Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Katan bloggar

Vildi bara láta ykkur vita að ég ætla að reyna blogga smá hérna á www.katan.blog.is  ef þið getið ekki fylgst með á facebookinu!

Ég get ekki lofað að ég verði eins dugleg að blogga eins og móðir mín heitin en ég læt inn fréttir af og til =) 

 

Vonandi fylgist þið með! 

 

knús og kossar frá Kötunnni í Ungverjalandinu


Jarðaför

Okkar elskulega móðir verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík, mánudaginn 16. febrúar kl. 13.00.

Blóm og kransar eru EKKI afþakkaðir að ósk mömmu enda mikil blómakona!  Smile 

 

Ykkar,

Katan og Haffi


Baráttunni lokið

Elsku besta mamma okkar kvaddi í faðmi okkar kl. 23.29 í gærkvöldi.  Hún barðist alveg til loka eins og henni var einni lagið. 

 

Við þökkum ykkur öllum innilega fyrir allan stuðning og hlýhug í okkar garð. Kveðjurnar veittu henni og okkur ómetanlegan styrk í baráttunni.  

 

Kveðja, 

Haffi og Kata.

 


Þáttaskil

Katan bloggar frá 11-E.

Því miður eru ekki góðar fréttir héðan.  Ákveðin þáttaskil hafa orðið í dag í baráttunni hennar mömmu.  

Við viljum biðja ykkur að kveikja á kertum fyrir hana senda henni hlýja strauma.  

 

Við munum láta vita um framvindu mála.  

kveðjur, Katan og Haffi 


Fréttir af 11 E

Hæhæ, Katan bloggar frá 11 e, okkar ástkæru deild sem við köllum annað lögheimilið okkar. 

Hérna gengur allt frekar hægt eignlega of hægt að okkar mati.  Nokkur bakslög hafa komið upp sem við höfðu síður viljað sjá.  Það hafa komið nokkrir dagar sem hún hefur sofið eins og þyrnirós og læknum ekki litist á en alltaf stendur hún upp.  Síðast fékk hún lungnabólgu á mánudag og er á sýklalyfjum og virðist  virka vel.  Gengur brösulega að verkjastilla hana og virðist hún alltaf vera með verki 24/7.  Við vonum að það fari að lagast.   Hún er öll að koma til með hverjum degi og skellti sér í bíltúr með okkur í gær.  Við vonum bara að hún komist heim í næstu lotu! Smile

Við systkinin skiptumst á að vera hjá henni hérna og halda henni félagsskap.  Wink  Auja frænka hefur komið og verið hetjan okkar, Dagny og Systa hafa komið með smá gógæti fyrir okkur og Sigga hefur ekki sparað sporin alla leið úr Keflavík og stytt okkaur stundirnar.  Takk fyrir okkur! 

Þangað til næst biðjum við að heilsa og þökkum fyrir allar kveðjurnar,

Kveðja Katan


Fátt að frétta úr Engjaselinu

Hangi hér af gömlum vana og held velli líkt og ríkisstjórnin, líklega á sömu henglum.Tounge  Reyni að mótmæla stöðunni þó hljóðlega sé enda þýðir vart að öskra með potta og pönnur yfir ástandinu.  Fátt svo sem að fretta, verkjamynstur að breytast þó og gefur síðasti sólahringur vonir um einhverjar breytingar til batnaðar í þeim efnum.  Mér líður betur.  Hef tekið bæjarleyfi og skroppið heim en er líklega orðin einn af sjúklingum LSH, hátæknisjúkrahússins, sem það situr uppi með og kvartað er undan.  Vonast að sú þróun breytist á allra næstu dögum þannig að útskriftarprogram hefjist en ég fer svo sannarlega að verða baggi á hátæknisjúkrahúsinu.  Whistling

Bæjarleyfin kallar á aukna vinnu og vökunætur hjá krökkunum  enda verða þau að vaka yfir mér svo frúin fari sér ekki að voða enda með eindæmum spræk af sterum og aukaverkum þeirra. Nóg að gera í draumi þó minna sé að gera í veruleikanum, mynstur sem tekur virkilega á er orkukræft á ungana mína. Það tekur hellings á að snúa af sér andrúmslofti sem rýkti um miðja síðustu öld eða koma sér út úr torfbæjum eða gömlum húsakosti þarsíðustu aldar en hver dagur hefst á því að koma sér inn í þann raunveruleika sem ríkjandi er í dag.  Ég er ekki alltaf samvinnuþýð þegar kemur að hrista af mér drauma-martraðarslenið og snúa til veruleikans. Þessi daglegi pakki tekur verulega á krakkana og er ótrúlegt hvað þau sýna mikla seiglu í þeim efnum. Oft á tíðum er enginn greinarmunur á degi og nóttu þar sem dagur og nótt renna saman í eitt. Ég trúi að þetta ástand sé að breytast og ástandð mjakist smátt og smátt upp á við með þeirra hjálp, enda eru þau yndislegust.  InLoveInLove

Tónninn nokkuð þungur en full ástæða að horfa fram á við með bjartsýni. Uppgjöf er ekki inni í myndinni en þreyta og depurð einkenna andlega líðan sem ekki er óeðlilegt í vondri stöðu.  Ástandið gæti verið verra og við reynum að nyta vel þau spil sem við höfum í höndunum og tökum einn dag í einu. Áframhaldandi meðferð skal það vera og full barátta. 

 Þakka innilega öll innlitin og kveðjurnar og hlakka til að heyra frá ykkur. Megi þið eiga góða nótt!  InLove


..

Loksins komin í samband.  Það hefur verið á brattann að sækja síðustu daga vegna bévitans verkja og tæknilegra örðuleika.  Hef notið umönnunar frábærs starfsólks, á eiginlega ekki til orð til yfir því hversu vel þetta starfsfólk sinnir sínum störfum á krabbameinslækningadeildinni.  Þrátt fyrir erfiða tíma hef ég átt yndislega kafla með krökkunum og notið jólanna. Leið eins og prímadonnu á aðfangadagskvöld þar sem allt gekk upp, stemningin, ljósin, jólatréð, pakkarnir og umframallt börnin.  eina undantekningin var þó maturinn sem var "over done" sem þrátt fyrir allt bragðaðist vel. 

í dag fékk ég nýja deyfingu sem gekk vonum framan og naut fylgdar frumburðarins í gegnum allt ferlið sem var mér ómetanlegt.  Krakkarnir hafa lagt allt sitt í að fylgja mér hvert einasta skref í meðferðinni, sorgum og sigrum.  Án þeirra hefði ég nú misst baráttuþrekið.  Við skelltum okkur í fjölskylduboð á sunnudag þar sem stórfjölskyldan kom saman og naut ég mín í tætlur og átti góða kafla. 

Á morgun liggur fyrir fjölskyldufundur sem hefur endurtekið verið frestaður vegna ástands míns. Ég á ekki von á að neitt nýtt komi fram á þessum fundi annað en að staðan verði tekin út og framhald næstu daga ákveðið.  Ég er komin upp úr pittinum, krafsa í bleytunni á uppleið og ætla mér að vera komin í þurrt skjól í byrjun nýrs árs.  

Þungum málum mjakast áfram enda nýt ég góðra aðstoðar í þeim efnum.  Þó er ljóst að kerfið blýþungt og mér ekki hliðhollt að öllu leyti. 

En dagurinn í dag var mjög góður og leiðin er bara upp á við! Ég vil þakka fyrir allar kveðjurnar en þær hafa hjálpað mér mikið.


Létt og laggott

Eitt og annað er búið að ganga á undanfarna viku.  Öll orka farið í að verkjastilla frúna, gleði og vonbrigði í þeim efnum en virðist vera á réttri leið, LOKSINS! Prímadonnan komin heim með glæstu einkunn eftir sólahringsferðalag. Ekki smá stollt af minni dömu sem mætti aðfaranótt aðfangadags klukkan 2.30 að líta á gömlu og ekki vikið frá mér síðan fremur en prinsinn. 

Lyfjabreyting, heimkoma barnanna, bæjarleyfið eða blanda af öllu, er einhver viðsnúningur í líðan þeirri gömlu en svo virðist sem verkir víki fyrir öðru.  Ég er búin að vera í bæjarleyfi síðan seinnpartinn í gær þrátt fyrir erfiða daga þar á undan, með smávægilegum uppákomum.  Hef komið sjálfri mér og staffinu, sem er allt yndislegt, á óvart með batnandi liðan.

Ég hef ekki haft orku eða heilsu til að blogga né nokkuð annað vegna bévítans heilsufarsins þrátt fyrir nokkar tilraunir í þeim efnum þannig að þessi viðsnúningur kom bæði mér og starfsfólkinu á óvart.  Ég er ekki frá þvi að allar kveðjurnar frá ykkur, kæru bloggvinir hafi haft sitt að segja og þakka ég fyrir einlægar og hlýjar kveðjur undanfarna daga.  

Framundan er áframhaldandi lyfjameðferð og tilraunastarfsemi á verkjameðferðinni sem virðist lofa góðu.  Of snemmt er að segja til um árangur lyfjameðferðar fyrr en um miðjan janúar. Þannig það er ekkert annað að gera í stöðunni en þreygja Þorrann og vona það besta. Ekki er stefnt að útskrift fyrr en verkjaástand er stöðugt enda ekki tilbúin að fara í gegnum batteríið á ný af óþörfu.  

Mig Langar að nota tækifærið að óska ykkur öllum kæru bloggvinir og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsæls komandi ár.  Mín jólakort hafa ekki verið send í póst ennþá af augljósum ástæðum og biðst ég velvirðingar á því.  Vona að þið hafið það gott yfir hátíðarnar og þakka af alhug stuðning og baráttukveðjurnar á síðustu misserum. 

Þessi pyttur er djúpur og brekkan blaut en ég ætla að fara hana alla leið með hjálp barnanna og annarra. Erfiðleikarnir eru til að sigrast á.   Tounge


Breytt áætlun

Héðan af LSH er bærilegt að frétta. Maturinn breytist reyndar ekki þrátt fyrir næringaráðgjöf en kosturunn við ástandið þó sá að ég get látið allt eftir mér sem mér sýnist sem er náttúrlega ólýsanlega ánægjuleg forréttindi; smákökur, nammi í tonnatali, kakó, samlokur; ,,just name it!

Enn gengur illa að verkjastilla frúnna, næturnar alverstar í þeim efnum líkt og áður.  Hinn eiginlegi dagur hefst því ekki fyrr en um og upp úr hádegi hjá primadonnunni sem fellur ágætlega inní mitt norm sem þarf að vera öðruvísi en annarra.  Af þessum sökum er útskriftarplanið sett á bið í raun, heima get ég ekki verið á næturna ennþá, a.m.k. Leyni því ekki að þetta eru ákveðin vonbrigði, taldi mjög raunhæft að stefna að útskrift fyrir heimkomu Haffans á morgun en þær væntingar hafa brugðist.  Það dregur hins vegar ekkert úr tilhlökkuninni að fa hann heim. Drengurinnvar að leggja af stað rétt í þessu, flýgur heim í gegnum Frankfurt og verður kominn heim um miðjan dag á morgun, búinn að ljúka öllum prófum annarinnar 

Katan hefur ekki staðið sig síður vel, búin að ljúka hverju hlutaprófinu á fætur öðru með stæl, stundum allt að 3 slík prófum í viku en með þessum hætti losnar hún við nokkur lokapróf og minnkar umgfangið á stærsta og erfiðasta prófinu.  Nemendur hafa flestir tekið sér nokkrar vikur í upplestur fyrir það próf, hún tekur sér 3 daga! Ég ætla rétt að vona að allir góðir vættir standi með henni þannug að það plan nái fram að ganga en hvernig sem allt fer kemur snúllan heim þann 23. des, á afmælisdegi bróður síns.Wizard

Þó margt hafi ekki gengið eftir síðustu daga og vikur, hefur sumt gert það. Sigrún sys verið nánast í fullri vinnu við að  aðstoða mig við ýmiss erfið mál sem ég hef ekki verið fær um að sinna og hvílt þungt á mér. Sumt ætlar að ganga upp, annað ekki eins og gengur en þá verður bara að hugsa málin upp á nýtt. Ekki hefur þáttaka Tóta bro verið síður mikilvæg sem vinnur að máli sem lengi hefu hvílt á mér og er saga að segja frá per se!  Ég finn alla vega hvað kvíðahnúturinn hefur aðeins slaknað og veit eins og flestir hvaða áhrif erfið mál geta haft á líkamlega líðan okkar. Þetta kemur vonandi smátt og smátt.

Hvernig sem fer og hvernig þróunin verður næstu daga er eitt víst; litla famelían ætlar sér að halda gleðileg og ánægjuleg jól. Visuulega mun vanta nokkuð upp á það sem maður hefði hefði viljað, Guðjóns er sárt saknað og ýfa hátíðarnar þann kafla upp. Ég verð hins vegar, líkt og allir aðrir að sætta mig við orðin hlut og læra að lifa með þeim atburði og hans ákvörðun.  Allir syrgendur þekkja þessa líðan og jólin eru þung í þeim skilningi.

 Vonandi góður svefn í nótt, tilhlökkun að hitta Haffa hjálpar til, trúi ég.  Við tvö þurfum að leggjast á eitt að styðja við bakið á Kötunni þessa daga sem hún á eftir. Þeir verða töff, ástæðulaust að draga dul á því en fram til þssa hefur styrkur hennar verið ótrúlegur.  Ég hef þá trú að hann verði það áfram. 2 systkinabörn mín standa í sömu sporum og mínir krakkar og hafa sýnt sama styrk og sjálsfaga. Þau búa greinilega öll yfir sömu genunun, eins og sumir hafa nefnt.  Sem betur fer InLove

 

 


Fréttir 4. desember

Kæru vinir og vandamenn!

Enn eru það börnin sem skrifa fyrir hönd mömmu sinnar.  Mamma liggur ennþá á spítalanum.  Loksins hafa allar þessar rannsóknir gefið okkur einhver svör þó svo að þær hefðu vissulega getað verið skemmtilegri.  Ljóst er að skrambinn hafi sótt í sig veðrið en engan bug er að finna á baráttuglaðri móður okkar að venju. Hun er þegar komin í boxhanskana og tilbúin í bardagann!  

Hefur Sigrún systir hennar fært henni tenginu við alheiminn (tölvu) þar til hún kemst heim á næstu dögum og mun hún skella inn færslu von bráðar.  

Hún bíður nú bara í ofvæni eftir því að komast heim að skreyta og gera huggulegt fyrir heimkomu okkar! 

 Við þökkum fyrir allar kveðjurnar,

Haffi Dan og Kata Björg 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband