Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
4.11.2007 | 22:43
Duglegri en ekki nóg
Búin að koma ýmsu í verk þessa helgina sem hefur beðið á verkefnalistanum. Það er að saxast á hann smátt og smátt. Kannski ég nái að núlla hann, hver veit
Systursonur minn, sem ég vil nú kalla svona hálfgerðan fósturson minn" og frú hans buðu mér í lambalæri a la Seljaland í gærkvöldi með öllu tilheyrandi. Þvlíkir listakokkar þar á ferð, ég tók svo vel matar míns að ég náði ekki að smakka á ostum í desert. Þá er bleik brugðið því ég stenst aldrei osta. Bý reyndar við þá fötlun að geta ekki drukkið rauðvín með þeim, verð fárveik af því "on the spot"! 'Eg gæfi mikið fyrir lausn á þeirri fötlun! Var eiginlega óvíg eftir öll herlegheitin í gærkvöldi en mjatlaði aðeins í tölvu- og verkefnavinnunni. Hitti Sigrúnu sys og hennar vin, frábær kvöldstund með þeim öllum og litlu skæruliðunum hjá frænda.
Að sjálfsögðu svaf ég fram eftir degi í gær en hálfhneykslaði sjálfan mig með því að vakna snemma í morgun. Vissi ekki hvað á mig stóð veðrið eiginlega. Ekki fannst mér ástæða til að leggja mig aftur og þá er mikið sagt. Ekki fór mikið fyrir svefninum síðustu nótt. Nágrannarnir voru með músíkina stillta á hæsta til kl.06 í morgun og skipti engu máli í hvaða horn ég skreið, alltaf heyrðist jafn mikið í tónlistinni. Þessi hjón stunda þetta x2-3 á ári og stundum á virkum degi. Ég prísaði mig sæla að nú skyldi vera helgi og ekki ræs í býtið. Bjöggi Halldórs og Vilhjálmur Vilhjálms skiptust á að reyna að syngja mig í svefn, með litlum árangri. Þetta var farið að minna mig á breimandi kattarvæl undir morgun. Þetta sleppur maður við í sveitinni!
Ég dreif mig því í tiltektir og að taka til gögn sem hafa beðið ALLT OF LENGI" eftir endurskoðanda. Hef reyndar ekkert náð í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þannig að ég tók sjénsinn og skutlaði gögnunum í pósthólfið hans. Vona að hann taki málið að sér, ef ekki þá heyrist mér vinur Siggu sys vera með einhvern endurskoðanda á takteininum. Þetta er eitthvað sem er búið að bíða allt, allt of lengi og allt komið í tómt tjón enda ekki hlaupið að því að finna öll nauðsynleg gögn. Sum þeirra eru hreinlega ekki til. Það var því ekki seinna vænna en að hrökkva eða stökkva. Vona að ég sé ekki sokkin upp að hálsi í því kviksyndi. Einhvern tíman hlýtur kerfið að geta skilið erfiðar aðstæður fólks og veikindi, eða hvað? Í öllu falli var léttirinn það mikill að ég rauk til og splæsti á mig stórum hamborgara í verðlaun!
Ætlaði heldur betur að heimsækja bróður sem ég frétti að væri kominn inn á LSH aftur vegna fylgikvilla, búin að skvera mig upp og sparstla í hrukkurnar og setja á mig andlit. Hringdi nú á undan mér í þetta skiptið en minn maður farinn heim, var mér tjáð sem er auðvitað frábært ef hann er orðinn nógu hress. Þeir eru ekki að halda í sína skjólstæðinga á þessari stofnun, fremur hitt að þeim sé hent út löngu áður en það er tímabært. A.m.k. er það mín reynsla, því miður. En ég verð bara að kíkja á vininn heima þegar hann treystir sér til, sá hörkunagli. Við mættum fleiri vera líkari honum.
Ég lét því lítið fyrir mér fara þennan daginn, afkastaði þó nokkur engu að síður. Aðvitað var ég búin á því seinni partinn og steinsofnað, í fína dressinu. Krumpur má þó laga, meira að segja á kinninni. Er tiltölulega nýkomin á stjá og eiginlega tilbúin að skríða upp í aftur. Finn fyrir bjév... beinverkjum, sleni og kvefi, enn aðra ferðina. Nú ætla ég ekki að láta í minni pokann fyrir einhverri pest, búin að fá nóg af þeim í haust. Þvílíkur bómullarhnoðri sem maður er orðinn, fuss og svei! Ég leyfi mér að mótmæla........ og bóka það hér með. Hef ekki fundið "rétta momentið" fyrir flensusprautuna en hún skal í mig fyrir næstu helgi. Verð að vera í fríi eftir hana, fæ alltaf aukaverkanir og slappleika.
