. Búin að vera upp á aðra komin í sex vikur með allar bjargir í bú, ekki komist í búðina eða sjoppuna þegar mig langar skyndilega í eitthvað. Séð framan í fólk x1 í viku að meðaltali. Sem sé fékk nóg og greip til minna ráða.

Eftir að hafa velt möguleikum fyrir mér fram og til baka í gær, fór ég upp í minn fjallajeppa, færði sætið eins langt og ég gat og setti bílinn í gang. Var búin að reyna svo sem áður í einhverju kastinu á meðan ég var í gipsinu en varð að játa mig sigraða þá. Var stórhættuleg sjálfri mér og öðrum enda stöðugt að festa fótinn í bensíngjöfinni. En  nú  skyldi það ganga, get beygt hnéð þannig að allt var auðveldara. Brunaði upp á Skaga að sækja þangað gögn sem mig vantaði, prísaði mínu sæla fyrir litla umferð og kom mér heim hið snarasta. Steinlá náttúrlega á eftir enda yfirmáta ,,erfitt" verkefni en sannarlega þess virði. Ég hafði endurheimt frelsi mitt. Mæli kannski ekki með svona langferð í spelkunni en ég varð að prófa þetta.

Gerðist djarfari í dag, fór í mína ,,uppáhalds" verslunarkeðju í Mjóddinni, var farið að vanta lyf og nauðsynjar. Lét mig hafa það að hoppa á öðrum fæti eftir húsnæðinu þveru og endilöngu til þess eins að verða send til baka úr því apóteki sem var lengst frá bílastæðinu. Var másandi eins og flóðhestur við þetta sprikl mitt og skemmti ófáum með tilburðum. Skakklappaðist í næsta apótek og stóð þar upp á endan þar til ég fékk afgreiðslu eftir u.þ.b. 20 mín. fékk hluta af lyfjunum, þarf að fara aftur á morgun til að sækja rest, rýr lagerinn hjá Lyf og heilsu og það hjá báðum útíbúunum.

Lét aldeilis ekki þar við sitja, hoppaði fimlega í Pennan og keypti mér krossgátublað enda búin að krota í hverja einustu sem til var á heimilinu. Þaðan lá leiðin í ,,eftirlætis" verslun mína;  NETTÓ. Hafði vit á því að kaupa lítið inn enda takmarkað hægt að hengja á hækjurnar en skoppaði sæl með mína körfu um alla búðina og týndi í körfuna. Var reyndar farin að vera eilítið framlág á þeim tímapunkti en allt hafðist þetta.  

Þegar út var komið voru málin farin að vandast eilítið, ég krítarföl  með svima og ógleði átti eftir að koma körfunni að bílnum sem var spölkorn frá.  Þrekið búið og máttlítil í handleggjum enda ekki í góðri þjálfun, hm, hm. En viti menn, ætli riddari á skjóttum hesti hafi ekki birst og boðið mér aðstoð sína. Í fyrsta sinn sem slíkt gerist frá því ég varð hreyfihömluð. Fannst nú ekki auðvelt að þiggja aðstoð en sá mér ekki annað fært. Þessi elska skutlaði kerrunni að bílnum þannig að ég gat einbeitt mér að því að halda jafnvægi og koma mér á leiðarenda. Það hafðist. Ferðin tók tæpa 2 klst. í stað 30 mín venjulega en það var allt í lagi, ég hafði nægan tíma.

Það var lúin kona sem fór upp í bílinn sinn og ók heim á leið. Svo lúin að ég hef verið að fara eina og eina ferð til að sækja einn og einn poka út í bílinn í kvöld. Það er líka allt í lagi, það er ýmislegt á sig lagt fyrir frelsið og sjálfstæðið.

Get ekki sagt að ég hafi verið afkastamikil síðan en það sem mestu máli skiptir er að ég er sjálfbjarga og kemst minna ferða sjálf, a.m.k. að einhverju leyti. Þarf ekki að hringja og væla eftir aðstoð, takmarka mig við eina búðaferð í viku eins og ég sé í afdölum. Ég get farið þegar og eins oft mig langar. Skiptir þá engu máli þó innkaupin sú snautleg í hvert skiptið, ég get alltaf farið afturTounge

Það kom mér á óvart hversu mikið ég upplifði áreiti í kringum mig, bæði utan- og innandyra. Hef náttúrlega ekki haft neitt slíkt í kringum mig hér, hlusta einungis á sjálfa mig, köttinn og sjónvarpið. Heyri einstaka sinnum í einhverjum í síma en þó mjög sjaldgæft.  Skil nú betur hvað gamla fólkið er að tala um þegar því finnst erfitt að vera innan um margt fólk, það er mikið áreiti og tekur á ef maður er dottinn út úr slíkum aðstæðum.

Er sem sé búin að skipta um gír, segi stopp á hjálparleysi, einangrun og leiða. Nýliðin helgi eins sú lengsta og leiðinlegasta sem ég hef upplifað í lengri tíma. Afleiðingarnar allt of mikill tími til hugsana og auðvelt að detta niður í söknuð og minningar. Kemst kannski ekki langar vegalengdir með góðu móti ennþá en ég kemst alla vega minna nauðsynlegra ferða, það er það sem skiptir máli. Þó afleiðingarnar séu fjórfaldur fótur og þreyta, þá er það bara allt í lagi. Ég hef nægan tíma til að hvíla mig. 

 

swollen_foot Minn fótur er í líkingu við þennan eftir daginn en ekki geng í ég stuttbuxum þessa dagana þannig að það er í lagi

 


Ekki í lagi!

Ástandið hríðversnandi fer hér á landi og lífskjörin versna og versna. Þegar maður heldur að þeim geti ekki versnað meir, versna þau.  Nýjasta hækkun eldsneytisverðs var birt á visir.is. og á ég ekki til orð.  Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

,,Eldsneytisverð hjá N1 var hækkað fyrir stundu og kostar lítri af bensíni þar nú 158,9kr/l r en díselolíu 171,9 kr/l  miðað við sjálfsafgreiðslu". Menn birta ekki einu sinni tölur með þjónustu.

Eru svo menn undrandi á mótmælum vöruflutningabifreiðastjóra o.fl. í þeim geiranum? Þeir eru þó þeir einu í landinu sem mótmæla þessum hækkunum, það heyrist ekki boffs í öðrum neytendum! Skal hér ekki lagt mat á það hvort þeirra aðferðir séu hinar einu réttu en þeir hafa þó sýnt viðleitni.

Þjóðin sefur einhverjum Þyrnirósasvefni eða komin í það ástand sem kallað er ,,lært úrræðaleysi" sem felst í grófum dráttum í því að  þegar ekkert er hægt að gera, er gefist upp. Menn lympast niður og hreyfast ekki. Jarðskjálfti myndi ekki hagga mönnum. Ekki einu sinni fjölmiðlar ranka við sér. 

Mig skal ekki undra þó Samfylkingin hafi fundið sig knúna til að beina athygli þjóðarinnar frá þessum staðreyndum sem  og öðrum og færa þjóðinni ,,gleðifréttir".  Einkennilegt að á bak við yfirlýsingarnar liggur ekkert frumvarp til breytinga á eftirlaunafrumvarpinu fræga og þingi að ljúka innan skamms. Það svínvirkar greinilega, það heyrist ekki hljóð úr horni, menn eru búnir að gefast upp.

Ég var uggandi þegar Sjálfstæðismenn og Samfylking mynduðu ríkisstjórn á sínum tíma. Það hefur sýnt sig að sá ótti var á rökum reistur. Á meðan þeir fyrrnefndu einkavæða og tryggja hagsmunaaðilum ótakmarkaðan gróða og búsæld, hafa þeir síðarnefndu vappað um allan heiminn í því skyni að bjarga honum. Hugsjónin, stefnan og kosningaloforðin fóru fyrir lítið; stólana, titlana og ,,völdin" sem í raun eru engin. Titlar og embætti greinilega mikils virði.

Það hlýtur hver maður með meðvitund að sjá hvert stefnir. Þingvallastjórnin hefur þegar komist á blað sögunnar og spái ég því að störf hennar verði notuð sem kennslubókar´- og raundæmi í stjórnsýslufræðum um heim allan.

