Leti

Verið með eindæmum löt í dag, fátt eitt gert annað en að glugga í fræðin áfram og dúllað mér. Komin með enn aðra pestaskömmina, flensulík einkenni og skítkalt. Eitthvað hefur þó þokast í lestrinum þó afraksturinn sé rýr ennþá.

Dagurinn þó gleðilegur; Kata fékk fullt stig húsa í sínu prófi í morgun, fékk 5 af 5 mögulegum.   Haffi þrælast í gegnum sitt námsefni frá morgni til kvölds, ekkert gefið eftir, enginn tími fer til spillis. Hann hefur ekki farið út fyrir dyr síðan 22. des nema til að bera inn poka fyrir mig þegar ég kem úr matarinnkaupum. Orðinn ansi ,,prófleslegur" en engan bilbug á honum að finna, seiglan ótrúleg. Er ekki lítið stolt af ungunum. InLove

Er eiginlega búin að vera í hálfgerðu sjokki, eftir því sem ég þrælast meira í gegnum fræðin sé ég hvert stefnir í ríkismálum, sérstaklega heilbrigðisþjónustunni. Þar á bæ er greinilega stefnt að einkavæðingu eins og ég hef áður sagt með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Einkennilegt hvað við Íslendingar erum duglegir að taka upp stefnur sem aðrar þjóðir hafa hent þar sem þær hafa ekki virkað.  Jafnvel gert illt verra. Mér sýnist einu kostirnir í stöðunni fyrir heilbrigðisstarfsmenn vera þá að  annað hvort að taka þátt í þeim breytingum sem framundan eru eða snúa sér að öðrum málum.

Sjálfstæðismenn náðu ekki að hrófla við starfsmannalögunum á síðasta kjörtímabili, nú á að fara aðra leið; fækka opinberum starfsmönnum og  kaupa þjónustuna af einkaaðilum. Kannski má greina vísi að þeirri leið í nýútgefinni stefnu LSH þar sem fram kemur að ekki verði ráðið í stöður sem losna. Nú þegar er talið að vanti fleiri hundruð hjúkrunarfræðinga við spítalann. Hvernig er hægt að fækka þeim frekar? Þjónustan þegar skert??  Úff, pólitík og embættismannakerfið! Kannski menn eigi einungis við skrifræðið innan spítalans og fækkun starfsmanna á þeim vettvangi??  Einhvern veginn efast ég um það. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni.

Vonandi verður heilsan skárri á morgun, ætla mér að skreppa aðeins í ,,sightseeing". Krakkarnir á fullu í lestrinum áfram og ég á góðri leið með að mygla hér innan dyra. Hef gott af því að hreyfa mig aðeins svo ekki sé minnst á að skreppa á kaffihús. Við Kata létum ekki verða af því í dag enda var skynsamlegt að halda sér innandyra. Ofboðslega kalt úti. Fróðlegt að sjá hvaða dýri ég líki eftir við kjötborðið á morgun, fiskurinn ekki kaupandi hér Whistling

Er hæstánægð með bloggið hans SIgurjóns Þórðarsonar, fyrrum alþingismanns, um málefni Sláturhúss Dalabyggðar. Það eru fleiri en ég sem skilja ekki hvað menn eru að hugsa. Hvernig ætla menn að réttlæta slíka ákvörðun og hvernig mun þeim ganga að sæta ábyrgð??? Ég held að þetta mál sé langt frá því að vera búið.Shocking

 


Margt skrítið í Ungverjalandi

Er orðin býsna frökk og fer ein í búðirnar, reyndar í taxa sem kostar á bilinu 350 - 750 kr. eftir vegalengdum. Of langt að ganga fyrir prinsessuna og kann ekki á ,,tramman" hér. Gerði heiðarlega tilraun til að elda nautakjöt í kvöld, þurfti reyndar að baula úti í búð til að tjá mig um það sem mig vantaði. Fékk ansi vænt og flott stykki og hóf eldamennskuna spennt. Nú átti að brillera. Ungverskur rjómi í sósuna gerði hana að algjöru sælgæti, allt meðlæti klárt. Steikti af einstakri fimi hverja steikina af fætur annarri. Í stuttu máli hefði þurft mulningsvél til að mylja kjötbitana, svo seigt var það að venjulegar tennur höfðu vart undan. Kjötið smakkaðist ágætlega en það tók tíma að koma því niður.

Verðlagið hér er svolítið sérstakt og ég ekki búin að átta mig á því hvað liggur að baki. Sá flotta, nítísku eldavél með blástursofni fyrir um 33.000 kr.  Cappucino kaffivél kostar um það bil það sama.  Kílóverð af humri var um 4,500 kr, 3.000 kr. fyrir torkennilegan fiskrétt en nautakjöt og lambakjöt á um 300-450 kr./kg. Svínakjöt ódýrara svo ekki sé minnst á fiðurféð. Fékk flottan ,,ballkjól" á Kötu fyrir 1200 kr. (reyndar á útsölu). Ein húfa kostar það sama og peysa og það sama gildir um trefla og vettlinga, eru á peysuverði.  GSM símarnir eru nokkuð dýrari en heima. Barnafatnaður er fokdýr og það sama gidir um skartgripi sem eru trúlega aðeins dýrari en heima, ekki síst gullið. Er ekki búin að finna stragetiuna á bak við verðlagið hér ennþá. 

Katan fer í sitt próf kl.08 í fyrramálið. Stefnan tekin á kaffihús einhvern tíman dags ef vel gengur. Ég hlakka ekki lítið til að fá félagsskap með mér, hef farið á 2 kaffihús hér í mínu búðarápi og setið þar ein. Ekki mjög fjörugt í kringum mig.  Kaffið reyndar rótsterkt, þarf að prófa mig betur áfram og finna rétta ,,touchið" fyrir mig. Hér kostar kaffi með alls konar krúsindúllum á bilinu 60 - 100 kr. ísl, lítil kók í kringum 100 kr. sem og lítill bjór. Hef reyndar ekki smakkað bjórinn hér en krakkarnir segja hann góðan. Í öllu falli tekur Kata sér smá hlé frá lestri eftir prófið á morgun svo fremi sem hún nær því í fyrsu lotu. Það er ekki sjálfgefið, margir þurfa að endurtaka leikinn x 2-3 áður en þeir ná. 

Hér er áfram kalt og sama veðrinu spáð næstu dagana. Frostið fer í -6°C sem er svo sem ekki neitt neitt en einhvern veginn finnst okkur öllum við finna meira fyrir frostinu hér en heima. Það ,,bítur" meira, hver svo sem skýringin er. 

Er annars búin að vera hálfdottandi síðan í morgun, reynt að þræla mig í gegnum fræðin en hefði þurft vökustaura ef vel hefði átt að vera. Skil ekkert í þessu, það er ekki svo að álagið sé að fara með mig þessa dagana. Er eins og prinsessan á bauninni hér. Ekkert annað að gera en að koma sér í koju og freista þess að vakna hress í fyrramálið.  Verð að fara að sjá einhver afköst,takk fyrir.  Núverandi árangur er skelfilegur, vægt til orða tekið W00t Ég hlýt að verða hrukkulaus með þessu áframhaldi. 

 

photo-sleepkitty

 


Rólegheit

Ekkert nema rólegheitin hérna á mér. Svaf að sjálfsögðu vel og lengi. Búin að eyða seinni partinum og öllu kvöldinu í lestur í fræðunum, enn að vasast í stefnu og stefnuframkvæmd í opinberri stjórnsýslu.  Sækist lesturinn hægt, finn mér alltaf tylliástæðu til að standa upp og gera eitthvað.

Allir komnir í ró enda klukkan 01.30 hér og ræs snemma í fyrramálið. Kata á einn dag eftir í próf í eðlisfræði (Biophysics) og síðan tekur efnafræðin við ef allt gengur að óskum. Haffi á kafi í sinni meinafræði, búinn að vera í nokkra daga að lesa um hvítblæði og eitlakrabbamein en hvorutveggja eru með ótal undirflokka. Þessi hluti efnisins þó einungis um 20% af heildarefninu þannig að mikið er eftir.

Tíminn æðir áfram og styttist óðum í heimferð. Þyrfti að vera duglegri í verkefnavinnunni, þarf eiginlega að klára hana ef vel á að vera. Langar ekki að sitja með þessa pakka fram í ágúst á næsta ári. Þarf einnig að setja upp áætlanir fyrir næstu önn þannig að það er engin hætta á að mér leiðist þó ég sjái krakkana varla nema í mýflugumynd. Þarf að koma mér út í búð, allir búnir að fá upp í kok af hangikjöti og reyktum mat.  Það þarf hins vegar nokkuð mikinn kjark til að gera sig skiljanlegan við kjötborðin hér í Debrecen þegar kemur að innkaupum, menn skilja ekki ensku hér þannig að það er annað hvort að nota alþjóðlega táknmálið eða sleppa innkaupunum. Ekki mín sterka hlið að leika eftir dýrum og alls ekki tilbúin að fara að baula fyrir framan kjötiðnaðarmennina hér en ýmislegt hef ég nú látið mig hafa engu að síðurWhistling

Tel mig lengi hafa vitað hversu erfitt námið er hér úti en maður minn, það er mun meira krefjandi en ég hafði ímyndað mér!  Hér er kafað ofan í hverja frumeind eins og hún kemur fyrir, ekkert undanskilið. Það sem flokkast sem 3 ein. áfangar hér eru samsvarandi 5-7 ein. áföngum heima, grínlaust! Það er ekki af ástæðulausu sem Háskólinn í Debrecen er talin með þeim 10 bestu í heimi. Þeir sem komast í gegnum námið hér, hljóta að standa vel að vígi að loknu námi. Ég er ekki lítið stolt af ungunum mínum; þvílík þrautseigja og harka segi ég nú bara. Afföllin hafa verið nokkur í hópnum hennar Kötu, allmargir gefist upp og farið heim. Mín þraukar enn og er að standa sig mjög vel. Haffinn á þvílíkri siglingu að móðirin er að rifna af stolti. Nokkuð hefur verið um fall og aföll í hans hóp líka. Hann þraukar enn þó erfitt sé að vera í öðru landi.  Hvað getur maður óskað sér frekar? 

 


Pælingar

Miklar pælingar síðustu daga, nægur tími til hugsana. Styttist í áramótin, uppgjör á hinu liðna ári/árum og upphaf á nýju lífi. Hef heitið mér því. Þýðir ekkert að halda fortíðina og hjakka í sama farinu. 

Ef hlutirnir væru í eðlilegum farvegi værum við að hleypa til í fjárhúsunum, nú er þeim kafla lokið. Þau kaflaskil eru ekki sársaukalaus. Á ekki að kvarta, er með krökkunum mínum sem er meira en margur getur sagt. Í raun á ekki að skipta máli hvar maður er á þessum tíma, svo fremi sem maður er með sína nánustu í kringum sig. Er samt hálf fegin að aðfanga- og jóladagur séu liðnir. Erfiðasti hjallinn að baki, fram að gamlárskvöldi....

Krakkarnir farnir inn eftir 12 tíma lestur, ræs kl.08 í fyrramálið, sama prógrammið. Reyni að passa upp á að þau borði reglulega, eitthvað sem þau virðast ekki lengur þekkja. Kalt úti, nýfallinn snjór og stillt veður. Mér sýnist ekki það sama uppi á teningnum heima á Fróni, enn önnur rokan. 

Hef ekki verið dugleg að fara í göngutúra hér í kring, hálf hrædd við útigagnsmennina sem leita sér af einhverju matarkyns  hér um slóðir, ekki síst Sígaunar, skilst mér. Ætti samt að vera í lagi að degi til. Ekki laust við einhver flensueinkenni í dag, kuldahrollur og beinverkir. Haldið mér inni við með þá afsökun að það sé of kalt úti.  Reyktur matur ætlar að fara illa í mína sem ekki bætir úr skák, uppáhaldið mitt. Nóg hafði ég fyrir því að koma steikinni og hangikjötinu út í töskunni góðu.   Svei mér ef maður er ekki orðinn eins og postulínsbrúða, vafin inn í bómullarhnoðra. Það má ekki blása á mig. Tek á þessu á nýju ári, engin spurning. 

Stunda ,,innhverfa íhugun" og rækilega naflaskoðun þessa dagana, leita af farvegi fyrir nýja lífið mitt.  Enn að leita af áttavitanum en farin að sjá til sólar.  Er það ekki byrjunin af einhverju jákvæðu, eða hvað? Fylgir maður ekki sólarganginum Whistling  Ekki laust við ákveðna tilhlökkun að vera fær um að ljúka ákveðnum kafla og hefja nýjan.

Hef notið þess að vaka fram eftir og sofa út. Ekkert sem rekur á eftir mér, búðarápið og gjafainnkaupin búin, ekkert nema rólegheit og tóm sæla. Glugga í fræðin á milli pælinga, verð auðvitað að ljúka við hvorutveggja; verkefnin og ákvörðunartöku um framhaldið.  Er ekkert að flýta mér samt, vafra um á netinu eða á ungversku og þýsku sjónvarpsstöðvunum þegar mér dettur í hug, skutla í eina og eina vél og sé til þess að hafa mat á borðum. Punkta niður í bókina mína góðu inn á milli.

Búin að hafa það fínt þessa daga, krakkarnir yndislegir og allt lukkast vel. Hef samt einhvern veginn ekki komist í hið eina og sanna ,,jólaskap".  Finnst jólin ekki komin ennþá. Er ekkert að ergja mig á því, finnst það sérstök tilfinning engu að síður.

Kvöldinu ætla ég að ljúka með góðri mynd af DVD disk (The Band of Brothers) og fullri poppskál.  Sef klárlega út í fyrramálið. Ég á ótrúlega gottInLove

 systkinin hjá arnold


Jólanótt

Vel heppnað aðfangadagskvöld að baki, krakkarnir komnir í ró enda próflestur í fyrramálið. Allt gekk upp, hamborgarahryggurinn fullkominn, ekkert stress og nægur tími til að elda og gera klárt. Man ekki eftir svona afslöppuðum aðfangadegi, fór ekki á fætur fyrr en um kl.12 enda glaðvakandi núna. Jólatréð sett upp og er það fallegasta sem ég hef nokkurn tíma haft. Aldrei sé svona fallegt tré áður. Ég sé til þess að það verði myndað bak og fyrir. 

Sátum hér 6 saman, Haffi, Kata, Kári og vinir. Allir sáttir við sitt og engin vonbrigði virtust vera með gjafirnar. Samt vantaði stóran hluta af mínu lífi, það virðist engu máli skipta í hvaða landi maður er, söknuðinn er ekkert hægt að flýja, hann eltir mann hvert sem er. Blossar upp við aðstæður sem þessar, jólin sem eru hátíð ljóss og friðar kalla einnig fram minningarnar. Þær læðast aftan að manni og lítið hægt að gera til að verjast þeim, þær koma einfaldlega. Ekkert eðlilegra, ef ekki á stundum sem þessum þá aldrei. Ákveðið sæti er tómt.

Ungverjar skreyta ekki mikið í húsum sínum, hér eru seríur í einstaka gluggum, aðallegar í íbúðum sem námsmenn leigja og þá einkum norðurlandabúar. Þeir eru allmargir Íslendingarnir sem eru að heiman í fyrsta skiptið þessi jólin og það víðsfjarri frá Íslandi. Sem betur fer hafa þeir komið saman og eytt þessu aðfangadagskvöldi saman og gera gott úr aðstæðum. Hörkuduglegt, ungt fólk. Ég get ekki annað en dáðst af þeim.  

Margur á um sárt að binda á þessum tíma árs, ég get rétt ímyndað mér hvernig aðstandendum Gillíar líður þessi jólin svona skömmu eftir brottför hennar. Það er þó ákveðin huggun að vita til þess að fjölskyldumeðlimirnar eiga hvorn annan að en sársaukinn hlýtur að vera óbærilegur engu að síður. Sumir eiga enga að, sitja einir eftir. Sjálf þekki ég það úr starfi að margir eldri borgarar njóta ekki samvista við börn og aðra aðstandendur á jólum og áramótum. Of mikið að gera eða ,,of mikið vesen" að taka aldrað foreldri heim. Allt of oft hef ég orðið vitni af slíku og spyr mig í sífellu; hvernig getur svona lagað gerst? Að gleyma foreldrum sínum, finnast það of mikil fyrirhöfn að fá þau heim. Hvað hefur gerst hjá okkur? 'Eg vona að ég eigi aldrei eftir að upplifa slíka höfnun.

Framundan er rólegur tími hjá mér, ætla mér að fara í þá verkefnavinnu sem ég fékk frest á fyrir jól. Hef góðan tíma og næði næstu daga enda verða krakkarnir  á kafi í lestri frá morgni til kvölds fram að prófum. Fyrra prófið hjá Kötunni þann 28. des og það seinna 3. jan ef allt gengur upp. Haffi fer í mjög strembið próf í meinafræði þann 3. jan.  Í raun of skammur fyrirvari, efnið mjög viðamikið en önnur dagsetning var ekki í boði, allt orðið fullt í æskilegar dagsetningar. Hann verður því að láta á það reyna hvort að þessi tími dugi en tæpt verður það. Ef það gengur ekki í fyrstu lotu er ljóst að hann vær stutt annarfrí heima í janúar. Við krossleggjum fingur og vonum það besta.

Ég vil óska öllum þeim sem líta hér við gleðilegra jóla og vona að allir njóti þeirra vel.  

 

Christmas Candle

 

 


Að kvöldi dags

Þá er þessi dagur liðinn, tókst vonandi að minna Haffa á afmælisdaginn. Í öllu falli vorum við með fámennt en góðmennt afmæliskaffi. Krakkarnir tóku sér stutta pásu frá lestrinum. Mér finnst með ólíkindum hvað meðleigjandi krakkanna, Kári, tekur því vel að vera með kerlingu inni á hiemilinu sem er sífellt að vasast í eldhúsinu og skipta mér að. Góður drengur þar á ferð.