Þungu fargi er af mér létt eftir stóra skrefið í dag, er auk þess búin að taka ákveðna ákvörðun er lýtur að öðrum málum. Hef látið fara illa með mig, ef svo má að orði komast. 'Eg sem hef alla tíð verið með samninga og stéttarvitundina á hreinu, létt gabba mig. Það er greinilega ekki fýsilegur kostur að vera fyrrum sjúklingur á vinnumarkaðinum. Á ég þá ekki við um mína kennslu. Hefði ekki trúað þeirri staðreynd að óreyndu, hef verið ríkisstarfsmaður meira og minna síðan 1974! Það var kannski fínt að fá eitthvað til að rífa mig upp úr þeim doða sem hefur einkennt mig að undanförnu. Í öllu falli er ég vel komin upp á afturfæturnar og ákveðin í að láta ekki bjóða mér allt.
Annars finn ég það vel að um leið og krökkunum líður vel, lyftist sálartetrið mitt upp. Þau eru á fullu í próflestri og eru að standa sig glymrandi vel. Katan bauð "dauðanum" birginn með því að bregða sér í gervi hans á hrekkjavökunni í Debrecen. Hún er eiginlega hálfóhugguleg, verð ég að viðurkenna. Henni tókst alla vega ná sínu markmiði í þeim efnum. Ég vona að hún fari að skipta út myndunum á heimasíðunni, mér bregður alltaf jafn mikið, svo gott er gervið. (hroll, hroll...)
Nú er það heitt hunang og trefill um hálsinn, ég ætla ekki að gefa eftir í þetta sinnið. Kannksi ég fari að gleypa C-vítamín, nógu dugleg er ég að ráðleggja öðrum það
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.11.2007 kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2007 | 01:45
Aumingjaskapur! Hvað?
Þvílíkt óánægð með aumingjaskapinn í mér. Náði engum markmiðum mínum í dag! Reis úr rekkju nálægt hefbundnum kaffitíma hjá venjulegu fólki. Ekki í lagi á þessu heimili
Dreif mig þó niður á LSH og minn bro bara útskrifaður. Ótrúlegur, vægt til orða tekið!
Búin að heyra í "mínu fólki" í kvöld; úff hvað ég er með mikla heimþrá. Í öllu falli verður í lagi með hrossin okkar Kötu í vetur; þvílíkur léttir Það er svo annað mál hvert framhaldið verður, það verður að koma í ljós. Ótrúlega gott að heyra í einum að mínum nánasta vini og vinum, hvað ég er rík að eiga þá að. Og það sem meira er, enginn eða "öngvir" taka þá frá mér
Í öllu falli er ég á leiðinni í sauðburð í vor, kem trúlega að gagni, svo fremi sem ég hef heilsu og þrek til. Ég skal!!!!!
Úff, ég endurtek; ég er að farast úr heimþrá, hana tekur enginn frá mér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2007 | 00:28
Heim
Komin heim frá Debrecen og Budapest. Þvílíkt flug með ónefndri ferðaskrifstofu. Ég er viss um að súrefnismettun hjá mér náði ekki yfir 60 á leiðinni. Stútfull vél, 200-300 manns? Illa lyktandi af alls kyns ódaun, ekki síst fúlri, gamalli áfengislykt enda engin loftræsting á leiðinni og til að bæta gráu ofan á svart; flugið lengdist. Hjálpi mér hvað mér var þungt á leiðinni. Þvílíkur fnykur! Þetta var eiginlega svakalegt
Grár hversdagsleikinn tók við, rigning og rok hér á Fróni og það allra lengsta aðflug sem ég man eftir. Það reyndar snjóaði uppi þó það ringdi niðri. Fékk þó ótrúlega hlýjar móttökur frá stóru systur sem mætti á völlinn til að hitta þá minni. Takk fyrir það sys. Góðar fréttir frá bróður, aðgerð gekk vel og allt lítur vel út. Hvernig má annað vera þegar hann á í hlut? Harðari en ands.... af sér og sá jákvæðasti sem til er. Ég veit að þetta fer allt vel og mun virða hans óskir sem og hans aðstandenda í hvítvetna.
Nóg búið að gerast síðustu daga, litla systir búin að vera veik en að koma til og gott að vita að hún er í góðum höndum. Ekkert annað að gera en að fara vel með sig.
Þessi ferð búin að vera frábær, Debrecen höfðar til mín en Búdapest ekki. Kannski vegna árstíðarinnnar, ég veit ekki? Fannst ég vera heima með krökkunum í Debrecen en "fílaði" ekki beint Budapest. Eftir sturtu í kvöld var vatnið kolbrúnt! Þarf að koma þangað að vori áður en ég dæmi endanlega. Aumingja krakkarnir komu heim í dag frá borginni og gasið´"úti" í íbúðinni, enginn hiti. Frídagar í dag og á morgun í landinu. Eins og Haffi sagði: ekkert að gera en að taka þessu, þetta er Ungverjaland! Margir tala um hægaganginn á Spáni og víðar en maður minn; það tekur hálfan dag að fá kaffibolla í Ungverjalndi, ef sá gállinn er á mönnum þar. Í öllu falli skítakuldi í íbúðinni enda frost á næturnar. Kata búin að kveikja á ótal kertum til að halda að sér hita, einhver rafmagnsblástursofn er til staðar sem strákarnir eftirlétu henni enda algjörar hetjur! Vonandi verða þau ekki veik vegna ofkælingar þarna úti, skólinn tekur nefnilega veikindi ekki gild. Ef þú ert veikur, þá ert þú fallinn! Miss u gues og takk fyrir mig
Kannski einhverju nær með vegleysu mína á krossgötunum, í öllu falli er fátt sem heldur í mig hér. Í raun nákvæmlega ekkert, hvort sem mér líkar það betur eður ei. Ce la vie og ekkert annað að gera en að vinna út frá því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2007 | 22:34
Debrecen
Ótrúlegt en satt; það hafðist að komast alla leið til Debrecen.Að sjálfsögðu gekk það ekki snuðrulaust fyrir sig að komast alla leið en það hafðist
Eitt og annað koma upp á , áður en þeim árangri var náð. Lagðist í flensu 4 dögum fyrir brottför og leit ekki út fyrir bót á henni til að byrja með en náði að væa út Doxytab í tæka tíð, áður en ástandið varð alvarlegra. Mikið gekk á, nóg að gera og tíminn naumur. Í miðju álagstímabilinu ot stuttu fyrir áætlaða brottför tókst mér að dæla bensíni á dieselbílinn minn en sem betur fer ekki nema um 35 lítrum enda dælan afspyrnu leiðinleg, að mér fannst og kalt úti. Við tók þvílíkt vesen og bið var hægt að mjatla þessu bensíni úr tanknum, að neðanverðu um örmjótt gat og bjarga vélinni. 20 þús krónur fóru í þessa fljótfærni mína auk tapaðs tíma. Smámál hins vegar á miðað við það að eyðileggja vélina
Síðustu klukkutímarnir fyrir brottför voru að sama skapi skrautlegir, þurfti að mettíma að koma hundunum á hundahótel, sækja nýja miða þar sem mér voru sendir rangir miðar, leysa út lyf fyrir Katrínu, redda varahlutum sem áttu að fara vestur og ég veit ekki hvað og hvað. Ætlaði aldrei að komast að heiman; var með svo þungan farangur að ég bifaði honum ekki út úr húsi! Var með 40 kg.!! Náði að rugga töskunni út fyrir dyr, ýta henni að bílnum en kom henni ekki með nokkrum móti upp í bílinn, engan veginn nógur sterk til að lofta henni. Þurfti að létta vel á henni áður en mér tókst að koma henni fyrir í bílnum; hafðist að setja hana í framsætið, farþega megin og þar sat hún föst, ofan á gírstönginni. Þannig keyrði ég bílinn til Keflavíkur.
Á meðan útréttingum stóð bakkaði ég á girðingu, bíllinn og girðingin slapp, ég og tíkurnar í sjokki. Það var því ein fegin sem settist upp í vélina á leið til Búdapest. Nú skyldi sofið og slappað af, ég vel staðsett í vélinni í 10. sætaröð. Var reyndar fljót að sofna út frá krossgátunni sem ég hafði meðferðis, ekkert smáljúft. Sú sæla stóð ekki lengi yfir, hvernig mátti það vera ef litið var á samsetningu farþega? Langflestir á leið til Búdapest í árshátíðarferð og því bróðurparturinn bókstaflega "á felgunni" Auðvitað er fólk ekki að leggja sig í slíkri ferð, hvers konar bjáni er ég að láta mér detta slíkt í hug?
Flugið gekk samt ágætlega, finn reyndar töluvert fyrir loftrþrýstingsmuninum á meðan flugi stendur, verð þung og ómótt en þetta gekk ágætlega. Að flugi loknu tók við 3klst. akstur til Debrecen í kolniða myrkri þannig á ég sá ekkert til. Það var hins vegar ein sem sofnaði eins og grjót um kl.02 að nóttu og rumskaði ekki fyrr en kl.13. 00 í dag. Svaf betur hér en nokkurn tíman heima hjá mér.
Búið að vera frábær dagur þó hann byrjaði seint. Yndisleg íbúð sem krakkarnir hafa ásamt vini sínum honum Kára sem tekur þeirr gömlu einstaklega vel. Fékk að skoða háskólann í dag; er ansi hrædd um að H.Í fölni í samanburðinum, ekki síst m.t.t aðstöðu til kennslu og fyrirlestarhalds. Ég fylltist lotningu þegar ég kom inn í þessar virðulegu og flottu byggingar.
Debrecen fremur litlaus bær, sá reyndar ekki nema lítinn hluta af honum í dag enda hellirigning, framan af. Ansi kalt í kvöld, trúlega við frostmark. Á morgun verður stefnan sett á Búdapest en þar ætlum við að dvelja fram á mánudag. Bíð spennt eftir því að skoða borgina og kíkja í verslanir. Ákveðin í að koma aftur í vor, vil reyndar helst flytja hingað alveg á meðan krakkarnir eru í náminu en hér er ekki vinnu að hafa og þó svo væri eru launin stjarnfræðilega lág. Læknar hafa sem nemur 120.000 kr. á mánuði, útilokað að láta sig dreyma í þeim efnum!
Nýt þess að vera í fríi, finnst svolítið skrítið að vera ekki á kafi í verkefnavinnu o.þ.h. en ætla að vera í fríi frá þeim málum fram á mánudag, verð að hlaða batteríin. Ótrúlega skrítið að vera gestur hjá börnum sínum, hér er ég eins og prinsessan á bauninni, gæti alveg hugsað mér að vera lengur
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.10.2007 | 22:56
Horft um öxl
Það er öllum hollt að líta stöku sinnum yfir farinn veg, ekki síst á tímamótum. Ég gerði það í gærkvöldi eftir ansi skrautlegan dag. Það er svolítið sérstakt að standa á þeim tímamótum að vera orðin hálfrar aldar gömul og líta til baka. 50 ár eru langur tími, mér finnst ég ekki vera það gömul og stutt síðan ég varð fertug.
Gærkvöldið fór í að rifja ein upp minningar yfir kertaljósi. Þannig vildi ég hafa það. Þurfti tíma með sjálfri mér til að líta yfir farinn veg og gera upp ákveðin mál í huga mér. Mér finnst í raun kraftaverk að ég skuli vera hér ennþá miðað við stöðuna fyrir ári síðan. Hún var það slæm og útlitið dökkt að mér datt aldrei í hug að ég myndi lifa það að verða fimmtug. Æðsta takmark mitt þá var að þrauka til vorsins og vera við útskrift Katrínar úr MR. Setti mér það markmið strax og ætlaði að hanga á því hvað sem tautaði og raulaði. Afsanna allar læknisfræðilegar kenningar.
En mér var greinilega ekki ætlað að fara strax og fyrir það er ég þakklát. Ég fæ lengri tíma með krökkunum og tækifæri til að lagfæra ýmislegt sem betur hefur mátt fara. Reynsla síðustu 6 ára hafa markað mig verulega, því er ekki að neita og engin ástæða til að fara í grafgötur með það. Sú atlaga sem gerð var að mér í pólitíkinni hefur verið mér æði kostnaðarsöm, bæði fjárhagslega, líkamlega og andlega. Öllu var tjaldað til og einskins svifist til að koma mér í burt og þegar ég hugsa til baka, finnst mér þessar aðfarir vera eins og í skáldsögu. Og það spennandi skáldsögu. Mannorð mitt var gjörsamlega traðkað niður í svaðið, ég sökuð um ótrúlegustu hluti og ávirðingarnar ævintýralegar. Þó ég hafi staðið uppi sem siguvegari þegar upp var staðið, þá var búið að svipta mig ærunni og búsetuskilyrðum. Slíkt er aldrei aftur tekið og mannorðið kemur ekki "sí sona" til baka.
Sá mykja sem ég var böðuð upp úr mun loða við mig það sem eftir er enda til þess ætlast. Gerendur í þeim efnum eru enn við völd, sterkari en fyrr og einungis spurning hver verður næsta fórnarlamb þeirra. Slíkir einstaklingar hætta ekki þegar þeir hafa fellt eina bráðina, heldur sækjast eftir meiri og meiri völdum yfir öðrum, með eigin þarfir og hagsmuni í huga. Ekkert stoppar þá.
Ég er ekki öðruvísi en "meðal Gunnan" og á því erfitt með að fyrigefa böðlum mínum sem ekki einungis ollu mér ómældu tjóni heldur og einnig eiginmanni og börnum. Ég er ekkert búin að gera upp þessi mál með sjálfri mér, er enn að vinna úr þessari nöpru reynslu og afleiðingum hennar. Makamissir og erfið veikindi hafa bæst við með tilheyrandi fjárhagsáhyggjum, vanskilum og öðrum skemmitlegheitum sem hafa svo verið á allra vörum. Ekki það að ég mun ekki gefast upp en mér gengur það seint að finna þessari reynslu jákvæðan farveg í framtíðinni. Ég trúi því að í öllu mótlæti felist tækifæri en það tekur tíma að koma auga á þau.
Þó mér gangi illa að fóta mig í þessu "nýja lífi" mínu og finna mér þann farveg sem ég vil þrífast í, er ég þó með eitt á hreinu; ég ætla mér að nýta þann tíma sem mér er ætlaður hér fyrir mig og mína. Ég legg á það áherslu að starfa í vinsamlegu umhverfi þar sem hæfileikar mínir, þekking og kunnátta er metin og hreinlega tími ekki að eyða neinni orku í að vera í neikvæðu umhverfi. Ég hef. líkt og allir aðrir, þörf fyrir að vinna að ögrandi verkefnum og hundleiðist að hjakka í sama farinu.
Reynsla mín úr pólitíkinni hefur kennt mér að treysta varlega nánunganum enda á ég fáa en góða vini en fullt af kunningjum. Ég er mjög sátt við það og mun áfram verða varkár þegar kemur að trúnaði. Eftir að hafa rifið upp fortíðina og draugana er ég nokkuð sátt við þau 50 ár sem liðin eru. Hef gert ótal mistök og sumt hefði ég getað gert betur. Annað hef ég gert vel, lagt allt mitt í og verið stolt eins og gengur hjá okkur öllum. Ég get ekki breytt fortíðinni, einungis lært af henni og nýtt þá reynslu í framtíðinni. Allt of margir nudda öðrum upp úr fortíðinni og líkja má sumum við rispaða grammófónsplötu í þeim efnum. Ekki smuga að slökkva á þeim einu sinni.Reyndar segir það allt um þá sem segja þarf.
Ég er ekkert öðruvísi en aðrir og þarf að gera upp mál fortíðarinnar með sjálfri mér áður en ég get haldið áfram og markað framtíðarstefnuna. Það þarf að fara fram ákveðið uppgjör, það er óumflýjanlegt og verður erfitt.
Stefnan er sett á Budapest upp úr miðjum mánuðinum. Það verður frábært að hitta krakkana í Debrecen, hlakka til eins og smákrakka. Stutt ferð en ómetanleg fyrir okkur öll. Enn er hitastigið þarna úti um og yfir 20 stig þannig að þetta verður fínt. Verð vonandi komin með allar niðurstöður í tékkinu þá. Næsta skref er að athuga hvernig best er að haga jólunum, þ.e hvort krakkarnir hafi svigrúm til að koma heim í nokkra daga en skólinn er til 23.des og prófin byrja strax eftir annan í jólum.
Framundan töff vika, enn og aftur en sé fram á meiri stöðugleika að henni lokinni. Helgarnar endast mér ekki til að vinna upp það sem út af stendur borðum eftir vikuna en ég sé fram á bjartari tíð í þeim efnum. Smátt og smátt mjakast þetta í rétta átt, á hraða snigilsins finnst mér á stundum en mjakast þó.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.10.2007 | 22:57
BESTU BÖRN Í HEIMI
Ég er ríkari en margur heldur. Ég á nefnilega 2 börn sem eru yndislegust á jarðríki. Vel gerð og þroskuð enda þurft að reyna margt í gegnum ævina með mér. Þau afa komið sterkari út úr erfileikunum og láta fátt buga sig. Einstaklega hlý og gefandi bæði. Eldklár og hörkudugleg. Hvað er hægt að biðja um meira í lífinu.
Ég fékk yndislega gjöf frá þeim í dag, á varla til orð. Við vorum búin að ákveða að fresta þessum degi þar til ég hitti þau úti. Síðan er stefnan að boða til teitis þegar þau komast heim.
Gjöfina má sjá á slóðinni:
http://katan.bloggar.is
Og þessi börn á ég ein, nánast alveg alein. Ólust upp að mestu leyti án þess að hafa föður til staðar en áttu góða ömmu og afa að ásamt frænkum og frændum og stjúpa. Þetta hefur mér tekist að afreka og verð ég að segja að ég lít á þau sem mesta afrek mitt í lífinu og lifi fyrir þau í dag. Ég skal sjá þau ljúka sínu námi og koma heim. Við erum fyrir löngu búin að ákveða að stofna fyrirtæki í heilbrigðisþjónustunni, þau læknar og ég sé um rekstur og hjúkrun. Það verða góðir tímar
Ég á yndisleg börn. Takk fyrir skrifin og blómin sem eru í hárréttum litum; haustlitunum.
Love u more, kiddos
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.10.2007 kl. 03:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2007 | 02:28
Sofið út
Það verður heldur betur soooooooooofið út á morgun, hjálpi mér hvað ég hlakka til
Vinnuvikan og allt aukastúss gengið yfir, einungis ein myndataka eftir sem verður þegar ég hef tíma til í næstu viku, verð eiginlega að finna tíma en ég tek mér ekki frí í vinnu til þess. Þetta verður bara að ráðast. Mér liggur ekkert á, þannig.
Búið að vera smá mál að pússla hlutum saman en einhvern veginn hefst þetta allt. Verið fjandi langt niðri undanfarið,alltaf jafn hissa á því hve fólk er fljótt að rjúka upp til handa og fóta og dæma. Get ekki breytt því og verð að læra að lifa með því. Læt mig oft dreyma að búa erlendis eða uppi á Vatnajökli, nógu langt í burtu. Það er nú einu sinni svo að við höfum val í felstum tilfellum þegar kemur að samskiptum og tengslum. Fjar- og dreifnám þýðir enfaldega minna af beinni kennslu pg samskiptum; eðlilega og það sem meira er nemandinn þarf að leggja munn meira á sg en ella
Ætla mér að sofa ræææækilega út á morgun og fara svo í mína óvissuferð. Hlakka ekki lítið til. Hef sjaldan leyft mér að gera eitthvað fyrir mig sjálfa en ætla mér að gera það nú.
Næstu dagar fara svo í að vinna upp "vanskil" í mínu starfi. Var búin með mína pligt og yfirferð verkefna en tölvan hrundi og því þarf ég að byrja upp á nýtt. Fara yfir öll verkefnin uppá nýtt en svona fara hlutirnir ef maður gætir þess ekki að sníða sér stakk eftir vexti.
Í öllu falli, liðinn erfiður tími og framundan ekki síður lerfitt tímabil. Umfram allt ætla ég að sofa á morgun, losna vonandi við fj........... kvefið og lumbruna
Er e-ð nýtt í fréttum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2007 | 00:12
Skríð saman
Er smátt og smátt að jafna mig á vonbrigðum og sárindum síðustu dagana. Er þeim ósköpum gædd að taka hlutina of alvarlega og inn á mig. Grátkökkurinn minni í dag en í gær. Hef ekki oft látið það eftir mér að hrína eftir að ég greindist enda koma aldrei annað til greina en að sigrast á þessum fjanda. Í það fór orkan. Trúnaðarbrest tek ég ótrúlega inn á mig, það hálfa væri nóg.
Síðustu mánuðir verið ansi viðburðarríkir í orðsins fyllstu merkingu og fátt af því eitthvað sem færði gleði og hamingju. Auðvitað hafa komið upp gleðistundir eins ov við útskrift Kötu, heimkomu Haffa o.s.frv. en um leið og ég hef risið upp á afturlappirnar, kemur eitthvað upp á sem kýlir mig niður. Virðist ofurviðkvæm fyrir neikvæðni og fordæmingu annarra. Er alltaf jafn hissa hvað fólk er fljótt að dæma án þess að kynna sér allar forsendur. Þegar kemur að hópum, þarf lítið til þess að koma af stað eins konar múgæsingu sem allir hrífast með, jafnvel án þess að hugleiða ástæður fyrir henni. Þeir sem þyrla upp moldvirðinu eru þeir sem ekki eru að ráða við sitt hlutverk og/eða eru vansælir.
Er ennþá týnd, veit ekki hvert ég vil fara og stefna í mínu nýja lífi. Vil ekki vera of fljótfær og ákveða eitthvað eingöngu til að gera eitthvað. Þetta verður allt að hafa sinn tíma. Eitt veit ég þó með vissu; ég vil ekki óbreytt ástand, til þess er lífið of stutt. En það fer ekki fram hjá mér að enn eimir af afleiðingum gjörða minna andstæðinga sem lögðu allt í sölurnar til að eyðileggja mig og mitt líf. Enn eru hömlur og áhrif vegna þeirra gjörninga sem hafa sín áhrif á mína möguleika og val í framtíðinni.
Þrái fátt annað en ákveðna stefnu og takmark til að vinna að. Er auðvitað með dagleg markmið en ég vil fara ákveða langtíma markmið sem fer að verða óhætt að gera ef allt kemur vel út úr tékkinu. Alltaf jafn yndislegt að hitta Sigga Bö, þar er framtíðarleiðtogi á ferð og þvílíkur leiðtogi. Fær mig alltaf til að brosa þegar ég hitti hann, það tekst fáum í seinni tíð. Sumir eru bara svona af náttúrunnar hendi.
Eina góða frétt fékk í annríki dagsins, meinið hjá bróður mínum staðbundið þannig að ég veit að hann fer í gegnum þetta með glans þó það verði töff. Hann á líka góða að sem skiptir sköpum.
Náði loks að ljúka verkefnum dagsins að mestu leyti, meira en helmingi lengur að öllu vegna hrusn vinnutölvunnar. Netið var úti hjá mér bróðurpartinn af deginum sem tafði mig enn frekar. Þetta hafðist en mín ansi hreint orðin framlág. Upp kl. 6 og langur dagur á morgun. Nú er það koddinn. Þessi vika hefur flogið áfram í bókstaflegri merkingu, styttist í helgina en ég ætla að vera að heiman og gera eitthvað óvænt og skemmtilegt fyrir sjálfa mig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.10.2007 | 01:21
Hrakfalllabálkur
Ég hef löngum þótt seinheppin. Systurdóttin mín spurði oft þegar hún var lítil; "undir hvaða óheillasnörnu" ert þú fædd Gunna? Móðir mín heitin lofaði mér því að sú stjarna myndi hverfa þegar ég yrði fimmtug. Nú er að láta á það reyna.
Búin að vera í mesta basli í dag, brjálað að gera varðandi ýmsan undirbúning, á tölvutæku formi, Nota bene! Og hvað gerist? Vinnutölvan hrundi í miðjum klíðum! Ekkert "back up" hjá minni, öll vinnuskjöl og mín vinna læst inni í tölvu sem ekki fer í gang og óvist hvort og þá hvenær þau skjöl verða endurheimt. Áiiiiiiiiii, týpískt ég.
Auðvitað sjálfri mér að kenna, átti að vera búin að hugsa út í það að hafa varan á, gerði það samt ekki. Búinn að koma gamla jálkinum mínum í gang, sá hefur sjálfstæðan vilja. Ótrúlegt hvað orð þurrkast út eða bætast við, án þess að ég biðji um það. Vista núna skjalið eftir hverja setningu. Jálkurinn auðvitað barn síns tíma en þó fær um að vista.
Annars mikið búið að ganga á, miklu meira en ég hefði kosið. Alltaf jafnundrandi á því hve mannskepnan er grimm og ég alltaf jafnleitandi yfir svörum; af hverju? Bláeyg frá fæðingu , því viðhaldið í uppeldinu enda göfugt að dæma engan nema á réttum forsendum, sem enginn hefur í raun. Það hefur lítt breyst þrátt fyrir b Hef nú oft verið kölluð "vælukjóinn" í mínum systkinahóp en ákvað að setja skráp á mig fyrir nokkrum árum. Sjaldan látið það eftir mér að "væla" en svo bregðast krosstré sem önnur.
Er eignlega búin á því eftir daginn, ótrúlega mikið búið að ganga á og flest fremur neikvætt og niðurrífandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2007 | 18:01
Nýja ríkisstjórnin
Síðustu dagana hefur hin nýja ríkisskjórn verið iðin við að kynna stefnu sína og aðgerðir. Fjármálaráðherra hefur upplýst þjóðina að aldrei hefur staða í ríkisskassanum verið jafn góð og nú, við eru sem sé skuldlaus. Frábærar fréttir ef sannar eru og það hlýtur að vera.
Þó ríkisflokkarnir séu í æpandi mótsögn hvorn við annan í mörgum, ef ekki flestum málum virðast þeir ekki sjá ástæðu til að nýta þessa góðu fjárhagsstöðu ríkisins til að bæta kjör sjúkra, öryrkja og aldraðra. Svo virðist sem þeir sjái enga þörf til þess en enn ein nefndin var skipuð fyrir skömmu til að skoða þau mál.
Flokkarnir virðast þó hafa komið sér saman um það að hér verði tvöfalt heilbrigðiskerfi og skal engan undra þegar litið er til þess hver heldur um stjórnartauminn í þeim málaflokki. Heilbrigðisráðherra hefur alla tíð verið hlynntur einkavæðingu enda markaðsmaður mikill. Formaður heilbrigðisnefndar setti á laggirnar einkarekið fyrirtæki fyrir all nokkru og "leigir" hjúkrunarfræðinga og annað menntað heilbrigðisstarfsfólk til hinna ýmsu stofnana, þ.á.m. til LSH. Hefur reyndar dregið sig úr sviðsljósinu og etv. búin að selja sinn hlut í fyrirtækinu en ég er þó ekki viss um það. Nú LSH hefur keypt þjónustu hjúkrunarfræðinga og nemur kostnaðurinn við þá þjónustu mun meira en greiða þarf opinberum starfsmönnum ríkis. Hjúkrunarfræðingar frá þessu einkarekna fyrirtæki hafa sem sé umtalsvert hærri laun frá sínu fyrirtæki en sá sem er fastráðinn við spítalann og liggur í augum uppi að þessi þjónusta fyrirtækisins er ekki gefin. Nú er LSH búið að segja upp samningum við þetta einkarekna fyrirtæki og hyggst flytja inn erlenda hjúkrunarfræðinga til að manna stöður.
Gott og vel, hef ekkert á móti erlendum hjúkrunarfræðingum en geri þá skýlausu kröfu um að þeir verði talandi á íslenska tungu. Annað kemur ekki til greina. Nóg er lagt á skjólstæðinga sjúkrahúsanna í öllum þeim hraða, manneklu og "kaosi" svo ekki bætist við samskiptaleysi vegna málleysis. Í mínum huga er enginn vafi á því að þessi leið hjúkrunarstjórnenda LSH verður æði kostnaðarsöm. Hingað koma ekki erlendir hjúkrunarfræðingar nema að einhver gulrót fylgi. Gulrótin hlýtur að felast í fríum ferðum til og frá landi, niðurgreiddu húsnæði, góðum launum og öðrum bytlingum. Svo bætist við kostnaður vegna tungumálakennslu sem líklega verður á vinnutíma. Ofan á þennan kostnað, bætist við aðlögun og starfsþjálfun í nýju starfi og ókunnu landi.
Það er í raun ótrúlegt að fylgjast með úrræðaleysi stjórnenda í þessu tilviki. Lang eðlilegast væri að greiða íslenskum hjúkrunarfræðingum sómasamleg laun, ekki síst til að laða þá mörg hundruð hjúkrunarfræðinga til starfa sem hafa leitað í önnur störf. Flestir þeirra búa yfir mikilli þekkingu og reynslu sem hefur verið æði kostnaðarsamt fyrir stofnanir að tapa.
Heilbrigðisráðherra sér enga ástæðu til að leggja þeim hugmyndum lið er lúta að því að greiða fyrir tímabundið álag. Það eru ekki margir mánuðir síðan hann dásamaði hjúkrunarfræðinga og lækna eftir brunameðferð sína, og tíundar í viðtali að hann hafi orðið var við mikið álag á þessum stéttum sem vinni óeigingjarnt og ómetanlegt starf og bæri að virða sem slíkt. Alveg rétt hjá Gulla.
En nú er Gulli með hugann við annað; hið nýja tvöfalda heilbrigðiskerfi þar sem þeir, sem geta borgað, fá betri þjónustu og njóta forgangs. Búið að vera kappsmál sjálfstæðismanna í mörg ár. Það máttu framsóknarmenn eiga, þeir stóðu í vegi fyrir slíkri þróun þó margir hefðu kosið annað á framsóknarheimilinu.
Hvað segja félagshyggjumenn nú? Þessi stefna algjörega í trússi við gildi félagshyggjunnar.
Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar er að veita landbyggðamönnum sem búa í sjávarplássum eða öðrum þar sem atvinnuleysi vofir yfir, 200 þús. kr. flutningsstyrk til að flytja til höfuðborgarinnar þar sem vantar fólk til starfa. Göfug hugsun og kannski logísk eða hvað? Eignir manna sitja eftir, verðlausar, seldar sem sumarbústaðir fyrir slikk og menn byrja með 200 þús, kr í höndunum á nýjum stað. Sú upphæð rétt dugir fyrir flutning á búslóðinni og varla það. Mönnum er hins vegar lofuð næg atvinna í borginni en það gleymist að hugsa út í þá menntun og reynslu sem menn hafa úr fyrri störfum.
Ef þessi ríkisstjórn situr nút kjörtímabilið, iggur ljóst fyrir hver þróunin verður. Vestfirðir, Vestmannaeyjar, Snæfellsnesið, Norð-Vesturland og fleiri byggðir verða sumarbústaðabyggðir fyrir auðmennina. Það verður búið að þurrka byggðina út og landmenn búsettir á þremur landssvæðum; á höfðubrogarsvæðinu, Norðurlandi og Austfjörðum. Ríkisstjórnarflokkarnir munu keyra það í gegn á tímabilinu að landið verði eitt kjörvæði þannig að hver heldur sínu sæti enda augljóst að menn nái ekki endurkjöri við óbreytta skipan.
Stór hluti heilbrigðisþjónustunnar verður einkarekin, nokkrar stofnanir reknar undir ríki fyrir þá sem ekki getað borgar og heilbrigðisgeirinn orðinn gullnáma fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Það er kannski orðið tímabært að þeir verði launaðir í samræmi við menntun, þekkingu og ábyrgð en ég hefði viljað sá aðrar leiðir til að ná því markmiði. Hópur öryrkja mun stækka svo um munar því menn munu einfaldlega brotna niður, veikjast og gefast upp við hreppaflutningana.
Þetta kaus þjóðin yfir sig, úfffffffff Eina vonin er sú að mismunandi áherslur ríkisstjórnaflokkanna sem þingmenn þeirra keppast við að kynna í fjölmiðlum, sprengi samstarfið.
Ótrúlegt ábyrgðarleysi að standa að hruni heilu sjávarbyggðana og reyna svo að koma með skyndiplástra eftir að skaðinn er skeður. Þeir skyndiplástar eru varla með lími og gera því ekkert gagn. Slíkt getur varla talist vöndu og ábyrg stjórnsýsla og stefnumótun. Nýja ríkisstjórnin hefur fengið falleinkunn hjá mér.
Bendi á fínan pistil Kristins um nýjastu mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar
http://kristinn.is/frettirpage.asp?ID=1151
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)