Færsluflokkur: Bloggar
16.10.2007 | 00:06
Rétt úr kútnum
Er að koma til eftir nokkra dýfu sem kom óvænt og mér gjörsamlega í opna skjöldu. Ég sem hélt að ég væri heldur betur að vinna mig út úr sorginni og því ferli öllu. Svo allt í einu; bang! Ég gat ekkert gert.
Trúlega hefur álag síðustu vikna verið ástæðan, ég komin út á ystu nöf, líkamlega. Þrekið gjörsamlega búið og þá finn ég til vanmáttar míns. Það versta sem fyrir mig kemur er þegar ég næ ekki að klára mitt á réttum tíma! Ekki það að óheillastjarnan stríddi mér óþarflega með tölvuhruninu, ekkert smá mál að búa til allt kennsluefni á ný, yfirfara aftur þau verkefni sem ég var búin með og það á gamla jálkinum sem líkja má við 33 snúninga grammófónsplötu. Allt tekur óratíma en tími er það sem ég hef ekki haft nóg af. Svo einfalt er það.
Ég hef einmitt verið spurð að því að undanförnu hvort ég þurfi að vinna svona mikið og því er til að svara að ég þarf þess. Það er ekkert lítið mál að vinna sig út úr margra mánaða tekjutapi, ekki síst þegar fyrirvinnan er oðrin ein. Það er dýrt að skulda, vextir og innheimtukostnaður er stjarnfræðilega háir og það tekur langan tíma að vinna sig út úr slíkum aðstæðum. Enginn afsláttur er gefinn og ekkert gefið eftir. Þannig er það einfaldlega og ég get lítið gert annað en að mæta þeim erfiðleikum. Ég er hins vegar heppnari en margur annar í minni stöðu, ég er orðin vinnufær!
Ég er orðin þreytt á því að skríða með veggjum vegna skulda og vanskila, ég legg því allt í sölurnar til að komast út úr því ástandi. Einungis þeir sem slíkt þekkja, skilja hvernig þessi líðan er, hún er að mörgu leyti mun verri en veikindin sjálf. Slíkt ástand brýtur niður allt sjálfstraust og sjálfsvirðingu Bjargráðin eru fá; afla meiri tekna og skera niður eyðslu, svo einfalt er það. Kerfið kemur ekki til aðstoðar í slíkum málum, einstaklingurinn ber þennan bagga einn. Annað hvort tekst honum að vinna sig út úr málum eða missir allt sitt.
Til að bæta gráu ofan á svart má helst ekki ræða þessi mál, maður verður að bera harm sinn og áhyggjur í hljóði. Bíta á jaxlinn, skammast sín fyrir stöðuna enda miklir fordómar gagnvart "skuldurum" , óháð ástæðu fyrir því óskemmtilega hlutverki. En á sama tíma á hinn sami vera duglegur. Ætli margir sem hafa veikst og verið kippt út úr atvinnulífinu, skilji ekki þessa líðan? Ég hef trú á því.
Í öllu falli er mín að rétta úr kútnum, mér sýnast helgarnar verstar þegar kemur að andlegri líðan þó þær séu svo sannarlega kærkomnar eftir vikuna. Þá er bara að taka á því. Álagið fer að minnka eftir miðja þessa viku og ástandið að komast í viðunandi horf. Þetta er allt að koma
Bið alla sem heimsækja þessa síðu að líta við á síðum Gíslínu og Þórdísar Tinnu en linkar inn á þær eru hér á forsíðunni. Báðum veitir ekki af hlýjum hugsunum og baráttukveðjum. Einstakar perlur, báðar tvær
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.10.2007 | 02:44
Hugleiðingar
Hef óttalega lítið að segja þessa dagana, er ekkert allt of sátt og gengur ekkert allt of vel að fóta mig í tilvistarkrísunni. Er það ekki svo með okkur mannfólkið að við viljum alltaf gera betur?
Næ mér alla vega ekki almennilega á strik við breyttar aðstæður og kaflaskil í lífinu. Vil vera á einum stað en nauðbyggð að vera á öðrum. Hef haft allt of mikið að gera og þannig hef ég viljað hafa hlutina en ekki áttað mig á því að ég hef ofgert mér líkamlega og er ekki sú sama og var, fyrir veikindin Auðvitað heitir þetta flótti á mannamáli, ég geri hvað ég get til að forðast ákveðnar aðstæður og svigrúm til hugsana.
Sl. átta mánuðir hafa verið erfiðir, ég get ekki annað en viðurkennt það. Ég get ekki endalaust flúið sáran sannleikan og játa það að ég finn til. Fjandi mikið, meira að segja. Finn kannski meira fyrir því þegar líkamlegt þrek er ekki það sama og áður og ég finn til vanmáttar míns. Þetta skilur enginn nema sá sem hefur lent í því sama. Að tapa sjálfsvirðingu, reisn og sjálfstæði er skelfilegt og það að vera háður öðrum er ekki góð tilfinning. Verst er hve fáir skilja slíkar tilfinningar. Maður á að vera svo duglegur, þó maður skríði með veggjum!
Það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við að að pompa niður eftir það sem undan er gengið en ansi finnst mér erfitt að ganga í gegnum þetta blessaða sorgarferli. Sorgin dúkar upp þegar síst skyldi og nagar mann að innan án þess að maður geti spornað gegn þeim tilfinningum. Jafnvel þegar ég held að ég sé á góðri leið með að vinna mig út úr hlutum, þyrmir skyndilega yfir mig eins og hendi sé veifað. Þá er fátt um varnarhætti.
Veit að þetta gengur yfir og ég held áfram að fóta mig í þessu nýja lífi sem mér stendur til boða. Tek því reyndar fagnandi en með ákveðinni tortryggni. Treysti því ekki almennilega að ég sé sloppin í bili en verð að fara ýta þeirri tortryggni til hliðar og njóta á meðan er. Er of upptekin í því að velta mér upp úr því hvernig ég vildi að lífið væri í stað þess að sætta mig við það eins og það er. Ég breyti náttúrlega ekki öðrum né heiminum og get ekki ætlast til þess að allir hugsi eins og ég. En ég hef hins vegar ákveðið val í ýmsum málum og þar sem ég er týpísk VOG, eyði ég of löngum tíma í það að velta öllum hliðum mála fyrir mér. Ég ætla seint að fullorðnast í þeim efnum og því fylgja bæði kostir og gallar.
Leitin af sjálfri mér stendur sem sé enn yfir. Ekkert annað að gera en að gefa mér tíma í þeim efnum, ég get ekki breytt atburðarrás síðasta árs. Er alltaf jafn undrandi yfir mannvonskunni, ég ætti þó að vera orðin skóluð í þeim efnum. Hlýt einhvern tíman að finna minn farveg.
Hlakka mikið til næstu helgar, Búdapest framundan og heil helgi með Haffa og Kötu. Það verður meiri háttar. Hef örugglega gott af því að skipta um umhverfi. Hver veit nema að ég fari í "Spa" og fylgi þar með góðum ráðum bloggvinkonur minnar hennar Gíslínu.
Svaf auðvitað út í það endalausa í morgunn, annars væri ég ekki á netinu núna. Tókst að sofa fram að hádegi og veit að ég endurtek leikinn í fyrrmálið. Ég bókstaflega elska laugardag og sunnudag vegna þessa, þrátt fyrir að sólahringurinn dugi ekki til að fara yfir ýmisleg verkefni. Helgarnar fara í það að vinna upp það sem útaf stendur eftir vikunna en það að getað kúrt framefrir gjörbreytir stöðunni og sjálfstraustið eflist. Ég er hins vegar, enn og aftur, búin að koma mér í of mörg verkefni sem gæti haft þau áhrif að ég sinni þeim ekki nákvæmlega, eins og ég vildi.
Verkefnavinna býður mín á morgun en ég ætla pottþétt að sofa út aftur, það er einn af valkostum mínum og ég fer ansi seint að sofa þetta laugardagskvöld, enn og aftur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.10.2007 | 22:50
Allt á afturfótunum!
Var flott á því í morgun! Píndi mig fram úr fyrir allar aldir, tók mig reyndar 30 mín að koma mér fram úr. Marg reyndi að plata vekjaraklukkuna og þar með sjálfan mig en það var skammgóður vermir. Á fætur varð ég að fara fyrir rest. Var eins og brussa frá því ég steig fram úr, velti glasi um, rak mjöðmina utan í eldhússtólinn og þegar ég fór niður stigan að sækja blöðin, rann ég beint á rassinn! Nákvæmlega eins og krakki í rennubraut nema að tröppurnar voru harðari en ein slík.
Lét mig hafa það að bölva í hljóði, ég skyldi ná í blöðin. Þarf heilan klukkutíma til að komast í gang og því dagblöðin algjört "must". Var heldur betur búin að koma mér vel fyrir við eldhúsborðið, með allt til alls og byrjaði á Mogganum. En viti menn, hellti fullu kókglasi yfir blaðið og þar fór það. Já, ég fæ mér nefnilega Diet coce á morgnana, hrikalegt eftir að hætt var að framleiða Tabið.
Í öllu falli var Mogganum ekki viðbjargandi þannig að ég var fljót að renna yfir Fréttablaðið og 24 eða hvað það nú heitir þessa dagana. Ég var því tilbúin býsna snemma sem var bara fínt, tíkurnar fengu extra langan tíma úti í staðinn. Var nokkuð ánægð með sjálfa mig þegar ég stóð úti á tröppum og andaði að mér fersku loftinu, skellti í lás og meira segja togaði vel í húninn þar sem hurðinn læsist ekki alltaf. Um leið og ég gerði það vissi ég að ég var búin að læsa mig úti! Hús- og bíllyklar inni í forstofunni, engir aukalyklar tiltækir. Týpískt ég!
Það vildi svo heppilega til að ég vissi um neyðarþjónustu lásasmiða og var fljót að hringja í hana og prísaði mig sæla yfir því að hafa munað eftir gemsanum. Það var ekki málið að redda minni, viðkomandi á vakt væntanlegur eftir 15 mín. Þetta var allt í lagi, smá bið og ég hamaðist við að anda að mér þessu líka yndislega lofti sem var reyndar blandað bensíni og olíu í morguntraffíkinni. Biðin reyndist lengri en uppgefnar 15 mín, enda um mig að ræða. Fékk lásasmiðinn eftir rúman klukkutíma, ég hafði lent í vaktaskiptum í fyrirtækinu! Hann var innan við 2 mín að brjótast inn til mín. og 2 mín að renna kortinu mínu í gegn fyrir 5.000 kr. Til að gera langa sögu stutta má segja að þessi byrjun á deginum hafi einungis verið forsmekkur restinni. Sit nú marin og blá með eymsli hér og þar í skrokknum, föl og fá, nýbúin að þurrka upp heila þvottvél af vatni, sigtið gaf sig. Er hætt öllum framkvæmdum í kvöld
Náði mér reyndar aðeins á strik við fréttir dagsins, þá gat ég hlaupið og verið komin fyrir framan imbakassan til að fylgjast með beinni útsendingu um hinn nýja meirihluta. Er með blendnar tilfinningar gagnvart þessum breytingum, fannst Villi vera búinn að missa allan trúverðugleika og svakalegt að vita til þess hvað væri búið að vera að gerast innan OR síðustu mánuði og trúlega síðustu ár. Ég hef ekki á móti útrás, þvert á móti en spilling er mér á móti skapi. Björn Ingi gerði trúlega það eina sem hægt var að gera í stöðunni ,hvað hann sjálfan og Framsóknarflokkinn varðar og sýndi þarna kjark. Það þarf býsna mikið af honum til að slíta meirihlutasamstarfi. Mér hugnast ekki nýji borgarstjórinn, finnst hann allt of hrokafullur og ég get ekki skilið hvernig Margrét Sverris getur haft samvisku til að sitja í borgarstjórn fyrir flokk sem hún er búin að yfirgefa. En það virðist allt vera leyfilegt í pólitíkinni. Meira um það síðar.
Þessi vika eiginlega búin að vera með versta móti í langan tíma, rétt klára vinnuna og varla það. Verkirnir meiri en áður og úthaldið slakt. Læt þetta pirra mig, hef nóg að gera og það sem meira er, ég hef gaman af því sem ég er að gera þó ég vildi getað minnkað vinnuna aðeins. Er þó ekki eins slæm af verkjum og ég var þegar ég byrjaði að vinna í sumar, þá bókstaflega grét ég fyrstu vikurnar af verkjum eftir hvern vinnudag.
Bíð spennt eftir helginni, þarf að vinna mikið upp en get sofið út og það er mitt uppáhald. Þarf reyndar að taka á ýmsum málum sem eru svo sem ekkert spennandi en er lífið ekki einmitt þannig að við verðum að gera ýmislegt sem miður þykir? Líðanin er ekkert of góð og margt sem stuðlar að því. Einhvern tíman hlýtur að rofa til, hef sjaldan verið jafn nærri uppjgöf og núna. Mannskepnan er grimm
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2007 | 23:53
Væll
Enn meiri lumbra og verkir í dag en í gær. Ógleði og önnur vanlíðan búin að gera vart við sig. Trúlega enn önnur pestarskömmin. Verkirnir minna vel á sig. Gleymdi verkjalyfjum í morgun og hélt ég ætlaði aldrei að komast heim, gat ekki staðið eða setið eftir vinnu. Tók óratíma að ná fram verkjastillingu. Ekki það að ég sé að bryðja sterk verkjalyf en þarf engu að síður enn að japla á þeim til að komast í gegnum daginn.
Enn annar dagurinn liðinn án þess að ég hafi náð mínum markmiðum. Tafirnar vegna tölvunnar enn að pirra mig, sé ekki fram á að geta náð í skottið á mér fyrr en um helgina. En það skal hafast, ekkert me he með það.
"Á ekkert líf", eins og krakkarnir orða það. Lífið snýst eingöngu um vinnuna þessa dagana og vikurnar.Hef skriðið upp í sófa síðustu 2 dagana að lokinni vinnu og veit að ég verð að hugsa málin upp á nýtt og endurmeta fyrri ákvarðanir. Ekki það að ég hafi mikið val, geri það sem ég þarf að gera. Það tekur óratíma að vinna sig út úr afleiðingum veikindanna og makamissirs, ef það tekst þá nokkurn tíman. Mér finnst ég stundum alveg vera að gefast upp.
Er reyndar dálítið svartsýn þessa dagana. Fékk svo tölvupóst frá einni ótrúlegri manneskju sem er bæði með fæturnar niðri á jörðinni og skilur bæði mig og það ferli sem ég hef gengið í gegnum ótrúlega vel. Við þekkjumst ekki persónulega en hún virðist lesa hug minn. Ótrúlega næm og vel gerð manneskja með hjartað og skynsemina á réttum stað. Mér finnst ég lánsöm að hafa fengið að kynnast henni en hún er enn einn baráttujaxlinn.
Ætlaði bara rétt að melda mig inn, var að hætta í verkefnayfirferð. Hlakka ótrúlega til helgarinnar. Fátt að frétta af niðurstöðum ennþá, kom mér ekki í lungnamynd fyrr en í morgun og eitthvað smotterí eftir en málin skýrast væntanlega eftir helgi.
Geymi það að tjá mig um OR hneykslið. Sýnist þó sjálfstæðismenn ætli að hengja bakara fyrir smið, enn og aftur. Forstjórinn auðvitað gráðugur en starfar og tekur ákvarðanir undir stjórn stjórnar OR. Málið þvílíkur skandall, ekki hægt segja annað. En nóg um það að sinni. Hausinn uppfullur af hugsunum um spillta stjórnsýslu og þá ekki einungis í Reykjavíkinni.
Nú er það koddinn! Hætt að væla!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 22:53
Þar kom að því
Búin að ganga á allar varabirgðir og "puncteruð" í kvöld. Skreið heim eftir langan dag og orkaði ekki meir. Skreið upp í sófa og man ekki meir fyrr en tíkin mín hún Díana ætlaði mig lifandi að drepa með gelt um kl.22.00. Einhver að banka niðri og þegar ég loksins skreið niður til að fara til dyra, var sá hinn sami á bak og burt, örugglega fyrir löngu síðan enda var ég lengi að velta mér niður stigann.
Ég verð einfaldlega að viðurkenna það að þrekið er ekki að fullu komið og álagið of mikið. Síðasta helgi tók sinn toll enda gekk mikið á. Hrikaleg mistök sem ég þurfti að leiðrétta fyrir mánudaginn, hvað sem tautaði og raulaði. Veit ekki hvenær þau mistök urðu né hverjum var að "kenna" enda skiptir það ekki öllu máli heldur það eitt að þau voru leiðrétt. Allur laugardagur og sunnudagur fram á kvöld fóru í að endurskipuleggja og leiðrétta mistökin.
Álagið hefur margfaldast við það að missa tölvuna og öll gögnin. Það að þurfa að byrja upp á nýtt á öllu því sem ég er búin að gera og það í stresskasti sökum tímaskorts hefur einfaldlega verið of mikið. Ég rétt næ í skottið á mér á sunnudegi eftir vinnuvikuna og þá með því að sitja alla helgina og vinna upp verkefnin. Viðbót við þá vinnu er einfaldega of mikið.
Þetta er fyrsti dagurinn síðan ég byrjaði að kenna í haust sem ég hef ekki farið beint í tölvunna þegar heim er komið og hamast í verkefnavinnu og yfirferð. Það verður bara að vera svo í þetta sinn. Ég ætla nefnilega, aldrei slíku vant, að hlusta á skrokkinn og staldra við í kvöld. Enda búin að sofa hvort eð er lungan af kvöldinu.
Búin að vera býsna verkjuð og vel fundið fyrir þrekleysi að undanförnu, tek það sem merki um of mikið álag og þarf því aðeins að draga úr fartinni. Veit að mínir nemendur sýna því skiling. Extra mikið að gera í kennslunni vegna vinnustaðanáms og ég ein að halda utan um allt. Sé það nú að það hefði verið skynsamlegra að eftirláta einhverjum öðrum hluta af pakkanum. Er maður ekki alltaf að læra af mistökunum?
Miðannarfríið verður kærkomin hvíld, get ekki beðið eftir því að hitta krakkana. Dreymir reyndar um það eitt þessa dagana að búa úti á Spáni eða Kanaríeyjum í sól og hita og umfram allt: afslappelsi og að sinna einhverri vinnu í rólegu umhverfi. Geri það þegar ég verð rík, ætti kannski að kaupa mér hlut í REI og verða milljarðamæringur en fæ örugglega ekki tækifæri til þess.
En í öllu falli, nú verður farið að sofa fyrir miðnættið til tilbreytingar. Ætti að verða hressari á morgun og geta tekið á því þá til að bæta um sinnuleysið í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 00:12
Óheillastjarnan enn
Mér sýnist þessi blessaða óheillstjarna sem hefur fylgt mér æði lengi, enn dansa yfir hausamótum mér. Vinnutölvan með ÖLLUM kennslugögnum og verkefnum hrundi í síðustu viku sem þýðir það einfaldlega að ég verð, takk fyrir að vinna þá vinnu upp á nýtt. Ég, þessi líka kjáni, var ekki með "back up" á neinum gögnum. Þvílíkur klaufi sem ég get verið. Mátti ekki við þessu, rétt næ í skottið á mér um helgar og stendur þá eigin námsvinna út af borðum. Úffff Tölvuskömmin er í sjúkdómsgreiningu þannig að enn er óljóst með framtíð hennar og gagna minna.
Ekki það að þessi uppákoma á ekki að koma mér á óvart, þetta er svona "týpísk ég". Fátt gengur smurt og snuðrulaust hjá mér. Ég gæti skrifað heila ritgerð um óheppni mína í gegnum tíðina og margt ansi kyndugt, annað sorglegra. Móðir mín heitin lofaði mér því að lífið yrði gott eftir fimmtugt, nú gengur það vonandi eftir
Ekki það að þetta er auðvitað hálf hlægilegt, get ekki annað sagt. Búin að sitja eins og rjúpan við staurinn með sárt ennið og hamra á jálkinum mínum. Hef ekki einu sinni haft tíma til að athuga með nýja tölvu. Það er aldeilis að ég tel mig ómissandi og fullkomnunaráráttan að gera út við mig
Ég hlýt að snúa ofan af mér í Budapest, svei mér ef ég fer ekki að ráðum Gíslínu og kíki í Spa, aldrei prófað það áður! Hef í raun aldrei leyft mér neitt dekur, annað gengið fyrir.
Nú er það koddinn, upp kl.06 og langur dagur fram undan. Vikan verður strembin þannig að ég er þegar farin að hlakka til helgarinnar Ársgömul þvottvélin mín bilaði í dag, svona til að kæta mig aðeins meira, nú vantar karlmann að heimilið! Ótrúlegt hvað maður getur verið ósjálfbjarga þegar kemur að vðgerðum, viðhaldi o.þ.h. Ég held reyndar að ég eigi rétt á einhverri þjónustu vegna vélarinnar þar sem hún er í ábyrgð. Það verður að bíða fram eftir vikunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.10.2007 | 23:45
Viðbrögð við greiningu
Mér hefur oft verið hugsað til þeirra viðbragða sem fólk sýnir þegar það greinist með alvarlega sjúkdóma. Hef pælt lengi í þessum málum í mínu starfi og í seinni tíð sem sá sem upplifir slíkt áfall. Menn bregðast auðvitað misjafnlega við en flestir sýna þó ákveðin merki og sama ferlið. Það er eitt að hafa þekkingun á því ferli sem fer af stað við slík áföll og annað að upplifa það sjálfur.
Að greinast með krabbamein eða aðra alvarlega sjúkdóma er ekki einhver einn stakur viðburður í lífi manns sem líður hjá án þess að hafa áhrif. Að öllu jöfnu er greiningin upphafið af löngu og sársaukafullt ferli sem hefur ekki einungis áhrif á þann sem veikur er heldur og alla sem standa honum nærri.
Í upphafi verður einstaklingurinn fyrir áfalli og eins konar lostástand kemur upp. Margir upplifa doðatilfinningu, missa hæfnina til að heyra og skilja samhengi og allt rennur út í eitt. Útilokað að meðtaka allt upplýsingaflæðið sem dynur á þeim. Sumir fyllast vantrú, örvæntingu eða heiftarlegri reiði en jafnvel um leið tómleikatilfinningu og þunglyndi. Í kjölfarið koma gjarnan tilfinningar eins og kvíði og eirðarleysi þannig að viðkomandi eirir ekki við neitt. Líkamleg einkenni geta komið fram eins og hraður hjartsláttur, ógleði og jafvel uppköst. Þetta ástand varir mislengi, allt frá nokkrum sekúndum og upp í klukkustundir. Sumir segjast reyndar ekki upplifa þessa líðan og er það auðvitað einstaklingsbundið.
Næsta skrefið einkennist af miklum tilfinningasveiflum og hinum ýmsum líkamlegu einkennum, það hálfa væri nóg. Það er öll flóran. Upp eru komnar nýjar aðstæður í lífi viðkomandi sem ógna allri tilverunni og öryggistilfinningu, það er ekki hægt að treysta á neitt. Oft á tíðum er sú tilfinning erfiðari en að takast á við sjúkdóminn. Áhyggjurnar af því sem koma skal og er framundan blossa upp, rannsóknirnar, niðurstöðurnar og meðferðin. Viðkomandi kvíðir fyrir verkjum og vanlíðan og óttast hið óþekkta og ekki síst dauðan. Fæstir eru tilbúnir að horfast í augu við hann. Nagandi óvissa um afdrif fjölskyldunnar, ekki síst barnanna, um fjárhagsleg áhrif og erfiðleika ætlar viðkomandi lifandi að éta.
Sumir ná ekki að meðtaka allan pakkan strax og grípa til afneitunar til að verjast sársaukanum. Reiði og sektarkennd koma þarna einnig til sögunnar og reynt er að finna blóraböggul. Þunglyndi er síðan skammt undan sem getur einkennst af söknuði, einsemd og vonleysi. Allt er grátt og engin gleði í lífinu og getur ástandið verið það svart að sjálfsvígshugsanir dúki upp hér. Hughreystandi orð og klapp á öxlina dugar skammt hér. Líkamlegu einkennin magnast; hjartsláttarköstin, herpingurinn í brjóstinu og maganum hausverkurinn, munnþurrkurinn, sviminn, þróttleysið, síðþreytan og nefndu það. Svona getur þetta gengið vikum og mánuðum saman. Einkennin og líðanin versna auðvitað ef fleiri áhyggjur bætast við, það gefur auga leið.
Þetta ástand lýkur þó sem betur fer og tekur enduruppbyggingi síðan við. Loksins. Viðkomandi tekur á þeim málum sem hann var allsendis ófær um áður og leitast við að koma á jafnvægi í sínu lífi á nýju. Meðferðinni trúlega lokið þegar hér kemur við sögu og jafnvel bjart framundan. En þá gerist það óvænta; depurðin getur helst yfir viðkomandi að nýju, akkúrat þegar allir ganga að því vísu að nú sé allt í lagi. Depurðin kemur því öllum í opna skjöldu enda virðist hún gjörsamlega vera í bullandi mótsögn við gang mála og staðreyndir. En viðkomandi upplifir það sterkt og veit að ekkert verður eins og áður. Það hefur allt breyst og lífið hefur tekið kúvendingu.
Þetta tímabil einkennist af óeðlilegri þreytu sem er í raun andleg þreyta eftir öll átökin og ósköpin síðustu vikur og mánuði. Það skilja hins vegar fæstir, hvorki sjúklingurinn sjálfur né aðstandendur. Viðkomandi þorir ekki að trúa á batan enda líkamleg einkenni svo sannarlega til staðar og menn túlka þau að sjálfsögðu á versta veg. Þó meinið sé farið, standa fyrri heilsufarsvandar nefnilega eftir. Andlegri þreytu fylgja svo líkaleg einkenni sem birtast í ýmsum myndum.
Hringnum er síðan lokað með síðasta stiginu í þessu ferli þegar nýtt jafnvæfi hefur myndast. Mannskepnan leitast nefnilega alltaf við að ná aftur jafnvægi þegar því hefur verið raskað. Þeir sem sleppa í gegn telja sig þroskaðri og reynslunni ríkari, sjónarhornið og viðhorf til lífsins hafa gjörbreyst. Væntingar, forgangsröðun og áherslur verðar aðrar og ekki síst; lífsviljinn er sterkari en nokkurn tíman fyrr. Sumir kúvenda lífi sínu og taka upp breytta siði, aðrir láta gamla drauma rætast o.s.frv.
En órtinn hverfur hins vegar ekki og viðkomandi upplifir trúlega alltaf ákveðið óöryggi. Hann er alltaf á vaktinni, viðbúinn því versta. Hann hefur breyst og verður aldrei eins og áður. Getur sú breyting verið neikvæð en sem betur fer oftast jákvæð.
.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.9.2007 | 16:08
"Puncteruð"
Ein búin á því eftir vikuna, svaf fram að hádegi og hef nákvæmlega ekkert þrek. Er aðeins að skríða saman og byrjuð að taka mig saman í andlitinu. Næsta skref er að koma mér út í búð og síðan er það göngutrúr með hundana. Mín bíður töluverð vinna í sem ég þarf að ljúka í dag og síðan er það undirbúningur fyrir næstu viku. Verð að fara yfir eigin verkferla, er of lengi með verkefnin mín hverju sinni. Allt of lengi.
Katan heldur að hressast af Salmonellunni, þvílíkt og annað eins að lenda í slíku, ekki síst þar sem heilbrigðisþjónustan er ekki sjálfgefin. Stelpan allt of lík mömmu sinni, ég hef aldrei sloppið við heiftarlegar sýkingar þegar ég fer út fyrir landssteinana. Verst að hún skuli fá þessi "veikleikagen" frá mér, hefði viljað sjá hana fá eingöngu það sem er gott og nýtilegt. En hún stendur sig eins og hetja.
Er ákveðin í að skreppa til krakkana í miðannarfríinu í október, löng helgi þá og beint flug til Búdapest. Þá fer minni tími í tengiflug og ferðalög. Hlakka mikið til, er eiginlega kolfallin fyrir Debrecen af því sem ég hef séð á myndum og heyrt.
Úff, ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og koma sér af stað. Hressist trúlega þegar líður á daginn, skv. fyrri reynslu. Nenni ekki að vera svona og tími ekki að eyða tímanum í sófanum. Hef lítið annað getað gert í dag en dagurinn ekki búinn. Nú verður tekið á því
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2007 | 23:52
Hegðun manna
Hegðun manna getur verið margvísleg og stundum óskiljanleg. Ég hef að undanförnu orðið vitni af svolítið sérstakri hegðun sem varð til þes að ég velti vöngum yfir því hvað bjáti á hjá einstaklingum sem leggja það á sig að reyna að finna öðrum allt til foráttu. Sumir eru þeim ósköpum gæddir að leggja allt í sölurnar til að hrinda "andstæðingi" sínum úr vegi. Á ég þá við þá sem helga sig að því að finna veikleika hjá nánunganum með því að fylgjast svo grannt með honum að hann andi ofan í hálsmálið hjá honum. Allt er túlkað á versta veg og kapp lagt á að leggja gildrur fyrir "andstæðinginn" í þeirri von að hann hrasi og misstígi sig einhvern tíman. Nú, ef ekkert finnst bitastætt sem nota má til að koma höggi á "andstæðinginn" þá verður einfaldlega að búa eitthvað til.
Það hlýtur að taka ómælda orku hjá þeim sem stunda slíkt athæfi, lífið getur vart snúist um annað, svo mikið er álagið og eftirlitið. Sá hinn sami hlýtur að leggjast örmagna til hvílu að kveldi og vakna jafnvel þreyttari að morgni enda stoppar undirmeðvitundin varla í svefninum sem verður annars í grynnri kantinum. Það má ekki slaka á í uppfinningum og hugmyndaauðgi.
Oft hef ég verið miður mín út af slíkum einstaklingum en í "nýja" lífinu kýs ég að hafa ríka samúð með slíkum einstaklingum sem hljóta að þjást af mikilli vanlíðan ásamt tilheyrandi kvillum sem fylgja. Sá hinn samir hlýtur að líða illa, stöðugt heltekin af neikvæðum hugsunum og trúlega í vörn gagnvart öllum enda heldur margur mig sig. Í stað þess að ergja mig á slíkum einstaklingum, kýs ég að senda þeim hlýja strauma, ekki veitir af enda oft um þá að ræða sem hafa þörf fyrir að mála yfir eitthvað hjá sjálfum sér eða láta beita sér fyrir aðra.
Lífið er of stutt til að eyða tíma í neikvæðar hugsanir og athafnir. Við eigum að njóta þess, hafa gaman af því sem við erum að kljást við hverju sinni og sleppa því sem er neikvætt og leiðinlegt þegar við höfum val.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2007 | 00:22
Það hafðist
Náði loksins í skottið á mér, rétt í þessu þannig að vinnuálagið ætti að vera komið á rétt ról. Hefði seint trúað því hvað ég er lítill bógur þegar kemur að úthaldinu. Síðasta helgi fór algjörlega með mig og er í raun ekki búin að ná mér eftir hana. Fékk ég samt gríðalega aðstoð og hjálp, annars hefðu hlutirnir aldrei klárast.
Svo virðist sem ég þurfi að haga mér eins og einhver postulínsdúkka upp í glerskáp til að vera þokkalega verkjastillt. Það hugnast mér afskaplega illa. Ekki það að álagið var svo sem óhóflegt alla síðustu viku en mér gremst hversu lítið ég þoli og hve lengi ég virðist vera að jafna mig eftir álagspunkta. Urrrrrrrrrrr
Út af fyrir sig ætti ég alls ekki að kvarta, ég er orðin vinnufær á ný og það eru FORRÉTTINDI eins og ég hef áður sagt. Það eru ekki allir svo heppnir. Ég hef hins vegar alls ekki sama starfsþrekið og áður. Kannski vegna þess að ég er einungis með annað lungað, örugglega hefur það eitthvað að segja, a.m.k. ennþá þar sem ég hef einfaldlega ekki verið nógu dugleg að þjálfa mig upp. Göngutúrarnir með hundana eru góðir og mér lífsnauðsynlegir en þeir eru ekki nóg. Ég verð að vera duglegri í endurhæfingunni.
Veikindin sem slík tóku gríðalegan toll af heilsufarinu og ég búin að vera lengi veik áður en ég greindist. Var komin með þol gagnvart verkjum og eilífum sýkingum. Maður bölvaði í hljóði og lét sig hafa það að mæta í vinnu, hvernig sem líðanin var og gekk náttúrlega enn frekar á allar orkubirgðir og þrek með því að marg nýta á neyðarrafhlöðurnar. Þau skipti sem ég fór til læknis var slitgigt kennt um verki og vanlíðan þannig að það var svo sem ekkert annað að gera í stöðunni en að reyna að lifa með verkjunum. Ég sé það betur eftir á hversu mikil heimska þetta var og ætla mér ekki að detta í sama pyttinn aftur. Verð að taka "nótis" af þessum staðreyndum í óþolinmæði minni.
Kosturinn við veikindin felst í reynslunni sem er dýrmæt i leik og starfi. Það sem ekki er síður mikilvæg og jákvæð reynsla er sú staðreynd að nú kann ég að meta lífið betur en áður. Hver dagur hefur meiri þýðingu en áður því lífið er ekkert sjálfgefið. Því á maður að njóta þess og það hef ég loksins lært. Það er ekki þar með sagt að það sé auðvelt að skipta um gír og kúvenda stefnunni. Satt best að segja tekur það á og skiptir þá engu máli þó maður geri sér grein fyrir því að sú kúvending er bæði rétt og nauðsynleg. Ég er ekki frá því að aðlögunarhæfnin gagnvart breytingum minnki með aldrinum eins og reyndar fræðin halda fram, jafnvel þó breytingarnar séu jákvæðar.
Öll höfum við þær þarfir að ná framgangi í starfi og ná fram markmiðum okkar. Við þurfum flest að tilheyra einhverjum og gegna ákveðnum hlutverkum í lífinu. Ræturnar þurfa að liggja einhvers staðar og við þurfum að vera örugg í því umhverfi sem við lifum í. Á mínum aldri eru flestir búnir að ná flestum sínum markmiðum og uppfylla þessar þarfir. Reglulega kemur þó upp þörf fyrir breytingar sem við tökum oftast fagnandi. Ég upplifi mig ennþá bremsunni á grænu ljósi á krossgötunum, er ekki búin að finna mig í breyttu hlutverki sem ég er ekki alveg búin að skilgreina. Ég veit ekki alveg hvert ég vil stefna og hverju ég vil tilheyra. Kaflaskilin augljós og ég fagna þeim. Margt varð að breytast.
Er ekki frá því að haustinu fylgi svolítið þungar hugsanir og söknuðurinn magnist. Þau er haustið minn uppáhalds tími. Sorgin gerir eiginlega meira vart við sig og spurningarnar sem eru óteljandi vakna á ný, sumar kröftugri en fyrr. Þó veit ég vel að sum svörin fæ ég aldrei. Síðasta helgi og vikan þar á eftir reif svolítið upp þessar tilfinningar og erfiða reynslu síðustu ára. Algjörlega eðlilegt ferli en kemur mér alltaf jafnmikið á óvart.
En áfram held ég auðvitað. Ekkert annað að gera og fagna því að fá tækifæri til að leggja áherslu á aðra þætti en ég hef gert síðustu árin. Það breytir því ekki að breytingar taka á Þoli ekki að safna verkefnum og þurfa stöðugt að vinna upp á mettíma. Finnst það langt frá því að vera eftirsóknarvert að eyða 2/3 af sólahringnum í vinnu og því verður það eitt það fyrsta sem tekur breytingu. Tímastjórnun, forgangsröðun og val á verkefnum verða endurskoðuð. Hef ótrúlega gaman að vinna en dett alltaf í þá gryfju að taka of mikið að mér. Framkvæmi þá hlutina undir allt of miklu álagi og etv. ekki eins vel og ég vildi. Smátt og smátt hlýt ég að ramba inn á hlutverk mitt, staðsetningu og framtíðarmarkmiðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)