Svolítið skrítið að vera í öðru landi að undirbúa jólin. Þorláksmessan hefur alltaf ákveðinn sjarma yfir sér heima, afmæli Haffa og lestur jólakveðja í útvarppinu. Höfum yfirleitt sett upp tréð á Þorláksmessukvöld, oftar en ekki í stressi og krampa á síðustu stundu. Allt rólegra þetta árið, á reyndar hitt og þetta eftir,  vantar jólapappír og merkispjöld að venju. Einkennilegur ávani að eiga aldrei nóg af þessum hlutum,  virðist seint ætla að læra af reynslunni.

Hef verið að hugleiða að undanförnu hvað ég er heppin. Þurfti að gangast undir allsherjar tékk í desember, sneið, skann, blóðprufur og allan pakkan vegna þeirra einkenna sem ég var með í tæpar 8 vikur. Einkennin lofuðu ekki góðu og var ég búin undir það versta enda virkilega slæm af verkjum og hvimleiðum einkennum. Ákvað að vera ekki að vekja ugg hjá krökkunum með því að rjúka upp til handa og fóta og tilkynna þeim þetta, fannst rétt að bíða. Nógu erfitt er búið að vera hjá þeim samt. Ætlaði mér að tala við þau auglits til auglits og færa þeim fréttirnar sjálf ef einhverjar yrðu. Mér til mikillar undrunar og í stuttu máli sagt komu rannsóknirnar vel út, engin merki um sjúkdóminn né meinvörp. Sloppin í bili alla vega.  Ekki veit ég hvort okkar var meira undrandi, ég eða Siggi Bö.  Ótrúlegur léttir og þvílík heppni! Þá er sá pakki frá í bili.

Heilsan smátt og smátt að skána, enn með verki og einkenni, trúlega tengd magabólgum m.m.  sem aukast ef álag er á mér, minnka þegar mín er í rólegheitum. Verð einfaldlega að passa mig betur.

Er ansi lúin núna, ætla að skríða í koju til að vera hress á morgun. Eftir þann dag fer tíminn að miklu leyti í afslöppun hjá mér. Pínu sprengur síðustu dagana og varla búin að snúa ofan af mér eftir ferðalagið um daginn.  En allt í eðlilegum gír og skv. hefðbundnum jólaundirbúningi.  Stífur lestur hjá krökkunum til ca. 16.00 - 17.00 á morgu, þ.e. á staðartíma. Við munum borða um kl.18.00 á íslenskum tíma annað kvöld. 

 


Afmæli

Til hamingju með afmælið Haffi minn!Wizard

Deginum eytt í próflestur en ég fæ klukkutíma lánaðan til að hafa smá afmæliskaffiSmile


Lítil jólastemning

Skrapp í miðbæinn með krökkunum í dag, þau tóku sér 2 klst hlé frá lestrinum. Ósköp fannst mér jólaskreytingar rýrar og stemning lítil. Reyndar skítakuldi úti þannig að ég var ekki lengi úti við en ég er hrædd um að mörgum þætti jólastemningin fátækleg.

Tók mig til og keypti inn í dag, fór í Interspar sem er eins konar Bónus eða Nettó hér. Leitaði af rjóma í 2 klst. áður en ég gafst upp en fór létt með að fylla körfuna. Þegar kom að því að fara á kassan beið mín margra metra langur flöskuháls og þannig var ástatt með afgreiðslu við alla kassana. Mun verra en í Nettó, svei mér þá. Hins vegar var ekki að merkja neitt stress á einum né neinum, Ungverjar gera greinilega ráð fyrir biðröðum og rólegheitum. Kúnnaranir spjalla gjarnan við afreiðslufólkið að loknum innkaupum, afslappaðir og rólegir. Mér sýnist mikið um að fólk greiði með einhverskona miðum, hvort heldur sem það eru afsláttarmiðar eða styrkur í einhverri mynd. Peningar eru sjaldnar sá gjaldmiðill sem fólkið notar. 

Þegar kom loks að mér, kallaði afgreiðslustúlkan eitthvað út í loftið og áður en ég vissi af, var kominn örygisvörður sem stóð yfir mér allan tíman sem ég týndi ofan í körfuna. Reyndi að flýta mér sem mest ég mátti til að tefja ekki næstu kúnna um of, dauðlangaði að rétta öryggisverðinum poka og biðja hann um að skutla matvörunni ofan í hann. Þorði því ekki, veit ekki hvaða afleiðingar slík framhleypni hefði haft í för með sér. Ég slapp án athugasemda frá verðinum og létti mikið þegar út  var komið. Ákvað að tína í flesta pokana þegar þangað var komið, lét duga að koma vörunum fyrir í körfunni til að komast sem fyrst út. Mjög óþægileg tilfinning, sá reyndar ekki nein skotvopn á manninum.

Krakkarnir komnir í háttinn, strembinn próflestur hjá þeim. Þau taka sér ekki mörg hléin þessa dagana. Frumburðurinn er 26 ára í dag, Þorláksmessubarn. Wizard

Trúi því varla að það séu liðin heil 26 ár síðan ég átti hann á Landsanum og eyddi þar fremur fábrotnum jólum. Tíminn flýgur ekki áfram, hann æðir áframW00t

Haffi er búinn að lofa mér að taka sér pásu frá lestri um kaffiðleitið í u.þ.b. klst. og fá sér afmæliskaffið.  Síðan harkan sex og haldið áfram að lesa. Er að fara í stórt próf í meinafræði þann   3. janúar, heldur fyrr en hann áætlaði og tíminn til lestrar mjög knappur miðað við það efni sem hann þarf að komast yfir. Ekkert annað á boðstólnum nema 10. jan sem er orðið eiginlega of seint enda fleiri próf að taka. 

Katan á fullu að lesa undir sitt próf sem hún tekur þann 28. des. Mjög stuttur tími til stefnu. Í raun mega þau ekkert vera að því að halda einhver jól. Þau verða því í skeytastíl hjá okkur. Ég verð að sætta mig við það. Styð þau best með því að virða planið þeirra og láta lítið fyrir mér fara. Sjá til þess að þau nærist og hvílist hæfilega. Þar er mín í essinu sínu. Þetta er svakalega erfiður tími hjá krökkunum. Aldrei verið mín sterka hlið að tipla á tánum, reyni það eftir bestu getu en auvitað rek ég mig utan í borð og stóla. Því meir sem ég reyni að vanda mig og fara hljótt, þeim mun meiri brussa verð ég. Ekki nýtt á nálinniWhistling

 


Hrikalegt!

Búið að taka endanlega ákvörðun um að úrelda Sláturhúsið í Búðardal. VG þeir einu sem reyndu að koma málum í farsælli farveg, við dræmar undirtektir.  Núverandi meirihluti sveitarstjórnar einhuga í ákvörðun sinni. Framkvæmdir og verðmæti þeirra sem fóru langt upp í 200 milljónir fyrir 3-4 árum þurrkað út, eitt pennastrik. KS tryggir sína markaðsstöðu, fær úreldingaféð. Aldrei framar slátrað í Dölum. Tímamót og straumhvörf í sögunni myndi einhver segja. Húsið nánast orðið ,,útflutningshæft" eftir gríðalega vinnu og kostnað.

Ég held satt best að segja að ráðamenn séu ekki með fullu viti. Klúður í upphafi starfa núverandi sveitarstjórnar að gefa húsið eftir, rangar ákvarðanir og því illmögulegt að snúa þeirri þróun við sem þar hófst en alls ekki útilokað, ef menn höfðu vilja til. Fyrri sveitarstjórn seildist ofan í vasa skattborgara sinna til að afla fé til framkvæmda og úrbóta án þess að bera þá ákvörðun undir sína íbúa. Hrikaleg aðgerð á þeim tíma og brot á lýðræði en enn hrikalegra það sem nú hefur gerst. Tjón fyrir Dalina sem aldrei verður bætt. Var þessi ákvörðun um að kasta fyrri fjárfestingum á glæ, borin undir íbúana?

Er menn svo blindir að átta sig ekki á því að hægt er að sækja menn til saka, gerist þeir óábyrgir eða skaða hagsmuni síns sveitarfélags? Það gilda nefnilega stjórnsýslulög yfir allar ákvarðanir sveitarstjórna og hver sveitarstjórnarmaður er lagalega ábyrgur fyrir ákvörðunum og aðgerðum sínum. Það ber að hafa í huga að allir sveitarstjórnarmenn bera ábyrgð, byggðaráðsmenn og sveitarstjóri þó meiri en aðrir enda þeir sem bera ábyrgð á rekstri og fjármálum sveitarfélagsins. Ég dreg ekki fjöður yfir það að formaðurinn og framkvæmdarstjórinn eru þeir sem axla mestu ábyrgðina. 

Þvílíkur jólaglaðningur sem núverandi meirihluti færir sínum íbúum þetta árið!. Það verður að segjast eins og er að það er huggun harmi gegn að það skuli vera hægt að sækja menn til saka og láta þá axla ábyrgð gjörða sinna. Ég hef ekki trú á öðru en að það verði gert. Hvernig má annað vera?

Einhvern veginn finnst mér ákvarðanir sem þessar smekklausar á aðventunni, tíma ljóss og friðar. Hvað eru menn eiginlega að hugsa? Ég veit að það eru skiptar skoðanir á tilvist sláturhússins en ég hef ekki trú á því að það séu margir sáttir við það hvernig farið er með fjármuni og fjárfestingar sveitarfélagsins. Hvar er hugsunin um arð og skilvirkni á þessum bæ? Fyrifinnst hún einungis innan herbúða hestamanna beggja megin við borðið?Whistling

Skyldi núverandi meirihluti komast upp með að stjórna sveitarfélaginu með sama hætti og hingað til? Þ.e. án þess að íbúar hafi hugmynd um hvað gerist á bak við luktar dyr, sveitarstjórnarmenn báðum megin við borðið að plotta og koma ,,sínum" málum áleiðis. Hvernig verður með málefni Silfurtúns? Allur rekstur þar fyrir luktum dyrum, engar rekstrarlegar upplýsingar hvað þá upplýsingar um veitta þjónustu. Hver skyldi ástæðan vera fyrir þessu fyrirkomulagi formanns byggðaráðs og yfirlæknisins?? Það verður spennandi að fylgjast með opinberum niðurstöðum Landlæknisembættisins sem er nú í átaki við að bæta aðbúnað aldraðra. Hvar standa Dalamenn í þeim efnum?? Vonandi vel, en enginn veit því allar slíkar upplýsingar eru á huldu og örfáum ætlaðar.  

Hvað skyldi taka við í júní nk.? Var ekki ráðningarsamningur við sveitarstjóra til tveggja ára?? Hvert stefnir yfirstrumpur sveitarfélagsins á nýju ári? Hver fær stóra bitann af kökunni þá? Hverjum þarf að tryggja völd og ítök??? Kannski of snemmt að spá fyrir um það en einhvern veginn er ég viss um að ég viti svarið..... Ég ætla rétt að vona að menn átti sig á því að engir eru vinir í pólitík!

Þetta voru vondar fréttir á aðventunni. Hugga mig við að menn verða að axla sína ábyrgð en það bætir ekki skaðann fyrir sveitarfélagið. Menn ættu að skammast sín. Á ég virkilega að trúa því að þessir aðilar eigi eftir 2 1/2 ár enn við stjórnvölinn?? Reikna má með því að sveitarfélagið verði líkt og  sviðin jörð. Reiðskemman og önnur gæluverkefni ráðamanna munu þó trúlega standa eftir sem minnisvarði um störf þeirra. W00t

Ég legg til við jólasveininn að meirihluti stjórnar fái grænsápu í skóinn sinn fram að jólum, pipraða naglasúpu og gaddavír eftir það í hvert mál. Það er deginum ljósara að þorrablóstnefndir hafa úr nægu efni að moða þetta árið. Það er eiginlega algjört ,,must" að mæta núna. Ekki forsvaranlegt að láta góða skemmtun fram hjá sér faraWizard

Hef það annar gott hér í Debrecen, kalt en stillt veður. Sýnist stefna í rauð jól hér líkt og heima en EKKERT ROK!  Búin að kíkja í nokkrar búðir, fann gullfallegt jólatré, líkist normannsþyn, yfirmáta þétt og bústið eins og ég vil hafa trén. Verkefni morgundagsins að finna ljósaseríur og gjafir handa börnunum. Ekki mikið úrval sýnist mér.....Whistling




Mætt á svæðið

Jæja, mín komin til Debrecen, þvílíkur léttir! Auðvitað gekk það ekki hnökralaust fyrir sig frekar en fyrri daginn hjá mér. Bras fylgir mér, í bókstaflegri merkingu þess orðs enda hef ég gjarnan kallað mig Brazelíu.

Ferðin tók 22 klst frá því ég lagði af stað að heiman kl.04. eftir 40 mín. lúr.  Að sjálfsögðu var kílómeters löng biðröð í tékkið, einungis 3 fulltrúar að tékka farþega inn framan af en síðan fjölgaði þeim um aðara 3 og hjólin farin að snúast. Loks kom að mér, en úps! Taskan of þung  tjáði mér ungur og hrokafullur maður á hraðri uppleið, að honum finnst greinilega. Í stuttu máli varð framvindan sú að hann sá sér ekki fært um að leiðbeina mér en töskuna skyldi ég létta um 13 kg. með einhverjum hætti  og ég aðeins með agnarsmáa töksu fyrir handfarangur. Eftir 3 tilraunir varð hann sáttur og tók töskuna á bandið en með semingi þó, það munaði 900 gr. á þeirri þyngd sem hann setti upp. Í 80 mín mátti ég sitja á fjörum fótum, umpakka, umraða og grisja út þá hluti sem máttu missa sín og síðan einfaldlega henda þeim. Um 60-70 manns stóðu fyrir aftan mig og fylgdust grannt með. Á meðan þessum hörmungum stóð sá ég hverja töskuna á fætur annarra fara á bandið sem voru 5 kg. léttari en mín í upphafi en 5 - 6 kg. þyngri en endanleg þyngd varð á minni. Hrokinn í drengnum eftirminnilegur, kannski er það ,,uniformið" sem stígur honum upp til höfuðs. Í öllu falli hefði hann mátt vera ögn meira upplýsandi, sýna faglegri framkomu og vera hjálplegri. Ég mun láta í mér heyra á réttum stöðum. Þegar upp var staðið mátti ég henda eigum fyrir tugi þúsunda til að komast með, þrátt fyrir þá staðreynd að þyngd farangursins var undir hámarksþyngd skv. upplýsingum á bandinu. Ég greiddi að sjálfsögðu fyrir mína yfirvigt þannig að flugfélagið tapaði ekki á minni yfirvigt. En með Iceland Express mun ég aldrei ferðast með, a.m.k. ekki nema í agjörri neyð.

Næsta ævintýrir var öryggshliðið. Fimm sinnum vældi og pípti, átti ekki langt í það að standa á nærfötum einum saman þegar loks fannst tyggjópakki sem virtist sökudólgurinn. Ég rétt náði að komast í vélina áður en henni var lokað, töskuvesenið tók vel á annan tíma þannig að enginn tími var til að skoða sig um í fríhöfninni, né til að borða. Svaf alla leiðina út til Köben. 

Þegar þangað var komið tók við 9 kls. biðtími. Of syfjuð til að fara niður í bæ þannig að ég taldi það skásta kostinn að vera kyrr á vellinum og freista þess að getað lagt mig einhvers staðar. Nei, ekki hægt að tékka sig inn þar, engir stólar til að sitja á né bekkir. Mín varð að þramma um, stoppa á hinum ýmsu teríum og þamba kaffi til að halda sér vakandi. Fékk lokst að tékka mig inn um kl.16 og var allt annað líf að bíða þar fram að brottför kl.20.20. Ekki mikið hægt að versla í þessari riasafríhöfn, verðlagið svakalega hátt.

Klukkutímaseinkun á vélinni frá Köben til Búdapest, einthvert öryggistékk á henni á brautinni. Lent um kl.23. í Búdapest, eilífðarbið eftir farangri. Var orðin svo örmagna að ég vissi ekki hvernig ég ætti að taka töskurnar af bandinu en allt hafðist þetta. Ein ekki lítið glöð að fara í gegnum dyrnar þegar töskurnar voru komnar. Hver beið svo þegar út var komið? Enginn önnur en Katrín Björg! Búin að leggja á sig 3 klst. akstur í leigubíl, bíða í rúman klukkutíma á vellinum og síðan tók við tæpl. 3 tíma akstur heim. Ótrúleg stelpan og það í próflestrinum. Haffinn varð að vera heima enda próf í dag.

Það voru þreyttar mæðgur sem fóru að sofa kl. 04 í nótt og sofið frameftir í dag. Við létum okkur hafa það að drífa okkur í 2 ,,moll" þar sem hún sýndi mér hvert helst væri hægt að fara til að versla. Gerðum skurk í jólainnkaupum og fórum heim með þrælflott jólatré, akkúrat í mínum stíl; þétt og bústið og ekki of stórt.  Næstu dagar fara eingöngu í lestur hjá krökkunum þannig að nú verð ég að bjarga mér sjálf og ganga hægt um hér til að trufla þau ekki. 

Ótrúlega gott að vera komin til þeirra. Örmagna en ofboðslega ánægð. Ég náði engan veginn að útrétta það sem ég þurfti áður en ég fór að heiman, það verður bara að hafa það, ég verð bara að gera betur næst og reyna að bæta skaðann með einhverjum hætti. 

Hef miklar áhyggjur af bloggvinkonu minni henni Þórdísi Tinnu, hvet alla til að kveikja á kerti fyrir hana og dóttur hennar. Hún er algjör hetja sem hefur, líkt og Gillý, haft mikil áhrif á mig og samferðafólk sitt. Baráttujaxl fram í fingurgóma og hef ég alla trú á því að hún komist yfir núverandi erfiðleika. Góðar fyrirbænir og hlýjar hugsanir geta aldrei annað gert en gott.   

Í kvöld verður farið snemma að sofa, ótrúlega syfjuð og mikil lufsa. Verð hressari á morgun. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband