Færsluflokkur: Bloggar
3.12.2007 | 23:42
Þetta er ekki hægt
Ótrúlegur sólahringur loks að líða. Gat ekki með nokkur móti sofnað í nótt, reyndi og reyndi með öllum ráðum og ekkert gekk. Man eftir mér síðast um kl.04.30 og var þá í ímynduðum jógahugsunum. Reyndi hvað ég mátti til að setja mér inn í innhverfa íhugun til að sofna. Það hafðist en þá búin að gefast upp við að telja rollur, hoppandi yfir grindverk. En hvernig má nú annað vera þegar ég sef helgina eins og hún leggur sig?
Nú mín þurfti að rífa sig upp kl.07.00, var með próf í morgun og yfirseta eftir hádegi. Maður minn, hvað þessi dagur var langur. Ég er þess fullviss að Skagamenn hafi álitið það ansi bilaða manneskju sem lagði bílnum við vitann kl. 11.30, breiddi úlpu yfir sig, stillti vekjarann á símanum og lagði sig! Rumskaði af og til við það að bílar keyrðu fram hjá. Var fljót að læsa bílnum innan frá, svefn minn skyldi nú enginn trufla! Þessi lúr dugði mér til að sitja yfir prófi eftir hádegi og koma mér heim. Þetta er nú hálfsjúkt svona þegar ég hugsa út í þetta, hefði seint trúað því að ég ætti eftir að stunda þá iðju að leggja mig í bílnum eins og flutningabílstjóri en hvað gerir maður ekki þegar langt er að fara heim í hléum og syfjan ætlar að gera út af við mann?
Það var ansi föl og sjúskuð manneskja sem mætti tíkunum, hleypti þeim út og síðan var stefnan tekin beint í minn heittelskaða sófa. Ummm............. það var bókstaflega dásamlegt að leggja sig.
Það var hins vegar ekki eins dásamlegt að vakna aftur í kvöld! Krumpuð og enn sjúskaðri. Aldurinn er augljóslega farinn að segja til sín, þoli greinilega ekki andvökunótt þrátt fyrir mikinn svefn undanfarið. Maður leggur víst ekki lengur inn og geymir innistæðuna til mögru áranna, það er á tæru.
Er ekki frá því að einhver pest sé að banka upp á, verið óglatt og kalt. Reyndi að kenna því um að ég fékk mér laufabrauð og reykta nautatungu sem er náttúrlega baneitruð blanda í gall- og magavesen. En svo gæti þetta verið afsökun fyrir því að skríða í sófann aftur og horfa á sjónvarpið. Nokkuð sem ég hef ekki gert síðan í suma. Hafði reyndar lúmsk gaman af. Eða skyldi þetta vera raunveruleikaflótti frá stefnunum, stefnuframkvæmdinni og hvað þetta heitir nú allt saman? Gerði nú heiðarlega tilraun að rýna í Hogwood og Gunn eða hvað þeir heita nú þessir garpar en ógleðin sigraði, raunveruleikaflóttinn eða eitthvað annað.
Ert á bakvakt í fyrramálið í yfirsetu, þ.e. verð að drífa mig í spjarirnar ef einhver forfallast og koma mér upp á Skaga í einum grænum. Þar sem ég er ekki fyrsti varamaður þótti prófstjóra óþarfi að ég færi að mæta nema ef fyrstu varamenn forfallist. Líkurnar ekki miklar en að fenginni reynslu með mína heppni þá ætla ég nú að vera viðbúin. Allt getur gerst, það líka að aðalmaður og næstu 2 varamenn forfallist á sömu stundu, a.m.k. þegar ég á í hlut. Það er því eins gott að vera ,,stand by"
Sé ekki fram á mikinn afrakstur í kvöld, allt of seint að hringja í fólk og sé ekkert annað í stöðunni en að fara snemma í háttinn í kvöld. Ætti að vakna ,,hyper hress" á morgun, vonandi svo hress að ég fari eins og stormsveipur um íbúðina og þrífi en þann lúxus hef ég ekki látið eftir mér undanfarið enda heimilisstörf mikill tímaþjófur. HÞau hafa því setið á hakanum um hríð. Ég ætla mér að vera svo bjartsýn að ætla mér að fara yfir ritgerðir og hrista fram úr erminni stóran hluta af þessu blessaða stefnuverkefni. Ekki seinna vænna, ég er að renna út á tíma, þrátt fyrir frestinn góða í skjóli læknisvottorðs. Nú, ekki myndi nú spilla góðum degi ef ég hringdi eitt til tvö símtöl til þeirra sem ég er búin að ætla að heyra í vikum saman. Það eru nefnilega fleiri til í heiminum en ég. Orðin svo skömmustuleg að það er orðið meiriháttar mál að taka upp tólið.
Farin að hnerra í tíma og ótíma út af uppsöfnuðu ryki og hef sett upp sólgleraugu til að lifa það af að láta draslið sitja á hakanum. Kannski ekki skrítið þó maður sé ekki ,,uber" bjartsýnn þessa dagana stöðugt með svört sólgleraugu til að sjá ekki staðreyndir í kringum sig. Ekki er nú dagsbirtunni fyrir að fara þannig að það ætti að vera auðvelt að gera sér í hugalund hvernig ástandið er hér innandyra.
Hef þó passað upp á að vökva blómin, þ.e. þau sem ekki hafa drepist vegna spunamaurs sem ég fékk í kaupbæti frá Garðheimum og opna glugga. Hef keypt samtals 7 blóm þar á síðustu vikum, öll dauð nema eitt. Hawai rósir, gardeniur, iðnu lísur og ég veit ekki hvað og hvað. Skildi ekkert í því að vefur þakkti blöðin, aldrei nokkurn tíma séð slíkt áður nema eftir köngulær. Færði þetta í tal um daginn við starfsmann Garðheima sem var fljótur að gefa mér brúsa af einhverju plöntueitri en taldi björgunaraðgerði vonlausar. En brúasann fékk ég í skaðabætur, kostaði tæpar þúsund krónur. Fátt drepur spunamaurinn varð honum að orði. Þvílíkur ófögnuður að fá þetta kvikindi hér inn, svo ekki sé minnst á tjónið sem maurinn veldur. Ég get ekki komið nálægt blómunum nema í tvennum hönskum, takk fyrir. Oj!
Haffinn var boðberi góðra frétta í dag, náði feiki góðum árangri í ónæmisfræði, næst hæstur bekknum og ef fram fer sem horfir eru góðar líkur á því að hann sleppi þessum hluta úr lokaprófinu. Hann er á blússandi siglingu drengurinn og öll han vinna og samviskusemi farin að skila sér. Var með ansi lélegan grunn í raunvísundum úr sinni náttúrufræðibraut og þurfti mikið að leggja á sig í byrjun. Katan skoppar yfir þessar hindranir eins og ekkert sé enda með sterkan grunn úr sinni náttúrufræðibraut.
Tel niður dagana þangað til ég fer út og farin að hamstra ýmislegt góðgæti til að taka með mér út. Það er þegar ég gef mér náðarsamlegast tíma til að fara út í búð! Það hefur ekki gerst oft upp á síðkastið, eyði minna á meðan. Hef þá úr meiru að moða í annað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2007 | 22:20
Stefnu þetta, stefnu hitt.......
Heldur meiri ,,dugnaður" í dag en í gær. Vaknaði kl.11 í morgun og hef ekkert lagt mig síðan, Jibbí! En ÚFF! mér finnst ég að niðurlotum komin, búin að sitja við eins og rjúpan við staurinn að finna lesefni um hinnar ýmsu kenningar framkvæmd stefnu. ,,Gúglað" og hvað eina en uppsker ekki árangur sem erfiðið. Legið yfir þeim skruddum sem ég hef haft og ekki búin að finna neinn bitastæðan útgangspunkt. Hef aldrei lent í þvíumlíku. Stífla af verstu gerð.
Er búin að vera að íhuga næstu skref og alltaf verður tilhugsunin um að fresta þessu námskeiði áleitnari. En á móti kemur einhver þrjóska að gefast ekki svo auðveldlega upp. Hundfúl staða. Helgin flogin og afraksturinn rýr í öllum skilningi þeirra orða.
Það fer hins vegar að verða umhugsunarefni hvert maður stefnir með áframhaldandi námi. Svo virðist sem menntun hafi lítið vægi þegar kemur að stöðuveitingum, a.m.k. hjá hinum opinbera. Þar gilda frumskógalögmálin, þ.e. að vera í réttum flokki og með réttu samböndin o.s.frv. Nú ef kennsla verður mitt aðalstarf áfram sem ég hef ekki tekið ákvörðun um, liggur fyrir að enginn kemur til með að kenna nema að hafa meistaranám að baki. En hvers konar meistaranám það ætti að vera, fylgir ekki sögunni. Skyldi mitt meistaranám duga???Það er í viðskiptastjórnun en ekki kennslufræðum. Hef einungis réttindanám í kennslu- og uppeldisfræðum að baki.
Hvernig skyldi menntamálaráðherra útfæra þessar auknu kröfur um menntun kennara? Skyldi liggja fyrir áætlun um það hvernig og hvenær kennurum verður gefinn kostur á að sækja meistaranám? Slík umbylting á námi og kröfum krefst aðdraganda og undirbúnings. Háskólarnir verða að tryggja viðeigandi námsframboð, skólarnir verða að tryggja aðstöðu og námsleyfi o.s.frv. Hvernig skyldi þá ganga að manna stöðurnar á meðan? Hef ekki séð frumvarpið en ætla rétt að vona að það sé útfært með þeim hætti að það sé framkvæmanlegt. Einhver verður kostnaðurinn, trúi ég.
Ekki svo að skilja að ég sé mótfallin þeim hugmyndum að auka menntunarkröfurnar. Það þarf hins vegar að undirbúa slíkar breytingar, tryggja að kennarar ,,kaupi" þessa sýn og fylgi henni eftir með jákvæðu hugafari. Ætla má að verulegt launaskrið fylgi þessum breytingum og það er jákvætt að því leyti að það er löngu tímabært að kennarar verði launaðir í samræmi við störf sína og ábyrgð. Kennslustörf og hjúkrun er vanmetin störf í þeim skilningi, á því er enginn vafi.
Ég hef heyrt að nýútskrifaðir viðskiptafræðingar með 3 ára nám að baki séu töluvert hærra launaðir hjá bönkunum en t.d. hjúkrunarfræðingur með 4 ára háskólanám. Munar þar miklu er mér sagt. Þó ég njóti þess að vera með meistaranám að baki auk 25 ára starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur, er ég enn lægra launuð en þessir nýútskrifuðu viðskiptafræðingar. Hvað var ég eiginlega að hugsa á sínum tíma? Lét hugsjónina augljóslega ráða för, eitthvað sem er ,,fatalt" í nútíma þjóðfélagi.
Búin að leggja frá mér opinbera stefnumótun í kvöld, sef á þessu í nótt og tek frekari ákvarðanir í framhaldi af því. Í öllu falli gengur þetta ekki svona
Allt í góðum gír í Debrecen, styttist í prófin með tilheyrandi álagi. Katan var að ganga frá miða fyrir múttu sína, þvílíkt verð á þessum tíma! Flýg til Köben og þaðan til Búdapest þann 19. des. Ég hlakka ekkert lítið til. Kem heim í kringum 5. jan ef allt gengur upp og Katan kemur trúlega með mér. Haffi verður hins vegar lengur í prófunum sínum og kemur líklega ekki fyrr en um miðjan jan. Heilmiklar áætlanir og nóg að gera hjá þeim þegar heim er komið. Ungamömmunni leiðist það ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.11.2007 | 00:16
Styttist í annan endan
Þá fer að líða að lokum annarinnar, einungis yfirferð á verkefnum, próf og yfirsetur eftir. Sýnist öll næsta vika fara í próf og yfirsetur. Er með smá hala sem ég á eftir en allt er þetta í réttum farvegi, ennþá.
Mér tókst að mæta á réttum tíma þennan síðasta kennsludag, eins gott! Ansi var ég framlág þegar ég hitti mitt fólk en það tók þessu með bros á vör.
Get ekki beðið eftir jólafríinu, er spennt að fara út og halda jólin þar með krökkunum. Mér skilst að þar sé jólatré að fá og hvaðeina. Vonandi verður léttara yfir þessum jólum en í fyrra þegar veikindin krydduðu þau verulega. Man að ég kúgaðist yfir pottunum, allt í lagi að segja frá því núna.
Katan er mikið jólabarn en Haffi rólegri í tíðinni, finnst allt of mikið stress í kringum hátíðarnar. Trúlega hefur það verið þannig á minningunni hjá honum, ég alltaf í vaktavinnu og á síðustu stundu með allt. Oftar en ekki vann ég jól og áramót og lítið um rólegheit og undirbúning á aðventunni.
En til hvers að stressa sig? Á þetta ekki að vera tími fjölskyldunnar þar sem gleðin ríkir? Við munum alla vega reyna að hafa þetta huggulegt og eiga ánægjulega minningar. Áherslurnar hafa breyst og engin vaktavinna núna. Aldrei meir, reyndar! Einhvern veginn er maður svo upptekin í því að reyna að skapa jákvæðar minningar. Hlakka ekkert lítið til að skreppa á torgið í Debrecen sem mér skilst að sé með eindæmum jólalegt.
Erfiðleikarnir halda áfram að banka upp á hjá minni litlu famelíu, sjaldan virðist jafnvægi ríkja í herbúðum. Aldrei lognmolla í kringum mig, verst að það skuli yfirfærast á krakkana. Líta verður til þess að þessi tími er og verður okkur erfiður, sárar minningar og söknuður ýfast upp. Einmitt þess vegna verðum við að vera saman. Hef reyndar stundum svolitlar áhyggjur af því hvað við þrjú erum háð hvort öðru. Ef einum líður illa, eru hin tvo heltekin af sömu vanlíðan. Eitthvað sem við verðum að fara að vinna með enda öll sjálfstæðir einstaklingar. Hluti af þroskanum er einmitt að skapa ákveðið sjálfstæði og fjarlægð.
Erfileikarnir eru til að sigrast á þeim, við höfum fengið slatta af þeim en erum vonandi sterkari fyrir vikið. Það er fúlt þegar þeir ,,poppa upp" trekk í trekk og oft spyr maður sig hvort þeir ætli engan enda að taka. Hins vegar er ekkert annað að gera en að taka því sem höndum ber og sigrast á blessuðum þúfunum og grjótinu hér og þar. Ekki yrði lífið skárra ef maður breiddi yfir haus og gerði ekkert. Uppgjöf er aldrei lausn. Maður hefur alltaf valkost þó stundum sé erfitt að koma auga á hann. Við megum heldur ekki gleyma því að sjálf höfum við mikil áhrif á eigið líf og líðan þó vissulega geti utanaðkomandi áhrif/öfl kúvent því.
Lauk endanlega ákveðnum kafla í dag er lýtur að Seljalandi, því máli endanlega lokið og hefur tekiið á. Sá kafli verður ekki opnaður fyrr en ég skrifa mína bók sem ég er harðákveðin í að klára.
,,Rise and shine" í fyrramálið og upp með hökuna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.11.2007 | 23:58
Kveðskapur
Rakst á eftirfarandi vísur á heimasíðu FVA og get ekki stillt mig um að birta þær. Eins og talað úr mínum munni. Þvíkur kveðskapur! Alltaf leynast jákvæðir hlutir í volæðinu, svo mikið er víst
Það skal enginn á mér sjá,
ekki heldur finna,
þótt ég gangi grátin frá
grafreit vona minna.
Oft þó væru kröppin kjör,
og kætin liði baga
hafa alltaf einhver höpp
yljað mína daga.
(Höf. Jóhanna Brandsdóttir)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2007 | 23:40
,, Bimmi limm
Þar kom að því að ég yrði ,,bimma limm". Er greinilega komin út á ystu nöf þessa dagana. Skildi ekkert í því af hverju ég var að láta vekjaraklukkuna fara í gang fyrir allar aldir í morgun og það kl. 06.30! Ég þurfti ekki að vakna alveg svo snemma þennan morgunin. Það var nóg að vakna 7.30 í dag. Margreyndi að sussa niður í henni og taldi mig hafa slökkt á henni a.m.k. þrisvar en nei, nei hún hélt áfram. Auðvitað gafst ég upp um síðir og skreið fram, sótti blöðin og hóf lesturinn. Nánast malaði af ánægju yfir því að nú væri ekkert stress, ég gæti lesið blöðin spjaldanna á milli en ekki einungis flett þeim á hundavaði. Ég er nefnilega klukkutíma að komast í gang á morgnana og að verkjastilla mig eftir nóttina. En nú lá ekkert á, mæting kl. 9.45, nóg að leggja af stað um k. 8.30 og ég hélt áfram að mala bókstsflegri merkingu. Réði meira að segja krossgáturnar í blöðunum.
Þvílík stund, notalegheit og alles. Batt tíkurnar út og hugsaði með mér að það margborgaði sig að vera aðeins fyrr að ferðinni á morgnana, þá gæti ég virkilega notið mín í botn áður en ég keyrði af stað. Nema hvað að þessi stund leið eins og hver önnur og kominn tími til að ferðbúast. Sá að ég þurfti að skafa rúður og hálka úti þannig að ég vildi vera snemma á ferðinni enda ekki komin á nagladekkin. Var að bardúsa með hausinn á mér rétt fyrir hálf níu þegar staðreyndum laust niður í huga mér; ég er orðin bimma limm, átti að vera mætt í kennslu nákvæmlega klukkan 8.30! Ég held ég hafi sjaldan ,,panicað" eins mikið eins og á þessari stundu, stökk í síman móð og másandi og stundi upp vandræðum mínum við skrifstofuna. Hvað átti ég að gera? Láta nemendur bíða? Senda þá heim? Næst síðasti kennslutíminn á önninni, úff hvað átti ég að gera???
Svarið var auðvitað einfalt! Lágmark 40 mín að keyra og nú hálka. Ég myndi aldrei ná upp á Skaga fyrr en í lok tímans. Ég varð að játa mig sigraða yfir eigin aumingjaskap og gat ekkert gert. Það lá við að ég færi að háorga á staðnum, þvílíkt klúður, þvílíkur bömmer! Ekki veit ég hvað hún hugsaði á skrifstofunni en ég var augljóslega að tapa mér þarna í símanum.
Hugsanirnar hafa þotið í gegnum kollinn á mér í allan dag. Nú er nóg komið, einhvers staðar verð ég að stoppa! Ef þetta eru ekki skýr skilaboð, þá veit ég ekki hvað! Dagurinn náttúrlega ónýtur þannig lagað séð, ég í engu fantaformi til að takast á við verkefni dagsins. Nærtækast var einfaldlega að skríða upp í sófa og sleikja sárin og það gerði ég. Fór létt með það enda ekki alveg komin á fullan gír aftur
Náði mér eiginlega ekki á strik það sem eftir lifði dags, lufsaðist í gegnum verkefni dagsins, helmingi lengur en vant er. Það hafðist að klára það helsta, ekki það en vá hvað þetta gekk hægt. Ákvað að hætta í fyrra fallinu þó ýmislegt stæði út af borðum, búin að stilla allar klukkur í húsinu fyrir morgundaginn. Verst að geta ekki sett prógramm í Lafði Diönu og látið hana gelta á ,,réttum" tíma í stað þess að boffsa allar nætur og í raun allan sólahringinn. Hin þegir að mestu þannig að ekkert er á hana stólandi.
Svona uppákomur flokkast auðvitað undir mannleg mistök en það er erfitt að leiðrétta þau þegar vinnustaðurinn er eins langt í burtu og raun ber vitni. Ég stekk ekki í úlpu og skó og hleyp yfir götuna. Ferðalagið er drjúgt, þannig lagað séð.
Í öllu falli eru skilaboð dagsins þau að nú verð ég að taka mig á og taka til í eigin ranni. Fækka verkefnum með einhverju móti, fórna sumum, fresta öðrum, framlengja enn öðrum. Annað er ekki hægt í stöðunni. Mig skal svo sem ekki undra þó maginn sé í tómu tjóni með tilheyrandi óþægindum. Ég bý hluta vandans til sjálf þó við sumt sé ekki ráðið. Að öllu óbreyttu er hætt við að ég mæti í vinnu á sunnudagsmorgun o.s.frv. en ég er sem betur fer blessunarlega laus við helgarvinnu núna.
Það verður sneypuleg kona sem mætir í fyrrmálið og skríður með veggjum með svartan hausapoka. Þvílíkur dagur. Ég er ekki lítið fegin að vita til þess að hann kemur aldrei aftur. Boskapur hans situr hins vegar eftir. Er þá tilganginum þá ekki náð?
Bloggar | Breytt 29.11.2007 kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2007 | 23:17
Daglegt líf
Það má með sanni segja að ég sé algjör ,,félagsskítur" eins og einhverjum varð á orði um daginn og hef verið síðustu mánuði. Fer aldrei neitt að vinnu lokinni, sit við tölvuna þegar heim er komið og keppist við klukkuna enda markmiðið að vera búin í minni vinnu fyrir miðnætti. Það vill nefnilega svo til að þegar heim er komið úr ,,hefðbundinni" vinnu tekur aðalvinnan við, þ.e. fjarkennslan. Hefðbundinn virkur dagur hjá mér felur í sér rúmlega 200 km. akstur auk vinnu. Allir dagar eins hvað snertir vinnuálag , helgarnar ekki undanskildar. Ofan á þetta prógram bætist eigið nám sem fær náttúrlega ekki mikið vægi svo ekki sé minnst á hundauppeldi, þrif og heimilishald. Stundum þarf að fara í búð og þá seinkar dagskránni hjá mér.
Þegar færi gefst síðla kvölds, heyri ég í krökkunum, við tölum reyndar mikið saman, þökk sé Frelsi og Skype. Þegar föstum liðum er lokið, sest ég niður við bloggið og pikka inn þær hugrenninga sem leita á mig þá stundina. Fæ ákveðna útrás við það, finnst stundum gott að skrifa mig frá hlutum auk þess sem ég ..á" þetta svæði til að koma skoðunum mínum á framfæri. Yfirleitt er klukkan farin að nálgast miðnættið þegar að blogginu kemur.
Þetta daglega líf er etv. ekki endilega eins og ég hefði kosið. Ég vanræki vini og vandamenn enda númer eitt, tvö og þrjú að klára sína pligt. Ef ég geri það ekki, hvað þá? Ég hef tekið að mér verkefni og þau verð ég að standa við. Of mikið af verkefnum, það veit ég en þegar upp er staðið, veitir mér ekkert af þeim. Það vill nefnilega svo til að ég hef verið skuldum vafin eftir fráfall maka og veikindin mín. Ég hef ekki legið á því að mér hafa ekki verið sýndar neinar tilslakanir, skilningur eða frestur hjá skuldunautum, hvort heldur sem það er viðskiptabankinn, skatturinn eða annað. Í ruan hafa sumir aðilar gert mér lífið eins erfitt og hægt er að hugsa sér. Það kemur mér ekkert á óvart, það hef ég marg sagt. Vaxta- og innheimtukostnaður í sumum tilfellum hærri en skuldin sjálf. Ég hef og verð að standa ein í þessum málum sem eina fyrirvinnan og þannig er það einfaldlega. Mér óar ekkert við vinnunni, hefði viljað vera frískari og með meira úthald en það bæði tekur á og tíma að vinna sig út úr skuldasúpunni. Ég er ein þeirra lánsömu að fá tækifæri til þess og við það er ég sátt. Það er meira en margur í mínum sporum.
Á meðan málin standa svona, snýst mitt líf um vinnu og aftur vinnu. Það er einfaldlega ekki mikill tími aflögu til félagslífs. Sá naumi tími sem er afgangs fer í krakkana, hundana og stundum í sjálfan mig. Það er lúxus að komast í gönguferð. Ég get ekki sagt að ég eyði tíma fyrir framan imbakassan, slík meðferð á tíma er mér einfaldlega of dýrkeypt.
Ég er því ekki á kaffihúsum, á fartinni í heimahús og það sem meira er; ég eyði litlum tíma í símanum sem er nýlunda. Hef nefnilega alltaf verið dugleg að hafa samband við aðra, mun meira en aðrir við mig en nú er tíminn af skornum skammti. Sá naumi tími sem er afgangs, fer gjarnan í að ,,leggja sig", meira en ég kýs sjálf en það er eins og líkaminn segir til sjálfur og stjórni þar för. Stundum orka ég ekki merira og þá er ekkert annað að gera en að leggjast með tærnar upp, hvernig sem mér líkar það svo.
Að undanförnu hef ég fengið að finna fyrir álagstollunum eins og hefur komið fram. Afleiðingarnar eru þær að mér sækist öll vinna hægar, þarf að leggja mig í tíma og ótíma til að hlaða batteríin. Það kemur mér ekkert á óvart. Hef fundið fyrir þreytu og verkjum frá því ég byrjaði að vinna, stundum meira en venjulega. Ekkert sem kemur á óvart en hélt kannski að ég myndi ná að byggja upp þol og þrek smátt og smátt. Hef líka gert það að einhverju marki en ekki nóg enda ekki verið skynsöm. Síðustu vikur hafa verið slæmar og við því mátti búast þegar keyrt er fram úr því afli sem maður hefur. Það er minna mál að láta sig hafa slíka álagstolla þegar maður veit að engin alvara er á ferð þó þeir setji vissulega strik í reiknginn.
Ég sé ekki fram á miklar breytingar á mínu álagi á næstunni. Ég ætla mér að koma málum í eðlilegan farveg. Hef staðið ein í þeirri baráttu og mun gera það áfram á meðan ég stend í fæturnar. Ég hef ekki viljað heyra það nefnt að krakkarnir taki sér hlé frá námi á meðan ég er vinnufær og mun ekki taka undir slíkar tillögur. Á meðan svo er, verð ég einfaldlega að vera áfram leiðinleg, ,,félagsskítur", ,,einræn og sérsinna" eins og einhverjum varð á orði. Það verður að hafa það, ég er að berjast fyrir eigin lífi og lífsskilyrðum þannig að þá verður einfaldlega svo að vera. Ekki það að ég get ekki varist þeirri hugsun að sumir hafa það gott og þekkja ekki erfiðleika né það hvað það er að þurfa að stunda vinnu á mörgum stöðum. Ein fyrirvinna hefur eðlilega meira fyrir hlutunum en tvær og tekjur ríkisstarfsmanna eru ekki til að hrópa húrra fyrir. Ekki duga mér einföld dagvinnulaun í þeirri stöðu sem ég hef verið þetta árið.
Hitt er svo annað mál að ég þarf að forgangsraða tíma mínum betur, ég er ekki eilíf frekar en aðrir en það er óraunhæft að ætla sér miklar breytingar fyrr en málin eru komin í eðlilegan farveg. En ég get varið tímanum mínum betur með því að fórna einhverju af því sem ég er að gera núna. Það er eitthvað sem ég mun skoða. Ekki skortir á sektarkenndina yfir því að sinna ekki sínum nóg. Fæstir vita, eðlilega ekki, hvað ég þarf að kljást við daglega og hversu mikið ég þarf að hafa fyrir hlutunum. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir sem hafa lent í svipaðri stöðu, úthaldsminni, skuldugri og blankari. 'Eg skal, get og vil sigra þá erfiðleika, a.m.k. á meðan ég hef heilsu til.
Skilningur á stöðu sem þessari er hins vegar af skornum skammti víðast hvar. Mér gengur einna helst verst með að sætta mig við það og alltaf jafnundrandi á því. Það að stunda nám með mikilli vinnu kallar á gríðalegan fórnarkostnað. Ég ætla rétt að vona að námið skili tilætluðum árangri einhvern timan þó það geri það ekki þar sem ég hefði helst viljað vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.11.2007 | 00:03
Álagstollar
Enn önnur helgin liðin og hún fór eiginlega ekki í neitt. Legið með tærnar upp í loft megnið af henni og sennilega aldrei náð að sofa jafnmikið. Fengið að kenna hressilega á ,,álagstollum" síðustu dagana með tilheyrandi verkjum og vanlíðan. Ekkert alvarlegt sem betur fer en hvimleitt og hefur tekið á. Maginn í stuttu máli í rugli, trúlega gallvesen í ofanálag og síðan eitt og annað eins og sýking til að krydda þetta svolítið. Enda aldrei nein lognmolla hjá mér og alltaf þörf á því að poppa hlutina upp.
Hafði reyndar hugsað mér að eyða helginni í skemmtilegra afþreyingu en hægt er að stunda með tærnar upp í loft. Átti von á góðri heimsókn sem fór náttúrlega út um þúfur og svo ætlaði ég að fara í heljarinnar ,,vísitatiu" sem var löngu orðin tímabær. Er hætt að plana, enn og aftur! Það einfaldlega þýðir ekki og hefur nákvæmlega ekkert upp á sig annað er ergelsi. Í öllu falli er ástandið að skána og allt upp á við.
Óttalega finnst mér sumt fólk geta verið grunnhyggið. Til eru þeir sem stökkva til eftir því sem sýnist í stað þess að kynna sér málin. Fljótt er það að dæma, það stendur ekki á því og það á hraða ljósins. Mér sýnist ég þurfa að taka til í nánasta umhverfi og vanda betur valið þegar kemur að viðmælendum. Það leynast víða slettrekurnar eins og systir mín orðaði það, jafnvel í nærumhverfinu. Sumir virðast telja sig þurfa að hafa vitið fyrir aðra og setja upp þann ramma sem manni ber að fylgja. Oft er auðveldara að skipuleggja fyrir aðra en eigið líf. Allir kannast við þetta þó færri ræði það opinskátt. Hitt er svo annað mál að skelfing væri tilveran litlaus ef allir væru eins þannig auvitað þarf að vera fjölbreytni í flórunni. Hver flýgur svo eins og hann er fiðraður til.
Finnst með ólíkindum að það sé að koma jól, mér finnst eiginlega svo stutt síðan síðast. Tíminn flýgur áfram á ógnarhraða og mér finnst ég fara illa með hann. Þarf að endurmeta og forgangsraða upp á nýtt. Hef ekki beint athyglinni að því sem ég vil gera, verið of upptekin í vinnu. Þessu ætla ég að breyta. Hvernig veit ég ekki en ég mér leggst eitthvað til. Helst hefði ég viljað flytja út í hlýrra loftslag en á meðan leitin af sjálfri mér stendur yfir, verð ég kyrr um stund en ekki endilega á höfuðborgarsvæðinu.
Er farin að telja niður dagana þangað til ég kemst út til krakkanna og þó það sé kalt þarna úti, er hlýrra þar en hér. Þvílíkt veðurfar sem við upplifum hér, eilíft rok eða stormur, rigning einn daginn og skítakuldi þann næsta. Risjótt veður hefur ævinlega farið svolítið í ,,pirrurnar" á mér enda mikið á ferðinni. Svei mér ef ég er ekki eins og gömlu konurnar forðum!
Hlakka til vikunnar, frábært að finna að ég er að hressast aftur og hef ákveðið að afþakka frekara pestafár og álagstolla í bili. Nóg komið að sinni og skemmtilegir tímar framundan í bland við aðra daprari. Vona að ég nái að fylgja einum góðvini mínum næstu helgi. Náði að horfa á hluta þáttarins um líknandi meðferð á Stöð 1. Allir hefðu gott af því að horfa á hann. Ótrúlega margir gera sér enga grein fyrir því sem einstaklingar með langvinna sjúkdóma eru að ganga í gegnum. Í þessum þætti er varpað ljósi á það að einhverju leyti. Góðir punktar hjá Hauki heitnum sem stóð að stofnun Ljóssins, en honum kynntist ég í minni legu á LSH. Margt væri öðruvísi ef við værum almennt betur upplýst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2007 | 23:55
Pestafár o.fl.
Þetta haust hefur einkennst af þvílíku pestafári að það hálfa væri nóg. Ég held ég sé búin að sleikja þær allar. Búin að vera með einhverja iðrakveisu með tilheyrandi uppköstum og fínt, fínt, ofan í minn ofurviðkæma maga og skeifugörn. Er búin að liggja eins og klessa, heldur að rétta úr kútnum. Eins gott, stífur dagur á morgun þar sem ekkert má klikka, svo einfalt er það. Ég ætti í öllu falli að vera búin með minn pestaskammt þetta árið. Ég ætti að fá premiu fyrir afköstin í þessum efnum.
Náði að skríða út í kvöld og fór í göngutúr með aðra tíkina, útilokað að fara með báðar í einu. Gengur hægt að venja hana við taum, hún er fullsjálfstæð og liggur mikið á. Þarf að vera miklu duglegri að fara út með tíkurnar og þar með sjálfa mig. Veðrið búið að vera með eindæmum rysjótt og leiðinlegt sem hefur virkilega dregið úr mér. Þær dragast á langinn þessar haustlægðir, svo mikið er víst.
Hef annars verið nokkuð þungt hugsi, líður alltaf illa þegar ungunum mínum líður ekki vel. Erfitt að vera vanmáttug og getað lítið hjálpað. Ekki bætir úr skák að ég hef ekki getað sinnt mínum nánustu sem skyldi, bæði út af pestum, álagi og öðrum málum. Vona bara að krakkarnir fái þann styrk sem til þarf til að vinna sig úr málum og þeim fari að líða betur.
Lífið verður svo grámyglulegt þegar þungar hugsanir leita á mann. Áfallahjálp hefði trúlega bætt verulega líðan þeirra, ekki síst Katrínar sem mikið mæddi á sl. vetur, bæði vegna veikinda minna sem og fráfall Guðjóns. Henni bauðst hún ekki fremur en okkur hinum. Hún á langt í land með að vinna sig út úr þeim málum og erfiðar hugsanir leita á hana þarna úti. Stendur sig samt eins og hetja í náminu og er ein af þeim nemendum sem er að ná besta árangrinum. Ég vona innilega að hún nái að fóta sig og sigla í gegnum þessa erfiðleika með góðra manna hjálp.
Sú reynsla sem þessi sem krakkarnir hafa þurft að fara í gegnum, hefur reynst þeim erfið, í raun ofviða. Ég hef grun um að þeim finnist dómharka annarra vera erfiðust. Við hana bætast áhyggjurnar af mér. Mikið fj....... ætla veikindi mín að taka mikinn toll af þeim, mér finnst það óþolandi tilhugsun. Það að hafa valdið krökkunum vanlíðan og erfiðleikum er erfiðasta tilfinningin sem ég hef þurft að upplifa í gegnum þessar þrengingar. Vildi að ég gæti axlað þessa vanlíðan fyrir þau enda mun sjóaðri en þau. Ég verð hins vegar að sætta mig við það að sumt get ég ekki gert fyrir þau, þó fegin vildi.
Við verðum þó að horfa á björtu hliðarnar á öllu þessu veikindastandi. Ég er alla vega hér ennþá og engin ástæða til að örvænta í þeim efnum. Fyrir það ber að þakka. Það eru ekki allir svo heppnir. Við verðum að meta það sem við höfum og staðreyndin er sú að öll reynsla þroskar mann. Ekkert annað að gera en að vinna sig út úr málum og þiggja þá hjálp sem býðst í þeim efnum eða þá að leita eftir henni. Við gefumst ekki svo auðveldlega upp þessi litla famelía þó mikið hafi gengið á enda engin ástæða til. Stundum þarf maður að harka af sér og þá gerum við það einfaldlega. Í öllu falli græðum við ekkert á því að setja tærnar upp í loft og gefast upp. Þá fyrst fer lífið að verða erfitt. Við höldum áfram að brosa framan í tilveruna. Einhvern tíman styttir upp. Vonbrigðum og mótlæti hlýtur að linna.
Bloggar | Breytt 22.11.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.11.2007 | 00:35
Týpísk helgi
Enn önnur helgin að líða og ég alltaf undrandi á því hvað lítið fer fyrir athöfnum og framkvæmdum. Enn og aftur fer helgin í að hlaða batteríin og ekkert verður úr áætlunum. Þó ég vakni í býtið er "nauðsynlegt" að leggja sig aftur. Einkennilegt hvað ég virðist halda dampi þegar ég þarf að mæta til vinnu eða vinna að verkefnum, þá einhvern veginn eru einkennin minni. Kannski ég nái að "hefja mig upp" yfir verkina þegar þess þarf, ég veit ekki. Í öllu falli vakna ég alla morgna verkjuð, mismikið reyndar en mér sýnist ég verst þegar ég sef lengur. Tekur jafnframt lengri tíma að verkjastilla mig hef ég tekið eftir eða kannski er það málið að ég hef meira svigrúm til að "finna" fyrir verkjunum, ég veit ekki???
Nú liggur fyrir skýring á maga/vélinda óþægindunum, þau koma frá skeifugörninni. Kemur mér ekkert á óvart miðað við einkennin en alltaf betra að hafa "greiningu", þá verður allt raunverulegra. Ekki það að ég hafi upplifað "stress, stress" en vissi af álaginu og það hlaut að koma að því að eitthvað gæfi sig. Sem betur fer ekkert alvarlegt en vont. Ég vil reyndar meina að skýringuna á þessu magavesini megi finna í þeirri staðreynd að Vífilfell er hætt að framleiða TAB! Hef alla tíð verið mikill gikkur hvað snertir drykkjarvörur, verið háð TABI frá því ég var unglingur, finnst vatn, safar, te, sítrus drykkir o.m.fl. einfaldlega vondir. Kaffi drekk ég orðið aðeins endrum og eins og fæ auðvitað brjóstsviða af því. Hef því neyðst til að snúa mér að COCE light,sem veldur magaóþægindum hjá mér. Erfitt að gera gikknum til hæfist eins og sést hér.
Hef því ekkert framkvæmt af því sem ég ætlaði þessa helgina, ekki frekar en hinar fyrri. Ce la vie! Er ákveðin í að morgundagurinn verði betri en þessi laugardagur. Það er orðin viðtekin venja að laugardagarnir eru "pain" í orðsins fyllstu merkingu. Mér finnst þeir óþolandi og ekki eru laugardagskvöldin skárri nema síður sé. Þau eru einfaldlega hundleiðinleg. Náði að sofa hluta af þessu af mér og það var eiginlega bara fínt. Er farin að átta mig á því og sætta mig við það að svona eru hlutirnir. Orðið tímarbært í stað þess að ergja sig á þessu, nóg er af öðru að taka.
Hef verið að vinna að verkefni er snýr að sveitarstjórnarmálum og stjórnsýslu að undanförnu og margt rifjast upp frá liðinni tíð. Sé alltaf betur og betur hversu víða pottur er brotinn í þeim efnum, fyrst og fremst vegna skorts á þekkingu sveitarstjórnarmanna og fagmennsku. Menn virðast ekki hafa þann metnað að afla sér þekkingar og haga því hlutunum eins og þeim finnst "rétt" hverju sinni eða hentar þeirra hagsmunum. Stjórnsýslulögin virt að vettugi.
Eftirlitið með störfum þeirra ekkert og engar forsendur til að aðhafast nokkuð nema að íbúar leggi fram stjórnsýslukærur. Fæstir tilbúnir til þess enda mikið í húfi, menn vilja jú halda sínu. Einkennilegt hvað menn eru kaldir að axla ábyrgð án þess að hafa forsendur til þess. Margt er mannanna bölið, get ekki annað sagt. Skyldu slíkir menn átta sig á áburgðinni og þeirri staðreynd að það er hægt að sækja þá til saka fyrir brot á eða slaka stjórnsýslu??? Staðreyndin er sú að allt of margir vanhæfir einstaklinga eru kjörnir sveitarstjórnamenn enda engar hæfniskröfur gerðar til þeirra. Þetta þýðir einfaldlega það að í 4 ár geta vanhæfir, kjörnir fulltrúar vaðið uppi og tekið afdrifamiklar ákvarðanir, í krafti "lýðræðis". Úff! Í öllu falli er áhugavert að "stúdera" þessi mál út frá fræðunum og ekki verra að geta lagt fram rökstudda gagnrýni með skírskotun til þeirra.
Bíð spennt eftir morgundeginum. Ef að líkum lætur ætti mín að vera orðin arfahress þegar líður að hádeginu. Nú er að láta á það reyna. Hætt að leggja upp með plön, læt verkin tala, það tel ég orðið farsælast Er ákveðin í að vera afkastarmeiri á morgun en í dag, sjáum hvað setur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2007 | 00:21
Skrafað á kaffistofunni
Margt er skrafað á kaffistofu minni líkt og annars staðar. Stundum eru það stjórnmál og málefni líðandi stundar til umræður og þá oft kátt á hjalla. En oftar er það lífsgæðakapphlaupið sem er umræðuefnið. Þá á ég við lífsgæðin en ekki lífsbaráttuna. Umræðan snýst nefnilega gjarnan um nýju húsin , nýu jeppana, eldhúsinnréttingarnar, sófasettin, heitu pottana og allar breytingarnar innan dyra svo ekki sé minnst á 3-4 utanlandsferðir á ári. Mottóið virðist vera það að henda því gamla út og það setja það nýja inn. Samkeppnin er gríðaleg.
Ég upplifi mig eins og algjört furðurverk innan um slíkar umræður. Er nákvæmlega ekkert í takt við aðra í þessum efnum. Mín lífsbarátta snýst um að halda velli og tóra, borga niður skuldir og ná endum saman. Þó komin á þennan aldur! Vinn út í það endalausa og rétt hangi í horreiminni með allan halan. Ég er löngu hætt að vekja athygli á því að það eru ekki allir "komnir svo langt" að geta velt fyrir sér nýju parketti á stofugólfið, heitum potti og palli, fellihýsi og Guð má vita hvað. Skýringuna má kannski finna í þeirri staðreynd að ég er og hef verið í meira en 30 ár, opinber starfsmaður og launin eftir því.
Ég hlýt að velta fyrir mér hvað hafi farið úrskeiðis og hverjar áherslurnar eru. Ég er aftarlega á merinni í þessum efnum, í raun alveg út úr Q. En þegar ég hugsa málið þá er ég ekki viss um að ný eldhúsinnrétting, flottari bíll og pels sé það sem ég sækist eftir í lífinu. Ég vil hafa fallegt í kringum mig og vera sátt við mitt umhverfi en töluvert vantar á það ennþá. En ég sækist ekki endilega eftir veraldlegum og dauðum hlutum. Þegar maður er minntur rækilega á að maður sé ekki ódauðlegur og skammtaður tími hér á jörð, þá verður forgangsröðunin önnur. Það skiptir mig minna máli í dag en áður þó eldavélin mín sé ekki fullkomin eða ný.
Ég held að allir hefðu gott af því að hugleiða hvað það er sem í raun skiptir mestu máli í lífinu. Er það lúxusinn og íburðurinn eða einfaldlega að hafa nóg og vera heilbrigður? Allt snýst þetta um forgangsröðun hjá manni. Dauða hluti má bæta en ekki alltaf heilsuna. Ekki tekur maður djásnið með sér í gröfina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)