Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
28.2.2008 | 01:10
Prins Polo....
Búin að finna þá ,,næringu" sem ég fæ ekki bullandi verki af og það er gamla góða Prins Poloið. Búin að fjárfesta í heilum kassa. Hefur löngum verið mitt uppáhald, einkum og sér í lagi með svörtu kaffi. Verð að láta það eiga sig hins vegar. Popp fer líka ágætlega í mig. Einhæfur menu en hva, í lagi í stuttan tíma. Fæ mér einhverja blómafrævla í desert.
Er búin að prófa mig áfram um tíma, ritað brauð, léttar súpur, hefbundinn heimilismatur, salatréttir, melónur, name it! Fæ bév..... brunaverki af þessu öllu. Ekkert virðist ætla að slá á þá þegar þeir koma. Þetta er farið að vera ,,Sagan endalausa". Prófaði reyndar skúffuköku í gær án þess að verða meint af þannig að þar er ljós punktur. Ekki amalegt að geta borðað sitt uppáhald, löglega afsökuð. Aukakílóum fækkar kannski líka
Á meðan við berjumst við snjó og hálku eru krakkarnir í sól og sumaryl þessa dagana í Debrecen. Langar mig eða hvað.................? Eitthvað á að fara að kólna undir helgina. Bæði Katan og Haffinn komin á fullt í próf, Katan í kvöld og gekk vel. Er að drukkna finnst henni, svo mikil er yfirferðin en ég heyri betur en að daman sé að blómstra núna, þrátt fyrir einhverjar sýkingar og krankleika. Sver sig í móðurættinna, því miður. Haffinn á leið í sitt fyrsta annarpróf í fyrramálið, trúi ekki öðru en að það gangi vel
Langar mikið út um páskana en er harðákveðin í að taka til hendirnni hér innandyra. Hér eru heilu hárflókarnir úr Perlu, hvert sem ég lít eru hárlubbar. Hef aldrei séð annað eins, verð trúlega að láta kíkja á þetta eða hvað? Kannski þetta sé eðli labradorhundanna en vá, þvílíkir flókar. Fyllti heilan plastpoka um daginn þegar ég lét mig hafa það að bursta feldinn hennar. Hingað er alla vega ekki mönnum bjóðandi og akút mál að gera skurk í innanhúss þrifum með meiru. Er þetta ekki vorboðinn................
Eyðlagði kvöldið, sofnaði eins og vera ber yfir fréttunum en auðvitað komin í góðan gír núna. Enda tími náttuglunnar og B-manneskjunnar. Ætla mér ekki að vakna neitt verulega snemma en þarf að skreppa í Borganes á vinnufund. Mæting kl.13 þannig að það verður ljúft í fyrramálið.
Heilbrigðisráðherra á fullt í framkvæma stefnu Sjálfstæðismanna, útboð á heilbrigðisþjónustu komin á fullan skrið. Einkarekstur innan geirans mun blómstra meira en nokkrum sinnum fyrr á næstu mánuðum. Ráherrann reynir að sannfæra þjóðina um að kostnaðarhlutdeild einstaklinga muni ekki aukast. Á sama tíma er Pétursnefndin á fullu að endurverðleggja þjónustu og auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga.
Ef að líkum lætur fer þeim hópum fjölgandi sem þurfa að greiða hærra hlutfall af heilbrigðisþjónustunni sbr. síðustu fréttir um gigtarsjúklinga. Dæmið verður snúið hjá krabbameinssjúkum og öðrum sjúklingahópum sem þurfa daglega eða vikulega að fara í meðerð í einhvern tíma. Ef miðað er við afsláttarkort má reikna með að hvert skipti kosti um 4.500 kr. ef marka má þær tölur sem voru birtar um daginn. Margir halda að afsláttarkort þýði einfaldlega að sjúklingurinn fái allt frítt. Það er örðu nær, hann greiðir alltaf helming. Etv. greiða öryrkjar eitthvað lægra gjald, ég er ekki viss en ekki allir sjúklingar eru öryrkjar skv. skilgreiningu hins opinbera þó óvinnufærir séu í einhvern tíma.
Ég frétti um nýjasta útspil heilbrigðisráðherra í lyfjamálum, nú á að reyna að takmarka ennfrekar lyfjaskírteini til þeirra sem þurfa stöðugt að vera á magalyfjum. Ég sé sæng mína útbreidda ef ég lendi í þeim hnífnum. Slæm er ég fyrir en hvernig verð ég þá?
Í öllu falli er ráðherran kominn á fullt í að framfylgja stefnu síns flokks, við eigum væntanlega eftir að fá fleiri gleðifréttir í þeim efnum. Kjörtímaiblið ekki hálfnað. OMG!!! Ekki heyrist stuna í einum eða neinum nema Ögmundi sem reynir að boffsa en fær lítinn hljómgrunn annarra. Skil það eiginlega ekki. Má kannski skilja hér sem svo að þögn sé sama og samþykki og að allir flokkar fyrir utan VG séu þessari stefnu sammála? Það lítur þannig út.
26.2.2008 | 00:42
Loðnan og fleira
Er eiginlega hálf hvumsa yfir þeim fréttum að loðnan sé ,,horfin" og að ekki megi halda til veiða. Hvað gera sjávarbyggðir eins og Eyjar? Ef ég hef tekið rétt eftir munu Vestmannaeyingar verða af um 7,5-8 milljörðum í tekjur þegar áhrif þoskskerðingarinnar og bann við loðnuveiði eru tekin saman. Það er ekki lítið og gæti reynst þeirri byggð banabiti ef ekkert er að gert. Þetta á auvitað um mun fleiri sjávarbyggðir. Hvað gera stjórnvöld nú?
Skipstjórar og sjómenn almennt ekki á sama máli og Hafró, ekki í fyrsta skipti svo sem en mér finnst erfitt að hundsa álit þeirra sem hafa stundað veiðar í áraraðir. En af hverju aflabrestur og heilu stofnarnir þurrkaðir út? Ég er ekki líffræðingur og hef afar takmarkaða þekkingu á lífríki sjávar. Rámar þó í líffræðina sem ég lærði í MR og fæðukeðjurnar í vistkerfunum. Hvaða dýr er það stærsta í fæðukeðju sjávarvistkerfisins? Ég svara náttúrlega eins og hver annar auli og segi hvalurinn. Er eiginlega viss um að ég hafi rétt fyrir mér.
Í öllu falli eru það hvalirnir sem eru þurftafrekastir þegar kemur að æti og hygg ég að meðal skepnan éti á við árs afla skuttogara á ári, jafnvel meira. Í mínum huga er dæmið einfalt. Hvalastofninn orðinn of stór vegna friðunaraðgerða, þorksstofninn hruninn enda uppétinn sem og aðrir stofnar, engin áta í sjónum fyrir fuglana þannig að lundastofninn er einnig hruninn og svona má lengi telja. Við sjáum það sama í öllum stofnum sjófugla.
Það er kannski fulldjarft að láta þessa skoðun mína um hvalinn í ljós, jafnvel eins hættulegt og að ræða ábyrga stefnu í innfleytjendamálum eða virkara heilbrigðiseftirlit en ég læt mig hafa það. Hef aldrei kunnað að þegja, myndi einhver segja
Af mér er annars það að frétta að ég tel niður dagana og einungis 10 dagar þangað til ég hitti meltingasérfræðing. Aumingja maðurinn, ég á eftir að gera óraunhæfar kröfur til hans. Hef ekki fengið eins slæmt kast aftur og á laugardag en með mallandi, vonda verki allan sólahringinn, misvonda þó. Versna ef ég læt eitthvað ,,miður gott" ofan í mig og næturnar oft verstar. Prins polo fer ágætlega í mig ennþá. Allt skal þetta hafast. Var svo activ í dag að ég sótti um heimilislækni hér í höfuðborginni, enginn laus í mínu hverfi en komin á biðlista. Heilmikið framtak, finnst mér
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.2.2008 | 02:00
Af hverju er ég ekki hissa?
Las í morgun þá frétt að gjaldtaka mun hækka hjá gigtveikum skjólstæðingum LSH og telur stofnunin sig fá um 4-5 milljónir á ári í tekjur af þeirri breytingu. Af hverju kemur þetta ekki á óvart?? Þetta er einungis byrjunin. Fleiri sjúklingahópar munu fylgja.
Pétursnefndin er nú að störfum og ef að líkum lætur og miðað við fyrri yfirlýsingar Péturs Blöndals, þá verður gjaldtaka skjólstæðinga með hina ýmsu sjúkdóma ,,réttlátari. Greiðsluþak skjólstæðinga er nú 21 þús á ári og eftir þá upphæð greiða þeir 50% af uppsettu verði þjónustunnar. NB! þá gildir það reyndar ekki um alla þjónustu. Suma þarf að greiða að fullu, t.d. þjónustu sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga o.fl.
Ekki man ég nákvæmlega krónutölur frá því í morgun en mig minnir að fyrir þjónustuna og sérfræðing þurfa gigtveikir að borga meira en 9.000 kr. fyrir hverja heimsókn þar til aflsáttarkortið tekur gildi og síðan 50% eftir það. Kannski ekki himinháar upphæðir en þegar viðkomandi þarf að sækja þjónustuna oft, er fljótt að safnast upp. Í ofanálag bætist við sjúkraþjálfun, lyfjakostnaður o.s.frv.
Í kjölfarið muni fleiri ,,sjúkdómahópar" fylgja og ef að líkum lætur verða sértekjur LSH sem og fleiri stofnana farnar að slaga upp í hallan sem hefur safnast síðustu ár. Sjúklingar hafa nefnilega ekki alltaf val, sum þjónusta er einungis veitt á viðkomandi stofnunum. Það ríkir nefnilega í besta falli fákeppni í bransanum.
Fyrir aldraða og öryrkja, hjartveika, krabbameinsjúka o.fl. sem þurfa að sækja sína meðferð jafnvel daglega eða vikulega þá verður þetta stór pakki. Fyrir þá sem lifa við hungurmörkin, eiga rétt fyrir húsnæði, hita og rafmagni og lyfjum, þá er þessi pakki ,,too much!". Hvernig má annað vera? Margföldunartöfluna kunna flestir og það eru 365 dagar á ári og 52 vikur eða hvað?
Einkavæðing hefur mjög verið í umræðunni seinni árin á þá ævinlega með þeim formerkjum að ríkið myndi kaupa þjónustuna af öðrum aðilum þannig að ríkið sæi hagræðingu í því fyrirkomulagi. Þeir stjórnmálaflokkar sem mest hafa mælt fyrir þessu breytta rekstrarfyrirkomulagi hafa sett það á oddinn að það fyrirkomulag myndi ekki þýða aukna gjaldtöku fyrir skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar. Hvað er að gerast nú og hefur í reynd verið að gerast smátt og smátt undanfarin ár? Jú, þátttaka sjúklings í gjaldtökunni hefur sífellt verið að aukast. Það sem meira er; hún á eftir að aukast til muna, því miður. Það hefur verið yfirlýst stefna Péturs Blöndals í ljósvökunum um árabil. Íslendingar eiga næga peninga, þeir þurfa hins vegar að læra að spara. Hann telur það ,,sanngirni" að allir greiði fyrir veitta þjónustu. Það má satt vera en þá verða skattar að lækka og við að fá tækifæri til að spara fyrir heilbrigðisþjónustunni og kaupa okkur sjúkratryggingu. Í öllu falli að hafa val. Það vill svo til að það er ákveðin einokun í þjónustunni.
Mín spá er sú að afleiðingarnar verði þær að almenningur muni leita seinna og síður til lækna vegna hinna ýmsu krankleika sem þýðir veikari einstaklingar sem koma inn í heilbrigðisþjónustuna og enn meiri kostnaður fyrir þjóðarskútuna þegar upp er staðið. Það þarf ekki að spyrja hvaða áhrif þessi þróun hefur á sjúklingana sem munu ,,þrauka lengur", vera þjáðari og hve lífsgæðin munu minnka. Hrakspá, ég veit en núverandi stefna er keimlík þeirri sem Bandaríkjamenn fóru eftir og geta ekki með neinu móti komið sér út úr, þrátt fyrir mikla viðleitni, hvort heldur sem það var Clinton stjórnin eða aðrir.
Íslensk stjórnvöld hafa ætíð verið iðin við að apa eftir kerfum annarra og helst að taka upp þau kerfi sem hafa algjörlega brugðist öðrum þjóðum. Á það bæði við mennta- og heilbrigðiskerfið. Erum við svona treg eða telja ráðamenn að við getum breytt vatni í vín???
4-5 milljónir á ári í sértekjur stofnunar sem veltir milljörðum á ári er ekki dropi í hafið. Gæti orðið það þegar búið er að taka alla sjúklingahópa fyrir og allir greiða í topp. Er um að ræða þrýstitæki af hálfu ráðamanna eða standast hrakspár um að áður en langt um líður verður íslenskt heilbrigðiskerfið eins og í BNA?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2008 | 23:11
Heilsufar iðnaðarráðherra o.fl.
Ekki laust við að ég sé farin að hafa áhyggjur af andlegri heilsu iðnaðarráðherra síðustu dagana. Ráðherran fer offari, bæði í skrifum sínum og í fjölmiðlum og eru ummælin slík að hver og einn hlýtur að staldra við og velta fyrir sér heilbrigði hans.
Ráðherran hefur verið hamingjusamasti maður í heimi, að eigin sögn, brosandi út í eyru hvenær sem er og hvar sem er. Bloggar á næturnar og þá helst um samferðamenn sína sem hann skýtur fast á. Svo fast að það jaðrar við níði. Líkir Gísla Marteini við dautt hross sem allir munu beita svipu sinni á, svo dæmi sé nefnt. Í öllu falli hróplegt misræmi á milli hinnar miklu hamingju ráðherrans og innri hugsana um nánungan sem hann gefur lausan tauminn. Kannski hin mikla hamingja hans endurspegli nákvæmlega hans innri mann.
Í öllu falli minnir ráðherran mig á ungling á bullandi gelgjustigi sem er fullur af andúð og mótþróa gagnvart öllu og öllum. Hamast á ritvellinum, hæðir og spottar samferðarmenn sína með skáldlegu ívafi. Hann yrði örugglega góður rithöfundur, ætti kannski að snúa sér að þeim vettvangi.
Það verður seint sagt að hógværð, siðprýði og kurteisi einkenni ráðherran
Hef verið innpökkuð í bómul í dag, ælupest í öllu sínu veldi þannig að afrakstur dagsins er rýr. Heldur að hressast, eins gott enda langur dagur á morgun. Veðurspáin ekki allt of spennandi en allt hefst þetta með varkárninni og þolinmæðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.2.2008 | 23:15
Söknuður
Ekki laust við smá söknuð en það er að koma vor, tra, la, la
Myndin tekin af systkinunum á ágúst í fyrra
Hver veit hvað gerist með hækkandi sól
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.2.2008 | 10:32
Samningar
Sé það eftir lestur Moggans í morgun að menn halda ekki vatni yfir nýgerðum kjarasamningum. Á það bæði við verkalýðsforystuna, Samtök atvinnulífsins og stjórnmálamenn. Meira að segja Valgerður Sverris og Guðjón Arnar eru ánægð. Ég er bókstaflega kjaftstopp
Ég er búin að lesa helstu samingatriðin aftur og aftur yfir, með jákvæðu hugafari. En, sorry, ég sé ekki yfir hverju menn eru svona kampakátir. Vissulega má segja að í hluta af samningnum megi greina að ákveðinu áfangamarkmiði sé náð, t.d.með hækkun persónuaflsláttar en hækkunin svo snautleg að hún nær trúlega ekki hefðbundinni vísitöluhækkun, hvað þá hækkun á neysluverði.
Í stutt máli finnst mér menn hafi samið af sér, samningarnir eru fyrst og fremst til að mæta kröfum Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar sem kallar eftir stöðugleika. Þó kostnaðurinn við samningana sé talinn nema um 20 milljarða þá hlýt ég að spyrja, líkt og aðrir, hvert er hlutfall lækkunar á fyrirtækjaskattinum af þeirri upphæð.
Ég fórna höndum ef þetta er það sem koma skal í komandi kjarasamningum minna stéttafélaga. Ef ég skoða laun hjúkrunarfræðinga sem dæmi þá er ljóst að við höfum dregist hrikalaega langt aftur úr öðrum stéttum auk þess sem launaviðmiðun er algjörlega á skjön við aðrar sambærilegar stéttir. Sjúkraliðar með framhaldsmenntun í öldrun, sem er á framhaldsskólastigi, slaga upp í laun mín. Hef ég um 25 ára starfsreynslu auk framahldssnám á háskólastigi. Þeirra laun eru hærri en mín sem starfandi framhaldsskólakennari. Ég er með kennsluréttindanám á háskólastigi. Ég er ekki að segja að sjúkraliðar eigi sín laun ekki skilið en hvað hefur gerst í minni stétt? Eintaklingur með stúdentspróf sem fær starf í banka er með hærri grunnlaun en hjúkrunarrfræðingar eftir 4 ára háskólanám. Það sama gildir þegar kennaralaun eru borin saman við umrætt nám á framhaldsskólastigi.
Sjálf tók ég þátt í kjarasamningum fyrir 11 árum þar sem m.a. framvindukerfið var tekið upp. Það hefur aldrei skilað mér neinu. Þó hafði ég tröllatrú á því kerfi á sínum tíma. Það hefur brugðist, ekki einungis innan minnar stéttar heldur og allra ríkisstarfsmanna.
Ef að líkum lætur, gefa nýgerðir kjarasamningar með aðkomu ríkisstjórnar, tóninn að þeim kjarasamningum sem framundan er. Ég sé enga ástæðu til bjartsýni, síður en svo. Kjarabætur ná ekki að vega upp á móti hækkun á neysluverði og vísitölu síðustu ára. Ef mín stétt á vel við að una, dugar ekki rúmlega 20% hækkun. Ég skil vel að tryggja þurfi stöðugleika í þjóðarbúskapnum en ef ég lít á stöðuna blákalt þá hefur hagnaður ríkissjóðs sjaldan verið meiri. Af hverju skyldi það vera? Tengist það etv. þeirri staðreynd að launum hefur verið haldið niðri í mörg ár og skattalækkanir ekki í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda árum saman. Skattleysismörk standa í raun í stað, ár eftir ár.
Það má kannski til sanns vegar færa að einhverjar félagslegar úrbætur felist í nýgerðum samningum. Launþegar hafa barsist fyrir þeim áratugum saman þannig að kannski má segja að smásigrarnir liggi þar. Þeir vega hins vegar ekki nógu þungt til að réttlæta þessa snautlegu samninga, að mínu mati.
Ég treysti því að forystan í mínum stéttarfélögum hafi allar klær úti og gefi ekki eftir í komandi kjarasamningum. Hjúkrunarfræðingar hafa t.d. barist fyrir því að 80% vaktavinna jafngildi 100% starfi allt frá því að ég man eftir í kringum 1980. Við höfum aldrei náð því markmiði á tæplega 30 árum. Við höfum ekki náð sama vaktarálagi og ófaglærðar stéttir í ummönnunargeiranum sem og sjúkraliðar. Grunnröðun er ekki í neinu samræmi við nám og ábyrgð.
Ég trúi ekki öðru en að mín stéttarfélög berjist fyrir betri samningum, kjarbaráttan verður hörð en ég er þess fullviss að flestir séu tilbúnir að leggja mikið á sig til að ná fram sanngjarnari kjörum og eðlilegu mati á störf okkar með réttmætu mati og verðmiða á þau.
Þeir samningar sem nú liggja fyrir, fá falleinkun hjá mér. Ég á erfitt með að trúa því að stjórnarandstaðan sé ánægð með þá. Samfylkingin sýnir enn annan viðsnúninginn og er kampakát. Ekkert nýtt í stöðunni á þeim bæ. Er ekki í lagi? Ég fæ hroll, bókstaflega
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.2.2008 | 00:20
Týpískur dagur
Klassískur dagur fyrir Brazelíuna, byrjaði illa. Sofnaði fremur seint í gærkvöldi, vaknaði enn seinna í morgun. Hrökk upp með andfælum um kl. 08.30 í stað 06.15. Mikill handargangur í öskjunni og ég auðvitað með hjartslátt í kokinu. Mætti 2 klst. of seint. Dagurinn fór í að jafna sig, lagaðist heldur þegar ég var búin að kaupa súkkulaðimola og fá mér kaffi eftir hádegið.
Búin að vera í spreng með verkefnavinnu á nokkrum vígstöðvum, skilafrestur rann út í kvöld á einu og hefði þurft að vera í hópvinnu í kvöld. Aldrei náðist í mig til að mæta á vinnufund, gleymdi gemsanum í sloppvasa mínum. Klassískt. Ekki það að ég er á því að fundi eigi að boða til með fyrirvara. Hef verið í basli með að koma umræddum hópi saman. Allt virðist þó vera að smella á síðustu metrunum, skilafrestur á föstudag þannig að það er ekki seinna að vænna.
Sé fram á bjartari tíð og jafnara álag á næstu vikum, búið að vera ansi skrautlegar vikur upp á síðkastið. Er greinilega farin að eldast, finn verulega fyrir fylgikvillum of mikils álags. Líður eins og 67 ára þessa dagana. Páskarnir verða notaðir í ,,chill" og fegurðarblunda. Engin spurning.
Vekjaraklukkan verður stillt á hæsta í fyrramálið! Bíð spennt eftir helginni, meira að segja laugardagskvöldinu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2008 | 01:30
Home alone
Orðin ein heima í kotinu með tíkurnar. Hafsteinn nýkominn til Debrecen eftir strangt ferðalag og allt gekk vel.
Hef setið við tölvuna meira og minna í allan dag að vinna upp gamlar syndir. Þurfti að sjálfsögðu minn þyrnirósasvefn eins og vera ber þannig að ekki er hægt að segja annað en að ég hafi hvílst vel þessa helgina.
Nú er að aðlagast breyttum aðstæðum á ný, setja stefnuna á Debrecen með vorinu. Þangað til hef ég myndirnar af ungunum mínum sem eru auðvitað langlottastir.
Katan og Haffinn á þjóðhátíð, hvar annars staðar!
Veit að tíminn verður fljótur að líða
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.1.2008 | 03:21
Andvaka
Krakkarnir komnir í hús eftir smá bras. Í öllu falli var lítið samræmi á milli raunverulegrar færðar og þess sem kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Allt hafðist þetta og við öll komin í ró um kl.00.30, að nafninu til. Eitthvað virtist dóttur minni heitt í hamsi þegar heim var komið, miðað við bloggið hennar. Næ ekki að toga neitt upp úr henni ennþá
Engin óró en andvökunótt hjá mér. Búin að vera á rjátli með magapest og næ ekki með nokkru móti að sofna, alla vega svona á milli. Spennandi dagur framundan eða þannig. Það verður alla vega einhver framlág eftir 4 tíma. Alltaf er ég jafnhissa á þessu pestarfári sem geysar allt árið um kring, að því er virðist.
Það virðist ekki mega blása á mig, þá er ég komin með þá pest sem sá sem andar í átt til mín er með. Krakkarnir urðu reyndar varir við sömu einkenni á fimmtudag og fram á gærdaginn, hafa væntanlega náð þessari skömm úr sér með þorramatnum en ég rétt að byrja
Komst á snoðir um frábæran vef í dag; http://madddy.blog.is/blog/madddy/
Þar er listakona á ferð. Þvílíkar myndir, ég er bókstaflega heilluð. Fæ eina lánaða hjá Maddý, vona að hún fyrirgefi mér en ég stenst ekki mátið.
Fríkirkjan í Reykjavík en myndin heitir Reflection.
Þvílík fegurð
Hvet alla til að kíkja á bloggið hennar. Hjá mér er næsta skref að reyna að ná nokkurra tíma svefni og vona að ég verði orðin betri í fyrramálið
27.1.2008 | 16:07
Strandaglópar
Þorrablótið tók sinn toll af krökkunum eins og við var að búast, eru strandaglópar í sinni fyrrum heimabyggð. Það væsir ekkert um þau, eru í góðu yfirlæti hjá vinum okkar. Ekkert annað að gera en að bíða veðrið af sér. Keyri trúlega á móti þeim ef þau komast af stað í dag. Missum því miður af kvöldverðarboði hjá bróður
Eins og forvitinna manna siður er, hef ég reynt að toga upp úr þeim hvernig blótið var, vil auðvitað heyra öll skotin. Það er enginn maður með mönnum nema að hann fái einhver skot. Hefur sveitarstjórn að öllu jöfnu legið vel við höggi, eins og skiljanlegt er. Ekki var mikið á krökkunum að græða, þau skildu ekki helminginn af því sem fram fór. Þekktu í raun ekki marga, greinilegt um margt nýtt fólk í Dölum. Það er auðvitað hið besta mál, öllum samfélögum hollt á fá nýtt blóð. Það vakti hins vegar athygli þeirra að sveitarstjórn virtist hafa sloppið að mestu við öll skot. Það finnst mér fréttir og það miklar fréttir!
Oft hafa þau skemmt sér betur segja þau, þetta var allt í lagi. Katan fékk ekki frið fyrir hljómsveitarmönnum, hafði verið svo bíræfin á eigin bloggi að gagnrýna hljómsveitarvalið. Fannst hún fremur slöpp og vildi meira fjör. Fékk heldur betur að kenna á bíræfni sinni, tekin í nefið, fyrst á blogginu og síðan á ballinu. Menn greinilega eitthvað hörundssárir. Þeim tókst í öllu falli að skyggja á gleði hennar. Lýsir þeim náttúrlega og þess ber að geta að allt eru þetta fullorðnir menn, engir unglingar.
Mér er sagt að samfélagsgerðin sé mjög breytt, einkennist af klíkum í kringum suma sveitarstjórnarmenn. Aðeins útvaldir eru vígðir inn í þær klíkur. Innfæddir Dalamenn fara ekkert gegn slíkum klíkum enda störf, álit og afkoma í húfi og mönnum er enn í minni útreiðin sem ég fékk. Fáir eru tilbúnir að leggja slíkt á sig þó skoðanafrelsi og lýðræðið sé í húfi. ,,Ef ég ætla að búa þarna, þá held ég mig á mottunni" sagði einn gamall vinur minn við mig um daginn. Ekki nýjar fréttir fyrir mér en er slegin af heyra hversu slæmt ástandið er. Búið að þagga niður í flestum mönnum. Sem betur fer stendur einn og einn við sannfæringu sína og tjáir sig. En þeir eru of fáir ennþá. Kaupverðið of hátt.
Margur heimamaðurinn sat því heima í gær, mætti ekki á blót. Samkoman með breyttu yfirbragði, andrúmsloftið stíft og ,,snobbað" var mér tjáð. Vantar gleðina og frjálslega framkomu, segja margir. Þeir sem mæta, gæta sín að vera innan rammans, með einstaka undantekningum þó. Einhverjum leyfist enn að vera í ,,annarlegu" ástandi. Mikið vildi ég að ég hefði drifið mig
Mér er spillingin ofarlega í huga. Það að sveitarstjórinn skuli selja sveitarsfélaginu glugga og ýmsilegt til húsasmíða úr eigin fyrirtæki finnst mér forkastanlegt. Hvernig getur þetta gerst? Reglur um útboð virtar að vettugi þegar hentar, samið við þá sem eru ,,inni" þá stundina og eru tengdir tilteknum sveitarstjórnamönnum. Ég á ekkert að vera hissa, þegar sumir menn komast til valda, semja þeir sín eigin lög og reglur og framfylgja í krafti meirihlutans. Mér hefur oft verið tíðrætt um það á þessari síðu.
Spillingin teygir víða út anga sína. Hjúkrunarforstjórinnn ferðast ferðast vítt og breytt um að bifreið heilsugæslunnar, sem ætlaður er til vitjana eingöngu, hvort heldur sem er í innkaupaferðir suður fyrir brekku, jafnvel til Reykjavíkur eða til og frá vinnu. Keyrir börnin sín til og frá skóla á sömu bifreið og fær aksturinn greiddan úr sveitarsjóði líkt og um eigin bifreið sé að ræða. Sést hefur til makans á heilsugæslubifreiðinni innan sveita þannig að augljóslega þykja þessi hlunnindi sjálfsögð. Stinga hins vegar í stúf við samninga og rekstrarleigu ríkisins á bifreiðum heilsugæslustöðva landsins. Þeim er ætlað að þjóna vakthafandi lækni, ungbarna- og heimahjúkrunarvitjunum. Menn eru frjálslegir í minni fyrrum heimabyggð. Hvar er eftirlitið með sveitarfélögunum og starfsemi þeirra???
En pólitísk spilling er víðar en í litlu samfélögunum eins og sjá má á pólitíkinni í Reykjavík. Aldrei hefði mér dottið í hug að slík spilling myndi komast upp á yfirborðið. Menn hafa hingað til falið hana og það vel. Menn eru hættir því, telja hana sjálfsagðan hlut enda lengi búnir að vera með pólitísk völd. Eigin leikreglur þykja því sjálfsagðar. Þegar ég fylgist með Sjálfstæðisflokknum og störfum fulltrúa hans, blasa þessar staðreyndir við. Þær æpa á okkur oog margur er miður sín. Kjörnum fulltrúum flokksins finnst þetta hins vegar eðlilegur hlutur. Samfylkingin í ríkisstjórn tekur beinan þátt. Óafturkræfur fórnarkostnaður þar grunar mig.
Mér heyrist margur vera reiður eftir áhorf Spaugstofunnar í gærkvöldi, aðrir eru hrifnir. Missti af henni en bókstaflega verð að horfa á hana endursýnda seinni partinn ef ég er ekki komin af stað í björgunarleiðangur. Hef ekki verið dugleg að horfa á þá félaga, missti einhvern veginn áhugann fyrir þó nokkru síðan. Oft hefur þeim þó tekist að endurspegla pólitíkina á spaugilegan hátt. Það verður spennandi að fylgjast með
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)