Færsluflokkur: Bloggar
13.11.2007 | 23:23
Stress?
Nú er álagið heldur betur farið að segja til sín, búin að vera með stanslausan verk og brjóstsviða síðan fyrir helgi. Ég sem japla mitt Nexium alla daga og missi töflu aldrei úr. Þessi verkur er fj... verri, með leiðni aftur í bak og herðablað. Kannast svo sem við þessi einkenni og þykist vita hver orsökin er þó enginn ætti að reyna að vera sinn eiginn læknir.. Ætla rétt að vona að honum linni, sef þó sæmilega fyrir honum en á erfitt með að sitja og hreyfa mig í vökuástandi. Urrr!
Var að lesa frábæra frétt á bloggi Þórdísar Tinnu; háttvirtur heilbrigðisráðherra hefur veitt henni viðtal á morgun. Ég veit að hún kemur til með að segja skoðanir sínar umbúðarlaust um málefni krabbameinssjúkra. Kannski ráðherra skipi nefnd og aðhafist eitthvað í þeim málum, af nógu er að taka og ansi margt að þar. Það verður spennandi að fylgjast með niðurstöðum þess fundar á morgun. Ég óska henni góðs gengis
Ástand mitt er annars gott fyrir utan þessi einkenni frá maga/vélinda/galli? Er farin að lýjast, ég viðurkenni það. Hef heldur minna úthald og finn að það er erfiðara að fara á fæturnar á morgnana. Auk þess bætir myrkrið örugglega ekki úr skák þó ég hafi svo sem aldrei fundið neitt sérstaklega fyrir skammdeginu. Trúlega hefur 200 km akstur á dag sitt að segja eins og Sigurður Bö varaði mig við í haust en ég sé fram á betri tíma í þeim efnum. Á erfiðara en áður með að láta 6 tíma duga í nætursvefn þannig að það gerist æ oftar að ég leggi mig á hinum ýmsum tímum og það er bara allt í lagi. Framtaksemin er aðeins minni, það verður að segjast eins og er og því gott að mestu törninni fer að ljúka í bili.
Allt í þokkalegum gír hjá ungunum í Debrecen. Hafsteinn að ná mjög góðum árangri í sínum prófum og Kötunni gengur vel. Býr vel að námi sínu í MR. Mér heyrist leiðinn heldur minni, það er alla vega léttara yfir henni. Þau eru ótrúlega dugleg bæði tvö og mín að rifna úr stolti. Eitt próf hjá Haffa í fyrrmálið og Kata kláraði eitt í morgun. Mig minnir að nú sé að koma örstutt pása hjá þeim
Ekki laust við tómleikatilfinningu síðustu daga eftir að Gillí lést. Þar var mikil baráttukona og karakter á ferð. Ég verð oft svo urrandi reið út í þessa sjúkdóma sem krabbameinið er. Þó um sé að ræða marga sjúkdóma þá eru þeir allir erfiðir og horfurnar misgóðar. Mér finnst með ólíkindum hvernig tengsl á milli manna geta orðið náin í bloggheimum, jafnvel án þess að hafa hist. Gillí var ein af þeim fáum sem snart mig strax og einhvern veginn tengdumst við um leið. Ég sakna hennar sárt og hugsa mikið til aðstandenda hennar sem eiga virkilega sárt um að binda. Útför hennar er á morgun ef ég hef tekið rétt eftir og erfiður tími áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.11.2007 | 22:21
Toppurinn
Náði að toppa sjálfan mig þessa helgina, svaf út í það endalausa og snéri sólahringnum við. Gat svo auðvitað ekki sofnað fyrr en eftir miðja nótt. Það var því seint farið á fætur þennan sunnudaginn. Las blöðin í morgun en þurfti svo endilega að leggja mig svona smá....... Vaknaði 3.30 og geri aðrir betur! Gjörsamlega eyðilagði daginn, ætlaði að leggjast út í flakk og heimsóknir. Það er eins gott að ég var ekki búin að fastsetja neitt, hefði ekki staðið við eitt eða neitt.
Þrátt fyrir þessa yfirgengilegu leti og svefnþörf þessa helgina hef ég náð að afkasta nokkru, er hætt að eltast við eigin hala, held ágætlega í hann nema í eigin námi. Þar er eitthvað farið að safnast upp.
Er nú ekkert sérstaklega sátt við sjálfan mig, hefði viljað vera activari og hitta fólk. Það hefur lítið farið fyrir slíku hjá mér um helgar það sem af er vetri. Á sjónvarp horfi ég ekki nema rétt undir miðnætti þannig að ég er beinlínis "úti úr kortinu" þegar kemur að fréttaefni og þáttaröðum.
Tíminn þýtur áfram, finnst alveg með ólíkindum að það sé komið fram undir miðjan nóvember. Þann 8. sl. var liðið eitt ár síðan ég fór í aðgerðina. Lifi ágætlegameð mitt eina lunga en þurfti að vera mun duglegri í að hreyfa mig og auka þolið. Er eins og fýsibelgur ef ég þarf að hlaup upp stiga. Enn er miklir verkir í brjóstkassanum, alltaf eins og "krumla" sé læst utan um hann hægra megin. Mér skilst að það sé eðlilegt og þannig geti það verið í langan tíma. Ekkert sem hamlar mér, svo fremi sem ég hef mín verkjalyf. Er enn einkennalaus m.t.t krabbameinsins þannig að lífið gæti ekki verið betra. Ég þarf ekki að kvarta miðað við margan annan og nýt þeirra forréttinda að vera vinnufær. Hef tekist helst til of mikið upp í mig í þeim efnum, finn svo sem fyrir því en lifi það af.
Nú verður slökkt á tölvunni fyrir miðnætti og reynt að snúa sólahringnum við. Hlakka alltaf til að hefja nýja vinnuviku, þá kemst rútína á hlutina og ég á fullu úti við en ekki einungis við eldhúsborðið. Er ákveðin í því að eyða jólunum úti hjá krökkunum og er farin að telja niður dagana. Hefði helst viljað fara með krökkunum til Kanarí, er orðin hálfgerð hitabeltisplanta síðustu árin en ekkert svigrúm er til þess vegna prófana. Því verður það Debrecen sem er hið besta mál.
Nákvæmlega ekkert að gerast í pólitíkinni fyrir utan einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Pétur Blöndal náði ekki í gegn breytingum á starfsmannalögum opinberra starfsmanna á síðasta kjörtímabili. Nú fara sjálfstæðismenn aðrar leið; allt verður einkavætt og þá þarf ekki opinbera starfsmenn í þann geira, a.m.k. Ótrúlegt hvað fjölmiðlar eru þegjandalegir yfir þessari þróun sem og nýjasta útspili Kbbanka. Menn ætla íbúðalánasjóð greinilega út, ég hef ekki trú á því að Samfylkingin setji sig almennt á móti því þó Jóhanna reyni að streitast á móti. Í öllu falli finnst mér líklegt að landinn hugsi sér til hreyfings, í "persónulega útrás" og flytji búferlum í auknum mæli. Hvernig má annað vera?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2007 | 21:57
Illt í hjartanu
Úff, mér er þungt í brjósti, Gillí á erfitt núna og ótrúlega erfitt að geta ekkert lagt af mörkum nema senda henni og fjölskyldu hennar hlýja strauma, kertaljós og bænir. Það mun ég einnig gera. Ég segi eins og litlu börnin; mér er illt í hjartanu mínu. Orð eru eitthvað svo léttvæg núna.
Bloggar | Breytt 4.11.2007 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.10.2007 | 23:48
Tími kertanna
Sendi Gillí og Þórdísi Tinnu hlýjar kveðjur og strauma, hugur minn hjá þeim í kvöld. Ótrúlegar konur, báðar tvær. Kertaljós allt um kring á mínum bæ.
Baráttu- og saknaðarkveðjur til beggja
Bloggar | Breytt 1.11.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2007 | 23:40
Í góðum gír
Allt gengur sinn vanagang. Ótrúlegur léttir að getað haldið í rófuna sína og ekkert að safnast upp, ennþá, náð að vera býsna afkastamikil þrátt fyrir pestarskömm
Aðeins rúmar 4 vikur eftir af önninni, o.m.g ! segi ég eins og unglingarnir. Tíminn æðir áfram, það verða komin jól áður en maður snýr sér við og nýtt ár áður en maður veit af.
Styttist í "ársafmæli" greiningar minnar. Ég get heldur betur verið sátt við mitt hlutskipti. Ástandið alveg þolanlegt og ég einkennalaus m.t.t. krabbameinsins. Ef ég er meira verkjuð eða þreyttari en venjulega, er það mín eigin sök, tók of mikið að mér. Ekki það að verkir eru ekki það versta, það er vel hægt að lifa með þeim og sætta sig við þá. Þeir eru smámál miðað við það sem aðrir mega þola. Ef það gengur ekki nógu vel hjá mér þá er það sjálfri mér að kenna. Hef einfaldlega ekki verið nógu dugleg í þeirri lífstílbreytingu sem er mér nauðsynleg. Eru áramótin ekki fínn tími til framkvæmda og breytinga?
Næsta tékk í janúar og á ekki von á því að neitt neikvætt komi út úr því, miðað við líðan og heilsufar. Er farin að leyfa mér að trúa því að það sé komið hlé á þessu sjúkdómsferli í bili. Er óttarlegur bómullarhnoðri og verð að gæta þess að vindurinn blási ekki á mig, fæ þá strax kvef og bronchitis.
Hlakka mikið til þess að komast í jólafrí, er að vonast til að ég eyði jólunum með krökkunum, þykist náttúrlega svo óskaplega ómissandi hjá þeim. Er í algjörri afneitun gagnvart þeirri staðreynd að þeir eru orðnir fleygir fuglar og standa á eigin fótum. Þau láta sig hafa þessa ranghugmynd mína, ennþá. Þau byrja í sínum prófum í kringum 24. desember og ljúka þeim einhvern tíman í lok janúar, byrjun febrúar. Koma þá heim í einhvern tíma þangað til næsta törn byrjar. Annars mikil afföll á 1. árs nemendum í læknisfræðinni, nemendur eru að hrynja niður eins og flugur, gefast upp og fara heim. Mikið um hlutapróf þessar vikurnar og gríðaleg samkeppni, að því er virðist. Verst er að klíkumyndanirnar eru ansi sterkar þarna meðal Íslendinganna og ekki komast allir inn sem vilja. Húka utan hóps, í kulda og trekki. Hver myndi ekki gefast upp?
Er með hugan hjá krökkunum, ekki síst Katarínu. Held þó að henni sé farið að líða eitthvað betur. Þessi vanlíðan og leið kemur trúlega í bylgjum, stutt í jólin og prófin. Haffi hefur meira forskot í þessum efnum, er á sínu 3. ári og orðinn hagvanur og sjóaður í þessu umhverfi auk þess að vera eldri og þroskaðri. Auðvitað er erfitt að vera fjarri vinum og fjölskyldu.
Búin að setja mér ótal markmið á morgun, eins gott að fara að halla sér. Þarf að ráðast á kerfið og skattinn, þetta dugir ekki lengur. Vikan að verða hálfnuð. Ræs í býtið! Vonandi engin hálka og greiðfært, ekki enn búin að ná mér í dekk
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2007 | 23:57
Náði í skottið á mér!
Loksins hafðist að ná í rófuna á mér í uppsafnaðri verkefnavinnu, komin á slétt og "skulda" ekki lengur í þeim efnum. Ótrúleg sælutilfinning, sektarkenndin bókstaflega molnaði niður. Hef nú vaðið fyrir neðan mig og er með "back up" á öllu. Aldrei aftur tölvuslys með fyrrgreindum afleiðingum.
Fja... kaldara núna, náði að komast upp á Skaga á mínum slitnu dekkjum, ekki nokkurt viðlit að fá umfelgun þessa dagana í höfuðborginni, ekki nema að bíða í langri biðröð tímunum saman. Hvorki nenni því né hef tíma, keyri varlega þangað til um hægist. Alltaf sama panicin í höfuðborginni þegar jörðin hvítnar og kólnar.
Er reyndar hörð á því að fá mér negld dekk. Engum hefur tekist að sannfæra mig um að "góð snjódekk" geri sama gagn. Búin að prófa slík dekk sem ég keypti dýrum dómum, var eins og belja á svelli og þau óbrúkhæf eftir veturinn. Minnir að ég hafi greitt um 70.000 kr. fyrir þau "frábæru" dekk fyrir 2 árum og fann verulega fyrir því. Á meðan ég er í þessari langkeyrslu, verð ég á nelgdum, takk fyrir
Ótrúlega gaman að sjá hvað tíkurnar skemmta sér vel í snjónum, eiginlega of vel því það er svo kalt. Brrrrrrr. Á það sérstaklega við þá yngri sem er að upplifa þessi ósköp í fyrsta skiptið. Mín þarf að vera duglegri að ganga með þær, hef ekki gefið mér mikinn tíma að undanförnu.
Lífið gengur sinn vanagang hér, harla lítið spennó. Vinna og tölvuvinnsla fram yfir kl.23.00 að vanda og ekkert svo sem að því. En er ákveðin í því að minnka aðeins vinnunna, fæ hvort eð er ekkert útborgað þar sem ég lenti í áætlun hjá skattinum. Mig langar að eiga aðeins tíma fyrir sjálfan mig, var að uppgötva það um daginn að ég hef ekki farið í klippingu síðan í byrjun ágúst! Hvað þá annað. Það kom sér vel að ég var ansi stuttklippt þá. Hausinn á mér eins og heysáta núna, hreint skelfileg. Lakkaði á mér neglurnar á leiðinni upp á Skaga í morgun. Líkt og oft áður, tel mig ekki hafa tíma til þess að setjast niður "aðgerðalaus" og dúlla við neglurnar! Halló! Klukkurnar klingja á fullu!
Hef ekki farið í eina heimsókn hér á höfuðborgarsvæðinu síðan í ágúst, veit ekki hvernig kvikmyndahús lítur út, hvað þá skemmtistaðir. Var boðið að slást í för með systur minni á Kringlukránna á laugardagskvöld og ég of þreytt til að fara. Haldið að það sé nú! Þvílík vitleysa, það hálfa væri nóg. Ekki það að ég hef svo sem ekki tíma til að láta mér leiðast en finnst þetta engu að síður orðið ansi einhæft og litlaust allt saman. Mál til komið að poppa þessa tilveru eitthvað upp.
Bleik er brugðið þegar ég er hætt að minnast á pólitík. Reyndar finnst mér ekkert spennandi að gerast á þeim vettvangi. Spillingin óbreytt í minni, fyrrum heimabyggð og borin von að það ástand breytist. 'Menn þegja þunnu hljóði á þeim bæ. Hef ekki sett mig inn í málefni borgarinnar, fylgst auðvitað með hneykslinu í OR og eilífum utanlandsferðum ráðherranna. Ingibjörg Sólrún er trúlega búin að flytja lögheimili sitt út úr landi, Össur á fullu í útrásinni fyrir OR, man ekki betur en að þau hafi viljað sparnað í þeim efnum á síðustu kjörtímabilum. Gott ef þau kölluðu slíkar ferðir ekki sukk og svínarí. Kannski eitthvert líf glæðist á næstu vikum á þingi, hver veit. Í öllu falli er tíðindalaust á þeim vígstöðvum, líkt og mínum.
Bloggar | Breytt 30.10.2007 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2007 | 01:54
Lánsöm
Svaf nátúrlega af mér bróðupartinn af kvöldinu, veit að ég er að ganga allt of nærri mér í vinnu. En mér finnst svo æðislegt að vera viðurkennd fyrir störf mín eftir allt sem undan er gengið, að ég læt mig hafa það. Þarf reyndar á vinnunni að halda til að reyna að kroppa í halann sem lengdist í veikindunum og við fráfall Guðjóns. Það er mér ómetanlegt að fá tækifæri til þess og mér finnst ég yfirmáta lánsöm að geta unnið sem er meira en margur getur sagt.
Veit hins vegar að ég hef gengið of langt og þarf að endurskipuleggja hlutina. Hef vaknað síðustu nætur um kl.03 svo svakalega verkjuð að það hálfa væri nóg. Það eitt að liggja flatur er hrein skelfing. Er náttúrlega með mikla slitgigt eftir að hafa starfað við ummönnunarstörf frá 15 ára aldri og gleymi þeirri staðreynd allt of oft eftir að ég greindist. Einhvern veginn reiknar maður með því að allir verkir séu af illu komnir og stimplar þá alla á krabbameinið. Staðreyndin er hins vegar sú að mínir verkir eru trúlega til komnir af slitgigtinni og eftir brottnámið af lunganu. Þeir verkir hverfa seint, er mér sagt. Tók eftir því, þegar við gistum á hóteli í Búdapest og ég með 1 kodda, að verkirnir jukust svo að ég hreinlega kastaði upp eftir nóttina. Þarf að hafa a.m.k. 3-4 kodda og sofa hálf sitjandi. Þannig er það einfaldlega og ég verð að lifa með því.
Það er ótal margt sem spilar inn í mína líðan síðustu vikur. Söknuður og sorg, brottför krakkanna, flutningar, tómleikatilfinning, of mikið álag og áhyggjur af ýmsum toga. Svo ekki sé minnst á þá staðreynd að ég er "týnd" eða bókstafleg "lost" í þessari breyttu tilveru. Að geta ekki búið á þeim stað sem ég vil búa er bara heilmikið mál. Allir þurfa að geta stundað sín störf og tryggja sína afkomu, ég er engin undantekning þar á.
Hvað ég vildi að ég kæmist út úr þessum rúmsjó og fyndi "minn farveg". Veit að það kemur að því en skelfing er biðin erfið og biturleikinn hefur verið að gera sterklega vart við sig upp á síðkastið. Hvernig má það vera að menn komist upp með það að leggja líf manns í rúst og blómstra á sama tíma! Urrrrrrrrr.....................! Einhvern tíman kemur að því að menn uppskeri eins og þeir sá.
Ég get hins vegar sofið út á morgun og það verður gert Hvað ég hlakka til, ég á engin orð til að lýsa þeirri tilhlökkun. Næ pottþétt að vinna upp minn "hala",um helgina, þá loks fer mér að líða betur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2007 | 23:20
Helgin að nálgast
Þá sé ég fyrir endan á vinnuvikunni, var að ljúka við að sinna eigin verkefnavinnu. Búin á því. Þarf að fara að japla á einhverju blómafrævlum til að fá meiri orku. Náði ekki að klára þann hluta sem stendur upp á mig í hópverkefni, verð að bíta á jaxlinn á morgun, ekkert sem heitir.
Heyrði í bróður í kvöld, þvílíkur léttir að heyra í honum. Hann auðvitað kominn á fullt og fram úr rúmi, frábært enda ekki smá skurður sem hann fór í. Orðinn það hress að ég ætla að "bögga hann" smá á morgun með innliti. Verð þó að passa mig á að þreyta hann ekki of mikið. Ekki það að hann er ekki þekktur fyrir að hlífa sér, blessaður. Hlakka mikið til að hitta hann.
Stutt færsla í kvöld, er ekki að sofa nema 5-6 klst. á nóttunni. Það er ekki nóg, er hálfdottandi allan daginn og búið að líða eins og ég hafi verið á skrallinu langt fram á nótt. Hlakka ekki lítið til laugardagsins, þá get ég sofið útttttttttttttttttttttt Vonandi fer veðrið að skána og þar með sálartetrið. Vantar drifkraftinn, kannski skilið hann eftir í háloftunum? Langar mikið til að athuga með ferð til Debrecen yfir jólin, ólíklegt að krakkarnir komist heim. Alla vega eitthvað til að hlakka til
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2007 | 23:45
Haustlægðir
Þvílík veðrátta, viku eftir viku. Stanslaust rok og rigning, stormur þess á milli. Ég þakka þó fyrir rigninguna, býð ekki í það ef um snjókomu væri að ræða. Orðin býsna þreytt á þessu tíðafari, finn verulega fyrir rokinu á minni daglegu keyrslu. Ekki frá því að sumir ökumenn séu hálf dottandi við stýrið þessa dagana eða uppteknir í GSm símanum sínum. Í öllu falli er umferðin afspyrnu þung og hæg, hvort heldur sé innan bæjar eða úti á þjóðvegi 1. Eiginlega hundleiðinleg. Þarf hreinlega að passa mig að dotta ekki sjálf. Kosturinn við rokið er þó sá að ekki þarf að hafa áhyggjur af hárgreiðslunni, hún fýkur sjálfstætt út í vindinn.
Búið að laga gasið hjá krökkunum og farið að hlýna innan dyra. Nóttin var víst ansi strembin hjá þeim. Próf hjá Kötu í kvöld, var ekki nógu sátt að því loknu. Hefur gengið glymrandi vel fram að þessu. Haffi að fara í mikilvægt próf annað kvöld, skiptir miklu máli fyrir hann að ná góðum árangri m.t.t. lokaprófsins. Úff, hvað ég sakna þeirra og vildi að ég væri pínu nær; til að skipta mér af
Komin í mitt gamla, góða far, föst í tölvunni til kl.23. í kvöld. Allt eins og vant er og á að vera. Tel niður klukkutímana þar til ég kemst í helgarfrí, þarf virkilega að fara að vinna upp verkefnin í eigin námi.
Hef ekki haft tíma til að fylgjast með pólitíkinni sem skyldi, er að vinna að verkefni sem fjallar um pólitískar ráðningar innan mennta- og heilbrigðisráðuenytanna. Athyglisverð vinna þar og niðurstöður koma mér nákvæmlega ekkert á óvart. Ástandið verst innan sveitarstjórnarstigsins, sýnist mér. Það kemur heldur ekki á óvart.
Önnin farin að styttast í annan endan en nóg af verkefnum framundan. Ástandið verður orðið rólegra um miðjan desember sem er eins gott, mér miðar hægt með bókina. Hefði helst viljað vera úti í Debrecen þegar fer að vora og sitja við skriftir. Það er allt í lagi að láta sig dreyma......
Hugur minn hjá stóra bro, vona að allt gangi vel, það fer að verða óhætt að líta til hans þegar hann hressist. Hugsa mikið til Gíslínu og bið alla sem líta hér við að senda henni góða strauma. Er virkilega farin að sakna hennar á bloggheimum. Ef ég þekki hana rétt, rífur hún þessa uppákomu úr sér á mettíma.
Fékk óvænta og frábæra gjöf frá samstarfsfólki mínu í dag. Þetta líka æðislega hálmen frá Dýrfinnu Torfa. Er ekki lítið ánægð og hrærð. Ég vissi hreinlega ekki hvernig ég átti að vera, sungið fyrir mig og ég veit ekki hvað. Það fyrst sem ég hugsaði þegar ég var kölluð til; Guð minn góður og ég er ekki búin að koma með meðlæti með kaffinu eins og tíðkast þegar starfsmenn skólans eiga afmæli! Ætlaði að gera það um daginn en komst þann dag ekki í vinnu. Svakalega skammaðist ég mín, þetta minnti mig enn og aftur að maður á ekki að fresta til morguns það sem hægt er að gera í dag. Mun svo sannarlega bæta mig í þessum efnum sem öðrum.
Nú er það koddinn, upp kl. 06 í fyrramálið og akstur í rokinu. Gott að hafa nóg að gera og minni tíma til að hugsa. Held áfram að leita af sjálfri mér, sú leit gengur hægt en er ekki sagt að góðir hlutir gerist hægt?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2007 | 00:20
Í kulda og trekki
Ég er eins og vængbrotinn fugl í gær og dag, að farast af áhyggjum af ungunum mínum. Ekkert gas í íbúðinni hjá þeim sem þýðir skítakuldi. Ekkert hægt að gera í málum fyrr en í fyrsta lagi á morgun þar sem einhver allsherjafrídagur er hjá Ungverjunum. Ekki það að krakkarnir kvarta ekki en ég veit að þau hírast í kulda og trekki þessa tvo daga, hitastigið er lágt þessa dagana, það upplifði ég sjálf. Ég vona bara að þau ofkælist ekki, úff hvað er erfitt að geta ekkert gert. Einhver bilun í kerfinu er þeim sagt. Ég ætla rétt að vona að ástandið verði betra á morgun.
Er svona að ná mér niður eftir ferðalagið. Auðvitað kemur rót á mann og allar tilfinningar út og suður. Hefði viljað vera miklu lengur en fegin að hafa fengið þetta tækifæri samt. Það er mest um vert.
Er óðum að ná í skottið á sjálfri mér, hafði greinilega gott af þessari pásu enda skotgengið með vinnu í dag. Þetta er allt að koma og ég sé fram á eðlilegt ástand og álag eftir nokkra daga, hef greinilega náð að hlaða batteríin í Debrecen. Þó ferðalagið sem slíkt hafi tekið á, var það fyllilega þess virði í orðsins fyllstu merkingu
Tíkurnar komnar til síns heima og svei mér ef þær hafa ekki haft gott af dvölinni á hundahótelinu en hvorugar víkja frá mér. Díana eins og prinsessa, orðin líkari því sem hún var, blíð og róleg. Við höfum allar haft gott af þessar pásu frá hvor annarri. Svei mér ef þær hafi ekki báðar lagt af sem ekki var vanþörf á, sérstaklega hjá þeirri yngri.
Hugsa sterkt til bloggvinkinu minnar hennar Gíslínu, bið alla sem ramba hingað á síðuna mína að hugsa vel til hennar. Þvílíkur baráttujaxl, það vantar ekki en mér finnst nóg lagt á hana og bið "þann uppi" að gera hlé á þessum uppákomum. Hún urrar sig í gegnum þessa erfiðu reynslu með blóðtappan í lunganu, trúi ég enda veit ég að hún afsannar ýmsar kenningar. Það hefur hún reyndar þegar gert. Ég get ekki annað en dáðst af henni. Þvílík hetja, sú kona. Sendi henni sem og bróður og "litlu" systur baráttu- og batakveðjur. Veit að þar fer all vel.
Næstu skref eru að ná utan um vinnuna og öll verkefnin og halda áfram leitinni af sjálfri mér. Hún hlýtur að bera árangur, fyrr eða síðar. Mér liggur svo sem ekkert á eða hvað?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)