18.6.2008 | 19:59
Vonbrigði :(
Var að fá nýjan kjarasamning Félags framhaldssólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum í tölvupósti sem samþykktur var í fyrrakvöld. Þvílík vonbrigði, mig skal ekki undra þó hann hafi ekki verið sendur út á þjóðhátíðardaginn.
Samið um sömu krónutöluhækkun og aðildarfélög BSRB fengu. Fátt annað markvert í samningum, veikindadögum vegna barna yngri en 13 ára fjölgað um 2. Reyndar talað um 4% hækkun vegna tímabundins álags við breytinguna á framhaldskólalögunum sem óhjákvæmilega fylgir. Desemberuppbót hækkar um einhverjar krónur. Þar með er innihaldið upptalið. Eini ljósi punkturinn er tímalengd samningsins en hann nær fram í marslok á næsta ári.
Ég hefði haldið að einmitt vegna þeirra breytinga sem framundan eru, væri lag að ná betri samningum. Enginn vill hefja haustönnina með verkföllum. En nei, þetta samþykkti forystan. Enn á eftir að greiða atkvæði um samninginn og fróðlegt verður að sjá hver vilji félagsmanna er í þessum efnum.
Mig skal ekki undra þó hvergi sé minnst einu orði á samninginn í fjölmiðlum. Hann er snautlegur og því lítill akkur í því að leka honum út. Gáði til vonar og vara hvort félagsmenn væru beðnir um að þegja yfir þessum samning og væru bundnir trúnaði, fann ekkert slíkt ákvæði þannig að ég læt þetta flakka.
Ekkert kemur fram í aðsendum gögnum hverjar forsendur forystunnar væru við samþykkt þessa kjarasamnings, ekkert haldbært til að réttlæta samninginn. Hvað gerðist? Ég er orðlaus.
Vonbrigðin eru gríðaleg og hef ég grun um að fleiri séu á sömu skoðun og ég. Ég get ekki annað verið en stolt af hinu stéttarfélagi mínu; F.Í.H. sem hefur gripið til aðgerða til að koma til móts við vilja félagsmanna sinna. Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla um yfirvinnubann sem lýkur 22. júní nk. Ég trúi ekki öðru en að stéttin sýni samstöðu og taki þátt í atkvæðagreiðslunni.
Við sem tilheyrum stéttarfélögum höfum atkvæðarétt. Það er bæði synd og leitt þegar menn ákveða að nýta ekki rétt sinn. Oft virðast menn einmitt ekki greiða atkvæði til að sýna í verki andstöðu sína en það er einfaldlega ekki rétta leiðin. Mér er enn minnistætt þegar samningur við aðildafélög BSRB var samþykktur með 33.4% greiddum atkvæðum. Rúm 66% félagsmanna kaus að nýta ekki rétt sinn. Það er mikið nær að fella samninga sem maður er ósáttur við en að sitja hjá, það eru einu skilaboðin sem eru réttlát, skýr og öllum skiljanleg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.6.2008 | 16:01
Glæsilegt!
Alltaf gaman þegar ég les góðar fréttir úr minni fyrrum heimabyggð. Vinstri Grænir með formennsku í byggðaráði sem er valdamesta embættið í raun. Komnir í sterka stöðu. Oddvitinn fær að baða sig í sviðsljósinu, þá eru allir ánægðir og langþráðu takmarki hans náð.
Umsóknir um starf sveitarstjóra sagðar vera hátt í 20 talsins sem eru feikigóðar fréttir og mikill léttir að fyrri fregnir voru rangar. Þær leiðréttast hér með. Það ætti að vera auðvelt að finna hæfileikaríkan einstakling til starfans úr þessum fjölmenna hópi. Fannst þó vanta æði mikið upp á þær kröfur sem gerðar eru til starfsins, ekki farið fram á reynslu og/eða menntun í opinberri stjórnsýslu svo dæmi sé nefnt. Virkaði á mig eins og það væri fyrirfram ákveðið hver fengið starfið en auðvitað getur mér skjátlast. Við sjáum til.
Vonandi eru bjartari tímar framundan í heima í héraði, ég leyfi mér alla vega að vera bjartsýna og vongóða um það eins og hægt er við þessar aðstæður. Ég reikna með því að málefnasamningurinn sé niðurjörvaður og vel ígrundaður ef ég þekki mína menn rétt.
Þótt enginn geti snúið við
og byrjað að nýju,
geta allir byrjað núna
og endað að nýju.
(Carl Bard)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.6.2008 | 00:06
Rauðir dagar
Mér hálfleiðast hátíðisdagar. Eru til þess fallnir að fjölskyldan komi saman og njóti þess að vera saman. 17. júní ekkert frábrugðin í þeim efnum. Mín litla fjölskylda dreifð víða og stór hluti hennar horfinn þannig að frúin sat heima með tíkunum. Ég viðurkenni það fúslega að mér hundleiddist framan af. Ekki nógu brött til að skreppa í bæinn á hátíðarhöldin enda ekki vænlegt að hökta langar leiðir á hækjunum.
Góðu fréttir dagsins eru þær að Hafsteini gekk vel í prófi sem hann tók í morgun, á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Er orðinn ansi slæptur og próflesin. Styttist í heimkomu hans og ég eins og lítill krakki og bíð spennt. Katan kemur eftir tæpar 2 vikur þannig að senn verður líflegt í kringum kellu.
Systkinin á góðri stundu
Hef verið það fífldjörf að láta það eftir mér að þrífa hér innan dyra, af nógu er að taka eftir margra vikna aðgerðarleysi í þeim efnum. Myndi uppfylla öll skilyrði fyrir ,,Allt í drasli" með bravör. Hef sem sé smátt og smátt verið að takast á við rykið og óhreinindinn, sækist það á hraða snigilsins, var 3 klst. að taka stofuna í gegn og annað eftir því. En þetta mjakast þó. Afleiðingarnar láta ekki á sér standa, er sófadýr eftir hverja viðleitni en finnst það fyllilega þess virði.
Viðurkenni að ég er fegin að þessi dagur er að kvöldi kominn, afrakstur hans rýr, einungis nokkrar stjúpur í blómapott og síðan maulað heilt stykki af Toblerone yfir sjónvarpsglápi. Allt er þetta þó í áttina.
Ég er bara ein, en þó ein.
Ég get ekki gert allt
en þó eitthvað.
(Helen Keller)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.6.2008 | 14:36
Hei, hó jibbíei og jibbíei
Til hamingju með þjóðhátíðardaginn 17. júní. Vonandi njóta hans sem flestir í faðmi fjölskyldu og/eða vina. 64 ár liðin frá því að þjóðin hlaut sjálfstæði. Erum við tilbúin til að fórna því???
Leið okkar liggur ekki um grængresið
mjúka, hún er fjallvegur
og talsvert grýtt. En hún liggur
upp í mót, áfram, í sólarátt.
(Ruth Westheimer)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.6.2008 | 10:06
Alvara?
Ætli loks sé komin einhver alvara í samningaviðræður á milli ríkis og BHM eða skyldi markmið forsætisráðherra vera það eitt að skikka menn til hlýðni eins og sæmir föðurlegum húsbónda?
Atkvæðagreiðsla innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um yfirvinnubann hafin. Fróðlegt verður að sjá niðurstöðurnar, hef alla trú á því að yfirvinnubannið verði samþykkt. Mér finnst forysta félagsins standa sig mjög vel og vinna hratt í málum eftir að hafa gefið samninganefnd og ríkissáttasemjara mikið svigrúm og sýnt þeim biðlund. Þeir samningar sem boðið er upp á eru ekki upp í nös á ketti og nálgast ekki einu sinni raunveruleikan.
Ég bíð í ofvæni eftir fimmtudeginum.
![]() |
Forsvarsmenn BHM boðaðir á fund ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.6.2008 | 00:45
Þungt í mönnum
Það ku vera nokkuð þungt í mörgum í minni fyrrum heimasveit. Ofurlæknirinn orðinn oddviti og sumir telja hann jafnframt vera formaður byggðaráðs. Vil ekki trúa því fyrr en á reynir. Aðeins frést um eina umsókn um starf sveitarstjóra sem kemur frá fráfarandi sveitarstjóra sem var sagt upp. Nokkuð víst að hann verður ekki ráðinn en mig undrar ekki þó fleiri sæki ekki um. Staðan til 2ja ára og starfsumhverfið hálfgerð ormagryfja. Ef ég man rétt, rann umsóknarfresturinn út á miðnætti. Umsóknin sem slík virtist klæðskerasaumuð fyrir einhvern sérstakan þegar hún er skoðuð með gleraugum mannauðsstjórnunar.
Kosning oddvita hefur farið hljótt, fundagerð ekki komin á vef sveitarfélagsins og fréttablað Vesturlands hefur ekki séð ástæðu til að birta fréttina. Það segir sína sögu. Kannast aðeins við aðferðafræðinna, liggur á að blása tíðindi um meirihlutaslit í fjölmiðla en annað fer hljóðlega fram. Bíð þó spennt eftir að sjá frekari niðurröðun í æðstu embætti sveitarfélagsins. Síðan þarf að kjósa í allar nefndir á nýju.
Þar sem ekki er sveitarstjóri til staðar, tíðkast gjarnan að oddviti gegni starfi hans. Það er því etv. ekki nein tilviljun sem ræður því að nýkjörinn oddviti er búinn að auglýsa eftir nýjum lækni við heilsugæsluna. Gerði það fyrir kosninguna og áður en frestur um sveitarstjórastarfið rann út. Öllu falli sjá heimamenn sæng sína útbreidda og margir ósáttir. Ég hef oft bent þeim á að stoðar lítt að láta í ljós óánægju sína við eldhúsborðið, í fjárkrónni eða í mjaltabásnum. Menn verð að tjá hug sinn á réttum vígstöðvum.
Að þegja vegna siðferðislegs heigulsháttar
er jafn hættulegt og óábyrgt tal.
Rétta leiðin er ekki alltaf sú vinsælasta
og auðveldasta. Að tala fyrir því sem er rétt
en óvinsælt er prófraun á siðferðisþrekið
(Margaret Chase Smith)
Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að því meira návígi við fólkið og því meiri ábyrgð, þeim mun fyrr kemur hið rétta eðli viðkomandi og geta í ljós. Trúverðugleiki verður ekki keyptur úti í búð og orðspori er erfitt að breyta. Skiptir þá engu máli hvort það sé byggt á sönnum staðreyndum eða málatilbúnaði. Hef alla trú á því að það sé sama upp á teningnum í heimasveit minni og í borginni, kjörnir fulltrúar beggja sveitarfélaga munu ljúka kjörtímabilinu. Að því loknu er pólitískur ferill þeirra margra á enda. Hjá sumum gæti hann endað jafnvel fyrr, hver veit
Vona að heimamenn verði ötullir við að fylgjast með framvindu mála.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2008 | 00:01
Um daginn og veginn
Lífið er smám saman að færast í eðlilegri skorður. Orðin býsna flink við að tylla í tærnar og koma mér á milli staða. Finnst alveg skelfilega hallærislegt að skjögra með hækjurnar og á það til að ,,gleyma" þeim svona af og til. Fæ svo sem að kenna á því síðar en fyllilega þess virði að vera pínu ,,smartari" en kjaga óneitanlega eins og gæs ennþá.
Lafði Díana er komin heim til síns heima. Kom úr sveitinni í kvöld, fékk far með einum af mínum bestu vinum. Lafðin er búin að vera í sveitinni síðan 1. apríl hjá vinafólki mínu. Það er ekki sjálfgefið að taka að sér annarra manna dýr, hvað þá Lafðina sem þýðist ekki hvern sem er, dyntótt og stundum ,,grumpy". Vinir eru ekki á hverju strái og í seinni tíð hef ég valið mér þá fáa þó kunningjar séu fleiri. Þessir vinir mínir eiga í mér hvert bein, svo mikið er víst enda ævinlega staðið við bakið á mér í gegnum súrt og sætt.
Varð að skutla Slaufu í pössun til Keflavíkur þar sem blóðug slagsmál hafa verið á milli þeirra tveggja. Lafðin verður að fá að vera drottningin á heimilinu fyrstu dagana eftir heimkomuna enda að verða 11 ára í ágúst og hefur ráðið hér ríkjum allan þannt tíma. Ótrúlegt pússluspil en ekkert annað en að taka á því og virða goggunaröðina. Sigrún sys tók Slaufuna í 1-2 daga og síðan hefst aðlögunarprócessinn. Ekki veit ég hvor var ánægðari með heimkomuna, Lafðin eða eigandinn.
Úthaldið smám saman að aukast, 4 tímar í tannlæknastól í morgun sem kallaði auðvitað á sófakúr eftir kaffi, síðan brunað til Keflavíkur og þaðan áleiðis upp í Kjós til að sækja Lafðina. Á náttúrlega uber bágt núna, búin á því og sófamatur en sátt við dagsverkið.
Ég fann fyrir miklum létti um leið og ég kom út fyrir bæjarmörkin, gróðurinn ótrúlega fallegur og mikið af blómstrandi lúpínu alls staðar sem mér finnst meiri háttar fallegar þó umdeildar séu. Það grípur mig sérstök tilfinning um leið og ég er komin úr fyrir borgina, alveg sama í hvaða átt. Er greinilega orðin rótgróin landsbyggðatútta. Hefði ekki haft á móti því að keyra lengra í norðuráttina, hef ofboðslega heimþrá. Vorið búið að vera slæmt í þeim efnum, finnst handónýtt að vera ekki í minni sveit og í sauðburði. Heyskapur fram undan og ekki síður vond tilfinning að vera fjarri góðu gamni. Er eiginlega handónýt í sálartrinu þegar kemur að þessum málum. Ekki það að ég hafi það slæmt hér, ég á bara ekki ,,heima" hér, svo einfalt er það.
Fékk óvenjulega sendingu í pósti í dag, litla bók sem ber titilinn ,,Kjarkur og von" eftir Helen Exley. Sagan á bak við þá sendingu er sérstök og bíður betri tíma en sendingin var óvænt. Hún hitti hins vegar beint í mark. Mjög heilræði og spakmæli sem ugglaust munu auðvelda manni eitt og annað. Hef reyndar fengið send heilræði úr þessari bók á blogginu mínu og man hvað mér fannst þau eiga vel við.
Hlutirnir hafa ekki verið að ganga sem skyldi síðustu vikur og mánuði. Er svo sem ekki óvön því og ætla mér ekki að dvelja um of við það, lífið heldur áfram þó það sé ekki alltaf eftir óskum manns. Veggirnir og hindranirnar á hverju strái og væntingar verða að engu. Ekkert annað að gera en að byrja aftur, breyta kúrs og finna nýjan farveg. Verð stundum gröm út í böðla mína, hef ekki legið á því en staldra stutt við gremjuna enda gerir hún lífið enn erfiðara.
Strangt til tekið eru aðeins tvær leiðir
í lífinu; leið fórnarlambsins
eða hins sókndjarfa bardagamanns.
Viltu eiga frumkvæðið eða bregðast við?
Ef þú leikur ekki þinn leik við lífið
leikur það sér að þér (Merle Shain)
Orð að sönnu og rétt að hafa að leiðarljósi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.6.2008 | 23:10
Ánægjulegar fréttir
Það gladdi mitt litla hjarta að lesa þessa frétt í morgun. Stytting á biðtíma og forgangsröðun í höndum fagfólks. Sjúklingar teknir beint inn í stað þess að híma á biðstofunni í miður þægilegum stólum. Mér finnst þetta svo stórkostlegar fréttir að mér finnst ástæða til að fjalla sérstaklega um þær. Skil ekki af hverju forráðamenn gerðu þessar breytingar ekki fyrr.
Ástandið búið að vera bagalegt árum saman og allflestir gerar sér grein fyrir því að það er ekki komandi á slysa- og bráðamóttökuna nema á bláum ljósum í sjúkrabíl. Fólk hefur einmitt hneykslast á mér fyrir að hafa ekki farið í sjúkrabíl forðum daga en ég er greinilega föst í gamla tímanum og finnst sjúkraflutningur vera neyðarflutningur. Það er svo annað mál.
Í öllu falli ætti að vera auðvelt að bæta aðgengi að bráðaþjónustunni með skýrum verkferlum og verkefnastjórnun. Það er ekki flókið verkefni að greina flöskuhálsa, samræma og bæta ferlana og auka þannig afköst og stytta biðtíman. Árangurinn tvímælalaust jákvæður fyrir alla aðila, ánægðir sjúklingar og ánægt starfsfólk sem finnur að störf þeirra eru að skila árangri. Reksturinn væntanlega hagkvæmari og tíminn betur nýttur. Mistökin færri og meðferðin markvissari. Hugsanlega verður starfsmannaveltan minni og deildin eftirsóknarverðari vinnustaður.
Pólitíkusar hagnast á breytingunni með auknum vinsældum, embættismannakerfið fær jákvæðari umfjöllun og öll dýrin í skóginum vinir.
Flott framtak!
![]() |
Breytingar á slysadeild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.6.2008 | 19:57
Marktæk kosning?
Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort þessi kosning um kjarasamning aðildafélaga BSRB við ríkið sé marktæk. Einungis 33,4% atkvæðabærra manna greiddu atkvæði. Af þessum þriðjung atkvæðabærra manna voru um 89% þeirra sáttir við samninginn. Tæplega 11% á móti. Rúmlega 66% sáu ekki ástæðu til að nýta atkvæðarétt sinn. Ekki hægt að túlka það á annan hátt en að menn séu mjög sáttir.
Til hvers í ósköpunum var barist um atkvæðarétt okkar á síðustu öld? Fólk hefur greinilega ekkert með hann að gera miðað við þessa staðreyndir og augljóst að nóg er að stéttarfélögin annist samningagerðina með öllu.
Mér finnst ekki hægt að túlka þessa atkvæðagreiðslu með öðrum hætti en að menn séu mjög sáttir við sínar 20 þús. krónur eða sem svarar 9% hækkun launa, ef ég man rétt. Hlutfall þeirra sem kusu bendir jafnframt til yfirgnæfandi stuðnings við forystu BSRB og aðildafélaganna.
Þó hækkandi vísitala, verðlag, eldsneytiskosnaður og hvaðeina einkenni efnahagslífið eru menn sáttir. Það myndi hljóma ansi hjákátlega ef menn færu síðan að kvarta í efnahagskreppunni eða hvað?
Ég er greinilega af gamla skólanum, er orðlaus!
![]() |
Félagar í SFR samþykktu samning við ríkið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.6.2008 | 18:09
Jamm og jæja
Þá iggur fyrir málefnasamningur á milli H-lista og VG í minni, fyrrum heimasveit. Treysti því að fyrrum félagi minn og oddviti VG hafi tryggt niðurnjörvaðan og skriflegan samning og ritskoðað smáa letrið.
Enn á ný er allt í uppnámi í pólitiíkinni þó meintur orsakavaldur sé horfinn á braut. Er það ekki sagt um sannleikan að hann komi alltaf fram í dagsljósið, fyrr eða síðar?
Traust mitt er öllu meira gagnvart fulltrúum Vinstri Grænna en til ofurlæknisins enda gott fólk þar á ferð. En einhver veginn læðist að mér sá ótti að þeir muni sjá eftir þessum samningum. Við sjáum til hvað setur. Þætti ekki verra að mér skjátlaðist, íbúanna vegna. Nóg er komið af skotgrafahernaðinum og moldvörpuhættinum. Í öllum samfélögum er að finna úlf í sauðagæru, ekkert sveitarfélag er undanskilið. Það kemur mér nokkuð á óvart að sjá hver talsmaður hins nýja meirihluta er, kannski er hann næsti oddviti eða jafnvel nýji sveitarstjórinn?
![]() |
Nýr meirihluti í sveitastjórn Dalabyggðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |