Upp, upp....!

Fékk nóg af eingangrun, hjálparleysi og leiðindum eftir þessa helgi. Búin að vera upp á aðra komin í sex vikur með allar bjargir í bú, ekki komist í búðina eða sjoppuna þegar mig langar skyndilega í eitthvað. Séð framan í fólk x1 í viku að meðaltali. Sem sé fékk nóg og greip til minna ráða.

Eftir að hafa velt möguleikum fyrir mér fram og til baka í gær, fór ég upp í minn fjallajeppa, færði sætið eins langt og ég gat og setti bílinn í gang. Var búin að reyna svo sem áður í einhverju kastinu á meðan ég var í gipsinu en varð að játa mig sigraða þá. Var stórhættuleg sjálfri mér og öðrum enda stöðugt að festa fótinn í bensíngjöfinni. En  nú  skyldi það ganga, get beygt hnéð þannig að allt var auðveldara. Brunaði upp á Skaga að sækja þangað gögn sem mig vantaði, prísaði mínu sæla fyrir litla umferð og kom mér heim hið snarasta. Steinlá náttúrlega á eftir enda yfirmáta ,,erfitt" verkefni en sannarlega þess virði. Ég hafði endurheimt frelsi mitt. Mæli kannski ekki með svona langferð í spelkunni en ég varð að prófa þetta.

Gerðist djarfari í dag, fór í mína ,,uppáhalds" verslunarkeðju í Mjóddinni, var farið að vanta lyf og nauðsynjar. Lét mig hafa það að hoppa á öðrum fæti eftir húsnæðinu þveru og endilöngu til þess eins að verða send til baka úr því apóteki sem var lengst frá bílastæðinu. Var másandi eins og flóðhestur við þetta sprikl mitt og skemmti ófáum með tilburðum. Skakklappaðist í næsta apótek og stóð þar upp á endan þar til ég fékk afgreiðslu eftir u.þ.b. 20 mín. fékk hluta af lyfjunum, þarf að fara aftur á morgun til að sækja rest, rýr lagerinn hjá Lyf og heilsu og það hjá báðum útíbúunum.

Lét aldeilis ekki þar við sitja, hoppaði fimlega í Pennan og keypti mér krossgátublað enda búin að krota í hverja einustu sem til var á heimilinu. Þaðan lá leiðin í ,,eftirlætis" verslun mína;  NETTÓ. Hafði vit á því að kaupa lítið inn enda takmarkað hægt að hengja á hækjurnar en skoppaði sæl með mína körfu um alla búðina og týndi í körfuna. Var reyndar farin að vera eilítið framlág á þeim tímapunkti en allt hafðist þetta.  

Þegar út var komið voru málin farin að vandast eilítið, ég krítarföl  með svima og ógleði átti eftir að koma körfunni að bílnum sem var spölkorn frá.  Þrekið búið og máttlítil í handleggjum enda ekki í góðri þjálfun, hm, hm. En viti menn, ætli riddari á skjóttum hesti hafi ekki birst og boðið mér aðstoð sína. Í fyrsta sinn sem slíkt gerist frá því ég varð hreyfihömluð. Fannst nú ekki auðvelt að þiggja aðstoð en sá mér ekki annað fært. Þessi elska skutlaði kerrunni að bílnum þannig að ég gat einbeitt mér að því að halda jafnvægi og koma mér á leiðarenda. Það hafðist. Ferðin tók tæpa 2 klst. í stað 30 mín venjulega en það var allt í lagi, ég hafði nægan tíma.

Það var lúin kona sem fór upp í bílinn sinn og ók heim á leið. Svo lúin að ég hef verið að fara eina og eina ferð til að sækja einn og einn poka út í bílinn í kvöld. Það er líka allt í lagi, það er ýmislegt á sig lagt fyrir frelsið og sjálfstæðið.

Get ekki sagt að ég hafi verið afkastamikil síðan en það sem mestu máli skiptir er að ég er sjálfbjarga og kemst minna ferða sjálf, a.m.k. að einhverju leyti. Þarf ekki að hringja og væla eftir aðstoð, takmarka mig við eina búðaferð í viku eins og ég sé í afdölum. Ég get farið þegar og eins oft mig langar. Skiptir þá engu máli þó innkaupin sú snautleg í hvert skiptið, ég get alltaf farið afturTounge

Það kom mér á óvart hversu mikið ég upplifði áreiti í kringum mig, bæði utan- og innandyra. Hef náttúrlega ekki haft neitt slíkt í kringum mig hér, hlusta einungis á sjálfa mig, köttinn og sjónvarpið. Heyri einstaka sinnum í einhverjum í síma en þó mjög sjaldgæft.  Skil nú betur hvað gamla fólkið er að tala um þegar því finnst erfitt að vera innan um margt fólk, það er mikið áreiti og tekur á ef maður er dottinn út úr slíkum aðstæðum.

Er sem sé búin að skipta um gír, segi stopp á hjálparleysi, einangrun og leiða. Nýliðin helgi eins sú lengsta og leiðinlegasta sem ég hef upplifað í lengri tíma. Afleiðingarnar allt of mikill tími til hugsana og auðvelt að detta niður í söknuð og minningar. Kemst kannski ekki langar vegalengdir með góðu móti ennþá en ég kemst alla vega minna nauðsynlegra ferða, það er það sem skiptir máli. Þó afleiðingarnar séu fjórfaldur fótur og þreyta, þá er það bara allt í lagi. Ég hef nægan tíma til að hvíla mig. 

 

swollen_foot Minn fótur er í líkingu við þennan eftir daginn en ekki geng í ég stuttbuxum þessa dagana þannig að það er í lagi

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Það er ekki að spyrja að dugnaðinum í þér kona.  Farðu samt varlega mín kæra.

Sigrún Jónsdóttir, 14.5.2008 kl. 09:26

2 Smámynd: Sigrún Óskars

Þú ert kjarnorkukona Guðrún - gangi þér vel í frelsinu. Farðu samt varlega.

Sigrún Óskars, 14.5.2008 kl. 14:42

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

farðu varlega......það borgar sig ekki að ofkeyra sig

Hólmdís Hjartardóttir, 14.5.2008 kl. 17:17

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Farðu vel með þig elsku Guðrún mín,þú ert yndisleg

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 14.5.2008 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband