30.5.2008 | 22:04
Þjófar að nóttu
Mikið búið að ganga á hjá krökkunum í Debrecen. Óprúttnir þjófar hafa verið á ferð í íbúðahúsum nemenda og skiptir þá engu máli hvort húsin eru 4 hæða eða á einni hæð. Þeir skríða alls staðar. Katan hefur verið að vakna af og til undanfarnar vikur við rjátl við gluggana hjá sér en þeir snúa beint að götunni og eru á jarðhæð. Mikil skelfing hefur gripið um sig, eðlilega en hingað til hafa þeir sem heimsótt hafa krakkana að næturlagi látið sig hverfa um leið og Hafsteinn og Kata gera vart við sig.
Í nótt keyrði um þverbak. Sá óprúttni byrjaði á því að hringja á dyrabjöllunni hjá krökkunum og þegar enginn svaraði klifraði hann eins og ,,Spiderman" upp á 4 hæð þar sem hann kom auga á opna glugga. Var á góðri leið þar inn þegar ein ung frökenin hljóðaði upp yfir sig og skellti glugganum á hann. Fór umsvifalaust upp á þak og lét sig hverfa. Virðist alla vega ekki vera í þeim hugleiðingum að skaða aðra, einungis að finna eitthvað bitastætt eins og tölvur. Hafsteinn, eini karlmaðurinn í hópnum vopnaður hnífi og Katan vopnuð tennisspöðum og fleiru lauslegu fóru upp á 4 hæð til að líta til með þeim stelpum sem þar búa. Allir sluppu ómeiddir en skelkaðir og enginn svefn þessa nóttina.
Skilaboð til krakkanna hafa verið þau að ekkert stoði a hringja á ungversku lögregluna. Leigusalar leggjast beinlínis gegn því. En eftir átakasama og svefnlausa nótt, hitti Hafsteinn einhvern Ungverja í morgunsárið og sagði honum frá þessum atburði næturinnar. Sá hinn sami brást æfur við, hringdi á lögregluna sem mætti galvösk og leitaði af fingraförum á svölum, við glugga og víða hjá krökkunum. Eigandinn lét lagfæra bilaða svalahurð ,,med det samme", gluggar voru þéttir og þjófavörn var sett upp. Auðvitað var þjófurinn löngu bak á burt en vonandi verður þetta til þess að hann láti ekki sjá sig í bráð. Í öllu falli var sviðið eins og í bíómynd og tilfinningin örugglega ekki góð.
Þeir eru allnokkrir Íslendingarnir sem búa í þessu húsi og verður að segjast eins og er að fáum þeirra er rótt þessa dagana. Gat ekki hitt á verri tíma, allir á kafi í próflestri þar sem hver mínúta er skipulögð. Vont að missa nætursvefninn. Hafsteinn orðinn einn eftir í íbúðinni sem er á jarðhæð og ekki rótt þó hann vilji ekki gera mikið úr málum. Katan fór í morgun og er væntanleg eftir miðnætti til landsins, svefnlítil blessunin.
Ekki laust við að sú gamla hafi áhyggjur af frumburðinum. Vont að vita af honum einum í íbúðinni þó það verði að teljast harla ólíklegt að menn geri aðra atlögu. Þó er aldrei að vita, þetta hefur verið að gerast af og til í rúman mánuð, skilst mér, en keyrði um þverbak síðustu nótt.
Erfiður tími framundan hjá Hafsteini, fyrirferðarmikil og þung próf, mikill hiti úti og lestur frá 08.00-23.00 alla daga, dugar vart til. Er ekki væntanlegur fyrr en undir mánaðarmótin næstu. Hrikalegt að geta ekki verið þarna úti, þó ekki nema til að veita honum móralskan stuðning. Ekki viss um að sá stuðningur sé endilega heppilegastur frá móður samt. Mér virðist ganga það hálfilla að átta mig á því að hann er floginn úr hreiðrinu
Vonandi verður í lagi í nótt. Vont að fá þau ekki bæði heim samtímis en þau eru á sitthvoru árinu og mun meira prófálag á 3ja ári en því fyrsta þannig að það er ekkert annað að gera en að sætta sig við stöðuna. Það verður líka tekið á því þegar prinsinn kemur heim. Ég hef aldrei farið eitt eða neitt með mínum börnum á sumrin enda aldrei tekið mér sumarfrí. Þau nutu þess hinns vegar að eiga yndislega ömmu og afa sem voru með þau í sumarbústað og á ferðalögum. Þetta sumarið fer ég með mínum ungum eitthvað út fyrir bæjarmörkin. Þau verða náttúrlega að vinna mikið og ég vonandi farin að vinna fljótlega þannig að það verða helgarnar sem verða nýttar.
Mér er loksins að takast það að átta mig á því að við eigum að lifa í núinu, ekki bíða til morguns það sem hægt er að gera í dag. Við höfum ekki endalausan tíma og ég vil fá sem mest út úr hverjum degi sem hægt er. Mér liggur nefnilega á, hef farið illa með tíman fram að þessu. Treysti á að æðri máttarvöld hafi ,,afkuklað" mig þannig að fljótlega geti ég farið að hverfa til eðlilegs lífs á ný. Maður finnur það vel þegar eitthvað bilar, þó ekki nema fótur, hvað maður er bjargalaus og háður öðrum. Ástand sem ég þoli illa. Vinnan er mér, líkt og flestum, það vítamín sem heldur mér gangandi. Samúð mín er því mikil gagnvart þeim sem ekki hafa tök á því að stunda vinnu sökum örorku. Er ansi hrædd um að mín myndi taka slíku ástandi óstinnt upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2008 | 21:09
Það skelfur meira en jörðin!
Háalvarleg staða á Suðurlandinu sem ekki er enn séð fyrir endan á. Mér fannst reyndar fréttir svolítið lengi að berast, einkum af slysum manna og ástandi húsa og enn virðist eiga eftir að skoða dreifbýlið betur, fara á bæina, meta slys á mönnum og dýrum og skoða skemmdir. Eins og staðan er núna virðist þetta hafa sloppið ótrúlega vel en menn auðvitað í losti yfir þessum hamförum og margir eiga sárt um að binda.
Mennirnir eru máttvana gagnvart náttúruöflunum, það sýnir sig enn og aftur. Það gegnir öðru máli um hamfarir af öðrum toga; pólitíkinni. Þar eru hamfarirnar beinlínis af mannavöldum og oft geta menn brugðist við á þeim vettvangi.
Á sama tíma menn voru að berjast við náttúruna á Suðurlandi, hristist jörðin og skalf í minni, fyrrum heimasveit. Þar voru menn að ganga endanlega frá sveitarstjóranum og slíta meirihlutasamstarfi. Ástæðuna er ekki að finna í málefnaágreiningi. Meirihlutalistarnir höfðu gert samkomulag um að oddviti N-listans myndi gegna starfi sveitarstjóra í 2 ár, síðan yrði staðan endurmetin. Oddviti H-listans ákveður að það endurmat fari fram undir dagskráliðnum ,,önnur mál" á fundi sveitarstjórnar fyrir viku síðan og þá í formi tillögu þess efnis að segja upp sveitarstjóranum. Hefði verið eðlilegra að þau mál væru rædd á milli lista og sett síðan á formlega dagskrá. Oddvitanum reyndist illmögulegt að ganga hreint til verks enda ekki vanur því fremur en forrennarar hans. Það tíðkast að stinga menn í bakið á þeim bænum.
Oddviti H-lista er nú komin í meirihlutaviðræður við VG og ég fórna höndum. Fagurgalinn þvílíkur að það er auðvelt að láta blekkjast enda vinurinn þrautþjálfaður í blekkingum. Skyldu menn láta glepjast? Eru VG menn búnir að gleyma undirferlinu, valdagræðginni og undirlægjuhættinum sem þeir urðu þó beinlínis vitni af og hófst fyrir fyrir 5 árum? Getur það verið að menn séu svona fljótir að gleyma? Ég vil ekki trúa því.
Það þarf sérstakan karakter til að smeygja sér inn undir hjá fólki, skapa trúnað og traust, gera sig ,,ómissandi" og gildan í samfélaginu. Það er erfitt að berjast gegn slíkum einstaklingum, kafbátum vil ég segja, sér í lagi ef þeir gegna mikilvægum trúnaðarstörfum sem eru íbúum ómissandi í krafti embættis og starfs síns. Þeir eru nú samt margir sem hafa séð í gegnum þetta, sem betur fer.
Sveitastjórinn og hans stuðningsmenn eiga ekkert að vera undrandi á þessari stöðu og hefður átt að vera búnir að undirbúa sig betur. Svo virðist sem þessi staða hafi komið þeim á óvart ef marka má fréttir af málinu. Þetta hefur þó legið í loftinu frá upphafi. Umræddur sveitarstjóri og næsti maður hans á lista, hétu okkur Guðjóni því hátíðlega að í samstarf við oddvita H-listans myndu þeir aldrei fara. Honum væri ekki treystandi. Mynduðu meirihluta svo skömmu síðar þannig að ekkert er heilagt í pólitíkinni eins og við flest þekkjum. Kosningaloforð eru oft einskins virði þegar atkvæðin eru komin í kassan.
En hvað vakir fyrir ofurlækninum er ekki gott að segja. Ekki virðist hann ætla sér sveitastjórastöðuna sjálfur. Hann vill auglýsa. Kannski hann stefni á oddvitan, ég veit ekki. Hann er náttúrlega valdamesti aðilinn í sveitarfélaginu sem formaður byggðaráðs. Vill ugglaust halda þeim völdum eða hvað?
Skrautfjöðrum hans fer fækkandi þó , hann missir sinn yfirlæknistitil um næstu áramót. Ég þykist vita að það verði honum ansi erfitt áfall að komast yfir, enda maður sem vill ráða öllu, eins og honum varð einhvern tíman sjálfum að orði. Gárungarnir segja mér að hann sé hættur við að reisa sitt tæpl. 400 fm hús, láti grunninn standa, þrátt fyrir skilyrði um að reisa þar hús innan tilskilins frests sem er löngu liðinn. Gróa á Leiti talar um erfiða stöðu hans í viðkvæmum málum. Það kemur mér ekki á óvart.
Eitt er þó víst að hann er með einhverja strategiu á takteininum, ekki sá allra klókasti kannski en þó hafa menn oft blindast af fagurgalanum. Menn eru auðvitað í uppnámi, enn og aftur eru átök í málefnum sveitarstjórnar. Nú þegar allt átti að vera dottið í dúnalogn, allir vinir. Ekki hef ég komið þar nálægt málum og erfitt að kenna mér um. Hver skyldi vera bakarinn núna?
Hvað sem öllum fagurgala líður þá hefur ástandið verið erfitt síðustu árin í minni, fyrrum heimabyggð og ég hef vikið að áður. Þar eru menn í vondum málum sem ekki hljóta náðina fyrir augum ráðamanna og komast hvergi inn í ,,klíkuna". Margir sjá að grasið er grænna hinum megin enda eru heilu fjölskyldunar búnar að fá nóg og eru á förum. Skal engan undra. Ekki við mig að sakast líkt og áður tíðkaðist.
Sveitastjórinn og hans fjölskylda verða nú fyrir barðinu á þeim öflum sem hafa verið allsráðandi um langt skeið. Þau eiga samúð mína alla, það er ekkert grín að missa lífsviðurværi sitt, búsetuskilyrði, svo ekki sé minnst á mannorð, æru og fjárhag. Það er einlæg von mín að Dalamenn rísi nú upp í eitt skipti fyrir öll. Ég vona einnig að það ágæta fólk í VG láti ekki glepjast og sjái í gegnum fagurgalan.
Æðri stjórnvöld aðhafast ekki þó stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlög séu brotin hvað eftir annað nema að menn sendi inn kvörtun eða stjórnsýslukæru. Það verða menn að fara að horfast í augu við. Hvaða íbúi sem er, er í þeirri stöðu að kalla til æðri stjórnvöld og á ekki að hika við það. Sveitarfélög og sveitarstjórn er fyrir samfélagið og íbúana en ekki fyrir menn sem mistota sér stöðu sína og völd. Það er ekkert skemmtilegt að standa í slíkum málum en það er heldur ekkert grín þegar lýðræðið er fótum troðið.
Ætli það sé ekki farið að vera nokkuð augljóst hver meinsemdin er í samfélaginu og hver málatilbúnaðurinn hefur verið gagnvart þeim sem hafa þótt vera einhver ógn. Ég hef trú á því en hversu margir munu liggja í valnum áður en meinsemdin er fjarlægð er erfitt að segja til um. Það er undir íbúunum sjálfum komið. Menn verða að fara hrista af sér dofan og gera samfélagið að þeim draumastað sem það getur orðið. Sveitarfélagið hefur allt með sér, staðsetninguna, fegurðina og mannlífið. Það þarf að hreinsa endalega út meinsemdina. Sterkasta vopnið er að sameinast suður fyrir brekku, tilheyra stærra sveitarfélagi og vængstífa þannig þá sem ekki kunna að fara með völd.
Enn og aftur hallarekstur á dvalar- og hjúkrunarheimilinu en enginn veit með vissu hver hann er utan sveitarstjórnar enda umfjöllun og rekstur í höndum byggðaráðs og þar með ofurlæknisins. Staðan sjaldan opinberuð. Bókfærður halli nú um 9 milljónir, hver skyldi hann vera í reynd og af hverju er halli árum saman? Hvað skyldi valda því að ársreikningar voru fyrst samþykktir í maílok?
Eftir lestur minn á nýsamþykktri fundargerð sveitarstjórnar er ljóst að VG hafa fallið fyrir fagurgalanum og eru á leið í meirihlutasamstarf með superboy. Ansi er ég hrædd um að þeir eigi eftir að sjá eftir þeirri ákvörðun sinni þegar fram í sækir. Hvað þá?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.5.2008 | 00:19
Vorverkin
Gafst upp á ástandinu bæði innan hús og utan og réðst í tiltektir. Tók mig 3 klst. að skúra stofugólfið í gær og mín steinlá á eftir. Hefur ugglaust verið skondin sjón að horfa til mín en ég skyldi hafa þetta. Ekki var árangurinn beisinn en ég er alla vega búin að fara fyrstu umferð og þjálfa mig í að hoppa með moppuna. Um þrifin sem slík læt ég ósagt en ég þarf augljóslega að endurtaka þau.
Reyndi við garðinn í kvöld enda allt fullt af drasli og þvíumlíku. Grasið sprottið upp úr öll valdi. Útilokað að fá slátt fyrr en eftir 3-4 vikur, virðist brjálað að gera í þessum bransa. Því var ekkert annað að gera en að prófa sig áfram og sjá hvað ég kæmist langt. Hef ekki lítið skammast mín fyrir ástandið sem hefur verið eins og hjá niðursetningum. Hef reynt að leiða ástandið hjá mér en svo kom að því að það var ekki lengur hægt.
Í stuttu máli fór kvöldið í að taka til í garðinum fyrir framan húsið og slá örlítinn blett sem er á stærð við frímerki. Það bærðust alla vega ansi margar eldhúsgardínur í nágrenninu enda hlýtur það að hafa verið óborganlegt að sjá miðaldra kerlingu slá á tveim hækjum. Það kom sér vel að slátturvélin er létt. Ekki síður spaugilegt að sjá hina sömu raka saman grasinu og troða í poka.
Þetta hafðist, bletturinn illa sleginn en skárri en hann var, búin að hreinsa mesta draslið úr garðinum en lagði ekki í beðin. Svitnaði sem aldrei fyrr, ekki þurr þráður á mér þegar inn var komið en fegin að hafa drifið mig. Það er nefnilega allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og nægan hef ég tíman. Neita því ekki að það var ljúft að skríða inn fyrir stuttu, kvöldinu var vel varið finnst mér. Veðrið yndislegt.
Reynslan hefur kennt mér það að maður verður að treysta á sjálfan sig, væri löngu dauð ef ég gerði það ekki. Hef löngum átt erfitt með að biðja aðra um aðstoð. Auk þess hafa allir nóg með sig, það hef ég fullreynt síðustu vikurnar. Það kemur sér því vel að vera svolítið klikkaður og með einhverja sjálfsbjargarviðleitni. Ef maður gerir hlutina ekki sjálfur, eru þeir ekki gerðir, er mín reynsla.
Það vantar fjandi mikið upp á úthaldið sem er ekki neitt, neitt en vonandi kemur það smátt og smátt. Styttist í að ég megi tylla í fótinn og þá verð ég enn meira sjálfbjarga. Hitti sérfræðinginn eftir rúma viku og fæ þá vonandi skýrar línur um það hvenær ég megi byrja að vinna. Þangað til veitir ekki af því að fara að auka úthaldið og þrekið. Garðurinn er tilvalinn til þess. Ég skal finna leið til að vinna í honum. Veðrið bókstaflega æpir á útiveru þessa dagana.
Styttist í heimkomu Kötunnar, ef allt gengur upp í fyrramálið hjá henni í síðasta prófinu, lendir hún hér aðfaranótt laugardags. Þarf að bíða öllu lengur eftir Hafsteini sem er ekki væntanlegur fyrr en eftir mánuð. Mikið hlakkar mig til að fá líf í húsið. Þarf að komast vestur með einhverju móti til að sækja Lafðina sem er búin að vera í sveitinni síðan ég brotnaði en þar eru vinir í raun. Skömm af því hvað Lafðin er búin að vera lengi í fóstri. Enn sem komið er, hef ég ekki náð að upphugsa hvernig ég gæti farið í göngutúr með hana á hækjunum nema þá örstuttan spöl. Það myndi hún ekki sætta sig við, blessunin. Hún þarf að geta hreyft sig almennilega. En allt er þetta að koma, hægt og bítandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.5.2008 | 20:04
Samningar BSRB við ríkið
Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Hefði seint trúað því að Ögmundur myndi samþykkja slíka samninga. Snautlegir eru þeir, á því er enginn vafi og engin leiðrétting til ummönnunarstétta. Það er hins vegar álitamál hvort Ögmundur eigi að standa í kjaraviðræðum fyrir BSRB enda starfandi þingmaður. Í öllu falli er hann eins og blaðra sem allt loft er úr. Ekki skortir á stóryrðin, virðist fullur af baráttuvilja en þegar á hólminn er komið; ekki neitt.
Samninganefndir BHM og félags framhaldsskólakennarra eru ekki öfundsverðar. Ríkið búið að leggja línurnar; þetta er það sem verður samið upp á.
Ég er ekki viss um að félagsmenn samþykki samninga á þessum nótum, jafnvel þó þeir verði til 10-12 mánaða. Ég hef þá trú að bæði hjúkrunarfræðingar og framhaldsskólakennarrar séu löngu búnir að missa þolinmæðina. 20.300 kr hækkun mánaðarlauna er ekki upp í nös á ketti. Þessar stéttir hafa dregist það langt aftur úr launum. Ekki bætir það stöðuna að ríkið hefur ekki samþykkt að koma til móts við t.d. hjúkrunarfræðinga með álagsgreiðslum sem sannarlega hefur verið þörf á. Þar hefur stéttum verið mismunað. Einhverra hluta vegna hefur dómsmálaráðherra meiri völd í þessum efnum en aðrir.
Hjúkrunarfræðingar hafa þegar sýnt fram á samstöðu þegar á reynir. Ég er stolt af samninganefnd F.H.Í fyrir að hafna snautlegu tilboði samninganefndar ríkisins. Það er með öllu óáættanlegt.
![]() |
Samningar gerðir við ríkið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.5.2008 | 01:32
Sjúskuð umræða
Óttalega geta sumir verið á lágu plani. Það er ekki oft sem ég ergi mig undanfarið en kemst ekki hjá því þegar ég hef heimsótt vini mína hjá FF.
Magnús Þór fer hamförum eftir síðasta útspil sitt á Akranesi. Ég get vissulega tekið undir mörg sjónarmið sem komu fram hjá honum vegna móttöku flóttamanna. Stjórnvöld hafa ekki staðið nægilega vel að þeim málum og þurfa virkilega að hysja upp um sig brækurnar í þeim efnum sem og öðrum. Hins vegar get ég ekki fallist á þá aðferðafræði sem Magnús beitti, stóryrtar yfirýsingar í fjölmiðlum án undangenginnar umræðu innan bæjarstjórnar. Á þeim vettvangi var hann í góðri aðstöðu til að hafa áhrif á undirbúning flóttamannanna sem formaður velferarráðs. Hann kaus hins vegar að kljúfa meirihlutan og varpa sprengjum. Mér er því til efs að það hafi verið slakur undirbúningur stjórnvalda sem hvíldi svo þungt á herðum hans, það þungt að hann var tilbúinn til að fórna sæti sínu og samstarfi við kollega sinn. Er farin að hallast að því að hann sé á móti því að umræddir flóttamenn komi til landsins og þá einkum og sér í lagi í hans sveitarfélag. Í öllu falli var þetta útspil hans ekki klógt og skilaði honum engu. Hann glataði öllum trúverðugleika, trausti margra og rýrði fylgi FF svo um munar. Hann einfaldlega tapaði.
Ég hef fylgst með þeim Bakkbræðrum um hríð, Magnúsi Þór, Jóni M, Viðari og síðan Sigurjóni sem ég hef hingað til haldið að væri á aðeins hærra plani en þeir bræður. Mér fannst hann kjarkaður að taka slaginn í Norðausturkjördæmi enda öflugur pólitíkus. Það vantaði ekki mikið upp á að hann kæmist inn og hef ég þá skoðun að ef klofningur hefði ekki komið upp við Margréti Sverris og ef menn hefðu spilað betur úr sínum spilum, hefði hann komist inn. Það er auðvitað hundfúlt að missa þingsætið sitt, enginn efast um það en eins og allir vita þá er ekkert öruggt í pólitíkinni.
Bakkabræður eru iðnir við að kenna Kristni H um allt sem miður fer. Kalla hann flokkaflakkara og halda því fram að hann kljúfi alla flokka sem hann kemst í tæri við. Hann er þá býsna áhrifamikill ef honum tekst það, það verður að segjast eins og er. Skyldu menn vanmeta eða óttast styrkleika hans þá?
Það tekur ekki langan tíma að rifja upp pólitískan feril Kristins, hann var lengst af í Alþýðubandalaginu sem lagði upp laupana og stofnað var nýtt stjórnmálaafl; Samfylkingin. Hann kaus að ganga ekki inn í það afl og hefur haft sínar málefnalegu ástæður á bak við þá ákvörðun líkt og margir aðrir sem kusu að gera slíkt hið sama.
Næsti viðkomustaður Kristins var Framsóknarflokkurinn sem hann vann ötullega fyrir og fáir jafn trúir þeirri stefnu sem sá flokkur boðaðið. Meira að segja ég trúði þeirri stefnu framan af og heillaðist af henni. Manngildi ofar auðgildi, vöxtur og ég veit ekki hvað og hvað. Hins vegar kom í ljós að yfirlýst stefna var tómið eitt í hugum forystunnar sem fór allt aðrar leiðir en flokkurinn hafði samþykkt og studdi. Kvótamálið, einkavæðing bankanna, Íraksmálið og fjölmiðlafrumvarpið eru fáein dæmi um stór mál þar sem formaðurinn og hans skósveinar fóru gegn samþykktum flokksins. Formaðurinn fór einfaldlega sínar eigin leiðir, eftir eigin hentugleika án stuðnings varaformanns og oftar en ekki án stuðnings ritara flokksins.
Þegar sögulegar staðreyndir eru skoðaðar átti þessi foringjastjórnun formanns Framsóknarflokksins ekki að koma neinum á óvart. Halldór sóttist ungur eftir áhrifum og völdum, var orðinn varaformaður árið 1980. 1991 fór hann gegn eigin formanni í málefnum um EES samninginn og náði yfirtökum árið 1994. Halldórsarmurinn svonefndi;Valgerður Sverris,Finnur Ingólfs, Jóhannes G. Sigurgeirs, Jón Kristjáns og Ingibjörg Pálma fylgdu sínum formanni eftir. Á hinum vængnum voru menn eins og Guðni Á, Guðmundur Bjarna, Jón Helgason og fleiri. Sem sé klofningur innan flokksins í áratugi. Mönnum var skipt út eins og gengur; þegar einhverjiir hættu, komu nýjir inn í staðinn. Þessi valdahlutföll er enn við lýði þó að Halldór sé farinn.
Kristinn gagnrýndi forystuna hiklaust þegar hún fór gegn samþykktum flokksmanna. Eðlilega. Hann hafði kjark til þess enda trúr sinni sannfæringu. Hvernig hann klauf Framsóknarflokkinn get ég ekki með nokkru móti séð, hann var löngu klofinn í herðar niður áður en hann gekk í flokkinn. Framsóknarflokkurinn er enn klofinn þó Kristinn sé farinn.
Nú vilja Bakkabræður halda því fram að Kristinn hafi valdið klofiningi innan FF. Enn er ég undrandi og fæ ekki séð hvernig það getur staðist. FF klofnaði í herðar niður með inngöngu Jóns Magnússonar og félaga með þeim afleiðingum að Margrét Sverrisd og fleiri yfirgáfu flokkinn. Ekki var Kristinn genginn í flokkinn á þeim tíma. Bakkbræður fylkja sér í kringum Idolið sitt; Jón M sem greinilega liggur á að komast til valda. Varaformanninum liggur einnig mikið á. Það sjá allir sem fylgjast eitthvað með umræðunni og FF. Menn virðast ætla að núverandi formaður muni hætta innan skamms og ætla sér koma sér vel fyrir hjá kjötkötlunum. Hinn ungi ofurhugi Viðar Guðjohnsen virðist ekki þurfa mikla hvatningu og fer offari, er ofta en ekki beitt fyrir vagninum. Umræðan ævinlega sú sama; málefni innflytjenda og Kristinn H. en allt sem miður fer, er honum að kenna. Mikill er máttur mannsins. Hef þó ekki orðið vör við annað að hann haldi sig við yfirlýsta stefnu flokksins og verji hana út á við eins og honum ber að gera.
FF verða að huga að eigin stefnu í innflytjendamálum og framsetningu hennar. Bakkabræður eru með allt annan boðskap en kemur fram í opinberri stefnu flokksins. Framsetningin er með þeim hætti að fæstir skilja boðskapinn á annan veg en þann að þeir séu alfarið á móti innflytjendum, einkum og sér í lagi múslimum eins og margoft hefur komið fram í skrifum Jóns Magnússonar. Er einhver furða þó þeir fái gagnrýni??
Mér finnst þessi umræða orðin sjúskuð og þvæld. Bakkabræður geta ekki tekið gagnrýni án þess að fara hamförum og upp á háa- C. Að einhver dirfist til að vera á öndverðum meiði virðist vera í ætt við landráð, svo heiftug eru viðbrögðin. Menn verða að fara ákveða hvorum megin þeir ætli sér að vera í þessari umræðu. Sú stefna sem Bakkabræður hafa unnið eftir er alla vega ekki að skila FF hljómgrunn meðal landsmanna, hvað þá auknu fylgi. Strategian er á góðri leið með að ganga frá flokknum, um það er ekki að villast. Bakkabræður eru illa haldnir af strútsheilkenninu ef þeir sjá þær staðreyndir ekki. Klofningur innan FF varð fyrir margt eitt löngu og orsakirnar er að finna í baráttunni um völd og áhrif. Kristinn H. er ekki orsök þess klofings, meinsemdin er eldri og liggur dýpra. Þó máttur Kristins sé mikill þá getur hann ekki frekar en við unnið í og breytt fortíðinni. Svo einfalt er það.
Menn þurfa að grafa hausinn upp úr sandinum og átta sig á raunverulegri stöðu og meinsemd FF ef þeir ætla sér að kjósendur taki mark á þeim og tjá sig um málefni innlflytjenda í samræmi við yfirlýsta stefnu. Þeir sem velja þann kostinn að vera á öndverðum meiði viðstefnu FF, þurfa að koma út úr skápnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.5.2008 | 23:26
Stór dagur
Nóg um að vera í dag. Mætti upp á Skaga og fylgdist með útskrift frá skólanum. Fylgdi þar 14 væntanlegum sjúkraliðum ,,mínum" úr hlaði og verð að viðurkenna að alltaf er ég jafn stolt af því að koma að menntun nemenda, ekki síst fullorðinna nemenda.
Námið var ekki dans á rósum fyrir hópinn enda með vinnu. Byggðist upp á fjarnámi og staðlotum. Þvílíkar hetjur þessar konur mínar, flestar að drífa sig í nám eftir nokkurt hlé þannig að átakið var mikið enda hörkunám. Fyrir nítján mánuðum hvarflaði ekki að mér að mér tækist að sjá hópinn útskrifast. Fannst það reyndar erfið tilhugsun, vil klára það sem ég byrja á auk þess sem mér fannst ég ,,eiga" mitt í þeirra námi. Það hafðist þrátt fyrir skakkaföll á leiðinni. Enn eiga 4 eftir að útskrifast, þær munu gera það fyrir næstu jól og engin spurning að ég fylgi þeim úr hlaði einnig.
Ég hef ekki lagt það í vana minn að blogga um starfið mitt en nú er mín svo rígmontin að ég get ekki stillt mig. Hópurinn er föngulegur eins og sést á myndinni en ég fékk hana ,,lánaða" af heimasíðu skólans. Þær leystu mig út með gjöfum þessar elskur, fékk yndisleg blóm, hlýjar kveðjur og ofboðslega fallegt gullhálsmen frá þeim. Ég átti eiginlega bágt með mig, svo mikið var mér um.
Fleiri útskrifuðust í dag, bróðursonur minn hann Egill lauk stúdentsprófi frá Versló í dag. Stórkostlegur strákur og frábært að hitta ættingjana. Þurfti frá að hverfa allt of fljótt, stalst til að taka af mér spelkuna í dag svo ég kæmist í föt með tilheyrandi afleiðingum. Ég verð að súpa seyðið af því en það var fyllilega þess virði.
Þau klikkuðu ekki á höfðingsskapnum, Tóti og Systa, frekar en fyrr daginn. Ekki veit ég hvar bróðir fær alla sína orku og jákvæðni. Ég væri alsæl ef ég hefði brot af því sem hann býr yfir.
Takk fyrir mig öll
Það er stolt en lúin kona sem skríður í koju. Hvað í ósköpunum á ég nú að gera við allan tíman? Búin með kennsluna, lauk síðasta prófinu mínu fyrir helgi og búin að senda öll verkefni frá mér. Það verður einkennilegt að þurfa ekki að keppa við tíman og sitja löngum stundum fyrir framan tölvuna. Hef svo sem af nógu að taka, garðurinn, allar gardínurnar sem á eftir að sauma, sjúkraþjálfunin og svo auðvitað reyna að komast sem fyrst í vinnu. Vonandi styttist í það. Aumt að geta ekki skriðið eftir moldarbeðunum ennþá en þetta fer að koma.
En enn og aftur eru komin kaflaskil hjá minni. Nú er að horfa vel í kringum mig og rata réttu áttina. Hvernig skyldi takast næst?
Bloggar | Breytt 25.5.2008 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.5.2008 | 00:42
Hér kemur fréttin
Tek undir með dóttur minni, réttast væri að úthluta superdoktorinum og hans skósveinum smá reit á Norðurpólnum. Þar geta þeir vart skaða aðra en sjálfa sig. Kannski mætti setja þar upp nýlendu fyrir hagsmunapotara í pólitíkinni? Ekki svo galin hugmynd.........
Mér var hugsað til svipaðrar uppákomu í júní 2003 þegar menn ætluðu að skipta um oddvita án þess að þau mál væru rædd innan listans. Sömu menn, sömu áhrif greinilega
Menn voru enn að brjóta stjórnsýslulögin á síðasta sveitarstjórnarfundi, sátu beggja megin við borðið eins og oft áður, nú í sambandi við reiðvegi og hagsmuni Hestamannafélagsins. Hvenær skyldu menn rísa upp og senda kvörtun til ráðuneytisins? Það aðhefst ekkert í málum nema að til komi kvörtun eða kær.
![]() |
Brestur í meirihlutasamstarfi í Dalabyggð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2008 | 12:16
Víða brestur meirihlutasamstarf!
Þar kom að því fyrirsjáanlega í minni fyrrum heimabyggð. Ofurlæknirinn og valdamesti maður sveitarfélagsins í víðasta skilningi þessa orðs hefur slitið meirihlutasamstarf við samstarfsaðila sína. Honum hefur þótt sú ákvörðun það léttvæg að hann slítur samstarfinu undir liðnum ,,önnur mál" þannig að einungis útvaldir fengu tækifæri til að undirbúa sig. Kannast ég eitthvað við þá aðferðafræði? Afdalamennska eða bara framsóknarmennska?
Rök ofurlæknisins fyrir slitum á meirihlutasamstarfinu er fremur léttvæg, samningur á milli lista um skipan sveitastjóra til tveggja ára er runninn út. Oddviti N-listans setti þau skilyrði að loknum síðustu sveitarstjórnakosningum að fá stólinn. Enginn málefnaágreiningur er gefinn upp fyrir þessum slitum sem kemur mér ekkert á óvart. Málið snýst um völd og titla, ekki íbúana, sveitarfélagið né málefni. Ofurlæknirinn toppar svo sjálfan sig með því að segja í viðtali við Skessuhorn að þreifingar séu hafnar við VG en ,,Við munum hins vegar ekkert fara í fýlu þótt hinir flokkarnir semji. Það sem skiptir máli er að áfram verði samstarfsfriður eins og verið hefur"
Bíddu nú við, það hefur ríkt samstarfsfriður. Af hverju þá að slíta þessu samstarfi?? Ái hvað menn eru að skjóta sig í fótinn, báða reyndar. Hrikalegt að afhjúpa sig með þessum hætti! En engu að síður gott fyrir íbúana að fá staðfestingu á eðli manna.
Ég get ekki sagt að þessi frétt komi mér á óvart. Þetta var fyrirsjáanlegt strax í upphafi. Nú er boltinn í höndum VG manna og fróðlegt verður að fylgjast með framgangi mála. Ég veit að þeir voru ekki yfir sig spenntir fyrir núverandi sveitarstjóra. Það er sama við hvorn listan þeir myndu fara í viðræður, þeir geta seint treyst því að heildindi munu verða til staðar. Samstarf við hvorugan listan yrði aldrei trúverðugt, þeir munu aldrei geta treyst þeim. Endalaus fléttan, kíkuskapurinn og náin tengsl á milli einstakra fulltrúa H- og N-lista gera samstarf við hvorugan listan fýsilegt.
Fram til þessa hefur þótt sjálfsagt mál að sitja beggja megin við borðið við afgreiðslu ýmissa hagsmunamála sumra sveitarstjórnarmanna, þess vegna allan hringinn. Fráfarandi meirihluti hefur stundað þau stjórnsýslubrot linnulaust síðustu tvö árin. Allt hægt í krafti meirihlutans.
Mikil áhersla hefur verið lögð á það í umræðunni í minni fyrrum heimabyggð að mikill samstarfsfriður ríki í sveitarstjórn og einhugur. Öll dýrin í skóginum bestu vinir. Það er hið besta mál. En hvernig er þeim frið háttað? Íbúar hafa margir hverjir bent á það síðustu 2 árin að aldrei hafi verið jafn greinilegar ,,,blokkir" og ,,stéttaskipting" í samfélaginu. Klíkumyndanir aldrei jafn áberandi og nú. Menn finna greinilega fyrir því að vera ekki í réttu klíkunni og kemur það fram í öllum myndum mannlífsins. Hinir útvöldu eru sér á parti þegar kemur að tómstundum, áhugamálum og félagslífi, öðrum ekki hleypt að. ,,Hestamannaklíkan" er við völd, beggja megin við borðið þegar kemur að þeim hagsmunamálum og svona mætti lengi halda áfram að telja.
Áhrifamenn hafa stundað það að bola þeim úr sveitarfélaginu sem eru þeim lítt þóknanlegir eða ógna þeim á einhvern hátt. Hafa aðferðir þeirra verið þvílíkar og í anda fornmanna að hinn almenni Íslendingur myndi vart trúa þeim. Það hefur ekki þótt tiltökumál að kjúfa menn í herðar niður, svipta þá ærunni með málatilbúnaði, hvað þá að kippa undan þeim fótunum. Að sama skapi hafa áhrifamenn hyglað ,,sínum mönnum" á allan hugsanlegan hátt.
Ef mönnum væri alvara með að halda áfram þeim ,,einhug" og innilega samstarfi sem hefur ríkt, þá myndu menn semja um stöðu sveitarstjóra. Ofurlæknirinn myndi sættast að áframhaldandi setu sveitarstjóra. Ef N-listinn vildi tryggja áframhaldandi ,,blómstrandi mannlíf" myndi hann fórna stólnum. Þannig myndu málefnin og íbúarnir vera í forgangi.
VG eru í erfiðri oddastöðu. Það er smuga að þeir geti samið með því að vera með skriflegan málefnasamning, niðurnjörvaðan en ekki tryggt að sá samningur myndi halda næstu 2 árin. Réttast væri að láta þá tvo lista sem hafa átt í meirihlutasamstarfi síðustu 2 árin leysa málin og ná síðan sjálfir yfirburðastöðu í kosningum eftir 2 ár. Enn annar möguleikinn er að efstu menn þeirra lista myndu víkja til að tryggja hagsmuni sveitarfélagsins en ég þykist vita að það muni þeir aldrei gera.
Hvort skyldi nú ráða á næstu dögum; völd, áhrif og titlatog eða hagsmunir íbúa og sveitarfélagsins? Það verður fróðlegt að fylgjast með, ofurlæknirinn ætti í öllu falli að víkja eftir þessa uppákomu
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.5.2008 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.5.2008 | 21:08
Þar kom að því
Ég hef verið einn harðasti Eurovison aðdándi frá því að Íslendingar gátu fylgst með keppninni forðum daga. Síðustu árin var mín búin að missa trúna, enda alveg sama hvernig og hvaða lag við sendum, við komumst aldrei í gegnum blokkina.
En nú hafðist það og svei mér ef trúin glæðist ekki aftur. Regína Ósk og Friðrik Ómar stóðu sig frábærlega vel og það sem meira er, þau virtust njóta þess í botn að vera á sviðinu. Vissi um raddstyrk Regínu fyrir en svakalega er Friðrik Ómar góður söngvari líka. Mér finnst hann svolítið falin perla hjá okkur Íslendingum.
Í öllu falli verður fylgst með á laugardaginn, í fyrsta sinn í 3-4 ár. Ég bíð spennt. Til hamningju Euroband!
![]() |
Ísland áfram í Eurovision |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.5.2008 | 01:23
Fékk það í bakið
Búin að hitta minn sjúkraþjálfara sem fór ekki beint mjúkum höndum um þá gömlu. Fékk staðreyndir umbúðalaust; búin að sitja of mikið við tölvuna í staðinn fyrir að vera rúmliggjandi drottning. Vökvasöfnunin þvílík að viðkomandi hafði ekki séð annað og eins.Tefur fyrir gróanda og nýmyndun beins. Hef svo sem orðið vör við þetta sjálf og hefði mátt vita betur. Hef ekki verið á fullum dampi upp á síðkastið, ekki verið fær um það. En er það ekki svo að maður vill klára hlutina sjálfur?? Erum við ekki öll þannig að vilja standa í lappirnar fram í rauðan............?
Hef reyndar fengið fleira í bakið á mér, ekki verið að gæta þess að hafa ,,back up" fyrir öll skjöl í tölvunni og annað sem tilheyrir mínu starfi. Tekur mikið pláss í tölvunni og treysti of mikið á þetta fyrirbæri. Maður er löngu hættur að hafa bókhald á pappír. Hefndist heldur betur fyrir það á dögunum. Tapaði mikilvægum gögnum og skjölum og næ ekki að kalla þau fram. Var nógu mikið á eftir áætlun fyrir. Hefur þýtt það að ég þurfi að vinna megnið af skjölunum upp á nýtt. Urrrrrrrrrrr, garg og hvæs! Hvernig getur maður endalaust réttlæt þessi álög fyrir öðrum??????
Allt tekur á enda, það gera þessi vandamál einnig. Get ekki beðið. Það verður mitt fyrsta verk að grafa mig djúpt niður í garðvinnu hér í Selinu og fara að sinna vorverkum um leið og ég fá mitt frelsi. Mér finnst ég vera komin með vængi eftir að ég gat sest upp í minn bíl og keyrt. Verð hins vegar að kyngja því að lengri ferðir eru ekki raunhæfar ennþá og eins og ég var rækilega minnt á í dag; ég hef verið að vinna gegn batarferlinu sjálf síðustu vikur. Það var smá sjokk að fá það beint í æð. Hef verið að vinna gegn bataferlinu og sjálfri mér ,,óvart".
Erum við ekki að læra allt lífið? Hvað sem öllu líður þá er augljóst að ég hef ekki enn verið ,,afkukluð". Er enn við sama heygarðshornið þegar kemur að óláni. Kalla eftir breytingu þar á.