Og hún er rétt að byrja, 3 ár eftir af starfstíma hennar.................  

disaster

 

 

 

 

 

 

 

 Hvernig var kenningin um strútskheilkennið"?


mbl.is Höfðu ekki heyrt af fyrirhuguðu eftirlaunafrumvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarmálin

Mikið skelfing er mér farið að leiðast umfjöllunin um borgarmálin. Í hvert sinn sem maður opnar dagblað, fer á netið eða hlustar á fréttir, alltaf er umjföllun um borgarstjóra og/eða nýja borgarstjórnarmeirihlutan. Síðustu dagana er ekki rætt um annað en ráðningu Jakobs Frímannssonar. 

Það vill svo til að ég hef ekki nokkra einustu trú á þessum meirihluta og tel borgarstjóran of ,,brothættan" í þessu samstarfi. Fannst aðdragandinn ekki til þess að auka hróður hans né heldur Sjálfstæðismanna. Hins vegar er þetta meirihlutasamstarf staðreynd og menn verða að fara að skapa einhvern frið í borginni. Mér leiðist Stuðmaðurinn en ég get ekki gagnrýnt störf hans því ég þekki þau ekki. Það sama gildir með borgarstjóran, ég þekki hans störf ekkert en mér finnst hann ekki koma nógu vel fyrir, alltaf í varnarstöðu sem er kannski ekki óeðlilegt en kemur mér spánskt fyrir sjónir. Menn verða að hafa breitt bak í pókitíkinni en hins vegar fær maðurinn ansi harkalega meðferð. Þó þetta sé mín skoðun dugar hún ekki til þess að  ég flauti manninn algjörlega út af borðum og hlaupi á eftir dómum annarra. Ég vil fá að dæma menn sjálf á eigin forsendum og reynslu, ekki annarra. 

Ekki get ég sagt að mér hugnist þessi ráðning Stuðmannsins en hafa verður í huga að það hefur ævinlega tíðkast að pólitíkusar ráði til sín þá einstaklinga sem þeir treysta best til að koma þeirra málum í gegn. Pólitíkusar hafa ekki tök á því að sinna skyldum sínum og vinna sínum málum brautargengi á sama tíma, til þess vantar fleiri klukkutíma í sólahringinn. Á margan hátt er þetta fyrirkomulag skiljanlegt, ekki síst ef að koma á tilteknum verkefnum í verk á afmörkuðum tíma.

Strangt til tekið er ekkert athugavert við þessa ráðningu, það er ekki nauðsynlegt að auglýsa tímabundið starf sem hugsað er til skemmri tíma en 1 ár. Borgarstjóranum virðist heldur ekki veita af því að fá allan þann stuðning sem hægt er þennan tíma sem hann á eftir að sitja í borgarstjórastólnum. Baklandið er fámennt. Fordæmi eru fyrir stöðu Stuðmannsins.  Margur forrennari hans sem og ráðherrar og aðrir ráðamenn hafa stundað álíka mannaráðningar í gegnum tíðina sem oft hafa kallað á viðbrögð en mér finnst keyra um þverbak núna.

Mér segir svo hugur að það skipti ekki máli hvað borgarstjórinn og meirihlutinn munu segja og gera, allt verður tekið til umfjöllunnar og það á neikvæðu nótunum, ýmist með réttu eða ekki. Fjölmiðlar hafa sýnt að þeir eru þriðja valdið í þjóðfélaginu sem hefur bæði kosti og galla. Spurning um lýðræði í þeirra vinnubrögðum þar sem sumum er hampað og öðrum ekki.

Menn verða að gæta sín þegar kemur að gagnrýni á pólitíska andstæðinga, hún þarf að vera málefnaleg og laus við skítkast og persónuníð. Ég er innilega sammála stórum hluta þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á hinn nýja meirihluta borgarstjórnar en mér líki ekki framsetning hennar oft á tíðum. 

Þeir sem verða undir í pólitíkinni verða auðvitað sárir og svekktir, það sjáum við best hér í borginni.  Það sama er uppi á teningnum í Bolungarvík þar sem meirihlutasamstarf slitnaði fyrir nokkru, nýr meirhluti myndaður og annar bæjarstjóri ráðinn. Eðlilega bregðast menn við undir slíkum kringumstæðum en fyrr má nú rota en dauðrota. Af viðbröðgum sumra mætti halda að slík uppákoma sé sú fyrsta í sögunni, svo mikil er dramatíkin. Reynslan sýnir það hins vegar að dramatík, skítkast og níð skilar sér ekki með auknum fjölda atkvæða í næstu kosningum.

Mér finnst alla vega komið nóg af þeirri umfjöllun sem dynur yfir manni nótt og dag í fjölmiðlum, kalla eftir málefnalegri gagnrýni og eftirfylgni á störfum borgarstjórnar. Það eru 2 ár eftir af kjörtímabilinu og ef að umjföllunin verður óbreytt allan þann tíma er hægt að ganga að því vísu að borgarbúar sitji heima í næstu sveitarstjórnarkosningum og láti ekki sjá sig á kjörstað. 

Rakst á frábæran pistil hjá Þorsteini bloggvini mínum í kvöld sem segir allt sem þarf að segja um  mannorðsmorðingja. Set slóðina hér inn og hvet alla til að lesa hann yfir. Vona að hann fyrirgefi mér framhleypni mína en ég stenst ekki mátið. 

http://valli57.blog.is/blog/valli57/entry/534386/#comment1369648 

 

 


mbl.is Segir aðstoðarmann borgarstjóra biðjast vægðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gat verið verra

Þá liggja næstu 4 vikur fyrir, fæ að tylla í fótinn eftir 3 vikur, alla vega styttra eftir en búið er. Á að byrja í sjúkraþjálfun til að hreyfa hnéð, ekki talin geta ráðið við það sjálf. Leita með rauðum ljósum að sjúkraþjálafara á lausu. Fréttir dagsins gátu verið verri. Ný beinmyndun hafin við liðfletina sem er mjög jákvætt.  Fékk að sjá myndir í fyrsta skiptið. Úff, beinið mölbrotið frá liðhaus, reyndar bæði og niður eftir sköflungsbeininu, hafi ég skilið þetta rétt. Brá dálítið að sjá þetta á myndinni. Lítið rætt um framhald umfram næstu 4 vikurnar, þetta verður bara að fá að gróa, einhvern veginn. Það hefst með tíð og tímaWink

Losnaði við gipsið og fékk þessa líka forlátu spelku með fjöldan allan af frönsku rennilásum og ,,liðamótun", aldrei séð slíka fyrr. Nær eins hátt og gipsið en mikið mýkri, léttari og eftirgefanlegri. Seljandinn kom brunandi alla leið úr Hafnafirði til að færa mér hana til að ég þyrfti ekki að taka leigubíl þangað. Lá eins og prímadonna á bekk með kaffi og með því á meðan ég beið.  Yndislegt að  koma á endurkomuna, þar ganga hlutirnir, fumlaust og áreynslulaust eins og smurð vél. Engir flöskuhálsar. Öllum virðist líða vel í sínu starfi og viðmótið framúrskarandi. Það væri lærdómsríkt fyrir einhverja stjórnendurna að eyða þar einum eða tveim dögum og læra hvernig hlutirnir eiga og geta gengið fyrir sig. Ég bókstaflega dáist af kollegum mínum og öðru starfsfólki á deildinni. InLove

Þurfti að koma við í Orkuhúsinu á heimleið í eina rannsókn, klöngraðist þar upp tröppur og brekkur.  Hönnun andyris og húsnæðis einungis með gangandi fólk og hjólastóla í huga og þá með fylgdarmanni því fáir ná að keyra sig sjálfir upp allan hallan þarna.  Hef reyndar rekist á ótrúlegustu hindranir síðustu vikur, bæði í verslunum og á ýmsum stöðum sem gera fötluðum mjög erfitt fyrir. Hef þakkað fyrir að vera ,,fötluð" tímabundið og mun örugglega sýna þeim hóp meiri skilning en áður. Hef sjálf lent í því að krakki klifraði yfir fótinn á mér í ákafa sínum til að nálgast pulsupakka, verið beðin um að víkja og jafnvel ýtt til hliðar í verslunum og þar fram eftir götunum. Jafnvel lent í því að þurfa að hökta langar leiðir úr stæði þar sem frískir einstaklingar taka frá stæði fatlaðra til að spara sér sporin. Í öllu falli athyglisverð reynsla. 

Mér hefur verið tíðrætt um það hversu hratt tíminn líður. Fékk póst í dag sem minnti mig enn frekar á þá staðreynd.  Boðsbréf frá Háskóla Íslands og hamingjuóskir með 25 ára útskriftarafmæli. Finnst ótrúlegt að það séu 25 ár síðan ég fékk mitt prófskírteini sem hjúkrunarfræðingur. Á næsta ári eru 30 ár síðan ég lauk stúdentsprófi. Mér finnst þessir atburðir ekki svo íkja langt síðan.

Hef yfirleitt notið þess að starfa sem hjúkrunarfræðingur, verið mín hugsjón en einnig haft gaman af kennslu. Hef bætt við meiri menntun í kennslufræðum og á meistarastigi til að auka færni mína og starfsmöguleika.  Þegar ég lít í launasumslagið blasir sú sorglega staðreynd við að öll sú menntun sem ég hef bætt við mig, skilar sér ekki í hærri launum. Það gerir 25 ára starfsreynsla ekki heldur Í raun grátlegt að sjá hver staðan er en fleiri áhrifaþættir koma þar að málum veit ég. 

Ég geri mér ekki almennilega grein fyrir því hvað hefur farið úrskeiðis í launaþróun minna stétta. Ugglaust eru þar margir samverkandi þættir að verki. Ég hef ekki tekið mér sumarfrí þessi 25 ár frá því ég útskrifaðist nema til þess eins að starfa annars staðar. Hef alltaf þurft að gera það enda alið upp mín börn að stórum hluta ein. Hef unnið allt að 180% vinnu á 2-3 stöðum til að ná endum saman, ekki síst eftir að ég gafst upp á að vinna eingöngu vaktavinnu. Var orði þreytt á því að senda börnin frá mér önnur hver jól og áramót, geta ekki sofið á daginn eftir næturvaktir o.s.frv. 

Mér finnst þó eins og síðustu 6-8 árin hafi verið þyngri í þessum efnum, launaskrið í mörgum stéttum en ekki meðal hjúkrunarfræðinga og framhaldsskólakennara þannig að við erum komin langt aftur úr. Kaupmáttur launa minnkað og efnahagsástandið fer versnandi. Forysta þessara stétta er ekki öfundsverð að semja við þessa aðstæður. Stéttirnar búnar að fá nóg, krefjast leiðréttingar og lítil von til að ríkið sé reiðubúið til að ljá máls á þeim kröfum. Það blæs ekki byrlega og ljóst að það tekur tíma að fá leiðréttingu á þeim launamismun sem hefur myndast á milli sambærilegra stétta. En við getum líka kennt sjálfum okkur um, það hefur vantað samstöðu og slagkraft í okkur til að berjast gegn þessum launamismun. Það er ekki nóg að forystan berjist, við verðum að gera það líka og vera samstíga. 

Í fyrsta skipti á ævi minni hef ég alvarlega íhugað það að flytja úr landi og starfa erlendis. Ég held nefnilega að grasið sé raunverulega grænna hinum megin, að sú hugsun sé ekki einungis hyllingar. Ég hugsa að margur sé sammála mér í því að sennilega hafa tímar ekki verið jafn dökkir hér á landi síðan á 7. áratugnum þegar kemur að efnahagslegri stöðu okkar. Það er hins vegar feikinóg af peningum í þjóðfélaginu, þeir eru á fárra manna höndum. Þeir sem slysast í að mennta sig á öðrum sviðum en viðskiptum og fjármálum, verða að sætta sig við það að sitja eftir. Fæstir fá  sneið af velmegunarkökunni.

Það er hins vegar von fyrir suma í einkavæðingastefnu stjórnvalda. Þar liggja fjármunir, fjárfestingar og gróði. Einkareknar lækna- og rannsóknarstofur hafa sprottið upp eins og gorkúlur um allt höfuðborgarsvæðið, aðgerðir framkvæmdar víða þannig að sá geiri blómstrar. Mér þætti fróðlegt að sjá tölur um það hversu hátt hlutfall aðgerða fer fram á einkareknum skurðstofum úti í bæ, miðað við aðgerðir inni á sjúkrahúsunum. Hversu hátt hlutfall skyldi það vera í raun? 40% eða 70%??

Eins og ég hef stundum sagt; ,,if you can´t beat them, join them" þannig að ef fólk ætlar sér að starfa innan heilbrigðisgeirans þarf það að hugsa sinn gang í auknum mæli. Það kæmi mér ekki á óvart ef LSH verði einkavæddur, Pétur Blöndal mun leggja ýmislegt á sig til að komast hjá starfsmannalögunum úr því honum tókst ekki að afnema þau. Of mikil andstaða meðal fagstéttanna en Pétur mun ásamt fulltrúum atvinnulífsins finna einhverjar leiðir. Hefur auðvitað stuðning allrar ríkisstjórnarinnar til þess. Það er fátt sem getur stöðvað Sjálfstæðismenn í sinni stefnu núna. Þannig er það einfaldlega. Einungis spurning hvað þeir verða snöggir að afgreiða mál og frumvörp úr þingi

 

 

 


Næsta skref

Tímamót framundan á morgun. Fæ úr því skorið hvort brotin séu að gróa eðlilega og óhætt verið að fjarlægja gipsið og fara hreyfa hnéð hjá sjúkraþjálfara. Ekki laust við tilhlökkun á bænum sem þó er kvíðablandin. Er ekki vön að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig. Hvað skyldi koma upp næst  LoL

Geri mér ekki grein fyrir stöðunni, safna gríðalegum bjúg á fótinn þegar ég sit við tölvuna og vinn mína vinnu sem rennur ekki af fætinum yfir nóttina þannig að ég hef þurft að stytta viðveruna við viðhaldið mitt upp á síðkastið. Bjúgurinn tefur allt ferli gróanda þannig að ég verð að reyna að draga úr honum. Er ekkert óskaplega verkjuð í fætinum, veit aðeins af hnénu, sérstaklega á næturnar þannig að það er ekkert nein ákveðin vísbending um að ferlið sé ekki eðlilegt.  

Ákvað það strax eftir brotið að ég skyldi halda mínu striki eins og ég gæti varðandi mína vinnu, hausinn í lagi og hendurnar þannig að mér fannst eðilegt að gera eins mikið og ég gæti. Hef þó ekki verið á fullum dampi, eiginlega langt frá því. Sem betur fer hef ég mætt miklum skilning vegna þessa frá flestum en þó ekki öllum. Sumir eru frekar pirraðir út í mig, finnst hlutirnir ekki í nógu góðum farvegi og að ég standa mig illa.  Tek það svolíitið nærri mér, ég verð að viðurkenna það. Kannski hefði verið hreinlegra að fá afleysingu fyrir mig. Það hefði engu að síður þýtt tafir á ýmsu þannig að ég mat stöðuna þannig að betra væri að ég kláraði. En það er aldrei hægt að gera öllum til hæfis, það vita allir. Meira að segja ég og verð að sætta mig við það.W00t

Ég er harðákveðin í því að fara að vinna um leið og ég get tyllt í fót og keyrt bílinn. Þvílíkur lúxus sem það verður, ég fæ vængi við tilhugsunina. Hef vissar  áhyggjur af úthaldinu sem er nákvæmlega ekkert síðustu 5 vikurnar. Komin þó á hraða skjaldbökunnar eftir að hafa skriðið eins og snigill um hríð.  Verð örugglega einhvern tíma að ná upp fyrra þreki, finnst eiginlega stórmerkilegt hversu mikið svona óhapp getur sett strik í reikninginn varðandi líkamlegt heilsufar. Hefði seint trúað því að óreyndu. Mér er þó sagt að óhapp sem þetta sé mikið áfall fyrir skrokkinn og því meira eftir því sem maður eldist. Ég yngist ekki fremur en aðrir þannig að ég verð að kyngja því að svona eru hlutirnir. 

Þó ég losni við gipsið á morgun er ég ekki laus úr prísundinni, það mun örugglega taka tíma að aðlagast nýjum þyngdar- og jafvægispunkti og framundan mikil vinna að þjálfa upp vöðva og liði. Vöðvarýrnunin er ótrúleg eftir 5-6 vikna gipsmeðferð hjá öllum þannig að þetta tekur einhvern tíma. Ekki mjög langan þó, fái ég einhverju um það ráðið.Whistling

Það verður eitt mitt fyrsta verk að endurheimta mína ástkæru lafði Díönu sem blómstar reyndar í sveitinni og vill örugglega ekki koma heim en ég ætla að ráða því. Get hreinlega ekki beðið eftir að fá hana heim.  En ég tek eitt skref í einu, best að fagna ekki sigri of snemma og sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér áður en ég plana meira

 

 

 

 


Enginn er ómissandi

Ég verð að kyngja því að ég er ekki ómissandi, auðvitað fékk Katan sína flottu afmælistertu í dag og gjöf við hæfi. InLove

Kata og slaufa perla diönudóttir

 

 

 

Þetta ku vera Slaufa Perla Díönudóttir 

 

 

 

 

 

afmæli kötu 2008

 

 Kári sambýlingur bakað þessi flottu tertu, Wizard

 

 

 

 

 

 

 

 

Sem sé, fékk bæði pakka og köku. Móðurhjartanu léttInLove


Afmæliskveðja

Katrín Björg, þessi mikli orkubolti og gleðigjafi á 21. árs afmæli í dag. Mér finnst náttúrlega ekki svona langt síðan þú fæddist en staðreyndirnar tala. Verst að maður skuli eldast jafnhratt og þúTounge

Innilegar hamingjuóskir með daginn, snúllan mín.  Nú er vont að vera fjarri góðu gamni en við bætum það upp, mín kæra. Þigg hið góða boð þitt um pöbbaröltið og tek þig á orðinu.

Katrín Björg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Vonandi áttu góðan dag, treysti á súkkulaðiköku frá Kára!

Þú ert langflottustWizard


Helgi enn og aftur

Þá er helgi komin enn og aftur, sú síðasta nýbúin. Er undrandi á því hversu fljótt tíminn líður þrátt fyrir félagslega einangrun og einhæft líf síðustu 4 1/2 vikuna. Ætla varla að trúa því að ég sé búin að kúldrast hérna innandyra í bráðum 5 vikur. Hefði ekki trúað því að ég myndi þrauka þetta fyrir 5 vikum síðan.

Þessi tími hefur verið lærdómsríkur í meira lagi.  Hann hefur einnig verið ansi bragðdaufur, hef farið að meðaltali einu sinni í viku út í búð. Þarf að kvabba í fólki í hvert sinn sem ég þarf að fara eitthvert. Náði að ljúka kennslunni með aðstoð systurdóttur minnar sem kom mér upp eftir. Það skipti mig miklu máli og var mér mikils virði. Verð með 2 próf, þ.a. annað í dag og var ósköp fegin að komast til að vera viðstödd það en þurfti að væla í Sigrúnu systur og fá hana sem fylgdarmann minn og bílstjóra. Hún og  Sara hafa verið helstu fórnarlömbin allar þessar vikur. 

Þó ég sé orðin rosalegar leið á þessu hangsi innandyra og finnist lífið með eindæmum einhæft er mesta furða hvað mér hefur sjaldan leiðst. Hef reyndar fengið ,,köst" og fundist allt ómögulegt en þau hafa verið fá og staðið stutt yfir. Það hefur bjargað mér að halda í fjarkennsluna, held ég og svo er nóg að gera í náminu. Álagið á þeim vettvangi hefur verið ærið. 

Þó að ég þyki heimakær með eindæmum og sjálfri mér nóg, verð ég að viðurkenna að ég hef ekki trú á því að ég þrauki öllu lengur í eigin félagsskap 24/7 mikið lengur. Ég verð því örugglega eins og belja sem hleypt er út að vori þegar ég losna við gipsið og fæ að beygja hné smátt og smátt í næstu viku. Veit ekki hversu langt það er í að ég megi tylla í fótinn en það hlýtur að fara styttast í það. Krossa bara fingur og vona að brotin séu að gróa rétt og að ég hefi verið ,,afkukluð" af æðri máttarvöldum.W00t

Það er öruggt mál að enginn veit fyrr en misst hefur, það skil ég alltaf betur og betur. Rosalega verður það góð tilfinning að endurheimta hreyfigetuna, frelsið svo ekki sé minnst á sjálfstæðið. Þangað til þakka ég fyrir alla þá hjálp sem ég hef fengið. Heart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband