Gjaldtaka og Hvalfjarðargöng

Vestlendingar og Vestmannaeyingar búa einir landsmanna við það að þurfa að greiða fyrir noktun á sínum ,,þjóðvegi". Þeir síðarnefndu eru tilneyddir til að greiða fyrir siglingu með Herjólfi eða flug  til að komast upp á fastalandið en Vestlendingar greiða gjald fyrir að aka um Hvalfjarðargöng.  Margur finnur fyrir því gjaldi á pyngju sinni þar sem töluvert er um að þeir stundi vinnu sína utan héraðs, aðallega á höfðuborgarsvæðinu. Einnig eitthvað um það að höfuðborgarbúar stundi vinnu sína á Vesturlandi.  Þannig eru margir að aka um Hvalfjarðargöngin allt að tvisvar á dag.

Ef litið er á stefnu stjórnarflokkana í samgöngumálum kemur í ljós að Samfylking hefur enga eiginlega stefnu í samgöngumálum. Tala einungis almennt um ,,stórátak" í þeim efnum enda ,,byggist raunhæf byggðastefna á góðum samgöngum".  Stefnlaust rekald sem auðvelt er að ,,díla" við.

Sjálfstæðismenn eru öllu skýrari í afstöðu sinni til þessara mála og telja ,,mikilvægt að nýta til hlítar nýja möguleika á fjármögnun samgöngumannvirkja, s.s. gjaldtöku og einkaframkvæmd". Þeir ráða auðvitað ferðinni.

Stjórn Spalar efh samanstendur af sjálfstæðismönnum, lögfræðing á vegum fjármálaráðuneytisins sem er undir stjórn Sjálfstæðismanna,  aðstoðarvegamálastjóra sem heyrir nú undir ráðherra Samfylkingar en áður ráðherra Sjálfstæðismanna, Eimskipsmanni, og oddvita Hvalfjarðarsveitar en hann tilheyrir  Lista Sam Einingar. Árstekjurnar yfir annað hundrað milljarðar fyrir skatt og hagnaður eftir skatt yfir 100 milljónir. 

Það er því augljóst að á meðan núverandi stjórnarflokkar halda um stjórnartaumana verða engar breytingar á gjaldtöku um Hvalfjarðargöng eða til og frá Vestmannaeyjum. Þegar er farið að ræða um að bjóða út frekari gangnagerð til einkaaðila og flýta þeim framkvæmdum og fjármögnun með því að taka upp gjöld á fleiri leiðum. Skyldu Héðinsfjarðargöng vera inni í þeim umræðum? 

Raddir um niðurfellingu þessara gjalda heyrast af og til, ekki mjög háværar og svo virðist sem fjölmiðlar hafi engan sérstakan áhuga á því að vekja máls á þessari mismunun sem gerður er á landsmönnum eftir landsvæðum. Hvernig skyldi standa á því?

Í huga mér er stöðug ein spurning; hvað voru kjósendur að hugsa í síðustu kosningum? Er þetta virkilega það sem landsmenn vilja? Sick

Einkavæðing er stefna ríkisstjórnarflokkana og það sem koma skal í öllum málaflokkum. W00t


Hæfniskröfur bæjarstjórnar- og sveitarstjórnarmanna

Hnaut um áhugverða lesningu í kvöld. Elliði, bæjastjóri Vestmannaeyja kvartar sáran yfir stöðu þeirra byggða sem byggja allt sitt á sjávarútvegi. Kennir þingmönnum um alvarlega stöðu mála og þá helst þingmönnum Frjálslynda flokksins og jú, einhverjum öðrum líka. Vildi hins vegar ekki nafngreina þá sem hann telur ábyrga. Mig skal ekki undra, hann getur ekki nafngreint einn þingmann Frjálslyndra sem ber ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er í sjávarplássunum, ekki nema þá með því að fara með ósannindi opinberlega. Gæti reynst honum dýrt og því betra að loka þverrifunni. Honum reynist örugglega erfitt að nafngreina félaga sína og samflokksmenn. Er ekki núverandi sjávarútvegsráðherra Bolvíkingur og hefur setið í ríkisstjórn í meira en áratug? Hver skyldi ábyrgð hans vera í málefnum landsbyggðarinnar?

Viðtalið við Elliða vakti mig til umhugsunar um þá hæfni og kröfur sem eru gerðar til bæjar- og sveitarstjórnarmanna almennt. Þær eru í raun engar aðrar en þær að vera með lögheimili í því byggðalagi sem þeir starfa og vera fjárs síns ráðandi. Síðustu árin hefur borið á því að erfiðara er að fá fólk til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum. Það undrar mig svo sem ekki enda pólitíkin hörð og óvægin, ekki síst í litlu klíkusamfélögunum þar sem áherslur og málefni ráða ekki för heldur fjölskyldu- og vináttubönd. Það er erfitt að fara gegn slíkum klíkum enda með ítök alls staðar. Seint verður hægt að segja að pólitísk barátta innan litlu samfélaganna sé málefnaleg. Þar ræður skítkast og níð för.  Allt týnt til sem hægt er að finna, ef ekkert finnst þá er það einfaldlega búið til og virðist engin takmörk á hugmyndaflugi manna í þeim efnum.

Skipta má þeim einstaklingum sem veljast til bæjarstjórna- og sveitarstjórnastarfa gróflega  í tvo hópa; annars vegar þá sem sækjast eftir því að komast til valda og áhrifa til að svala eigin valdaþörf og hins vegar þá sem vilja leggja sitt af mörkum til að gera samfélag sitt eftirsóknarvert og betra samfélag til að búa í. Sem sé af hugsjón og með þarfir íbúanna í huga. Vissulega er það til í dæminu að menn eru hreinlega tilneyddir að taka að sér þessi störf, ekki síst í allra minnstu samfélögunum og er það þá undir hælinn lagt hvorum hópnum þeir tilheyri eða jafnvel einhvers staðar á milli, hlutlausir og aðgerðarlitlir.

Í fyrrnefnda hópnum þar sem menn sækjast eftir áhrifum og völdum eru gjarnan einstaklingar sem þegar hafa nokkur ítök í sínu byggðalagi í krafti starfs síns; skólastjórinn, atvinnurekandinn, útgerðarmaðurinn, óðalsbóndinn, formenn stjórmálafélaga, bankastjórinn, jafnvel presturinn, sýslumaðurinn og læknirinn. Sem slíkir hafa þeir mikil áhrif og að viðbættum völdum og áhrifum sem bæjar- og sveitarstjórnarmenn hafa, eru þeim engin takmörk sett. Þeir hafa alls staðar ítök, áhrif og völd. Ráða í raun hverjir búa í sveitarfélaginu, hverjir fá atvinnu, lánafyrirgreiðslu, húsnæði, lóðaúthlutanir, leikskólapláss o.s.frv.

Völdin virðast ótakmörkuð, eigin áhuga- og hagsmunamál sett á oddinn og ná að öllu jöfnu fram að ganga. Ef einhver mótmælir er snarlega reynt að þagga niður í honum, með góðu eða illu. Valdamiklir einstaklingar eru vanir að safna í kringum sig hirð ,,já-manna" sem þóknast ,,leiðtoga" sínum í einu og öllu. Þannig spynnst eins konar valdaköngulóavefur inn í samfélagið, valdamaðurinn með ítök og þræði alls staðar þar sem skiptir máli. Þannig getur hann séð eigin hagsmunum borgið. Ósjaldan er ,,já-mönnum" hent út þegar búið er að nota þá til þess sem þeir eru ætlaðir til og nýjum hleypt inn fyrir hliðið.

Það er vissulega erfitt að gera ákveðnar hæfniskröfur til bæjar- og sveitarsjórnarmanna en ef litið er á eðli starf þeirra er ljóst að þeir þurfa að hafa haldgóða þekkingu í opinberri stjórnsýslu og stjórnsýslulögum. Hver einasta ákvörðun bæjar- og sveitarstjórnar er stjórnvaldákvörðun og ber að fara að lögum þegar þær eru teknar. Fjármál eru stór þáttur í störfum þeirra, þ.e. að ákvarða dreifingu og forgangsröðun á tekjustofnum sveitarfélaganna. Þeim ber að tryggja að lögbundnum verkefnium sveitarfélaganna sé sinnt og veita ákveðna grunnþjónustu sem einnig er bundin í lögum. Semja fjárhagsáætlanir, bæði til eins árs og þriggja ára og reka stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins.  Þurfa þ.a.l. að hafa haldgóða þekkingu í fjármálafræðum og þekkingu á hlutverkum sveitarfélaganna.

Slíka þekkingu og reynslu er ekki hægt að tileinka sér á stuttum tíma, það er hins vegar auðvelt að verða sér úti um grunnþekkingu á þessum sviðum og leita eftir sérþekkingu þegar það á við. Þá kröfu er hægt að gera til bæjar- og sveitarstjórnarmanna. Hún er sjálfsögð. Hins vegar má gera þær kröfur til bæjar- og sveitarstjóra að þeir hafi haldgóða þekkingu á málaflokkum á sveitarstjórnarstiginu og á fjármálum. Þeir eru jú framkvæmdarstjórarnir og sérfræðingarnir.

Við sem höfum búið eða búum í litlum samfélögum úti á landi, þekkjum áhrif þeirra sem sækjast eftir völdum og hafa ítök alls staðar. Gegna oft trúnaðarstörfum og sem slíkir hafa þeir aðgang að viðkvæmum upplýsingum um nánungann. Heilsufar, fjármál, fjölskyldumál. Klíkan allsráðandi, engum utanaðkomandi hleypt inn í sæluna. Þeir verða að sitja úti í kuldanum og láta þetta yfir sig ganga. Mótmælin of dýrkeypt, starfið getur fokið, búskapurinn, börnin látin gjalda þess o.s.frv. Hvernig er hægt að vera pólitískur andstæðingur bankastjórans, sóknarprestsins eða yfirlæknisins? Alfeiðingarnar auðvitað ,,disaster".  

Íbúarnir verða að láta ýmsilegt yfir sig ganga og geta fátt gert í stöðunni, ekki nema á 4 ára fresti og ansi oft eru sárir íbúar fljótir að gleyma og fyrirgefa þá.

Sumir eiga ekkert erindi inn í pólitíkina og bæjar- og sveitarstjórnarmál. Eiga að halda sig við sitt fag. Elliði er dæmi um það, vinsæll kennari en kolómögulegur bæjarstjóri sem rýkur í fjölmiðlana um leið og honum mislíkar eitthvað.  Hefur hátt enda með gjallarhorn í rassvasanum.  Ætti að halda sig við lífsleiknina og starfið með unga fólkinu. Láta pólitíkina eiga sig. Það sama má segja um einn bæjarstjórann vestur á firðum. Ætti að halda sig við tónlistina og skipulagningu tónleika. Listinn ótæmandi í þessum efnum.

 


Alvara lífsins tekur við

Allt komið í gang, vinnan og heila klabbið. Setti mér nýtt markmið um áramótin; ætla mér að leyfa mér þann lúxus að horfa á fréttirnar á kvöldin. Fylgjast betur með og fá mér kríu í leiðinni að sjálfsögðu. Fór eftir settu marki í kvöld eins og vera ber.

Sinnti ýmsum málum varðandi kennsluna í dag, eftir það drifum við mægður okkur í klippingu, litun og skveringu. Sýp hveljur þegar ég hugsa um kostnaðinn; rúmar 26.000 kr fyrir okkur báðar. Er þetta í lagi? Hélt ég yrði ekki eldri. Það margborgar sig að láta hárið vaxa og hafa ,,náttúrulegan" lit. Get eiginlega ekki réttlætt það að eyða 13.000 kr. á 5-6 vikna fresti í hausinn á mér. Á líka þessa fínu hárkollu; Lafði Jósefínu, ef ég þarf að vera fín. Ekki það að ég er þrælánægð með hausinn á okkur báðum, ekki vantar það en dýrt er það.

Fleiri markmið á leiðinni; ætla mér að ljúka uppgjöri erfiðra mála áður en ársfjórðungurinn er liðinn. Kominn tími til að ljúka þeim málum til að geta hafið hið nýja, ljúfa líf.  Mun ekkert gefa eftir í heiðarlegu uppgjöri.  Það verður tekið til í sjálfri mér og heimilinu. Öllu snúið við, hrist úr vösum, breytt og hent eftir þörfum. 

Gaman verður að sjá hvaða markmiðum ég næ að framfylgja, heillavænlegast að hafa markmiðin svolítið víð, bæði í orðalagi og tímasetningumWhistling

Sýnist vinnuálagið ætli að vera eilítið minna næstu mánuði en þá undangengnu, kannski ég eignist ,,líf" og fari að stunda eitthvert félagslíf og mína fyrri iðju; símann.  Hef þó nokkrar áhyggjur af tekjuhliðinni en það verður einfaldlega að koma í ljós hvernig þau mál þróast.   Mun gefa mér tíma til að hitta ættingja og vini. OMG hvað það verður mikið að gera! Listinn langur enda ótæmandi.W00t

Viðurkenni að ég er spennt eins og alltaf um áramót. Finnst alltaf felast í þeim nýtt upphaf, og ný tækifæri.  Fegin að liðið ár er að baki, endalaus vonbrigði, mótlæti og sorg. Vissulega góðar stundir inn á milli og sætur sigur en erfiðleikarnir skyggja svolítið á þá minningu. Ætla mér hins vegar ekki að velta mér upp úr því. Læt verkin tala og klára málin.

 

 

 


Heima er best

Rosalega er gott að vera komin heim. Þrátt fyrir yndislegan tíma úti með krökkunum þá er heima alltaf best. Er þeytt eftir ferðina, klikkaði ekki á því að sofa frameftir frekar en fyrri daginn. Hef eiginlega ekkert gert af viti í allan dag. Vona að ég hafi náð að bjarga þeim blómum sem voru enn á lífi við heimkomuna

Katan hefur ekki snert jörðina síðan hún kom heim og síminn ekki þagnað. Verið eins og fiðrildi um allt enda vinirnir margir. Hún bókstaflega blómstrar. Ekki laust við að ég hafi áhyggjur af Haffanum einum úti, veit þó að hann tekur því með jafnaðargeði að þurfa að vera lengur. Stefnir á heimferð þann 17. janúar. Er farin að leita að verðugu lambalæri fyrir drenginn.

Opnaði jólakortin mín í dag, varð auðvitað viðkvæm og aum. Þakklát þeim sem mundu eftir okkur. Fyrir mér eru jólakort mikilvæg, ég get ekki skrifað þau á einhverju handavaði. Nei, takk það eru serimóníur í kringum þá athöfn.  Rétt stemning, lengi að finna orðin, hvað passar nú hverjum o.s.frv. Okkar kort fóru frá Debrecen en allsendis óvíst hvenær og hvort þau berist. Það verður að koma í ljós en óneitanlega leiðist mér sú óvissa.


Er aðeins að ná mér niður eftir dópleitina á Keflavíkurflugvelli í gær. Tel það með öllu útilokað að um hefðbundna tollskoðun hafi verið að ræða. Maður á kannski að fagna þessu ,,góða" eftirliti sem haft er með farþegum til landsins. Trúlega er ólíklegasta fólk sem flytur eiturlyf til landsins þó mér finnist erfitt að ímynda mér að miðaldra kerling falli undir þann hóp, enda var uppskera manna rýr. Mér finnst ég hafa verið aðalhlutverki í hörku bíómynd og stórmerkileg persóna. Ekki þykir það amalegt. 

Þótti fróðlegt að fara út í búð með dótturinni í dag. Allt tómt í kofanum auðvitað eða útrunnið þannig að nú varð að fylla á. Þvílíkur verðmunur á nauðsynjavörum hér og úti, maður minn! Sá munur er meiri en þrefaldur í flestum vöruflokkum og svei mér ef mér finnst verðlagið ekki hafa hækkað síðan ég fór síðast út í búð hér. Hef ekki verið dugleg við innkaup eftir að krakkarnir fóru út. Vissulega eru sumar vörur dýrar úti í Ungverjalandi, einkum og sér í lagi svonefndar  munaðarvörur en verðlagið hér er ótrúlegt. Vikubirgðir af mat og hreinlætisvörum þar sem ekkert var til sparað fóru aldrei yfir 10.000 kr. úti og við Kata greiddum 25.000 forentur eða rúmar 8.000 kr. samanlagt fyrir hótelgistingu, kvöldverð og ýmsilegt annað (lúxus) í Búdapest sem þykir dýr borg miðað við aðrar borgir í Ungverjalandi. Nauðsynlegustu matvörur sem endast fram á morgundaginn og hreinlætisvörur kostuðu rúmar 8.000 kr. í Krónunni í dag. Þarf að leggja höfuðið í bleyti og finna góða viðskiptahugmynd.W00t

Framundan nýtt ár og breyttar áherslur. Er býsna spennt og hlakka til enda nýtt ár og ný tækifæri. Þarf auðvitað að ljúka ákveðnu uppgjöri og finn að dvölin úti, næðið og breytt umhverfi gerðu mér gott. Finnst ég betur í stakk búin til ýmissa ákvarðana og hef að einhveru leyti aðra sýn á sum mál. Alvara lífsins tekur við á morgun, er spennt að takast á við ný verkefni. Allt tekur að enda og í öllu mótlæti felast tækifæri. Á það verður einblínt.


Lent á Fróni

Við mæðgur loks komnar heim. Hið eiginlega ferðalag hófst í gær kl.15.00. Heimkoma kl.18.00 í kvöld.

Skelfilegur endir á erfiðu ferðalagi, efni í heila færslu að fjalla um leiðina Búdapest-Kaupmannahöfn.  Ekki skánaði ástandið í Keflavík, heil ritgerð um þá reynslu. Hörmulegur endir og auðmýkjandi í alla staði. 1 og 1/klst í ,,tollinum" sem ég kýs að kalla ,,öryggis- og fíknefnaleit". Fíknefnahundur og heila klabbið, allt rifið og tætt úr töskum. Engar útskýringar, ekkert val, enginn réttur! Lögsaga flugvallarins með víðtækari rétt en lögreglan, svo ég vitni í orð töllstjóra. Svo virðist sem stjórsýslulög ná ekki yfir þessa lögsögu. Einstaklingur berstrýpaður af öllum rétti. Hvaða lög skyldu gilda um þessa starfsemi og aðgerðir meintra tollvarða sem þurfa ekki að kynna sig né tilgang, aðferð né annað? Einungis framkvæma. Leitarhundurinn vildi ekki sjá okkur mæðgur né okkar hafurstask. Það vildu hins vegar aðrir og það heldur betur.

Ætli herlög gildi í Leifsstöð??? Í öllu falli voru skilaboðin skýr; þegiðu og gerðu það sem við förum fram á, annars.....  Þegar aðspurðir hvað fælist í ,,annars" var fátt um svör. Einskonar ,,af því bara og þegiðu".  Það þarf ekkert að útskýra á þeim bænum, einungis framkvæma. Og maður þagði, beit á jaxlinn, lét þetta yfir sig ganga. Tilefnið? Okkur kom það ekki við. Menn lögðu mikla vinnu í að þreifa og þukla hverja flík vandlega, nærfötin auðvitað ekki undanskilin. Menn kipptu sig ekki upp með það þó þau flygju á gólfið.  Engar spurningar um tollskyldan varning, hvað þá verðmiða á fatnaði.

Ég þarf og mun komast að því hvernig þessum herlögum er háttað í Leifstöð. Menn halda ekki vatni yfir látum Bandaríkjamanna. Erum við ýkja langt frá þeim???  Við mæðgur sáum ekki betur en að einhver útlendinsræfill hafi lent illa í málum, rétt á eftir okkur.  Við síðust út úr fríhöfninni (svo kallaðri). Króaður af, hent inn í herbergi fyrir framan okkur, sólar skornrr frá skónum, urrað á strákræfilinn á bjagaðri ensku sem var með 2 KARTON af tóbaki en ekki 1!Devil

Ekkert hafði fundist á meðan okkar dvöl stóð í þessum huggulegu híbýlum. Hundurinn leit ekki við honum. Hvað skyldi hafa orðið um drengstaulann?

Þretta var barasta alveg eins og í ,,amerísku" bíórmyndunum! En er mönnum ekki alltaf kynntur réttur sinn í þeim?  Whistling  Það er hins vegar ljóst á íslensku stjórnsýslulögin ná ekki yfir Leifstöðina né störf toll- og öryggisvarða.  

Það verður ótrúlega ljúft að leggjast á koddan núna á eftir, mikið rosalegar er ég ánægð að dagurinn sé liðinn og að ég sé komin til míns heim.  .Er sloppin úr príundunni, í bili a.m.k. Fátt mun halda mér vakandi næstu klst.


Ferðahugur

Kominn ferðahugur í okkur mæðgur, styttist í heimferð. Katan fer í seinna prófið sitt í fyrramálið, efnafræði. Vona að allt gangi upp. Planið að taka heimferðina í tveim áföngum, þ.e fara til Búdapest á föstudag og gista þar enda ræs kl.04 um nóttina og flug þaðan til Köben um kl.07. Ef við færum héðan væri brottför um kl.01 og síðan stanslaus keyrsla á okkur þar til lent er heima á Fróni.

Búið að vera yndislegur tími hér. Afrakstur minn hins vegar skammarlega rýr, hef ekki lokið þeim verkefnum sem stóðu út af borðum. Lesið mikið en verið gjörsamlega týnd og engan veginn í formi til að koma mér að þeim atriðum sem skipta máli. Það jákvæða við þennan tíma er tvímælalaust samveran  með krökkunum, þvílík heppni að getað komið því við að eyða jólunum saman. Hef tekið því yfirmáta rólega og ætti að vera búin að snúa ofan af mér og hlaða batteríin.

Alvara lífisins framundan, vinnan og skólinn. Af nógu er að taka eins og fyrr daginn. Verð áfram að vinna töluvert, alla vega næstu mánuði, þannig er það einfaldlega og ekkert annað en að sætta sig við það. Er heppnari en margur annar, get þó unnið. 

Það verður erfitt fyrir Hafstein að verða einn eftir hér í Debrecen, flestir félagarnir  farnir eða á förum.  Við Kata líka.  Bekkjarfélagar hans fóru margir heim fyrir jól og koma seinni partinn í janúar til að taka prófin sín. Hann ákvað að ljúka þeim fyrst úr því Katan hefði aldrei komist heim í jólafrí. Við bíðum spennt eftir því að settir verði inn auka prófdagar þannig að hann geti tekið stóra prófið í kringum 8. jan.  Á þá eftir eitt annað próf sem er öllu minna í umsvifum. Veit að hann klárar sig drengurinn, það er aðallega ég sem væli, tel mig svo ómissandi.

Hlakka til að hefja nýtt ár, takst á við þau mál sem bíða. Móta framtíðina og taka næstu skref. Hef kunnað að meta letilífið hér, gæti alveg hugsað mér að vera hér áfram, fengi ég vinnu og sæmileg laun en slíkt er ekki í boði. Verð því að láta heimsóknir duga. Er farin að sakna hundanna, þvílíkt hvað ég er háð þeim. Veit þó að það fer vel um tíkurnar og köttinn.

Allir komnir í ró, ræs kl.07, Kári og Katan sem sé að fara í próf. Stefnan sett á smá ,,shopping" eftir próf. Löngu orðið tímabært að við mæðgur skryppum og gerðum okkur einhvern dagamun. Kaffihús með meiru. Stefnum einnig á að fara út að borða annað kvöld, í fyrsta skiptið síðan ég kom. Ekki seinna vænna.  Muna bara að það kemur alltaf að því að borga af kortinuWhistling

Ætla í fyrra fallinu í háttinn, löngu orðið tímabært að snúa sólahringnum við aftur. 


Steinlá

Þar kom að því; ég steinlá í dag með pest. Hef grun um að þetta sé inflúensa miðað við einkenni, var ekki búin að láta bólusetja mig. Held að toppnum sé náð eftir viku veikindi og nú sé mín á uppleið. Svaf drjúgan part dagsins, rétt náði að elda og síðan var skriðið upp í sófa þar sem ég steinsöfnaði til kl.22.00 á staðartíma. Mikið hressari núna en ekki sloppin.

Eyddum gamlárskvöldi í miklum rólegheitum. Litla famelían og 3 gestir, borðuðum góðan mat og spjölluðum. Ég var búin á því rétt fyrir miðnætti á staðartíma, þraukaði þó til miðnættis á íslenskum tíma. Fannst áramótin ekki komin fyrr en þá. 

Krakkarnir rólegir, ekkert ármamótadjamm á þeim, rosalega eru þau hörð við sjálfan sig, ég get ekki annað sagt. Nokkuð um að bekkjarfélagar Kötu væru einir, hver í sínu horni í gærkvöldi en virtust velja þann kostinn. Þáðu alla vega ekki að koma í mat.  

Ungverjar skutu upp meira en við áttum von á en komast náttúrlega ekki í hálfkvist við okkur Íslendingana. Flugeldasýning á torginu hér í Debrecen en ekkert okkar hafði orku í að fara þangað. Þvílíkt framtaksleysi í okkur. En allir voru sáttir og það skiptir mestu máli.

Átti svolítið erfiðan tíma um miðnættið eins og búast mátti við. Áramótin kalla alltaf á minningar og uppgjör, hvað ávannst á árinu?, hvað kom upp á? o.s.frv. Á eftir mikla vinnu í sjálfri mér og uppgjöri áður en ég get grafið það liðna. Er ekki enn komin á það stig að geta fyrirgefið böðlum mínum, held að ég eigi ansi langt í land með það. Finnst enn ósanngjarnt að aðrir stjórni því hvar ég bý, vinn o.s.frv. Eiginlega ekki hægt að sætta sig við það. Í öllu falli er mikil vinna framundan í þessum efnum.

Dvölin styttist í annan endan, hlakka til að koma heim en það verður erfitt að vita af Hafsteini hér einum en hann er ýmsu vanur og kvartar ekki. Það er frekar að ungamamman telji sig ómissandi. Tveir dagar í próf í efnafræði hjá Kötunni, setið stíft við lesturinn og gengið vel. Hún telur dagana niður þar til við förum heim. Búið að vera yndislegt hérna, langar ekkert lítið til að vera hér að vori, hitinn mikill og sólardagar margir. Mér skilst að gróðurinn sé virkilega fallegur. Kannski að sú ósk mín rætist; að liggja í leti í sólinni og hafa það yfirmáta ,,nice". Er orðin sóldýrkandi, eitthvað sem hefði aldrei hvarflað að mér, nennti aldrei að vera í sólbaði sem krakki og fram undir síðustu 2-3 árin.

Enn búin að snúa sólahringnum við, þarf að fara beita mig meiri hörku í þeim efnum....Styttist í alvöru lífsins, stefnubreytingu og ákvarðanir. Jamme.....  Af mörgu er að taka og ekkert af því er einfalt.Whistling

 


Gleðilegt árið

Þá er árið liðið.  Græt það ekki. Fagna því nýja.

Óska fjölskyldu, vinum og vandamönnum gleðilegs og gæfuríks árs með þökk fyrir allt á liðnu ári. 

Saknaðarkveðjur frá okkur í Debrecen 

 

gle�ilegt �r 2

 


Breytt áætlun

Hafsteinn tók ávörðun um að fresta prófinu í meinafræðinni. Ekkert vit í að lesa 16 tíma á dag í tæpar 3 vikur og mæta í prófið án þess að hafa náð að fara yfir allt efnið. Mæta upp á von og óvon um að hann verði heppinn með efni og sleppi í gegn.  Þegar svona langt er komið í náminu skipta einkunnir miklu máli.  Ekki margir aðrir dagar á lausu en vonir standa til þess að prófdegi verði bætt inn í annarri viku af janúar. Þetta þýðir skaplegri lestur en styttra frí heima að loknum prófum. Svona er þetta og er ég mjög sátt við ákvörðun hans. Hef varla séð hann síðan ég kom, varla að hægt sé að segja að hann hafi tekið pásu á aðfangadag.

Þessi breytta áætlun verður líklega til þess að við gerum okkur einhvern dagamun annað kvöld. Kötu sækist lesturinn vel og getur því slakað aðeins á. Gerum örugglega engar rósir en slöppum af yfir góðum mat og reynum að horfa á Skaupið á netinu þegar fram líða stundir.

Er bæði kvíðin og ánægð vegna áramótanna, þetta ár senn á enda og get ég ekki sagt að ég gráti það. Er hálf  fegin að því sé að ljúka; það kemur aldrei aftur. Reynslan situr eftir, á eftir að vinna úr ýmsu ennþá.  Ákveðin tilhlökkun en engu að síður beygur gagnvart nýju ári. Einhvern veginn er það  innprentað í mann að með nýju ári skapist ný tækifæri. Óvissa og hið óþekkta veldur hins vegar alltaf einhverjum skjálfta auk þess sem það er löngu tímabært  að fara taka ákvarðanir um framtíðina. 

Gunnar Brynjólfur á afmæli dag; til hamingju frændi.Wizard Hlakka til að sjá ykkur og skæruliðana á nýju ári. Finnst svo örstutt síðan hann fæddist, þó liðin 27 ár, takk fyrir! Tíminn flýgur bókstaflega.


"Viðsnúningur"

Búin að snúa sólahringnum við, vaknaði reyndar í býtið í morgun en finnst ótrúlega gott að leggja mig aftur enda beinlínis fyrir þeim þrem sem eru í próflestri hér á heimilinu. Skreið á fætur upp úr hádegi og eftir óratíma og nokkrar tilraunir tókst mér að setja á mig ,,andlit" og dreif mig í Plaza sem er eitt mollið hér. Útsölur í gangi en aðalmálið var að komast út og fá sér gott kaffi, skipta um umhverfi. Keypti inn að venju, lagði í svínakjötið hér sem var bara allt í lagi. Þurfti ekki að hrína í búðinni, dugði að benda í þetta skiptið. Svo virðist sem svínakjöt sé mikið á borðum hjá Ungverjum, alla vega er kjötborðið troðfullt af því. Hins vegar fylgir ekki sögunni hvaða partur svínsins var hér á borðum, hef ekki hugmynd um það.

Er nú í mínu fínasta formi, vel vakandi og spræk, búin að ,,screena" blessuð fræðin. Loksins. Nú er að reyna að koma einhverju á blað.  Mér sýnist heilladrýgst að lesa og vinna á kvöldin þegar krakkarnir fara í koju. Trufla minnst þannig.  Svakalegur tími hjá Haffa, búinn að sitja stanslaust við lestur síðan 19. desember, nonstop! Prófið verður þann 3. jan og ljóst að hann mun ekki komast yfir allt efnið. Vonandi verður hann heppinn í prófinu sem skiptist í 3 eða 4 hluta.

Ótrúlegt að það sé að koma gamlársdagur, sé ekki að við gerum neitt til hátíðarbrigða nema þá helst í mat. Krökkunum veitir ekki af tímanum til lesturs þannig að nýaárið verður eins og hvert annað kvöld. Kvíði eiginlega svolítið fyrir. Er ekki vön að stunda djammið á þessum tímamótum en föst í venjum og vil gjarnan horfa á mitt skaup og fréttaannál og horfa á raketturnar. Ekki mikið um þær hér, skilst mér. En við erum saman, þessi litla famelía og það er aðalatriðið.

Dagarnir renna út í eitt hér, var að uppgötva það fyrir stundu að það er laugardagskvöld!  Fannst vera virkur dagur.  Dvölin styttist í annan endan, tíminn bókstaflega búinn að fljúga áfram. Ef allt gengur upp verðum við Kata samferða heim en Haffi þarf að vera lengur vegna sinna prófa. Krossa fingur í þeirri von að hann verði heppinn og  nái meinafræðinni í fyrstu atrennu. Margur er að þurfa að taka þetta próf x 2-3, þykir ansi stíft og efnismikið. Endurtekning þýðir styttra frí heima áður en vorönnin hefst. Enginn heimsendir en strákurinn vissulega orðinn þreyttur.

Stefni á afköst á morgun, þvílíkur léttir verður það að setja einhverjar línur niður á blað og koma verkefnum af staðW00t

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband