17.1.2008 | 22:14
17. janúar
Þessi dagur hálfheilagur hjá mér. Dánardagur móður minnar; Auðbjargar. Hún lést þennan dag fyrir 8 árum eftir óvenju harða, illviga en stutta baráttu við lungnakrabbamein. 'Atti í raun aldrei von um bata, það sér maður best eftir á. Sjúkdómurinn orðinn mjög útbreiddur þegar hún greindist og frumutegundin trúlega sú illvígasta sem hægt er að fá (neuroendocrine). Var búin að vera lengi með sterkar vísbendingar en féllst ekki á að fara til læknist. Hafði orðið fyrir mjög neikvæðri reynslu 34 árum áður, greindist þá með leghálskrabbamein og var afskrifuð strax af hennar lækni. Hún einungis 37 ára og átti 8 börn, það yngsta 2 ára. Hún neitaði að gefast upp, krafðist erfiðrar meðferðar sem var á tilraunastigi; radium geislar, sem voru gefnir í fantaskömmtum. Geislunin svo gríðalega að eftir að radiumhylkinu hafði verið komið fyrir, var sjúkrastofunni lokað í rúman sólahring og konurna rmáttu bjarga sér sjálfar, fárveikar. Enginn vildi koma inn í alla geislana en þegar verst lét, fór einn hjúkrunarfræðingur inn og sinnti móður minni og gaf henni verkjasprautu. A.ö.l. varð hún að láta sig hafa þetta, með uppköst og mikla verki, stundum með annarri konu í sömu aðstöðu. 6 konur hófu þetta tilraunaverkefni, móðir mín var ein sem lifði sjúkdóminn og meðferðina af. Krafðist síðar aðgerðar þar sem restin af meininu var fjarlægð. Enginn myndi sætta sig við slíka meðferð í dag en ávinningur hennar og okkar var 32 ár sem hún fékk og kom okkur öllum til manns. Hún vissi ábyggilega hvað bjátaði á síðustu mánuðina áður en hún greindist, það vissi ég líka. Hún þurfti hins vegar að ljúka ýmsu áður en hún tók á veikindunum.
Naflastrengurinn slitnaði aldrei á milli mín og móður minnar og var hún minn helsti trúnaðarvinur í gegnum súrt og sætt. Lá aldrei á skoðunum sínum og eins og ein vinkona hennar sagði í minningagrein um mömmu; hún var bæði gull og grjót. Hún vissi og sá meira en margur enda framúrskarandi næm. Það þýddi lítt að fara á bak við hana, man hvað mér fannst það bölvað á unglingsárunum. Hún varði sig og sína af mikilli hörku og brást mjög harkalega við öllu ranglæti enda með ríka réttlætiskennd.
Mér hefur oft fundist sárt að missa foreldra mína svo snemma, mamma nýorðin sjötug og pabbi sem fór 7 mán. síðar aðeins 69 ár úr sama sjúkdóm en var með aðra frumutegund. Það er trúlega engin tilviljun að ég fékk bland í poka, sem sé frumtegundir beggja, þ.e. neuroendocrine og adenocarcinoma.
Ég er þess fullviss að margt hefði farið öðruvísi hjá mér á Sturlungaöld hinni síðari, ef ég hefði notið þeirra og getað sótt í þeirra reynslu- og viskubrunn. Það á ekki síður við þegar Guðjón fór, ég er viss um að stuðningur þeirra hefði fleytt mér og ekki síst krökkunum langt og yfir erfiðustu tímana.
En þessu ráðum við ekki. Öll göngum við að því vísu að fæðast í þennan heim og kveðjast. Hvenær veit enginn fyrirfram en þangað til verðum við að nýta tíman vel og á þann hátt að maður sé sáttur að lokni ævistarfi, hversu langt sem það verður. Númer eitt, tvö og þrjú er í mínum huga að getað undirbúið krakkana undir slíkan viðskilnað og farið frá góðu búi. Slíkur valkostur er ekki alltaf í stöðunni. Ég hef þá trú að annað taki við eftir að jarvist lýkur og að brottför manns sé eftirlifandi erfiðari en þeim sem kveður. Kannski er það tóm eigingirni en rosalega sakna ég foreldra minna
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.1.2008 kl. 03:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.1.2008 | 13:15
Líf og fjör
Týndi sonurinn leggur af stað í nótt, mættur á svæðið upp úr kl.15.00 á morgun.
Mér skilst að það verði líf í tuskunum á systkinunum....
Katan búin að setja ölið í kælinn og móðirin leitar af vænu lambalæri.
16.1.2008 | 23:07
Langur dagur
Komin á stjá fyrir 6 og næ vart að halda mér vakandi. Ætla að vera lengi að koma mér í réttan gírinn eftir langa fríið. Komist minna leiða til og frá vinnu í dag þrátt fyrir leiðinda færi. Ekki enn komin á negld, er á slitnum heilsársdekkjum þannig að siglingin sækist hægt hjá mér.
Kann ekki alveg á verkefnaleysið á kvöldin. Er eins og illa gerður hlutur og veit ekki hvað ég á að mér að gera. Það ástand breytist á næstu dögum þegar allt er komið í fullan gang, þarf þá ekki að hafa áhyggjur af verkefnaskorti. Kann ekki að vera í fríi að loknum vinnudegi, hef alltaf þurft að halda áfram að honum læknum, oftast í vinnu tvö.
Kosturinn við þetta letilíf er að ég fylgist betur með fréttum en oft áður. Viðtalið við sjallan og Siv í Kastljósi gekk fram af mér. Engin vitræn rök úr herbúðum sjalla í kvöld frekar en fyrri daginn. Horfi alla vega ekki á endursýningu þáttarins á eftir. Er farin að sofa, í fyrsta skiptið í langan tíma fyrir miðnættið. Sé varla á skjáinn hvað þá meir. Vinnuvikan að styttast í annan endan, sem betur fer. Hefði seint trúað því að mig hlakkaði til helgarinnar. Tíminn lengi að líða og allt silast áfram. Ræs kl.06 þannig að það er best að vera skynsamur svona einu sinni. Auminjga Kata, sér mig varla þessa síðan hún kom heim en ég fæ langt helgarfrí og nægan tíma til að sofa út þá. Er óttaleg B manneskja.
16.1.2008 | 14:11
Frumburðurinn á heimleið
Haffi flaug í gegn um prófið í morgun með fullt stig húsa. Til hamningju Haffi minn, þennan árangur áttir þú svo sannarlega skilið
Er á fullu að leita að og púsla saman flugi heim, nær að stoppa í 2 vikur. Vá hvað það verður gaman hjá litlu famelíunni núna
15.1.2008 | 23:30
Stóri dagur á morgun
Katan komin heim í heiðardalinn, flaug að austan í dag. Skrítið að sækja hana út á völl, það voru ófáar ferðirnar á flugvöllinn að sækja hana þegar hún var lítil. Í dag tók ég á mótir ungri konu. Það var sérstök tilfinning, hafði ekki áttað mig á því fyrr, hún er orðin fullorðin. Ef marka má planið hennar þá verður brjálað að gera hjá henni til 3. feb.,snertir ekki jörðinna þangað til. Það er komið líf í húsið
Stóri dagur hjá Haffanum á morgun. Próf kl. 07.15 á staðartíma og er í 5 hlutum. Ef hann nær fyrsta hlutanum er haldið áfram í þann næsta og svo koll af kolli, ef ekki fer hann heim og byrjar að lesa aftur. Ef allt gengur upp hins vegar ættu fréttir að berast um kl.14.00 þannig að ég vona að ég fái engin skilaboð fyrr en eftir þann tíma. Trúi ekki öðru en að þetta gangi vel, þetta snýst hins vegar mikið um heppni hjá krökkunum. Vonandi er drengurinn á heimleið fyrir helgi í stutt frí.
Við mægður áttum ,,quality" time í sófanum seinni partinn, auðvitað sofnuðum við báðar undir Dr. Phil. Býsna erfitt að rífa sig upp aftur, var alveg til í að sofa áfram en þá hefði ég snúið sólahringnum við, enn og aftur. Er búin að þurfa að taka nokkuð á til að koma mér í gang eftir jólafríið.
Er eiginlega orðlaus eftir viðtalið við Árna Matt, erfðaprins Sjálfstæðismanna í Kastljósi kvöldsins. Þar sannaðist það sem ég hef löngum haldið fram; Sjálfstæðismenn eru búnir að sitja of lengi í valdastólum. Þeir semja eigin lög og leikreglur og hafa gert lengi. Það er hins vegar orðið meira áberandi að þeir telja sinn raunveruleika vera hinn eina og sanna. Á fagmáli kallast þetta raunveruleikafirring og ranghugmyndir. Ekki er hinn stjórnarflokkurinn skárri. Mér sýnist báðir þurfa á acut handleiðslu að halda. Sjúkdómsinnsæið ekkert.
Í öllu falli er ég farin að forðast, ómeðvitað, fjölmiðlana. Mér sýnist þjóðinni ekki veita af áfallahjálp á þessum síðustu og verstu tímum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.1.2008 | 00:05
Upp....
Allt komið í sinn fasta gír og á fullan ,,swing", út um allar trissur. Nákvæmlega eins og hlutirnir eiga að vera. Það á einfaldlega ekki við mig að liggja út af og gera ekki neitt. Hrikalega leiðinlegt. Byrjuð að leita af ,,hobbýi", kannski ég læri almennilega að prjóna á gamals aldri, eða hvað.............??
Hver klúðrir á fætur öðru í þjóðfélaginu, af nógu að taka í þeim efnum. Maður veit eiginlega ekki hvert þeirra er verst, pólitísku ráðningarnar, húsafriðunarmálið, árásirnar á laganna verði eða Grímseyjarferjan. Öll málin grátleg, með mismunandi hætti þó. Óveður í Grindavík, slys á brautinni og bruni í andlit eftir síðbúinn flugelda. ÚFF, engin lognmolla, það er á hreinu.
Nýjasta útspil heilbrigðisráðherra er að krefja sjúkrahús og heilrigðisstofnanir um aukið upplýsingastreymi til sjúklinga. Hef sjálf ekki orðið vör við annað en slíkar upplýsingar hjá sérfræðingum. Í Domus fer enginn inn í rannsókn án þess að greiða fyrst svo dæmi sé nefnt.
Hins vegar vita það fáir fyrirfram að fari þeir inn á bráðadeild og verði lagðir inn á ,,gæsludeild" í einhverja klukkurstundir eða allt upp í sólahring, verða þeir að greiða fyrir daggjaldið að fullu. Einnig fyrir fæðið en það er hins vegar undir hælinn lagt hvort það gleymist að panta handa sjúklingnum bakka eður ei. Í sumum tilfellum er sjúklingurinn fastandi á meðan dvöl hans stendur og þar til fer heim. Reikningnum er í öllu falli skellt framan í sjúklinginn við brottför en hægt er að semja um að fá hann sendan heim og mjög háum reikningum má dreifa í einhverjar greiðslur, skilst mér.
Með tilkomu kostnaðargreiningar o.fl. innan sjúkrahúsa er lagt kapp á það að halda fólki inni skemur en sólahring þannig að kostnaðurinn falli ekki á stofnunina og fari þannig inn í reksturinn. Það er því sífellt algengara að fólk sé sent hundveikt heim. Heilsugæslan ætti þá að taka við í gegnum heimahjúkrunog sinna hinum sjúka þegar heim er komið en það tekur tíma að sækja um slíkt og fá beiðnina samþykkta. Þessi mál í þokkalegum farvegi í stærri sveitarfélögum en í algjörum lamasessi í sumum hinna smærri heilsugæsluumdæma.
Hvað sem því líður er það hið besta mál að ráðherran skerpi á sýnileika reikninga og kostnaðar, svo fremi sem ekkert annað ,,duló" búi undir
Síavaxandi einkavæðing liggur fyrir; ferilverkum (aðgerðum, speglunum o.m.fl.) á stofum sérfræðinga sem fer fjölgandi, öll ræsting aðkeypt af einkafyrirtækjum á stærri stofnunum, hjúkrunarþjónusta aðkeypt í gegnum einkarekngar starsfsmannaleigur, læknis- og önnur sérfræðiþjónusta keypt af einkareknum ,,heilsugæslustöðvum" og nýjasta "tilraunaverkefnið" felst í að bjóða út störf læknaritara. Það er fátítt í dag að nokkur maður leggist inn á sjúkrahús í dag til rannsókna; þær fara flestar fram úti í bæ eða í gegnum göngudeildarþjónustuna. Ríkið greiðir auðvitað niður þá þjónustu en hlutur sjúklings fer stigvaxandi líkt og með lyfjakostnaðinn.
Það verður fróðlegt að taka út stöðuna eftir 3 ár
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.1.2008 | 22:31
Lengi getur vont versnað
Loksins er þessi helgi á enda. Þvílíkt og annað eins! Rosalega var hún leiðinleg, alveg drep. Er heimakær í eðli mínu en fyrr má nú rota en dauðrota.
Fann fátt eitt í sjónvarpinu í gærkvöldi, var búin með öll verkefni þannig að ég hreinlega beið eftir því að kvöldið liði og ég gæti farið að sofa. Þýðir ekkert of snemma, ligg þá með tærnar upp í loft frá kl. 5 eða 6 og bíð eftir blöðunum. Ekkert skárra.
Þessi dagur silaðist svo áfram, gat auðvitað fundið mér nóg að gera en finnst of dimmt til að standa í stórhreingerningum strax. Sé ekki nógu vel skítinn, til hvers að eyða orku í það strax?? Ekki nógu hress í þokkabót, verkirnir mig lifandi að drepa og óþægindin frá maganum. Urr, hvað ég nenni þessu ekki.
Finn greinilega fyrir því að verkefnum hefur fækkað og vinnuálagið minnkað. Algjört must að finna sér eitthvert hobbý og það strax. Ég enda annars með því að festa mig á kvöldvaktir á laugardagskvöldum. Allt betra en að hanga. Nenni eiginlega ekki á skemmtistaðina, yrði eins og afdalamanneskja ef ég kíkti á þá. Hef ekki stundað þá í fleiri ár. Veit ekki einu sinni hvað er ,,in" þessa dagana.
Katan fyrir austan hjá pabba sínum og Haffi á kafi í próflestrinum ennþá. Stóri dagur hjá honum á miðvikudag og vonandi heim á fimmtudag. Efnt verður til veislu af því tilefni. Ansi mörg verkefni bíða hans hér á heimilinu er ég hrædd um
En svona í alvöru talað, rosalega er leiðinlegt að búa í Reykjavíkinni. Það mál krefst endurskoðunar og það fljótt. Það sem meira er, ég er greinilega að verða gömul. Var að átta mig á því að sl. föstudag ætlaði ég að heimsækja systur mína eftir vinnu, keypti forláta bananatertu í því tilefni. Áttaði mig á ósköpunum áðan þegar ég skrapp í búðina. Kakan aftur í bíl, frosin og engin heimsókn. Þetta er ekki í lagi
Ekki seinna vænna en að gera eitthvað í málum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.1.2008 | 01:25
Berklar
Vísir blæs upp frétt um mann með ,,meint berklasmit" í tengslum við áflog eða árás á annan mann. Maðurinn útlendingur. Það hlaut svo sem að koma að því að fjölmiðlar tækju við sér vegna berkla sem víða eru vandamál í Evrópu, USA, Indlandi, Afríku og ég veit ekki hvar og hvar. Hitt er svo annað mál að mér finnst óþarfi að rjúka upp til handa og fóta með æsifrétt, við erum búin að búa við þá staðreynd að hingað eru fluttir ótal einstaklinga sem eru með bakteríuna í sér, einkennalausir eða veikir. Allt frá því að landið var galopnað og dregið úr sóttvörnum landsins, ekki síst með því að leggja af berklaeftirlit nýbúa frá EES löndunum.
Við Íslendingar náðum að hindra útbreiðslu berkla á síðustu öld og síðusta áratuginn hafa einungis innan við 20 einstaklingar greinst með smit á hverju ári. Við vorum með virkt berklaeftirlit bæði í skólum og á vinnustöðum og algengt var að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn allt fram á 8. áratug síðustu aldar gegn berklum. Fyrir rúmum áratug taldi sóttvarnaeftirlitið okkur hafa náð það góðum árangri í berklavörnum að hefðbundið berklaeftirlit var lagt niður. Of dýrt og svaraði ekki kostnaði.
Hins vegar voru allir útlendingar sem hingað komu til að stunda vinnu, allir berklaprófaðir og heilsufarsskoðaðir áður en þeir fengu atvinnuleyfi. Líður í sóttvörnum landsins. Þeir sem greindust með smit voru einfaldlega meðhöndlaðir líkt og við Íslendingar. Þetta eftirlit er ekki lengur til staðar nema hjá útlendingum utan EES landanna. Í dag ganga menn beint að atvinnu hér, ekkert eftirlit að neinu tagi svo fremi sem þeir komi frá EES löndunum, jafnvel þó berklar séu víða vandamál í þeim löndum. Ekki einungis hefðbundinn stofn berklabaktería sem veldur usla heldur og einnig fjölónæmir stofnar sem fátt eitt bítur á.
Berklar geta verið lúmskur sjúkdómur, hinn sýkti oft einkennalaus eða með væg, almenn einkenni. Margir bera því bakteríuna í sér án þess að hafa hugmynd um það og án þess að vera veikir. Talið er að um yfir þriðjungur íbúa heimsins séu útsettir fyrir bakteríunni og nýtt smit eigi sér stað á einnar sekúnda fresti. Dulinn og einkennnalus sýking algengust en tíundi hver af smituðum fær virka berkla. Tölur frá 2004 staðfesta að 14.6 milljónir manna hafi með króníska og virka berkla, ný tilfelli um 8,9 milljón og 1,6 milljónir manna létust. Talið er að í 20% tilfella sé bakterían ónæm fyrir hefbundnum lyfjum og 2% ónæm fyrir ,,varalyfjunum". Þessar tölur hafa hækkað síðan.
Bakterían ræðst yfirleitt á lungun en getur verið til staðar í taugakerfinu, sogæðakerfinu, blóðrásarkerfinu, kynfærum, beinum og liðum og jafnvel í húðinni. í 75% tilfella verða lungun fyrir barðinu og eru helstu einkennin verkur fyrir brjósti,hósti með uppgangi sem varir í meira en 3 vikur, hiti og kuldahrollur, nætursviti, lystarleysi, þyngdartap, húðfölvi og viðkomandi hefur skert úthald og þreytist fljótt. Einkenni sem geta bent til margs annars, s.s. flensu, berkjubólgu o.fl. Fáir kveikja á perunni enda fræðsla um sjúkdóminn meðal almennings af skornum skammti.
Þegar hinn sýkti hnerrar, talar, kyssir eða hrækir berast sýktir dropar út í andrúmsloftið. Hver dropi sem getur verið 0.5 to 5 µm í þvermál og hvert sinn sem viðkomandi hnerrar geta 40.000 slíkir dropar borist í andrúmsloftið. Það þarf ekki marga dropa til að valda smiti hjá næsta manni.

Sjúkdómurinn er útbreiddur, eins og sjá má.
World TB incidence. Cases per 100,000; Red = >300, orange = 200300; yellow = 100200; green 50100 and grey <50. Data from WHO, 2006.
Þróun berklatilfella í heiminum síðan 1990:

Kúrvan á hraðri uppleið
Fjölmargir bera bakteríuna án þess að gera sér grein fyrir því og eftir að sóttvarnaeftirlitið slakaði á klónni er augljóst að smit hlýtur að grassera. Það er ekki fyrr en einhver er orðinn veikur og þarf jafnvel á sjúkrahús að menn kveikja á perunni, berklaprófa þann veika og komast að smitinu. Í gang fer ákveðið ferli, allir sem hafa starfað með eða eru í návígi við viðkomandi eru berklaprófaðir. Þeir sem reynast jákvæðir, eru rannsakaðir enn frekar og sýni þeir einhverjar breytingar á lungnamynd, eru þeir meðhöndlaðir með lyfjum.
Það sem ég hef hins vegar mestar áhyggjur af er sú staðreynd að fjölmargir eru smitaðir án þess að vera greindir, berklaeftirlitið er slappt. Menn hafa sofnað á verðinum og miðað við flæði útlendinga til landsins kemur að því að við fáum fjölónæma bakteríustofna sem ekkert bítur á, hafi það þá ekki gerst nú þegar. Fjölónæmir berklar eru mikið vandamál í mörgum fyrrum Sovétríkjum, einkum
Eystrasaltsríkjunum svo dæmi séu nefnd. Í Rúmeníu og Búlgaríu eru berklar mjög útbreiddir.
Hvað voru menn að hugsa hjá sóttvörnum ríkisins og í þeirri ríkisstjórn sem lagði af berklaeftirlit með öllum útlendingum, í skólum og á vinnustöðum?.Vissulega kostar eftirlitið en einungis brot af því sem það kostar að meðhöndla þann fjölda sem greinist svo ekki sé minnst á þjóðhagsleg áhrif.
Umræðan hefur ekki farið hátt, menn forðast að tala um þessar staðreyndir enda rasistastimpilinn sem Frjálslyndir fengu fyrir síðustu kosningar ekki eftirsóknarverður. En hvernig í ósköpunum er hægt að tengja berklaeftirlit og annað smitsjúkdómaeftirlit við rasisma? Mér er það með öllu óskiljanlegt.
Við skulum ekki gleyma því að okkur tókst að útrýma fleiri sjúkdómum en berklum á síðustu öld. Barnaveiki og mænusótt sjáum við ekki lengur. Kíghóstatilfellin ekki mörg, stífkrampi ekki algengur. Bólusetningar hafa komið í veg fyrir þessa sjúkdóma og við höfum náð feikigóðum árangri. Hvað varir sá góði árangur lengi? Ýmsar aðrar þjóðir hafa ekki náð svona langt.
Við skulum einnig hafa það í huga að eyðni er víða landlægur sjúkdómur og hvert er eftirlitið með þeim sjúkdóm hér á landi? Meðal Íslendinga takmarkast reglulegt eftirlit við þungaðar konur. Þeir útlendingar sem eru tékkaðir koma frá löndum utan EES svæðisins. Öðrum þjóðum stendur slíkt eftirlit ekki til boða af fyrra bragði.
Ég er svartsýn þegar kemur að berklum hér á landi. Tel að stjórnvöld hafi sofnað á verðinum með frjálsu flæði útlendinga til landsins án þess að viðhafa heilsufars- og smitsjúkdómaeftirlit. Flestir útlendingarnir koma frá EES löndunum, hafa trúlega enga hugmynd um það hvort þeir beri bakteríuna í sér eða aðra smitsjúkdóma. Margir þeirra óskráðir í landinu og engin leið að fylgjast með því hverjir eru smitaðir eða veikir. Ekki víst að skráðum tilfellum fari fjölgandi á næstu árum, ekki fyrr en fjöldi þeirra sem veikist og þarf læknishjálp eykst og er ég hrædd um að þá séum við að tala um faraldur.
Kannski þessar hugleiðingar verði taldar ,,rasismi". Ég er ekki sammála því, flokka þær undir staðreyndir, áhyggjur og gagnrýni stjórnvöld fyrir ábyrgðarleysið í þessum efnum. Aðeins eitt stjórnmálaafl vakti athygli á þessum málum fyrir síðustu kosningar og gerir enn. Meðlimir þess lentu nánast í aftöku ,,í beinni" þar sem þeir þorðu að vekja athygli á þessum málum. Okkur hættir nefnilega til að gleyma okkar skyldum gagnvart þeim útlendingum sem hingað sækja. Þeir eiga sama rétt og við til heilbrigðiseftirlits og þjónustu. Okkur ber að sjá til þess að þeir fái hvorutveggja auk viðeigandi meðferðar, líkt og við Íslendingar! Sá réttur er ekki bundinn stjórnmálaflokki heldur stjórnarskránni og mannréttindum. Á það hafa hins vegar Frjálslyndir réttilega bent.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.1.2008 | 16:02
Erfiðir einstaklingar
Öll þekkjum við það að umgangast erfiða einstaklinga, bæði í vinnu, vinahópnum, pólitíkinni og jafnvel heima. Stundum ná þeir að gera okkur lífið leitt, draga okkur niður og jafnvel kippa undan okkur fótunum í tilverunni.
Fræðin eru skýr og afdráttarlaus þegar kemur að því að greina og lýsa erfiðum einstaklingum sem flokka má niður eftir ,,hegðunareinkennum"
Fyrst ber að nefna leynimorðingjan eða leyniskyttuna sem eru erfiðustu einstaklingarnir. Þeirra aðalsmerki er að ráðast á fólk aftan frá, jafnvel að því fjarstöddu en eru sakleysið uppmálað þegar málin eru rædd og koma ofan af fjöllum. Þessir kafbátar hæða nánungann og gera lítið úr honum, eru stöðugt með gagnrýni og spinna upp gróusögur eins og þeim sé borgað fyrir það. Þeir eru duglegir að afla sér fylgis og safna klíku í kringum sig þar sem sannleikanum er hagrætt eins og hentar hverju sinni. Sá sannleikur verður ,,hinn eini sanni" og óskráð lög. Ná oft miklum völdum og komast til æðstu metorða enda með sterkan stuðningsmannahóp í kringum sig. Mestu skaðræði af augljósum ástæðum, ekki síst í pólitíkinni enda erfitt að standa þá að verki og afhjúpa þá
Næstir koma einræðisherrarnir sem fara hátt og ná völdum með því að gera lítið úr öðrum. Eins og gefur að skilja, eru orð þeirra lög. Þeir taka ekki þeim hugmyndum vel sem stangast á við þeirra eigin og verð fljótt reiðir. Eru auk þess oft algjörlega óútreiknanlegir og fara oft yfir strikið í samskiptum. Hafa náttúrlega litla sjálfsstjórn enda stjórnast þeir af eigin reiði og pirringi. Kurteisi er ekki hugtak í þeirra kokkabókum, takmarkast af því að biðjast afsökunar á yfirgangi sínum þegar þeir telja það nauðsynlegt. Eins og gefur að skilja er sjaldnast rými fyrir fleiri en einn einræðisherra í hópnum. Þessir einstaklingar eiga það til að kúga aðra og misbeita valdi sínu til að koma eigin hagsmunum í gegn. Margur einræðisherran í pólitíkinni hef ég trú á eða hvað
Þriðji hópurinn eru skoðanaleysingjarnir. Þeir eru eftirlátssamir og hafa mjög ríka þörf fyrir að láta öðrum líka við sig, eiga erfitt meða að taka ákvarðanir og slá öllu á frest. Eru fljótir að samþykkja hluti en ekki jafn tilbúnir til að standa við þá síðar og því erfitt að treysta á þá. Auðvelt að hafa áhrif á þá og móta eins og leir.
Hinir þöglu fylgja fast á eftir. Segja aldrei neitt af fyrra bragði, svara gjarnan með eins atkvæðis orðum. Þeir hafa yfirleitt einhverjar skoðanir en láta hana ekki uppi þannig að við vitum sjaldnast hvar við höfum þessa einstaklinga. Eru oft ansi litllausir í samskiptum og ,,leiðinlegir". Erfitt að vita t.d. hvar maður hefur þá.
Fimmta hópinn skipa vitringarnir eða ,,besserwisserarnir". Sjálfstraustið ætlar þá lifandi að drepa enda vita þeir allt og eru sérfróðir í öllu. Þeir hafa einnig lag á því að tjá sig með þeim hætti að svo virðist sem kunnátta þeirrra og ,,sérþekking" sé gríðaleg og auðvitað einstök. Þeir geta verið mjög sannfærandi þó innihaldið sé rýrt. Þeir reyna að selja öðrum allt. Allt snýst um þeirra eigin skoðanir, aðrar koma ekki til álita enda ekkert pláss fyrir þær. Komi það hins vegar í ljós að þeir hafi rangt fyrir sér, eru þeir með það algjörlega á hreinu af hverju það er og hverjum það er að kenna. Auðvitað ekki þeim sjálfum.
Sjötta hópinn skipa nöldrararnir sem hafa allt á hornum sér. Líf þeirra gengur út á að gagnýrna allt og alla í kringum sig. Alltaf finna þeir einhvern sem ekki er að gera hlutina eins vel og skyldi og alltaf vantar sökudólg fyrir vandamálunum. Nöldrararnir eru síkvartandi undan okkur við aðra og undan öðrum við okkur. Oftar en ekki heyrum við yfirlýsingar frá nöldraranum eins og ,, aldrei er neitt gert fyrir okkur" ,,ég hef aldrei verið spurður álits", ,,djö... drasl er í kringum þig". Nöldrarin tekur aldrei ábyrgð á sinni óánægju, hún er alltaf öðrum að kenna. Hafa mjög eyðileggjandi áhrif á móralinn eins og gefur að skilja.
Fáir hópar eru án fýlupúka. Þeir eru kannski ekki endilega að láta uppi óánægju sína í orðum heldur fremur með þögulli tjáningu sem allir verða þó varir við. Fýlupúkarnir eru sjaldnast kaldrifjaðir og ætla sér etv. ekki að stjórna öðrum með fýlunni, eru yfirleitt ekki meðvitaðir um hana. Þeir vita hins vegar ekki hvernig þeir eiga að koma óánægju sinni á framfæri öðru vísi en með skeifu og vanþóknunarsvip og eru því öðruvísi en nöldrarinn að því leytinu til. Það er ekki auðvelt að fá eitthvað upp úr fýlupúkanum þegar hann er spurður að því hvað sé eiginlega að. Ósköp drungalegur og vansæll einstaklingur í samskiptum og dregur aðra niður.
En hvað er til ráða? Erfiðir einstaklingar eru til alls staðar í kringum okkur og í sumum tilfellum er einn af öllum ,,tegundunum" í hópnum okkar eða vinnustaðnum. Ég held að besta ráðið er að horfa á þessa einstaklinga út frá þeim veikleikum sem stjórnar þeim. Í öllu falli er lífið stutt og við eigum ekki að láta erfiða einstaklinga skyggja á lífsgleðina, hamingjuna og lífsgæðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.1.2008 | 20:27
Víða erfitt í læknishéruðunum
Nú bítast þau á í Skessuhorni, framkvæmdarstýra Heilsugæslunnar í Ólafsvík og yfirlæknirinn í Búðardal um stöðu læknamála í læknishéruðum Vesturlands og víðar. Sú fyrrnefnda hélt því fram í blaðinu á dögunum, að erfiðlega gengi að manna stöður lækna um allt land, þ.á.m. í Ólafsvík, Stykkishólmi, Búðardal og á Akranesi. Yfirlæknirinn brást snöggt við og kom með þá yfirlýsingu, í sama blaði, að framkvæmdarstýran færi með rangt mál og heldur því fram að enginn læknaskortur hafi verið í læknishéraði Búðardals í áratugi. Sjálfur hefur læknirinn starfað í 13 ár á sömu stöðinni og hinn læknirinn í tæp 6 ár og forverar hans í 5 ár eða lengur enda svo gott að búa í Búðardal.
Auðvitað frábært að vita að starfsmannavelta meðal lækna í héraðinu sé lítil sem engin, ár frá ári, enda er ör starfsmannavelta víða vandamál í læknishéruðum landsins. Sum eru stundum mönnuð tímabundið af læknanemum eða ellilífeyrisþegum. Framkvæmdarstýran var hins vegar ekki kát með þessa yfirlýsingu læknisins og benti á, daginn eftir, í sama blaði, að yfirlæknirinn hafi verið einn meira og minna síðasta ár.
Kannski ekki merkileg frétt en þó. Vekur mig til umhugsunar. Í fyrsta lagi það að þessi umræða skuli fara fram í fjölmiðlum. Kannski eru menn að bítast um íbúana og mæra sitt byggðalag í harðri samkeppni, hvað veit ég, útlaginn??
Í öðru lagi fór ég að hugsa; bíddu við, heil 13 ár á sama stað!
Maðurinn hlýtur að hafa staðnað í faginu á öllum þessum tíma. Aldrei farið neitt annað allan þennan tíma og því lítið tileinkað sér nýjungar eða haldið sér við. Kemst aldrei frá. Nú, eins og allir vita í héraðinu, hefur maðurinn staðið króníska sólahringsvakt meira og minna allt síðasta ár, jafnvel nokkur ár og verið einn með stofuna. Einn að sinna öllum íbúum sýslunnar. Í ofanálag er hann formaður byggðaráðs, í sveitarstjórn, oddviti síns lista, í stjórn dvalar- og hjúkrunarfélagsins og yfirlæknir þar einnig, í stjórn Fellsenda og læknir þar einnig. Sinnir hjúkrunarheimilinu á Reykhólum, er í stjórn hestamannfélagsins og hesteigandafélagsins auk þess að sitja í hinum og þessum nefndum á vegum sveitafélagsins. Stundar hestamennsku í frístundum, skipuleggur hestamannamót, fer á landsmótin og á fjölskyldu og lítið barn. Geri aðrir betur en hvernig fer maðurinn að þessu öllu?
Hinn læknirinn er eins og flautuþyrill um allt land og erlendis, jafnvel á bakvaktinni norður í landi eða úti í Kanaríaeyjum hver veit? Í öllu falli eru alltaf tveir læknar skráðir á bakvakt, annar alltaf að vinna en hinn alltaf í fríi. Einhverjir hafa nú komið veit ég, svona helgi og helgi, til að leysa blessaðan manninn af enda veitir ekki af. Hann hlýtur hins vegar að vera löngu útbrunninn og búinn á því. Þvílíkt álag og þvílíkt starfsþrek hlýt ég að segja! Læknishéraðið gríðalega víðfemt og stórt, keyrslan því mikil og útköllin oft löng. Hvernig er hægt að leggja þvílíkt álag á einn mann og hvað getur hann enst lengi við svona álag??
Þjónustan hlýtur að skerðast við þetta allt saman, maðurinn getur ekki verið á mörgum stöðum í einu og sinnt einn stofu á meðan hann hendist í útköll, útibú stöðvarinnar, hjúkrunarheimili sem eru vítt og breytt um héraðið eða á fundi út um allt eða hvað? Kannski þarf enga fundi. Hvenær fer læknirinn uppi í hesthúsi eða á hestbak? Á nóttunni? Hvenær sinnir hann fjölskyldu sinni? Hvernig fer sveitarfélagið að þegar hann er á Reykhólum eða í löngum sjúkraflutinngum utan héraðs? Héraðið læknislaust á meðan. ÚFF, þetta er svakaleg ábyrgð og álag á einum manni og hlýtur að enda með skelfingu; hjartastoppi hjá honum eða einhverju þaðan af verra. Ekki kalllar hann til varamenn til að hlífa sér. Hann stendur sína pligt sjálfur!
Illa er búið að læknum okkar úti á landsbyggðinni ef ástandið er svona slæmt víðar, það er víst óhætt að segja. Það er ekki að engu að menn staðni og brenni út í starfi. Ekki er framkvæmdarstjórinn í Búðardal öfundsverður að hlutverki sínu, ástandið hlýtur að leggjast þungt á hann enda orðinn rígfullorðinn maður og ábyrgð hans sem opinbers embættismanns mikil og íþyngjandi. Það reynist honum örugglega erfitt að sjá til þess að læknirinn hans fái viðeigandi sí- og endurmenntun og nauðsynlega hvíld. Þetta er bara ekki hægt!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)