Jólanótt

Vel heppnað aðfangadagskvöld að baki, krakkarnir komnir í ró enda próflestur í fyrramálið. Allt gekk upp, hamborgarahryggurinn fullkominn, ekkert stress og nægur tími til að elda og gera klárt. Man ekki eftir svona afslöppuðum aðfangadegi, fór ekki á fætur fyrr en um kl.12 enda glaðvakandi núna. Jólatréð sett upp og er það fallegasta sem ég hef nokkurn tíma haft. Aldrei sé svona fallegt tré áður. Ég sé til þess að það verði myndað bak og fyrir. 

Sátum hér 6 saman, Haffi, Kata, Kári og vinir. Allir sáttir við sitt og engin vonbrigði virtust vera með gjafirnar. Samt vantaði stóran hluta af mínu lífi, það virðist engu máli skipta í hvaða landi maður er, söknuðinn er ekkert hægt að flýja, hann eltir mann hvert sem er. Blossar upp við aðstæður sem þessar, jólin sem eru hátíð ljóss og friðar kalla einnig fram minningarnar. Þær læðast aftan að manni og lítið hægt að gera til að verjast þeim, þær koma einfaldlega. Ekkert eðlilegra, ef ekki á stundum sem þessum þá aldrei. Ákveðið sæti er tómt.

Ungverjar skreyta ekki mikið í húsum sínum, hér eru seríur í einstaka gluggum, aðallegar í íbúðum sem námsmenn leigja og þá einkum norðurlandabúar. Þeir eru allmargir Íslendingarnir sem eru að heiman í fyrsta skiptið þessi jólin og það víðsfjarri frá Íslandi. Sem betur fer hafa þeir komið saman og eytt þessu aðfangadagskvöldi saman og gera gott úr aðstæðum. Hörkuduglegt, ungt fólk. Ég get ekki annað en dáðst af þeim.  

Margur á um sárt að binda á þessum tíma árs, ég get rétt ímyndað mér hvernig aðstandendum Gillíar líður þessi jólin svona skömmu eftir brottför hennar. Það er þó ákveðin huggun að vita til þess að fjölskyldumeðlimirnar eiga hvorn annan að en sársaukinn hlýtur að vera óbærilegur engu að síður. Sumir eiga enga að, sitja einir eftir. Sjálf þekki ég það úr starfi að margir eldri borgarar njóta ekki samvista við börn og aðra aðstandendur á jólum og áramótum. Of mikið að gera eða ,,of mikið vesen" að taka aldrað foreldri heim. Allt of oft hef ég orðið vitni af slíku og spyr mig í sífellu; hvernig getur svona lagað gerst? Að gleyma foreldrum sínum, finnast það of mikil fyrirhöfn að fá þau heim. Hvað hefur gerst hjá okkur? 'Eg vona að ég eigi aldrei eftir að upplifa slíka höfnun.

Framundan er rólegur tími hjá mér, ætla mér að fara í þá verkefnavinnu sem ég fékk frest á fyrir jól. Hef góðan tíma og næði næstu daga enda verða krakkarnir  á kafi í lestri frá morgni til kvölds fram að prófum. Fyrra prófið hjá Kötunni þann 28. des og það seinna 3. jan ef allt gengur upp. Haffi fer í mjög strembið próf í meinafræði þann 3. jan.  Í raun of skammur fyrirvari, efnið mjög viðamikið en önnur dagsetning var ekki í boði, allt orðið fullt í æskilegar dagsetningar. Hann verður því að láta á það reyna hvort að þessi tími dugi en tæpt verður það. Ef það gengur ekki í fyrstu lotu er ljóst að hann vær stutt annarfrí heima í janúar. Við krossleggjum fingur og vonum það besta.

Ég vil óska öllum þeim sem líta hér við gleðilegra jóla og vona að allir njóti þeirra vel.  

 

Christmas Candle

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þröstur Unnar

Gleðileg jól.

Þröstur Unnar, 25.12.2007 kl. 14:20

2 Smámynd: Helena Mjöll Jóhannsdóttir

Blessuð og gleðileg jólin, ákvað bara að setja smá kveðju. Fór af síðunni hennar ÞT yfir til þín. Þykist vita með vissu að þú ert systir hans Tóta vinar míns ( og mágkona Systu vinkonu minnar). Kveðja frá Hafnarfirðinum, sem skartar sínu fegursta á öðrum degi jóla. Hmj

Helena Mjöll Jóhannsdóttir, 27.12.2007 kl. 02:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband