26.6.2008 | 22:58
Urr
Er hálfpartinn fúl þessa dagana. Fór í tékk hjá bæklunarlækninum í gær. Hann var hress að vanda, það vantaði ekki upp á það. Fréttirnar sem hann færði mér voru hins vegar ekki þær sem ég hefði viljað fá. Brotið sem sé ekki gróið enn, óvinnufær að hans mati, endurmeta stöðuna um miðjan ágúst, takk fyrir! Hnjáliðurinn ,,skrollandi" laus, liðböndin ekki að virka þannig að doktorinn pantaði nýja spelku, í þetta skiptið til frambúðar skilst mér. Útséð með pils og stuttbuxur í sumar. Gvöð hvað ég verð lekker.
Öllum neikvæðum fréttum fylgja þó einhverjar jákvæðar; ég má halda áfram að stíga í fót upp að sársaukamörkum og hreyfa mig eins og ég get. Geri það óspart þó ég sé kjagandi eins og hölt gæs. Grrrrrrrr! Verð að viðurkenna að þetta er ekki óskastaða og ég læt hana pirra mig, um stundarsakir alla vega.
Fékk reyndar skammir fyrir að vera ekki nógu dugleg við að þjálfa upp vöðvana og gera styrktaræfingar. Tek því og reyni að bæta mig í þeim efnum enda minn akkur að koma þeim í lag.
Þetta er auðvitað ekki það versta sem getur komið fyrir mann en fjandi er þetta lýjandi og hamlandi. Ég horfi á eftir öllum gangandi vegfarendum með öfundarglampa í augum; finnst allt göngulag fallegt nema eigið. Hvenær skyldi ég komast í göngutúr með tíkurnar? Urr hvað ég er svekkt.
Gardínurnar fínu reynast í öllu falli dýrkeyptar í öllum skilningi þess orðs enda nýt ég þeirra ekki sem skyldi. Kæmi mér ekki á óvart þó ég skipti þeim út einhvern daginn.
Pollýönnuleikurinn er ekki að virka í dag, veit að ég lít öðru vísi á málin á morgun. Er það ekki svo með mannfólkið að það aðlagast öllu? Einungis spurning um tíma. Ætla rétt að vona að ég fái að velja lit á framtíðarspelkunni og helst annað útlit. Þyrfti að fá mér hækjur í lit í stíl.
Fegin að gærdagurinn er liðinn og þessi að kvöldi kominn. Lét iðnaðarmann plata mig ofan í allt annað sem ekki bætti úr skák. Ég er ekki hægt og bláeygð að vanda. Rosalega geta menn verið frakkir segi ég eftir þá reynslu. Tímakaup margra iðnaðarmanna er alla vega hærra en tímakaup lækna og lögfræðinga. Hvað skyldi pípari kosta á tíman?
Morgundagurinn verður betri, hef ég trú á. Það er ekki gott að vera lengi í fýlu, ætla að læra af reynslunni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.6.2008 | 01:26
Kemur ekki á óvart
Enn eru mér í minni þær ,,sögur" sem ég heyrði í barnæskunni um urðuð dýr, miltisbrand og stífkrampa í jarðveginum á mínum bernskuslóðum. Því miður sannar, það vissi ég reyndar fyrir, einungis spurning hvenær kvikindin létu á sér kræla. Faðir minn fékk að kenna á stífkrampanum fyrir áratugum síðan við það eitt að taka upp rabbabara með skeinu á hendi.
Mér kemur hins vegar á óvart hversu ,,létt" menn taka á málum, ef marka má fréttir á vef Mbl. Set inn slóð af doktir.is með fróðleik um miltisbrandinn. Margir virðiast telja að um vírus sé að ræða. Sem betur fer ekki, segi ég, enn er hægt að nota sýklalyf gegn þessum óvætti.
http://www.doktor.is/index.php?option=com_d-greinar&Itemid=0&do=view_grein&id_grein=1803
![]() |
Grunur leikur á miltisbrandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2008 | 18:50
Vonbrigði
Samninganefnd ríkisins virðist liðamótalaus í samningaferlinu og því ekkert annað að gera en að fylgja vilja hjúkrunarfræðinga. Ansi er ég hrædd um að yfirvinnubannið eigi eftir að setja strik í reikninginn viða, sumarleyfin á fullu ofan á manneklu víða.
Það þarf a.m.k. 2 aðila til að semja og báðir þurfa að horfast í augu við málalmiðlanir af einhverju tagi. En skilboð samningarnefndarinnar eru skýr. Það eru okkar skilaboð einnig þannig að stálin stinn mætast, sýnist mér.
Eins og fram kemur á vef Morgunblaðsins í dag eru algeng mánaðarlaun hjúkrunarfræðings eftir 20 ár í starfi 288.006 kr. Hvaða stétt með 4 ára háskólanám að baki, langa starfsreynslu og gríðalega ábyrgð á líðan og lífi manna myndi sætta sig við slík kjör? Launin eru svo út í Q að það er grátlegt. Viðbótamenntun skila nánast engu þannig að kostnaðurinn við að afla sér hennar er hreinn fórnarkostnaður fyrir viðkomandi. Ekki lifir hjúkrunarfræðingurinn af hugsjóninni einni saman enda fólksflótti úr stéttinni gríðalegur. Er einhver undrandi á því??
Sættir verkfræðingur sig við slík laun eftir 20 ára starf, viðskipta- og/eða markaðsfræðingur? Hvað með lögæðinga? Ég held ekki og ekki einu sinni nýútskrifaðir einstaklingar með slíka menntun myndi gera það heldur. Gjaldkeri í banka og einstaklingur sem sinnir útkeyrslu fyrir verslanir eru með hærri laun. Ekki það að þeir séu öfundsverðir að sínum launum heldur hitt, launamisræmið er gríðalegt og menntun er einskins metin þegar kemur að launaröðun sumra stétta. Svo einfalt er það.
Ég hef þá trú að fólk átti sig á því að hjúkrunarfræðingum er full alvara núna og þeir munu standa saman. Það verður erfitt fyrir hvern og einn að vita hverjar afleiðingarnar verða á starfsemi stofnana og á líðan skjólstæðinga en það sættir sig enginn við slíkt launamisrétti og nú ríkir. Þannig er það einfaldlega, það eru allir búnir að fá nóg.
![]() |
Formaður Fíh: Mikil vonbrigði" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.6.2008 | 17:24
Góð samstaða
Feiki góð samstaða meðal hjúkrunarfræðinga, tæplega 64% þátttaka í atkvæðagreiðslunni og um 95% þeirra fylgjandi yfirvinnubanni og þar með hertum aðgerðum vegna kjarasamninganna. Um leið yfirgnæfandi stuðningur við forystuna.
Ég er mjög sátt, segi þó ekki að ég hefði viljað sjá þátttökuna um 90% en engu að síður mjög ásættanleg niðurstaða, ekki síst í ljósi þess að margir eru í sumarfríum o.þ.h.
Til hamingju með samstöðuna hjúkrunarfræðingar, þetta er hægt
![]() |
94,6% vilja yfirvinnubann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.6.2008 | 23:35
Eintóm sæla
Búin að vera í skýjunum í dag. Við mæðginin lúrðum að sjálfsögðu frameftir og tókum því rólega framan af. Lafðin fékk sinn göngutúr, er alveg að missa sig yfir heimkomu Hafsteins. Þar sér maður skilyrðislausa væntumþykkju og virðingu.
Haffinn var 5 mínútur að slá frímerkið sem tók mig tæpar 2 klst. um dagin og í þetta sinn var verkið vel unnið. Áttum okkar gæðastund, dunduðum okkur meira saman og ýmsu var lokið sem hafð beðið enda húsmóðirin búin að vera farlama. Ég nýt þess í botn að fá líf í húsið. Þvílíkur munur, það finn ég núna. Katan væntanleg á föstudag eða laugardag þannig að framundan er tóm sæla og gleði.
Áframhaldandi framkvæmdir næstu daga, af nógu er að taka og margt beðið allt of lengi. Allt of margt sem ég hef ekki getað framkvæmt sjálf og ekki farið vel í frúnna. Verð þó að gæta þess að kaffæra ekki krakkana í skítverkum heima fyrir, þau verða að eiga sér eitthvert líf og fá að njóta vina sinna í sumar. Það er hins vegar auðvelt að missa sig í þessum efnum.
Mér hefur ekki fundist neitt tiltökumál að vera ein í vetur svona almennt séð en vissulega hafa sumir dagar verið drungalegir og daprir, því er ekki að neita. Rauðir dagar verstir eins og ég hef áður sagt. Síðustu vikur hafa tekið á, mér hefur líkað illa bjargarleysið en hef orðið að kyngja því. Hefði kosið meira úthald og betri líðan almennt en er þakklát fyrir það sem ég hef og sumarið leggst vel í mig.
Ýmiss mál hafa ekki verið að ganga sem skyldi og vonbrigðin nokkur upp á síðkastið. Nokkur óvissa um framtíðina en einhvern veginn er ég ekki að stressa mig á hlutum, þeir skýrast fyrr eða síðar. Ég hef enga ástæðu til að örvænta.
Vonin er ósköp stillt,
en sterk. Hún getur lifað af litlu
og dugir lítil týra.
Hún gerir lífið bærilegt.
(Charlotte Gray)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2008 | 22:23
Styttist í gleði
Eftir tæpar 2 klst. lendir frumburðurinn á Keflavíkurfylgvelli. Flaug frá Búdapest í gegnum Köln og er lagður af stað þaðan. Er búin að vera eins og smástelpa að snurfusa og gera klárt fyrir heimkomuna. Lagði þó ekki almennilega í að slá frímerkið fyrir framan húsið í ljósi fyrri reynslu. Hver veit nema að ég geti platað Haffan til þess að gera það á morgun eftir góðan og langan svefn. Hann er ansi langþreyttur vinurinn og verður trúlega nokkurn tíma að líkjast sjálfum sér.
Allt tilbúið fyrir heimkomuna, stórt lambalæri í ísskápnum. Keypti hressilega inn í dag og rogaðist með pokana sjálf í hús, ekki lítið stolt. Þarf trúlega einhvers konar endurhæfingu í eldamennskunni, hef ekki soðið kartöflur síðan í janúar, hvað þá annað. Katan væntanleg um næstu helgi þannig að brátt verður líf og fjör í kotinu litla.
Systkinin á síðustu þjóðhátið, hvar annars staðar?
Mig langar ekkert lítið með þeim í ár, komin með fiðring
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.6.2008 | 21:30
Hömlulaus grimmd
Hvað vakir fyrir fólki að urða lifandi hvolp? Er það hömulaus grimmd eða ómeðhöndlaður geðsjúkdómur? Ófyrirgefanlegt með öllu, hvort heldur sem er. Umræddur eigandi hirðir ekki um að aflífa hvolpinn á mannúðlegan hátt.
Í mínu huga á að fangelsa hvern þann sem níðist á dýrum, þetta er þó það versta sem ég hef heyrt um. Ég hef þó ýmsu kynnst í gegnum tíðina í málefnum dýra. Menn hafa svelt skepnur sínar, skilið þær eftir án umhirðu, jafnvel meitt þær og komist upp með það en að kviksetja dýr er nýtt fyrir mér og trúlega okkur öllum.
Ég er bókstaflega miður mín yfir þessari frétt, þvílík mildi að fólk fann hvolpinn. Til þess var greinilega ekki ætlast miðað við staðsetninguna. Ég hef ekki trú á því að erfitt verið að finna handa honum eiganda. Fólk er slegið.
![]() |
Dýraníðings leitað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.6.2008 | 16:33
Höfuðlaus her
Ástandið fremur bágborðið í minni fyrrum heimasveit. Búið að reka sveitarstjóran, einungis einn starfsmaður við störf á hreppsskrifstofunni, hinn í fríi. Bókarinn hefur ekki enn hafið störf, sá 3 eða 4 á stuttum tíma. Enginn formlegur staðgengill sveitarstjóra skipaður til að reka sveitarfélagið þannig að í raun má segja að herinn sé höfulaus.
Fundargerðir farnar að berast á vef sveitarfélagsins en skv. þeim halda menn áfram uppteknum hætti, þ.e. að brjóta stjórnsýslulög. Menn ætla augljóslega seint að læra, þó má greina athugasemd frá hinum nýja minnihluta í fyrsta sinn við afgreiðslu mála. Nýji oddvitinn heldur áfram að sitja báðum megin við borðið en í þetta sinn lætur hann bóka að hann taki ekki þátt í afgreiðslu þess máls er varðar hagsmuni hans sem stjórnarmaður í hestamannafélaginu. Leggur fram tillögu um styrkveitingu en situr hjá við afgreiðslu.
Gekk reyndar ansi langt á þeim fundi sem endurspeglar annað hvort mikla vanþekkingu í besta falli eða beinlínis valdníðslu. Í fundargerðinni kemur fram sú tillaga oddvita að ,, Þar sem sú staða er uppi að allir fundarmenn nema einn tengjast með einum eða öðrum hætti þeim félögum sem um ræðir í lið 1 í fundargerð frá 10. júní 2008" að ,,enginn sveitarstjórnarmanna teljist vanhæfur til að samþykkja liði 1 í fundargerðinni". Var sú tillaga samþykkt með 6 atkvæðum gegn einu. Sveitarstjórnin hefur í gegnum tíðina verið annáluð fyrir það að búa til eigin leikreglur í krafti meirihlutans þannig að þetta er ekkert nýtt. Staðreyndin er hins vegar sú að sjaldan hefur hún verið jafn opinská um slíkar aðgerðir og nú. Engin sveitarstjórn hefur það vald að breyta sveitarstjórnar- og stjórnsýslulögum að vild. Það gerist í þessu tilviki þannig að klárlega er um ólögmætan gjörning að ræða þar. Í tilvikum em þessum verða menn að víkja og kalla inn varamenn, það er ekkert flóknara en það. Það jákvæða er þó það að einhverjir eru farnir að gera athugasemdir við stjórnsýslubrot af þessu tagi.
Meðal umsækjenda um starf sveitarstjóra eru nokkrir reynsluboltar með viðamikla þekkingu á sveitarstjórnarmálum. Skv. nýjustu fréttum koma tveir umsækjendur sterklega til greina. 24 stundir nefna Grím Atlason, fyrrum bæjarstjóra í Bolungarvík í þeim efnum í blaðinu í morgun. Orðrómurinn í sveitarfélaginu tekur undir þau sjónarmið. Ugglaust er Grímur hinn mætasti maður og allt það, er þroskaþjálfi að mennt og mikil reynslubolti á sviði tónleikahalds. Þótti drífandi í Bolungarvíkinni, hæfileikaríkur músikant en jafnframt umdeildur. Hefur nú öðlast tæplega 2 ára reynslu á sviði sveitarstjórnamála. En dugar það til og er hann sá einstaklingur sem er best til þess fallinn að annast stjórnun í sveitarfélaginu þar sem hver höndin er upp á móti annarri, sem fyrr og allir sveitarstjórnarmenn eru að sitja sitt fyrsta kjörtímabil, fyrir utan einn? Svolítið sérstakt ef harður Samfylkingarmaður komi til greina. Þeir sveitarstjórar sem eru ráðnir utan frá eiga hins vegar ekki að vera pólitískir en erfitt getur verið að komast hjá því. Menn grafa ekki yfirlýstar skoðanir sínar eða segja sig úr stjórnmálaflokkum svo glatt. Þeir starfa náið með meirihlutanum, því kemur fráfarandi sveitarstjóri ekki til greina. Það yrði sérstakt ef Samfylkingarmaður yrði ráðinn en þeir eru þó nokkrir meðal umsækjenda.
Vonandi bera menn gæfu til þess að láta hagsmuni sveitarfélagsins ráða för við ráðningu svietarstjórans. Mig grunar að launakröfur muni hafa nokkur áhrif á val manna en fyrst og fremst þarf að velja skeleggan, drífandi og reynslumikinn einstakling sem hefur burði til að leiðbeina lítt reyndum sveitarstjórnarmönnum og tryggja að farið sé að stjórnsýslulögum við stjórnun sveitarfélagsins. Menn virðast ætla að hafa hraðar hendur á varðandi ráðninguna og er það vel enda enginn í brúnni. En menn verða að hafa hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Það þarf að sameina mörg ólík öfl og settla reiði og særindi meðal íbúa sem eru orðnir langþreyttir á vanhæfum sveitarstjórnum sem hafa haft hlutina eftir eigin höfði.
Hvort að 2 ár dugi til þess verkefnis skal ég ekki dæma fyrirfram en ansi er það hæpið. Líklega eru þeir kjörnu fulltrúar sem nú skipa sveitarstjórnina búnir að stimpla sig út úr pólitíkinni í náinni framtíð. Það verður sífellt erfiðara að fá menn til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum, ekki síst vegna þeirrar valdníðslu sem hefur átt sér stað árum saman. Fórnarkostnaðurinn við að reyna að breyta hlutum hefur verið hár og getur varðað afkomu og mannorð viðkomandi. Eina raunhæfa leiðin er að stækka sveitarfélagið suður fyrir brekku, þá fyrst eru líkur á því að stjórnsýslan verði gegnsæ og réttlát og hagsmunir íbúa hafðir að leiðarljósi. En við skulum sjá hver næsti kandidatinn verður, menn eiga ekki að gefa upp alla von um bjartari tíma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2008 | 01:43
Íbúðalánasjóður til bjargar
Er það svo? Menn hamast við að mæra áhrif breytinganna á stöðu einstaklinga. Miðað við brunabótamat en hámarkslán þó 20 milljónir. Hversu stóra blokkaríbúð er hægt að fá fyrir þá upphæð? Trúlega nóg fyrir ungt og barnlaust fólk eða hvað?? Hvað með aðra aldurshópas em eru að eignast sína fyrstu íbúð eða jafnvel að byrja upp á nýtt? Hvað með þá sem þurfa að skipta um húsnæði af einhverjum ástæðum?? Hvað með landsbyggðina?
Ég skil hins vegar ekki þörfina að koma bönkunum til aðstoðar vegna íbúðarlána sem þeir lánuðu til hægri og vinstri. Flestir ef ekki allir bankarnir eru að velta milljörðum-billjónum evra á ári. Kannski lausafjárstaða þeirra hafi rýrnað en þurfa þeir þá ekki einfaldlega að hagræða í eigin rekstri?
Við skulum átta okkur á því að það voru bankarnir sem fóru út í samkeppni við Íbúðalánasjóð en ekki öfugt. Hvað vakir fyrir ráðamönnum stjórnarflokkanna? Halda þeir virkilega að menn séu með hausinn það djúpt í sandinum að þeir sjái ekki í gegnum þetta nýjasta útspil ríkisstjórnar?
Ég vil gjarnan horfa á jákvæðu hliðarnar en ég sé þær ekki margar í þessari stöðu. Eigi þetta að vera mótvægisaðgerðir ríkistjórnarinnar, hvernig verður framhaldið???
Ái! Vonbrigðin eru all nokkur og stefna ríkisstjórnarflokkanna enn óljós í þessim atriðum sem og öðrum
![]() |
Íbúðalánasjóður til bjargar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.6.2008 | 00:30
Breytingar
Lífið er háð breytingum, um það verður ekki deilt. Stundum eru þær fyrirsjáanlegar en stundum óvæntar og koma í bakið á manni. Í enn öðrum tilvikum virðast þær linnulausar. Ég fékk fregnir í kvöld af einum nákomnum þar sem breytingum er þröngvað upp á viðkomandi og virðist vera geðþóttaákvörðun að ræða í því tilviki. Sú frétt fékk mig til að íhuga breytigngar og áhrif þeirra. Er ekki alls óvön þvinguðum breytingum sjálf. Oftar en einu sinni verið þröngvað til að breyta kúrs og umturna lífi mínu, hvort sem mér hefur líkað það betur en ver.
Flestum breytingum fylgir mikil óvissa, við vitum hvað við höfum í dag en ekki hvað við fáum eftir breytingarnar. Það er í eðli okkar að vera föst í viðjum vanans og því oft erfitt að leiða aðra inn á nýjar brautir. Fyrra jafnvægi er raskað, tímabundin ókyrrð kemst á, a.m.k. þar til nýtt jafnvægi hefur skapast. Af þeim sökum myndast gjarnan andstaða gegn breytingum og nýjum hugmyndum.
Okkur tekst flestum að aðlagast breytingunum, misfljótt reyndar en til eru þeir sem ná aldrei sáttum við þær. Það hefur löngum verið sagt að breytingar krefjist vilja til að taka áhættu og hæfileika og vilja til að falla frá mörgum gömlum aðferðum, bæði í hugsun og við framkvæmdir. Það eru til þeir sem ýmist eru áhættufælnir eða hafa ekki aðlögunarhæfnina. Afleiðing breytinga er augljós í þeim tilvikum.
Aðstæður til breytinga eru misjafnar. Þær ýmist þröngva okkur til breytinga eða skapa tækifæri fyrir okkur til að breyta sjálf. Hvernig við bregðumst við er einstaklingsbundið enda háð mörgum þáttum, s.s. aldri, heilsufari, persónuleika, hvatningu, atvinnu, menntun, reynslu af breytingum, o.s.frv. Aðalatriðið hér er að hver og einn skoði eigin styrkleika og veikleika til að geta brugðist rétt við og hagnýtt sér þau tækifæri sem felast í breytingunum.
Breytingum fylgir óhjákvæmilega einhver streita, mismikil eftir aðstæðum og áhrifum þeirra á líf okkar. Ef breytingin er ekki af eigin frumkvæði er andstaðan og óvissan enn meiri. Viðkomandi tapar í raun áttum á því hver hann er, hvert hann vill stefna og finnur fyrir öryggisleysi. Á það ekki síst við er einhver höfnun fylgir breytingunni. Þannig getur breyting verið ógnun við núverandi tilveru.
Þegar breytingar eru framundan, ekki síst ef þær eru ekki kærkomnar er mikilvægt að finna jákvæðu hliðarnar og sjá kostina í stöðunni. Á ég þá ekki endilega við að maður fari í Pollýönu hlutverkið og virki hress og brattur á yfirborðinu. Hugsunin þarf að rista dýpra en svo. Það vill nefnilega svo vel til að jafnvel þegar breytingar ógna núverandi stöðu, felast ákveðin tækifæri í henni. Við þurfum að vera nógu jákvæð til að koma auga á þau á áhrif þeirra á daglegt líf.
Ég kýs að líta á breytingar sem tækifæri, kannski orðin sjóuð. Er þó ekkert öðruvísi en aðrir og geng í gegnum ákveðið ferli þegar breytingar koma óvænt svo ég tali ekki um þegar þær eru þvingaðar upp á mig af öðrum. Ég þekki því vel óvissuna, óöryggið, fjárhagsáhyggjurnar og hvaðeina sem því fylgir að vera kippt út úr tilverunni. Reynslan hefur hins vegar sýnt mér að í öllu mótlæti felast tækifæri. Maður þarf bara að setja upp gleraugun til að sjá þau.
Allt sem þú þarft að gera er að horfa
beint af augum og sjá veginn og þegar
þú sérð hann - að ganga af stað
(Amy Rand)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)