27.1.2008 | 16:07
Strandaglópar
Þorrablótið tók sinn toll af krökkunum eins og við var að búast, eru strandaglópar í sinni fyrrum heimabyggð. Það væsir ekkert um þau, eru í góðu yfirlæti hjá vinum okkar. Ekkert annað að gera en að bíða veðrið af sér. Keyri trúlega á móti þeim ef þau komast af stað í dag. Missum því miður af kvöldverðarboði hjá bróður
Eins og forvitinna manna siður er, hef ég reynt að toga upp úr þeim hvernig blótið var, vil auðvitað heyra öll skotin. Það er enginn maður með mönnum nema að hann fái einhver skot. Hefur sveitarstjórn að öllu jöfnu legið vel við höggi, eins og skiljanlegt er. Ekki var mikið á krökkunum að græða, þau skildu ekki helminginn af því sem fram fór. Þekktu í raun ekki marga, greinilegt um margt nýtt fólk í Dölum. Það er auðvitað hið besta mál, öllum samfélögum hollt á fá nýtt blóð. Það vakti hins vegar athygli þeirra að sveitarstjórn virtist hafa sloppið að mestu við öll skot. Það finnst mér fréttir og það miklar fréttir!
Oft hafa þau skemmt sér betur segja þau, þetta var allt í lagi. Katan fékk ekki frið fyrir hljómsveitarmönnum, hafði verið svo bíræfin á eigin bloggi að gagnrýna hljómsveitarvalið. Fannst hún fremur slöpp og vildi meira fjör. Fékk heldur betur að kenna á bíræfni sinni, tekin í nefið, fyrst á blogginu og síðan á ballinu. Menn greinilega eitthvað hörundssárir. Þeim tókst í öllu falli að skyggja á gleði hennar. Lýsir þeim náttúrlega og þess ber að geta að allt eru þetta fullorðnir menn, engir unglingar.
Mér er sagt að samfélagsgerðin sé mjög breytt, einkennist af klíkum í kringum suma sveitarstjórnarmenn. Aðeins útvaldir eru vígðir inn í þær klíkur. Innfæddir Dalamenn fara ekkert gegn slíkum klíkum enda störf, álit og afkoma í húfi og mönnum er enn í minni útreiðin sem ég fékk. Fáir eru tilbúnir að leggja slíkt á sig þó skoðanafrelsi og lýðræðið sé í húfi. ,,Ef ég ætla að búa þarna, þá held ég mig á mottunni" sagði einn gamall vinur minn við mig um daginn. Ekki nýjar fréttir fyrir mér en er slegin af heyra hversu slæmt ástandið er. Búið að þagga niður í flestum mönnum. Sem betur fer stendur einn og einn við sannfæringu sína og tjáir sig. En þeir eru of fáir ennþá. Kaupverðið of hátt.
Margur heimamaðurinn sat því heima í gær, mætti ekki á blót. Samkoman með breyttu yfirbragði, andrúmsloftið stíft og ,,snobbað" var mér tjáð. Vantar gleðina og frjálslega framkomu, segja margir. Þeir sem mæta, gæta sín að vera innan rammans, með einstaka undantekningum þó. Einhverjum leyfist enn að vera í ,,annarlegu" ástandi. Mikið vildi ég að ég hefði drifið mig
Mér er spillingin ofarlega í huga. Það að sveitarstjórinn skuli selja sveitarsfélaginu glugga og ýmsilegt til húsasmíða úr eigin fyrirtæki finnst mér forkastanlegt. Hvernig getur þetta gerst? Reglur um útboð virtar að vettugi þegar hentar, samið við þá sem eru ,,inni" þá stundina og eru tengdir tilteknum sveitarstjórnamönnum. Ég á ekkert að vera hissa, þegar sumir menn komast til valda, semja þeir sín eigin lög og reglur og framfylgja í krafti meirihlutans. Mér hefur oft verið tíðrætt um það á þessari síðu.
Spillingin teygir víða út anga sína. Hjúkrunarforstjórinnn ferðast ferðast vítt og breytt um að bifreið heilsugæslunnar, sem ætlaður er til vitjana eingöngu, hvort heldur sem er í innkaupaferðir suður fyrir brekku, jafnvel til Reykjavíkur eða til og frá vinnu. Keyrir börnin sín til og frá skóla á sömu bifreið og fær aksturinn greiddan úr sveitarsjóði líkt og um eigin bifreið sé að ræða. Sést hefur til makans á heilsugæslubifreiðinni innan sveita þannig að augljóslega þykja þessi hlunnindi sjálfsögð. Stinga hins vegar í stúf við samninga og rekstrarleigu ríkisins á bifreiðum heilsugæslustöðva landsins. Þeim er ætlað að þjóna vakthafandi lækni, ungbarna- og heimahjúkrunarvitjunum. Menn eru frjálslegir í minni fyrrum heimabyggð. Hvar er eftirlitið með sveitarfélögunum og starfsemi þeirra???
En pólitísk spilling er víðar en í litlu samfélögunum eins og sjá má á pólitíkinni í Reykjavík. Aldrei hefði mér dottið í hug að slík spilling myndi komast upp á yfirborðið. Menn hafa hingað til falið hana og það vel. Menn eru hættir því, telja hana sjálfsagðan hlut enda lengi búnir að vera með pólitísk völd. Eigin leikreglur þykja því sjálfsagðar. Þegar ég fylgist með Sjálfstæðisflokknum og störfum fulltrúa hans, blasa þessar staðreyndir við. Þær æpa á okkur oog margur er miður sín. Kjörnum fulltrúum flokksins finnst þetta hins vegar eðlilegur hlutur. Samfylkingin í ríkisstjórn tekur beinan þátt. Óafturkræfur fórnarkostnaður þar grunar mig.
Mér heyrist margur vera reiður eftir áhorf Spaugstofunnar í gærkvöldi, aðrir eru hrifnir. Missti af henni en bókstaflega verð að horfa á hana endursýnda seinni partinn ef ég er ekki komin af stað í björgunarleiðangur. Hef ekki verið dugleg að horfa á þá félaga, missti einhvern veginn áhugann fyrir þó nokkru síðan. Oft hefur þeim þó tekist að endurspegla pólitíkina á spaugilegan hátt. Það verður spennandi að fylgjast með
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.1.2008 | 22:14
Bloggheimar og þorrablót
Ákvað að sitja heima og sleppti þorrablóti fyrir vestan, enn annað skiptið. Er einhvern veginn ekki tilbúin til að skemmta mér, finn mig ekki í því. Þorrablót vekur upp erfiðar minningar frá því í fyrra.
Hef þess í stað verið óvenju actív í minni heimavinnu og reynt að vinna mér í haginn fyrir næstu viku sem verður vægast sagt strembin.
Búin að vera ótrúlega dugleg að kíkja á bloggsíður. Sé ekki betur en að allt ætli um koll að keyra vegna borgastjórnarskiptanna og mönnum heitt í hamsi. Margir hverjir ótrúlega orðljótir og rætnir sem vekur mann til umhugsunar. Eru svo menn að hneykslast á því að plólitíkin sé rætin
Þó hafa einhverjir verið á léttu nótunum og ýmiss kveðskapur verið birtur. Leyfi mér að setja inn nokkur vísukorn sem mér finnst bera af
Borgarblús
Dagur er liðinn og dæmalaus sorg,
depurð og leiði í hnípinni borg.
Ólafur Frjálslyndur (óháður þó)
öllu brátt ræður í fjúki og snjó.
Björn Ingi snarar sér Boss-jakkann í,
blessaður engillinn kominn í frí.
Svandís er forviða, heldur um haus,
hennar er stóllinn þó alls ekki laus.
Vilhjámur Þ., sá er stóð upp úr stól
og stakk af til Kanarí rétt fyrir jól,
kemur til baka með börnin sín smá
og borgmester verður að ári hér frá.
Höfundur óþekktur (því miður)
Og næsta:
Græða á daginn og grilla á kvöldin,
Gróu þeir hitta og sögur út bera.
Hraðlygnir pésarnir hrifsa svo völdin,
hrossakaup mikil um stóla þeir gera.
Litlir og saklausir lúta þeir valdi
laun munu fá þó að biðin sé löng.
Ekkert það stoðar þó móinn í maldi
meiningin foringjans aldrei er röng.
Kristjana Bjarnadóttir http://bubot.blog.is/blog/bubot/
Seinni kveðskapurinn minnir mig reyndar á ástandi í minni fyrri heimabyggð. Mér skilst að einhverjir séu svo heilaþvegnir gagnvart mér að hollast sé fyrir mig að vera heima þegar menn eru með áfengi um hönd Það er ekki tekið út með sældinni að vera ,,kyngimögnuð" kona.
Vona að krakkarnir fái frið til að skemmta sér og að þau komist heil á húfi heim á leið
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.1.2008 | 08:37
Nú er úti veður vont
Það er aldeilis að veðrið geri vart við sig. Bara eins og í ,,den" þegar allt var ófært og enginn komst eitt eða neitt. Man þá tíma úr Garðabænum þegar bílar sátu fastir í fleiri klukkutíma á Arnaneshæðinni. Oftar en ekki sat faðir minn fastur þar á leið heim frá vinnu og við krakkarnir lögðum á okkur að færa honum kaffi á brúsa með því að arka af stað frá flötunum. Í öllu falli ekkert ferðaveður enn sem komið er, sit hér og bíð af mér versta hretið líkt og margur þennan morguninn. Mér var snúið við í morgun, áttaði mig ekkert á stöðunni. Eitthvað eru menn farnir að hreyfa sig hér í Reykjavíkinni en víða ófærð um götur. Virðist í lagi hér í Seljahverfinu miðað við umferðina.
Katan veðurteppt í Keflavíkinni, brautin lokuð. Ekkert annað að gera en að vera róleg og kúra sig aftur. Það ætla ég einnig að gera í stutta stund. Líst ekki nógu vel á þorrablótsáform vestur í Dölum þessa helgina, hætt við að einhverjir verði veðurtepptir, alla vega að því loknu. Brattabrekka kolófær í dag í það minnsta og spáin ekki góð fyrir sunnudaginn. Gef ekki upp alla von enn
Ekki laust við að undanfarnir dagar hafi verið eftirminnilegir. Það er kannski við hæfi að veðrið sé í samræmi við átökin Nú er viðeigandi að kveikja á kertum og hafa það ,,kósý"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.1.2008 | 12:04
Eldar loga
Nú loga eldar stafnanna á milli innan Framsóknarflokksins. Rætnar árásir á einstaka meðlimi og fulltrúa, svo rætnar að hver fjölskylda hlýtur að kikna undan þeim. Kjörnir fulltrúar eru nefnilega ekki einir, að baki þeim stendur yfirleitt einhver fjölskylda. Henni er ekkki hlíft.
Ég þekki slíkar árásir af persónulegri reynslu og það gerir fjölskylda mín einnig. Við fengum að kynnast ólyfjan framsóknrmennskunnar svo um munar og það gerðu fleiri af mínu ættslegti, heldur betur. Þó það sé sagt að mönnun hefnist einhvern tíman fyrir vélbrögð, þá er það nú svo að þegar kemur að því er ekki beint sætt bragð upp í manni. Það má rétt vera að menn eigi það skilið að súpa seyðið af eigin ólyfjan og sennilega er það mun erfiðara en þegar þeir byrla það öðrum en þegar kemur að skuldadögum getur maður óskað öðrum svo illt?
Ég er hreinlega döpur eftir að hafa fylgst með því skítkasti sem hefur átt sér stað innan Framsóknaflokkisns að undanförnu. Ætti að fagna því að sú rætni sem þar ríkir skuli vera komin upp á yfirborðið og þjóðinni ljós. En ég get það ekki, svo mannskemmandi er hún að ég óska engum svo ills að lenda fyrir henni.
Það er hins vegar augljóst að núverandi forysta ræður ekki við neitt, enda trúlega jafn sýkt og innviðirnir. Oft hefur mér að orði að flokkurinn sé liðinn undir lok, hvernig má annað vera miðað við þá spillingu sem þar ríkir? Þegar svona er komið, er réttast að forystan víki sem og klíkurnar og hleypi grasrótinni að til að byggja upp úr rústunum. Nú verða menn að kannast við og bregðast við eigin vitjunartíma áður en fleiri einstaklingar og fjölskyldur liggja í valnum. Það að þreyja þorran með rómantískan glampa í augunum er ekki að virka í nútíma þjóðfélagi. Menn verða að fara að viðurkenna að þetta er búið spil.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.1.2008 | 23:58
Bloggið
Það er rúmt ár síðan ég fór að blogga. Var búin að íhuga að opna síðu í nokkurn tíma, fannst ég þurfa að tjá mig óhindrað um pólitískar skoðanir mínar. Reyndin varð önnur, ég fór að blogga í skömmu eftir að ég greindist og fór í lungnaaðgerðina. Umræðuefni mitt var fyrst og fremst veikindin, síðar sorgin en inn á milli pólitíkin. Sat heima löngum stundum, vakti gjarnan þegar aðrir sváfu, svaf á meðan aðrir vöktu, ekki síst á meðan lyfjameðferðinni stóð.
Fór inn á margar síður en þær sem ég heimsótti mest voru síðurnar hjá Ástu Lovísu, Þórdísi Tinnu, Lóu, Hildi Sif og síðar Gíslínu og Sigríðar í Lindarbæ. Fylgdist með baráttu þeirra og átti oft ekki orð yfir því hversu hreinskilnar og jákvæðar þær voru gagnvart veikindum sínum. Allar voru þær hetjur í mínum augum og daglega lærði ég eitthvað nýtt. Það eru engar ýkjur þegar ég segi það að þessar konur hvöttu mig oftar en ekki áfram í minni baráttu. Sumum þeirra kynntist ég betur en öðrum eins og gengur og stóðu Gillí og Þórdís mér einhvern veginn næst þar sem ég kynntist þeim best.
Allar þessar hetjur hafa nú kvatt jarneskt líf, sú fyrsta af þeim 30. maí og sú síðasta í gær, 21. jan. Ég get ekki neitað því að mér er þungt fyrir brjósti og brugðið. Allar yngri en ég, Lóa yngst, var innan við tvítugt. Allar börðst þessar hetjur af ærðuleysi, deildu með okkur sínum hugsunum, líðan, sigrum og sorgum. Maður getur ekki annað en spurt sig; hvar er réttlætið? Hjá sumum þeirra leit allt vel út um tíma og svo virtist sem þær myndu hafa betur en síðan tók líf þeirra óvænta stefnu.
Ég veit að það liggur fyrir okkur öllum að kveðja þetta jarðneska líf einhvern tíman og fæst okkar vita hve langan tíma við fáum hér. Það breytir því ekki að flestir vilja vera hér sem lengst, getað fylgt sínum börnum eftir á þroskabrautinni og ,,lifa lífinu" til fulls fram á gamals aldur. Enginn getur svarað því af hverju sumir þurfa að fara fyrr en aðrir, af hverju sumir veikjast en aðrir ekki og af hverju áföllin virðast skella oftar á suma en aðra. Til eru þeir sem trúa því að þau svör fáum við þegar okkar vist lýkur hér, vonandi er það rétt.
Það að greinast með krabbamein og aðra illvíga sjúkdóma er þungur dómur, bæði fyrir einstaklinginn og ekki síst aðstandendur. Lífið verður aldrei eins aftur. Fólk er alltaf á verðinum og bregst við öllum einkennum og teiknum á lofti. Eilíf óvissa; hvenær.........., ef........... En slíkur dómur er ekki bara neikvæður, maður lærir að meta lífið með öðrum hætti og fer að hugsa öðruvísi. Áherslurnar breytast, forgangsröðunin tekur nýja stefnu og tíminn verður dýrmætur. Maður kann betur að meta það sem maður hefur og hættir að hugsa um það hvað maður vildi hafa.
Sem betur fer læknast margir af krabbameini í dag. Auðvitað fer það eftir tegundinni, hversu langt sjúkdómurinn er genginn við greiningu o.fl. en horfurnar betri en voru fyrir áratug í mörgum tilfellum. Vonandi er ég sloppin, þannig lítur það út í dag og það liggur við að mér finnist það ósanngjarnt. Af hverju slepp ég en ekki hetjurnar mínar?
Ég veit hins vegar að ekkert er tryggt í þessum málum fremur en öðrum og við það þarf ég að lifa og ekki síst börnin mín. Sjúkdómurinn hangir yfir manni en það er ekkert vit í því að láta hann stjórna sér og sínum og leyfa honum að ráða för. Við sjálf verðum að halda um stjórnartaumana í okkar lífi á meðan við getum.
Eitt er þó víst að þær hetjur sem nú eru fallnar frá, ruddu brautina í umræðunni um krabbamein og þá baráttu sem því fylgir. Brautina ruddu þær á blogginu og höfðu víðtæk áhrif á samferðamenn sína. Þær höfðu mjög jákvæð áhrif á mig og mína líðan og fyrir það er ég þakklát. En mikið sakna ég þeirra. Bloggheimar hafa einhvern veginn orðið fátæklegri með ótímabærri brottför þeirra
Bloggar | Breytt 23.1.2008 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.1.2008 | 16:41
Ein hetjan enn
Þórdís Tinna Aðalsteinsdóttir
Enn önnur hetjan, Þórdís Tinna lést í gær, 21. janúar eftir ótrúlega hetjulega baráttu við lungnakrabbamein. Sýndi okkur að vissulega er hægt að berjast við þennan illvíga vágest og var sigurvegari á margan hátt. Við höfum verið samferða í bloggheimum í rúmt ár og áttum ómetanleg samskipti á þeim tíma. Hún kenndi mér margt á þeirri vegferð. Hef sjaldan verið vitni af eins mikilli jákvæðni og bjartsýni og hún sýndi og var okkur hinum til eftirbreytni.
Ég votta aðstandendum og vinum hennar mína dýpstu samúð.
Bloggar | Breytt 23.1.2008 kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.1.2008 | 21:29
Í hringi
Ég snýst í hringi núna, líkt og aðrir landsmenn. Hvernig má annað vera í þeim pólitísku sviptingum dynja yfir borgarbúa og landsmenn alla í raun? Sagan að endurtaka sig, einungis 103 dagar síðan borgarpólitíkin tók óvænta stefnu, eiginlega um 360°! Grunnurinn virðist ekki síður veikur nú og þá. Hvernig ætlar Ólafur F. Magnússon að standa vaktina einn, ekkert bakland. Er í raun flokkslaus, yfirgaf sinn flokk með Margréti Sverris á sínum tíma og nú fylgir hún ekki ,,guðföður" fráfarandi meirihluta. Kannski hún verði búin að skipta um skoðun í fyrramálið, það er aldrei að vita og ekkert kæmi á óvart í þeim efnum sem öðrum í pólitíkinni.
Villi hlýtur að vera kampakátur og vonandi hefur borgarflokkur Sjálfstæðismanna náð að efla liðsheildina. Menn virðast sáttir innbyrðis enda búnir að læra af biturri reynslu. En ,,come on" til hvers eru kosningar og hver er tilgangurinn með því að fara á kjörstað og kjósa? Kjörnir fulltrúar haga seglum eftir vindum hverju sinni og það fer ekki fram hjá neinum að vindáttin er síbreytileg í pólitík Reykjavíkurborgar. Hvar er ábyrðgartilfinning kjörinna fulltrúa gagnvart kjósendum?
Menn tala um traust, trúnað og trúverðugleika hver ofan í annan. Ég fæ ekki séð að nokkur af þeim kjörnum fulltrúum í Reykjavíkurborg eigi þá innistæðu. Menn stinga hvorn annan í bakið og á hol eins og ekkert sé og halda svo áfram með næsta þar til þeir eru komnir allan hringinn. Minnir mig á Sturlungaöld hina síðari vestur í Dölum, sem mörgum þótti ekki til eftirbreytni
Ég get ekki sagt að ég þekki væntanlega borgastjóra nokkuð skapaðan hlut, hann virðist þó hafa nokkur áhrif innan borgarstjórnar úr því honum tekst að mynda í raun 2 nýja meirihluta á rúmlega hundrað dögum. Hann hlýtur að vera klókur á einhverjum sviðum en mér sýnist hann hafa reist nýja bústað sinn á sandi núna. Sá maður sem hefur ekkert bakland stendur ekki lengi vaktina einn uppi í brúnni. Það gefur auga leið. Það á hann einnig að vita enda læknir. Þeim virðast fjölga ofurlæknunum, hann skipar sér í hóp ofurlæknisins fyrir vestan sem er allt í öllu, allan sólahringinn.
Eitthvað virðast fyrri veikindi vera viðkvæmt mál fyrir Ólaf, ekki veit ég hvað plagaði manninn en hann er nýkominn úr rúmlega árs veikindaleyfi. Vill ekki ræða þau mál og telur allar spurningar þ.a.l. óviðeigandi og get ég að vissu leyti tekið undir það. Veikindi eru einkamál hvers og eins. Það er hins vegar eðlilegt að velta því fyrir sér hvort að maðurinn sé í stakk búinn til að standa undir því mikla álagi sem framundan er. Það hefði því verið sterkt að upplýsa þjóðina og fullvissa hana um eigin styrkleika í þeim efnum.
Ég verð að segja eins og er, ég er með rugguveiki líkt og aðrir. Hvernig má annað vera? Hversu margir nýjir meirihlutar verða myndaðir fram að næstu kosningum? Í öllu falli tel ég þá sem hafa staðið að þessum sviptingum öllum, rýtingsstungum og trúnaðarbresti vera búna að stimpla sig út úr pólitíkinni í framtíðinni. Hef ekki trú á því að borgarbúar né aðrir, séu tilbúnir að treysta þeim aftur. Menn voru kosnir vegna stefnu þeirra og málefna, treyst til að fara vel með það umboð og vinna að þeim áherslumálum sem þeir settu á oddinn. Þeir skipta svo um hest í miðri á, jafnvel oftar en einu sinni og kjósendur hafa ekkert um það að segja, ekki fyrr en í næstu kosningum. Hverjum verður þá treyst til að fara með völdin?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.1.2008 | 22:51
Rýtingsstungur
Það hlaut að koma að því að meinsemd Framóknarflokksins kæmi loks upp á yfirborðið. Langvarandi valdabarátta og klíkumyndanir svo hrikalegar að ég á eiginlega engin orð til að lýsa þeim. Í öllu falli var erfitt að verða vitni af hvorutveggja þegar ég hóf mín fyrstu skref sem flokksbundin Framsóknarkona. Trúði vart mínum augum, eyrum og annarri skynjun þegar ég sat hvert flokksþingið á fætur öðrum.
Var m.a. vitni af því þegar Halldórsmenn beinlínis stilltu þá flokksmenn upp við vegg sem voguðu sér að gagnrýna forystuna á valdatíð Halldórs og þeim hótað öllu illu, létu þeir ekki af gagnrýninni. Skipti þá engu máli þó gagnrýnin hafi verið á rökum reist. Ófögur orð voru gjarnan látin falla.
Til voru þeir sem létu ekki segjast og bentu á meinsemd flokksins. Skoðanaskipti ekki leyfð og þeir sem voguðu sér að láta skoðanir í ljós voru beinlínis ,,teknir af lífi í beinni", hraktir í burt og smáðir. Sem betur fer höfðu sumir þrautseigju til að halda áfram og berjast fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum og stefnu flokksins. Þeir reyndu að verja hagsmuni hins almenna flokksmanns en auðvitað kom að því að þeir hreinlega yfirgáfu flokkinn, búnir að fá nóg af valdníðslu og mannorðsmorðum. Margir þeirra niðurbrotnir menn, aðrir létu aldrei bugast og héltu fast í eigin sannfæringu og þau gildi sem Framsóknarflokkurinn stóð fyrir. Reynt var að vængstífa þá og sumir reyna það enn.
Ekki veit ég hvað er til í ásökunum Guðjóns Ólafs í garð Björns Inga, hef ekki forsendur til að taka afstöðu til þeirra en vinnubrögðin í anda ,,framsóknarmennskunnar" þar sem tekist er á í fjölmiðlum og reynt að taka menn af lífi þar. Ég er ekki búin að gleyma þeim níðskrifum sem Guðjón Ólafur birti um Kristinn H. sem var kennt um allar ófarir flokksins á sínum tíma. Ég sé ekki betur en að það gjósi enn innan flokksins, meira ef eitthvað er, þó Kristinn sé farinn úr flokknum. Mér heyrist Björn Ingi vera sá sem eigi að bera alla ábyrgð á óförunum og tapi annarra nú. Og hvað með ábyrgð fyrrum formanns? Hvað með ábyrgð fyrrum formanns? Fátt heyrist í þeim efnum og þá helst í tengslum við nýútkomna bók Guðna.Gegnir fráfarandi formaður ekki ábyrðgarstöðu Norrænu sendinefndarinnar nú? Hefur hann kannski fallið í gleymskunnar dá??
Formaður flokksins virðist stinga hausnum í sandinn þegar kemur að innri ólgu og deilum innan hans, í öllu falli hefur honum ekki tekist að sætta stríðandi öfl innan hans. Hann talar um 12 þúsund félagsmenn í dag. Ég leyfi mér að efast um að sá fjöldi sé til staðar innan flokksins, við eru æði mörg sem höfum gefist upp og yfirgefið hann. Hvernig má annað vera þegar skipstjórinn og stýrimenn eru ekki tilbúinir til að takast á við vandan, hvað þá að bjarga sökkvandi skútunni. Er ekki sagt svo um sökkvandi skútu að rotturnar séu síðastar að yfirgefa hana - eða hvað?
Get ekki sagt að þetta nýjasta upphlaup Guðjóns Ólafs komi mér á óvart, hann er greinilega sár og reiður. Hann kann trúlega illa að tapa. Ég get hins vegar ekki sagt að ég finni til með honum. Hann er að bragða nú á eigin ólyfjan og líkar bragðið og áhrifin greinilega illa. Rýtingsstunga í bakið á félaga sínum er svar hans líkt og margra annarra forvera hans
Meinsemd hverfur aldrei með skyndiplástraaðferðinni, það þarf að uppræta það áður en hægt er að græða upp eftir skemmdirnar. Meinsemdir hafa þá eiginleika að vaxa stjórnlaust, vaða yfir heilbrigðar frumur miskunarlaust og hreinlega ganga frá þeim. Þau eru auk þess illa í stakk búin til að sinna hlutverki sínu enda hvernig má annað vera?
Ég hef ekki trú á því að unnt verði að byggja upp Framsóknarflokkinn fyrr en búið er að greina meinsemdina, staðsetja hana og finna úrræði til að eyða henni. Þá fyrst er hægt að hefja uppbyggingastarfið. Það er langt síðan að flokkurinn vék frá stefnu sinni og sýn enda uppsker hann í samræmi við það.
Eins og ég hef áður sagt, er elsti stjórnmálaflokkur landsins að niðurlotum kominn og fátt eitt getur orðið honum til bjargar nú. Menn höfðu tækifæri til að breyta um kúrs og halda sig við yfirlýsta stefnu með lýðræði að leiðarljósi en kusu að gera það ekki. Mér finnst það miður enda fann ég margt í stefnu flokksins og hugsjónum hans sem samræmdust mínum hugmyndum. Orðin tóm eru gagnslaus, þeim þarf að fylgja eftir í verkum og athöfnum. Það verður seint hægt að segja að forystumenn síðustu ára ásamt fylgisveinum þeirra hafi verið okkur hinum góð fyrirmynd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.1.2008 | 21:43
Ótrúlegt en satt
Ég hef seinni árin verið mikið fyrir hesta, kynntist þeim á unga aldri austur í Landeyjum en hafði aldrei tækifæri til að láta gamlan draum rætast fyrr en eftir fertugt. Á reyndar 2 hesta núna sem ég hef ekki tök á því að sinna en eru í góðu atlæti hjá góðum vini mínum ásamt Hektori hennar Kötu. Hestamennska er trúlega það mest gefandi áhugamál sem hægt er að hugsa sér og met ég hana mikils.
Þegar ég sat í sveitarstjórn var ég mjög fylgjandi því að styðja við hugmyndir hestamannafélagsins Glaðs um byggingu reiðhallar heima í héraði. Kannski stórhuga hugmynd í fámennu byggðalagi en engin spurning að senda inn styrkumsókn til Landbúnaðarráðuneytisins í þeirri von að einhver styrkur kæmi þaðan. Samþykkti þá tillögu heilshugar og var hugmyndin sú að sveitarfélagið myndi leggja til sömu upphæð eða að hámarki 15 millj. kr. ef að umsóknin yrði samþykkt. Umdeild ákvörðun sveitarstjórnar á þeim tima. Ég taldi þessi áform verulega lyftistöng fyrir sveitarfélagið, jafnvel þó að reiðskáli yrði ofan á sem er heldur smærri í sniðum.
Niðurstaðan Landbúnaðaráðuneytisins var hins vegar 5 millj. kr. styrkur til hestamannafélagsins. Varla upp í nös á ketti ef bygging reiðhallar væri enn inni í myndinni. Í öllu falli voru forsendur fyrir samþykkt sveitarstjórnar brostnar, 15 millj. ekki lengur raunhæf styrkupphæð. Nær væri að íhuga 5 milljónir. Í öllu falli var fyrri samþykkt ekki í gildi.
Stjórnarmenn hestamannafélagsin dóu ekki ráðalausir enda 2 þeirra í lykilstöðu í meirihluta byggðaráðs og sveitarstjórnar. Sem stjórnarmenn sendu þeir erindi til sveitarstjórnar sem tekin var fyrir í byggðaráði, samþykkt þar og afgreidd áfram í sveitarstjórn. Farið var fram á samtals 12. millj. kr. styrk til byggingar á reiðhöll og vitnað í samþykkt fyrri sveitarstjórnar. Formaður hestamananfélagsins og ritari stjórnar sem sendu inn styrkbeiðina hoppuðu síðan yfir borðið og samþykktu styrkbeiðnina umsvifalaust í krafti meirihluta sveitarstjórnar. Skiptu síðan um sæti og tóku við formlegu samþykki sveitarstjórnar og fögnuðu að sjálfsögðu ákaft rausnarskap hennar.
Ótrúlegar klókir menn. Formaður hestamannafélagsins samþykkti styrkibeiðnina sem sveitarstjórnarmaður og undirritaði samkomulagið, bæði sem fulltrúi hestamannafélagsins og sveitarstjórnarmaður. Ritari félagsins gerði slíkt hið sama og afgreiddi þá styrkbeiðni sem stjórnin sendi sem formaður byggðaráðs og sveitarstjórnarmaður. Geri aðrir betur!
Hestamannaféalgið komið með 5 millj. kr. styrk frá Landbúnaðarráðuneytinu, aðrar 12 millj. frá sveitarstjórn. Félagið fékk tilboð í hús 24 x 47 m sem mun kosta um 25 milljónir uppkomið. Með öðrum orðum ætlar hestamannafélagið að leggja til heilar 8 milljónir til hússins og fékk ,,stjórn félagsins umboð til að stofna hlutafélag í þeim tilgangi að byggja reiðhöll á svæði félagsins. Stjórn Glaðs er jafnframt heimilt að taka lán og selja hluti í félaginu til fjármögnunar verkefnisins. Á sama tíma námu eignir félagsins samtals kr. 10.906.694 kr.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig rotþróarmálin við hesthúsin þróast á þessu kjörtímabili. Sömu menn í hesteigandafélaginu og í sveitarstjórn. Spái því að annað hvort verði þau mál söltuð og samið við heilbrigðisfulltrúann enn og aftur eða að sveitarsjóður greiði þann kostnað sem hlýst af því að koma upp rotþróm og þar með skikkan á þau mál. Ég vænti þess að gróðurinn umhverfist hesthúsin njóti áfram lífræns áburðar manna og dýra í ótakmörkuðu magni í einhvern tíma enn.
Það er víða en í ríkisstjórnarflokkunum sem menn semja sínar eigin leikreglur. Þarna brjóta menn stjórnsýslureglur í bak og fyrir, bullandi vanhæfir og komast upp með það. Og það sem meira er, enginn hreyfir við mótmælum né gerir athugasemdir, hvorki varðandi hæfi manna né afgreiðslu mála.
Hvað sem pólitískri spillingu líður er málefnið gott, ekkert jafnast á við íslenska hestinn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.1.2008 | 23:53
Enn önnur hetjan
En önnur hetjan er fallin í valinn af völdum krabbameins. Ung, fjögurra barna móðir, Sigríður í Lindarbæ lést fyrir skömmu. Ótrúlega jákvæð og lífsglöð og ætlaði sér svo sannarlega að sigra en sjúkdómur hennar tók óvænta stefnu.
Eftirlifandi eiginmaður og börn eiga um sárt að binda og því hefur verið stofnaður stuðningsreikningur þeim til handa. Sjálf þekki ég mæta vel fjárhagslegar afleiðingar veikinda sem erfitt er að vinna sig í gegnum.
Eftirfarandi kemur fram á heimasíðu Sigríðar og finnst mér sjálfsagt að vekja athygli á þrengingum þeirra.
,,Nú þarf fjölskyldan í Lindarbæ á stuðningi okkar að halda.
Sigga gaf okkur öllum svo mikið með skrifum sínum hér á síðunni og eins í öllum öðrum samskiptum. Hún, og fjölskylda hennar, var órúlega sterk og jákvæð í gegnum öll þessi veikindi. Eitthvað sem við getum öll lært mikið af. En þrátt fyrir æðruleysi og styrk þeirra, þá vitum við að heimilisreksturinn hlýtur að vera erfiður.
Sýnum nú stuðning í verki og látum af hendi rakna. Reikningsnúmerið er: 0152-26-6446 Kennitala: 250968-4509 "
Rósa, Jóna og fjölskyldur
Vefslóðin á heimasíðu Sigríðar er: http://www.123.is/Lindarbaer/
Margt smátt gerir eitt stórt. Hvet alla til að sýna samhug í verki.